Óli Á. Vilhjálmsson
Óli Árni Vilhjálmsson, frá Burstafelli í Vestmannaeyjum fæddist 18. október 1941 og lést 24. desember 2021. Foreldrar hans voru Vilhjálmur Árnason frá Burstafelli (1921-1993) og María Gísladóttir
(1923-2016). Óli Árni var elstur fimm barna Vilhjálms og Maríu á Burstafelli. Óli Árni lauk gagnfræðaprófi í Eyjum 1957 og lauk síðar sjúkraliðanámi og var sjúkraliði bæði í Noregi og á Íslandi. Óli Árni var í hópi sem gekk til liðs við Taflfélag Vestmannaeyja strax eftir endurreisn þess haustið 1957, en þá var starfsemi félagsins á Breiðabliki. Óli Árni var mjög virkur í starfsemi Taflfélagsins og var formaður félagsins frá 1965-1967, en þá hafði starfsemin flutt frá Breiðabliki og var komin í Gefjun við Strandveg og síðar á 2. hæð í Drífanda við Bárustíg. Eftir að Óli Árni flutti frá Eyjum nokkru eftir gos bjó hann um tíma í Noregi. Hann tefldi sem félagsmaður í TV löngu eftir að hann flutti frá Eyjum með sveitum TV á Íslandsmótum skákfélaga, síðast árið 2018. Óli Árni var tvígiftur. Fyrri eiginkona hans var Jenny Joensen, frá Færeyjum og eignuðust þau þrjú börn. Bjuggu í Eyjum og Noregi. Seinni eiginkona hans var Ólafía Skarphéðinsdóttir og voru þau búsett á Selfossi.