Kári Sólmundarson

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Kári Sólmundarson fæddist í Borgarnesi 4. apríl 1926. Foreldrar hans voru hjónin Sólmundur Sigurðsson bókhaldari þar og síðar bóndi í Ölfusi, f. 2. júlí 1899, d. 1985, og Steinunn Magnúsdóttir, f. 19. september 1902, d. 1991.

Kári lærði klæðskeraiðn á árunum 1941-1945 og stundaði það starf til 1966, hjá Kaupfélagi Borgfirðinga 1951-1952 en lengst hjá Andrési Andréssyni klæðskerameistara í Reykjavík. Síðan stundaði hann sjó, oftast sem matsveinn á fiskiskipum, fyrst frá Reykjavík en síðar frá Vestmannaeyjum þar sem hann bjó um nokkurra ára skeið. Eftir að hann kom í land vann hann í byggingarvöruverslun en hætti störfum sextíu og sjö ára.

Hann kvæntist 15. maí 1948 Ingibjörgu Gunnlaugsdóttur, f. 12. október 1925. Foreldrar hennar voru hjónin Gunnlaugur Bjarnason og Guðríður Sigurgeirsdóttir frá Ólafsvík. Börn Kára og Ingibjargar eru: Steinunn, f. 23. janúar 1948, Gunnlaugur Reynir, f. 25. september 1949, og Guðríður Erla, f. 14. maí 1959.

Kári var einn af fremstu íþróttamönnum þjóðarinnar á gullaldartímabili frjálsíþróttanna um miðja síðustu öld. Hann var mjög fjölhæfur íþróttamaður en þrístökk varð hans aðalgrein og hann var annar af tveimur sem kepptu fyrir Ísland í þeirri grein í þriggja landa keppninni frægu sumarið 1951 þegar landslið Íslands, með íþróttagarpa eins og Clausenbræður, Gunnar Huseby, Torfa Bryngeirsson og Hörð Haraldsson, bar sigurorð af bæði Dönum og Norðmönnum í Oslo. Kári átti góðan þátt í þessum sigri með því að ná öðru sæti af sex í þrístökkinu eftir harða baráttu við fræknustu þrístökkvara þessara þjóða. Hann setti persónulegt met í keppninni, stökk vel á fimmtánda metra sem þótti afburðagott á þessum árum þegar markviss íþróttaþjálfun eins og nú tíðkast var ekki komin til. Þess er að geta að sama kvöld og mótinu í Oslo lauk háðu Íslendingar og Svíar landsleik í knattspyrnu á Melavellinum í Reykjavík sem lauk með sigri Íslands. Sumarið 2001 á hálfrar afmæli þessara atburða var efnt til hófs á Hótel Sögu til þess að minnast þeirra. Þessi dagur sumarið 1951 var stór í íþróttasögu þjóðarinnar.

Kári var einnig einn af fremstu skákmeisturum þjóðarinnar um árabil. Hann tefldi í landsliðsflokki með góðum árangri mörg ár í röð á síðari hluta sjötta áratugarins og var valinn til að keppa í landsliðinu fyrir Íslands hönd á Ólympíumótinu í Leipzig 1960. Til dæmis um það hve harður í horn að taka Kári var á þessum árum má nefna að í landsliðskeppninni 1956 vann hann skák sína við Baldur Möller sem þá var margfaldur Íslandsmeistari og tvöfaldur Norðurlandameistari. Kári keppir enn í skák með góðum árangri og alltaf fjölgar verðlaunagripunum á hillunni í stofu hans.

Kári bjó í Vestmannaeyjum um árabil og er félagi í Taflfélagi Vestmannaeyja. Hann varð alls níu sinnum Skákmeistari Vestmannaeyja á árunum 1975-1985. Hann tefldi lengi fyrir félagið eftir að hann fluttist upp á land, síðast 2010.


Heimildir