Blik 1980/Ágrip af sögu landbúnaðar í Vestmannaeyjum, V. hluti
Eins og ég hefi drepið á hér í máli mínu, þá stofnuðu Eyjamenn
nautgripaábyrgðarfélag árið 1893. Þetta merka framtak þeirra var vissulega gjört af gildum ástæðum. Um lengri tíma hafði það verið árlegt fyrirbrigði i byggðarlaginu, að kýr drápust skyndilega á básum sínum. Litlar sögur fara af þessu fyrirbrigði, því að fátt var um það skrifað. Það er fyrst árið 1919 að kúadauðans í Eyjum er getið í blaðagrein, að ég bezt veit. Í þá grein hlýt ég að vitna hér. Hún birtist í Skeggja í maímánuði 1919. Höfundur hennar var ritstjóri blaðsins, Páll Bjarnason frá Götu í Stokkseyrarhreppi, síðar skólastjóri, svo og gjaldkeri Búnaðarfélags Vestmannaeyja. Þar segir hann um kúadauðann í Vestmannaeyjum:
„Undarleg plága er kúadauðinn hér í Vestmannaeyjum. Einn bóndi missti á dögunum kú, sem virtist vera alheilbrigð örstuttri stundu áður en komið var að henni steindauðri á básnum. Það er fimmta kýrin, sem hann missir á sex árum. Aðra kú missti hann í fyrra á sama hátt og þessa. Urðu báðar bráðkvaddar á básnum. Engin sjúkleikamerki sáust á innyflunum á seinni kúnni, enda hafði ekki borið á neinni vesöld í henni.
Fleiri hafa orðið fyrir þungum búsifjum af völdum kúafársins, þó að enginn hafi orðið eins hart úti og þessi bóndi. - Annar maður missti unga kú, bezta grip, fyrir fáum dögum, og sá ekkert á henni áður... Alls munu hafa farið 5-6 kýr þannig á árinu. Það er ekki smáræðisskattur á fáum eigendum, þó að ábyrgðarfélagið bæti þær að nokkru leyti.
Undanfarna daga er mjög kvartað undan veikindum í kúm. Það er slagaveiki. Margar kýr hér eru nytjalausar af þeirri ástæðu....Kúafárið bitnar í raun og veru mest á smábörnum, sem mjólkina missa.
Merkilegt er það, að kjötið af sjálfdauðum kúm er hiklaust notað til manneldis, og hefur reynzt óskaðlegt. Það er því ekki um neytt eiturfár að ræða.
Kúadauðin fer í vöxt, hver ástæðan, sem til þess er. Ekki væri viðlit fyrir fátæka að eiga hér kú, ef ekki væri ábyrgðarfélagið fyrir nautgripi, sem bætir skaðann eftir megni....En þó gott sé að fá skaðann bættan að nokkru, þá væri þó meira vert að geta grafið fyrir rætur meinsins að fullu...Nauðsyn ber til að leita einhverra ráða til að afstýra óhöppunum, ef þau ráð eru einhver til.
Kúafækkunin og áhættan við kúahaldið heldur mjólkurverðinu háu. Mjólkin hækkar því meira í verði eins og aðrar vörur, því meiri sem vandkvæðin eru á að framleiða hana. - Ekki er þess getið, að mjólkin úr veiku kúnum hafi reynzt neitt skaðleg; það er margreynt, að fólki verður ekki meint við að nota hana, þó að hún sé úr kúm, sem komnar eru að bana.“ - Þetta skrifaði ritstjórinn.
Í júnímánuði 1919 flutti Skeggi þessa frétt: „Tvær kýr drápust á sama sólarhringnum í vikunni.....Eru nú dauðar sjö kýr á rúmum mánuði. Annar bóndinn, sem nú missti kú sína, missti aðra kú í haust og nú á hann enga eftir.“
Var nú skorað á hina nýkjörnu bæjarstjórn Vestmannaeyjakaupstaðar að láta mál þetta til sín taka, þar sem ekkert var þá búnaðarfélag í kaupstaðnum til þess að knýja á um rannsókn á þessu geigvænlega fyrirbrigði, kúadauðanum.
Síðari hluta júnímánaðar þ.á. dvaldist síðan Magnús dýralæknir Einarsson í Eyjum og reyndi að gera sér grein fyrir orsök kúadauðans. Kvaðst hann ekki finna neinar áreiðanlegar orsakir, en þótti líklegt að viss tegund af flugum ylli fárinu, en vildi þó ekki fullyrða, að svo væri. Það kvað vera algengt í nágrannalöndunum, að eiturflugur valdi bráðadauða í kúm....Dýralæknirinn hefur safnað flugum og ætlar að láta rannsaka þær. - Þannig segir Skeggi frá gjörðum dýralæknisins í Eyjum. - Og ekki varð almenningi í kaupstaðnum kunnugt um nokkurn árangur af ferð hans til Eyja. Kúafárið hélt þar áfram að valda skaða. Sú staðreynd dró mjög úr mjólkurframleiðslunni í kaupstaðnum.
Koma dýralæknisins til Eyja og hugmynd hans um hið skaðlega flugnabit þar vakti umtal í bænum, beiskju sumra og bros annarra.
Í marzmánuði 1920 birti Skeggi grein um dýravernd. Þetta var ádeilugrein og fjallaði um meðferð Eyjamanna á húsdýrum sínum og þá ekki sízt kúnum. Enginn varð til að svara grein þessari og verðum við því að álykta, að Eyjafólk hafi fundið þar sannan brodd, sem enginn vildi takast á við af þeim gildu ástæðum. Í grein þessari segir svo:
„....Mér virðist kýrnar miklu óásjálegri hér en flestar sveitakýr, sem ég hefi séð, og eftir því er nytin í þeim mörgum hverjum, um sumartímann að minnsta kosti. Og hví skyldi það ekki vera svo.? Þær verða að reika hér vorlangan daginn um graslausa móana, þaulnagaða eftir fé og hross. Hvar sem þær fara, er grimmum og óvöndum hundum að mæta, glefsandi vörgum, og oft ganga þær blóðrisa undan þeim. Þær gerast órólegar, þegar hvergi finnst haglendi né friðland og slangra þá niður á götu, stundum til að leita sér vatns til að svala þorstanum eftir langan sólskinsdag. Það mun nefnilega brenna við, að þeim er ekki æfinlega vatnað heima á sumardaginn. - Og hvað finna þær? Græna fýlupolla, sem safnast saman í skúmaskotum bæjarins, og annað óþverragrugg, stundum það, sem hellt er út úr húsum; það hef ég séð oftar en einu sinni. Þess á milli snuðra þær í sorphaugum og meðfram görðum, og það grunar mig, að í þeim leitum fái þær ýmsan þann „fóðurbæti“, t.d. gamla öngla og vírbúta, sem síðar finnast í innýflum þeirra á banadægri. Gæti ekki þarna legið ein ástæða til hins mikla kúadauða, sem hér liggur í landi? Kýr geta drepizt af fleiru en flugnabiti.
Það er fyrir löngu kominn tími til að bæta eitthvað um líðan kúnna á sumrin. Drepist eins margar kýr næsta sumar eins og sl. sumar, þá verður hér mjólkurlaus bær næsta vetur, og allir vita, hversu þægilegt það er, ekki sízt þegar sóttir ganga. Ráð mundi það vera að koma upp sameiginlegu kúagerði fyrir bæinn, áður en öll lönd eru tekin undir tún og fiskreiti.....“
Höfundur þessara skrifa var Magnús J. Skaftfells frá Steinsmýri í Meðallandi, þá lögregluþjónn í Vestmannaeyjum, síðar bóndi að Bjarnastöðum á Álftanesi.
Í sömu grein ræðir höfundur um meðferð Eyjamanna á hrossum sínum. Um hestaeign Eyjabænda fer hann nokkrum orðum og fellir harðan dóm yfir meðferðinni á hrossunum, sem ganga hungruð og þyrst um bæinn, snuðrandi eftir fóðri og vatni, umhirðulaus og vesöl, svo að þjáningar þeirra leyna sér ekki, segir hann.
Eins og ég drap á, þá virðist þessum greinarhöfundi ekki hafa verið svarað. Við freistumst til að draga þá ályktun af því, að orð hans og aðfinnslur hafi verið sönn að einhverju eða miklu leiti, - verið orð að sönnu, sem enginn hefur treyst sér til að mótmæla. Og þó er það víst og satt, að þau hafa ekki verið réttlátur dómur yfir öllum kúaeigendum Eyjanna, og fjarri því. Mjög margir kúaeigendur í Eyjum fóru vel með gripi sína, höfðu skilning á þörfum þeirra og lífi og önnuðust þá af natni. Ekki eiga húsmæðurnar síður þessi orð mín en bændurnir. Það sá ég sjálfur og reyndi.
Friðrik Benónýsson. Árið 1902 flytjast frá Núpi undir Eyjafjöllum til Vestmannaeyja hjónin Friðrik Benónýsson og frú Oddný Benediktsdóttir. Brátt eftir flutninginn til Eyja snéri Friðrik Benónýsson sér að sjósókninni þar. Þegar svo vélbátaútvegurinn hófst í kauptúninu, eignaðist Friðrik brátt hlut í tveim vélbátum og var formaður á öðrum þeirra. Hann reyndist aflamaður mikill. En þótt náttúran sé lamin með lurk, þá leitar hún út um síðir, segir í þessari rímuðu fullyrðingu íslenzkunnar. Svo reyndist þetta hjá sjósóknaranum mikla, Friðrik Benónýssyni, formanni. Hann var sjálflærður dýralæknir og hafði mikinn hug á því starfi. Býsna oft átti það sér stað, að beðið var eftir því að Friðrik formaður kæmi að landi, svo að hægt yrði að fá hann strax af skipsfjöl til þess að sprauta kú við doða t.d., lina þjáningar og hindra hættu. Þessi líknarstörf taldi formaðurinn ekki eftir sér, hvernig sem ástatt var fyrir honum og hversu miklar eða brýnar annir aðrar steðjuðu að og kölluðu hann til skyldustarfa við útgerðina og fiskveiðarnar.
Þessar dýralækningar hans hjá Eyjafólki voru ómetanlegar og hann stundaði þær áratugum saman í byggðarlaginu.
En hinn snögga og tíða kúadauða í Eyjum réð hann ekki við. Til þess skorti hinn ólærða dýralækni Eyjamanna vísindalega þekkingu, var ályktað.
Í Eyjum voru árlega 20-30 fjárhundar, sem bændur og fleiri áttu þar. Flest árin reyndust 1-3 hundar með bandorma. Þetta kom í ljós, þegar Friðrik formaður og dýralæknir hafði gefið þeim inn „arekaduft“ að boði héraðslæknisins. Þetta starf innti Friðrik dýralæknir af hendi í Eyjum áratugum saman fyrir sýslumanninn og hreppstjórana til öryggis heilsu manna þar. En hinn snögga og tíða kúadauða í Eyjum réð hann ekki við, eins og ég hefi sagt.
Þorvaldur Egilsson. Árið 1937 starfaði að dýralækningum í Eyjum og rannsóknum á kúadauðanum þar Þorvaldur Egilsson. Hann réðist þangað að tilhlutan Búnaðarsambands Suðurlands.
Pétur Gunnarsson. Árið 1944 dvaldist í Eyjum Pétur Gunnarsson, landbúnaðarkandidat og fóðurfræðingur m.m. til þess að rannsaka hinn tíða kúadauða þar. Þekkingu sinni skyldi hann beina sérstaklega að rannsóknum á fóðri
kúnna. Ekki er mér kunnugt um árangur þeirra rannsókna. En víst er um það, að þeir atburðir gerðust framvegis, að kýr lágu dauðar á bás sínum, þegar að var komið.
Gunnar Hlíðar. Árið 1944 var lærður dýralæknir fenginn til að búsetja sig í Eyjum. Jafnframt var hann þar ráðinn heilbrigðisfulltrúi. Þessi maður var Gunnar Hlíðar dýralæknir Sigurðsson Hlíðars yfirdýralæknis.
Hann dvaldist við dýralækningar í Eyjum 8 ár og annaðist öll þau störf á því sviði, sem Friðrik heitinn Benónýsson hafði áður innt af hendi af stakri alúð, en hann féll frá árið 1943 hálfníræður að aldri.
Bjarni Bjarnason. Þegar Gunnar Hlíðar hvarf burt úr Eyjum, tók Bjarni Bjarnason, gamalkunnur Eyjabúi, til að reyna eftir megni að fylla skarð hans við dýralækningastarfið. Fór honum það þegar vel úr hendi, þó að ólærður væri á því sviði. Brátt sótti hann námskeið hjá dýralæknunum Jóni Pálssyni og Ásgeiri Einarssyni. Bjarni Bjarnason var síðan starfandi dýralæknir í Eyjum til ársins 1973 að eldgosið dundi yfir og allur búskapur Eyja fólks varð að engu.
Áður en lengra er haldið þykir mér við hæfi að birta hér nöfn þeirra manna sem völdust til forustu í ræktunar- og landbúnaðarmálum Eyjamanna í heild á árunum
1924-1973, eða 49 árin, sem Búnaðarfélag Vestmannaeyja var starfandi og mest framtak átti sér stað í ræktunar- og mjólkurframleiðslumálum Vestmannaeyinga.
Guðmundur Sigurðsson verkstjóri, Heiðardal (nr. 2) við Hásteinsveg, formaður Búnaðarfélags Vestmannaeyja 1924-1934; með stjórnandi 1935-1938 og 1943-1944.
Þorbjörn Guðjónsson, bóndi á Kirkjubæ, gjaldkeri Búnaðarfélagsins 1924-1935; formaður Búnaðarfélagsins 1935-1939.
Guðmundur Einarsson, útgerðarmaður, Viðey (nr. 30) við Vestmannabraut, formaður Búnaðarfélagsins 1939 til dánardægurs 1942.
Magnús Bergsson, bakarameistari, Tungu (nr. 4) við Heimagötu, í stjórn Búnaðarfélagsins frá
1939-1952, ýmist gjaldkeri, ritari eða varaformaður. Hann mun hafa gegnt formannsstarfi í félagsstjórninni á árunum 1942-1944.
Helgi Benediktsson, kaupm. og útgerðarm., formaður Búnaðarfélagsins á árunum 1944-1948.
Jón Guðjónsson, bóndi í Þórlaugargerði, formaður Búnaðarfélagsins 1948-1950. Annars sat hann í stjórn Búnaðarfélgsins frá 1947-1954.
Jón Magnússon, bóndi í Gerði, var kosinn í stjórn Búnaðarfélags Vestmannaeyja árið 1949. Árið eftir var hann kosinn formaður Búnaðarfélagsins. Þessi bóndi hélt síðan Búnaðarfélaginu við lýði í 23 ár eða til ársins 1973 að eldgosið dundi yfir og lagði landbúnað Eyjamanna í rúst. Jón bóndi Magnússon var því síðasti formaður Búnaðarfélags Vestmannaeyja. Síðustu árin fyrir gos var Jón bóndi einnig gjaldkeri Búnaðarfélagsins og verzlunarstjóri.
Guðjón Jónsson, bústjóri í Dölum, var kosinn í stjórn Búnaðarfélags Vestmannaeyja árið 1954 og tók þá við gjaldkera- og verzlunarstjórastarfi félagsins af Hannesi bónda Sigurðssyni, sem lét af því starfi á áttræðisaldri. Þessu trúnaðarstarfi gegndi bústjórinn síðan, meðan hann var bústjóri í Dölum eða til ársins 1963. Þá tók formaður Búnaðarfélagsins einnig á sínar herðar þessi trúnaðarstörf.
Trausti Indriðason, bóndi í Brekkuhúsi var ritari Búnaðarfélags Vestmannaeyja um nokkurt skeið, áður en hann flutti burt úr Eyjabyggð.
Páll Árnason, bóndi í Þórlaugargerði tók við ritarastörfum af Trausta Indriðasyni og hafði það starf á hendi í samstarfi við Jón Magnússon, þar til yfir lauk.
Páll Bjarnason, skólastjóri, var ritari Búnaðarfélagsins frá stofnun þess til ársins 1935. Þá var hann orðinn heilsutæpur maður og treysti sér ekki til að taka endurkjöri í stjórnina. Hann var þá kjörinn heiðursfélagi Búnaðarfélags Vestmannaeyja fyrir hin miklu störf sín í þágu félagsins, sem einn af aðalhvatamönnum að stofnun þess, stjórnarmaður þess fyrstu 11 starfsárin og trúnaðarmaður þess gagnvart Búnaðarfélagi Íslands og Búnaðarsambandi Suðurlands frá upphafi samstarfsins.
Þegar Búnaðarfélag Vestmannaeyja hafði starfað 10 ár, var starfsins minnzt á sérstökum fundi innan samtakanna. Þar flutti skólastjórinn, Páll Bjarnason, ræðu, sem vakti nokkra athygli. Ein af fullyrðingum skólastjórans í ræðunni var þessi: „Þá (þegar B.V. var stofnað) mátti sjá þörfina á aukinni ræktun hér í Eyjum og mjólkurframleiðslu á andlitum margra skólabarna“... Þessu veitti skólastjórinn athygli í barnaskóla kaupstaðarins, er hann íhugaði andlitsdrætti og yfirbragð hinna ungu nemenda sinna.
Séra Sigurjón Þ. Árnason, sóknarprestur að Ofanleiti, sat í stjórn Búnaðarfélagsins frá stofnun þess 1924 til ársins 1931.
Jón Gíslason, útvegsbóndi, Ármótum (nr. 14) við Skólaveg, skipaði sinn sess í stjórn Búnaðarfélagsins frá stofnun til ársins 1931.
Einar Sigurðsson, kaupmaður, Skólavegi 1, Vöruhúsinu, sat í stjórn Búnaðarfélagsins á árunum 1931-1940, ýmist ritari stjórnarinnar eða óbreyttur meðstjórnandi.
Hannes Sigurðsson, bóndi á Brimhólum, sat lengi í stjórn Búnaðarfélags Vestmannaeyja eða samfleytt í 19 ár (1935-1954). Flest árin var hann gjaldkeri Búnaðarfélagsins og öll árin verlunarstjóri þess, annaðist vörukaup þess og vörusölu og þótti þar jafnan réttur maður á réttum stað.
Páll Oddgeirsson, kaupmaður, Miðgarði við Vestmannabraut. Hann sat í stjórn Búnaðarfélagsins á árunum 1935-1938 og 1943-1945, og var þá lengi ritari stjórnarinnar. Hann var jarðræktarmaður mikill.
Ársæll Sveinsson, útgerðarmaður og kaupmaður, Fögrubrekku við Vestmannabraut. Hann sat í stjórn Búnaðarfélagsins samfleytt í 19 ár, ýmist varaformaður eða óbreyttur meðstjórnandi.
Þorsteinn Jónsson, skipstjóri, Laufási við Austurveg. Hann sat í stjórn Búnaðarfélagsins frá 1940-1945.
Georg Gíslason, kaupmaður. Hann var í stjórn Búnaðarfélagsins 1931-1936.
Ármann Guðmundsson frá Viðey við Vestmannabraut. Hann var kosinn í stjórn Búnaðarfélagsins árið eftir að faðir hans, Guðmundur Einarsson, form. félagsins, lézt. Hann sat í stjórninni árið 1943-1944.
Fleiri Vestmannaeyingar sátu í stjórn Búnaðarfélagsins um eins árs skeið, t.d. Sigfús Scheving, skipstjóri, 1943-1944; Erlendur Jónsson, bóndi, Ólafshúsum, árið 1953-1954, og Gunnar Hlíðar dýralæknir, árið 1951-1952.
Samkvæmt 6. grein. Jarðræktarlaganna frá árinu 1923 hafði Búnaðarfélag Íslands heimild til að ráða sér trúnaðarmann í hverjum hreppi eða kaupstað „til þess að hafa fyrir félagsins hönd umsjón og eftirlit með ræktunarfyrirtækjum, sem undir það falla í þeim hreppi,“ eins og það er orðað í nefndum lögum.
Þegar jarðbótamælingar hófust í Vestmannaeyjum á vegum Búnaðarfélags Vestmannaeyja, var Páll Bjarnason, skólastjóri, ráðinn til þessa verks. Hann mældi fyrst jarðbætur fyrir Búnaðarfélag Íslands haustið 1924.
Það voru jaðabætur, sem unnar höfðu verið árið 1923 og haustið 1924.
Næstu sjö árin hafði hann síðan þetta trúnaðarstarf á hendi. Þá tók heilsuleysi að þjá hann. Af þeim sökum mældi Helgi Benónýsson, búfræðingur, jarðabæturnar fyrir haustið 1932.
Ég sem þetta rita, mældi síðan fyrir skólastjórann allar jarðabætur Eyjamanna
haustin 1933 og 1934 og skráði þær.
Haustið 1935 tók ég síðan að mér að mæla og meta allar jarðabætur og aðrar búnaðarframkvæmdir í Eyjum fyrir Búnaðarfélag Íslands og Búnaðarsamband Suðurlands. Það trúnaðarstarf hafði ég á hendi fyrir búnaðarsamtök þessi næstu 14 árin eða til ársins 1948. Þá baðst ég lausnar frá þeim störfum. Seinasta árið voru jarðræktarmenn í byggðarlaginu aðeins 9 talsins.
Trúnaðarmannsstarfinu fylgdu margskonar fyrirgreiðslur, t.d. þegar búnaðaramböndin sendu Eyjamönnum fyrirlesara til að halda búnaðarnámskeið í kaupstaðnum, sem átti sér stað endur og eins. Um nokkra þeirra er getið hér að framan í þessum skrifum. Trúnaðarmaðurinn var einskonar tengiliður á milli Búnaðarfélags Íslands og Búnaðarsamband Vestmannaeyja hinsvegar.
Samvinna stjórnar Búnaðarfélags Vestmannaeyja við stjórnarmenn Búnaðarfélags
Íslands og Búnaðarsambands Suðurlands var alltaf hlýleg og ánægjuleg.
Þegar ég baðst undan trúnaðarstarfinu haustið 1948, tók við því Pétur bóndi Guðjónsson á Kirkjubæ og hafði það á hendi, þar til eldgosið á Heimaey dundi yfir.
Allar jarðbætur, hverju nafni sem nefndust, skráði trúnaðarmaður í tvíriti. Aðra nótuna fékk jarðræktarmaðurinn. Hún var viðurkenning fyrir jarðbótum sem hann hafði unnið. Síðan var unnin skýrsla yfir allar unnar jarðbætur samkvæmt gögnum þeim, sem trúnaðarmaðurinn hafði eftir í fórum sínum. Hann sendi hana síðan Búnaðarsamnbandi Íslands og Búnaðarsambandi Suðurlands.
Hinar ýmsu jarðræktarframkvæmdir voru á fyrstu árum eftir að jarðræktarlögin frægu gengu í gildi reiknaðar til dagsverka eftir föstum reglum. Ríkisstyrkurinn
var síðan greiddur jarðræktarmönnum samkvæmt þessum settu reglum.
Þessi greiðsla á ríkisstyrknum samkvæmt dagsverkatölu hvers og eins var í gildi til ársins 1935. Ég skrái hér dæmi um reglur þessar:
Þaksléttur ........................ 50 fermetrar jafngiltu 1 dagsverki.
Græðisléttur....................... 60 fermetrar jafngiltu 1 dagsverki.
Sáðsléttur .........................40 fermetrar jafngiltu 1 dagsverki.
Matjurtagarðar......................60 fermetrar jafngiltu 1 dagsverki.
Grjótgarðar einhlaðnir..............10 lengdametr. jafngiltu 1 dagsverki.
Grjótgarðar tvíhlaðnir...............4 lengdametr. jafngiltu 1 dagsverki.
Þurrheyshl. steyptar með járnþ.......0,5 rúmm. jafngiltu 1 dagsverki.
Votheyshl. ósteypar með járnþ....... 0,3 rúmm. jafngiltu 1 dagsverki.
Safnþrær alsteyptar..................0,2 rúmm. jafngiltu 1 dagsverki.
Áburðarhús alsteypt..................0,25 rúmm. jafngiltu 1 dagsverki.
Upprifið grjót ......................1,0 rúmm. jafngiltu 1 dagsverki.
Indriði Einarsson, skrifstofstjóri og skáld, var aðstoðarmaður landfógeta í endurskoðun reikninga landsins frá 1879-1904. Hann lét hafa eftir sér á prenti þessi orð um búnaðarskýrslur landsmanna á árunum 1882-1884:
„Ég hefi þá skoðun, að tíunda-og framtalssvik eigi sér ekki svo mjög stað
hér á landi, þegar um nautgripi er að tala, nema þegar telja skal fram ungviði.
... Það er alkunna, að hér á landi eru allvíða mikil tíundasvik, sem einkum munu koma niður á sauðfjárframtalinu, nokkuð á hrossum, en eftir því sem
ég ímynda mér minnst, þegar nautgripir eru taldir fram... Hér á landi segir hver
til hjá sér, án þess að litið sé eftir, hvort hann segir satt. Það er þannig alveg víst, að fjártalan bæði fyrrum og nú er töluvert hærri í rauninni en skýrslurnar segja til.“ ...
Eftirfarandi umsögn fylgir búnaðaraskýrslum 1890-1891:
„Það er ástæða til að álíta, að skýrslurnar um nautpening séu einna áreiðanlegastar, með því að flestum hreppstjórum mun vera nokkurn veginn kunnugt um kúabú hreppsmanna sinna .....Hvorugt árið (1889 og 1891) munu öll kurl koma til grafar, og það er líka naumast von, þar sem eigi er gjörð frekari gangskör en nú er gjörð að eftirliti með því, að allt sé talið fram.... að tíundarsvik munu miklu almennari í Suðuramtinu en hinum ömtunum, og fyrir því verða tölurnar í búnaðarskýrslunum, sérstaklega í þessu amti (Suðuramtinu)
lægri en þær ættu að vera.“
Líkindi eru til þess, að fjárrétt hafi Eyjabændur byggt á Eiðinu norðan við hafnarvog sinn mjög fljótlega eftir að fjáreign hófst á Heimaey, líklega fljótlega eftir landnám þar. Réttin var hlaðin úr fjörugrjóti. Hún var austarlega á Eiðinu nálægt veggjum Heimakletts. Þar var bændum það auðveldast að reka fé í hana. Þessi fjárrétt stóð á Eiðinu fram að 1930. Hún var jafnan nefnd Almenningurinn á Eiðinu.
Dilkana áttu og notuðu ábúendur þessara jarða á Heimaey: (Sbr. mynd)
- Presturinn á Ofanleiti, sem bjó á 4 jörðum.
- Bændurnir á Norðurgarðsjörðunum og Vestra-Þórlaugargerði.
- Bændurnir á Presthúsum, tveim Vilborgarstaðajörðum og einni Kirkjubæjarjörðinni.
- Bóndinn á Ólafshúsum og Nýjabæ.
- Bóndinn í Svaðkoti, á Steinsstöðum og í Draumbæ.
- Tveir bændur af átta á Vilborgarstöðum og bóndinn í Brekkuhúsi. Þá fengu einnig tómthúsmennirnir á Fögruvöllum og Sveinsstöðum að draga fé í þennan dilk.
- Bóndinn á Eystri-Vesturhúsum, bóndinn í Túni og einn bóndinn á Vilborgarstöðum. Þennan dilk notuðu einnig tómthúsmennirnir í Skel og Kró.
- Búastaðabændurnir tveir, bóndinn í Gvendarhúsi og tómthúsmaðurinn á Grund við Kirkjuveg.
- Bændurnir tveir á Gjábakka,bóndinn á Miðhúsum og Kornhól.
- Bændurnir tveir í Dölum og tveir á Oddstöðum.
- Bændurnir tveir í Gerðunum og bóndinn á Þórlaugargerði eystra.
- Fimm bændur af átta á Kirkjubæjum.
- Bóndinn á Vestri-Vesturhúsum og „tómthúsmaðurinn“ á Eystri Löndum.
- Bændurnir tveir á Eystra- og Vestra-Stakkagerði og tómthúsmaðurinn í Landakoti.
- Bóndinn í Háagarði og bóndinn í Miðhlaðbæ (Vilborgarstaðajarðir), einn bóndinn á einni Vilborgarstaðajörðinni að auki og svo einni Kirkjubæjajörðinni. (Sjá Blik, ársrit Vestmannaeyja, árið 1959, bls. 108-109).
- Öflun töðu á Heimaey frá 1882 - 1977.
- Öflun töðu á Heimaey frá 1882 - 1977.
Þurrhey (taða) í hestburðum. (Einn hestburður telst vega 16 fjórðunga eða 160 pund, þ.e. 80 kg.)
Ár | Hestburðir | Ár | Hestburðir | Ár | Hestburðir | Ár | Hestburðir |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1882 | 1286 | 1907 | 2100 | 1931 | 5697 | 1955 | 7246 |
1883 | 1443 | 1908 | 2039 | 1932 | 6561 | 1956 | 8230 |
1884 | 1310 | 1909 | 2478 | 1933 | 9662 | 1957 | 8264 |
1885 | 1202 | 1910 | 2259 | 1934 | 11146 | 1958 | 7340 |
1886 | 1304 | 1911 | 2524 | 1935 | 7327 | 1959 | 7005 |
1887 | ? | 1912 | 2506 | 1936 | 11046 | 1960 | 6690 |
1888 | 1475 | 1913 | 3275 | 1937 | 10193 | 1961 | 6585 |
1889 | 1382 | 1914 | 2903 | 1938 | 8740 | 1962 | 8845 |
1890 | 1536 | 1915 | 2904 | 1939 | 11246 | 1963 | 7017 |
1891 | 1612 | 1916 | 3253 | 1940 | 13500 | 1964 | 4813 |
1892 | 1657 | 1917 | 3080 | 1941 | 13000 | 1965 | 7313 |
1893 | 1377 | 1918 | 3244 | 1942 | 12000 | 1966 | 6970 |
1894 | 1774 | 1919 | 2993 | 1943 | 11900 | 1967 | 6420 |
1895 | 1923 | 1920 | 3455 | 1944 | 12500 | 1968 | 3484 |
1896 | 2275 | 1921 | 3886 | 1945 | 10500 | 1969 | 5360 |
1897 | 2024 | 1922 | 4154 | 1946 | ? | 1970 | 3321 |
1898 | 2188 | 1923 | 4154 | 1947 | 5808 | 1971 | 3643 |
1899 | 2061 | 1924 | 4154 | 1948 | 3090 | 1972 | 2774 |
1900 | 2374 | 1925 | 4169 | 1949 | 7249 | 1973 | 0 |
1901 | 2292 | 1926 | 4535 | 1950 | 6544 | 1974 | 0 |
1903 | 2114 | 1927 | 4657 | 1951 | 6312 | 1975 | 475 |
1904 | 2168 | 1928 | 4733 | 1952 | 7834 | 1976 | 250 |
1905 | 2404 | 1929 | 6304 | 1953 | 8158 | 1977 | 438 |
1906 | 2526 | 1930 | 7093 | 1954 | 6100 |
- Votheysgerð í Vestmannaeyjum.
- Votheysgerð í Vestmannaeyjum.
Staðreyndin mun vera sú, að árið 1947 var fyrst borið við að verka vothey eða súrhey í Vestmannaeyjum. Fyrstu fimm árin var þessi votheysgerð í smáum stíl. En sumarið 1965 fór þessi heyverkun mjög í vöxt. Dalabúið?
Votheysgerð í byggðarlaginu var sem hér segir á árunum 1965 - 1972:
1965: 1300 rúmmetrar
1966: 1170 rúmmetrar
1967: 630 rúmmetrar
1968: 275 rúmmetrar
1969: 140 rúmmetrar
1970: 300 rúmmetrar
1971: 75 rúmmetrar
1972: 50 rúmmetrar
- Alifuglarækt í Vestmannaeyjum
- Alifuglarækt í Vestmannaeyjum
Ekki eru alifuglar í Eyjum taldir með á búnaðarskýrslum fyrr en árið 1920. Hér þykir okkur við hæfi að birta tölu þessara „húsdýra“, og teljum við þá alifuglarækt til landbúnaðarathafna.
Ár | Fjöldi alifugla |
Ár | Fjöldi alifugla |
Ár | Fjöldi alifugla |
Ár | Fjöldi alifugla |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1920 | 232 | 1935 | 1730 | 1950 | 524 | 1965 | 3175 |
1921 | 478 | 1936 | 1730 | 1951 | 828 | 1966 | 3375 |
1922 | 477 | 1937 | 1918 | 1952 | 1018 | 1967 | 4350 |
1923 | 477 | 1938 | 2585 | 1953 | 1117 | 1968 | 4100 |
1924 | 440 | 1939 | 2320 | 1954 | 1135 | 1969 | 5000 |
1925 | 440 | 1940 | 2225 | 1955 | 1425 | 1970 | 5345 |
1926 | 310 | 1941 | 2000 | 1956 | 1721 | 1971 | 4500 |
1927 | 545 | 1942 | 934 | 1957 | 2021 | 1972 | 4200 |
1928 | 684 | 1943 | 934 | 1958 | 1855 | 1973 | 1200 |
1929 | 764 | 1944 | 920 | 1959 | 1895 | 1974 | 0 |
1930 | 1368 | 1945 | 1510 | 1960 | 2200 | 1975 | 0 |
1931 | 1484 | 1946 | 203 | 1961 | 2520 | 1976 | 200 |
1932 | 1774 | 1947 | 654 | 1962 | 2500 | 1977 | 1150 |
1933 | 1840 | 1948 | 850 | 1963 | 2880 | 1978 | 1300 |
1934 | 1689 | 1949 | 1044 | 1964 | 3000 |
Skrá yfir uppskeru á kartöflum í Vestmannaeyjum á árunum 1885-1977.
Mælt í tunnum. Ein tunna = 100 kg.
Ár | Uppskera | Ár | Uppskera | Ár | Uppskera | Ár | Uppskera |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1885 | 177 | 1897 | 421 | 1909 | 764 | 1921 | 1004 |
1886 | 363 | 1898 | 256 | 1910 | 822 | 1922 | 927 |
1887 | ? | 1899 | 379 | 1911 | 755 | 1923 | ? |
1888 | 261 | 1900 | 492 | 1912 | 852 | 1924 | ? |
1889 | 353 | 1901 | 381 | 1913 | 879 | 1925 | 1044 |
1890 | 594 | 1902 | 512 | 1914 | 719 | 1926 | 917 |
1891 | 579 | 1903 | 736 | 1915 | 503 | 1927 | 1212 |
1892 | 609 | 1904 | 570 | 1916 | 682 | 1928 | 936 |
1893 | 318 | 1905 | 731 | 1917 | 163 | 1929 | 954 |
1894 | 560 | 1906 | 729 | 1918 | 402 | 1930 | 859 |
1895 | 544 | 1907 | 264 | 1919 | 612 | 1931 | 1277 |
1896 | 676 | 1908 | 604 | 1920 | 806 | 1932 | 1573 |
Ár | Uppskera | Ár | Uppskera | Ár | Uppskera | Ár | Uppskera |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1933 | 1031 | 1945 | 4000 | 1957 | 2110 | 1969 | ? |
1934 | 1051 | 1946 | 4000 | 1958 | 2650 | 1970 | ? |
1935 | 1194 | 1947 | 7200 | 1959 | 2260 | 1971 | 1600 |
1936 | 3250 | 1948 | 14300 | 1960 | 1290 | 1972 | 1200 |
1937 | 846 | 1949 | 12400 | 1961 | 3800 | 1973 | 0 |
1938 | 2400 | 1950 | 11900 | 1962 | 1170 | 1974 | 0 |
1939 | 4200 | 1951 | 64400 | 1963 | 3000 | 1975 | 0 |
1940 | 1202 | 1952 | 17100 | 1964 | 2100 | 1976 | 0 |
1941 | 3400 | 1953 | 17200 | 1965 | 2500 | 1977 | 40 |
1942 | 1500 | 1954 | 10200 | 1966 | ? | ||
1943 | 3000 | 1955 | 8000 | 1967 | 3900 | ||
1944 | 3500 | 1956 | 3700 | 1968 | ? |
Skrá yfir uppskeru á gulrófum og næpum í Vestmannaeyjum á árunum 1885-1977.
Mælt í tunnum. Ein tunna = 100 kg.
Ár | Uppskera | Ár | Uppskera | Ár | Uppskera | Ár | Uppskera |
---|---|---|---|---|---|---|---|
1885 | 112 | 1908 | 278 | 1931 | 590 | 1954 | 120 |
1886 | 170 | 1909 | 241 | 1932 | 479 | 1955 | 100 |
1887 | ? | 1910 | 425 | 1933 | 638 | 1956 | 130 |
1888 | 156 | 1911 | 367 | 1934 | 271 | 1957 | 300 |
1889 | 391 | 1912 | 380 | 1935 | 307 | 1958 | 1310 |
1890 | 554 | 1913 | 421 | 1936 | 525 | 1960 | 300 |
1891 | 500 | 1914 | 284 | 1937 | 328 | 1961 | 260 |
1892 | 510 | 1915 | 173 | 1938 | 710 | 1962 | 880 |
1893 | 309 | 1916 | 404 | 1939 | 900 | 1963 | 170 |
1894 | 525 | 1917 | 401 | 1940 | 1040 | 1964 | 160 |
1895 | 681 | 1918 | 354 | 1941 | 1800 | 1965 | 240 |
1896 | 656 | 1919 | ? | 1942 | 400 | 1966 | ? |
1897 | ? | 1920 | 464 | 1943 | 350 | 1967 | 350 |
1898 | 425 | 1921 | 370 | 1944 | 400 | 1968 | ? |
1899 | 232 | 1922 | 341 | 1945 | 320 | 1969 | ? |
1900 | 355 | 1923 | ? | 1946 | 300 | 1970 | ? |
1901 | 344 | 1924 | ? | 1947 | 210 | 1971 | 500 |
1902 | 337 | 1925 | 334 | 1948 | 420 | 1972 | 400 |
1903 | 503 | 1926 | 429 | 1949 | 410 | 1973 | 0 |
1904 | 359 | 1927 | 754 | 1950 | 720 | 1974 | 0 |
1905 | 481 | 1928 | 499 | 1951 | 1360 | 1975 | 0 |
1906 | 442 | 1929 | 389 | 1952 | 170 | 1976 | 0 |
1907 | 188 | 1930 | 368 | 1953 | 1690 | 1977 | 11 |
Skrá yfir matjurtagarða Vestmannaeyinga og „önnur sáðlönd“ frá 1791-1963,
fjölda þeirra og heildarstærð, eins og þennan fróðleik, er að finna í opinberum heimildum.
Frá 1791, að byrjað var að skrá tölu kálgarða í Vestmannaeyjum, til ársins 1810 eru það næstum einvörðungu danskir kaupmenn eða verzlunarstjórar þeirra, sem rækta gulrófur, næpur og fl. skyldar matjurtir við hús sín eða íbúðir. Stærð þeirra garða er hvergi skráð.
Ár | Fjöldi matjurta garða |
Ár | Fjöldi matjurta garða |
---|---|---|---|
1791 | 2 | 1798 | 3 |
1792 | 3 | 1799 | 4 |
1793 | 4 | 1800 | 3 |
1794 | 4 | 1801 | 1 |
1795 | 4 | 1802 | 1 |
1796 | 3 | 1804 | 1 |
1797 | 3 |
Smámsaman læra Eyjamenn að skilja gildi þess að rækta rófur, næpur o.fl. matjurtir við hús sín. Þá fjölgar görðunum, en ekki þykir taka því að skrá flatarmál þeirra.
Ár | Fjöldi matjurta garða |
Ár | Fjöldi matjurta garða |
---|---|---|---|
1811 | 11 | 1827 | 40 |
1812 | 9 | 1830 | 41 |
1813 | 13 | 1834 | 51 |
1817 | 18 | 1840 | 70 |
1820 | 20 | 1845 | 65 |
1821 | 44 | 1852 | 74 |
1824 | 35 |
Nú tekur garðrækt Eyjamanna vaxtarkipp, því að Mad. Ericsen, hin danska frú í Frydendal, hefur hafið kartöflurækt í Eyjum. Hún fær brátt byr. (Sjá grein um störf hennar hér í ritinu). Þá er tekið að mæla flatarmál matjurtagarðanna. Síðan er hætt að telja þá árið 1877.
Ár | Fjöldi garða |
Flatarmál í ferm. |
Ár | Fjöldi garða |
Flatarmál í ferm. |
---|---|---|---|---|---|
1853 | 87 | 6202 | 1871 | 109 | 15702 |
1854 | 97 | 9074 | 1872 | 98 | 15734 |
1855 | 103 | 9596 | 1873 | 109 | 19468 |
1856 | 104 | 10936 | 1874 | 105 | 20603 |
1858 | 104 | 11702 | 1875 | 126 | 25184 |
1859 | 103 | 11954 | 1876 | 127 | 19443 |
1861 | 91 | 7908 | 1877 | 25426 | |
1862 | 91 | 12191 | 1878 | 26858 | |
1863 | 64 | 12046 | 1879 | 26287 | |
1864 | 88 | 15291 | 1880 | 29447 | |
1865 | 89 | 14677 | 1881 | 27043 | |
1866 | 73 | 11348 | 1882 | 28071 | |
1867 | 67 | 11149 | 1883 | 29067 | |
1868 | 84 | 14043 | 1884 | 30691 | |
1869 | 85 | 10046 |
Þessi mynd er tekin sunnanvert við innri höfnina á Eyjum haustið 1906. Bændur, búalið og „tómthússmenn“ eru þarna nýkomnir úr Úteyjum með fé.
Fjóra kunna Eyjamenn þekkjum við á myndinni. Yzt til vinstri stendur Þorgerður Gísladóttir húsfreyja í tómthúsinu Skel sunnanvert við Strandveginn í kauptúninu. Hún var fyrri kona Sigurðar Sigurfinnssonar hreppstjóra. Í einveru sinni, eftir að hjónin skildu samvistir, átti þessi kunna Eyjakona ávallt nokkrar kindur í Úteyjum í skjóli einhvers Eyjabóndans. Að sjálfsögðu hefur hún greitt honum beitargjald fyrir kindur sínar.
Næstur austan við Þorgerði húsfreyju stendur Árni Filippusson í tómthúsinu Ásgarði, hinn kunni forstjóri Sparisjóðs Vestmannaeyja (hins fyrri) og forgöngumaður með Eyjamönnum í ýmsum félags- og fræðslumálum um árabil.
Drenginn, sem stendur austan við Árna, þekkjum við ekki.
Næsti maður austan við drenginn er Jón bóndi Guðmundson í Svaðkoti (síðar Suðurgarði).
Næst austast á myndinni þekkjum við þarna Guðlaug bónda og útgerðarmann Jónsson í Gerði. Þarna virðist þessi merki bóndi kominn með sparihattinn sinn á höfðinu til þess að vitja fjár síns.
Þá hefi ég nefnt hér tvo borgara úr „þurrabúð“ og tvo úr bændastétt.
Báturinn er sem sé nýkominn úr Úteyjum með sláturfé, sem dregið er hverjum eiganda sínum þarna ofanvert við bryggjustúfinn, þar sem hver fjáreigandi hirðir sitt. - Þannig gátu tómthússmennirnir ætíð átt nokkrar kindur, þó að þeir hefðu engar grasnytjar á Heimaey. - Þá er það ekki ólíklegt samkvæmt venju, að fjáreigendur þessir hafi á sínum tíma eða eitthvert haustið keypt kindurnar af bændum úr Rangárvalla- eða Vestur-Skaftafellssýslu, þegar þeir seldu fé til Eyja á haustin til slátrunar. -
Þetta er og var eilítið fyrirbrigði í búnaðarháttum Eyjamanna.