Blik 1974/Samvinnusamtökin í Vestmannaeyjum, IV. hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1974



ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Samvinnusamtökin í Vestmannaeyjum
(IV. hluti)


3. Kaupfélagið Bjarmi


Þegar útséð var um það, að Kaupfélagið Herjólfur yrði að leggja upp laupana, stofnuðu nokkrir útgerðarmenn, sem þar höfðu notið hagkvæmra viðskipta, nýtt hlutafélag. Þetta félag kölluðu þeir Bjarma. Það var stofnað með hlutafé 25 stofnenda og þess vegna kallað hlutafélag fyrst um sinn. Stofndagur þess hinn fyrsti var 25. jan. 1914. Þá komu stofnendurnir á fund í Goodtemplarahúsinu á Mylluhól og afréðu að stofna félagið. Kristmann Þorkelsson, yfirfiskimatsmaður, stjórnaði fyrsta fundi. Þegar var rætt um það að verja meginhluta stofnfjárins til þess að byggja hús, þar sem starfsemi félagsins færi fram. Megin markmiðið skyldi vera pöntun á öllum neyzluvörum og svo útgerðarvörum handa félagsmönnum, enda allt útgerðarmenn, sem stóðu að stofnun hlutafélags þessa. Þá skyldi félagið annast sölu á afurðum félagsmanna.
Lögð höfðu verið drög að því að fá hentuga lóð undir húsbyggingu félagsins o. fl. Kaupa skyldi kálgarð norðan við húseignina Frydendal og byggja húsið þar. Ekkjan á Eystri-Vesturhúsum, frú Valgerður Eiríksdóttir átti afnotaréttinn að kálgarðinum þeim.
Kosin var þriggja manna nefnd til þess að hefja framkvæmdir: panta timbrið í húsið og sement, semja uppkast að lögum og festa félaginu byggingarlóð. Þessir menn hlutu sæti í nefndinni: Geir útgerðarmaður Guðmundsson á Geirlandi, Högni Sigurðsson í Baldurshaga og Gísli Lárusson, gullsmiður og útgerðarmaður í Stakkagerði. Til framtaks og ráða kusu stjórnarmenn með sér Magnús Guðmundsson, útvegsbónda á Vesturhúsum. Hann hafði verið stoðin sterka í K.f. Herjólfi, enda þótt hann fengi þar ekki reist rönd við gæfusnauðum rekstri, sem aðrir, og þó sérstaklega einn maður, átti sök á.

Gísli Lárusson, gullsmiður m.m., Stakkagerði.
Högni Sigurðsson, hreppstjóri, Baldurshaga.
Jón Einarsson, bókavörður, Hrauni (Landagötu 4), faðir Þorsteins skipstjóra í Laufási.

Loks 15. apríl (1914) var aðalstofnfundar Hf. Bjarma haldinn á sama stað og áður. Þá lá fyrir frumvarp að lögum félagsins. Fleira hafði verið gert til þess að félagið gæti þá þegar tekið til starfa og unnið að hag félagsmanna.
Hér skrái ég lög félagsins, sem fundarmenn samþykktu í einu hljóði, enda borin áður undir félagsmenn til athugunar og þeir gert sínar athugasemdir við þau. Höfðu þær verið teknar til greina.

Lög Hf. Bjarma:

1. Félagið heitir Bjarmi. Heimili þess og varnarþing er í Vestmannaeyjum.
2. Tilgangur félagsins er að útvega félagsmönnum sem beztar vörur við svo góðu verði sem unnt er og að koma innlendum afurðum í sem hæst verð.
3. Skyldur er hver félagsmaður, er pantar vörur hjá félaginu, að veita þeim móttöku, þegar hann hefur fengið tilkynningu frá félagsstjórninni um að varan sé komin til félagsins.
4. Félagsmaður er hver sá, sem skrifar undir lög félagsins og kaupir eitt hlutabréf, er hljóðar upp á 200 krónur. Skal fé því varið til húsbyggingar og kaupa á nauðsynlegum verzlunaráhöldum. Félagatala má ekki fara fram úr 25.
5. Stofnbréf skal hljóða upp á nafn eiganda, en vilji hann selja það eða flytja úr sýslunni, skal hann skyldur að selja það stjórninni, sem þá kaupir það fyrir félagsins hönd með ákvæðisverði, en vilji stjórnin ekki kaupa bréfið fullu verði, má handhafi selja það öðrum.
Glatist hlutabréf, skal eigandi tilkynna stjórn félagsins það, og hún á hans kostnað annast um, að bréfið verði innkallað með auglýsingu birtri á venjulegan hátt í Vestmannaeyjum. Gefi enginn sig fram með bréfið innan þriggja mánaða frá auglýsingardegi, skal eigandi hins glataða stofnbréfs fá annað í þess stað.
6. Aðalfundur félagsins skal haldinn fyrir lok janúarmánaðar ár hvert, en aukafund má halda, ef 2 menn úr stjórninni eða þriðjungur félagsmanna óska þess.
Fundir félagsmanna eru lögmætir, ef meiri hluti stjórnar og annarra félagsmanna eru mættir. Félagsmenn einir hafa atkvæðisrétt þannig, að hver félagi hefur eitt atkvæði.
7. Á fundum má ræða og taka ákvörðun um hvað eina, sem félagið varðar. Á aðalfundi skal leggja fram til úrskurðar reikninga félagsins:
a) Rekstrarreikning.
b) Efnahagsreikning frá næstliðnu ári með fylgiskjölum ásamt athugasemdum endurskoðenda. Skal þá skipt ágóða eða halla félagsins frá næstliðnu ári jafnt milli allra félagsmanna, nema aðalfundur samþykki með löglegri atkvæðagreiðslu aðra ráðstöfun. Þá skal og kjósa stjórnarnefnd og endurskoðunarmenn til eins árs.
8. Stjórnin skal skipuð 5 mönnum, sem eru formaður, varaformaður, ritari og meðstjórnendur. Auk þess skal kjósa 2 menn til vara, er sæti taka í stjórninni, ef einhver úr henni er forfallaður.
9. Stjórnin hefur framkvæmdir allra félagsmála, reikningsfærslu félagsins og viðskipti þess utanlands og innan; hún boðar til allra funda í félaginu og stjórnar þeim, annast um að allar ályktanir fundarins séu bókaðar í fundarbók félagsins, heldur stjórnarfundi, þegar þurfa þykir, og er sá fundur lögmætur, þegar meiri hluti hennar mætir.
10. Allir samningar og skuldbindingar, er stjórnin gjörir eða undirskrifar fyrir félagsins hönd, eru bindandi fyrir félagið; þó skal stjórnin um öll stærri mál leita álits félagsmanna.
11. Með því að enginn félagsmaður má skulda í bókum félagsins fyrir pöntun eða vörukaup lengur en stjórnin ákveður í hvert skipti, getur stjórnin heimtað fyrirfram tryggingu af einstökum félagsmönnum, nema lögmætur fundur samþykki með atkvæðagreiðslu pöntun hans.
12. Á skuldum félagsins bera allir félagsmenn ábyrgð, einn fyrir alla og allir fyrir einn.
Félagið getur hætt að starfa og ráðstafað eignum sínum, ef það á almennum fundi félagsmanna, þar sem mættir eru 2/3 allra félagsmanna, samþykkir að svo skuli gjört með 2/3 atkvæða þeirra, sem fund sækja.
Þegar þannig hefur verið samþykkt á fundi, sem formaður hefur boðað til með viku fyrirvara, að félagið skuli leysast upp, skal stjórnin koma í peninga öllum munum félagsins svo fljótt og haganlega, sem við verður komið.
Þegar allar skuldir eru greiddar, sem félagið kann að eiga óborgaðar, skiptist afgangurinn jafnt upp á stofnbréf allra félagsmanna.
14. Lögum þessum má breyta og bæta við þau á lögmætum fund, ef það er samþykkt með 2/3 atkvæðanna, er á fundi eru.
Hér skrifa svo stofnendur Kf. Bjarma undir lög félagsins:

1. Gísli Lárusson.
2. Magnús Guðmundsson.
3. Ólafur Auðunsson.
4. Högni Sigurðsson, Baldurshaga.
5. Geir Guðmundsson.
6. Þorsteinn Jónsson, Laufási.
7. Jón Einarsson, Hrauni.
8. Sigurður Ingimundars., Skjaldbr.
9. Helgi Guðmundsson, Steinum.
10. Magnús Þórðarson.
11. Magnús Ísleifsson, London
12. Helgi Jónsson.
13. Bernótus Sigurðsson.
14. Vigfús P. Scheving, Vilb.stöðum.
15. Sveinn P. Scheving, Steinsstöðum.
16. Kristján Egilsson, Stað.
17. Kristján Ingimundarson, Klöpp.
18. Stefán Guðlaugsson, Gerði.
19. Friðrik Svipmundsson, Löndum.
20. Vigfús Jónsson, Holti.
21. Einar Símonarson, London.
22. Jón Ingimundarson, Mandal.
23. Stefán Björnsson, Skuld.
24. Símon Egilsson, Miðey.
25. Kristmann Þorkelss., yfirfiskimatsm.


Eins og lög félagsins bera með sér, var Bjarmi sambland af pöntunarfélagi og hlutafélagi. Rekstrarfjár var aflað með sama hætti og um hlutafélag væri að ræða. Þess vegna var félagið kallað hlutafélag. En ábyrgð félagsmanna nam meira en hlutafénu. Hún var ótakmörkuð, einn fyrir alla og allir fyrir einn, eins og venjan var í kaupfélögunum á þeim tímum, er Bjarmi var stofnaður. En svo var félag þetta lokað; félagsmenn gátu aðeins verið 25, og valdi stjórnin sjálf eða almennur fundur félagsmennina. Þannig var hin takmarkalausa ábyrgð hættuminni. Ofanskráðir félagar voru allir útgerðarmenn í kauptúninu.
Og nú var tekið til óspilltra málanna um rekstur félagsins undir stjórn þessara manna: Gísli Lárusson, formaður; Högni Sigurðsson, Baldurshaga, varaformaður; Magnús Guðmundsson á Vesturhúsum ritari; meðstjórnendur: Ólafur Auðunsson, Þinghól, og Geir Guðmundsson á Geirlandi. Varastjórnarmenn Jón Einarsson, Hrauni, og Sveinn P Scheving, bóndi að Steinsstöðum.
Stjórnin sjálf hafði á hendi allar framkvæmdir félagsins. Skiptu stjórnarmenn stundum með sér verkum. T.d. var Högna Sigurðssyni falið að annast framkvæmdir við byggingu félagshússins, sem byggja skyldi í kálgarði ekkjunnar á Eystri-Vesturhúsum. Félagsstjórnin greiddi henni kr. 150,00 fyrir réttindin á kálgarðinum. Það voru ódýr lóðakaup! Aðrir stjórnarmenn leituðu tilboða hjá kaupmönnunum hér og víðar um kaup á veiðarfærum handa félagsmönnum og svo vörum til heimilanna. Þá þurfti einnig að leita tilboða í fisk félagsmanna og annast kaup á salti handa þeim. Keppnin um viðskiptin hafði drjúg áhrif á verð allrar nauðsynjavöru til lækkunar, og svo til hækkunar á söluverði afurðanna. Eftir fyrstu fisksöluna gat félagið greitt félagsmönnum 82 krónur fyrir skippundið (160 kg) af fyrsta flokks fiski. Það þótti gott verð og hagstætt framleiðandanum.


ctr


Þetta er hús það, sem Kf. Bjarmi lét reisa á lóð þeirri, sem kaupfélagið keypti af ekkjunni á Eystri-Vesturhúsum fyrir kr. 150,00. Húsið var flutt af Eiðinu í Eyjum og byggt sumarið 1914 sunnan við Strandstíginn í kaupstaðnum norður af verzlunarhúsi Kf. Bjarma, gamla Frydendalshúsinu. „Pakkhús“ þetta var rifið í marzmánuði 1972.


Þegar leið á haustið 1914 gat stjórnin haldið félagsfundi í hinu nýbyggða „pakkhúsi“ félagsins, sem það hafði byggt um sumarið, - að mestu leyti í júlí og ágúst.
Á vertíð næsta vetur (1915) seldi Bjarmi smálestina af saltinu fyrir kr. 31,00 og þótti mjög hagstætt verð. Jafnframt bætti félagið upp fiskverðið með 3 krónum hvert skippund af 1. flokks fiski.
Hinn eiginlegi framkvæmdastjóri félagsins var formaður þess, Gísli Lárusson.
Um miðjan ágúst 1915 var haldinn almennur fundur í félaginu og þar tilkynnt, að félagsmenn skyldu afhenda framkvæmdastjóra daginn eftir lista yfir þær heimilisnauðsynjar, er þeir æsktu að panta hjá félaginu, svo sem rúgmjöl, rúg, hveiti, grænsápu, kex, strásykur, rúsínur, sveskjur, sætsaft, haframjöl og sagogrjón, svo að eitthvað sé nefnt svona til fróðleiks og gamans. Vörurnar voru síðan afhentar í hinu nýbyggða „pakkhúsi“ félagsins norðan við Frydendal. Nauðsynjarnar voru að mestu leyti pantaðar frá Nathan og Olsen, Reykjavík.
Í september um haustið gat stjórnin afráðið verð á sjávarafurðunum til félagsmanna. Til fróðleiks skal verðið greint hér:

1. fl. þorskur ... kr. 112,00 skipp.
2. fl. þorskur ... — 112,40 —
Langa ........... ....— 95,20 —
1. fl. ýsa ............ — 74,80 —
og greitt skyldi fyrir hvert pund af
verkuðum sundmaga kr. 0,66.

Þetta haust gerði Gísli J. Johnsen félaginu hagstæðasta tilboðið um kaup á olíu handa félagsmönnum kr. 35,00 hverja tunnu hér á staðnum. Jafnframt bauðst hann til að greiða kr. 4,00 fyrir hverja tóma olíutunnu, en öll olía var þá flutt til landsins á tunnum, eikartunnum, að miklu leyti a.m.k.
Í desember 1915 hreyfði formaður félagsins, G. L., markverðu máli á almennum félagsfundi. Hann bar upp á fundinum þá hugmynd sína, hvort ekki væru tök á að stofna til hlutafélags í byggðarlaginu, sem hefði það markmið að stofna til síldveiða með snurpinót og stórum vélbátum eða vélskipum. Taldi hann, að Eyjamenn væru að dragast aftur úr um þessar framkvæmdir og veiðar. Mál þetta fékk góðar undirtektir manna og skyldi það íhugað nánar.
Sveinn P. Scheving var ráðinn til þess að veita afurðum félagsmanna móttöku í húsi félagsins og skyldi hann hafa 60 aura í kaup fyrir hverja unna klukkustund. Framkvæmdastjórinn fékk greiddar kr. 1800,00 í árskaup 1916, en þau laun voru síðar hækkuð upp í kr. 3000,00 vegna aukinna starfa.
Rétt er að minna á það, að heimsstyrjöldin fyrri var nú í algleymingi, og allt verðlag fór hækkandi ár frá ári. Til samanburðar við fyrri tölur vil ég hér geta þess, að sumarið 1916 var verð á 1. fl. Spánarfiski orðið kr. 129,00 skippundið, og kr. 125,00 af löngu, og hvert kg. af verkuðum sundmaga á kr. 1,55. Allar neyzluvörur hækkuðu gífurlega í verði.
Árið 1916 afréð stjórnin með samþykki félagsmanna að kaupa stóra húsið, sem stóð á Eiðinu, fyrir kr. 9.550,00 og flytja það síðan á starfssvæði félagsins, lóðir þess, við Sjómannasund. Svo var gert og bættu þau húsakaup mjög úr húsrýmiseklu félagsins, sem þurfti mikið húsrými til geymslu á neyzluvörum, salti og ekki sízt afurðum félagsmanna.
Einnig kom Bjarmi á stofn sérstakri lifrarbræðslu til þess að vinna lýsi til útflutningsins úr lifur félagsmanna sinna. Það bræðsluhús stóð við Strandveginn, þar sem íbúðarhúsið og verzlunarhúsið Sandur stendur nú, húsið nr. 63 við Strandveg.
Vegna hinnar miklu grósku í félagsstarfinu, óskuðu fleiri útgerðarmenn að gerast félagar í Bjarma og njóta hagsmuna af starfi félagsins. Í ársbyrjun 1917 sóttu 10 útgerðarmenn um inngöngu í félagið. Til svars við þeirri beiðni var samþykkt á almennum fundi í félaginu að gefa 7 af þessum 10 umsækjendum kost á að kaupa hlutabréf í félaginu. Þrem mönnum var hafnað. Þessir fengu þá að gerast félagsmenn:

1. Guðjón Eyjólfss bóndi, Kirkjubæ.
2. Sigurður Hróbjartsson, Litlalandi.
3. Erlendur Árnason, Gilsbakka
4. Jón Jónsson
5. Ísleifur Sigurðsson, Ráðagerði.
6. Bjarni Einarsson, Hlaðbæ.
7. Lárus Halldórsson, Velli.

Heildarumsetning hf. Bjarma nam kr. 362.253,49 árið 1916, sem var þriðja starfsár félagsins. Af upphæð þessari nam andvirði seldra fiskafurða kr. 261.252,21. Þess er að gæta, að sumir stærstu útgerðarmennirnir og um leið aflasælustu formennirnir voru félagsmenn í Bjarma.
Vorið 1917 var allt í óvissu um framtíð alls atvinnureksturs í landinu sökum ófriðarbálsins. Þá bauðst Bjarma 280 smálestir af salti til kaups á kr. 200,00 hverja smálest. Stjórn félagsins hafnaði þessu boði sökum þess, að allt var í óvissu um það, hvort nokkur olía fengist handa bátaflotanum á næstu misserum. Þó útlitið um atvinnureksturinn væri ískyggilegt, sóttu útgerðarmenn í Eyjum um inngöngu í Bjarma og þá að njóta allra félagsréttinda þar. Þannig stóð á því, að stjórn félagsins mælti með því öðru hvoru á almennum félagsfundum, að fleiri mönnum yrði bætt við félagalistann og fengu að skrifa sig inn í félagið. Fátt sannar betur það traust, sem félagsskapur þessi naut með Eyjamönnum undir stjórn Gísla Lárussonar, Magnúsar Guðmundssonar, Geirs á Geirlandi, Þorsteins í Laufási, Högna í Baldurshaga og Ólafs Auðunssonar.
Sumarið 1917 afréð stjórnin að greiða félagsmönnum fyrir lifrina frá síðustu vertíð 54 aura fyrir hvern líter af nr. 1 og 40 aura fyrir lifur nr. 2. Það þótti býsna gott verð þá á framleiðsluvöru þessari, enda átti Bjarmi sjálfur lifrarbræðslu sína og naut þannig hæsta verðs fyrir lýsið.
Þetta sumar seldi Bjarmi saltfisk nr. 1 á kr. 170,00 skippundið og fyrir kr. 164,00 af nr. 2. Það þótti gott verð þá. Langan nr. 1 var seld þá á kr. 160,00 hvert skpd í húsi, þ.e. án umbúða.
Þegar leið á sumarið, greiddist furðanlega úr öllum vandræðunum með kaup á steinolíu og salti. Útgerðarmenn höfðu til tveggja aðila að leita um olíukaupin, Hins íslenzka steinolíufélags og Landsverzlunarinnar.
Sumarið 1918 kostaði smálestin af saltinu útgerðarmanninn kr. 265,00 og kr. 305,00 það salt, sem var flutt til Eyja frá Reykjavík.
Þegar útgerðarreikningar félagsmanna í Bjarma voru gerðir upp eftir vertíðina 1919, kom það berlega í ljós, að þeir höfðu grætt mikið á undanförnum vertíðum og höfðu því töluvert fjármagn undir höndum. Ekki var sú góða afkoma þeirra minnst að þakka félagssamtökunum, útrýmingu milliliðanna. Nú gerðust sumir félagsmenn Bjarma stórhuga og vöktu máls á því, að þeir vildu leggja fé í togaraútgerð. Þó var það ekki hugmyndin, að Bjarmi væri beint við það mál riðinn. Formaður félagsins vakti máls á þessari hugdettu á almennum félagsfundi Bjarma 17. maí 1919. Þorsteinn í Laufási var talinn vera sá fyrsti, sem vakti máls á þessu með félagsmönnum. Talið var eðlilegast, að 5 þúsund króna hlutabréf yrði hið minnsta, sem félagsmönnum yrði gefinn kostur á að kaupa í togarahlutafélaginu. Enginn mótmælti því, og gæti það gefið svolitla hugmynd um hina traustu efnahagsafkomu þessara manna, því að 5 þúsund krónur 1919 voru ekki þá litlir peningar.


ctr


Verzlunarhús Kf. Bjarma við Miðstræti í Vestmannaeyjakaupstað. Áður var hús þetta langstærsta hús í Eyjum, byggt 1878 að við vitum bezt. Það hét Frydendal og var íbúðarhús Johnsenfjölskyldunnar þar til Kf. Bjarmi keypti það og flutti um tvær breiddir sínar suður að Miðstræti. Austan við hús þetta sér á smiðju Einars heitins Magnússonar, sem bjó að Kirkjuvegi 39, Stóra-Hvammi. Hann lézt af slysförum í smiðju sinni við sprengingu, sem þar átti sér stað.


Hinn 21. júní 1919 lá fyrir stjórnarfundi í Bjarma sérlegt bréf. Árni J. Johnsen, eigandi húseignarinnar Frydendal býðst til að selja félaginu þessa húseign ásamt lóðarréttindum fyrir kr. 40.000,00. Frydendalur var tveggja hæða hús með íbúð eða íbúðum á efri hæð og búð á 1. hæð. Þar rak eigandinn sjálfur verzlun, þegar hér er komið sögu.
Í júlí um sumarið (1919) samþykktu allir félagsmenn Bjarma, sem sátu þá almennan fund í félaginu, að kaupa Frydendal fyrir kr. 42.000,00, með því að „félaginu munaði í raun og veru lítið um 2000 kr. hækkun, ef það álitist nauðsynlegt“ að kaupa húseignina. Þetta orðalag sannar enn hina sterku fjárhagsaðstöðu hf. Bjarma. Eftir að eigandi Frydendals hafði boðið Bjarma húseignina til kaups, hafði honum verið boðið í húsið kr. 42.000,00.
Var nú ætlan forustumanna samtakanna að opna búð og stofna til smásölu á vegum Bjarma. Þá hafði Bjarmi starfað í 5 ár og vörukaup félagsins og sala verið einskonar pöntunarfélagsstarfsemi. Nú loks skyldi Bjarmi opna búð.
Sumarið 1919 var stofnað „Eimskipafélag Suðurlands“. Þannig skyldi bætt úr brýnni þörf um auknar samgöngur við Suðurströnd landsins. Eyjamönnum var að sjálfsögðu boðið að leggja fé í fyrirtæki þetta, kaupa hlutabréf í félaginu. Bjarmamenn vildu vissulega stuðla að auknum og bættum samgöngum og neyttu nú gróða síns undanfarin ár og afréðu að leggja í „Eimskipafélag Suðurlands“ kr. 20.000,00. Það voru miklir fjármunir árið 1919 og Eyjamönnum í heild til verðugs sóma. Um líkt leyti gaf Bjarmi kr. 1000,00 í Ekknasjóð Eyjamanna.
Um haustið (1919) samþykkti almennur félagsfundur í Bjarma að gefa kr. 10.000,00 til Björgunarfélags Vestmannaeyja vegna kaupa þess á björgunarskipinu Þór.
Þannig má með sanni segja, að félagsmenn Bjarma hafi haft góðan vilja til að byggðarlagið nyti velgengni í félagsmálum þessum og hversu þeir höfðu notið mikils hagnaðar og hagræðis af samtökum sínum, eins og jafnan tekst, þegar vel og drengilega er á málum þeim haldið og hyggilega og heiðarlega.
Árið 1919 greiddi Bjarmi 80 aura fyrir lítirinn af lifur nr. 1 og 60 aura fyrir lifur nr. 2.
Íslandsbankaútibúið í Vestmannaeyjum var þess vissulega vitandi, að ábyrgðir í Bjarma voru einn fyrir alla og allir fyrir einn. Þetta notfærði bankastofnunin sér til öryggis í viðskiptunum við Bjarma, og félagsmönnum var það traust til mikils hagræðis. Þannig lánaði bankinn félagsstjórninni kr. 120.000,00 vorið 1920. Þetta fé lánaði hún síðan félagsmönnum í Bjarma til þess að létta þeim uppgjörið við vertíðarmenn sínan við vertíðarlokin. Þessa hjálp hafði stjórn Bjarma veitt félagsmönnum oftar undanfarin vor. Þannig höfðu þeir máttarminni í félagsskapnum stuðning og mikið hagræði af þeim, sem betur máttu sín fjárhagslega. Jafnframt þessu láni veitti bankinn félaginu 100 þúsund króna rekstrarlán, þar sem það hugðist nú opna smásöluverzlun.
Almennur félagsfundur var haldinn 2. ágúst 1921. Kom þar fyrst fram nokkur óánægja með reksturinn á Bjarma, og beindu félagsmenn óþægilegum spurningum til framkvæmdastjórans; t. d.:
1. Hver var ástæðan fyrir því, að Bjarmi var einasta fisksölufélagið í bænum, sem enn lá með óseldan fisk frá fyrra ári. Kváðu ýmsir, að það mundi stafa af slóðaskap og skeytingarleysi.
2. Ýmsir félagsmenn höfðu orð á því, að starfsmenn félagsins, hinir föstu, mundu óþarflega margir og ekki vel valdir, - sumir. (Vitað var, að þar voru drykkjumenn með í bland.)
3. Kvartað var undan því, hversu sjaldan voru haldnir fundir í félaginu. T.d. höfðu þarna liðið 11-12 vikur milli funda. Svo strjálir fundir mundu leiða af sér hirðuleysi félagsmanna um hag félagsins og skeytingarleysi, töldu félagsmenn.
Þessi aðfinnsla vakti miklar umræður á fundinum og heitar á köflum. Þó virtust allir sáttir að kalla, þegar slitið var fundi, og þótti ýmsum betur hefði úr rætzt en á horfðist um tíma á umræðu- og hitafundi þessum, því að þar voru sumir félagsmenn ómyrkir í máli. Grun hef ég um það, að sleifarlag það, er ýmsum þótti vera komið á rekstur Bjarma, hafi valdið því, að Ólafur Auðunsson gaf ekki kost á sér í stjórnina á síðasta aðalfundi. Hefur líklega heldur kosið að draga sig í hlé en vera bendlaður við óstjórn og standa í ófriði við gamla samstarfsmenn til að fá bót ráðna á henni.
Nú tók verulega að halla undan fæti í starfi og rekstri hf. Bjarma. Mest háði félaginu skorturinn á rekstrarfé, sem stafaði af því, að bæði félagsmönnum og ekki síður utanfélagsmönnum hafði verið lánað bæði veiðarfæri, salt , olía og neyzluvörur. Svo þegar innheimta átti eða fá skuldirnar greiddar, fékkst ekkert greitt. Þannig skapaðist viðskiptaöngþveiti, sem sligaði félagið.
Þessi vandræði leiddu til óánægju félagsmanna og tortryggni um rekstur og hag félagsins. Afleiðingarnar urðu þær, að félagsmenn sneru bakinu við félagsskapnum og beindu viðskiptum sínum annað.
Þessari erfiðu innheimtu olli m.a. verðfall á sjávarafurðum á þessum tímum og ógætileg lánastarfsemi, of mikil bjartsýni í öllu þessu viðskipta- og fjármálalífi. Hjá þeim, sem kynnist heimildunum, vaknar sá grunur, að linkind hafi nokkru valdið um slælega innheimtu, sem átti að einhverju leyti rætur að rekja til þess, að allir þekktu alla og lifðu í „landi kunningsskaparins“.
Haustið 1922 varð Bjarmi að selja 1. flokks saltfisk fyrir kr. 152,50 hvert skpd; 2. fl. fisk fyrir kr. 140,00; 1. fl. netafisk fyrir kr. 135,00; 2. fl. netafisk fyrir kr. 120,00 og 3. fl. fisk fyrir kr. 100,00 hvert skpd. Áður var fiskverðið miðað við fiskinn ópakkaðan eða stafla í húsi, en þetta verð, er ég nú greindi, var gefið fyrir fiskinn pakkaðan og kominn um borð í flutningaskipið. Hér var því um stórkostlegt verðfall að ræða miðað við það, sem áður var, þegar bezt lét.
Á stjórnarfundi 28. des. 1922 lýsti framkvæmdastjórinn og formaður félagsins, Gísli gullsmiður Lárusson, yfir því, að hann hætti störfum við félagið, er hann hefði lokið uppgjöri reikninga þess fyrir árið það ár. Jafnframt minnti hann á þá staðreynd, að hann hefði fyrir mörgum mánuðum sagt upp starfinu. Ekki gátu aðrir stjórnarmenn neitað því. Ekki hafði þá verið haldinn aðalfundur félagsins fyrir árið 1921. Hann var fyrst haldinn 4. jan. 1923. Áður hafði komið til tals á stjórnarfundi, að Bjarmi hætti störfum bæði sökum ofmikilla útistandandi skulda og svo hins, að töluverður hluti félagsmanna var hættur framleiðslu, hættur allri útgerð. Þeir töldust vera 9 eða nálægt 1/4 félagsmanna. Aðrir 8 félagsmenn voru svo skuldum hlaðnir, að lítill slægur var í þeim í félagsskapnum. Mikill hiti var í sumum stofnendum Bjarma á fundi þessum sökum þess, hvernig komið var fyrir félagsskapnum. Þeir vildu sumir sækja stjórnina til saka um hinar miklu lánveitingar,sem nú ollu mestu erfiðleikunum í rekstri félagsins. Þá gátu þessir menn óttazt, að þeir yrðu að blæða fyrir hina, þar sem ábyrgðin var sameiginleg að baki félaginu.
Á þessum aðalfundi voru einnig lesnir upp reikningar félagsins síðustu 5 mánuðina eða frá 1. jan. til 1. júní 1922. Vottuðu þeir, að félagið hefði tapað kr. 20.000,00 í eignum á þessum 5 mánuðum.
Vorið 1923, er stjórnin skyldi skila framtalsskýrslum félagsins, varð hún sammála um, að sanngjarnt og rétt væri að afskrifa útistandandi skuldir félagsins um kr. 17.018,72. Það voru miklir fjármunir á þeim tímum.
Um sumarið (í júní 1923) var svo Árni Gíslason, sonur hins fráfarandi framkvæmdastjóra, ráðinn framkvæmdastjóri félagsins með því skilyrði, að hann hætti víndrykkju, er hann hét stjórninni.
Þegar hér er komið sögu, leggjast bæði stjórnarfundir og félagsfundir í Bjarma á hilluna í 15 mánuði, svo að fátt verður vitað um athafnir félagsins þann tíma eða gjörðir stjórnarinnar til viðreisnar félaginu.
Síðari hluta janúar 1925 hélt félagið aðalfund ársins 1923 og svo að nokkru leyti fyrir árið 1922. Skiptar voru þar skoðanir um framtíð félagsins. Nú var svo komið, að maðurinn, sem jafnan hafði haft minnst fylgi félagsmanna í stjórn félagsins, meðan allt lék í lyndi fyrir því, hlaut nú við kosningu í stjórn félagsins meira traust en nokkru sinni fyrr.

Ólafur Auðunsson, útgerðarmaður, Þinghól.

Það var Ólafur Auðunsson í Þinghól. Nú höfðu loks opnazt augu félagsmanna fyrir hyggindum hans og gætni um öll lánaviðskiptin. Nú loks var þeim það ljóst, að betur væri komið hag félagsins, ef hann hefði ekki verið borinn ráðum í stjórn þess og á almennum fundum þess, þegar Bjarmi hóf hin víðtæku lánaviðskipti sín. Sumir þeir félagsmenn, sem hæst höfðu haft áður og mest áhrifin í félagsskapnum, höfðu nú loks misst álit og fylgi félagsmanna. Sumir félagsmenn töldu það helzt til seint.
Í ágústmánuði 1925 var fenginn verzlunarmaður utan af landi til þess að gera upp reikninga Bjarma fyrir árið 1924, þegar sýnt þótti, að það uppgjör yrði ekki af hendi innt það ár. Sá maður var Hjálmur Konráðsson, verzlunarmaður. Nú dundu yfir stjórn K.f. Bjarma víxlakröfur og stefnur vegna skulda félagsins við bankastofnanir og einstaklinga — kröfur, sem það hafði ekki getað fullnægt sökum fjárskorts vegna hinna miklu útistandandi verzlunarskulda, sem ekki fengust greiddar. Persónulega voru stjórnarmenn kaupfélagsins ábyrgir fyrir töluverðum hluta af víxlunum.
Í sambandi við öll þessi viðskiptavandræði afréð stjórnin að skipta um framkvæmdastjóra í félaginu. — Hjálmur Konráðsson var ráðinn framkvæmdastjóri K/f Bjarma í október 1925. - Þá taldist félagið tæpast eiga fyrir skuldum eða vera eignalaust. Þó gat Hjálmur ekki tekið við framkvæmdunum eða beitt sér að þeim fyrr en hann hafði lokið við að gera upp reikninga félagsins, og var þá Magnúsi bónda Guðmundssyni á Vesturhúsum, ritara félagsins frá stofnun þess, falið að ráða fram úr skuldakröggunum og hindra, að gengið yrði að félaginu. Á aðalfundi félagsins í október 1925 sýndi það sig, að Ólafur Auðunsson og Magnús Guðmundsson nutu mests trausts félagsmanna til að bjarga Bjarma frá gjaldþroti eða dauða. Varð nú Ólafur formaður félagsins og Magnús ritari stjórnarinnar eins og alltaf áður.
Á aðalfundi félagsins, sem haldinn var í Goodtemplarahúsinu á Mylluhól, eins og flestir eða allir aðalfundir þess, var afráðið og samþykkt, að afskrifa af töpuðum skuldum nálega 20 þúsundir króna. Jafnframt var samþykkt, að hlutabréfin gömlu, sem um tíma, meðan reksturinn stóð í blóma, höfðu margfaldazt í verði, hengju enn í nafnverði, sem var kr. 200,00.
Á aðalfundi Bjarma 1925 hafði verið samþykkt að breyta lögum félagsins og móta það samvinnufélag samkvæmt gildandi landslögum um þau. Þessu var komið í framkvæmd á aðalfundinum 1926. Þá lagði stjórnin fram frumvarp til nýrra félagslaga, sem var samþykkt. Þar með var Hf. Bjarma breytt í K/f Bjarma og hlutafjáreign hvers félagsmanns breytt í stofnfjáreign. Stjórnina skipuðu í hinu nýja kaupfélagi þeir Ólafur Auðunsson, Þorsteinn Jónsson, Kristján Egilsson, Stað, Stefán Guðlaugsson, Gerði, og Magnús Guðmundsson.
Eftir því sem fiskverð hafði verið og virtist ætla að verða, afréð stjórn Kaupfélagsins Bjarma að greiða fyrir fisk á vertíð 1927 sem hér segir: Fyrir þorsk nr. 1 kr. 97,00 hvert skippund; fyrir þorsk nr. 2 kr. 88,00; fyrir netafisk nr. 1 kr.; 91,00 og fyrir allan þorsk nr. 3 kr. 79,00 hvert skpd. Lifrarverðið var þetta: Fyrir lifrarlítir nr. 1 kr. 0,40 og nr. 2 kr. 0,30.
Ef þetta verð er borið saman við afurðaverðið á styrjaldarárunum, kemur í ljós geysilegt verðfall á öllum sjávarafurðunum frá þeim árum.
Veldur hver á heldur, stendur þar. Eftir að Hjálmur Konráðsson hafði veitt Hf. Bjarma forstöðu í 1 ár, tók fjárhagur þess að rétta við, svo að um munaði. Félagsmenn fengu 7% ágóðahlut af öllum keyptum vörum. Þá var afgangurinn af hagnaðinum kr. 16.979,23, sem samþykkt var að leggja í húsbyggingarsjóð félagsins. En alls reyndist hagnaðurinn af rekstri kaupfélagsins árið 1927 kr. 36.839,43.
Frá því að Hf. Bjarma var breytt í kaupfélag, hafði verið á döfinni undirbúningur að búðarbyggingu við Miðstræti. En þegar til kom, vildi byggingarnefnd kaupstaðarins ekki leyfa lægra hús þar en tvær hæðir. Þetta verzlunarhús Hf. Bjarma átti að standa svo að segja rétt suður af Frydendal. Tveggja hæða hús svo nálægt Frydendal var talið spilla því húsi, skyggja á sól og fl.
Stjórn kaupfélagsins afréð því að flytja verzlunarhús sitt Frydendal um rúma breidd sína suður að Miðstrætinu. Þetta verk tóku tveir iðnaðarmenn í kaupstaðnum að sér að framkvæma, þeir Magnús Ísleifsson trésmíðameistari í London og Einar Magnússon járnsmíðameistari í Stóra-Hvammi við Kirkjuveg.
Þetta stórvirki var framkvæmt haustið 1928. Þegar svo lokið var við að flytja þetta tveggja hæða hús, hófst bygging búðar vestan við það og áfast því. Sú búð var mótuð einnar hæðar hús og jafnbreið sjálfu húsinu eða 7 metrar og 8 metra löng. Húsameistararnir Magnús Ísleifsson og Jóhann Jónsson á Brekku við Faxastíg áætluðu, að viðbygging þessi kostaði fullgerð 7-8 þúsundir króna.
Árið 1928 nam verzlunarhagnaður kaupfélagsins samtals kr. 52.947,50. Nú gerðist stjórn félagsins stórhuga, er svo vel gekk reksturinn, og ræddi um að reisa félaginu nýtt salt- og fiskgeymsluhús.
En útlit viðskipta- og atvinnulífsins breyttist mjög til hins verra, þegar leið á árið 1929. Heimskreppan mikla var í aðsigi.
Það voru ekki aðeins félagsmenn Kf. Bjarma, sem fundu á sér gróskuna í félagsskapnum. Bæjarbúar í heild fundu hana og margir sóttust eftir að verða félagsmenn með öllum óskertum félagsréttindum í Kf. Bjarma. Auðvitað var það fyrst og fremst kaupfélagsstjórinn og störf hans, sem áunnu félaginu allt þetta álit og traust og svo styrk og heiðarleg forustu Ólafs Auðunssonar og félaga hans. Fast var í taumana haldið og hvergi rasað um ráð fram.
Á aðalfundi 5. maí 1930 varð félagsmönnum það ljóst, að Kf. Bjarmi hafði ágóða eftir reksturinn 1929, sem nam hvorki meira né minna en kr. 52.822,59. Það voru miklir fjármunir á þeim tímum.
En á árinu 1930 tók fiskur mjög að lækka í verði á heimsmarkaðnum. Heimskreppan mikla var að færast í aukana. Þess vegna urðu öll viðskipti viðsjárverð, ekki sízt hjá fyrirtækjum, sem lánuðu stórfé í vörum út á hinn óskotna ref, afurðir, sem áttu verðgildi sitt undir duttlungum og veðrabrigðum í viðskiptalífinu á heimsmarkaðnum.
Kreppan sagði fljótt til sín í öllum rekstri Bjarma. Verðfall fisksins olli því, að útgerðarmenn náðu hvergi nærri saman endum í framleiðslustarfi sínu, afurðirnar hrukku ekki fyrir kostnaði. Þannig hlóðust skuldirnar upp hjá þeim bæði í Bjarma og annars staðar. Þó sýndu reikningar félagsins töluverðan hagnað af rekstrinum 1930 eða kr. 36.572,24. Þess er að gæta, að í veikri von sumra stjórnarmanna er gert ráð fyrir því, að útistandandi skuldir greiðist að mestu leyti, en svo kom fljótt skarð í allan þennan pappírsgróða, ef ég mætti nefna hann svo, þegar stjórnin neyddist til að afskrifa svo og svo mikið af útistandandi skuldum árlega, þar til gefizt var upp við reksturinn, lauparnir lagðir upp, með því að hagnaðurinn af rekstrinum fór minnkandi ár frá ári og á sama tíma uxu afskriftir hinna útistandandi skulda eða eigna, sem hurfu í kreppuna.
Í nóvember fór Hjálmur kaupfélagsstjóri til Reykjavíkur vegna vanheilsu, er hann hafði átt við að búa um nokkurt skeið. Hann var lagður þar inn á sjúkrahús til uppskurðar. Hann andaðist aðfaranótt 17. desember 1933.
Að Hjálmi Konráðssyni þótti mikill mannskaði hér í bæ. Kolka læknir skrifaði um hann. Þar standa þessi orð: „Hjálmur heitinn var einn þeirra manna, sem maður fékk því meiri mætur á, sem maður kynntist honum betur. Vinir hans geta því einir skilið til fulls, hvert tjón er í fráfalli hans.“ Hafi félagsmönnum Kf. Bjarma ekki skilizt til þessa, hvert traust og hald kaupfélagsstjóri eins og Hjálmur heitinn var því, þá hafa vissulega opnast augu þeirra fyrir því, er hann var allur. Hjálmur Konráðsson var Skagfirðingur, fæddur að Syðravatni þar í sýslu 23. nóvember 1895 og því 38 ára, er hann lézt. Eftir fráfall kaupfélagsstjórans réð stjórnin Sigurð Ólason framkvæmdastjóra Kf. Bjarma.
Félagið hafði ætlað að stofna til útgerðar, til þess að auka rekstur sinn í þeirri von, að tök yrðu á að standa undir skuldabyrðunum og standa af sér áföll kreppunnar. Í þessu skyni lét það byggja sér bát úti í Danmörku.
Í janúarmánuði (1934) lagði bátur þessi af stað til Íslands. Báturinn fórst á leiðinni nálægt Mandal í Noregi að talið var. Þar með hætti stjórn Bjarma að hugsa til útgerðar á vegum þess. Hún venti nú kvæði sínu í kross: Á almennum fundi í félaginu 7. febrúar 1934 hreyfði formaður félagsins, Ólafur Auðunsson, þeirri hugmynd að kjósa þá þegar skilanefnd, sem ynni að því að gera félagið upp, með því að skortur á veltufé stæði því gjörsamlega fyrir allri starfrækslu. Um þessa hugmynd urðu skiptar skoðanir á fundinum. Þó varð hún til þess, að félagsmenn tóku að hugleiða málið.
Hinn 15. febrúar var aftur haldinn almennur félagsfundur um framtíð Bjarma. Á þeim fundi var samþykkt tillaga formanns um að slíta félaginu. Voru 16 félagsmenn með tillögunni en 1 á móti. Enn var kallað á almennan félagsfund 19. febrúar. Voru þá enn tekin til meðferðar félagsslitin. Þá skrifuðu 27 félagsmenn undir þá ósk að slíta félaginu en 5 mótmæltu því.
Í skilanefnd Bjarma sátu þessir menn: Jón Hallvarðsson, fulltrúi bæjarfógeta sem lögfræðilegur ráðunautur nefndarinnar, Ólafur Auðunsson, Magnús Guðmundsson, Sigurður Ólason og Sigfús Scheving.
Þannig luku þessi merku félagssamtök starfsferli sínum. Með sanni verður sagt, að þau um eitt skeið sáu fagran fífil á ferli sínum. Jafnframt sannaðist á samtökum þessum máltækið kunna og sanna, að vandi er að gæta fengins fjár og sterk bein þarf til að þola góða daga. Ekki þurfa þeir þeirra sízt við, sem stjórna eiga og starfrækja fjárrík fyrirtæki.

V. hluti

Til baka