Högni Sigurðsson (hreppstjóri)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Sjá aðgreiningarsíðuna fyrir aðra sem hafa borið nafnið „Högni Sigurðsson


Högni Sigurðsson.

Högni Sigurðsson fæddist 4. október 1863 og lést 26. febrúar 1923.

Eiginkona hans var Marta Jónsdóttir. Á meðal barna þeirra var Ísleifur Högnason og Sigurjón Högnason.

Högni var hreppstjóri í Vestmannaeyjum. Hann bjó í Baldurshaga.



Heimildir

  • gardur.is

Frekari umfjöllun

Högni Sigurðsson bóndi á Seljalandi undir Eyjafjöllum, útgerðarmaður og hreppstjóri í Baldurshaga, fæddist 4. október 1863 og lést 26. febrúar 1923.
Faðir hans var Sigurður bóndi á Barkarstöðum í Fljótshlíð, f. 17. júlí 1810, d. 23. nóvember 1892, Ísleifsson bónda á Seljalandi 1816, f. 5. febrúar 1760 í Dalsseli undir Eyjafjöllum, d. 25. janúar 1835, Gissurarsonar bónda í Dalsseli og á Seljalandi, f. 1715, d. 1782, Ísleifssonar, og konu Gissurar Ísleifssonar, Steinunnar húsfreyju, f. 1719, á lífi 1801, Filippusdóttur.
Móðir Sigurðar á Barkarstöðum og kona Ísleifs á Seljalandi var Ingibjörg húsfreyja, f. 27. apríll 1772 í Hvammi undir Eyjafjöllum, d. 1. janúar 1829, Sigurðardóttir bónda í Hvammi og Seljalandi, f. 29. ágúst 1734 í Langholti í Meðallandi, d. 12. desember 1821, Ketilssonar, og konu Sigurðar Ketilssonar, Sesselju húsfreyju, f. 1729, á lífi 1801, Magnúsdóttur.

Móðir Högna í Baldurshaga og kona Sigurðar á Barkarstöðum var Ingibjörg húsfreyja, f. 26. október 1816, d. 27. mars 1891, Sæmundsdóttir bónda í Gaularási og Bakkahjáleigu í A-Landeyjum og Eyvindarholti u. Eyjafjöllum, f. 1776, d. 25. janúar 1837, Ögmundssonar prests á Hálsi í Hamarsfirði, S-Múl., í Sigluvík í Stórólfshvolssókn og á Krossi í A-Landeyjum, f. 1732 á Stafafelli í Lóni, S-Múl., d. 5. september 1805, Högnasonar Sigurðssonar, (Högna-prests-ætt), og konu sr. Ögmundar, Salvarar húsfreyju, f. 1733, d. 1. október 1821, Sigurðardóttur, Ásmundssonar, (Ásgarðsætt í Grímsnesi).
Móðir Ingibjargar á Barkarstöðum og kona Sæmundar í Gularási var Guðrún húsfreyja, f. 1772, d. 26. desember 1843, Jónsdóttir bónda í Hallgeirsey í A-Landeyjum, f. 1737, d. 1815, Ólafssonar bónda á Kirkjulandi þar 1733, f. 1701, Ólafssonar, og konu Ólafs Ólafssonar á Kirkjulandi, Hallberu húsfreyju, f. 1701, Jónsdóttur.

Högni var 6 ára barn hjá foreldrum sínum á Barkarstöðum 1870, kvæntur bóndi á Seljalandi 1890, sama í Seljalandsseli 1901, og þar voru synir hjónanna, Sigurjón 10 ára og Ísleifur 5 ára.
Hjónin fluttu til Eyja frá Seljalandsseli 1902. Þau bjuggu lengst af í Baldurshaga. Voru þau þar 1910 með synina tvo og dótturina Ingibjörgu Guðrúnu 5 ára hjá sér.

Högni var sjómaður í byrjun. Hann keypti hlut í vélbát 1907.
Hann sat í hreppsnefnd 1915-1918 og var oddviti hennar. Hreppstjóri var hann 1916-1918.
Sæti átti hann í hafnarnefnd og í stjórn Styrktarsjóðs handa ekkjum og börnum þeirra Vestmannaeyinga, sem drukknuðu eða hröpuðu til bana, og Styrktarsjóði heilsubilaðra og aldurhniginna sjómanna.
Á stríðsárunum 1914-1918 átti hann sæti í bjargráðanefnd, sem annaðist skömmtun og úthlutun matvæla.
Högni hafði lengi á hendi verkstjórn við lagningu vega á Heimaey.

Hann átti sæti í stjórn Bátaábyrgðarfélagsins og var ritari hennar 1911-1912.
Í sögu félagsins 1937, sem rituð var af Jóhanni Gunnari Ólafssyni í tilefni 75 ára afmælis þess, skrifar höfundur stuttlega sögu stjórnarnefndarmanna og starfsmanna þess.
Þar segir m.a. um Högna:
…„Tvisvar lenti hann í skipreika. Hann var með Þorvaldi Jónssyni frá Jómsborg. Barst þeim á 30. júní 1903 út af Klettsnefi og drukknuðu þrír af skipshöfninni, en tveir komust af og var Högni annar þeirra. Vertíðina 1906 réri Högni með Magnúsi Þórðarsyni í Sjólyst. Í róðri 12. marz gerði á þá norðanstorm og fengu þeir togara til að draga bátinn í var af Heimaey. Fór togarinn of hratt, svo að bátinn fyllti. Drukknuðu fjórir menn, en 10 varð bjargað og var Högni á meðal þeirra. Högni var með þeim, sem fengu sér hina fyrstu vélbáta árið 1907… “

Hér er glefsa úr tímaritinu Óðni frá 1925. Þar er hreppstjórans minnst:
„Hann var viðfeldinn í viðskiftum og samvinnufús, ef ekki var risið í móti heilbrigðum skoðunum hans, en hinsvegar ljet hann lítt hlut sinn í störfum, ef óvægilega var í móti risið. Hin opinberu störf rækti hann vel, svo sem raun bar vitni. Fátækum gjaldendum mun hann hafa vægur verið, enda fórnað fje úr sjálfs sín vasa, til lúkningar fyrir þá, heldur en að ganga hart að þeim. — Högni sál. var fastlyndur, glaðlyndur, tryggur og vinfastur. Frumlegur var hann á ýmsum sviðum, er í mörgu mátti marka af verkhygni hans. Auk heimilisstarfa munu ýmsir vegir í Vestmannaeyjum bera góð og glögg merki afskifta hans. — Hann hallaði mjög huga að frjálslyndum skoðunum í andlegum efnum og mat mikils einbeitta þrá til aukinna starfa í þá átt, leit svo á, að búsýsluhæfileikar væru ekki síður nauðsynlegir, út á hina huldu framtíð, til þess að vera í fullu samræmi við lögmál lífsins. Löghlýðni mat hann mikils…“ (Óðinn).

Kona Högna, (9. júní 1890), var Marta Jónsdóttir húsfreyja frá Sólheimum í Mýrdal, f. 31. desember 1867, d. 12. október 1948.
Börn þeirra voru:
1. Sigurjón verslunarmaður, gjaldkeri, f. 7. júlí 1891, d. 21. mars 1958.
2. Ísleifur kaupfélagsstjóri, alþingismaður, f. 30. nóvember 1895, d. 12. júní 1967.
3. Ingibjörg Guðrún húsfreyja, f. 23. desember 1904, d. 3. september 1991.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.