Blik 1967/Frumherjar - Merkir ættliðir III.

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit Bliks 1967


ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


III. Sigfús Árnason, organisti


Ekki duldist meðhjálparahjónunum á Vilborgarstöðum, Árna Einarssyni og Guðfinnu Jónsdóttur Austmann, gildi fræðslu og þekkingar, eins og ég hefi drepið á fyrr í greinarkorni þessu. Þess vegna gerðu þau sitt ítrasta til að veita börnum sínum bóklega fræðslu, eftir því sem þá voru tök á.
Er börn þeirra voru að vaxa úr grasi, var enginn barnaskóli starfandi í Vestmannaeyjum. Því síður unglingaskóli. En fræðslustofnanir eða fræðslulindir áttu Eyjabúar samt. Þær voru heimili sýslumannshjónanna Bjarna E. Magnússonar og konu hans Hildar Bjarnadóttur Thorarensen, og svo prestshjónanna að Ofanleiti, séra Brynjólfs Jónssonar og konu hans Ragnheiðar Jónsdóttur. Um árabil tók sýslumaður unglinga inn á heimili sitt og kenndi þeim bókleg fræði án alls endurgjalds. (Sjá Blik 1962). Það gerði presturinn einnig (Blik 1963).
Eftir því sem sonum meðhjálparahjónanna á Vilborgarstöðum óx vit og þroski, var þeim komið „í læri“ til þessara embættismanna, eftir að öllum undirbúningi fyrir fermingu lauk heima, svo sem nám í lestri, skrift, kristnum fræðum og einföldustu meðferðum talna. Þeim kennslustörfum voru hjónin sjálf vel vaxin.
Eftir fermingu var Sigfúsi Árnasyni komið „í læri“ hjá Bjarna sýslumanni Magnússyni. Það var síðasta árið, sem sýslumaður var búsettur í Vestmannaeyjum eða gegndi þar embætti. Síðan nam Sigfús um skeið hjá séra Brynjólfi sóknarpresti að Ofanleiti. Þar mun hann hafa fengið nokkra undirstöðu í dönsku t.d. og ef til vill fleiri tungumálum.
Eins og aðrir uppvaxandi drengir í Eyjum á þeim árum og fyrr og síðar, meðan opnu skipin eða bátarnir voru notaðir, hóf Sigfús Árnason snemma að stunda sjóinn á juli, þ.e. vor- og sumarbáti foreldra sinna, og svo á vetrarvertíðum með föður sínum á átt-æringnum Auróru. Sigfús var einn af hásetunum á Auróru, er hún stundaði hákarlaveiðarnar árið 1875. Þá var hann 19 ára gamall. Formaður var Sigfús Árnason um skeið á vetrarvertíð eða -vertíðum. Á búskaparárum sínum á Löndum var hann meðeigandi í Auróru með föður sínum og Kristínu húsfreyju, föðursystur sinni í Nýjabæ og Engilbert Engilbertssyni í Jómsborg. Öll áttu þau jafnmikið í skipi þessu eða 1/4 hluta hvert þeirra.
Vorið 1878 fluttist fyrsta orgelið til Vestmannaeyja. Árið áður hafði séra Brynjólfur að Ofanleiti vakið máls á því í söfnuðinum, hversu nauðsynlegt og áhrifaríkt það væri að bæta sönginn í Landakirkju. Þess voru dæmi, að þar væru sömu menn forsöngvarar áratugum saman og eins, þótt þeir að meira eða minna leyti væru búnir að missa röddina sakir aldurs. Prestur veigraði sér við að tjá þeim óhæfnina, ef þeir fundu hana ekki sjálfir. Séra Brynjólfur Jónsson var betur settur í þessum efnum en margur annar sóknarpresturinn þar hafði verið sökum þess, hversu mikill og góður söngmaður hann var sjálfur. Oft hélt hann sjálfur uppi messusöngnum, svo að hvergi skeikaði.
Þegar hér var komið sögu, eru orgel í kirkjum á Íslandi ekki óþekkt fyrirbrigði. Í Reykjavík til dæmis mun fyrsta orgelið hafa verið notað við messusöng í þjóðkirkjunni árið 1840. Séra Brynjólfur Jónsson vildi ekki að Landakirkjusöfnuður yrði lengur eftirbátur annarra safnaða hér á landi í þeim efnum. Þess vegna efndi hann til almennra samskota í byggðarlaginu vorið 1877 til þess að afla fjár til orgelkaupanna. Þannig söfnuðust honum 30 krónur, sem var þó nokkurt fé á þeim tíma. Hann taldi sig geta fengið keypt sæmilegt orgel í kirkjuna fyrir 130 krónur. Þess vegna skrifaði prestur yfirvöldunum og æskti þess, að alþingi legði af mörkum úr landssjóði 100 krónur til orgelkaupanna, þar sem Landakirkja með öllu og öllu var eign landssjóðs. Aldrei mun prestur hafa fengið framlag þetta. En vorið eftir (1878) kom eitt af verzlunarskipum Brydeverzlunar til Eyja „færandi hendi“. Það flutti með sér gjöf til Landakirkju. Það var býsna laglegt orgel, sem J. P. T. Bryde, einokunarkaupmaðurinn danski í Eyjum (1879-1910) sendi kirkjunni að gjöf.
Þegar hér er komið þessum málum, var enginn í Eyjum, sem kunni að leika á orgelið. Þá var að velja ungan mann til þess að læra á það, og ráða hann síðan organista við Landakirkju. - Séra Brynjólfi Jónssyni var það brátt ljóst, að enginn ungur maður í Eyjum var ákjósanlegri til þessa náms og starfs en Sigfús Árnason, einn af meðhjálparasonunum á Vilborgarstöðum, sökum meðfæddra hæfileika, prúðmennsku og mennilegrar framkomu og þokka, sem hæfði bezt slíkri þjónustu í þágu kirkjunnar og kristilegra athafna.

Sigfús Árnason organisti, (í næturvarðarbúningi 1917).
Jónína K.N. Brynjólfsdóttir húsfreyja á Vestri-Löndum.

Haustið 1878 mun Sigfús hafa hafið hljómlistarnámið í Reykjavík, en ekki komizt svo langt á þeirri braut, að hann þá þegar treysti sér til þess að spila í Landakirkju. Þetta haust mun Sigfús hafa keypt sér stórt og vandað orgel, sem hann kom með heim til Eyja fyrir jólin þ.á. Þá gat hann æft og þjálfað sig heima í listinni.
Loks vorið 1879 afréð Sigfús Árnason að láta til skarar skríða og hefja orgelspilið í kirkjunni. Á hvítasunnudag það ár lék hann í fyrsta sinn á orgelið undir sálmasöngnum. Hafði hann þá æft nokkurn söngflokk, sem söng við guðsþjónustu þann dag og þótti takast vel og giftusamlega. Safnaðarfólkið dáði þá þegar þetta starf og þessa nýjung og lauk miklu lofsorði á þetta framtak hins vinsæla prests og sálusorgara og svo organistann sinn, sem þá var á 23. aldursárinu.
Orgel þetta, sem nú er geymt í Byggðarsafni Vestmannaeyja, var notað í Landakirkju fram á árið 1896. Þá þótti það ekki lengur fullnægja þeim kröfum, sem gerðar voru þá um kirkjuorgel. Leigðu þá ráðandi menn kirkjunnar orgel organistans.
Síðan var orgelið hans notað í kirkjunni til ársins 1904 að Sigfús Árnason sagði af sér organleikarastarfinu. Þá höfðu verið fest kaup á nýju orgeli handa kirkjunni með ráði organistans. Það reyndist síðar gallað, og tjáir Brynjólfur sonur hans föður sínum það í bréfi, eftir að hann tók við organistastarfinu. Kaupa þurfti nýtt orgel eftir stuttan tíma.
Kirkjusjóður greiddi Sigfúsi organista 20 krónur árlega leigu fyrir orgellánið frá 1896-1904. Það var einasta greiðslan, sem organistinn fékk þau 25 ár, sem hann hafði starfið á hendi í Landakirkju. Annað verður naumast ályktað, en að allt þetta geysimikla starf organistans hafi þótt sjálfsagt fórnarstarf í þágu safnaðarins, og hver sá talinn hólpinn og sæll, sem var því vaxinn að geta innt slíkt fórnarstarf af hendi.*
Prestshjónin á Ofanleiti, séra Brynjólfur og madama Ragnheiður, áttu vel gerðar og laglegar dætur. Ein þeirra hét Jónína Kristín Nikólína. Hún var fædd 14. apríl 1856 og því vel gjafvaxta, þegar hér er komið sögu. Þau Jónína prestsdóttir og Sigfús organisti felldu hugi saman og heitbundust svo sem átt hafði sér stað með Einar Árnason bróður hans og Rósu, elztu dóttur prestshjónanna (sjá Blik 1963).
Það sem vekur mér nokkra furðu er það, að prestsdóttirin og organistinn létu ekki lýsa með sér í kirkju, svo sem venja var, heldur fengu þau konunglegt leyfi til giftingarinnar, þar sem konungur gjörir „vitterligt:
At Vi, efter derom allerunderdanigst gjort Ansögning og Begjæring, aller naadigst have bevilget og tilladt, saa og hermed bevilge og tillade: at Organist Sigfús Árnason og Jomfru Jónína Kristín Nikólína Brynjólfsdatter, begge af Vestmannöerne inden Sönderamtet paa vort Land Island, maae udan foregaaende Lysning fra Prædikestolen, hjemme i Huset sammenvies af hvilken Præst de det begjære og dertil kunne formaae...
Givet i Vor kongelige Residentstad Kjöbenhavn den 12 te Mai 1882. Under vort kongelige Segl.“

„Efter hans kongelige Majestæts
allernaadigste Befaling
P. M. V.
Oddgeir Stephensen“
„Udleveret af Amtmanden over
Íslands Sönderamt
Reykjavik d. 12. Mai 1882
Bergur Thorberg.“

Leyfisbréf þetta kostaði kr. 33,66. Það voru töluverðir peningar í þá daga.
Svo var þá efnt til dýrðlegrar brúðkaupsveizlu að Ofanleiti. Brúðurin lét vinkonu sína, frú Aagaard sýslumannsfrú að Uppsölum, skauta sér, áður en hún gekk til vígslunnar. Það var 10. júní 1882, sem séra Brynjólfur sóknarprestur að Ofanleiti gifti Jónínu dóttur sína og organistann sinn, Sigfús Árnason. Þau þóttu sérstaklega glæsileg hjón, sem framtíðin brosti við, og myndirnar hér af þeim bera þess nokkurt vitni.
Hjónin Sveinn Þórðarson, beykir og mormóni, og Helga Árnadóttir bjuggu um árabil í tómthúsinu Vestri-Löndum. Árið 1878 fluttu hjón þessi burt úr Eyjum og alla leiðina vestur til Utah í Ameríku, mormónanýlendunnar nafnkunnu. Við brottför þeirra úr Eyjum keypti Jóhann Jörgen á Vilborgarstöðum, þá 31 árs að aldri, Vestri-Lönd og hugðist hefja búskap þar með unnustu sinni Sigríði Árnadóttur frá Oddsstöðum. Þó leigði hann tómthúsið fyrst um sinn óvandabundnu fólki eða næstu 2-3 árin.
Þegar Sigfús Árnason, hálfbróðir Jóhanns Jörgens, gifti sig, fékk hann inni í Vestri-Löndum, tók á leigu tómthúsið.

Tómthúsið Vestri-Lönd. Íbúðarhús hjónanna Sigfúsar Árnasonar, organista, og frú Jónínu K. N. Brynjólfsdóttur. Myndin er tekin af málverki, sem sýnir suðurhlið hússins. Í vesturenda hússins hafði Sigfús póstafgreiðsluna (1896-1904). Gengið var þar inn um dyr á skúrnum til vinstri. - Brynjólfur Sigfússon seldi Vestri Lönd 1908 hjónunum Friðriki Svipmundssyni og Elínu Þorsteinsdóttur. Söluverðið var kr. 2.120,00. Við undirskrift kaupsamnings greiddu hjónin kr. 1.120,00 og kr. 1.000,00 nokkrum mánuðum síðar. Húsið var brunatryggt í Nye Danske Forsikrings Selskab í Kaupmannahöfn fyrir kr. 2.000,00. Árlegt iðgjald kr. 21,00 - Íbúðarhús þetta reif Friðrik Svipmundsson 1909, er hann hóf að byggja íbúðarhús sitt Stóru-Lönd, sem enn stendur þar.


Árið 1886 varð það að ráði, að Jóhann Jörgen seldi hjónunum Sigfúsi og Jónínu Vestri-Lönd. Söluverðið var 500 krónur með „hjáliggjandi útihúsum og umgirtum kálgarði.“ Kaupsamningurinn er dagsettur 19. febr. 1886. Við samningsgjörðina greiddu þau hjón í peningum 150 krónur og eftirstöðvarnar skyldu þau greiða á næstu 7 árum eða 50 krónur á ári. En vetrarvertíðin 1886 gaf Sigfúsi Árnasyni mikið í aðra hönd, og svo hlutu þau hjón dálítinn arf eftir séra Brynjólf, föður Jónínu húsfreyju, svo að þau greiddu eftirstöðvar kaupverðsins í apríllokin þá um vorið (1886).
Þegar á fyrsta búskapar- og hjúskaparári sínu á Vestri-Löndum héldu hjónin Sigfús og Jónína þrjú hjú, vinnumann og tvær vinnukonur.
Árið eftir giftinguna fæddist ungu hjónunum fyrsta barnið. Það var einkar efnilegt stúlkubarn, sem var skírt Ragnheiður Stefanía. Allt lék í lyndi fyrir þeim og hamingjan brosti við þeim.
Þessi mætu hjón bjuggu á Vestri-Löndum athafnasömu lífi. Þau ráku útgerð, ræktuðu land og gerðu að túni og höfðu nokkurn kvikfénað. Sjálfur var Sigfús Árnason formaður framan af athafnaárunum.
Árið 1891, 8. marz, undirritaði Aagaard sýslumaður þeim hjónum til handa byggingarbréf fyrir jörðinni Eystri-Oddsstöðum. Þau nytjuðu síðan nokkurn hluta þeirrar jarðar og hlunnindi hennar, enda þótt þau byggju framvegis á Vestri-Löndum. Að öðru leyti leigðu þau Eystri-Oddsstaði frá sér.
Ekki er ófróðlegt upptak þessa byggingarbréfs fyrir okkur, sem fjær stöndum öllum jarðarafnotum hér í Eyjum. Fyrstu ákvæði byggingarbréfsins hljóða þannig:
„Michael Marius Ludovico Aagaard umboðsmaður yfir þjóðjörðum á Vestmannaeyjum og sýslumaður sama staðar gjörir kunnugt: að ég byggi Sigfúsi Árnasyni þjóðjörðina Eystri-Oddstaði, sem fóðrar 1 kú og 1 hest, auk hlunninda, til að mynda hagagöngu í Ellerey (á að vera Elliðaey) fyrir 15 og á Heimaey fyrir 12 fjár, einnig fuglatekju á báðum þessum stöðum og í Stórhöfða, Hellisey og Súlnaskeri móts við þá, er þar eiga hlut í til ábúðar og leiguliðanota frá næstkomandi fardögum með þessum skilmálum:

1.

Hann skal gjalda hvert ár fyrir lok júnímánaðar í ákveðna landskuld af jörðinni 170 fiska í peningum eftir meðalverði allra meðalverða í þeirri verðlagsskrá, sem ræður á réttum gjalddaga.“

Alls er byggingarbréf þetta í 13 greinum og sannar okkur, hversu smáar voru jarðir hér á Heimaey og fleyttu fram litlum bústofni. Allar voru þær jafnar að stærð, en margur bóndinn jók bústofn sinn á jörðunum með aukinni ræktun lands.
Öll haust, eftir að Sigfús Árnason gerðist organisti við Landakirkju, æfði hann kirkjukórinn af áhuga og samvizkusemi. Oftast æfði hann kórinn í sjálfri kirkjunni. En síðar fékk hann til afnota barnaskólahúsið Dvergastein (Heimagötu 7). Þau afnot hans af barnaskólahúsinu hefjast með bréfi, sem organistinn skrifaði sýslumanni haustið 1888. Leyfi ég mér að birta það bréf hér lesendum mínum til fróðleiks og glöggvunar á áhuga organistans og skyldurækni við kirkju sína og kirkjusöng.

„Hér með leyfi ég mér að biðja hina heiðruðu sýslunefnd Vestmannaeyja að ljá mér til söngkennslu kennslustofu Barnaskólans tvisvar í viku til byrjunar næstkomandi vetrarvertíðar.
Eins og nefndinni er kunnugt, eru í hinni nýjustu sálmabók vorri fjöldamörg lög (60-70), sem eru að öllu leyti ókunn, og er því stór þörf á að kenna þessi lög. En af því hentugt húsrúm er hvergi til að fá, þá sný ég mér til hinnar heiðruðu nefndar í þessu efni, og vona ég að nefndin verði við þessari beiðni minni. Ég skal taka það fram, að ég mun haga kennslustundum mínum þannig, að þær ekki komi í bága við aðra þá, sem brúka ofannefnt herbergi skólans.
Löndum, 18. september 1888
Virðingarfyllst,
Sigfús Árnason
Til oddvita sýslunefndarinnar í Vestmannaeyjum.“

M. L. Aagaard sýslumaður brást vel við þessari beiðni organistans og kom því til leiðar, að organistinn fékk kennslustofuna í Barnaskólahúsinu til afnota. Þar hafði síðan organistinn söngæfingar um nokkur ár og svo lánaði sýslumaður honum þinghús Eyjanna þess á milli.
Að sjálfsögðu litu ráðandi menn byggðarlagsins með þeim góðvilja og skilningi á þessi menningarstörf Sigfúsar Árnasonar, að hann þurfti enga leigu að greiða fyrir afnot húsanna.
Árið 1893 var Sigfús organisti Árnason kjörinn þingmaður Vestmannaeyinga. Við þingkosningar þá voru 72 á kjörskrá í kauptúninu og umhverfi þess og Sigfús Árnason fékk 19 atkvæði við kosningarnar. Það atkvæðamagn tryggði honum þingsætið. Hann féll frá þingsetu árið eftir fyrir Valtý Guðmundssyni.

Söngfélag Vestmannaeyja


Skilnaður og breytingar


Þannig liðu þá árin fram yfir aldamótin í önn og amstri við margháttuð skyldustörf og trúnaðarstörf. Fáir vissu annað en að allt væri með felldu í sambúð hinna mætu hjóna á Vestri-Löndum, Sigfúsar organista, söngstjóra og póstafgreiðslumanns og frú Jónínu K. N. Brynjólfsdóttur, hinnar góðu eiginkonu, móður og húsfreyju. En smám saman varð lýðum annað ljóst. Einhver fúla var komin í hamingjueggið á bænum þeim.
Síðari hluta vetrar 1904 var presturinn, séra Oddgeir GudmundsenOfanleiti, kvaddur að Vestri-Löndum til þess að tala milli hjónanna og koma á sættum. Það tókst ekki. Alls ekkert verður hér sagt um það, hvað á milli bar eða hvað olli óhamingju þessari. En víst er um það, að í maímánuði 1904 gengur eiginmaðurinn á fund sýslumanns og biður hann að kveðja þau hjónin á tal við sig og reyna að koma á sættum milli þeirra. Sýslumaðurinn, Magnús Jónsson, varð við þessari beiðni eiginmannsins á Vestri-Löndum.
Þegar á sáttafundinn kom, var ekki við það komandi hjá eiginkonunni, að hún gengi til sátta við eiginmann sinn. Hún krafðist skilnaðar. Ástæður bar hún fram fyrir kröfu þessari, en þær verða ekki greindar hér. Loks gat frúin á það fallizt, að skilnaður þeirra hjóna yrði aðeins að borði og sæng fyrst um sinn og svo færu jafnframt fram fjárskipti milli þeirra.
Með bréfi dagsettu 1. júní 1904, undirritað af Júlíusi Havsteen amtmanni Suður- og Vesturamtsins, var hjónunum gefið leyfi til skilnaðar að borði og sæng með „venjulegri réttarverkun“ og þeim skilmálum, sem þau hafa komið sér saman um frammi fyrir sýslumanninum í Vestmannaeyjasýslu, sem sé að öllu fjárfélagi þeirra skuli vera slitið. Konan Jónína Brynjólfsdóttir eignast allar eigur búsins, þar með talin húseignin Vestri-Lönd og 6 hundruð og 78 álnir að nýju mati í jörðinni Álftarhól í Austur-Landeyjum og yfirleitt allar eigur búsins samkvæmt lista frá eiginmanni yfir þær, sem hann sýndi fram við hina „verzlegu sáttatilraun“, og ennfremur allar þær ótilfærðar eignir, gegn því að hún greiði eiginmanni sínum, Sigfúsi Árnasyni, 900 krónur í peningum.“... „Skuldir þær, sem hvíla á búinu, tekur konan að sér, eðlilega með samþykki skuldheimtumanna.“
... Greindur drengur 11 ára, Leifur, dvelur hjá móður sinni. Hvorugu hjónanna er heimilt að giftast aftur að hinu lifandi, fyrr en þau hafa öðlazt leyfisbréf til algjörs hjónaskilnaðar.

Suðuramtið í Reykjavík, 1. júní 1904.
J. Havsteen.

Eignir hjónanna, smáar og stórar, voru nú metnar á kr. 4.475,00. Skuldir búsins námu alls kr. 1.452,00.
Svo nákvæmlega var allt tínt til, að þessi skrá yfir aukaeignir var tekin með:

Ein tunna sement hjá Stefáni í Ási (sem sé lánuð honum).
11 járnplötur 7 fóta hjá G. J. Johnsen og 1 pl. 6 fóta.
Hefilbekkur geymdur í Gröf.
Hagbeit 1 króna.
1/14 hlutur eignar í Hrútafélaginu (Það var kynbótafélag, sem Gísli Stefánsson í Ási beitti sér fyrir. Það keypti kynbótahrúta til Eyja).
1/24 í skipinu Svanur.
36 pund hey hjá Hrútafélaginu.
15 krónur hjá Sigurði hreppstjóra.
Lýsiskútur hjá Ástgeiri í Litlabæ.
Aukaskuld nam kr. 13,18 við héraðslækninn Þorstein Jónsson.

Ekki verður annað séð, en að eiginkonan á Vestri-Löndum hafi verið búin að þaulhugsa þessi hjúskaparmál sín. Sáttafundurinn hjá sýslumanni var haldinn 28. maí. Eftir 2 daga er leyfisbréfið til skilnaðarins dagsett. Þá hefur það legið í Eyjum, verið komið til Eyja, þegar fundur þessi var haldinn. Bréfið er handskrifað að sjálfum amtmanninum. Og strax sama daginn og bréfið er dagsett fær frúin 800 króna lán í Sparisjóði Vestmannaeyja (1893-1919) og greiðir eiginmanninum þessar 900 krónur. Þar með er hún laus við hann og á nú allt bú þeirra. Svo býr hún áfram á Vestri-Löndum með börnum sínum og þeirra hjóna.
Íbúðarhúsið Vestri-Lönd var metið til brunabóta á kr. 2000,00. Húsið var vátryggt hjá Nye Danske Brandforsikringsselskab í Kaupmannahöfn. Árlegt iðgjald kr. 21,00.

Börn hjónanna á Vestri-Löndum voru þessi:

Systkinin frá Vestri-Löndum. Standandi frá vinstri: Brynjólfur og Árni.
Sitjandi: Leifur og Ragnheiður.
  1. Ragnheiður Stefanía Sigfúsdóttir, f. 7. júlí 1883.
  2. Brynjólfur, f. 1. marz 1885.
  3. Árni, f. 31. júlí 1887.
  4. Leifur, f. 4. nóvember 1892.

Árni Sigfússon, f. að Vestri-Löndum 31. júlí 1887. Haustið 1906 sigldi Árni til Kaupmannahafnar og nam verzlunarfræði um veturinn. Síðan var hann skrifstofumaður hjá Thorefélaginu, sem m.a. rak millilanda- og strandferðaskip hér við land um árabil. Árið 1910 stofnaði Árni hér eigin verzlun, og svo efndi hann til útgerðar og var um skeið athafnamikill atvinnurekandi í heimabyggð sinni. Útgerð rak hann síðan til síðustu ára. — Árni kvæntist 11. desember 1915 Ólafíu Árnadóttur frá Gerðum á Miðnesi. Þau eignuðust 5 börn. Eitt þeirra, frú Elín kona Gunnars Stefánssonar frá Gerði er búsett hér í bænum. — Árni Sigfússon lézt í flugslysi 7. marz 1948, er Ansonvél með 4 mönnum, fórst í flugi milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur. — Árni bar ýmis einkenni ættar sinnar, svo að áberandi var. Hann var trygglyndur og vinafastur, gáfaður og íhyglinn.

Leifur Sigfússon, fæddur að Vestri-Löndum 4. nóv. 1892. Stúdent 1913 með 1. einkunn. Cand. phil. 12. júní 1914. Las fyrst læknisfræði í Kaupmannahöfn, þar sem Gísli Brynjólfsson, móðurbróðir hans, var starfandi læknir um árabil. Brátt hvarf Leifur frá því námi og hvarf að tannlæknanámi. Þar lauk hann prófi 1920. Vann hann síðan við tannlækningar í Þrándheimi í Noregi um þriggja ára skeið, síðan suður í Sviss og í Svíþjóð. Samtals mun hann hafa dvalizt erlendis um 13 ára skeið.
Árið 1926 setti Leifur á stofn tannlæknastofu hér í heimabyggð sinni og starfaði hér síðan að tannlækningum til æviloka. — Leifur kvæntist 3. ágúst 1939 Ingrid Jensine (f. Steengaard) frá Veile á Jótlandi. Þeim varð eins barns auðið, búsett kona í Reykjavík. — Leifur er sagður hafa verið trygglyndur maður og vinafastur, samvizkusamur og vandvirkur svo að frábært var, viðkvæmur, orðheldinn og ráðvandur. Hann mátti hvergi vamm sitt vita fremur en margir forfeður hans og frændur. — Leifur Sigfússon varð bráðkvaddur 25. febrúar 1947.

Ragnheiður Stefanía Sigfúsdóttir, fædd að Vestri-Löndum 7. júlí 1883. Árið 1907 fór hún til Danmerkur og dvaldist þar í 7 ár. Fyrstu árin var hún þar við nám. Fyrst hóf hún hjúkrunarnám, en hætti því innan tíðar og aflaði sér menntunar til „munns og handa“ í ýmsum dönskum skólum. T.d. stundaði hún nám við Lýðháskólann í Askov sumarið 1908. — Ragnheiður sigldi frá Kaupmannahöfn til Bandaríkjanna veturinn 1914 og kom þá við á Azoreyjum á leiðinni. Þær hafa verið henni undralönd síðan. — Í Bandaríkjunum hefur hún átt heima síðan eða 53 ár. Um mörg ár var hún yfirhjúkrunarkona við sjúkrahús þar vestra. Ekki er annað vitað, en að hún sé enn á lífi, þegar þetta er ritað, 83 ára (1967).


Við skilnað þeirra hjóna sótti Sigfús Árnason um lausn frá póstafgreiðslustarfinu um stundarsakir. Fékk hann þá jafnframt leyfi til að fela Gísla J. Johnsen, kaupmanni, frænda sínum, að annast póstafgreiðsluna í Vestmannaeyjum fyrir sig. Eftir það kom Sigfús aldrei aftur að póstafgreiðslustarfinu. Hann afréð að hverfa alfarinn úr Eyjum síðla hausts 1904. Fór hann þá vestur til Ameríku. Þar settist hann fyrst um sinn að í West-Selkirk í Manitobafylki. Þar dvaldist hann 2-3 ár og vann að húsasmíðum með Vestmannaeyingi, sem fyrr hafði flutzt vestur, Guðjóni Ingimundarsyni frá Draumbæ. Árið 1906 eða 1907 flyzt Sigfús Árnason til Winnipeg og á þar heima um árabil. Þar vann hann einnig að húsasmíðum, þegar hann var ekki atvinnulaus með öllu, og lifði þá við mjög bág kjör eins og fleiri þar á þeim árum. Í Winnipeg keypti hann sér íbúðarhús, meðan allt lék honum þar í lyndi og næg var atvinnan. En svo tók að dökkna í álinn fyrir honum.
Veikindi og atvinnuleysi steðjaði að. Þá þráði hann ekkert fremur en að komast heim í skaut ættjarðarinnar. Hann vissi þá börnin sín munaðarlaus heima, því að móðir þeirra var fallin frá. Þetta var á árunum 1907-1909. Eftir það er mér, sem þetta skrifar, ævi Sigfúsar Árnasonar ókunn, þar til hann kom heim 1915. Jónína K. N. Brynjólfsdóttir bjó áfram á Vestri-Löndum með börnum sínum, eins og fyrr getur. Brynjólfur, sonur þeirra hjóna, gerðist nú fyrirvinna heimilisins og mesta hjálparhella móður sinnar. Hann er búðarmaður hjá Bryde kaupmanni, þegar hér er komið sögu, og verður nánar greint frá honum þar í þætti hans hér á eftir.
Þegar Sigfús Árnason hvarf úr sveitarfélaginu, voru dagar Söngfélags Vestmannaeyja þar með taldir. Slokknað hafði á menningarvita í Vestmannaeyjum. Ennþá var þó söngkórinn hans Jóns Á. Kristjánssonar við lýði og það lýsti af honum endur og eins. (Sjá grein um hann hér á öðrum stað í ritinu).
Og nú færðist smám saman líf í söng og tónlistarstörf Brynjólfs Sigfússonar á Löndum, hins unga tónlistarmanns, sem forsjónin hafði ætlað það hlutverk að feta í fótspor föður síns, halda fram með hið gagnmerka menningarstarf hans í söng- og tónlistarmálum Vestmannaeyinga.


Andlát Jónínu


Jónína K. N. Brynjólfsdóttir hafði um árabil þjáðst af brjóstveiki. Sumarið 1906 veiktist hún alvarlega og var flutt í sjúkrahús í Reykjavik. Hún var lögð inn á „St. Josefs Hospital“ í Reykjavík 23. ágúst um sumarið. Þar lá hún 85 daga.
Jónína K. N. Brynjólfsdóttir lézt í Reykjavík 16. nóv. 1906. Svo var ráð fyrir gert, að lík hennar yrði sent heim til Vestmannaeyja og jarðsett þar. Þess vegna var smíðuð járnkistan, sem nefnd er í útfararreikningnum hér á eftir. En þegar til kom, neitaði Aasberg skipstjóri á póstskipinu Lauru að flytja kistu Jónínu sálugu til Eyja. Það gerðu fleiri skipstjórar, sem áttu leið til Eyja á þessum tímum. Jónína Brynjólfsdóttir var því jarðsett í Reykjavík. Ragnheiður dóttir hennar fylgdi móður sinni til grafar, því að hún var stödd þar, þegar móðirin andaðist. Árni sonur þeirra hjóna var við nám í Kaupmannahöfn. Bræðurnir Brynjólfur og Leifur urðu að gera sér það að góðu að sitja heima á Löndum sökum samgönguleysis.
Hinn 11. desember eða um það bil þrem vikum eftir jarðarförina skrifaði Brynjólfur á Löndum föður sínum til Winnipeg og sagði honum fréttina um fráfall móðurinnar. Daufir eru og dapurlegir dagarnir hjá okkur systkinunum heima á Löndum, tjáði sonurinn föður sínum. „Okkar hjartkæra móðir er fallin frá og faðirinn vestur í Ameríku. Já, við erum búin að missa okkar hjartkæru, heittelskandi móður. Þar er skarð fyrir skildi.“ ... Og jólin 1906 komu til systkinanna á Löndum eins og annarra. Aldrei söknuðu þau hinnar ástríku móður sinnar sem þá. Þar urðu í rauninni engin jól. Allt var svo nátengt móðurinni, ástríki hennar og umönnun, líka jólafagnaðurinn.
Eftir nýárið 1907 skrifar faðirinn fyrsta bréf sitt heim til barnanna, eftir að hafa frétt andlát konu sinnar. Hann skrifar: „Hin sæla framliðna móðir ykkar var mér einnig jafn hjartkær eins og hún hafði nokkru sinni verið, áður en nokkuð ósætti átti sér stað okkar á milli. Öllu þessu hafði ég gleymt og útrýmt úr huga mínum fyrir löngu.“ Ekki kemur mér til hugar að efast um það, að Sigfús Árnason sagði þetta satt. Hann elskaði konuna sín og börnin sín umfram allt. Ýmsar persónulegar heimildir hafa sannfært mig um það. Einnig eftir að hann neyddist til að hverfa frá þeim öllum.
Þetta allt er átakanleg harmsaga sem gerðist, getur gerzt og gerist e.t.v. daglega. Saga þessi er afleiðing af gildri orsök. Og orsökin er sú, að okkar mæti gáfumaður og menningarviti Eyjafólksins á sínum tíma, gleymdi að gæta hamingjueplisins í hendi sér. Hann glopraði því frá sér. Óhamingjan sótti hann heim. Þetta skildi Sigfús Árnason nú, atvinnu- og umkomulaus vestur í Ameríku, sá það brátt eftir að ógæfan dundi yfir. Nú mátti hann muna fífil sinn fegri. Nú þráði hann ekkert frekar en að komast heim til barnanna sinna og styrkja þau og aðstoða. En allar leiðir voru honum bannaðar sökum atvinnuleysis og fjárskorts, sem af honum hlauzt. Á árunum 1908-1910 lætur hann börnin lítið af sér vita. Það undrast þau. Sú þögn kom ekki af góðu. Hann var peningalaus af því að atvinnuleysi og krepputímar þar vestra hömluðu því, að hann gæti selt íbúðarhús það, sem hann átti í Winnipeg. Jón bróðir hans, verzlunarmaður í Reykjavík, lánaði Leifi Sigfússyni námsfé með þeirri von, að úr rættist fyrir föður hans, svo að hann gæti staðið við orð sín við drenginn, þ.e. að styrkja hann til langskólanáms.
Gísli Engilbertsson, fyrrverandi verzlunarstjóri við Juliushaab-verzlunina, Tangaverzlunina, orti ljóð eftir Jónínu húsfreyju á Vestri-Löndum. Ég leyfi mér að birta það hér. Verzlunarstjórinn þekkti vel heimilið á Löndum og gat því „trútt um talað“. Hann þekkti það vel, meðan allt lék í lyndi fyrir hinum mætu hjónum. Hann kynntist því líka og þekkti, eftir að óhamingjan dundi yfir, harmsagan byrjaði og fékk hinn dapurlega endi.
Ljóðið veitir einnig athugulum lesendum nokkra hugmynd um hina göfugu hugsun höfundarins og einlæga trú.

Frú Jónína Brynjólfsdóttir
Fædd 14. ágúst 1856
Dáin 16. nóv. 1906
Eikur fölna, falla lauf og blómin,
forlaganna þola verða dóminn.
Dagur styttist, döpur vetrarnóttin
drottna tekur yfir hugum manna,
þar sem gistir, er fæddi sóttin,
svefn og ró þær jafnan vilja banna,
grafa skugga skykkjum dökkum klæddar,
skilaboð nær flytja þær í ranna.
Skilaboð frá hæstum alvaldsheimi,
hér að dauðinn vera skuli á sveimi
til að flytja fólk á milli stranda,
flytja það úr lífsins reynsluskóla
inn í hallir ljóssins dýrðarlanda,
ljómans njóta ódauðleikans sóla,
fagna þar í faðmi kærra vina,
frelsið þakka náðarríkum sjóla.
Hún, sem lifði hér með oss á foldu,
friðar naut á fögru æskuskeiði,
foreldrarnir kenndu henni að trúa,
enda sá hún ljós á föðurleiði,
liðin vildi hans við síðu búa.
Heitum tárum hafði vini grátið,
hennar sorg í gleðibros þeir snúa.
Berst nú fregnin brátt á milli landa,
búinn lífi dauðinn sé að granda.
Allt í kring hún átti vini kæra,
aldni móður þung mun fréttin verða,
sem að héðan sorgarbréfin færa,
seinna finnast, von mun þó ei skerða,
saman búa svo í ljóssins ranni.
svölun hljóta eftir volkið ferða.
Hér við kveðjum hugum ljúfan svanna,
heimi í sem blítt og trútt nam kanna,
gleðisólin gengin var í æginn,
geigvænn dauðinn veifði bitru sverði,
napur súgur náttað hafði bæinn,
nótt og dag, þótt börnin stæðu á verði,
heitt sem unnu elskuríkri móður,
ástin viðkvæm tár af vanga þerrði.
Sómi kvenna seint og snemma reyndist,
svipur tiginn engum manni leyndist,
gáfum búin, glaðvært hafði sinni,
gegndi köllun vel um sína daga,
lystakonan líður ei úr minni,
letruð þótt ei verði hennar saga.
Fegri sól og friðar bogans litum
fagnar sá í lífsins blóma haga.
Gísli Engilbertsson

Og séra Friðrik Friðriksson í Reykjavík var fenginn til að yrkja ljóð eftir Jónínu húsfreyju:

Lag: Hinn signaða dag.

Hún átti fyr vor og sumarsól
og síungar vonir blíðar.
Og yndisdrauma' um æsku ból,
með unaði gæfu tíðar.
En blóm fölnar skjótt á skapanótt,
er skyggja að vetrarhríðar.
Það móðurhjarta nú hljóðnað er,
sem heilaga elsku geymdi.
Og börnin sín fyrir brjósti sér,
æ bar og þeim aldrei gleymdi.
Til blessunar þeim í hálum heim,
frá hjartanu bænin streymdi.
Er strangur var kross og þjáning þung,
hún þolinmóð beið síns dauða.
Í vetrarneyð spratt upp vonin ung,
sem vorblóm í hörmung nauða.
Í sigrandi ró hún síðan dó,
en sorga hér byljir gnauða.
Frá ástvinum fjarri andvarp strítt,
hér ómar um kistufjalir.
Og heima hér gráta börnin blítt,
nú blasa við himnasalir.
Þau gleðjast í trú, því gott átt þú,
og engar þig angra kvalir.
Við sólarlag fagurt sofðu rótt,
unz sól rís upp betri tíða.
Vér syrgjum þig blítt, en syrgjum hljótt,
því sæl skín oss vonin blíða:
Að hver stillist und, og að fegins fund
sé fljótt og sælt að líða.
Fr. Fr.

Af einskærri tilviljun hefi ég í höndum reikning yfir kostnað við greftrun Jónínu Brynjólfsdóttur húsfreyju. Hann felur í sér ekki ómerkan fróðleik fyrir þá, sem leita sér fræðslu með því að bera saman þátíð og nútíð.
Jón Árnason, verzlunarmaður í Reykjavík, bróðir Sigfúsar, sá um útför Jónínu Brynjólfsdóttur og greiddi alla útfararreikningana. Brynjólfur sonur hennar og nánusta frændur endurgreiddu síðan Jóni allan kostnaðinn.
„Útgjöld vegna dauða móður þinnar:“

1 líkkista kr. 50,00
Fr. Bjarnason, smíði — 6,00
P. Jónsson, járnkista —25,00
Auglýsing í dagblaði — 1,00
M. Matthíasson, reikn. —39,84
Kaffi til líkmanna — 1,50
Til séra Friðriks — 8,00
Ísafold — 9,50
Líkklæði — 4,25
Séra Jón Þorkelsson — 8,00
Samtals kr. 153,09

Séra Friðrik Friðriksson flutti húskveðjuna og orti ljóðið samkvæmt beiðni. Séra Jóhann Þorkelsson flutti ræðu í kirkju og jarðsöng.
Í reikningi M. M., kirkjugarðsvarðar felst:

Legkaup kr. 3,84
Greftrun —24,00
Til organista —10,00
Til hringjara —2,00
Alls kr. 39,84

Ísafold: Prentun á minningarljóði birting þakkarorða.
Auk þessa reiknings barst auðvitað reikningur frá sjúkrahúsinu: 85 legudagar á 2/-.. kr. 170,00

Leifur Sigfússon, yngsta barn þeirra hjóna, Sigfúsar og Jónínu, gekk menntaveginn, sem kallað var, og varð tannlæknir, svo sem mörgum eldri Eyjabúum er kunnugt, því að hann rak hér tannlækningastofu í Eyjum síðustu æviárin. Sönnur eru fyrir því, að Leifur naut námsstyrks frá föður sínum flest menntaskólaárin sín og ef til vill lengur.
Sigfús Árnason, fyrrverandi organisti í Vestmannaeyjum, póstafgreiðslumaður þar, þingmaður og m.fl., kom aftur heim til átthaganna, Vestmannaeyja, 23. des. 1915 eftir 11 ára dvöl vestan hafs.
Sigfús settist þá að hjá Árna syni sínum og konu hans Ólafíu Árnadóttur. Árni Sigfússon var þá mikill athafnamaður í Eyjum, rak þar bæði útgerð og verzlun.

Verzlunarhús Árna Sigfússonar frá Vestri-Löndum að Heimagötu 1 hér í bæ.—
Íslandsbanki eignaðist hús þetta á sínum tíma og var fluttur í það 1929 og starfræktur þar til sinnar aldurstilastundar eða þar til í apríl 1930. Þá tók Útvegsbanki Íslands við húsinu, og var hann starfræktur þar til 1956, en þá var hann fluttur í nýbyggingu sína við Kirkjuveg.


Sigfús gerðist fyrst innanbúðarmaður hjá Árna syni sínum. Þá atvinnu stundaði hann nokkra mánuði. Þá réðist hann næturvörður hér í kaupstaðnum. Því starfi gegndi hann þar til 1918, er sveitarfélagið fékk bæjarréttindi. Þar með voru lögð niður hreppstjórastörfin. Sveinn Pálsson Scheving á Hjalla við Vestmannabraut var síðasti yfirhreppstjóri í Vestmannaeyjum. Hann gerðist næturvörður 1918, er hreppstjórastaðan var úr sögunni. Þá hætti Sigfús Árnason því starfi.
Hann var lengst af á vegum Brynjólfs sonar síns síðustu árin, sem hann lifði og átti eitthvað við húsamálningar í Eyjum. Sigfús Árnason andaðist 5. júní 1922. Sigfús Árnason var sannkallaður brautryðjandi hér um kirkjusöng og almenna sönglist. Hann var ötull og athafnasamur hugsjónamaður, sem vann sveitarfélagi sínu ómetanlegt gagn bæði í organistastarfinu, söngstjórastarfinu og kennslu tónlistar í heimahúsum. Síðast skal það nefnt en ekki sízt, að hann lagði grundvöllinn að framhaldi þess mikilvæga menningarstarfs með því að kenna syni sínum Brynjólfi tónlist og söngstjórn, svo sem komið verður inn á í framhaldi þessa greinarflokks um þessa menningarfrömuði hér í Eyjum mann fram af mann, ættlið eftir ættlið.
Minna mætti á, að Sigfús Árnason liggur enn óbættur hjá garði. Er það Eyjabúum vansalaust? * Ekki vitum við, hver fyrstur keypti orgelið Brydesnaut af Landakirkju. En við í Byggðarsafnsnefnd Vestmannaeyja fundum það með góðra manna hjálp suður á Grímsstaðaholti í Reykjavík árið 1958. Þar hafði sextug kona átt það í 48 ár. Faðir hennar hafði keypt þetta notaða orgel handa henni, er hún var 12 ára gömul.

Þ.Þ.V.


Söngfélag Vestmannaeyja

Til baka