Hildur Solveig Thorarensen

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Hildur Solveig Bjarnadóttir Thorarensen húsfreyja og sýslumannskona fæddist 31. ágúst 1835 á Möðruvöllum í Hörgárdal og lést 21. júlí 1915.
Foreldrar hennar voru Bjarni Thorarensen Vigfússon amtmaður, skáld á Möðruvöllum í Hörgárdal, f. 30. desember 1786, d. 24. ágúst 1841, og kona hans Hildur Bogadóttir Thorarensen húsfreyja, f. 4. júní 1799, d. 14. nóvember 1882.

Hildur var með foreldrum sínum í Friðriksgáfu á Möðruvöllum 1840. Hún missti föður sinn 6 ára gömul, var með móður sinni á Staðarfelli í Dölum 1845, en þar bjó þá Bogi Benediktsson móðurfaðir hennar. Hún var þar enn 1850 og 1855 með ekkjunum móður sinni og ömmu sinni.
Hildur var 25 ára hjá Brynjólfi móðurbróður sínum í Flatey á Breiðafirði 1860.
Þau Bjarni Einar giftu sig 1860, fluttust til Eyja 1861, bjuggu í fyrstu í Pétursborg (fyrri) og þar fæddist Guðmundur á árinu. Þau voru komin í Nöjsomhed í lok ársins, en séra Brynjólfur Jónsson hafði þá flust þaðan að Ofanleiti. Í Nöjsomhed bjuggu þau alla dvöl sína í Eyjum, en sýslumaðurinn hafði án árangurs reynt að fá styrk til að byggja veglegri bústað.
Þau eignuðust Brynjólf Benedikt 1865.
1872 fluttist fjölskyldan að Geitaskarði í Langadal, en Bjarni Einar hafði þá fengið veitingu fyrir Húnavatnssýslu.
Þau eignuðust Pál Vídalín á Geitaskarði.
Bjarni Einar lést 1876, en Hildur bjó áfram á Geitaskarði, var þar með Páli Friðriki syni sínum. Hún var hjá Brynjólfi syni sínum í Þverárdal 1890 með Pál Friðrik hjá sér. Þar var hún enn 1901, en 1910 var hún í skjóli sonar síns Páls Friðriks sýslumanns á Sauðárkróki.
Hún lést 1915.

Maður Hildar Solveigar, (1860) var Bjarni Einar Magnússon sýslumaður, f. 1. desember 1831, d. 25. maí 1876.
Börn þeirra voru:
1. Guðmundur Scheving Bjarnason læknir, f. 27. júlí 1861 í Pétursborg (hinni fyrri), d. 24. janúar 1909.
2. Ásthildur Herdís Bjarnadóttir, f. 29. september 1862, d. 29. september 1864 úr brjóstveiki.
3. Brynjólfur Benedikt Bjarnason bóndi í Þverárdal í A-Hún., f. 8. september 1865 í Nöjsomhed, d. 5. desember 1928.
4. Páll Friðrik Vídalín sýslumaður, síðast í Snæfells- og Hnappadalssýslu, f. 16. október 1873 á Geitaskarði í Langadal, d. 28. október 1930.


Heimildir

  • Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
  • Íslendingabók.is.
  • Íslenzkar æviskrár. Páll Eggert Ólason og fleiri. Hið íslenzka bókmenntafélag 1948-1956.
  • Manntöl.
  • Prestþjónustubækur.


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.