Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1979/Minning látinna

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
MINNING LÁTINNA


Á sjómannadegi minnast Vestmannaeyingar þeirra, sem horfið hafa úr hópnum, bæði sjómanna og annarra þeirra, sem nærri sjómannastéttinni hafa staðið gegnum árin.
Á undanförnum mánuðum hafa mörg skörð verið höggvin í íslenska sjómannastétt og sjóslys og óhugnanleg tíð um land allt.
Vestmannaeyingar hafa ekki farið varhluta af sjóslysum á þessum tíma. 1. október s.l. féll ungur maður fyrir borð á b.v. Klakki og fannst ekki þrátt fyrir mikla leit.
Og það voru daprir dagar í mars í vetur, þegar sú fregn barst, að m/b Ver Ve 200 hefði farist og með honum 4 sjómenn á besta aldri. Það var mikil blóðtaka fyrir sjómannastéttina og bæjarfélagið og opinberar okkur enn þau sannindi, hve skammt er milli lífs og dauða á sjónum og hvílík áhætta fylgir þessum aðalatvinnuvegi þjóðarinnar.
Á liðnum árum hefur það verið venja í Sjómannadagsblaðinu að minnast í örfáum orðum þeirra, sem kallaðir hafa verið yfir landamæri lífs og dauða. Um leið og þeirra er minnst, senda sjómenn í Vestmannaeyjum hluttekningarkveðjur þeim er um sárt eiga að binda vegna látinna ástvina.
En við skulum jafnframt minnast þess, er segir í Hávamálum hinum fornu:
Deyr fé,
deyja frændur,
deyr sjálfur ið sama.
En orðstír deyr aldregi,
hverjum sér góðan of getur.

Óskar P. Einarsson.

Óskar P. Einarsson, Stakkholti
F. 11. jan. 1908 - D. 21. maí 1978.
Óskar var fæddur að Krossi í A-Landeyjum, sonur hjónanna Einars Nikulássonar og Valgerðar Oddsdóttur. Hann ólst upp í Landeyjunum en kemur hingað til Eyja 17 ára að aldri á vertíð eins og svo margir aðrir Landeyingar. 11 vertíðir réri hann hér með hinum góðkunna aflamanni Karli Sigurðssyni frá Litlalandi. Óskar flutti síðan til Eyja alkominn 1935. Hann hóf nám í skipasmíði hjá Gunnari Marel Jónssyni og vann hjá honum allt til ársins 1947 en hóf þá störf hjá lögreglunni, þar sem hann starfaði allt fram til ársins 1976, er hann lét af störfum vegna veikinda.
Sennilega minnast flestir Vestmannaeyingar Óskars fyrir störf hans í lögreglunni, þar sem hann gat sér mjög gott orð fyrir lipurð og lagni í störfum. Reyndist honum í því starfi betur að beita lagni en kröftum, þótt ekki væri honum afls vant, því á yngri árum þótti hann lagtækur glímumaður og var alla tíð mikill unnandi íslenskrar glímu. Þá var Óskar vel lesinn, einkum í fornsögunum, sem hann mat mikils.
Eftirlifandi kona hans er Guðný Svava Gísladóttir frá Arnarhóli.

Magnús Magnússon

Magnús Magnússon
frá Vesturhúsum
F. 12. sept. 1905 - D. 26. maí 1978.
Hann var fæddur að Vesturhúsum sonur Magnúsar Guðmundssonar útvegsbónda og Jórunnar Hannesdóttur. Strax á unga aldri komst hann í snertingu við atvinnulífið í byggðarlaginu eins og aðrir Vestmannaeyingar. Á Vesturhúsum snerist allt um sjóinn og sjósókn meðan á vertíðinni stóð en síðan tóku við aðrir hefðbundnir atvinnuvegir í Eyjum svo sem eggja og fuglataka.
Það fór enda svo, að Magnús frá Vesturhúsum lagði ekki fyrir sig sjómennsku sem ævistarf, þótt ungur lærði hann áralagið. En áhuginn fyrir úteyjarlífinu skildi aldrei við hann meðan hann lifði og dauft hefði honum pótt yfir því sumri, sem hann hefði ekki komist suður í Álsey.
Magnús lærði trésmíði hjá Jóhanni Jónssyni frá Brekku og varð húsasmíða- og húsgagnasmíðameistari. Smíðarnar urðu síðan starfsvettvangur hans og ásamt öðrum stofnaði hann fyrirtækið Smið h/f árið 1945, sem starfaði allt fram að gosi og raunar nokkurn tíma eftir gos.
Magnús átti sér mörg hugðarefni utan atvinnu sinnar, hann var virkur félagi í Iðnaðarmannafélaginu og heiðursfélagi þar. Hann taldi bindindissemi allra dyggða besta og var annálaður reglumaður. Alla sína tíð fylgdi hann Sjálfstæðisflokknum að málum og vann mörg störf fyrir þann flokk. Þá voru ekki leiknir margir leikir á íþróttavellinum, svo að Magnús væri ekki mættur þar, enda var hann eldheitur Týrari alla tíð.
Þótt Magnús stundaði lítt sjó á sinni lífsleið, skildi hann mjög vel, að það er á sjósókn og fiskvinnslu sem allt okkar líf byggist á, ekki aðeins hér í Eyjum heldur afkoma allrar þjóðarinnar. Margoft benti hann á, hver nauðsyn það er að hlúa sem best að þessum undirstöðuatvinnuvegi og varaði við því að kippa stoðunum þar undan.
Eftirlifandi kona Magnúsar er Kristín Margrét Ásmundsdóttir frá Seyðisfirði.

Kjartan Jónsson

Kjartan Jónsson
Faxastíg 8
F. 13. 8. 1904 - D. 2. 6. 1978.
Kjartan var fæddur að Drangshlíðardal undir Austur-Eyjafjöllum sonur hjónanna Elínar Kjartansdóttur og Jóns Bárðarsonar og ólst upp með foreldrum sínum fram undir tvítugt. Þá fer hann til Reykjavíkur og stundar sjómennsku á togurum í nokkur ár. Segir það nokkuð um hann, því á þeim árum voru það einungis harðduglegir menn sem fengu skiprúm á togurum, enda óhemju erfiði og vökur, sem fylgdu starfinu þá.
Kjartan kom hingað til Eyja 1928 og stundaði sjóinn allmörg ár, m.a. var hann formaður hér nokkrar vertíðir. En fertugur að aldri fór hann í Iðnskólann og lauk þaðan prófi í vélsmíði, hafði þá reyndar starfað nokkur ár í Vélsmiðjunni Magna. Þar varð svo starfsvettvangur hans til æviloka. Alla tíð bar hann hag fyrirtækisins mjög fyrir brjósti auk þess sem hann var þekktur fyrir dugnað og ósérhlífni í starfi. Í útgerðarbæ eins og Vestmannaeyjum er ævinlega brýn þörf fyrir kunnáttumenn í vélsmíði og margt handtakið hafði Kjartan unnið á lífsleiðinni í þágu flotans, áður en yfir lauk. Lengst af var hann heilsugóður og hreystimenni. En 1976 fann hann til þess sjúkdóms, sem honum varð að aldurtila.
Eftirlifandi kona Kjartans er Ragnhildur Jónsdóttir frá Seljavöllum undir Austur-Eyjafjöllum.

Helgi Þorsteinsson

Helgi Þorsteinsson
Heiðarvegi 40
F. 2. des. 1904 - D. 23. júni 1978.
Helgi var fæddur að Upsum í Svarfaðardal, sonur hjónanna Þorsteins Jónssonar og Önnu Benediktsdóttur. Ungur byrjaði hann að róa hér á vertíðum og 1932 flyst hann hingað alkominn. í 10 ár var hann vélstjóri á Gissuri hvíta hjá Alexander heitnum Gíslasyni frá Landamótum. Eftir að Helgi hætti sjómennsku vann hann í 27 ár sem vélstjóri hjá Vinnslustöðinni.
Helgi fékk hvarvetna gott orð, bæði frá félögum sínum og vinnuveitendum. Hann var lipurmenni og góður í umgengni og annálað snyrtimenni í umgengni við vélar. Þá unni hann og mjög þjóðlegum fróðleik og ljóðlist eins og Skagfirðingi sæmir. Eftirlifandi kona hans er Hulda Guðmundsdóttir frá Hrafnagili.

Valdimar Ástgeirsson

Valdimar Ástgeirsson
frá Litlabæ
F. 19. sept 1898 - D. 26. júlí 1978.
Valdimar var fæddur í Litlabæ hér í Vestmannaeyjum, sonur Kristínar Magnúsdóttur og Ástgeirs Guðmundssonar bátasmiðs. Systkinahópurinn var stór í Litlabæ og lífsbaráttan hörð á þeim tímum. Valdimar þurfti því snemma að taka til hendinni og vandist flestum störfum til sjós og lands í uppvextinum. Því hélt hann áfram er hann komst til fullorðinsára og var hann til að mynda eftirsóttur flatningsmaður.
Þrátt fyrir erfið kjör á lífsleiðinni var Valdimar ævinlega léttur í lund, glaður og kátur á hverju sem gekk og sérlega barngóður. Þegar brauðstritinu sleppti var það hans mesta ánægja að ganga á vit leiklistarinnar. Um margra ára skeið var hann prímus mótor í Leikfélagi Vestmannaeyja og ýmist lék þar eða stjórnaði sýningum.
Lengst af bjó Valli í húsinu Bræðraborg, sem fór undir hraun í gosinu.
Vestmannaeyjar voru starfsvettvangur hans, hér fæddist hann, lifði og starfaði og hér vildi hann bera beinin. Þann tima sem hann bjó í Hveragerði man ég vel eftir Valla í Litlabæ, þar sem hann stóð keikur með hönd á enni og horfði í átt til Eyja. Það leyndi sér ekki hvert hugurinn leitaði.
Eftirlifandi kona Valdimars er Þórodda Loftsdóttir frá Uppsölum.

Alfreð Þorgrímsson.

Alfreð Þorgrímsson
Faxastíg 42
F. 23. nóv. 1914 - D. 25. ágúst 1978.
Alfreð var fæddur að Háamúla í Fljótshlíð og voru foreldrar hans þau Guðný Pálsdóttir og Ágúst Þorgrímur Guðmundsson. Var hann elstur 14 systkina. Meðan hann var í æsku fluttust foreldrar hans fyrst í Hvolhrepp en síðan hingað til Eyja árið 1922 og hér var heimili Alfreðs upp frá því.
Strax eftir fermingu byrjaði Alfreð sjómennsku og var hann lengstan hluta ævi sinnar til sjós, lengst af sem vélstjóri, en próf í vélstjórn tók hann ungur. Var samviskusemi hans viðbrugðið og þótti umgengni hans í vélarrúmi ævinlega til sóma og öðrum til eftirbreytni. Vegna veikinda þurfti Alfreð að hætta sjómennsku fyrr en hann sjálfur hefðí óskað en skömmu eftir að hann fór í land gerðist hann starfsmaður Rafstöðvarinnar í Vestmannaeyjum, þar sem hann vann í nær 20 ár. Þá hóf hann störf hjá Áfengisversluninni hér í bæ, þar sem hann starfaði allt til ársins 1977.
Alfreð var mikill dýravinur, skepnuhald var honum mjög hugleikið og um margra ára skeið hafði hann sauðfé og var í hópi þeirra, sem höfðu fé sitt í Elliðaey yfir sumartímann. Mér eru minnistæðar margar Elliðaeyjarferðir, þar sem Alfreð var með, traustur maður og ábyggilegur. Eftir að Alfreð hætti að hafa sauðfé tók hann mikilli tryggð við aðra ferfætlinga og áttu kettir ævinlega friðland hjá honum, var það mikið umstang og mörg spor, sem hann á sig lagði til að ná í soðningu handa þeim vinum sínum.
Alfreð var maður félagslyndur og stéttvís, sem best má á því merkja, að hann sat í stjórn Vélstjórafélags Vestmannaeyja í 30 ár lengst af gjaldkeri félagsins, auk þess sem hann var nokkurs konar óformlegur framkvæmdastjóri félagsins. Það má hiklaust fullyrða, að Vélstjórafélagið eigi honum meira að þakka en nokkrum öðrum, sem þar hefur nálægt komið á ferli þess féiags. Meðal annars starfaði hann ötullega að aukinni menntun vélstjóra hér í Eyjum.
Konu sína Sigríði B Jósafatsdóttur missti Alfreð árið 1977.

Ólafur Ólafsson

Ólafur Ólafsson
frá Hvanneyri
F. 5. des. 1900 - D. 8. ágúst 1978.
Hann var fæddur á Vopnafirði og ólst þar upp í stórum systkinahópi. Fljótlega fór hann að stunda sjó með föður sínum til að afla fjölskyldunni bjargar og hefur án efa fengið þar það veganesti, sem vel átti eftir að duga honum í starfi sínu seinna meir.
Ólafur kvæntist árið 1937 Helgu Hansdóttur frá Kjalarnesi og stofnuðu þau heimili hér í Eyjum, fyrst í Ásum við Skólaveg og síðar að Hvanneyri við Vestmannabraut og var Ólafur oft við það hús kenndur. En þekktastur mun hann þó hafa verið sem Óli á Létti, enda var hann skipstjóri á honum, allt frá því hann kom hingað og þar til hann lét af störfum árið 1967. Það var erilsamt starf og vandasamt, sem hann skilaði með prýði.
Þótt Ólafur væri ekki innfæddur Vestmannaeyingur, var hann Vestmannaeyingur í húð og hár, hér átti hann heima og hvergi annars staðar, enda var hann einn hinna fyrstu, sem hingað snéru á ný eftir gos. Hann var maður orðfár en orðheldinn og drengskaparmaður í hvívetna.

Sigurður Þórðarson

Sigurður Þórðarson
Boðaslóð 2
F. 24. jan. 1894 - D. 10. ágúst 1978.
Þótt Sigurður Þórðarson hafi ekki stundað sjó héðan frá Vestmannaeyjum, var starf hans svo nátengt sjávarútvegi, að vart er annað hægt en minnast hans hér með örfáum orðum. Hann var fæddur í Vestur-Skaftafellssýslu 1894, en hingað til Vestmannaeyja fluttist hann ásamt konu sinni Margréti Stefánsdóttur árið 1923. Hann byggði húsið að Boðaslóð 2 og var þar heimili hans lengst af.
Sigurður starfaði hjá Hraðfrystistöð Vestmannaeyja nær óslitið frá því hann kom hingað og meðan honum entist aldur og heilsa. Sigurður var maður, sem ekki lét mikið fyrir sér fara, hann sóttist ekki eftir þessa heims gæðum. En þeir sem kynntust honum, vissu hvern mann hann hafði að geyma og þótt hann safnaði ekki auðæfum af þessum heimi, átti hann þann auð, sem hvorki mölur né ryð fá grandað. Hann var barngóður með afbrigðum og hændust börn mjög að honum. Er mér sagt, að öll börn í nágrenninu hafi kallað hann afa.
Starf verkamannsins vill oft gleymast og verða lítils metið en því skulum við ekki gleyma, að það er með samstilltu átaki verkamanna til sjós og lands, sem grundvöllurinn er lagður að efnahagslegri afkomu okkar. Þess vegna minnumst við Sigurðar í dag.

Júlíus Jónsson

Júlíus Jónsson
frá Stafholti
F. 31.jótí 1895 - D. 4. sept. 1978.
Hann var fæddur að Krókatúni undir Vestur-Eyjafjöllum og ólst þar upp. Ungur að aldri fór hann á vertíðir hér í Vestmannaeyjum eins og siður sveitunga hans. Hann kvæntist 1919 Sigurveigu Björnsdóttur úr sömu sveit og fluttust þau til Vestmannaeyja og hófu búskap hér fyrst í húsinu Hvíld en 1921 fluttu þau í húsið Stafholt, sem Júlíus var ævinlega kenndur við síðan. Fyrstu árin hér í Eyjum stundaði Júlíus sjóinn og átti um tíma hlut í útgerð. En að því kom, að hann tók að vinna við múrverk, sem varð hans aðalstarf upp frá því. Unnu þeir saman hátt á fjórða áratug hann og sveitungi hans Sigurður Sigurðsson, sem lést 1973 og voru einstaklega samhentir í starfi.
Árið 1934 missti Júlíus konu sína frá 6 börnum, því yngsta tæplega tveggja ára. Tóku þá Sigurður félagi hans og Kristín kona hans að sér yngsta barnið og ólu það upp sem sitt eigið. Sýnir það nokkuð þann vinarhug, sem ríktí milli þessara vinnufélaga.
Árið 1938 kvæntíst Július Gíslínu Einarsdóttur frá Þorlaugargerði. Eignuðust þau saman tvö börn, en annað þeirra lést við fæðingu. Fyrri börnum Júlíusar gekk Gíslína í móðurstað og reyndist þeim sem þau væru hennar eigin böm Gíslína lést árið 1967.
Mikill samgangur var milli Stafholts og æskuheimilis míns í Þorlaugargerði og var ævinlega gott að koma að Stafholti. Þá er mér einnig minnistæð ferð til útlanda árið 1966, þar sem þau Júlíus og Gíslína voru meðal ferðafélaganna. Þar var ekki að sjá, að þau væru einum fjórum áratugum eldri en flestir hinna í ferðinni, slíkur var krafturinn og fjörið.
Júlíus lést 4. september s.l.

Loftur Guðmundsson

Loftur Guðmundsson
rithöfundur
F. 6. júni 1906 - D. 29. ágúst 1978.
Í ágústmánuði síðastliðinn lést Loftur Guðmundsson, rithöfundur. Loftur var hvorki Vestmannaeyingur, né heldur mun hann hafa stundað sjó svo vitað sé, svo ef til vill er von að menn spyrji, hvers vegna hans sé minnst í þessu blaði.
Loftur dvaldi hér í Eyjum um nær tólf ára skeið við kennslustörf og á þeim tíma segir Guðmundur Hagalín, að hann hafi farið að sinna ritstörfum af meiri festu og alvöru en áður. Þá samdi hann á sama tíma ýmis smærri verk og tímabundnari og má þar til nefna skemmtiþátt, sem fluttur var á árshátíð Verðanda 1941 og þótti hreint frábær. Á þessum árum samdi Loftur eitt þekktasta verk sitt, leikritið Brimhljóð, sem sýnt var í Reykjavík 1937 og hlaut mjög góða dóma. En sennilega minnast Vestmannaeyingar Lofts hvað helst fyrir Ijóð sín við lög Oddgeirs Kristjánssonar, t.d. Fyrir austan mána, Svo björt og skær, Glóðir og síðast en ekki síst við hið þekkta sjómannalag Sjómannslíf (Ship-ohoy).
Það er vegna þessa, sem við minnumst Lofts Guðmundssonar í dag, sem fallins samherja. Hann var einn þeirra, sem kunni að gera gráan hversdagsleikann ögn skemmtilegri og slíkum mönnum eigum við aldrei nóg af.

Steindór G. Geirsson

Steindór G. Geirsson
Faxastíg 4
F. 27. des. 1961 - D. 1. okt. 1978.
Hinn 1. október á síðasta ári vildi sá hörmulegi atburður til á skuttogaranum Klakki, að einn skipverjanna, Steindór G Geirsson féll útbyrðis og náðist ekki aftur, þrátt fyrir mikla leit. Það er ævinlega þungbært, þegar dauðinn knýr dyra, en aldrei þó eins og þegar hann heimtar burt ungt fólk í blóma lífsins. Við dauðlegir menn eigum oft erfitt með að sætta okkur við slíka hluti og efumst um tilgang lífsins, þegar slíkir atburðir gerast.
Steindór Guðberg Geirsson var fæddur í Reykjavík, sonur hjónanna Kristínar Önnu Baldvinsdóttur og Geirs Grétars Péturssonar. Hingað til Eyja fluttist fjölskyldan árið 1964 og hér var heimili Steindórs upp frá því. Hér ólst hann upp við leik og starf svipað og aðrir piltar. Hann lauk sínu skyldunámi, en langar setur á skólabekk átti ekki við hann og hann ákvað að stefna í aðra átt. Hann vann við fiskvinnu í landi í eitt ár en ákvað þá að fara á sjóinn. Hann var eina vertíð á Berg, en réðst síðan á skuttogarann Klakk. Þaðan átti hann ekki afturkvæmt.
Steindór var duglegur piltur, áhugasamur og góður félagi. Sjómennska var honum i blóð borin og hann hafði hug á að fara í siglingar og sjá sig um í heiminum.
Enn hefur íslenska sjómannastéttin orðið að færa fórn, en eftir lifir minningin um góðan dreng.

Vignir Sigurðsson

Vignir Sigurðsson
frá Helli
F. 20. des. 1933 - D. 5. nóv. 1978.
Vignir var fæddur hér í Eyjum, sonur þeirra Oktavíu Guðmundsdóttur og Sigurðar Gíslasonar. Hér var heimili hans og starfsvettvangur að frátöldum níu mánuðum árið 1973, þegar hann ásamt öðrum þurfti að flýja héðan vegna gossins.
Hugur hans hneigðist snemma til sjómennsku og sem unglingur hóf hann sjósókn bæði á bátum og togurum. Hann lauk prófi á mótornámskeiði Fiskifélagsins hér í Eyjum og starfaði sem vélstjóri bæði til sjós og síðar í landi. Hann var ósérhlífinn og duglegur og vélstjórastarfinu sinnti hann einstaklega vel. Var snyrtimennsku og þrifnaði í vélarrúmi viðbrugðið hjá Vigga.
Vorið 1973 hætti hann sjómennsku og vann um tíma í Hafnarfirði en þegar hann snéri heim með fjölskyldu sinni um haustið hóf hann störf sem vélstjóri í Eyjabergi hjá Sigurði Þórðarsyni, en hjá honum hafði hann starfað nær samfellt í tvo áratugi. Segir það nokku um, hvers konar starfsmaður Vignir var.
Vignir lést af slysförum 5. nóv. s.l. við störf í Eyjabergi. Eftirlifandi kona hans er Sandra K. Ísleifsdóttir frá London hér í Eyjum.

Runólfur Runólfsson

Runólfur Runólfsson Búðarfelli
F. 29. maí 1892 - D. 16. jan. 1979.
Hann var fæddur að Hörglandskoti á Síðu og voru foreldrar hans Runólfur Sigurðsson og Guðfinna Björnsdóttir. Snemma þurfti hann að taka til höndunum við vinnu og var víða vinnumaður á bæjum í sveitinni. Runólfur var hamhleypa til allrar vinnu og hvorki kunni né vildi hlífa sér. Minnast gamlir menn í Vík enn dugnaðar hans og sömuleiðis þekkja Vestmannaeyingar dugnað hans og ósérhlífni við alla vinnu.
Upp úr 1920 fór Runólfur að sækja vertíðir. Eina vertíð var hann í Grindavík en síðan hér í Eyjum. 1930 kvæntist hann Guðnýju Petru Guðmundsdóttur frá Fáskrúðsfirði og stofnuðu þau heimili hér að |Búðarfelli.
Runólfur var eftirsóttur starfsmaður enda harðduglegur. Fyrstu árin vann hann hjá Gunnari Ólafssyni við fiskverkun en seinna víðar við fiskverkun og sömuleiðis byggingarvinnu. Að öllum verkum gekk hann með því hugarfari að vinna vel og samviskusamlega. Síðustu starfsár sín vann hann hjá Hraðfrystistöðinni en hætti þar störfum 1970 enda aldurinn farinn að segja til sín.
Petra, kona hans lést árið 1976 og eftir það bjó Runólfur hjá sonum sínum hér í bæ.

Birgir Bernódusson

Birgir Bernódusson
frá Borgarhól
F. 4. apríl 1946 - D. 1. mars 1979.
Birgir var fæddur hér í Eyjum sonur hjónanna Aðalbjargar Bergmundsdóttur og Bernódusar Þorkelssonar. Fljótlega stefndi hugur hans á sjóinn og 15 ára gamall fer hann fyrst til sjós og var á togurum lengst af. Hann lauk prófi frá Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum 1972 og starfaði eftir það sem stýrimaður á bátum héðan. Hann þótti dugmikill og góður sjómaður og eftirsóttur í skiprúm. M.a. var hann í rúm 10 ár á sama skipinu, Andvara Ve. Birgir var hæglátur og góður drengur og lítill hávaðamaður, sem ávann sér traust allra, sem kynntust honum.
Sína síðustu sjóferð fór hann sem stýrimaður á m/b Ver, sem fórst á heimleið úr róðri 1. mars s.l. Birgir var kvæntur Theódóru Þórarinsdóttur og áttu þau eina dóttur.

Grétar Skaftason

Grétar Skaftason
Vestmannabraut 67
F. 30.maí 1945 - D. 1. mars 1979. Grétar var fæddur í Reykjavík sonur hjónanna Gunnars Skafta Kristjánssonar og Þuríðar Ágústsdóttur. Grétar kom hingað til Eyja barn að aldri og dvaldist hjá afa sínum og ömmu Guðnýju Pálsdóttur og Ágúst Þorgrími Guðmundssyni meira og minna öll sín bernsku og æskuár. Böndin, sem bundu hann við Vestmannaeyjar voru sterk, hér vildi hann lifa og starfa og hingað kom hann alkominn 18 ára að aldri og átti hér heima æ síðan.
Grétar var mjög fjölhæfur og var honum margt til lista lagt. Áhugamál átti hann mörg, en þar bar tónlistina hæst. Hann var í mörg ár gítarleikari í hljómsveitinni Logum og er sennilega einn besti gítarleikari, sem við höfum átt hér í Eyjum.
Hann var tilfinningamaður og dulur að eðlisfari og ekki á allra færi að nálgast hann. En vinum sínum var hann traustur og áreiðanlegur.
Grétar lauk vélstjóraprófi frá Vélskólanum hér í Eyjum og var vélstjóri á mörgum bátum hér. Hann var góður sjómaður, lipur og laginn og góður í umgengni. Grétar kvæntist árið 1966 Guðnýju Sólveigu Elíasdóttur og áttu þau einn son. Þau slitu samvistum fyrir nokkrum árum.
Sína hinstu för í þessu lífi fór Grétar, þegar m/b Ver fórst hinn 1. mars s.l. Þar var góður drengur kvaddur of snemma burt.

Reynir Sigurlásson

Reynir Sigurlásson frá Reynistað
F. 6. jan. 1946 - D. 1. mars 1979.
Reynir var Vestmannaeyingur, sonur hjónanna Sigurlásar Þorleifssonar og Þuríðar Sigurðardóttur að Reynistað. Það var margt, sem strákarnir í miðbænum gátu haft fyrir stafni á þeim árum, höfnin skammt undan og Lautin framan við eldhúsdyrnar, sá íþróttavöllur, sem ól upp fjölda af góðum íþróttamönnum úr miðbænum. Þau Reynistaðasystkin hafa raunar gert garðinn frægan í íþróttum Vestmannaeyja og þar var Reynir engin undantekning. Hann var góður knattspymumaður á yngri árum og hafði mikla ánægju af þeirri íþrótt.
Ungur fór hann til sjós og sjómennsku gerði hann að ævistarfi. Ég minnist Reynis einkum frá þeim tímum, sem við vorum saman á matreiðslunámskeiði í Ísfélaginu. Það er sagt, að allir eigi við sína erfiðleika að stríða í lífinu og Reynir var engin undantekning þar á. Undir glaðlegu yfirborði þessa skólafélaga míns þóttist ég oft finna umbrot og óróleika, sem hann að vísu bar aldrei á torg. Hann bar sinn kross einsamall, dagfarsprúður og öllum góður nema sjálfum sér.
Starf matsveinsins er oft vanmetið um borð. Það kom oft í hlut Reynis að sjá um matseldina á þeim bátum, sem hann var á og sinnti hann því starfi vel. Ekki taldi hann heldur eftir sér að vinna á dekkinu og var þar góður verkmaður.
Reynir fórst með m/b Ver þann 1. mars s.l. Hann var ókvæntur, en eftirlifandi unnusta hans er Erna Guðjónsdóttir.

Eiríkur Gunnarsson

Eiríkur Gunnarsson
Aðalstræti 16 Rvík
F. 6. júní 1956 - D. 1. mars 1979.
Eiríkur var skipverji á m/b Ver, sem fórst á heimleið úr róðri 1. mars s.l. Eiríkur var ekki Vestmannaeyingur, en þann stutta tíma, sem þessi ungi geðugi piltur var búinn að vera hér hafði hann unnið sér traust og vináttu vegna dugnaðar og góðrar framkomu. Minningar-athöfn um hann fór fram frá Dómkirkjunni í Reykjavík í mars s.l. Sjómannadagsblaðið sendir aðstandendum Eiríks heitins innilegustu hluttekningarkveðjur.

Sigvaldi Heiðar Árnason

Sigvaldi Heiðar Árnason
F. 4.sept 1934 - D. 10 jan. 1979.
Heiðar var fæddur í Svínadal í Kelduhverfi sonur Guðnýjar Sigvaldadóttur og Árna Kristjánssonar. Hingað til Eyja kom Heiðar fyrst 19 ára á vertíð og stuttu seinna fluttist hann hingað alkominn og stofnaði hér heimili. Hann kvæntist Ingu H Ingibergsdóttur frá Sandfelli. Lengi vel bjuggu þau í Hrísnesi við Skólaveg en nokkru fyrir gos voru þau flutt í nýtt hús í Hrauntúninu.
Heiðar stundaði sjó lengst af ævinni eða meðan heilsan leyfði, en hann gekk aldrei heill til skógar og háði það honum mjög. Aldrei bitnaði það þó á vinnufélögum hans til sjós og hlaut hann alls staðar hið besta orð, þar sem hann réri. Eftir að heilsan bilaði og hann varð að fara í land, vann hann hjá Esso hér í bæ og ók þar olíubíl. Hann var í því starfi hið mesta lipurmenni, ævinlega í góðu skapi og alltaf reiðubúinn að rétta hjálparhönd, ef þurfti. Lífsbaráttan var oft erfið hjá Heiðari, fjölskyldan stór en efnin lítil. En með harðfylgi og dugnaði bjargaði hann sér og sínum. Heiðar snéri ekki aftur til Eyja eftir gos, heldur settist að á Akureyri, þar sem hann vann á smurstöð og var vel látinn.
Gamlir skipsfélagar minnast Heiðars í dag sem góðs drengs, er of fljótt var kallaður héðan.

Eiríkur Sigurjónsson

Eiríkur Sigurjónsson
frá Sólheimum
F. 17 ágúst 1937 - D. 2. okt. 1978.
Eiríkur var fæddur að Búðarhóli í Austur-Landeyjum sonur hjónanna Sigurjóns Einarssonar og Margrétar Jósefsdóttur. Þau hjón fluttu búferlum hingað til Eyja árið 1952 og bjuggu að Sólheimum hér í bæ. Eiríkur byrjaði snemma að vinna við fiskvinnslu hér og vann í nokkur ár í Fiskiðjunni. Eitt sumarúthald var hann á síld með Sigurði Sigurjónssyni á Freyjunni og lengi vel átti hann trillu í félagi við aðra og stundaði skak í frístundum sínum.
En aðalstarf Eiríks var þó bundið við vörubílastöðina, þar sem hann vann allt fram að gosi. Bílstjórarnir á Bílastöðinni eru það nátengdir sjávarútveginum hér, að telja má þá sem einn hlekk í þeirri atvinnukeðju, sem að honum starfar. Nótt sem dag leggja þeir fram krafta sína á vertíðinni, og þar var Eiríkur engin undantekning. Hann var dugnaðarmaður í sínu starfi og í honum bjuggu listrænir hæfileikar, sem fengu útrás á árshátíðum þeirra bílastöðvarmanna, þegar hann var ein helsta driffjöðrin í samningu skemmtiþátta, sem þar voru fluttir. Oft hefur því verið haldið fram, að sú stétt manna, sem býr yfir hvað minnstum kúltúr eða menningarlífi séu vörubílstjórar. Það afsönnuðu þeir Eiríkur og félagar hans rækilega á hverju ári með sínu framlagi.
Eiríkur vann mikið fyrir Vestmannaeyinga, þegar þeir voru að flytja heim á ný eftir gos og margar voru þær búslóðirnar, sem hann kom um borð í skip áleiðis til Eyja. Sjálfur átti hann ekki afturkvæmt hingað en stundaði atvinnu sína í Keflavík, þar til kallið kom. Hann lést af slysförum 2. október s.l.
Eftirlifandi kona hans er Sigrún Karlsdóttir frá Húsavík og áttu þau 4 börn.

Sveinn Jónsson

Sveinn Jónsson frá Landamótum
F. 1. des. 1877 - D. 12 okt. 1978.
Sveinn var fæddur að Eystri Skála undir Eyjafjöllum og voru foreldrar hans þau Kristín Björnsdóttir og Jón Einarsson. Árið 1916 kemur Sveinn hingað til Eyja, kvæntist og stofnaði heimili hér. Lengst af bjuggu þau hjón að Landamótum og var Sveinn ávallt kenndur við þann stað. Sveinn stundaði sjó hér, fyrst hjá öðrum en eignaðist fljótlega hlut í m/b Sæfara og var formaður á honum. Sæfari fórst árið 1914 en mannbjörg varð. Þá keypti Sveinn bátinn Ingólf Arnarson ásamt þeim Bjarna í Hlaðbæ og Helga Jónssyni í Steinum og var formaður með hann. Síðan var hann með Sleipni, sem hann einnig átti og var með hann þar til hann lét af sjómennsku og fór í land. í Ísfélagi Vestmannaeyja starf-aði hann svo meðan heilsa og kraftar entust. Eins og aðrir Vestmannaeyingar varð Sveinn að hverfa héðan 1973 og kom ekki aftur enda orðinn aldraður. Síðustu æviárin dvöldust þau hjónin á sjúkrahúsi. Kona hans var Kristín Þorleifsdóttir frá Fornu Söndum undir Eyjafjöllum og lést hún skömmu á undan honum eða hinn 10. mars 1978. Þau áttu eina dóttur barna, Ásdísi, sem býr í Reykjavík.
Sveinn náði háum aldri, var á 101. aldursári er hann lést. Hann var einstaklega hress alla sína tíð, dugnaðarforkur til allrar vinnu og var gamansemi hans orðlögð. Hafa margar sögur varðveist af snjöllum og skemmtilegum tilsvörum hans, þótt ekki verði þær raktar hér. Hann lést á sjúkrahúsi í Reykjavík 12. okt. s.l.

Hjörtur M. Hjartarson

Hjörtur M. Hjartarson frá Hellisholti
F. 7. águsl 1893 - D. 8. okt. 1978.
Hann var fæddur að Miðey í Landeyjum og voru foreldrar hans Hjörtur Snjólfsson og Gyðríður Magnúsdóttir. Árið 1916 kemur Hjörtur fyrst hingað til Eyja á vertíð og hér stundaði hann sjó sem aðalstarf fram til 1928 og af og til síðan. Hann byggði húsið Hellisholt á árunum 1927 til 1928 og eftir að hann hætti sjósókn stundaði hann landbúnað í smáum stíl í Hellisholti.
Hjörtur snéri ekki aftur til Eyja eftir eldsumbrotin heldur settist að í Kópavogi og þar lést hann s.l. haust. Eftirlifandi kona hans er Sólveig Hróbjartsdóttir ættuð frá Eyrarbakka. Þau eignuðust 7 börn og eru 6 þeirra á lífi.

Jón Nikulásson

Jón Nikulásson
Kirkjubæ
F. 6. ágúst 1903 - D. 1. júlí 1978
Jón var fæddur í Helgafellssveit, sonur hjónanna Guðrúnar Bjarnadóttur og Nikulásar Þorsteinssonar, en 7 ára fer hann í fóstur til móðursystur sinnar í Bolungarvík.
Til Vestmannaeyja kom Jón 1939 og 1940 kvæntist hann eftirlifandi konu sinni Salgerði Arngrímsdóttur. Þau bjuggu alla tíð að Kirkjubæ, fyrst í litla bænum, en seinna reisti Jón myndarlegt hús að Kirkjubæ og var það eitt af fyrstu húsunum, sem fór undir hraun í gosinu 1973. Lengst af stundaði Jón sjó og sjómennska var hans aðalstarf.
Á stríðsárunum sigldi hann sem matsveinn bæði á Fjölni og Helgafellinu. En trúlega minnast flestir Vestmannaeyingar Jóns fyrir starf hans á Herjólfi. Hann réðst sem háseti þar strax og skipið kom hingað 1959 og þar var hann um borð, meðan heilsa og kraftar entust. Jón var alla tíð einstaklega greiðvikinn maður og ekki kom það hvað síst í ljós um borð í Herjólfi. Margan pakkann handlék Jón og mörg voru þau aukaspor, sem hann mátti á sig leggja til að koma sendingum til skila bæði fyrir Vestmannaeyinga hér heima og aðra uppi á landi. Engin dæmi veit ég þess, að Jón hafi synjað, hafi hann verið beðinn slíkra erinda.
Jón var einstakur reglumaður á alla hluti og snyrtimennska var honum í blóð borin. Hann fluttist ekki hingað aftur eftir gos en bjó í Reykjavík fram að andláti.

Finnbogi Finnbogason

Finnbogi Finnbogason frá Vallartúni
F. 11. maí 1891 - D. 3. apríl 1979.
Hann var fæddur í Pétursborg í Vestmannaeyjum sonur Rósu Eyjólfsdóttur og Finnboga Björnssonar. Ungur að árum fór hann í fóstur að Kirkjubæ og var þar fram yfir fermingu en fluttist þá aftur til föður síns að Norðurgarði, sem þar bjó þá með seinni konu sinni Margréti Jónsdóttur.
Finnbogi lauk prófi frá Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum og hóf hann snemma að stunda sjó héðan. Ennfremur var hann góður fjallamaður og sótti mikið í úteyjar.
Mestan hluta þess tíma er Finnbogi stundaði sjó var hann hjá Ólafi Auðunssyni útgerðarmanni og var meðeigandi Ólafs í M/b Veigu. M.a. sigldi hann Veigu utan árið 1923 og með Veigu var hann þar til hann hætti til sjós 1942, er hann varð að fara í land vegna veikinda. Þá hóf hann störf hjá Lifrabræðslu Vestmannaeyja og vann þar í nær aldarfjórðung.
Finnbogi sótti fast og var fengsæll og farsæll, þótt oft kæmist hann í hann krappan. T.d. fékk hann eitt sinn á sig brotsjó og fóru allir fyrir borð að honum undanskildum, sem lokaðist inni í stýrihúsinu. Einn af áhöfninni komst aftur um borð og í sameiningu gátu þeir bjargað hinum tveim. Finnbogi varð fyrstur til að leggja net á Selvogsbanka og 5 vertíðar í röð varð hann aflahæstur hér á vertíð og alla tíð í hópi þeirra aflahæstu.
Finnbogi var kvæntur Sesselju Einarsdóttur frá Álftanesi og byrjuðu þau búskap í Norðurgarði, síðar í Bræðraborg en lengst af bjuggu þau í Vallartúni.
Finnbogi var nýkominn á Elliheimilið hér í Eyjum, þegar gosið hófst 1973, fluttist hann þá til Reykjavíkur og bjó eftir það á Hrafnistu.
Finnbogi var maður fylginn sér og ákveðinn en glettinn og spaugsamur, hjartahlýr og kátur. Hann lést að Hrafnistu 3. apríl s.l.

Gunnar Marel Jónsson

Gunnar Marel Jónsson
F. 6. jan 1891 - D. 7. maí 1979.
Hann var fæddur að Framnesi í Hraunhverfi, sonur hjónanna Jóns Guðmundssonar bónda og formanns og Ingibjargar Jónsdóttur. Þau hjón eignuðust 17 börn og komust 16 þeirra til fullorðinsára. Ungur að aldri fór Gunnar í fóstur til frændfólks síns að Byggðarhorni í Flóa og dvaldist þar til 17 ára aldurs. Þá hóf hann sjómennsku.
Hingað til Eyja kom Gunnar um tvítugt. Hann réri hér á vertíðum en stundaði smíðar á sumrin. Fljótlega eignaðist hann hlut í útgerð og átti báta ýmist einn eða með öðrum allt fram til ársins 1975 og munu fáir ef nokkrir hafa lengur tekið þátt í útgerð hér í Eyjum en hann.
En þekktastur mun þó Gunnar Marel hafa verið fyrir störf sín við skipasmíði og allt hans starf í Dráttarbraut Vestmannaeyja. Það fyrirtæki var stofnað af útgerðarmönnum hér árið 1925 og fólu þeir þá Gunnari að veita því forstöðu. Fór hann til Noregs til að afla sér upplýsinga og nauðsynlegra tækja. Gunnar var síðan forstöðumaður Dráttarbrautarinnar allt til ársins 1958 og hafði síðan yfirumsjón með allri smíðavinnu þar til ársins 1968, er hann lét af störfum. Gunnar þótti afbragðs skipasmiður og var hann sæmdur riddarakrossi fálkaorðunnar árið 1940 fyrir störf sín á því sviði. Gunnar þótti góður húsbóndi þeim sem hjá honum störfuðu. Faðir minn starfaði í Slippnum um fjölda ára og þótt þeir Gunnar væru sjaldnast sammála hvað stjórnmál snerti, bar aldrei skugga á vináttu þeirra og hvergi mun Jón í Þorlaugargerði hafa viljað vinna frekar en hjá feðgunum í Slippnum, eftir að hann hætti til sjós.
Gunnar kvæntist árið 1914 Sigurlaugu Pálsdóttur ættaðri frá Hvalsnesi og áttu þau lengst af heima í húsinu Brúarhúsi, sem Gunnar byggði 1922. Það hús stóð á horni Vestmannabrautar og Heimagötu og var oftast kallað „Hornið", vegna þess að það stóð í horninu á túninu sem fylgdi Heiði. Það fór undir hraun í gosinu 1973.
Konu sína missti Gunnar árið 1976 eftir 60 ára sambúð.
Þegar Gunnar snéri aftur heim til Eyja eftir gos, bjó hann fyrst í Hraunbúðum en sl. tvö og hálft ár dvaldi hann á sjúkrahúsinu.
Gunnar Marel var dugnaðarmaður í öllu sem hann tók sér fyrir hendur í lífinu og störf hans hafa reist honum óbrotgjarnan minnisvarða í sögu atvinnulífs þessa byggðarlags.

Björn Eiríkur Jónsson

Björn Eiríkur Jónsson
frá Gerði
F. l6.des. 1884 - D. 30. apríl 1979.
Björn var fæddur í Gerði í Vestmannaeyjum sonur Jóns Jónssonar og Guðbjargar Björnsdóttur. Var hann ávallt kenndur við fæðingarstað sinn og heimili, Björn í Gerði. Þau voru þrjú systkinin, en aðeins Björn og Jónína systir hans sem upp komust og má segja að þau hafi fylgst að gegnum lífið. Jónína lést árið 1973.
Björn byrjaði ungur að stunda sjó og á sjónum var starfsvettvangur hans lengst af meðan kraftar leyfðu. Hann var meðal annars nokkurn tíma formaður á opnum báti. Björn var eftirsóttur í skiprúm, enda bæði duglegur og samviskusamur. Hann var hógvær og vann sín störf í kyrrþey og án nokkurs fyrirgangs en skapfastur var hann og traustur sínum vinum.
Alla tíð stundaði Björn nokkurn búskap í Gerði ásamt systur sinni og mági og eftir að hann hætti til sjós jók hann nokkuð við þann búskap, sem segja má að heyri nú til liðinni tíð. Hann var einn þeirra, sem jafnan höfðu fé í Elliðaey og ósjaldan var það, að hann rétti út hönd og leiddi upp eyna lítið fólk, sem vildi lýjast á uppleið.
Björn kvæntist árið 1907 Hallberu Illugadóttur frá Hafnarfirði en hún lést 1934. Björn kvæntist aftur 1939 Brynheiði Ketilsdóttur úr Mýrdal og lifir hún mann sinn.
Eftir gos bjuggu þau hjón að Þingeyri við Skólaveg hér í bæ, en Gerðisbærnir eyðilögðust í gosinu svo sem menn muna. Björn lést þann 30. apríl 1979.

Jónas Guðmundsson

Jónas Guðmundsson frá Grundarbrekku
F. 9. mars 1886 - D. 20. febrúar 1979
Jónas var Húnvetningur að ætt, fæddur að Torfustöðum, Svartárdal í Austur-Húnavatnssýslu en ólst upp á Refsstöðum í Fremri Laxárdal. 18 ára að aldri fór hann suður til sjóróðra á vertíðum og réri bæði frá Grindavík og Keflavík. Hingað til Eyja fluttist hann árið 1924 og hóf þá störf í Fiskimjölsverksmiðjunni, sem Gísli J. Johnsen átti þá og rak. Þar starfaði Jónas fram til ársins 1940. Þá réðst hann til Ársæls Sveinssonar og vann hjá honum allt til ársins 1954, er hann fór að vinna hjá Hraðfrystistöð Vestmannaeyja, þar sem hann starfaði fram að árinu 1974. Þá hætti Jónas störfum, enda fyllilega búinn að skila sínu dagsverki, hátt á níræðisaldri. Jónas var kappsfullur og duglegur starfsmaður og hvarvetna fékk hann gott orð fyrir dugnað og árvekni í starfi. Ævinlega var hann léttur í lund og léttur í spori og var ekki að sjá, að öldungur væri á ferð, þegar hann skokkaði niður Skólaveginn, slíkur var ævinlega krafturinn og lífsgleðin sem geislaði frá Jónasi. Jónas kvæntist árið 1930 Guðrúnu Magnúsdóttur frá Grundarbrekku. Bjuggu þau hjón á Grundarbrekku mest allt sitt líf og voru ævinlega bæði kennd við þann stað. Þeim varð sex barna auðið og komust fimm þeirra til fullorðinsára. Bóndaeðlið var ríkt í Jónasi og lengi hafði hann búskap í smáum stíl að Grundarbrekku. Þá var hann hagsleiksmaður á marga hluti og gekk raunar að öllum störfum með því hugarfari að vinna vel og af vandvirkni.
Sem fyrr segir, stundaði Jónas sjómennsku á yngri árum, en hér í Eyjum valdi hann sér annan starfsvettvang, þó mjög tengdan sjómennsku, allt sitt líf vann hann við fiskvinnslu og kunni þar vel til verka. Jónas lést hinn 20. febrúar s.l.

Einar Sigurfinnsson

Einar Sigurfinnsson Kirkjuvegi 29
F. 14. sept. 1884 - D. 17. maí 1979.
Fullu nafni hét hann Magnús Kristinn Einar Sigurfinnsson og var fæddur í Háu-Kotey í Meðallandi. Foreldrar hans voru Kristín Guðmundsdóttir og Sigurfinnur Sigurðsson. Einar var bóndi í Meðallandi allt fram til ársins 1926, er hann fluttist til Reykjavíkur, þar sem hann bjó í tvö ár, en þá flutti hann að Iðu í Biskupstungum, þar sem hann bjó fram til ársins 1955, er hann kom hingað til Eyja, þá nokkuð við aldur.
Einar kvæntist fyrri konu sinni Gíslrúnu Sigurbergsdóttur árið 1910 og eignuðust þau tvo syni, Sigurbjörn biskup og Sigurfinn verkstjóra hér í Eyjum. Gíslrún lést árið 1913. Seinni konu sinni Ragnhildi Guðmundsdóttur kvæntist Einar árið 1928 og eignuðust þau einn son, Guðmund, sem lengi bjó hér en er nú garðyrkjubóndi í Hveragerði.
Á yngri árum stundaði Einar sjó á vertíðum, svo sem háttur var á með marga bændur. Fyrst mun hann hafa sótt sjó frá Mýrdal en lengst var hann í Vogum og réri þar margar vertíðir. Þegar hann flutti hingað til Eyja starfaði hann hjá Pósti og síma, kvikur í spori og röskur og ekki lengi að koma hlutunum til skila. Einar var ævinlega í góðu skapi og sjaldan minnist ég hans öðruvísi en með bros á vör. Hér í Eyjum bjó Einar ásamt Ragnhildi konu sinni fram til ársins 1967, er þau fluttust ásamt Guðmundi syni sínum til Hveragerðis. Þótt Einar væri orðinn háaldraður maður féll honum illa iðjuleysi og í Hveragerði starfaði hann hjá Búnaðarbankanum við ýmis störf, er til féllu. Til að mynda var hann ævinlega kominn á fætur fyrir allar aldir og búinn að sópa og þrífa fyrir framan bankann, þegar aðrir mættu til vinnu. Allar hreyfingar voru eins og hjá unglingi og hreint ekki að sjá, að þarna færi maður um nirætt. Og þannig minnast sennilega flestir Vestmannaeyingar hans, sem póstsins góðlátlega með bros í auga og bros á vör.

Svavar Antoníusson

Svavar Antoníusson
Byggðarholti
F. 26. des. 1908 - D. 19. maí 1979.
Fullu nafni hét hann Guðjón Svavar og var fæddur í Byggðarholti hér í bæ sonur Ólafar Jónsdóttur, sem ættuð var úr Landeyjum og Antoníusar Þorvaldssonar frá Berufirði. Í Byggðarholti var bernskuheimili hans og þar bjó hann einnig lengst af ævinni.
Ungur byrjaði Svavar sjómennsku og var sjómennskan hans aðalstarf á lífsleiðinni. Ýmist var hann með eigin útveg eða þá hann réri hjá öðrum. Lengi var hann formaður og minnast hans flestir í sambandi við vélbátinn Jötun, sem hann átti og gerði út um langt skeið. Svavar kvæntist árið 1938 Kristínu Halldórsdóttur og bjuggu þau sem áður er sagt í Byggðarholti lengst af. Þau eignuðust 7 börn. Eftir að Svavar fór í land vann hann hjá Halldóri syni sínum í seglagerð hans, en þegar gosið hófst hér 1973 flutti hann suður og átti ekki afturkvæmt hingað.
Svavar var mikill Vestmannaeyingur og unni Eyjunum og öllu því, sem þær snerti. Hann var rólyndur maður að eðlisfari en dugnaðarmaður í öllu því sem hann tók sér fyrir hendur og þótti góður húsbóndi þeim sem hjá honum unnu. Hann lést hinn 19. maí s.l.