Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1972/ Minning látinna

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


„Til moldar oss vígði hið mikla vald“


Minning látinna


Eyjólfur Gíslason fyrrv. skipstjóri hefur sem áður séð um þátt blaðsins til minningar látnum sjómönnum og útvegsmönnum. Þekkir hann náið sögu og sjómannsferil eldri stéttarbræðra.
Við minnumst á hátíðisdegi stéttarinnar allra íslenzkra sjómanna, sem hafa fallið í starfi á sjónum.
Þakkað er, að ekki hafa hér orðið stór sjóslys; hlífði þar sem oft fyrrum í harðri sjósókn hér við Eyjar hulinn verndarkraftur og handleiðsla.
Á vetrarvertíðinni, 18. marz s.l., lézt af slysförum í Vestmannaeyjahöfn ungur sjómaður, Hreinn Birgir Vigfússon, fæddur 6. ágúst 1942, œttaður frá Brekku, Raufarhöfn.
Aðstandendum látinna eru sendar innilegustu samúðarkveðjur. Við vottum látnum virðingu. Ritstj.

Þótt hetjurnar falli, skal fylkja liði skjótt.
Vér fullhugar reynumst bæði á degi og nótt.
Íslenzkir synir
og ættjarðarvinir,
þér hraustbyggðu hlynir.
Í hafið gull er sótt.
Hugrún


Árni Sigurjónsson.

Árni Sigurjónsson
f. 25. nóv. 1903 - d. 16. júlí 1971.
HANN var fæddur að Fit undir Eyjafjöllum 25. nóvember 1903. Fárra vikna gamall var hann tekinn í fóstur að Lambhúshól í sömu sveit og þar ólst hann upp.
Árni flutti til Vestmannaeyja 1924 og byrjaði sína sjómennsku vertíðina 1925 hjá Magnúsi Jónssyni, Sólvangi, sem var þá formaður með mb. Gullfoss Ve 184, 11,40 tonn að stærð. Næstu vertíð er Árni með Magnúsi á nýjum báti, Pipp Ve 1, sem var 15 tonn að stærð.
Haustið 1927 var Árni einn af þeim, sem lærðu á mótornámskeiði, er var þá haldið hér og tók hann gott próf í þeim fræðum. Árið 1930 tók Árni hið minna fiskimannapróf á námskeiði hér .
Árni byrjaði formennsku vertíðina 1933 með mb. Svan Ve 152, sem var 9,80 tonn að stærð. Því næst er Árni formaður með mb. Enok I Ve 164, sem var 11,47 tonn að stærð.
Eftir vertíðina 1935 hætti Árni formennsku og var eftir það stýrimaður eða vélstjóri.
Árið 1955 hætti Árni sjómennsku og gerðist afgreiðslumaður hjá Olíusamlagi Vestmannaeyja og þar vann hann á meðan heilsan leyfði.
Árni var traustur og ábyggilegur maður til orða og verka og vann sér hylli manna með sinni prúðmannlegu og rólyndu framkomu.
Hann var kvæntur Sigríði Auðunsdóttur og eignuðust þau einn son.
Árni lézt í Sjúkrahúsi Vestmannaeyja eftir stutta legu 16. júlí 1971.


Vilhjálmur Jónsson.

Vilhjálmur Jónsson frá Dölum
f. 23. jan. 1893 - d. 15. júlí 1971.
HANN var fæddur að Bólstað í Mýrdal 23. janúar 1893 og fluttist hingað til Eyja 1904 með foreldrum sínum og sex systkinum. Það ár fengu foreldrar hans tvíbýlisjörðina Dali til ábúðar.
Eins og flestir drengir á þeim árum, varð Villi ungur að taka til hendi og hjálpa til að vinna heimilinu, sem hann orkaði, en þá voru þau störf æði fjölþætt, sem börnum og unglingum var ætlað að vinna.
Vilhjálmur var einn með fyrstu fastráðnu beitingardrengjunum í Eyjum, því vertíðina 1907 beitti hann hjá Friðriki Svipmundssyni á mb. Friðþjófi Ve 98.
Á fyrstu árum mótorbátanna urðu sumir beitingardrengjanna að standa í óupphituðum beituskúrunum á sínum gönguskinnskóm og því oft votir í fætur, var Vilhjálmur einn af þeim.
Eftir þessa vertíð var hann beitingarmaður á hverri vertíð, og reri á netum þar til að hann réðist vélgæzlumaður á Rafstöðina haustið 1918 og þar vann hann á meðan heilsan leyfði.
Um 20 ár var Vilhjálmur hér rafstöðvarstjóri og tók við því starfi af Sveinbirni bróður sínum látnum.
Á sínum yngri árum var Vilhjálmur talinn hér með beztu fjallamönnum og þó bræður hans, Sveinbjörn og Hjálmar væru miklir fjallamenn, var þó Villi talinn þeirra fremstur, vegna léttleika og aðgætni. Hann var lipur og verklaginn sjómaður og góður félagi.
Vilhjálmur var kvæntur Nikólínu Jónsdóttur og eignuðust þau þrjú börn.
Vilhjálmur lézt í Borgarsjúkrahúsinu 15. júlí 1971 eftir langvarandi veikindi. Jarðarför hans var gerð frá Landakirkju.


Skarphéðinn Vilmundarson.

Skarphéðinn Vilmundarson
f. 25. jan. 1912 - d. 28. júlí 1971.
HANN fæddist í Vestmannaeyjum 25. janúar 1912. Hann yar næstelztur ellefu systkina sinna. Tólf ára gamall missti Skarphéðinn föður sinn, sem var hér sjómaður og mótorbátaformaður margar vertíðir.
Ungur fór Skarphéðinn að vinna og draga í bú móður sinnar, sem hélt heimilinu saman og annaðist uppeldi barnahópsins, unz þau komust öll vel til manns. Skarphéðinn og elzti bróðir hans, Karl, lögðu þar sitt fram, eins og þeir orkuðu.
Skarphéðinn var bráðþroska og því fljótt vel liðtækur til flestrar vinnu á sjó og landi. Margar vertíðir var hann beitingarmaður og reri á netaveiðum, en í fleiri sumur á síldveiðibátum fyrir Norðurlandi og þótti hans rúm ávallt vel skipað.
Þegar flugsamgöngur hófust hingað til Eyja, var Skarphéðinn ráðinn flugumferðarstjóri, eftir að hafa lært og tekið próf í þeim fræðum. Þetta starf hafði hann yfir 20 ár og rækti það svo vel, að hann hlaut lof og hylli sinna samstarfsmanna.
Alla ævi var Skarphéðinn mikill íþróttaunnandi og á sínum yngri árum var hann virkur þátttakandi í mörgum íþróttagreinum og mjög framarlega í sumum þeirra.
Skarphéðinn var kvæntur Margréti Þorgeirsdóttur, og eignuðust þau einn son og ólu upp frá fæðingu bróðurdóttur Margrétar, sem sitt eigið barn.
Skarphéðinn andaðist 28. júlí 1971 eftir langvarandi heilsuleysi.


Ingibergur Hannesson.

Ingibergur Hannesson frá Hjálmholti
f. 15. febr. 1884 - d. 3. sept. 1971.
HANN var fæddur að Votmúla í Árnessýslu 15. febrúar 1884.
Haustið 1908 kom Ingibergur hingað fyrst til Eyja og reri vertíðina 1909 hjá Stefáni í Gerði, sem þá var að byrja formennsku.
Eftir þessa vertíð tók Ingibergur sér hér fasta búsetu og dvaldi hér í 60 ár. Árið 1912 byggði hann, ásamt öðrum manni, íbúðarhúsið Hjálmholt við Urðarveg, sem hann bjó í alla sína búskapartíð og var hann ætíð kenndur við það húsnafn.
Ingibergur stundaði hér sjómennsku á vetrarvertíðum fram að 1930. Á árunum eftir 1910 reri hann nokkrar vertíðir á árabátum og var formaður með suma þeirra. Á efri árum sínum, reri hann nokkur sumur á trillubát með Birni á Kirkjulandi og voru þeir þá með handfæri.
Ingibergur var kvæntur Guðjóníu Pálsdóttur og eignuðust þau 5 börn, sem upp komust. Þrír af sonum þeirra hjóna voru hér vel þekktir sjómenn. Synir Ingibergs byrjuðu útgerð 1946, með því að kaupa nýsmíðaðan bát frá Svíþjóð, mb. Reyni Ve 15, sem var um 53 tonn að stærð, og vann faðir þeirra við veiðarfæri bátsins.
Sumarið 1968 fluttist Ingibergur alfarinn frá Eyjum til Reykjavíkur, með Páli syni sínum, og fór þá vistmaður að Hrafnistu.
Ingibergur andaðist að Hrafnistu 3. september 1971.
Útför hans var gerð frá Landakirkju.


Hallberg Björnsson.

Hallberg Björnsson frá Gerði
f. 17. maí 1940 - d. 25. sept. 1971.
HANN var fæddur 17. maí 1940. Í Gerði ólst hann upp hjá foreldrum sínum.
Ungur fór Hallberg að vinna við bústörf foreldra sinna og kom þá fljótt í ljós hjá honum áhugi og dugnaður í starfi, sem fylgdi honum ætíð.
Stuttu eftir fermingu fór Hallberg að stunda hér sjómennsku og þótti þar fljótlega vel liðtækur. Eftir það stundaði hann hér sjóinn allar vetrarvertíðir, en vann í mörg sumur og haust við Dráttarbraut Vestmannaeyja.
Hallberg var mjög hneigður til bústarfa og hafði ætíð nokkurt fjárbú, sem hann heyjaði fyrir á sumrin. Einnig hafði hann allmikla garðyrkju. Hann var góður lundaveiðimaður og fór þá með háfinn, þegar svo viðraði, en allt voru þetta aukastörf hjá Hallberg, sem sýnir bezt áhuga hans og atorku.
Hann var skemmtilegur og góður vinnufélagi, sem vann sér hylli og traust sinna samstarfsmanna á sjó og landi.
Hallberg var kvæntur færeyskri konu, Herdísi, og eignuðust þau tvö börn.
Hallberg andaðist 25. september 1971.


Jón Benónýsson.

Jón Benónýsson, Hásteinsvegi 12.
f. 7. maí 1897 - d. 20. okt. 1971.
JÓN var fæddur á Akranesi 7. maí 1897. Tólf ára gamall byrjaði hann sjómennsku á áraskipum frá Akranesi. Á þeim árum var venja yngra fólks og sjómanna frá sjávarplássum við Faxaflóa og á Suðurlandi, að stunda sína atvinnu yfir sumar- og haustmánuðina á Austfjörðum, því að þá var þar mikil útgerð og atvinnulíf.
Sumarið 1912 var Jón Ben. einn í þessum hópi, þá 15 ára gamall. Réðist hann til Mjóafjarðar hjá Sigurði á Höfðabrekku, sem gerði þá út tvo mótorbáta. Þar var Jón í landi við fiskverkun, línubeitingu og fleiri störf, en fór á sjó í forföllum annarra. Þetta sumar fór orð af Jóni fyrir frábæran dugnað.
Eftir þetta sumar reri Jón á árabátum frá Skálum á Langanesi og gerði þá út, ásamt Hjalta bróður sínum. Jón var þar formaður í fleiri sumur og umtalaður fiskimaður.
Til Vestmannaeyja kom Jón fyrst 1918 og var þá vertíð á m/b Rán, hjá Þorvaldi Guðjónssyni frá Sandfelli.
Vertíðina 1922 byrjaði Jón hér formennsku með m/b France VE 159, sem var tæp 10 tonn að stærð. Eftir það var hann hér formaður 46 ár. Á þessum árum var hann samtals með 13 báta, þar af lengst með m/b Skuld VE 263, þrettán ár. Þann bát átti hann að 1/3 hluta.
Jón mun hafa verið sjómaður nær 60 ár og má með sanni segja, að það sé vel að verið. Þegar Jón hætti á sjónum vann hann að útgerð m/b Sæfaxa, sem hann átti ásamt syni sínum og tengdasyni.
Jón var kvæntur Kristínu Valdadóttur og eignuðust þau 4 börn. Kristín lézt áður en börn þeirra voru upp komin. Eftir fráfall hennar bjó Jón með bústýru sinni Ólöfu Unadóttur.
Jón andaðist í Sjúkrahúsi Vestmannaeyja 20. október 1971.


Jónas Jónsson.

Jónas Jónsson, forstjóri á Tanganum
f. 12. maí 1905 - d. 31.okt. 1971.
HANN var fæddur á Stokkseyri 12. maí 1905 og þar ólst hann upp hjá foreldrum sínum.
Jónas kom hingað fyrst til Eyja í vertíðarbyrjun 1924, þá 18 ára gamall, og var þá ráðinn við Tangaverzlunina, hjá Gunnari Ólafssyni og Co. Við það verzlunarfyrirtæki starfaði hann svo til æviloka, að 2—3 árum undanteknum, er hann var kaupfélagsstjóri hjá Kaupfélaginu Fram.
Fljótlega eftir að Jónas kom hingað hafði hann náin kynni og samskipti við allflesta Eyjasjómenn og um og eftir 1930 kom Jónas mjög mikið við útgerðarsögu Eyjanna, með því að gerast stofnandi og meðeigandi að mörgum félagasamtökum útvegsmanna, svo sem Lifrarsamlaginu, Vinnslustöðinni, Netagerðinni og Fiskþurrkuninni Stakk. Var hann í stjórn allra þessara félaga og stjórnarformaður Lifrarsamlagsins í fjölda mörg ár, til dánardægurs.
Jónas var í fleiri félögum en þeim, er nefnd eru hér og sat í stjórnum flestra þeirra um lengri eða skemmri tíma. Það sýnir bezt það traust, sem hann naut hjá sínum félögum, enda var hann sérlega trúr í öllum sínum störfum. Í fáum orðum sagt, vandaður og vel gefinn maður, sem allir er hann þekktu, treystu fullkomlega að öllum heiðarleika.
Árið 1939 gerðist Jónas útvegsmaður hér með því að kaupa 1/3 part í m/b Baldri VE 24. Þau mörgu ár, sem Jónas dvaldi hér, átti hann alltaf heima í Fagurlyst, en var oftast kenndur við fyrirtækið, sem hann vann hjá og nefndur Jónas á Tanganum.
Jónas andaðist í Landspítalanum 31. október 1971 og var útför hans gerð í Reykjavík.


Magnús H. Valtýsson.

Magnús H. Valtýsson
f. 12.maí 1905 - d. 15. febr. 1972.
HANN var fæddur að Búðarhóli í Austur-Landeyjum 6. október 1894. Þegar Magnús var tveggja ára fluttist hann að Seli í sömu sveit og þar ólst hann upp hjá foreldrum sínum.
Um tvítugsaldur kom Magnús hingað til Eyja og gerðist sjómaður á vetrarvertíðum, en var við sjósókn á Austfjörðum sumarmánuðina, eins og þá var venja hjá fjölda sunnlenzkra sjómanna.
Árið 1927 gerðist Magnús útgerðarmaður og keypti part í m/b Skúla fógeta VE 185, sem var tæp 12 tonn að stærð. Þennan bát, sem hafði verið þeim félögum happadrjúgur, misstu þeir 28. apríl 1938, en fengu sér um haustið nýsmíðaðan bát, sem var 22 tonn að stærð og bar sama nafn og númer.
Þennan bát seldu þeir félagar að lokinni vertíð 1954 og hætti Magnús þar með útgerð og sjómennsku eftir rösk 40 ár, þá sextugur að aldri og má það kallast vel að verið. Eftir að Magnús eignaðist í bát, reri hann alla tíð háseti á sinni útgerð.
Magnús var hinn mesti dugnaðar sjómaður til allra verka, kappsamur og ósérhlífinn, léttlyndur og góður félagi.
Eftir að Magnús hætti sjóferðum vann hann í mörg ár hjá Vinnslustöð Vestmannaeyja, þar til heilsa hans bilaði; flutti hann þá stuttu síðar, 1968, alfarinn til Reykjavíkur.
Magnús var kvæntur Ragnheiði Halldórsdóttur og eignuðust þau þrjár dætur.
Magnús lézt í Landspítalanum 15. febrúar 1972.


Ólafur Vilhjálmsson.

Ólafur Vilhjálmsson frá Múla
f. 12. sept. 1900 - d. 24. febr. 1972.
HANN var fæddur að Botnum í Meðallandi 12. september 1900.
Vorið 1901 fluttist hann til Vestmannaeyja með foreldrum sínum, sem byrjuðu hér sinn búskap að Eystri-Oddstöðum. Stuttu síðar, 1904, byggðu þau hjón húsið Múla, sem Ólafur var ætíð kenndur við á meðan hann dvaldi í Eyjum.
Vertíðina 1918 byrjaði Ólafur sjómennsku og reri þá vertíð á árabát, en eftir það er hann hér á mótorbátum.
Haustið 1922 sótti Ólafur skipstjórnarnámskeið, sem var haldið hér og tók þar próf.
Vertíðina 1924 byrjaði Ólafur formennsku með m/b Ester VE 208, sem var um 5 tonn að stærð og var með hana þá einu vertíð.
Árið 1926 varð Ólafur formaður á Garðari III VE 243, sem var 12 tonn, og var með hann tvö ár. Þessi bátur var kallaður Múla-Garðar.
Eftir vertíðina 1927 fluttist Ólafur alfarinn til Reykjavíkur og var þar togarasjómaður í fjöldamörg ár.
Ólafur var sá eini, er komst lífs af, þegar hið mikla sjóslys varð norðan á Eiðinu 16. desember 1924, er 8 manns drukknuðu þar af árabát.
Ólafur var prúðmenni í allri framkomu, traustur og ábyggilegur sjómaður.
Hann var kvæntur Maríu Jónsdóttur og eignuðust þau þrjú börn. Ólafur lézt í Borgarspítalanum 24. febrúar 1972.


Jón Guðmundsson.

Jón Guðmundsson, Kirkjubœjarbraut 9
f. 15. júlí 1905 - d. 4. marz 1972.
HANN var fæddur í Reykjavík 15. júlí 1905.
Þriggja ára gamall fluttist hann til Vestmannaeyja, með foreldrum sínum, sem stuttu síðar byggðu húsið Goðaland og við það húsnafn var Jón oftast kenndur af sínum samstarfsmönnum og kunningjum.
Jón byrjaði sjómennsku tæpra 15 ára. Þegar björgunarskipið Þór kom hingað fyrst til Vestmannaeyja 26. marz 1920 réðist Jón sem vikadrengur á skipið og var þar í eitt ár.
Þar næst varð hann beitingardrengur og reri á netavertíðinni hjá Sigfúsi Scheving á m/b Haffrú VE 122, sem var 7,29 tonn að stærð. Kom þá fljótlega fram hjá Jóni áhugi og dugnaður í starfinu á sjónum.
Því næst er Jón með Binna í Gröf og rær með honum á árabátum frá Langanesi á sumrum, en á m/b Gúllu á vetrarvertíðum. Jón byrjaði formennsku vertíðina 1929 með m/b Sleipni VE 280, sem var 10,67 tonn, en hætti formennsku með hann eftir þá vertíð. Því næst er hann með Sigurði Bjarnasyni í Svanhól á m/b Fylki, sem þá var hér stærsti bátur í höfn, um 40 tonn. Eftir veru sína á Fylki varð Jón vélstjóri á m/b Lagarfossi VE 292.
Fyrir vertíðina 1935 lét Jón smíða sér bát í Danmörku, ásamt þremur félögum sínum, og áttu þeir bátinn að jöfnu. Báturinn hét Ver VE 318 og var 22 tonn að stærð. Á þessum bát varð Jón aflakóngur Eyjanna vertíðina 1946. Þegar Jón hafði verið formaður með Ver í 16 ár seldu þeir félagar bátinn og keyptu sér annan stærri, Ver II VE 118, sem var 36 tonn. Jón var formaður með Ver II 10 ár, en þá seldu þeir félagar hann og keyptu sér enn einn stærri bát, Ver III VE 318, sem var 51 tonn. Var Jón formaður með Ver III í 3 ár, til vertíðarloka 1963, en þá varð hann að hætta sjómennsku vegna vanheilsu. Gerðist Jón þá fiskimatsmaður og hafði hann það starf til dánardægurs.
Jón var hér sjómaður 43 ár, þar af fengsæll skipstjóri í 30 ár. Hann var kappgjarn formaður og mikill sjósóknari.
Jón var einn af stofnendum S.S. Verðandi og virkur og góður félagi þess til æviloka.
Jón var kvæntur Rósu Guðmundsdóttur og eignuðust þau fjögur börn.
Jón varð bráðkvaddur að heimili sínu 4. marz 1972.


Benóný Friðriksson.

Benóný Friðriksson
f. 7. jan. 1904 - d. 12. maí 1972.
HANN var fæddur 7. janúar 1904 að Gröf í Vestmannaeyjum og þar ólst hann upp hjá foreldrum sínum.
Við húsnafnið Gröf var hann kenndur til æviloka og nefndur Binni í Gröf.
Binni var ekki gamall, eða hár í lofti, þegar hann fór að draga fisk úr sjó. Bryggjurnar og Nausthamarinn voru þá hans veiðistaðir. Þar mátti oft sjá hann með seglgarnsfærið sitt að veiða smáufsa.
Innan fermingaraldurs fór Binni að róa á smáferju hjá Jakob Tranberg. Kom þá fljótt fram hjá honum framúrskarandi áhugi og fiskisæld á handfærakrókinn.
Fimmtán ára gamall byrjaði Binni hér formennsku að sumri til með árabát, sexæring. Voru þeir 4 á bátnum. Hásetarnir voru jafnaldrar Binna. Sóttu þeir sjóinn af miklu kappi og fiskuðu oft mikið. Kom þá strax í ljós hjá Benóný ótrúlega miklir sjómanns- og skipstjórnarhæfileikar, sem fylgdu honum alla ævi og mætti skrifa um það langt mál. Því eins og flestum er kunnugt, var Benóný yfirburða sjómaður og sérstæður aflamaður, og mátti með sanni segja að hann væri jafnvígur fiskimaður, hvaða veiðarfæri sem hann notaði.
Um 1920 fór Binni að róa á mótorbát, hjá Jóhanni á Brekku, var það á mb. Nansen VE 102, sem var 7,47 tonn að stærð. Átti Friðrik faðir hans 1/5 hluta í bátnum. Næstu vertíð var Binni orðinn mótoristi á Nansen.
Árið 1925 gerðist Benóný útgerðarmaður, með því að kaupa 1/4 hluta í nýjum bát frá Noregi, Gúllu Ve 267, sem var 15,57 tonn. Var Jóhann á Brekku formaður með Gúllu fyrstu vertíðina. Næstu vetrarvertíð 1926 tekur svo Binni við formennsku á bátnum og þar með hefst hans frægðarferill sem skipstjóri. Hann var síðan í fremstu röð skipstjóra yfir hálfa öld, vetur, sumar, vor og haust. Má slíkt þrek með eindæmum teljast.
Nokkur sumur var Binni formaður, með árabát, frá Skálum á Langanesi og var þar oft aflahæstur. Frá vertíðinni 1926, til vertíðarloka 1953, er Benóný skipstjóri með eftirtalin skip: Gúllu, Gottu, Heklu, Gulltopp, Sævar, Þór og Andvara.
Vertíðina 1954 varð hann skipstjóri á Gullborg og það varð hans mesta happa- og aflaskip, því á henni varð hann Fiskikóngur Eyjanna, vetrarvertíðarnar 1954 til vertíðarloka 1959, eða sex vertíðir í röð og sjö urðu þær vetrarvertíðirnar alls, sem hann varð hér fiskikóngur, og margar þeirra hæstur yfir allt landið.
Benóný Friðriksson var dáður af sínum samtíðarmönnum og alveg sérstaklega af hans stéttarfélögum, skipstjórum í Eyjum og öllum sjómönnum. Hann vildi aldrei annarra meinsmaður vera og þrengdi ekki sínum veiðarfærum að annarra, sem í fiski voru, en fór sínar eigin leiðir og hafði sjálfur fyrir að finna fiskinn. Binna frá Gröf verður lengi minnzt í röðum beztu sjómanna, sem hafa stundað sjó héðan frá Eyjum.
Benóný var kvæntur Katrínu Sigurðardóttur og eignuðust þau átta börn.
Benóný andaðist á sjúkrahúsi Vestmannaeyja 12. maí síðast liðinn.

Útför Binna í Gröf var gerð frá Landakirkju laugardaginn 20. maí að viðstöddu miklu fjölmenni. Vottuðu bœjarbúar og sjómenn í Vestmanneyjum hinum látna margháttaða virðingu sína.
Allir bátar voru í höfn og var flaggað í hálfa stöng á flotanum. Úr kirkju báru kistuna skipshöfnin á Gullborgu, en síðan báru í kirkjugarð eldri félagar Benónýs úr röðum skipstjóra. Frá kirkjudyrum stóðu félagar úr Verðandi heiðursvörð.
Sr. Þorsteinn Lúther Jónsson jarðsöng.

Í líkræðu sagði sr. Þorsteinn Lúther:
„Benóný var þannig af Guði gerður, að hann unni sér aldrei hvíldar, iðaði af fjöri og framkvæmdahug, tók sér víst aldrei frí frá störfum til skemmtiferðalaga, hlakkaði af alhug til hverrar vetrarvertíðar og nýrra átaka, enda var hann fæddur með köllun veiðimannsins. Sú vöggugjöf fylgdi honum æ síðan, óx og þroskaðist með honum og varð hluti af honum sjálfum.“

Margir sendu Benóný hinztu kveðju á útfarardegi.

Um hann ritar Ási í Bæ:
„Það hefur verið og er enn aðeins á valdi hraustustu manna að vera í forustusveit sjósóknara við Íslandsstrendur, þeir allra hörðustu ná því endrum og eins að verða aflakóngar, og vinna slíkt afrek sjö vertíðir í röð er einungis á færi afburðamanna, til þess arna þarf ekki bara viljafestu þrekmenna, heldur næstum því ótakmarkaða þekkingu á öllu sem lýtur að aflabrögðum og sjómennsku og kunna að beita þessu. En svona var Binni í Gröf: Eftir svaðilfarir fimmtíu ára sjómennsku hafði hann borið að landi meiri afla en nokkur bátaformaður landsins og stýrði að lokum fleyi sínu í höfn án þess þar hefði maður fengið skrámu auk heldur meir. Enda vék hann aldrei af verði, ef hann taldi höfuðskepnurnar viðsjálar um of.
Ég hef þekkt Binna í Gröf frá barnæsku er hann sprangaði með mig í fangi undir Skiphellum og alla tíð haft á honum miklar mætur, ekki bara sem þeim djarfa sjósóknara, sem við dáum öll; það var eiginlega alveg sama hvað hann tók sér fyrir hendur, hann gerði það flestum betur. Á yngri árum var hann með beztu mönnum í knattspyrnuliði Týs, og um árabil stundaði hann leikfimisæfingar að haustinu og var í fremstu röð. Ágæt skytta. Lundaveiðimaður langt umfram meðallag þó sjaldan gæfist tækifæri til að leggja háf. Köttur í fjöllum. Við skál hafði hann yndi af að fara með vísur, kunni urmul af þeim og kvað hvern mann í kútinn. En mest dálæti hafði ég á Binna eftir að hafa verið með honum á sjónum nokkrar vikur, þá var hann í essinu sínu, lék á alsoddi jafnan, og ljúfur í umgengni... Æ að sjá minn mann í stýrishúsglugga á Gullborginni þegar verið var að háfa hana fulla einn bjartan morgun austur á Síðugrunni, og þegar gonnan seig áfram kallaði hann út á þilfar: Er hún ekki dálítið sigin, Sævar? Fær sér í vörina glaður yfir góðum feng eins og þegar hann dró Máríufiskinn forðum tíð. Og þannig vil ég muna hann, í stýrishúsglugga á Gullborginni hressan og kátan með vestangjóluna í fangið og sólskinið glitrar á spriklandi síldarhreistrinu.
Í dag verður mörgum hugsað heim til Eyja þar sem fánar munu blakta í hálfa stöng á hverri siglu bátaflotans því nú er sá genginn sem fremstur stóð í flokki góðra og hraustra drengja. En svo lengi sem sjósókn verður undirstaðan að lífsafkomu landsmanna mun nafn Binna í Gröf lýsa eins og viti. Megi gæfan gefa heimabyggð okkar fleiri slíka. “

Við útförina las sr. Þorsteinn Lúther minningar- og kveðjuljóð frá ónefndum, fyrrverandi skipsfélaga Benónýs. Ljóðið má skoða sem kveðju frá sjómönnum öllum og heimabyggð til þessa fræga aflamanns og sjómanns, sem allir, er kynntust, virtu og dáðu vegna drenglyndis og mannkosta.

Út siglir fley í aftanskini,
eilífðarstefnu velur sér.
Kveðjurnar senda kærum vini,
klettarnir, drangar, flúð og sker.
Regnský frá augum Ægir strýkur,
ávarpar stillt hin breiðu höf:
Nú fá ekki dæturnar leikið lengur
við litla skipið hans Binna í Gröf.


Hjónin Páll Oddgeirsson og kona hans Matthildur Ísleifsdóttir frá Kirkjubæ.

Páll Oddgeirsson útgerðarmaður
f. 5. júní 1888 - d. 24. júlí 1971
PÁLL fæddist í Kálfholti í Rangárvallasýslu, þar sem faðir hans var prestur, en ári síðar fluttist fjölskyldan til Eyja, er séra Oddgeir hafði fengið veitingu fyrir Vestmannaeyjaprestakalli, sem hann þjónaði um 35 ára skeið við miklar vinsældir og virðingu, enda mikill menningarfrömuður.
Ungur að árum var Páll settur til mennta, fór á verzlunarskóla í Kaupmannahöfn. Árið 1914 stofnaði hann verzlun, sem fékk orð á sig fyrir góðar og smekklegar vörur. Síðar stofnaði Páll til útgerðar og fiskverkunar og hafði gott samstarf við sjómenn, sem var honum eðlislægt og átti sér djúpar rætur frá prestsheimilinu. Frá fyrstu bernsku hafði Páll lært að skilja stöðu sjómanna og ástvina þeirra. Og ekki hafa þau farið fram hjá honum hin þungu spor, sem faðir hans varð að ganga, er slys báru að, sem altítt var á þessum árum.
Þegar ég lít til baka og íhuga æskuheimili Páls, prestssetrið á Ofanleiti, er augljóst, hversu hans innra líf muni hafa mótast á hinum mikilvægu þroskaárum. Frú Anna, móðir Páls, var mikilhæf kona, en starf húsmóður er unnið í kyrrþey og gleymist því oftar en skyldi.
Heimilið var umsvifamikið á þeim árum. Börn prestshjónanna urðu 15. Tíu þeirra komust upp, að auki voru tveir vinnumenn og tvær vinnukonur, svo að prestsfrúin hafði að mörgu að hyggja. Nú er aðeins eitt af systkinunum á lífi, Björn, sem býr í Selkirk í Kanada, á níræðisaldri, við góða heilsu.
Mér, sem þessar línur rita, var Ofanleitisheimilið mjög kært, enda uppalinn á næsta bæ frá bernsku og átti þar ætíð góðu að mæta.
Páll Oddgeirsson dáði foreldra sína alla ævi, og eflaust er, að áhrifin frá æskuheimilinu urðu mikil og varanleg í lífi hans.
Þegar svo vel tekst til á æskudögum, fær hið innra líf æskumannsins festu á bjargi. Hugur og sál eru laus úr ánauð hins hverfula, þegar trúarreynslan er orðin vissasti veruleiki lífsins, og perla hins eilífa lífs er fundin.
Þannig ætla ég, að trúaráhrifin hafi verið á heimili prestshjónanna á Ofanleiti á þessum árum.
Segja má, að Páll léti sér fátt óviðkomandi hér í bæ á sínum manndómsárum. Eitt hið merkasta í fari hans og framtakssemi var hinn takmarkalausi áhugi hans á ræktun Eyjanna, er hann vann að í mörgum sínum frístundum með eigin höndum. Sá hann þar ætíð samtvinnað hið nytsama og nauðsynlega annars vegar og hið fagra og menningarlega hins vegar. Ber þá hæst ræktun Páls suður í Klauf á Breiðabakka, sem nú er orðinn einn vinsælasti útivistarstaður Eyjabúa á góðviðrisdögum.
Sjómannadagsráð heiðraði minningu Páls með fögrum blómakransi á útfarardegi hans, er hann var lagður til hinztu hvílu í Landakirkjugarði við hlið sinnar ágætu eiginkonu Matthildar Ísleifsdóttur frá Kirkjubæ, en hún lézt 29. 8. 1945. Þau eignuðust fimm börn.
Í þakklátri endurminningu.

Friðfinnur Finnsson
Oddgeirshólum.


Rœða Páls Oddgeirssonar við afhjúpun minnisvarðans við Landakirkju.

Ræða Páls við afhjúpun minnisvarðans við Landakirkju 21. oktáber 1951 sýnir vel þá hugsjón hans að heiðra minningu Vestmannaeyinga, sem farizt hafa af slysförum, svo og einstaka átthagatryggð Páls.
Ræðan var síðasta kveðja Páls til sjómannastéttarinnar og lýsir honum betur en nokkur minningargrein.
Fer vel á því, að hún geymist í riti Sjómannadagsins í Vestmannaeyjum.

F.F.

Hér á eftir fara meginkaflar ræðunnar:


ctr
Minnisvarðinn.

Stundin er upp runnin – að reistur er og afhjúpa skal minnisvarða drukknaðra við Vestmannaeyjar - hrapaðra í björgum - og þeim, sem líf hafa látið í flugferðum millum Vestmannaeyja og Reykjavíkur, - Á slíkri stund saknaðar - kærleika - og minninga, hefjum vér hug vorn í hæðirnar til þín algóði faðir, sem hefur verið - og verður athvarf einstaklinga -heimila - og ættjarða um ár og aldir. Þú einn getur grætt undir hjartans, og þerrað tár þeirra mörgu, sem sakna og þrá.
Allri íslenzku þjóðinni er kunnugt tilefnið fyrir þessum minnisvarða - því allt frá landnámstíð hafa Vestmannaeyingar, sem önnur sjávarbyggðarlög lands vors, orðið að sækja aðallífsbjörg út á hafið - fyrir heimili, byggðarlög og fósturjörð. Hér í Eyjum, sem víðar á suðvesturlandi, er eins og vitað er, aðalbjargræðistími á dimmustu og hörðustu árstíð - þegar stormar og stórviðri geta fyrirvaralaust skollið yfir með ógn og dauða, eins og sagan greinir - fyrr og síðar, en sérstaklega á hinni hálfnuðu 20. öld. - Ég kemst vart hjá því, sem ásjáandi og meðborgari þessarar kæru byggðar um meginhluta ævi minnar - að renna huganum til baka, til hins liðna. Hinna örðugustu stunda - hinnar harmþrungnu slysasögu Vestmannaeyja — þegar stórviðrin skullu yfir - og marga vélbáta vantaði að kvöldi. Byggðin beið millum vonar og ótta, með margt kvíðandi hjarta. - Að morgni hafði storminn lægt - nóttin að víkja fyrir degi - en djúp og tilfinnanleg skörð voru oft höggvin í vinahópinn. - En bjargræðis varð að afla - og leiðin lá óumflýjanlega út á hafið. Eitt sálmaskáldanna gefur í eftirfarandi versi sanna og fagra lýsingu af sjómannslífinu:

Föðurland vort hálft er hafið,
helgað þúsund feðra dáð.
Þangað lífsbjörg þjóðin sótti
þar mun verða stríðið háð. -
-Yfir logn og banabylgju
bjarmi skín af Drottins náð.
- Föðurland vort hálft er hafið
hetjulífi' — og dauða skráð.

Hin átakanlega slysasaga Vestmannaeyja, sem skráð er frá síðustu aldamótum - telur drukknaða 232 - og hefst þessi sorgarsaga 16. maí 1901, er áraskipið Björgólfur, frá Eyjafjöllum, ferst við Klettsnef með 27 manns af 28, sem á skipinu voru - hvar af voru 8 konur. - 4 dögum seinna ferst áraskip við Bjarnarey með 5 mönnum. Þannig byrjaði hin hálfnaða öld, og má segja að flest hinna liðinna ára hafi verið stórtæk með fórnir á altari Ægis - því af hinni áminnstu tölu drukknaðra hafa farizt 19 vélbátar með allri áhöfn. - Auk þess hafa horfið á hafsbotn 35 vélbátar þar sem mannbjörg hefur yfirleitt orðið, en hjálpin oft borizt á síðustu augnablikum, og í mörgum tilfellum í stórviðrum og svartnætti, þegar öll ljós vonar um hjálp voru að kulna út. - Hér munu eflaust margir viðstaddir, sem minnast þessara augnablika — og flytja í hug og hjarta, Guði lof og dýrstu þakkir fyrir lífgjöf á síðasta augnabliki.

Hinn 11. ágúst 1935 á Þjóðhátíð í Herjólfsdal stofnaði Páll Oddgeirsson sjóð í þeim tilgangi að heiðra minningu drukknaðra við Vestmannaeyjar og í tengslum við þær - sem og þeirra, sem líf hafa látið í fjallaferðum hér í Eyjum. - En eftir að flugferðir hefjast hér fyrir fáum árum - millum Vestmannaeyja og Reykjavíkur skeður hér ný og óvænt slysasaga. - Hinn 7. marz 1948 ferst flugvél á leið frá Eyjum til Reykjavíkur með 4 mönnum - og voru 2 þeirra Vestmannaeyingar. - Enn stærra sorgarél skellur yfir hinn 31. janúar síðastliðinn, er flugvélin Glitfaxi ferst á leið millum Vestmannaeyja og Reykjavíkur, og allir, sem með vélinni voru, 20 að tölu, létu lífið - og 10 þeirra Vestmannaeyingar. - Á hinni hálfnuðu öld hafa því farizt af slysförum við Vestmannaeyjar 274 menn og konur.

- Í minnismerkinu skal geymast og varðveitast minning hinna mörgu, sem af slysförum hurfu oss sjónum á hinni hálfnuðu öld, sem og allra þeirra, er á þann hátt voru burt kallaðir fyrr á tímum. En vér biðjum þess í bljúgri bæn, að í ókominni framtíð megi sem fæstir sorgaratburðir bera að höndum - til þess að varðveitast í þessum minnisvarða.

- Sóknarnefnd Landakirkju afhendi ég minnismerkið til ævarandi varðveizlu. Samtímis færi ég fram þá einlægu beiðni að nefnd stjórn Landakirkju sjái svo um að unnið verði með alúð og umhyggju, að gjöra hér fagran gróður blóma - og trjálundi - minnismerkinu og tilgangi þess til verðugs fegurðarauka.
Í nafni allra syrgjenda, nær og fjær, sem og íbúa Vestmannaeyja, öldnum og óbornum - bið ég Guð að gefa þessum stað sinn frið — og að yfir honum megi hvíla alla tíma, minninganna og kærleikans sól.
Þið sjómenn Vestmannaeyja, sem enn standið í harðri baráttu — hér blasir við yður - og oss öllum hið táknræna minnismerki, hins hraustbyggða, sterka, hugumstóra sjómanns, klæddum herklæðum lífsbjargar - dáða og dugs, með ljós í hægri hönd - veiðarfæri þeirra tíma á vinstri handlegg.
Listamaðurinn, hr. Guðmundur Einarsson, frá Miðdal, hefur skilið hið íslenzka sjómannslíf - baráttuþrek ykkar og sögu, með miklum ágætum í þessari sönnustu mynd, sem hér hefur verið reist.
Ég minnist þess allt frá bernsku minni, að luktin, sem hér á eftir að vera í hægri hönd sjómannsins - sem reistur er í dag fyrir ókomna tíma - var fyrr á tímum formannsins förunautur og stoð — hún var ljósið, sem lýsti á dimmri vetrarnótt, þegar formaðurinn vaknaði og þurfti að fara ógreiða og óupplýsta vegu til að kalla skipshöfn sína til sjóróðra. Nú var Kyndilmessa komin, logn var á og friður - útdráttardagur í Vestmannaeyjum. Nú kom luktin að góðum notum við að koma stórskipunum á flot. Í samfloti var haldið undir Löngu. - Þar hófst hinn fagri siður gamla tímans. - Bæn var lesin með þeirra tíma trúarstyrk. - Guð var beðinn að vera með í verki - gefa björg og bægja hættum frá skipi og skipshöfn, og signt yfir skipið. Nú var ferðin hafin í nafni hans, sem bundið getur öldur og bugað stormaher. — Árarnar voru lagðar út í fullum hug og mætti — með anda bænarinnar - og trúna á sigursæla för. — Samhljómur allra var innanborðs, í anda sálmaskáldsins:

Legg þú á djúpið, þú sem enn ert ungur,
og æðrast ei, þótt straumur lífs sé þungur,
en set þér snemma háleitt mark og mið,
haf guðsorð fyrir leiðarstein í stafni
og stýrðu beint í Jesú nafni.

Slysasaga Vestmannaeyja er fyrr sögð í þessum orðum mínum - og nú flýjum vér í skjól vonarinnar og biðjum þess að hinn beiski bikar slysfara megi frá oss líða. Margt styður þá björtu von. Batnandi skipakostur - stóraukið öryggi — meiri þekking á vélum, og margs konar framfarir, er varða öryggi fyrir lífi og eignum þeirra, sem sjóferðir og útgerð stunda. -
Ég ávarpa yður sjómenn Vestmannaeyja, sem standið hér við bautasteina horfinna stéttarbræðra yðar og hugur yðar mun hvarfla út á hafið, eins og okkar allra. — Við stöndum öll í anda við hina miklu gröf - því er hér staður og stund til þess að flytja hér þá hugsjón - að sjómenn Vestmannaeyja taki í hug og hjarta hinn forna fagra sið og lesi bæn í fyrstu sjóferð, útdrætti á vertíð, sem að fornu. Væri þetta samboðið minningu við horfna sjómenn Vestmannaeyja, sem við minnumst í dag - og sæmd ykkar að hefja þennan sjálfsagða trúarsið að nýju með sjómannastétt Íslands.
Hugleiðum hvernig hinn kunni skipstjóri, [[Þorsteinn Jónsson (Laufási)|Þorsteinn Jónsson í Laufási, endar mál sitt í ævisögu sinni, „Formannsævi í Eyjum“. Honum farast þannig orð:
„Þó ég hafi snemma lært að treysta sjálfum mér, var mér líka kennt, að traust á æðri máttarvöldum væri ekki síður nauðsynlegt. Eftir því sem árin hafa færst yfir mig hefi ég betur sannfærzt um þetta.
Því væri hverjum og einum gott að hafa þetta hugfast:

Trúðu á tvennt í heimi,
tign sem æðsta ber:
Guð í alheims geimi
Guð í sjálfum þér. —“

Að lokum sameinast hugur vor allra - í trú - í von - í kærleika. — Hugur vor svífur út á hið mikla haf - þar sem svo margir eiga einkavininn - og öðrum hvarflar hugur austur í kirkjugarð — eða enn aðrir á ókunna staði, en öll biðjum við um huggun í sorginni - og endurfund á landi eilífðarinnar - þar sem enginn vetur er né haust, - en eilíft sumar endalaust.
Megi friður og fegurð umvefja og blessa þennan minnisvarða, og minningarnar, sem í honum skulu varðveitast. - Hér í skjóli Landakirkju - undir merki krossins - hinu dýrlega sigurmerki eilífa lífsins yfir dauðanum. -


Steingrímur Benediktsson.

Steingrímur Benediktsson skólastjóri — forstöðumaður Sjómannastofunnar
f. 20. maí 1901 - d. 23. nóv. 1971.
HANN fluttist til Eyja frá Sauðárkróki á þriðja tugi aldarinnar, að tilmælum félaganna K.F.U.M og K. til að veita forstöðu Sjómannastofu, sem áðurnefnd félög ætluðu að stofna í húsakynnum sínum hér. En frá þessu var horfið, þar eð ekki þótti grundvöllur fyrir slíkri starfsemi. En alltaf sagðist Steingrím hafa langaði til að úr þessu gæti orðið, og sýnir það bezt hug hans til sjómannastéttarinnar. Þetta tókst honum líka, því að fyrst og fremst er það fyrir hans forgöngu og dugnað að sjómannastofan komst upp í því formi, sem hún er nú í. Og Steingrímur veitti henni forystu fyrstu tvö starfsárin af alkunnri prýði.
Fljótlega eftir að Steingrímur fluttist til Eyja, hafði hann verkstjórn með höndum, jafnframt störfum sínum fyrir K.F.U.M. og K. félögin þar sem hann varð virkur félagi og aðalleiðtogi til æviloka. Var maðurinn fjölgáfaður og ræðumaður svo af bar, og hafði gott lag á að fá börn og unglinga til að hlusta á sig.
Árið 1934 lauk Steingrímur prófi frá Kennaraskóla Íslands. Eftir það varð hann kennari við Barnaskólann hér um árabil og skólastjóri síðustu árin, eða þar til heilsan bilaði. Störf Steingríms fyrir æskulýð Eyjanna voru heilladrjúg, enda unnin af köllun uppalandans. Með æskunni starfaði hann alla sína manndómstíð. Það er göfugt starf og háleitt.
Í Sóknarnefnd Landakirkju var hann kosinn 1930 og átti þar sæti í rúm 40 ár eða til æviloka. Ég, sem þessar línur festi á blað, átti sæti í Sóknarnefndinni síðastliðin 25 ár og er því vel kunnugur þeim mikla áhuga, sem hann bar til kristilegra málefna. Ungur heyrði hann kall Hans, sem sagði: Fylg þú mér. Og því kalli var hann trúr til æviloka.
Steingrímur var starfsins maður, sívökull og rækti hvert starf af kostgæfni og alúð. Er sérstaklega minnisstætt langt og farsælt söngstarf hans í Landakirkju.
Steingrímur átti sæti á Kirkjuþingi um árabil og safnaðarfulltrúi Landakirkju var hann í tugi ára. Einnig var hann í stjórnum margra félaga hér í bæ. Hann ritaði nokkuð í blöð og tímarit, mest um kristileg málefni, þá gaf hann út Biblíusögur ásamt Þórði Kristjánssyni kennara.
Það sýnir bezt, hve mikils álits og virðingar Steingrímur átti að mæta hjá söfnuði Landakirkju, að á aðalsafnaðarfundi í desember s.l. samþykkti fundurinn að gefa K.F.U.M. og K. 50 þúsund krónur til minningar um hann.
Steingrímur var kvæntur Hallfríði Kristjánsdóttur, ættaðri úr Svarfaðardal. Þau eignuðust sjö börn.
Nutu þau hjón mikillar virðingar og vinsælda alla tíð. Hallfríður andaðist 1967.
Hjá Steingrími mætti ég því, sem í þessum orðum felst: Verið í bróðurkærleikanum ástúðlegir hver við annan.

Friðfinnur Finnsson
Oddgeirshólum.