Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum/Úr dagbókarblöðum Agnesar Aagaard, sýslumannsfrúar í Vestmannaeyjum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit


ÚR DAGBÓKARBLÖÐUM


AGNESAR AAGAARDS,
SÝSLUMANNSFRÚAR Í VESTMANNAEYJUM


ÁRIÐ 1872 varð danskur maður, Marius Ludovicus Aagaard að nafni, sýslumaður í Vestmannaeyjum. Hann var einhleypur maður, þegar hann tók við embættinu. Var hann í fyrstu til húsa hjá verzlunarstjórunum í Garðinum, þeim Gísla Bjarnasen, hálfgildings uppeldissyni verzlunareigandans, Niels Nicolaj Brydes, og Frederik Sörensen, dönskum manni, sem tók við stjórn verzlunarinnar af Gísla. Sýslumaður var góður málamaður. Lærði hann fljótlega að rita íslenzku lýtalítið, en málfarið mun eitthvað hafa verið bjagað í daglegu tali, eins og gengur með alla útlendinga, hvar í landi sem er.
Árið 1874 fékk sýslumaður orlof og fór hann til Danmerkur á fornar slóðir. Í þessari Danmerkurferð kvæntist hann kennslukonu af frönskum ættum að langfeðgatali, Agnesi Matthilde Adalheide Grandjean. Hún kom þó ekki til Vestmannaeyja fyrri en ári síðar, vorið 1875. Þá tóku sýslumannshjónin á leigu gamalt íbúðarhús, sem Bryde kaupmaður átti. Það var nefnt Nöjsomhed, af dönskum lækni, sem byggði það, og stóð þar sem nú er Stafholt, stuttan spöl suður af Austurbúðinni. Þarna bjuggu þau þangað til þau fluttust í Uppsali, sem Gísli Bjarnasen verzlunarstjóri hafði látið byggja í Heiðinni norðvestur af Stakkagerði árið 1875. Þetta hús stendur enn þá nokkuð breytt sunnan við Vestmannabrautina og mun vera nr. 45. Frá Uppsölum fluttust þau hjón árið 1883 að Vilborgarstöðum og þar áttu þau heima þann tíma, sem þau áttu eftir að dvelja í Vestmannaeyjum. En árið 1892 var Aagaard veitt bæjarfógetaembættið í Faney við vesturströnd Jótlands.
Sýslumannshjónin eignuðust þrjá syni í Eyjum: Sophus (Dodo), lögfræðing og lögreglustjóra á Fjóni. 2. Gunnar, lögfræðing. 3. Kjartan, lyfsala og 4. Otto.
Þeir eru allir látnir, en sterkar taugar tengdu þá alla æskustöðvunum í Eyjum.
Frú Aagaard skrifaði nokkur dagbókarblöð meðan hún dvaldist í Eyjum og eru þau í eigu Ebbu Aagaard lyfsala í Galten á Jótlandi, sem gaf mér ljósrit af þeim. Þessi dagbókarblöð eru skemmtileg heimild um daglegt líf sýslumannshjónanna og kunningja þeirra. Einnig eru þau örugg heimild um ýmis atvik og athafnir manna í Eyjum og að því leyti menningarsöguleg heimild.
Hér á eftir fara nokkrir kaflar úr dagbókarblöðum frúarinnar, einkum valdir með tilliti til sögugildis þeirra. Þráðurinn verður rofinn annað veifið og skotið inn skýringum og sögð deili á mönnum, sem til sögunnar koma.
Agnes var aðeins 22 ára að aldri, þegar hún giftist sýslumanni, sem þá var orðinn 37 ára gamall.
Það er engin furða þó sýslumannsfrúnni kæmi ýmislegt undarlega fyrir sjónir í Eyjum, þegar hún kom þar vorið 1875 eftir langt og leiðinlegt volk á úthafinu. Hún þekkti ekki annað en dönsku sundin, og sléttur og skóga Sjálands, svo að henni hefur vaxið í augum þessi klettaeyja, umgirt freyðandi úthafinu, þar sem veðurbarðir sjómenn leituðu út í hafsauga til fiskveiða á opnum smákænum um hávetur. Og fólkið skildi hún ekki og það ekki hana. Hún hlaut það hlutskipti fyrst í stað, að vera mikið ein, einkum þó eftir að þau hjón fluttust í Uppsali, sem þá voru langt frá mannabyggðum og svo áveðra, að hún var oft hrædd um að stormurinn feykti húsinu og henni út í buskann.
Á einverustundum greip hún penna í hönd og trúði blaðinu fyrir hugrenningum sínum og spjallaði á blaðinu við ættingja og vini suður í Danmörku.

Við byrjum hér á upphafi dagbókarblaðanna:
„Að kvöldi föstudags 30. júlí 1875.
Af því að Maríus er í kvöld hjá Thomsen verzlunarstjóra í toddyboði fékk ég mikla löngun til þess að skrifa svolítið, til þess að stytta mér einverustundirnar, því að mér leiðist mikið, síðustu kvöldin, síðan fór að dimma af nóttu. Í dag hefur verið heldur gott veður, en í gær var það grátt og dapurlegt og ég var líka heldur dauf í dálkinn. Eftir að hafa drukkið te, fór Maríus til Thomsens og ég í rúmið kl. 9, af því að ég hélt, að þá liði tíminn fyrr. Ég hafði víst blundað, er ég vaknaði við krafs í músum, sem við Stóra-María þekkjum vel. Það glamraði í skjólunni, svo músin hlaut að vera inni í herberginu. Ég varð ægilega hrædd og kallaði á Ellu, en hún var þá komin í rúmið. Ég þorði ekki að fara á fætur, svitinn spratt út og líf mitt var ekki á marga fiska. Loksins kom Maríus. Eftir að ég hafði svolítið vatnað músum, jafnaði ég mig.
Ég er svo ánægð yfir því, að Maríus getur umgengizt Thomsens-fjölskylduna, en sú dýrð stendur ekki lengi, af því að eldri bróðirinn, Nicolaj, siglir heim í október. Sá yngri, Júlíus, verður hér, en hann er okkur ekki eins geðfelldur.
Það kemur fyrir, að ég er reglulega döpur út af einverunni, sem ég bý við, eða öllu heldur fásinninu. Bara, að hér væri þó ekki nema ein manneskja, sem ég gæti talað við. Stundum finnst mér, að ég gæti gefið ár af lífi mínu, ef ég mætti aðeins eina stund hafa hjá mér ástvini mína og vini að heiman til þess að spjalla við þá. Svona var mér innanbrjósts í gær. En ég get aðeins staðið fyrir framan myndirnar af ykkur og horft á þær og látið hugann reika heim og minnzt horfinna daga. Nú skrifa ég ekki meira í kvöld. Mér er ekki rótt innan brjósts.“
En frúnni var ekki alltaf svona þungt fyrir hjarta. Hún skrifaði í dagbókina:
„Síðdegis mánudaginn 20. ágúst:
Maríus er á sjó í veiðiferð. Þegar við höfðum lokið við að borða og sátum og spjölluðum saman, stakk Júlíus höfðinu inn úr dyrunum, sem alltaf standa opnar, þegar gott er veður, eins og í dag, það er reglulega hlýtt.
Hann bað Maríus að koma með og þeir fóru í skyndi.
Það greip mig líka löngun til að fara út, en enn þá hef ég ekki farið út ein. Ég gekk því niður eftir til maddömu Sörensen, til þess að fá hana út með mér. En hún var ekki heima.
Ég fór því heim og sótti Maríu litlu Bjarnasen, sem hafði verið hjá mér allan daginn. En það er þó ekki skemmtilegt, af því að hún talar aðeins íslenzku, þó hún skilji allt, sem ég segi.
Við fórum inn á Eiði. Og þar sat ég á stórum steini allt að tveimur klukkustundum og lét Atlantshafið hrynja við fætur mér og dreifa yfir mig úða sínum. Barnið var mjög rólegt og kastaði steinum. Það minnti mig á litla Áka, sem sætti hörðum átölum Lukku fyrir það, að hann kastaði smásteini í höfnina. Þannig rifjast smámunirnir upp fyrir mér.
Hafið hefur mikil áhrif á mig. Ég þreytist aldrei á því að sitja og hlusta á brimniðinn. Það er eins og komi yfir mig dásamleg ró og friður, sem lætur mig gleyma öllu, sem þjakar og þjáir. Ég vildi leggjast til hinztu hvíldar við hafið. Þó orkar það ekki alltaf þannig á mig. Stundum er eins og ég sé dregin af ósýnilegu afli og ég finn til nær ósigrandi löngunar til að stökkva út í freyðandi bárurnar. Ég hygg, að það sé þegar ég er taugaveiklaðri en ella. Kannske finnst ykkur þetta hástemmt, en á stað, þar sem maður er neyddur til umgengni við sjálfan sig, vill það við brenna.
Á laugardaginn gengum við langa leið og eftir tedrykkjuna fór Maríus til Thomsens og ég hakkaði kjöt í bollurnar í súpuna næsta dag. Hvorttveggja var gott. Meðan við sátum að borðum kom Júlíus og spurði okkur, hvort við vildum koma í útreiðartúr. Maríus hafði nýlega, fyrir tilstilli Bjarnasens, fengið loforð um lán á tveim hestum. Hér er erfitt að fá hesta, því að þeir ganga sjálfala, og því verður fyrst að fá mann til að leita þeirra, og svo þarf til reiðtygi, sem verður að taka að láni á ýmsum stöðum. Þetta veldur því, að útreiðar eru erfiðar hér. Kl. 4 vorum við þó tilbúin eftir mikið mas og Nicolaj, Júlíus, Maríus og ég hleyptum af stað, en þá kom í ljós, að hesturinn minn vildi með engu móti hlaupa. Júlíus þurfti alltaf að vera í nágrenninu til að beita hann svipunni, en því svaraði hann með því að slá. En er frá leið lét hann betur að. Kvensöðullinn íslenzki er eins og helmingurinn af söðli Áka, sem skrúfa má á borð. Hann er úr tré með skinnklæði og lítilli fótafjöl. Þeir eru varasamir, því að þeir geta auðveldlega farið um hrygg, svo að reiðmaðurinn steypist kollhnís, sem ekki er gott. Þetta varð mikil skemmtireið. Veðrið var hlýtt, of hlýtt til að vera í kápu, sem ég ber alltaf á reið. Heima hefði naumast enginn lagt upp í svona reið. Í fyrstu riðum við sanda fast við hafið, því næst lá leiðin upp grýtta bakka og flatir, ýmist upp eða niður. Loks náðum við settu marki: Stórhöfða. Lengra er ekki hægt að komast, því að við höfðum farið yfir alla eyna. Við riðum upp í mikla hæð, fremst fram á snarbratta fjallsbrúnina við hafið. Það mundi hafa farið hrollur um þig, mamma, hefðir þú séð okkur frammi á fjallsbrúninni. Hugsaðu þér, ef hesturinn hefði hrasað. Á tindinum stigum við af baki og hvíldum okkur og nutum hins dásamlega útsýnis. Við stigum síðan aftur á bak. Júlíus lyfti mér í söðulinn. Hann er riddari minn og kennari. Þegar við komum niður af fjallinu, hleyptum við þangað til við komum nálægt prestssetrinu. Þar mættum við 6 drengjum ríðandi og slógumst við í hópinn til þess að geta þeyst áfram, því að hestarnir eru þeim mun fjörugri sem fleiri eru saman komnir. Þegar hleypt er á stökk, fara allir af stað. Allt gekk vel, þangað til hesturinn minn hrasaði og ég steyptist af baki, án þess þó að meiða mig. Hestarnir hrasa oft og maður verður alltaf að hafa gát á og taka í taumana, en því gleymdi ég. Ég steig aftur á bak ósmeyk og við þeystum áfram. Mér var hrósað fyrir dirfsku mína. Klukkan var orðin átta, þegar við komum heim. Við hjón drukkum te í skyndi, því að við höfðum boðið félögum okkar upp á toddyglas. Ella varð fyrst að fara upp eftir til maddömu Bjarnasen og fá lánaða mjólkurkönnu og til maddömu Thomsen eftir einni vatnsfötu. Kvöldið var skemmtilegt, tíminn leið við viðræður um Kaupmannahöfn og Óðinsvé, þar sem bræðurnir þekkja nokkuð af fólki:
Unnusta Júlíusar er frænka Bergs krypplings frá Hunderup, sem við sáum svo oft í Albani. Allar viðræður snúast um gamla hluti, sem maður rifjar upp. Þetta var skemmtilegasti dagur. Í dag erum við stirð í öllum limum eftir þessa óvenjulegu hreyfingu.
Á miðvikudaginn kl. 1 komu þeir úr veiðiferðinni. Allur aflinn var einn stór og horaður þorskur, sem var lagður inn í krambúðina. Um kvöldið las Maríus hátt. En samt fórum við snemma í háttinn til þess að hvíla þreytta limi.“
Þessi frásögn frú Aagaard gefur lifandi mynd af lífi hennar í leiðindum og á gleðistundum. Fólkið sem hún nefnir, voru þeir Thomsensbræður. En faðir þeirra átti Miðbúðina og rak þar verzlun, sem frændi þeirra, Jes Nicolai Thomsen, var verzlunarstjóri við. Júlíus var um þessar mundir 23 ára að aldri. Vinnustúlkan var Elín Jónsdóttir, 18 ára gömul. Þau voru þá þrjú í Nöjsomhed (nú Stafholt), Maríus Aagaard sýslumaður, Agnes, kona hans og Elín.
Elín var dóttir Jóns Þorgeirssonar bónda á Oddsstöðum og Margrétar Halldórsdóttur. Jón var einhver mesti fjallamaður í Eyjum um sína daga og var fenginn til allra erfiðustu fjallaferða. Hann dó árið 1866, 65 ára að aldri. Margrét, kona hans, dó ekki fyrri en 1908, enda var miseldri þeirra mikið. Elín giftist Jónasi bónda á Helluvaði og eru margir afkomendur hennar í Eyjum, og er meðal þeirra Jónas frá Skuld, mikill fjallamaður, eins og langafi hans.
Veiðiferð þeirra félaga hefur verið höfð að háði og gamni. Þeir félagar hafa þótt ófiskilegir, enda var aflinn rýr. Upp kom vísa um sjóferðina, gekk hún mann frá manni, þó að ókunnugt væri um skáldið. Margir hagyrðingar voru í Eyjum um þetta leyti. Dugir að minna á Gísla Engilbertsson á Tanganum og Sigurð Sigurfinnsson í Kokkhúsi, þó ég vilji alls ekki fullyrða, að annar hvor þeirra hafi gert hana. Vísan er svona:

Stýrið misstu brjótar brands
beint í ólgu-sjónum.
Urðu svo að leita lands
loppnir mjög á klónum.
Dines ýsur dró óseinn,
daufur mjög af þreytu.
Músarrindla ótal einn
Aagaard drap í beitu.

Dines sá, er nefndur er, var Petersen, og var verzlunarmaður í Austurbúðinni hjá Bryde. Hann varð seinna kunnur kaupsýslumaður í Kaupmannahöfn og verzlaði við Íslendinga.
Veðrið hjálpaði til að gera sýslumannsfrúnni lífið dapurlegt. Hún heldur áfram frásögn sinni:
„Á fimmtudag var veðrið hráslagalegt, hvasst og regnþrungið. Hér eru þessi furðulegu umskipti. Einn daginn er blíðasta sumarveður, en þann næsta sannarleg haustveðrátta. Árdegis fór sú fregn um alla eyna, eins og eldur í sinu, að seglskip væri í augsýn. Það var norsk skonnorta með timburfarm. Það er viðburður í fásinninu og maður horfir með forvitni á það, er skipið siglir í höfn. Ég stóð við gluggann, þeytandi eggjahvítur, til þess að horfa á, þegar það siglir í höfn. Skipið er grænt og nokkuð stórt. Nú er það lagzt fyrir akkeri. Mér þykir gaman að horfa á siglurnar og fánann. Ég skrifaði einu sinni, að það gripi mig heimþrá, er ég sæi Diönu sigla héðan, en miklu meira fær það á mig, þegar seglskipin fara, því að þau standa manni nær. Þegar Jóhanna sigldi af stað, horfði ég hrygg á eftir henni, en þó hvarflaði sú huggandi hugsun í hug, að hún kæmi aftur. Þegar Hermine sigldi af stað tveimur dögum seinna með Thomsen gamla og tvær stúlkur, sem ætla að freista gæfunnar heima, — þær komu til að kveðja og þær kysstu mig fyrstu kossunum, sem hér tíðkast, — þá greip mig meiri tilfinningasemi. Ég stóð með spenntar greipar og horfði á skipið fara hægt fram hjá, og það var næstum því eins og tekinn væri af mér limur, til þvílíkrar kvalar fann ég og mér fannst ég vera ósköp ein og yfirgefin. Ég kraup með andlitið niðri á sófanum og grét sárt. Eiginmaður minn var niðri við höfnina og Ella einnig, til þess að kveðja vinkonur sínar, svo ég var einsömul. Ég vildi ógjarnan, að Maríus fengi vitneskju um það, hve ég var barnaleg, en þegar hann eftir heimkomuna minntist á svipað ástand, sagði ég honum hvernig ég hefði hegðað mér og við vomm sammála um, að það væri barnalegt, því að ég mundi ekki vilja, hvað sem í boði væri, fara heim án hans.
Eins og áður segir, var veður dapurlegt, en innan veggja líður okkur vel.
Kl. 2 kom Nicolaj og sat hér nokkrar klukkustundir. Honum fannst það líka dapurlegt, og svo hugguðum við hvert annað. Er við fengum okkur te kom Júlíus og sat hér til háttatíma.“
Gamli Thomsen var faðir þeirra Nicolajs og Júlíusar. Stúlkurnar, sem sigldu í ævintýraleit, voru þær María Tranberg frá Jómsborg og Oddný Magnúsdóttir frá Frydendal eða Guðrún Austmann frá Þórlaugargerði. Þær fóru allar til Kaupmannahafnar 1875.
Frú Aagaard heldur áfram að lýsa þeim áhrifum, sem hafið og veðurfarið hafa á hana:
„Föstudagskvöld. Í gær var hráslagalegt og hvasst. Árdegis heyrði ég í eldhúsið undarlegan dyn. Ella sagði, að það væri hafbrim. Upp úr hádegi þrammaði ég þess vegna einsömul austur á Urðir og settist í sætið mitt, sem ég hef valið mér. Verð ég að klifra í það yfir stóra steina. Það var nokkurt brim og einkum dróst athygli mín að litlum fiskibáti, sem valt eins og skel, og stundum var útlit fyrir, að hann græfist á kaf í bárurnar. Hvassviðrið hrakti mig fljótlega úr háu sæti mínu og ég færði mig í betra skjól. Öll ströndin hér er þakin stórgrýti og hrauni frá Helgafelli, og vegna þess, að hafið brýtur í sífellu á henni, hefur það á sumum stöðum rutt burtu undirstöðunni, en efsta lagið hangir uppi og myndar einskonar hengibrú, sem hægt er að ganga undir. Undir þeytist sjórinn inn í hellismyndanirnar. Það er fögur sjón, og þegar mikið brim er, skvettist sjórinn hátt. Það er stórkostlegt. Ég sat þarna lengi, þar til hellirigning hrakti mig heim.“
Frúin undi sér vel á eintali við náttúruna um þessar mundir.

---

„Klukkan 4, þegar ég var í þann veginn að fara inn á Eiði, kom frú Sörensen með litla drenginn sinn. Ég hellti þá upp á kaffi og hún var líka í teinu. Við höfum aldrei boðið þeim hjónum hingað yfir, af því að við kinokum okkur við að umgangast hann sökum þess, að hann er alveg ómenntaður og rustalegur maður. Hann var áður lögregluþjónn og nú er hann verzlunarstjóri og nýtur trausts Brydes, en hér er fólk á annarri skoðun. Sagt er, að hann drekki allmikið og hangi oft fullur í búðinni hálfar næturnar. Konan er þægileg og greiðvikin og mér er vel til hennar, en að sjálfsögðu einnig ómenntuð.
Frú Bjarnasen er talin vera málug, og ég hef verið vöruð við henni og er nú mjög varkár, en það dregur úr umgengni. En hún er óvenjulega bóngóð. Þetta eru nú þessar tvær fjölskyldur. Þriðja er fjölskylda Thomsens verzlunarstjóra. Bróðursonur gamla Thomsens er Íslendingur, lítill og þreklegur og alltaf þegjandalegur. Ég hef ekki enn þá heyrt í honum röddina. Hann er eitthvað yfir þrítugt. Hann giftist dóttur maddömu Roed, ekkju með 6 börn eftir bróður Bjarnasens. Nú hefur eitt barnið bætzt við. Konan er miklu eldri en hann og mjög ófríð, en dugleg og þægileg. Sagt er að Jes sé heldur óþjáll heima fyrir, um tíma afbrýðisamur og jós því yfir hana grófustu skammaryrðum. Nú er sagt, að hann sé ástfanginn í uppkominni stjúpdóttur sinni, laglegustu stúlku. Þetta sýnir, hvernig þeir eru framámenn eyjarinnar, svo að þið getið séð hvaða ábati muni vera að því að umgangast þá.
Föstudagskvöld. Í kvöld er ég ein á ný og hef fyrir stafni það, sem þið sjáið.
Í gær kom læknirinn í langa heimsókn. Það er heldur skemmtilegt að hlusta á hann, en annars er hann mér ekki að skapi. Hins vegar lízt mér betur á prestinn, sem kom meðan við sátum undir borðum og drakk með okkur te. Hér er fólk að jafnaði ávarpað með fornöfnum sínum og það er svo skringilegt, að heyra Ellu segja Nicolaj og Júlíus.
Hér er mikil fátækt og um 60 börn, auk gamalmenna, á sveitinni. Hér ríkir því sá siður, að þegar lögð er á mann einhver útsvarsupphæð, getur hann annaðhvort greitt hana með reiðufé eða tekið í fóstur eitt eða fleiri börn, eftir því, sem þau eru metin. Menn verða að ala önn fyrir þeim og kenna þeim, en þau verða að gera það gagn, sem þau geta. Þetta gildir árið, en er venjulega endurnýjað, af því að fólk vill helzt hafa sama barnið. Ella er alin upp á þennan hátt af Bjarnasenshjónunum.“
Læknirinn kemur hér fyrst við sögu hjá frúnni. Það var Þorsteinn Jónsson í Landlyst. Hann var Vestmannaeyingum allt í öllu, oddviti, læknir, prestur, ef svo bar undir, og á stundum sýslumaður í fjarveru yfirvaldsins. Hann var stundum nefndur Eyjajarl.
Frú Ane Sörensen var kona Frederiks Sörensens verzlunarstjóra í Garðinum. Þau voru bæði um þrítugt. Hann varð ekki langvinnur í Eyjum, enda var hann óvinsæll. Var honum laus höndin og átti í ýmiss konar útistöðum og málaferlum út af meiðslum. Jón halti, vinnumaður gamla læknisins, flúði til Ameríku upp úr væringum við Sörensen og bar þar beinin. Bar Jón fyrir sig hníf, er Sörensen gerði atlögu að honum, og veitti honum áverka með vopninu.
Frú Bjarnasen var María, dóttir Ásdísar í Stakkagerði og Asmundsens skipstjóra, fyrri manns hennar. Hún var gift Gísla Bjarnasen verzlunarstjóra á Tanganum og í Garðinum. Þau fluttust með börn sín til Danmerkur árið 1883.
Jes Thomsen, verzlunarstjóri, var fæddur á Vatneyri við Patreksfjörð og voru foreldrar hans William Thomsen kaupmaður þar og kona hans Ane Margareta. Hann var uppalinn þar vestra og mun því hafa talað íslenzku lýtalaust. Frúin hefur þess vegna haldið, að hann væri Íslendingur, þó að hann væri danskur í báðar ættir. Árið 1875 var Jes Thomsen 34 ára, en konan fertug. Aldursmunurinn var því ekki mikill. Kona hans var Jóhanna, ekkja Jóhanns Péturs Bjarnasens, verzlunarstjóra í Garðinum, sem andaðist 1869. Meðal barna þeirra Péturs voru Anton, verzlunarstjóri í Eyjum, Nikolai Carl Frederik Bjarnasen kaupmaður í Reykjavík og Jóhann Morten Peter Bjarnasen verzlunarstjóri í Garðinum.
Presturinn var séra Brynjólfur Jónsson á Ofanleiti, mesti sæmdarmaður. Um þessar mundir var 20 manns í heimili hjá honum að Ofanleiti. Og frúin heldur áfram að minnast á fólkið og atburðina í kringum sig:
„Í gær bar við leiðindaatvik. Eiginmaður frú Roed skar í sundur slagæðarnar á báðum handleggjum. Hann er seinni maður hennar. Þau héldu brúðkaup fyrir 8 árum, en samt misstu þau 14 ára gamla dóttur fyrir nokkrum árum. Þau bjuggu nefnilega saman um skeið upp á kaþólsku. Roed var fyrst beykir, en varð síðan verzlunarmaður í Miðbúðinni, en var sagt upp vegna óreglu. Á síðustu árum hefur aðalstarfi hans verið að mala kaffibaunirnar, klípa kandísinn í sundur og að drekka. Konan sér um allt annað. Hann hefur legið um vikutíma í þunglyndi. Hann sagðist engan mat verðskulda, af því að hann gerði ekki neitt gagn, og vildi ekkert þiggja. Á sunnudagsmorguninn læddist hann út í hænsnahús og þar skar hann sig inn að beini á hægri hendi og djúpt í þá vinstri. Þegar konan fann hann, var hætt að blæða. Læknirinn batt fyrir æðarnar og presturinn var sóttur. Síðdegis var líðanin mjög slæm af sárasótt, og búizt við að hann mundi andast, en hann hresstist við til allrar óhamingju, því að þau eru bláfátæk og menn óttast, að þau lendi á sveitinni. Það er sorglegt, að vera niðurkominn á stað, þar sem svona mikil eymd ríkir.“
Roed beykir lifði lengi eftir þetta. Hann dó á sveit, eins og menn höfðu óttazt. Hanna kona hans dó löngu áður. Hún var áður gift Eriksen skipstjóra, en áður en hún giftist, átti hún Jóhönnu, konu Jes Thomsens, með Rasmussen skipstjóra. Maddama Roed rak veitingahús í Vertshúsinu og átti það.
Skömmu síðar hætti frúin að skrifa dagbókarblöðin og það var ekki fyrr en þremur árum síðar, að hún greip til pennans á ný. Þá var komið annað hljóð í strokkinn:
„Að kvöldi fjórða jóladags 1878.
Það varð langt í kveðjum mínum við dagbókina. Nú hef ég gripið til hennar aftur og lesið yfir það, sem ég hef skrifað. Hvílíkur munur á fortíðinni og nútíðinni. Ég skil bara ekki, hve þunglynd ég hef verið og haft svona mikla gnægð frístunda. Nú hverfa dagarnir mér með ótrúlegum hraða og mér leiðist aldrei. En nú á ég líka tvo fallega snáða, sem geta stytt tímann og gert allt bjart kringum mig.“
Um jólahald Vestmannaeyinga segir hún:
„Sú skemmtilega venja er hér á bæjunum, að á jóladag er ekkert um að vera. Þó flestir hafi þá farið í kirkju til að hlýða á messu, er samt lesinn lestur, þegar heim er komið. Snemma er gengið til náða, en ljósin eru ekki slökkt. Kertin eru látin loga þangað til þau eru brunnin upp.
Aðfangadag jóla er alls staðar soðið hangikjöt og á jóladagsmorgun fyrir messu er það borðað. Á jóladagskvöld er borðaður hrísgrjónagrautur með rúsínum og heilum kanil. Sama er endurtekið á gamlárskvöld. Alla hina jóladagana spila menn á spil og heimsækja hver annan.“
En frásögn Agnesar um fyrsta jólatréð og jólatrésfagnaðinn er á þessa leið:
„Á jóladag (1878) vorum við Signe önnum kafnar við jólatréð. Það var eins bert og hönd mín. Hvergi sást á því barr. Ætlunin hafði verið að þekja það með lyngi, en frostið kom í veg fyrir, að hægt væri að ná í það. Hálfum mánuði áður hafði ég náð í lítils háttar af lyngi og með því vöfðum við toppinn. Þó að það væri ljótt og visið, var það þó betra en ekki neitt. Við Signe höfðum á hverju kvöldi í heila viku verið önnum kafnar við að búa til skraut og þegar við höfðum lokið við að skreyta tréð, fannst okkur öllum það sérlega snoturt. Þið ættuð bara að vita, hvernig við rændum öllu, sem til var í húsinu, til þess að við gætum gert pappírsskraut, sápu, kaffibæti, súkkulaði. Við tókum allt, því mamma hafði ekkert sent af slíku.
Kl. 6 borðuðum við steikt kindakjöt og drukkum með því spanskt rauðvín. Síðan fórum við öll þrjú til messu, og mér er óhætt að segja, að aldrei hafa sézt slíkir kirkjugestir. Við Signe vorum svolítið örar — myrkt var af nóttu og snjór á jörð. Leiðin lá um eintómar þúfur og hrösuðum við um þær hvað eftir annað. Loks komust við í kirkjuna og í stólana okkar.
Kirkjan var uppljómuð og mjög snotur. Við skildum ekkert af ræðunni og sálmasöngurinn var þetta kvöld hræðilegri en nokkru sinni áður. Við þorðum ekki að líta á hvert annað til þess að kíma ekki.
Um leið og messunni var lokið flýttum við okkur heim. Eins og fyrri duttum við hvað eftir annað og lofaði ég mér því, að ég skyldi ekki í bráð fara í kirkju. Það er eins og öfugmæli.
Þegar ég kom heim kveikti ég á jólatrénu og tók litla Gunnar minn á arminn. Það er ekki hægt að lýsa gleði barnsins. Hann dansaði á handleggnum og vildi blása á kertaljósin. Hins vegar var Dodo þögull. Hann fékk Örk Nóa, en Gunnar blístru. Signe fékk nokkra smámuni og hún gaf mér fallegan bolla með nafni mínu áletruðu.
Þegar við slökktum á jólatrénu fengum við okkur kaffi og spjölluðum síðan þangað til tími var kominn til að ganga til náða.
Jólamorguninn færði Signe okkur te á rúmið. Kl. 2 borðuðum við morgunverð og læknirinn borðaði með okkur.
Um kvöldið átti aftur að kveikja á jólatrénu fyrir 11 gestkomandi börn. Þau komu kl. 4 og læknirinn, Bjarnasen og kona hans. Fyrst gáfum við þeim kaffi. Síðan var þeim hleypt inn, þar sem jólatréð stóð, og voru þau alveg undrandi yfir þeirri sjón, sem þau sáu. Enginn hér í eyjunni hefur nokkru sinni fyrri séð jólatré og öll voru þau stórhrifin.
Við gáfum hverju barni smáhlut, sem við höfðum gert, auk fléttaðra krossa, rósa og slíkra muna. Veitingarnar voru: piparhnetur, rúsínur og brjóstsykur, sem Maríus hafði soðið. Ég held, að kvöldið hafi verið öllum ánægjulegt.“
Þetta var fyrsti jólatrésfagnaðurinn í Eyjum. Í miðri jólagleðinni rifjar hún upp andlát og útför maddömu Roed:
„Ég hef orðið fyrir þeirri miklu sorg að missa gömlu maddömu Roed. Hún dó 23. nóvember. Hún veiktist síðast í september, nokkrum dögum eftir að hún hafði verið hér í heimsókn. Fæðingardagur hennar, 1. október, var því ekki hátíðlegur haldinn, eins og venjulega. Hún sagðist ætla að safna saman vinum sínum, þegar hún hresstist. Það kom að því, en með öðrum hætti en hún hafði ráðgert. Hún var jarðsett 30. nóvember. Daginn áður var okkur boðið til útfararinnar. Kl. 11—12 gengum við þangað niður eftir. Kistan stóð í gestastofunni, þar sem var búið langborð fyrir lægra sett fólk. Við komum saman í einkaherbergjum hennar.
Borðið svignaði undan smurðu brauði og jólakökum, sem var borðað með kaffi. Það tók líklega nokkrar klukkustundir. Síðan var kistan borin út og sett niður utan við húsið, þar söfnuðust menn um hana og þá hélt presturinn mjög fagra ræðu. Því næst fylgdu allir kistunni í kirkju. Kistan var falleg, eftir því sem gerist um íslenzka smíði, svartmáluð og breið í höfðalagið og þrengri til fóta. Á hana voru settar til skrauts hvítar, renndar kúlur, og á henni miðri lá lyngkranz.
Kirkjan var klædd svörtum dúk og kistan var sett fyrir framan altarið, og nú sat maður skelfilega lengi og beið. Ég hélt að þetta væri venja, en heyrði seinna, að það hefði verið vegna þess, að ekki var búið að taka gröfina, af því að hvað eftir annað hefði frá báðum hliðum steypzt gamlar kistur ofan í gröfina. Loksins komu líkmennirnir og presturinn hélt aftur ræðu og var hún einnig lagleg. Síðan var kistan borin út í kirkjugarðinn undir klukknahljómi og fylgdi allur hópurinn. Presturinn kastaði á hana mold og síðan byrjuðu 6 menn að fylla gröfina og allan tímann, sem þeir unnu að því, söng öll líkfylgdin sálma. Síðan gengu allir aftur í kirkju og þar voru aftur sungnir sálmar og þá fyrst hurfu menn burtu og var klukkan þá orðin fjögur. Hvernig lízt ykkur á svona útför? Hér er enginn grafari. Þurfi að jarða einhvern, verða aðstandendur að annast töku grafarinnar. Hins vegar eru hér líkmenn. Í kirkjugarðinum var lesið fallegt kvæði, sem einn bændanna hér hafði ort. Hún naut almennra vinsælda og hennar verður mikið saknað.“
Þetta hefur verið óvenjuleg útför bæði að viðhöfn og tímalengd, enda spunnust af henni miklar sögur um reimleika og afturgöngur, sem hefðu átt að torvelda töku grafarinnar.
Síðan heldur frásögnin áfram:
„Nýársdag kom læknirinn hér á leið frá kirkju og bauð okkur til súkkulaðidrykkju næsta dag í tilefni af afmæli elztu dóttur hans. Við fórum þangað öll þrjú, þrátt fyrir nístandi kulda og fengum mjög þunnt súkkulaði. Kl. 3 fórum við heim, en kl. 7 fórum við þangað aftur í te. Þar var mjög snoturt kvöldborð: sardínur, hangikjöt, kæfa (íslenzkur réttur, sem búinn er til svona: Heill kindarskrokkur eða minna er soðinn svo, að hægt er að taka kjötið af beinunum í mjög smáum stykkjum. Síðan er það aftur sett í pottinn og hrært saman við alla feitina og mikið saltað. Á eftir er það sett í dósir og látið standa um tíma. Þá er hægt að skera það í sneiðar eins og sultu og það er bragðgott), spægipylsa, stokkendur, ostur, bæheimsöl og te. Þetta var ágætt... En í næstu viku var ég önnum kafin við að sjóða hangikjöt, saltkjöt og rúllupylsu, af því að við ætluðum að bjóða heim prestshjónunum og læknishjónunum eitthvert kvöldið. En veðrið versnaði með hverjum degi, svo að við gátum ekki beðið prestshjónin að ganga þessa löngu leið hingað niður eftir. Við ákváðum því að bjóða læknishjónunum einum á sunnudag. Þau komu að sjálfsögðu og ég sat hjá konunni og var í öngum mínum við tilhugsunina um það, hvernig ég ætti að hafa ofan af fyrir þeirri konu. Um tíma skoðuðum við allar mínir ljósmyndir, en á eftir var leiðinda þögn, þangað til ég í örvæntingu sótti spil og stakk upp á að við slægjum í slag, og það féll í góða jörð. Jafnvel eiginmaðurinn sleit sig úr samræðum við Maríus og spilaði með okkur, og þannig leið kvöldið þolanlega. Í þessari viku verða prestshjónin hjá okkur. Það er ólíkt auðveldara að skemmta prestsfrúnni, af því að hún getur rætt um hitt og þetta.“
Kona Þorsteins læknis var Matthildur Magnúsdóttir, ættuð úr Helgafellssveit. Hún hefur líklega ekki verið stálslegin í dönskunni og þær frúrnar því verið á sitt hvorri bylgjulengd.
Kona séra Brynjólfs var Ragnheiður, dóttir Jóns Salomonssonar, kaupmanns í Reykjafirði á Ströndum.
Hljóðfæri voru ekki í kirkjum á Íslandi fyrr en á 19. öld. Söng hver með sínu nefi, en forsöngvari leiddi sönginn.
Í Landakirkju kom ekki orgel fyrr en árið 1879. J.P.T. Bryde, kaupmaður í Garðinum gaf kirkjunni hljóðfærið, og er sagt frá því í Þjóðólfi árið 1879. Þetta hljóðfæri mun enn þá vera til og nú varðveitt í Byggðasafni Vestmannaeyja. Það kom til Vestmannaeyja árið 1878 og var Sigfús Árnason frá Vilborgarstöðum, sonur þeirra Árna bónda á Vilborgarstöðum og Guðfinnu Jónsdóttur, prests Austmanns, þá 19 ára gamall, sendur til Reykjavíkur til þess að læra að spila á orgelið. Varð hann síðan organisti í Landakirkju um langt skeið og tengdasonur séra Brynjólfs Jónssonar prests á Ofanleiti. Brynjólfur, sonur þeirra, kaupmaður í Vestmannaeyjum, tók við organistastarfinu eftir föður sinn og gegndi því um áratugi.
Orgelið var ekki strax sett í kirkjuna, heldur geymt á prestssetrinu að Ofanleiti, meðan enginn var organistinn. Frú Agnes getur þessa í dagbókarblöðum sínum, og ánægjustunda sinna við orgelið. Mann furðar, að hún skuli ekki hafa verið fengin til þess að leika á orgelið í kirkjunni meðan Sigfús var enn ókominn, en líklega hefur hún ekki fengizt til þess, þó að hún minnist ekki á það. Kannske hafa líka hleypidómar valdið því, að hún var ekki fengin til þess að annast organistastörfin.
Hér fara á eftir í lauslegri þýðingu kaflar þeir úr dagbókinni, þar sem hún minnist á heimsóknir sínar að Ofanleiti og leik sinn á orgelið.
„Janúar 1879. Við fórum upp að Ofanleiti. Allmikill stormur var. Þar hittum við Þorstein í Nýjabæ og konu hans. Stuttu síðar kom einn af bændunum, Ingimundur á Gjábakka, með konu sinni. Fyrst var okkur gefið kaffi með lummum, íslenzkri köku, áþekkri pönnuköku, og síðan kaldur kvöldverður.
Ég sá nú í fyrsta skipti nýja orgelið, sem í vetur verður hjá presti. Það á ekki að setja það í kirkjuna fyrr en í vor, vegna þess að enginn getur enn þá leikið á það.
Ungur maður héðan úr byggðarlaginu verður í Reykjavík í vetur til þess að læra að leika á það. Ég mátti til með að reyna það, og sat við það í nokkrar stundir og lék á það úr dönsku messusöngsbókinni. Ég get ekki lýst, hversu mikla ánægju ég hafði af því. Ég held, að ég hefði getað setið við það hálfa nóttina, án þess að þreytast. Guð minn, hversu dásamlegt væri ekki að hafa hér hljóðfæri. Þá mundi mér aldrei leiðast. Samt er allt annað að leika á orgel eða réttara sagt er þetta harmonium. Á því eru tvær fótskarir, sem stíga verður látlaust til skiptis, að öðrum kosti kemur ekkert hljóð úr því, og þarf nokkra æfingu til þess.
Það er langt síðan að ég hef skemmt mér jafn vel og þetta kvöld, og lengi mun ég hugsa til þess með ánægju.“
Það er augljóst af þessu, að frú Aagaard hefur kunnað að leika á píanó. Og aftur fór hún upp að Ofanleiti 27. marz og segir hún á þessa leið frá þeirri heimsókn:
„Við Sophus gengum upp að Ofanleiti. Daginn áður var afmælisdagur yngstu stúlkunnar. Signe var boðið þangað upp eftir, ásamt nokkrum öðrum ungum stúlkum. Prestsfrúin gerði skilaboð hingað um morguninn og bað mig um að koma með, vegna þess að hana langaði til að ég sæi, hvernig föt Dodos (Sophusar) færi Pétri (Pétur Torfason, uppeldissonur Ofanleitishjóna). Ég hafði lánað henni þau til reynslu, vegna þess að ég ætlaði að sníða fyrir hana föt á Pétur.
En vegna þess að hellirigning var og börnin hafa lengi verið lasin í maganum, þorði ég ekki að fara frá þeim, en lofaði að koma næsta dag. Signe kom heim kl. 7 og hitti Þorstein í Nýjabæ, sem ætlaði að borða hjá okkur rjúpur.
Eins og áður segir fórum við Dodo þangað upp eftir. Vel var tekið á móti okkur. Var okkur gefið súkkulaði og kaffi. Dodo var reglulega þægur og ég settist við orgelið og gleymdi mér alveg.
Þegar ég var að tygja mig af stað, var kominn ofsastormur. Stuttu seinna kom Maríus að sækja okkur, en áður en við fórum fengum við aftur kaffi og lummur.
Nína fylgdi okkur og skiptumst við á að bera Dodo, sem grét af ótta við storminn.“
Skemmtanalífið í Vestmannaeyjum á síðari hluta 19. aldar var mjög fáskrúðugt, eins og raunar annars staðar á landinu. Engar almennar skemmtanir voru og sárasjaldan voru leiksýningar, en þó henti það. Þjóðhátíðin var haldin 1874, en síðan ekki aftur fyrr en um aldamót. Opinberir dansleikir þekktust ekki, nema hvað fólk talaði sig saman um að eiga gleðistund saman. Agnes minnist á dansæfingar í dagbókarblöðum sínum árið 1878, en að öðru leyti nefnir hún ekki aðrar samkomur, nema á heimilum manna.
Hér verða þýddir nokkrir kaflar úr dagbókinni um dansskemmtanir þær, sem hún minnist á 1878:
„4. febrúar. Nú hefur aftur liðið alllangur tími, svo að ég hef ekki tekið mér penna í hönd, og sú ástæða er til þess, að við höfum lifað í sukki og svalli. Ég er viss um, að þið verðið alveg undrandi, er þið heyrið, hversu oft við höfum sleppt okkur lausum. Með hverjum degi sem líður finnst okkur að við séum ungæðislegri og galgopalegri.
Veðrið var svo dásamlegt 22. þ.m., að við fórum öll með Gunnar í vagninum alla leið inn á Eiði. Drengurinn var svo glaður yfir því að koma undir bert loft, að unun var að horfa á hann.
Þegar við komum heim, var ég orðin svo þreytt, af því hve erfitt var að aka vagninum eftir hinum slæmu vegum hér, að ég mátti til með að leggja mig um klukkustundar skeið til þess að safna kröftum fyrir kvöldið, sökum þess að við ætluðum á dansæfingu í Nöjsomhed, gömlu íbúðina okkar. En þar höfum við verið síðustu skiptin, af því að Bjarnasenshjónin voru orðin þreytt á því að lána alltaf húsnæði. Í fyrsta skiptið, sem við vorum í Nöjsomhed, veittu prestshjónin kaffi og jólaköku, og í kvöld Thomsenshjónin í Godthaab. Eins og venjulega skemmtum við okkur ágætlega. Maríus skemmtir sér jafnvel á þessum dansæfingum. Signe var með okkur, og var hún himinlifandi og orðin tryllt í dansinn.
En nú ætla ég að segja frá verstu ærslunum: við höfum sannarlega haft ball. Á afmælisdegi Maríusar höfum við venjulega haft karlmannasamkvæmi, og þar eð það fólk, sem kemur árdegis til þess að óska til hamingju með daginn, er boðið um kvöldið eftir venjum hér og sumir, sem koma, eru okkur alls ekki að skapi, og okkur langaði til að hafa ball, snerum við á þá. Hugsaðu þér allt umstangið, sem ég hafði af þessu. Við tókum teppið af gólfinu og fluttum húsgögnin út og komum þeim fyrir á víð og dreif.
Árdegis komu menn til að óska til hamingju og var þeim veitt eins og venjulega, súkkulaði með líkjör. Um leið og þeir voru farnir, tæmdum við stofuna alveg og fórum í beztu fötin okkar. Börnin mín líktust tveimur litlum englum. Geturðu gizkað á það, María, með hverju ég hafði skreytt Dodo? Hvítu fötunum hans Áka, sem þú sendir einu sinni og hvítum sokkum. Kl. 7 kom fólkið, ungir og gamlir, við vorum alls með manni og mús 38 talsins í stofu, sem er 6 álnir á aðra hlið, en 7 á hina.
Hitinn var mikill og allir glaðir og kátir og enginn fann til þrengslanna, hér eru menn vanir slíku. Við dönsuðum lancier og hringdansa, svo gólfið og ofninn hristust. Fyrst veitti ég súkkulaði með heimabökuðum smákökum. Karlmennirnir fengu púns. Seinna um nóttina fengu allir kaffi aftur. Þið fáið sennilega heilahristing, þegar þið heyrið, hversu mikið þurfti til: 3 pund af súkkulaði, bæði árdegis og um kvöldið, og allir fengu eins mikið og þeir vildu og þótti það ágætt. Ég hafði aðeins útvegað mér 12 potta af mjólk, en venjulega notar fólk 5 potta í pundið, það er ægileg framleiðsla. Sjálf hafði ég nokkuð af mjólk, og þar sem ég pantaði mjólk, vildi fólkið ekki taka peninga fyrir hana. Kaffið var lagað úr ½ pundi af baunum og kaffibæti, og það sauð svo, að eldhúsið var fullt af gufu. Ég stóð í meira en klukkustund og gerði ekki annað en að fylla bolla, sem Signe bar inn. Flestir drukku tvo bolla og sumir þrjá. Íslendingar eru vitlausir í kaffi, en það hlýtur að vera mesta gutl, þar sem þeir drekka kaffi 3—4 sinnum á dag. Ég hafði safnað saman rjóma síðustu dagana og hafði ég nóg af honum. Við höfðum saumað slaufur úr rauðum ullarböndum og hvítum bendlum. Silkibönd er ekki hægt að fá, og pappírsrósir. Þetta þekkist hér ekki og gerði mikla lukku. Kl. 2½ hætti dansinn og höfðum við mikla skemmtun af honum og ég hef mikla ánægju af æskufólki mínu, þar eð það er auðsætt öllum, hversu mikil breyting hefur orðið á karlmönnunum síðan ég byrjaði að kenna þeim. Áður kunnu þeir ekki að hneigja sig. Þegar þeir buðu stúlkunum upp í dans, komu þeir og drógu þær á fætur og skildu þær eftir á miðju gólfi, að dansi loknum. Nú hneigja þeir sig snoturlega bæði á undan og eftir dansinn, og færa jafnvel stúlkunum vatn. Stúlkurnar kunnu ekki heldur að hneigja sig. Þetta hefur verið mikið verk. En nú hef ég mikla ánægju af þeim öllum.
Allar viðræðurnar snerust um dansæfinguna, sem hafði verið í Nöjsomhed kvöldið áður fyrir frumkvæði unga fólksins, sem ég og mitt fólk neituðum að eiga þátt í, þar eð mér þótti vera að bera í bakkafullan lækinn rétt á eftir hinni. Kvöldið rann út í sandinn. Enginn hinna fullorðnu kom. Læknishjónin gáfu kaffi og lummur, sem gengu til þurrðar og auk þess lét konan sér sæma að stinga karlmönnunum sneiðar allt kvöldið, af því að henni fannst þeir dansa of lítið við dóttur hennar og frænku. Urðu af þessu mikil leiðindi. Þetta átti að verða síðasta kvöldið, en nú vill fólkið fá eitt kvöld enn þá, ef ég vil koma og stjórna eins og venjulega. Við sjáum nú til.“
Seinna minnist hún ekki á þessar skemmtanir, og hafa þær kannske alveg fallið niður.
Frú Agnes minnist á sjósókn Vestmannaeyinga í blöðum sínum, og lýsir landtöku og vinnubrögðum við að koma fiskinum í salt.
Við skulum gefa frúnni orðið:
Vertíðin 1879:
„Nú er aftur kominn mesti annatími eyjarskeggja, nefnilega vertíðin. Síðustu vikurnar fiskuðu þeir ágætlega, komu hlaðnir að og reru aftur. Veðrið í gær og dag hefur því miður aftrað því, að þeir færu á sjó. Það er stórviðri, svo að ekki sést út um gluggana hjá okkur fyrir sjóseltu, sem hefur fokið á þá, þó að við búum nokkurn spöl frá sjónum. Við erum orðin svo íslenzk, að alla síðustu viku höfum við borðað fisk á hverjum morgni. Fyrst drekkum við einn tebolla og því næst borðum við ýmist heilagfiski, þorsk, hrogn og lifur, og við erum svo ánægð með þessa lifnaðarhætti, að við gætum naumast verið án þeirrar máltíðar, og við borðum fiskinn auk þess kartöflulausan, af því að við höfum þær engar. Ef að gefur leiði, eigum við von á landmönnunum hingað út. Þá byrja stórskipin að róa, fyrr er hér ekki nóg fólk til að manna þau. Í hvert skipti, sem bátur rær til fiskjar, taka sjómennirnir ofan höfuðföt sín og formaðurinn biður bænar um, að guð gæti þeirra í þessum róðri.
Mér finnst það falleg venja. Þeir hafa einnig yfir bænir sínar, þegar þeir ganga í fjöll á sumrin...
Veðrið er mjög slæmt, hvassviðri og snjóhryðjur. Veður hafa alltaf verið illhryssingsleg síðan ég skrifaði síðast, þó á milli verulega góðir dagar. Landmennirnir eru allir komnir, og sá fjöldi, að hér hefur aldrei verið annað eins, líklega vegna þess, að afli var miklum mun betri í fyrra en áður. Við sjáum þó lítið af þeim, sem betur fer. Hér upp frá lifum við í friði.
Á laugardag reru stórskipin í fyrsta sinn, en aflinn var heldur rýr, vegna þess að sjóveður var ekki gott...
Á föstudag fórum við Maríus, Dodo og ég gönguferð niður eftir Strandveginum til þess að horfa á bátana koma að landi hlaðna fiski. Það er makalaust skemmtilegt að horfa á það líf. Um leið og báti hefur verið brýnt, er fiskinum kastað upp á klappirnar, dregin upp á seil. Og síðan skiptir formaðurinn fiskinum í jafn marga hluti, sem við á. Þá koma aðgerðarstúlkur hvers eiganda og bera fiskinn upp í krærnar. Svo eru nefndir smáskúrar, sem eru fram með Strandveginum, hver við hliðina á öðrum. Þær eru hlaðnar úr grjóti og mold með torfþöktu timburþaki. Inni er timburgólf, og þar er fiskurinn saltaður. Utan við hverja kró er lítið borð, sem stúlkurnar standa við og fletja fiskinn. Hryggjunum er kastað upp á þakið, þar sem þeir eru þurrkaðir og eru þeir síðan brenndir. Lifur og hrogn eru flutt heim. Lifrin er sett í kagga, þar sem hún sjálfrennur, og hrognin eru söltuð og lögð inn í búðina. Þau eru send til Spánar og eru notuð til þess að veiða með þeim sardínur. Þorskhausarnir eru lagðir á tún og girðingar til þurrkunar, þangað til þeir eru beinharðir, og síðan naga allir þá með brauði, og eru þeir taldir vera ágætis matur. Heilagfiski er skorið eða réttara flakað, svo að beinin fari úr. Síðan er það skorið í lengjur og látið hanga, þangað til það er alveg þurrt. Síðan er það borðað með smjöri og kallað riklingur.
Nú er mér sönn ánægja að því, að horfa á þetta líf og allan þennan ys. Áhöfn skipsins er klædd skinnklæðum frá hvirfli til ilja og veður hún oft í sjónum upp í mitti. Þegar þeir eru lentir, koma konur þeirra með kaffi í blikkbrúsa. Stúlkurnar, sem gera að fiskinum, eru í strigapilsum, svartlituðum, og konur og dætur hinna beztu bænda, og jafnvel dætur prestsins, vinna þetta verk.“
Hér lýkur þessum útdráttum úr dagbókarblöðum Agnesar Aagaard.