Blik 1965/Leiklistarsaga Vestmannaeyja, 2. kafli, II. hluti

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1965ÁRNI ÁRNASON:


ctr
(2. hluti)


Þann 1. jan. 1914 sýndi L.V. enn einu sinni „Apaköttinn“ með flestum af gömlu hlutverkahöfunum sínum. Þó munu hafa leikið þær Jóhönnu og Láru Emilía og Ásta Ottesen. Það sýndi sig enn, að leikritið var sem nýtt á sviði í augum fólksins. Það kunni vissulega að meta góðan leik og mikið og fórnfúst starf leikenda við hinar erfiðu aðstæður á svo margan hátt.
Um veturinn sýndi Kvenfélagið leikritið „Ferðin milli Kaupmannahafnar og Árósa“. Fór þar kvenfólk með öll hlutverkin, hvort sem það voru karla- eða kvennahlutverk.
Þótti leikritið gott og meðferð kvennanna ágæt. Helztar voru þar að leik Guðný Guðjónsdóttir, Kristín Þórðardóttir, Sesselja Kjærnested, verzlunarstjóri, o.fl. Leikrit þetta er í tveim þáttum og eftir Neumann.
Um haustið 1914 lék svo L.V. „Heimilið“ eftir Sudermann. Hlutverkaskipan var mikið til óbreytt frá árinu áður. Sýningar voru 3 eða 4. Þá lék Sigríður, systir Ólafs Ottesens, hlutverk Theresiu, og mun það hafa verið einasta hlutverkið hennar hjá L.V.
Um þessar mundir starfaði Kvenfélagið Líkn mikið að leiklist til fjáröflunar fyrir áhugamál sín. Þær, sem mest léku þá, voru sem svo oft endranær frú Ágústa á Hóli, Guðbjörg Gísladóttir, Þóra Vigfúsdóttir, Matthildur Kjartansdóttir, Matthildur Þorsteinsdóttir, Guðrún Þorgrímsdóttir, Guðný Guðjónsdóttir, Sesselja Kjærnested og Kristín Þórðardóttir. Félagið sýndi marga leikþætti til uppfyllingar á skemmtunum sínum. Voru sum leikritin bráðskemmtileg og meðferð þeirra yfirleitt ágæt. Þá var t.d. sýnt leikritið „Vinnukonu vantar“ og fór kvenfólk með öll hlutverkin. Þær voru þessar: Matthildur Kjartansdóttir, Matthildur Þorsteinsdóttir, Ólöf Jónsdóttir, Byggðarholti, Steinunn húsfreyja í Lambhaga, Guðný Guðjónsdóttir í Dal og Fríður Lárusdóttir á Búastöðum. Þótti hlutverk hennar mjög vel af hendi leyst. Hún var ein af vinnukonunum, sem sótti um auglýsta vinnukonustöðu. Húsfreyja vildi gjarnan fá einhverja upplýsingar um hana og spurði. Vissulega stóð ekki á svörunum. Hún söng þá eftirfarandi og var viðlagið: Hvað er svo glatt:

Ég get allar upplýsingar gefið,
og ein er sú, að ég vil snafs með mat.
Við brennivínið hverfur úr mér kvefið,
en komi það ei, þá verð ég despirat.
Hvar bindindið og vatnið hafa völdin,
þar verð ég ekki, það er ekkert mas.
Innvortisskjálfti er í mér á kvöldin,
en alltaf batnar hann við toddy-glas.

Ekki fékk hún vistina, en meiningu sína sagði hún, svo að ekki varð á villzt, hvað hún vildi. Hinar þóttu og fara mjög vel með hlutverk sín, t.d. Steinunn og Ólöf. — Leikrit þetta vakti almenna hrifningu áheyrenda.
Nokkru síðar var svo leikið leikritið „Happdrættismiði nr. 101“, og fór frú Lára Guðjónsdóttir á Kirkjulandi með hlutverk Katterups og hreif fólkið. Leikrit þetta er eftir Erie Bögh, söngva- og gleðileikur.
Eftir „101“ var svo endurtekið leikritið „Lifandi húsgögn“ á innanfélagsskemmtun hjá Kvenfélaginu, og léku þá m.a. Kristín Þórðardóttir, Steinunn Sveinbjarnardóttir og ungfr. Ella Therp á Kirkjuhvoli.
Síðan rak hver leikþátturinn annan hjá Kvenfélaginu, t.d. „Hann drekkur“, „Frúin sefur “ eftir Holst, „Fólkið í húsinu“, „Sagt upp vistinni“ eftir E. Möller, „Trina í stofufangelsi“ eftir D. Hansen, „Hinn setti eiginmaður“ o.fl.
Lengi hafði verið um það rætt hjá L.V. að taka til sýningar leikritið „Frænka Charleys“ eða Föðursystir Charleys, eins og leikritið er stundum nefnt. Þó varð ekkert úr þessum fyrirætlunum fyrr en rétt eftir áramótin 1914—1915, líklega um miðjan janúar 1915. Leikrit þetta var sýnt 4 eða 5 sinnum við góða aðsókn. Það þótti skemmtilegt og uppfærsla þess ágæt. Ekki er alveg fullvíst um hlutverkaskipan, en frásögnum ber bezt saman um fólk í þessum hlutverkum:

Babberley: Ólafur Ottesen
Charley: Kristján Gíslason
Spitteque: Guðjón Jósefsson
Cherney lávarður: Guðjón Guðjónsson
Jack Cherney: Georg Gíslason
Barret: Steingrímur Magnússon
Elle: Guðbjörg Gísladóttir
Kitty: Þóra Vigfúsdóttir
Jenna Lucia: Guðrún Þorgrímsdóttir
Annie: Ásta Ottesen

Einhvern tíma á leikárinu 1914/15 sýndi L.V. leikrit eftir E. Hostrup. Það var leikritið „Gestir í sumarleyfi“. Leiktjöldin máluðu þeir Bjarni Björnsson og Engilbert Gíslason, og var leiksviðið talið eitt hið fegursta, sem hér hafði sést fram að þeim tíma. Steingrímur Magnússon hafði séð leikrit þetta uppfært í Reykjavík og var þá í ýmsum snúningum fyrir leikfélagið þar. Hann lagði eindregið til, að L.V. tæki leikrit þetta til sýningar. Það var svo gert og hlaut ágæta aðsókn og hylli almennings. Þá léku m.a. Guðbjörg Gísladóttir, Ágústa Eymundsdóttir, Steinunn Sveinbjarnardóttir, verzlunarstúlka, Kristján Gíslason, Guðjón Jósefsson, Steingrímur Magnússon, Ólafur Ottesen o.fl. Sigríður Ottesen lék undir við sönginn að venju.
Á þessu leikári var einnig tekinn til sýningar enn einu sinni „Apakötturinn“. Þá var nokkuð breytt um hlutverk samkv. sögn Steingríms Magnússonar. Hlutverkaskipanin var þá þannig:

Iversen: Guðjón Guðjónsson, Sjólyst
Frú Sörensen: Ágústa Eymundsdóttir
Óli gamli: Guðjón Jósefsson
Hr. Lindal: Steingrímur Magnússon.

Þessi leikrit munu einnig hafa verið leikin veturinn 1915: „Ærsla-drósin“, „Ungu hjónin“, „Hermannaglettur“ og „Bezt sem vitlausast“. Talið er víst, að veturinn 1916 hafi L.V. leikið „Ímyndunarveikina“ eftir Molier. Var því leikriti mjög vel tekið, enda voru hlutverkin sögð vel af hendi leyst. Leikendur voru að nokkru leyti hinir þekktu og venjulegu, en þó var nú þarna með Jóhann Þ. Jósefsson, sem lék Kamferius lækni. Ólafur Ottesen lék Argan. Að sögn Guðbjargar Gísladóttur sjálfrar lék hún þar síðasta hlutverkið sitt á leiksviði. Hún lék Angeliku.
Naumast var sýningum á „Ímyndunarveikinni“ lokið, er L.V. tók til að sýna nokkra einþáttunga, svo sem „Trina í stofufangelsi“, „Hjónaleysin“ eftir Heiberg, „Knox og Box“, þýtt úr frönsku, o.fl. Í Knox og Box léku Bjarni Björnsson, Ólafur Ottesen og Ágústa Eymundsdóttir. Þetta þótti sérlega skemmtilegur einþáttungur og hlutu leikendurnir mikið lof fyrir góðan leik.
Seint um haustið 1915 lék svo L.V. leikritin „Annarhvor verður að giftast“, sem er þýzkur gamanleikur, og „Varaskeifuna“ eftir E. Bögh.
Sama árið (1916) sýndi L.V. leikritið „Handabandið“. Höfundur þess er ókunnur, og engin vitneskja hefur um það fengizt, hverjir léku þá eða hvenær ársins það var sýnt. Á sama ári var og sýndur „Leiksoppurinn“ og stjórnaði Bjarni Björnsson þeim leik. Leiksoppurinn var sýndur á vertíð 1916. Nokkru síðar fór Bjarni Björnsson alfarinn frá Eyjum til Reykjavíkur og svo vestur um haf, svo sem getið er í sérstökum þætti um hann hér í ritinu.
Á vertíð 1918 segir blaðið Skeggi frá því, að Kvenfélagið Líkn hafi sýnt leikritið „Syndir annarra“ eftir Einar H. Kvaran. Leikritið fékk yfirleitt góða dóma almennings en þótti þó nokkuð þungt og langdregið. Léku þar m.a. Guðrún Þorgrímsdóttir, Jónína Þórhallsdóttir, kona Björns H. Jónssonar, skólastjóra, Jóhann Þ. Jósefsson, Árni Gíslason o.fl. Skeggi segir, að meðferð leikendanna á hlutverkunum þyki sérlega góð og sumar persónurnar fullt eins vel leiknar hér og verið hafi í Reykjavík. Sá leikdómur er undirritaður B.H.J., og mun vera eftir skólastjórann. Hefur hann eflaust séð leikritið á sviði í Reykjavík.
Nálægt vertíðarlokum 1918 sýndi Kvenfélagið leikritið „Mötuneytið“. Um leikendur þar hef ég ekki fengið vitneskju. Þeirra er ekki getið í bókum félagsins. Hins vegar mun óhætt að fullyrða, að þar hafi félagskonur einar verið að leik.
Á blómaskeiði Leikfélags Vestmannaeyja, frá 1910—1918, voru helztu starfskraftar félagsins eftirtalið fólk:

Ólafur Ottesen.

1. Ólafur Ottesen í Vísi (nú húsið Þingvellir, Njarðarstígur 1), sonur Valdimars Ottesen, kaupmanns þar og k.h. Sigríðar Eyjólfsdóttur.
2. Bjarni Björnsson, leikstjóri, leikari og gamanvísnasöngvari.
3. Árni Gíslason frá Stakkagerði Lárussonar og k.h. Jóhönnu Árnadóttur Diðrikssonar.
4. Georg Gíslason, albróðir Árna.
5. Guðjón Jósefsson frá Fagurlyst Valdasonar og k.h. Guðrún Þorkelsdóttir.
6. Guðjón Guðjónsson (Sjólyst) Jónssonar og k.h. Guðríðar Bjarnadóttur frá Dölum.
7. Aage Lauritz Petersen, verkfræðingur og símstjóri, frá Danmörku.
8. Eyjólfur Ottesen, bróðir Ólafs. Hann hefur líklega gengið í L.V. 1912 eða 1913.
9. Karl Gränz á Karlsbergi hér (Heimagata 20). Mun hafa gengið í L.V. 1911 eða 1912.
10. Steingrímur Magnússon frá Miðhúsum, í L.V. frá 1913.
11. Þóra Vigfúsdóttir, verzlunarmær í Edinborg. Í L.V. frá 1913.
12. Guðrún Þorgrímsdóttir á Lágafelli (Vestmannabraut 10), fyrri kona Brynjúlfs Sigfússonar, kaupmanns. Hún var áður gift Edv. Frederiksen, bakarameistara.
13. Guðbjörg Gísladóttir, Símstöðinni, fyrri kona A.L. Petersen, símstjóra.
14. Ágústa Eymundsdóttir, Hóli, kona séra Jes A. Gíslasonar.
15. Kristján Gíslason, Hóli, kvæntur Sigríði Ottesen.
16. Ásta Ottesen í Vísi.
17. Síta (Sigríður) Sigurðardóttir, verzlunarmær, dóttir Gróu Helgadóttur tónskálds Helgasonar.
18. Emilía Ottesen, f. Guðlaugsdóttir, kona Eyjólfs Ottesen. Þau bjuggu lengi í Dalbæ hér (Vestmannabraut). Hún var í L.V. frá 1912/13.
19. Sigríður Ottesen, systir Ólafs og Eyjólfs, kona Kristjáns Gíslasonar.
20. Einar Björn Sigurðsson frá Pétursborg Vigfússonar og k.h. Ingibjargar Björnsdóttur Einarssonar.

Ekkert verður vitað með vissu, hvort Halldór læknir Gunnlaugsson var einn af stofnendum L.V. Georg Gíslason hélt, að svo hefði ekki verið, en mun hafa talizt meðlimur félagsins. Þó verður ekkert um það fullyrt.
Á umræddu tímaskeiði eða fyrstu 8 ár Leikfélagsins var mikið starfað hér að leiklist og hvergi legið á liði sínu, ef þeim málum gat eitthvað orðið til frama eða gengis. Svo mikil eining og áhugi ríkti í félaginu á þessu blómaskeiði þess, að allir lögðu sitt bezta fram hver á sínu sviði, þó að mestur starfsþunginn hvíldi vitaskuld á stjórn félagsins hverju sinni. Kjörorð leikfólksins virðist hafa verið: Einn vinni öllum og allir einum.
Sigríður Ottesen lék ávallt á orgel eða slaghörpu í þjónustu Leikfélagsins, er söngvaleikir voru sýndir eða sungið var á sviðinu. Emilía Ottesen afritaði allan fjöldann af leikritum fyrir Leikfélagið. Það er býsna mikið starf, sem þeir einir þekkja, sem afritað hafa heil leikrit með mörgum hlutverkum.
Ég hika ekki við að fullyrða, að á þessum árum hafi Leikfélag Vestmannaeyja alls ekki verið neinn eftirbátur annarra leikfélaga í landinu, ef til vill með þeim fremstu, nema þá í sviðslýsingu. Þar átti L.V. í miklum erfiðleikum a.m.k. þar til Eyjabyggð fékk rafmagn (1915).
Strax er hinar handhægu gasluktir (karbid-) komu á markaðinn hér heima, voru þær notaðar til að lýsa upp leiksviðið í „Gúttó“ sem loftljós. Þær luktir voru í notkun síðustu árin áður en rafmagnið kom hér til sögunnar. Litlir olíulampar, 8—10 lína, voru ávallt notaðir til að mynda hin svokölluðu fótaljós.
Hjá L.V. var oftast sama fólkið á sviðinu á fyrstu árum félagsins, en áhugi fólksins fyrir starfseminni var býsna mikill. Þótt lítið væri um kaupgreiðslur til hvers einstaks, virtist það ekki draga úr starfsgleði fólksins. Kaupið virðist hafa verið því algjört aukaatriði. „Þó voru ávallt einhverjar launagreiðslur til leikenda og gjaldkerabækur haldnar vel og greinilegar. Aftur á móti var lítið um, að fundargjörðir væru færðar, þótt fólk kæmi saman til skrafs og ráðagerða um eitt og annað varðandi starfsemina.“ (Sögn Guðbjargar Gísladóttur 1960).
Meðal leikenda frá stofnun félagsins til 1915—18 var ánægjan af leikstarfseminni mikil. Fólkið vissi, að það var að skemmta þorpsbúum, kynna þeim ritverk inn- og útlendra leikritahöfunda, og um leið að starfa sér til ánægju í frístundunum. Það var eins og það eitt væri öllum nægileg greiðsla. Fólkið, sem mest stóð í leikstörfum, var alls ekki að leika vegna fjárhagslegra þarfa. Það var allt þannig í sveit sett, að það hafði rúman fjárhag. Ekki var óalgengt, að á þessum blómaárum L.V. væri byrjað að æfa nýtt leikrit, áður en sýningum lauk á því, sem í sýningu var. — (Sögn Guðbj. Gíslad. og Georgs Gíslasonar).
Á þessum árum mætti geta leikrita, sem ávallt voru sígild og mikið sýnd, t.d. „Villidýrið“, „Bezt sem vitlausast“, „Apinn“, „Ævintýri á gönguför“, „Gestir í sumarleyfi“, „Sagt upp vistinni“, „Heimilið“, „Varaskeifan“, „Hermannaglettur“, „Nei-ið“, „Sherlock Holmes“, „Ærsladrósin“, „Annarhvor verður að giftast“, „Ímyndunarveikin“ o.m.fl.
Af því sést, að einhvern tíma hefur verið kallað á æfingar og til sýninga. Georg Gíslason sagði mér einu sinni, að vitanlega hefði verið leikið misjafnlega mikið frá ári til árs, en mestan fjölda sýninga taldi hann vera 37 á einu leikári. Það er hreint ekki smáræðisverk, sem liggur á bak við allt það starf. Sannar sú sögn Georgs, að Eyjamenn hafa haft mesta yndi af sjónleikum og kunnað að meta góða list, jafnframt því að sýna í verki, að þeir kunnu að meta óeigingjarnt starf þessa fámenna leikhóps. En það voru fleiri en L.V., sem tróðu þessar brautir listar og túlkuðu hana fyrir almenningi. Aðrir leikflokkar og félög léku oftast annað slagið jafnhliða L.V. og fengu einnig góða aðsókn að sínum leiksýningum. Virðist sú starfsemi ekki hafa haft nein neikvæð áhrif á störf L.V. Sannaði það einungis, að hér gátu tvö leikfélög starfað samtímis án þess að hnekkja framgangi hvors annars. Þetta kom og berlega fram, er önnur leikfélög voru stofnuð hér og síðar mun að vikið.

Óafur Ottesen í leikritinu „Landafræði og ást“ (Reykjavík.

Á árunum 1915/18 fór að halla undan fæti í starfi L.V. Fólkið fór að draga sig til baka og sumt að flytjast búferlum úr Eyjum. Þannig fór t.d. Bjarni Björnsson árið 1916 til Reykjavíkur og þaðan til Ameríku. Síðar kom hann þó aftur til Eyjanna og skemmti með leikþáttum og gamanvísnasöng. (Nánar um hann hér á eftir). Ólafur Ottesen flutti frá Eyjum 1917 ásamt Þórunni konu sinni og ungum syni þeirra, Ólafi að nafni. A.L. Petersen, símastjóri, flutti héðan 1920, alfarinn til Reykjavíkur. Þá var Guðbjörg Gísladóttir hætt leikstörfum. Sigurður Jónsson, skósmiður, fluttur austur á land, Þóra Vigfúsdóttir flutt o.fl. Margt fleira orsakaði að draga fór mjög úr starfsemi félagsins. Þó varð vart örlítilla fjörkippa á vegum þess, en sú starfsemi var harla lítil og engin í samanburði við fyrri ára störf.
Árin 1920/22 var orðin svo mikil mannfæð í félaginu að til vandræða horfði. Þó voru enn að störfum eða viðloðandi í félaginu þau Árni Gíslason, Georg Gíslason, báðir yfirhlaðnir öðrum störfum, Ágústa Eymundsdóttir, Guðjón á Strandbergi, Guðjón í Fagurlyst og Kristján Gíslason. Hann var þó farinn að draga sig allmjög til baka og lagði skömmu síðar leikstörfin algjörlega á hilluna.
Í ágústmánuði 1921 var tekið það ráð að auglýsa eftir fólki til starfa í félaginu. Það varð til þess, að því bættust nokkrir nýliðar. Á fundi, sem haldinn var í Frydendal um haustið gengu t.d. í félagið systkinin í Suðurgarði, þau Margrét og Sigurgeir; Bergþóra Árnadóttir, Grund, og maður hennar Jóhannes H. Long; Stefán Árnason, lögregluþjónn; Páll Scheving, Hjalla; Árni Árnason (yngri), Grund, og sennilega fleiri. Við þessa fjölgun í félaginu færðist nokkurt líf í starfsemina og var á nefndum fundi ákveðið að æfa upp og leika sjónleikinn „Gráa frakkann“ eftir E. Bögh, sem lengi hafði verið áformað að koma upp. En varla hafði verið búið að skipa í hlutverk í leikritinu fyrr en veikindi hömluðu frekari framkvæmdum. Guðjón Jósefsson veiktist og aðrir erfiðleikar steðjuðu að. Var þess vegna hætt við „að fara í“ „Gráa frakkann“ að því sinni. Einnig hafði verið áætlað að leika leikritið „Tengdapabbi“, eftir Geijerstam. Þar skyldi Guðjón leika hlutverk Hr. Pumpendals. En þegar hann var enn veikur, er æfingar skyldu hefjast, leit ekki vel út með leikritið, þareð ekki var öðrum til að dreifa en nýgræðingum í þetta vandasama hlutverk. Vandinn var þó leystur með því að skipa í hlutverkið Stefán Árnason. Rétt síðar hófust æfingar og allt gekk að óskum. Leikfélagið þurfti aldrei að iðrast þess að hafa valið Stefán í hlutverkið Pumpendahl til reynslu á leikhæfni hans. Hann skilaði hlutverkinu með hinni mestu prýði. Það var hans fyrsta en ekki hans síðasta hlutverk hjá L.V. Má segja, að þá hafi Stefán unnið glæsilegan stórsigur, sem hann hefur æ síðan haldið í heiðri á vegum Thaliu, framgangi L.V. til heilla. Annars voru leikendur í Tengdapabba eftirtalið fólk:

Pumpendahl: Stefán Árnason
Málarinn: Árni Gíslason
Fyrirmynd hans: Margrét Johnsen, Suðurgarði
Tengdapabbinn: Georg Gíslason
Kona hans: Ágústa Eymundsdóttir
Dóttir þeirra: Jakobína Sighvatsdóttir
Unnusti hennar: Edvard Frederiksen
Amman: Berþóra Árnadóttir
Rukkari: Jóhannes H. Long

Leiknum var mjög vel tekið og varð aðsókn að honum og dómar um hann mjög lofsamlegir.
Árið eftir 1922/23 sýndi L.V. leikritið „Villidýrið“ eftir E. Bögh, leikrit, sem var hér gamalkunnugt. Þá léku þau Margrét Johnsen, Haraldur Eiríksson, Jóhannes H. Long, Ágústa Eymundsdóttir. Söngur þeirra Haraldar og Jóhannesar var merkilega góður, þar sem þeir sungu saman. Þótt Haraldur væri þekktur góður tenórsöngvari, þá hélt ég, fram að þeim tíma, að Jóhannes væri laglaus að mestu. En Jóhannesi fórst eins og Árna Gíslasyni í Iversen í „Apaketti“ Heibergs, að hann söng mikið fremur laglega og vel í samræmi við hlutverkið t.d. er þeir sungu báðir:

„Hvað skal þessi — þessi hér
þessi ráðning gefur,
ég ber hönd fyrir höfuð mér,
o, haltu þér saman, refur ...“
Haraldur Eiríksson.

Þeir fóru bráðskemmtilega með hlutverk sín og náðu föstum tökum á leikhúsgestum, sérstaklega í þessu smellna atriði með stafinn, sem Jóhannes ógnaði Haraldi með. Áður hafði ég séð þá fara með þessi hlutverk Bjarna Björnsson, Ólaf Ottesen, Árna Gíslason og Kristján Gíslason, en ég álít, að þeir Haraldur og Jóhannes hafi lítið staðið þeim að baki og er þó langt til jafnað. Leikhæfni þessara tveggja átti þó eftir að koma enn betur í ljós síðar, er Haraldur lék Scrubby í leikritinu „Á útleið“ eftir S. Vane og þegar Jóhannes lék Skuggasvein. Ekki þarf að lýsa leik frú Ágústu. Hann var alltaf jafn góður. Frú Margrét Johnsen lék sitt hlutverk prýðilega í alla staði.
Um þetta leyti komst til tals að leika „Frænku Charleys“ eftir Brandon Thomas, en svo var hætt við það. Komst aldrei svo langt, að skipað væri í hlutverk hennar.
Hér skal þessa getið um Harald Eiríksson: Hann fór til Ameríku árið 1918 til raffræðináms, en kom heim haustið 1922. Það haust gekk Haraldur í L.V. og lék í „Villidýrinu“ þetta sinni með Jóhannesi Long. Haraldur söng oft gamanvísur eftir þetta hjá Kvenfélaginu Líkn og lék fyrir það í nokkrum leikþáttum. Hann lék fyrst í „Skyggnu augun“ 1908, leikriti Steins Sigurðssonar skólastjóra. Haraldur var mjög snjall í því að gera leiksviðin björt og aðlaðandi og fara með hlutverk sín þannig, að hann lyfti meðleikurunum í þeirra hlutverkum. Þeim var svo létt um leik sinn, fundu svo mikið traust og öryggi í framkomu hans á sviðinu. Hann var eitthvað svo eðlilegur, að manni fannst, að samveran með honum á sviðinu væri alls ekki leikur, heldur raunveruleikinn, sem þar færi fram.
Hann var efalaust fæddur leikari, svo að einnig í þeim ættlið hefur leiklistargáfan gengið í erfðir, þareð móðir hans, Sigurbjörg R. Pétursdóttir, þótti leika mjög vel t.d. í leikritinu „Hinn þriðji“ eftir Hostrup 1893. Þá lék og Hjálmar bróðir hans ágætlega t.d. í leikritinu „Upp til Selja“, „Ævintýrið í Rosenborgargarði“ og „Thorvald Petersen“ eftir Sigurbj. Sveinsson. Anna systir þeirra lék og ágæta vel í „Upp til Selja“ og ef til vill í fleiri innanfélagsleikritum félagssamtaka í bænum.
Leikárið 1920/21 var leikið leikritið „Hermannaglettur“ eftir Hostrup, gamalkunnur leikur hér í bæ. Var það að mestu leyti á vegum L.V., en þó aðfengnir leikkraftar. Þá léku þessir:

Barding: Guðjón Jósefsson
Mads þjón: Filippus Árnason
Lange: Jóhann Jónsson á Brekku
Anker: Guðjón Guðjónsson
Magister Glob: Árni Gíslason
Emilíu: Emilía Filippusdóttir

„Hermannaglettur“ voru leiknar fyrri hluta haustsins 1921. Fólki fannst að venju hressandi að sjá þessar gömlu glettur, en mikill var stærðarmunurinn á Mads nú eða 1916/1917, er Jóhannes Brynjólfsson lék Mads. Hann var með stærstu mönnum hér, en Filippus vart meir en meðalmaður á hæð. En meðferð hlutverksins var ágæt og þessi Mads reyndist í hlutverkinu „réttur maður á réttum stað“, eins og þar stendur. Hinir voru allir þrautreyndir leikarar og gerðu sínum hlutverkum að venju mjög góð skil.
Síðla sumars 1921 afréð L.V. að taka til sýningar hið góðkunna leikrit „Apaköttinn“ og sýna hann um eða eftir þrettándann 1922. Í aðalhlutverkin völdust þau Ágústa Eymundsdóttir, Árni Gíslason og Guðjón Jósefsson, sem þá var orðinn allsæmilega hress að heilsu. Þau skyldu öll leika sín gömlu hlutverk. — Unga manninn Lindal var Filippus Árnason í Ásgarði fenginn til að leika, en Margrét Johnsen skipuð í hlutverk ungu stúlkunnar Margerete. Leikur þessi þótti sem alltaf áður hinn skemmtilegasti og var sýndur nokkrum sinnum fram í febrúar 1922.
Samtímis „Apanum“ var Skuggasveinn sýndur í Nýjabíó við Vestmannabraut. (Nú skreiðargeymsla Ársæls Sveinssonar). Aðalhvatamenn þessarar leiksýningar voru þeir Litlabæjarbræður, Kristinn og Valdimar Ástgeirssynir. Stóru og rúmgóðu leiksviði var komið upp við vesturgafl salsins,, og samband milli hans og kjallara hússins. Að sjálfsögðu var þetta bráðabirgðarleiksvið, heljarmikill trépallur, sem hægt var að taka niður í fljótheitum, svonefnt Kumbaldafyrirkomulag. Þannig var þetta einnig í Gúttó og Tangahúsinu, þegar leikið var þar. Notast var við gömul leiktjöld, sem einhvern tíma áður höfðu notuð verið í Skuggasveini, þau máluð upp og hresst við. Það gerði Engilbert Gíslason. Þau urðu í alla staði prýðileg. Í þetta sinn léku þessir í Skugga-Sveini:

Skuggasveinn: Jóel Eyjólfsson, Sælundi
Lárentzius: Guðjón Jónsson, Oddsstöðum
Sigurður í Dal: Helgi Guðmundsson, Dalbæ
Jón sterki: Jón Hafliðason, Bergsstöðum
Grasa Gudda: Guðlaugur Hansson, Fögruvöllum
Smala Gvendur: Kristinn Ástgeirssyni, Litlabæ
Manga: Þórsteina Jóhannsdóttir, Þingholti
Grímur stúdent: Guðjón Guðjónsson, Strandbergi
Helgi: Valdimar Ástgeirsson, Litlabæ
Ásta í Dal: Þórunn Hreinsdóttir, Uppsölum
Haraldur: Jóhann Jónss., Brekku
Ögmundur: Ólafur Sigurðsson, Strönd
Ketill skrækur: Einar Einarsson, Norðurgarði
Hróbjartur: Kristinn Ástgeirsson, Litlabæ
Galdrahéðinn: Kristinn Ástgeirsson, Litlabæ
Grani og Geir: Óvíst

Í þetta skiptið lék Kristinn Ástgeirsson 3 hlutverk, lét sér hvergi bregða og leysti þau öll snilldarlega af hendi t.d. Hróbjart. Sagði fólk, að hann hefði verið óviðjafnanlegur. Mér persónulega fannst hann þó enn betri í Smala Gvendi. Einar var snilldargóður í Katli og sögðu svo margir, að enginn hefði leyst það hlutverk jafn vel af hendi, hvorki fyrr né síðar.
Eitt sinn voru foreldrar Einars, þau Einar Jónsson bóndi í Norðurgarði og kona hans Árný Einarsdóttir, á sýningu á Skuggasveini. Einar yngri lék þá Ketil skræk. Fyrir aftan þau sátu tveir og ræddu um leikinn og dáðust mjög að leik Einars í hlutverkinu. Heyrðu þau hjónin glögglega til manna þessara (og var máske til þess ætlast af þeim). „Já, hver skyldi þessi vera sem leikur Ketil skræk. Sá leikur býsna vel,“ sögðu þeir. Þá heyrðist Árný nærri hrópa upp yfir sig af hrifningu: „Ha, ha, þeir þekkja ekki Eina okka, ha, ha.“ Og Einar gamli tók þá upp eftir henni og var þá heldur dimmraddaður, (en Árnýju lá hátt rómurinn): „Ha, ha, þeir þekkja ekki hann Eina okka, ha, ha.“ Þau þekktu hins vegar son sinn og þótti hann leika meir en vel, sem hann og líka gerði. En sumt gamalt fólk þekkti þarna alls ekki börn sín á leiksviðinu. Gömul hjón vissi ég um, sem ekki voru vön að „fara á leikinn“. Þarna áttu þau son sinn á leiksviðinu. Hann hafði boðið þeim. Ekki höfðu þau hugmynd um, hver sonur þeirra var á sviðinu. Það fólk, sem þar var, var þeim allt ókunnugt, að þau héldu. Þó voru það allt gamlir kunningjar frá daglega lífinu. Sonur þeirra var sem óþekkt persóna fyrir þeim að málrómi og í öllu fasi. Þegar tjaldið var fallið og leiknum lokið, kom til þeirra maður einn og sagði: „Hann lék vel, hann sonur ykkar. Sá verður einhvern tíma slyngur leikari. Gervið hans var líka sérlega gott, mórauða peysan mín og húfan gerðu hann svo sérlega sveitamannlegan.“ „Nújá“, anzaði faðirinn, „var hann þetta í mórauðu peysunni? Nú er ég barasta aldeilis hlessa. Ég bara þekkti hann ekki og Jóa mín ekki heldur.“
Já, svona gat farið stundum. Gamla fólkið helzt ruglaðist alveg, og þekkti ekki aftur sína nánustu, er gervi og málrómi var gjörbreytt frá hinni daglegu venju.

Frá v.: Guðjón Guðjónsson, Strandbergi; Þórunn Hreinsdóttir, Uppsölum; Þorsteina Jóhannsdóttir, Þingholti; Valdimar Ástgeirsson, Litlabæ; — „Skuggasveinn“ 1921—1922.

Sú nýjung gerðist nú í Eyjum, að leikflokkur L.V., sem sýndi „Apann“ um þessar mundir, og leikfólkið í Skuggasveini, tóku upp gagnkvæm boð á leiksýningarnar, — leikflokkarnir gerðust leikhússgestir hvor annars.
Fólkið í bænum sótti þessar sýningar vel og skemmti sér við þær konunglega sem jafnan áður.
Síðasta sýning á „Apanum“ var mjög nálægt páskum. Voru þá uppgjör frá fyrri sýningum gjörð fyrir löngu. Á eftir þessari stöku sýningu um páskaleytið hafði L.V. dansleik og sami miðinn látinn gilda á hvort tveggja. Mikil aðsókn var að skemmtan þessari, sem tókst mjög vel. Þegar þessi leiksýning með dansleiknum á eftir var gerð upp, fékk hver leikandi 55 krónur í hlut sinn og hvíslari og undirleikari hálfan hlut hvor. Þetta þóttu miklir peningar í þá daga.
Þess skal getið, að þetta voru síðustu hlutverk þeirra Guðjóns Jósefssonar og frú Ágústu Eymundsdóttur hjá L.V., hann á sínum gamla, góða Óla og frúin í Mad. Sörensen. Þau höfðu bæði leikið hjá L.V. frá upphafi og verið í hópi beztu starfskrafta þess frá fyrstu tíð til síðustu sýningar.
Sýningar á þessum tveim leikritum samtímis höfðu gengið mjög vel, og var ekki sjáanlegt að hvor spillti fyrir öðrum hvað aðsókn áhrærði. Samkeppni kom ekki til greina um áhorfendur og mun óhætt að fullyrða, að fjöldi fólks hafi séð bæði leikritin að þessu sinni.
Jóel Eyjólfsson í „Skuggasveini“ var ímynd þess, er ég gat bezt hugsað mér. Ég var ekki einn um þá skoðun. Gamlir Eyjamenn sögðust ekki hafa séð „gamla Svein“ betur leikinn síðan Jón Filippusson í Dalbæ lék hann 1898. Var þá langt til jafnað, því að Jón hafði verið afbragðs góður í þessum vandasama hlutverki. Guðjón túlkaði sýslumanninn mjög glæsilega að venju, svo vel, að ekki varð á betra kosið. Verða dómar almennings ekki véfengdir fyrr og síðar, að enginn hafi leikið Lárentzius eins vel og hann. Hygg ég, að enn standi þeir dómar óhaggaðir. Helgi í Dalbæ skilaði Sigurði bónda í Dal með mesta glæsibrag að vanda. Hafa fjölmargir tjáð mér, að erfitt myndi að feta í fótspor Helga í því hlutverki. Á sviðinu fannst mér hann stórhöfðinglegur bóndi og túlkaði hver hreyfing Helga og málfar glæsibrag stórbóndans í Dal. Jón Hafliðason var líka snjall að venju, stór og stæðilegur, en lék það meistaralega vel, að verða að engu er á reyndi, engu nema málæðinu og grobbinu í hverju orði og hverri hreyfingu. Um stúdentana er það helzt að segja, að söngur þeirra var ágætur, framkoman frjálsmannleg og óþvinguð, hreyfingar léttar og liprar og framsögn öll hin bezta. Báru þeir það og greinilega með sér, að þeir voru vel sviðsvanir. Sumum fannst, að Guðjón Guðjónsson vera of gamall til þess að leika stúdent. En ég get ekki fallizt á þá skoðun. Guðjón var sem sagt léttur og lipur í öllum hreyfingum, andlitsfall hans frísklegt og unglegt, svo að hann gat vel litið út fyrir að vera 25—27 ára gamall, (sbr. myndina). Hann gat vel verið stúdent þessara atriða vegna, enda skilaði hann hlutverki sínu ágætlega. Manga var nú leikin af Þórsteinu Jóhannsdóttur Jónssonar á Brekku. Hún gerði það skemmtilega. Sór hún sig ótvírætt í leiklistarætt föður síns. Söngur hennar var þýður en fremur styrklítill. Ef til vill hefur hún ekki viljað beita meiri styrk til þess að söngurinn yrði blæfegri og samrýmdist betur atriði leiksins. Fór vel t.d. þegar kórinn svaraði margraddað í fjarska.
„En margt býr, margt býr í þokunni, þig mun kannke iðra ...“, sérlega fagur og þýður söngur, sem barst til manns fram í salinn, eins og hann kæmi utan úr þokunni, er umlukti háfjöllin; frá huldum vættum fjallanna. Því var það mjög svo áhrifaríkt, er Þorsteinn svaraði, með hreinum og þýðum söng t.d.:

„Þá svaraði mærin:
Ég vil ei væta fót,
ei væta þarftu fót þinn né stíga á grjót o.s.frv.
og kórinn svaraði henni jafnþýtt og seiðandi og áður:
„En margt býr, margt býr í þokunni, þig mun kannske iðra ...“

Þetta söngva atriði fór mjög vel og mér fannst það fagurt og vel túlkað.
Ástu í Dal lék nú Þórunn Hreinsdóttir í Uppsölum. Leikur hennar var að vonum ekki heilsteyptur, þareð um algjöran nýliða í leik var að ræða. Þó leysti hún mörg atriði í hlutverki sínu vel af hendi og sum ágætlega. Söngur hennar var sérstaklega góður frá byrjun til enda leiks. Hún var rómuð fyrir fagran söng og vel þjálfuð frá veru sinni í söngkórum Brynjúlfs Sigfússonar um árabil. Þórunn var líka mjög viðfeldin á sviðinu, lagleg og sakleysisleg. Harald lék Jóhann á Brekku. Leysti hann þennan vanda vel af hendi, léttur og lipur og allur var maðurinn hinn gjörvilegasti á að líta. Söngur hans var og ágætur og allar báru hreyfingar hans vott um mikla sviðsþjálfun. Mér fannst hann þó heldur gamall í hlutverkið, en samt hygg ég, að sú skoðun mín hafi aðeins myndazt af því, að ég vissi, að hann var nokkuð við aldur. Ókunnir mundu sennilega ekki hafa orðið þessa varir, þareð gervi hans var ágætlega gert. Ögmund sýndi Ólafur á Strönd okkur með sama snillingsbragnum og áður. Í augum fjölmargra er enginn Ögmundur til nema Óli á Strönd. Ég get ekki gefið honum betri dóma fyrir túlkunina í þessu hlutverki fyrr og síðar en dóm almennings fyrir sérlega góða túlkun á þessari sérstæðu persónu „Skuggasveins“.

III. hluti

Til baka