Ritverk Árna Árnasonar/Bændaheimili í Eyjum um 1880-1890
Mestu breytingar, sem hafa orðið hér í Eyjum síðustu 80-100 árin, aðrar en þær, sem beinlínis snerta fiskveiðarnar, eru á sviði búskapar, afkomu bænda og annarra búenda. Er um svo miklar framfarir að ræða í bættum lífsskilyrðum, svo ótrúlegar og margvíslegar, að nútímafólk á erfitt með að trúa, að fólk hafi fyrrum getað lifað og hrærst í þeirri fátækt, skorti og sparnaði, er var á öllum sviðum. Manni finnst jafnvel furðulegt, að nokkur maður skyldi komast til vits og ára gegnum þá miklu erfiðleika, er lífi almennings voru samfara. Þó voru Eyjarnar ekki ver staddar, hvað matarföng snerti, en önnur héruð meginlandsins, nema ef síður væri.
Vafalaust eru hinar miklu framfarir fyrst og fremst því að þakka, að Eyjamönnum tókst loks að brjóta af sér hlekki hinnar illræmdu einokunarverzlunar rétt um aldamótin síðustu, sem og breytingum þeim, er urðu við komu vélbátanna og fiskilínunnar í stað róðrarskipanna og handfæraveiðanna. Eftir það fór fyrst að rofa til á sviði hverskonar framkvæmda, og lífsafkoma almennings fór batnandi með ári hverju.
Mér datt í hug að skyggnast um á heimili eins bóndans í Eyjum á síðustu tugum 19. aldarinnar, kynnast þar búháttum og heimilislífi, siðum og venjum.
Bóndi þessi var talinn vera í all góðum efnum, sat sæmilega jörð og vel hýsta eftir þess tíma mati. Jafnframt því að vera bóndi, var hann, sem aðrir fleiri bændur þá, formaður á stórskipi. Hann var aflasæll og sækinn vel, talinn góður búmaður, smiður góður á hús og báta. Þessutan gegndi hann hafnsögumanns- og hreppstjóraembættum. Heimili hans var stórt og risnugott og tekjur hans meiri en fjölda annarra. Þrátt fyrir það, gefur innsýn á heimili hans góðar upplýsingar um líf og heimili bænda yfirleitt, á þessum tímum í Eyjum.
Við leggjum leið okkar upp að vestri Búastöðum. Þar bjó um þessar mundir Lárus hreppsstjóri, fæddur 30. jan. 1839, Jónsson og kona hans Kristín Gísladóttir, f. 13. jan. 1843. Þau voru vel þekkt hjón á sinni tíð og koma mikið við sögu Eyjanna.
Þau voru skaftfellsk að ætt, Lárus frá Dyrhólum, sonur Jóns bónda þar Ólafssonar, en Kristín frá Pétursey, dóttir Gísla bónda þar Gíslasonar. Lárus og Kristín fluttu til Eyja 1863 og byrjuðu búskap að Kornhól. Hann hafði áður verið hér 1860-1862 við fuglaveiðar og kynnt sér búskaparmöguleika o.fl. Þau hjónin eignuðust 10 börn, en aðeins 6 komust til aldurs. Það voru þau:
1. Ólöf, kona Guðjóns Björnssonar á Kirkjubæ, Einarssonar,
2. Gísli gullsmiður í Stakkagerði, giftur Jóhönnu Árnadóttur,
3. Steinvör, kona Einars Bjarnasonar frá Dölum, Bjarnasonar.
4. Jóhanna, kona Árna Árnasonar á Grund, Árnasonar.
5. Pétur bóndi og verslunarmaður að Búastöðum, giftur Júlíönu Sigurðardóttur,
6. Fríður, kona Sturlu Indriðasonar frá Vattarnesi við Fáskrúðsfjörð.
Öll urðu þessi systkini kunnir Eyverjar og komu mikið við sögu þessa byggðarlags um og löngu eftir síðustu aldamótin. Öll eru Búsastaðasystkinin og makar þeirra látin, utan Júlíana Sigurðardóttir, sem enn lifir og er nú í Reykjavík.
Að Búastöðum flutti Lárus frá Kornhól árið 1869 og þá í gamla bæinn, sem hann svo byggði upp árið 1888. Endurbyggður var bærinn 1904, þá af Kristínu og Pétri syni hennar. Kristín varð ekkja 1895, er maður hennar fórst í innsiglingunni af skipinu Hannibal 9. febrúar.
Sem áður getur voru Búastaðir all góð jörð. Tún voru þar sæmileg, en Lárus stækkaði þau mikið og bætti með útsetum og sléttum. Kýr hafði hann 2-3, 12 til 15 ær í heimahögum, ávallt eitthvað af lömbum, eitt hross og þessutan fé í fullum högum í Elliðaey. Þar átti jörðin nytjar og hagagöngu. Önnur hlunnindi jarðarinnar voru m.a. fýlatekja úr Stórhöfða á Heimalandi, lundatekja þaðan og úr Elliðaey, súlu- og fýlatekja úr Súlnaskeri og Hellisey o.fl., t.d. rekafjöru í Brimurð.
Mannmargt var á heimilinu, oftast allt að 20 manns. Þar voru 2 vinnumenn, 2 vinnukonur, 4 til 5 sjómenn, 2 til 3 niðursetningar, sem svo voru nefndir, en það var gamalt fólk, sem sveitarfélagið sá um. Þessutan voru svo þau hjónin Lárus og Kristín ásamt börnum þeirra.
Niðursetningarnir voru oftar konur, sem mikið gátu létt undir í ýmsum heimilisstöfum. Þetta var bezta fólk, sem ýmist elli eða erfið lífskjör höfðu komið á kné í lífsbaráttunni. Þar var t.d. kona ein, sem nefnd var „Stutta-Ranka“. Hún hafði verið gift og eignast 13 börn, sem öll, að einu undanskildu, létust úr hinni skæðu barnaveiki, sem um áraraðir herjaði Eyjarnar, Ginklofanum. Þetta eina barn lifði nokkur ár, en lést svo úr annari veiki. Mann sinn missti Ranka stuttu síðar, og stóð hún þá uppi ein og útslitin, allslaus af öllu nema því, er gott fólk gaf henni. Um það leyti fór hún að Búastöðum, en hafði áður verið einsetukona í einu húsinu í Dölum, og fór þaðan, er Jón Jónsson hreppsstjóri fékk Dalina.
Dagleg störf stærri heimila, t.d. jarðabænda, voru að sjálfsögðu býsna margþætt og gjörólík því, sem nú gerist. Hvert heimili keppti að því að vera sjálfu sér nóg og framleiða allt það, sem framleitt varð til fólks síns í mat og klæðum. Allir höfðu þessvegna nægilegt að starfa úti sem innivið, og unnu konur jafnt körlum að flestum heimastörfum, sem og þeim er unnin voru utan heimilisins. Kvenfólki var aldrei hlíft eða vorkennt að vinna hverskonar vinnu.
Fyrst var t.d. borið á túnin. Forin var borin í stömpum á kjálkum, stundum all langa leið frá heimilinu út um öll tún. Það var erfiður burður fyrir kvenfólk. En til þess að nota krafta þess sem bezt, voru hafðir svonefndir axlaberar. Það voru bönd, sem fest voru í burðarkjálkana og höfð yfir axlirnar í burði. Þannig léttist þunginn á handleggjunum og kom á kroppinn. Þannig nýttist líka betur starfsþrek kvenfólksins, meir að segja til þess að bera for á túnin. Trúlega þættu það harðir kostir kvenfólks vorra tíma.
Um miðjan maímánuð var sett í kálgarðana. Hjálpuðu vermenn oft við þann starfa, áður en þeir fóru til síns heima. Svo kom túnávinnslan, heyvinnan og fiskþurrkunin. Allt var borið til og frá verkun, þareð ekki var um önnur flutningstæki að ræða. Stundum var þó flutt á hesti á klökkum, helzt þá veiddur fugl sunnan úr Stórhöfða eða flutningur neðan úr Sandi. Hestar voru yfirleitt ekki notaðir neitt eftir höfuðdag til eins eða neins. Þeir urðu að vera í góðum holdum undir veturinn, því að þeir voru látnir ganga úti (um veturinn) að mestu sjálfala.
Auk fyrrnefndra starfa og jafnhliða þeim, þurfti að reyta allan þann mikla fugl, sem þá veiddist, bæði úr úteyjum og af Heimalandinu, kryfja hann og salta í kaggana, spíla saman bakið, vængina og hausinn, sem úr gekk við krufninguna. Spílurnar voru þurkaðar og svo notaðar sem eldiviður. Allt var þetta mikið verk og seinlegt, sem konur unnu nær undantekningarlaust.
Helstu nytjafuglarnir voru lundi, svartfugl, fýll og súla. Þótti súlan sérstaklega mikið búsílag fyrir stærðar sakir, fitu og súlusviðanna, þ.e.a.s. hausinn og vængirnir. Voru þeir sviðnir og þótti herramannsmatur. Sumum þótti líka súlusúpurnar betri en aðrar fuglakjötssúpur, jafnvel betri en kjötsúpur af beztu dilkum. Þá þótti einnig lifrarpylsa úr súlulifur ágæt. Allt þetta kórónaði þó blessaður fýllinn með sitt fína kjöt og miklu feiti, sem mikið var notuð til viðbits, þ.e. í fýlafeitisbræðing. Þá var og alsiða að borða fýlshausana, en heldur var lítill matur í þeim og mikið verk að koma þeim í mat.
Skipavinnu allskonar stunduðu stúlkur, sem gengu í Sandinn, nær jafnt og karlmenn. Var það út- og uppskipunarvinna á hverskonar vörum, svo sem fiski, salti, timbri, sekkjavöru allskonar o.m.fl. Reyndi þá stundum á bakið og fæturna, því að allt var borið til og frá verzlunarhúsunum. Engir handvagnar voru þekktir hér þá og komu ekki fyrri en alllöngu síðar.
Um handvagna-landnám í Eyjum mætti hér minnast á það, að mjög nálægt 1890 fékk séra Brynjólfur Jónsson að Ofanleiti handvagn frá Kaupmannahöfn. Var meiningin að nota hann til flutningsléttis við heimilið að Ofanleiti. En vagn þessi reyndist ónothæfur vegna stærðar og þyngdar, bæði heima þar og heiman. Brydesverslun fékk svo vagninn, notaði hann eitthvað smávegis fyrst, en síðan var hann tekinn sundur og hefir svo týnzt. Honum varð hvergi við komið að gagni, þareð vegir voru svo mjóir og ójafnir. Vafalaust tel ég, að vagn þennan hafi Gísli læknir, sonur séra Brynjólfs, sent honum og dreg þá skoðun mína frá þeirri staðreynd, að kona Gísla var Elna Bertha Jóhanne, dóttir C.H.O. Patrunkys vagnasmiðs í Kaupmannahöfn.
Rétt síðar fékk Gísli Stefánsson vagn frá Englandi, sem hann gat eitthvað notað við heimilisstörf og þareftir líklega 1894-95 fékk Framfarafélagið vagn, sem það leigði bændum gegn vægu gjaldi til flutninga. Árið 1902 komu svo 4 vagnar til Eyja.
Þá fengu þeir Guðmundur Þórarinsson á Vesturhúsum, Gísli Stefánsson kaupmaður, Pétur Pétursson, Vanangri og Guðjón Þórðarson í Sjólyst.
Enda þótt menn væru þá farnir að sjá ágæti vagnanna, komu þeir ekki að verulegu gagni vegna vegleysu um alla Eyjuna.
Þegar Búastaðir voru uppbyggðir árið 1904 voru vagnar þessir svo til skömmu komnir. Sagði Pétur Lárusson mér, að það ár hafi verið hægt að flytja á handvagni „upp í Skarð“, þ.e.a.s. upp að hliði, sem var á girðingunni fyrir neðan Prestshús, skammt ofan við Vallanes¹). Þar lá vegurinn upp á bæi gegnum túnin, upp að Prestshúsum, Búastöðum, Oddsstöðum, Túni o.fl. bæjum.
¹)Skarðið var í veginum frá Austurvegi,(Vilborgarstaðavegi) að Presthúsum, um 10-12 metra suður af suðvesturhorni Goðasteins. Vegupphaf var fært austur fyrir Austurveg 2, (Fillahús), er það var byggt. (Heimaslóð).
Lengra en upp í Skarð var ekki komizt með vagn í námunda við Búastaði. Varð þessvegna að bera allt í skrínum, stömpum, handbörum eða reiða á klökkum úr Skarðinu og heim þangað. Allan sand og möl reiddi Pétur í laupum austan af Urðum í húsbygginguna. Það var styttri og betri leið, heldur en að fara inn í Botn eftir byggingarefninu. Þá voru vagnar leigðir hér fyrir 3 aura um klukkutímann.
Oft þurfti Búastaðaheimilið að sækja vatn í Vilpu eða inn í Póst. Vilpa var tjörn með hlöðnum garði um kring. Hún hafði aðrennsli frá nærliggjandi túnum, en frárennsli ekkert nema í stórleysingum. Stóð hún í dálítilli kvos nokkrum föðmum sunnan Vilborgarstaða, húss Árna Einarssonar.
Pósturinn var grafinn brunnur og steyptur að nokkru leyti. Hann var miðsvæðis milli Skiphella og hafnarvogsins að innan. Ekki var vel gott vatnið úr Póstinum. Það var oft nokkuð salt og gætti þess, er það var drukkið.
Vatnsburður var þessvegna nokkuð langur að Búastöðum, en þó var vatn sótt á þessa staði í fötur. Þessutan var svo oft farið inn í Botn, nærri daglega, þ.e. inn í sandinn innan hafnarvogsins, til þess að týna þar spýtnarusl og þang til eldiviðar. Ávallt komu þessi störf á kvenfólkið, auk alls annars, svo að auðsætt er, að ekki þurfti það að kvarta um iðjuleysi á þessum tímum.
Einnig mætti að sjálfsögðu telja til verka kvenna og barna allar sendiferðir niður í Sand, í verslanirnar, færa kaffið í Sandinn og bera heim, í skrínum auðvitað, allt sem til heimilisins þurfti neðan frá, svo sem fisk og aðrar matvörur. Þetta var ekki svo lítill ábætir við annað, að þurfa að fara allar sendiferðir og viða ýmislegu að heimilinu.
Lárus bóndi á Búastöðum var góður smiður á báta sem annað. Bát smíðaði hann heima á Búastöðum. Mig minnir að hann héti Stína litla. Þá var Fríður látin halda við, meðan Lárus hnoðaði naglana á rærnar.
Stundum fóru dæturnar að leita að hestinum út um allar jarðir og ráku auk þess beljurnar til haga og brynningar inn í Herjólfsdal, jafnvel voru þar yfir þeim meirihluta dagins. Eitt sinn voru strákarnir Gísli og Pétur sendir eftir kúnum, sem þá voru austur á Haugum. Þegar þangað kom, sáu þeir ekki betur en mamma þeirra væri þarna austurfrá og gengi hratt austur milli fella og fór Geitaskarð. Þeir létu þá kýrnar eiga sig, en fóru á eftir henni vestureftir. Ekki áttuðu þeir sig á þessu, fyrr en þeir voru komnir nær því vestur í Kaplagjótu. Þá hvarf þeim konan, og þeir komu til sjálfra sín aftur. Fóru þeir þá heim á leið og var þá farið að leita þeirra. Beljurnar voru á sama stað, en leitarmenn fundu strákana hvergi, fyrr en þeir sáust koma vestan Dalaheiðina. Ekki hafði mamma þeirra hreyft sig neitt að heiman, svo að ekki gat þetta verið hún, sem þeir sáu. Var þetta þessvegna óupplýst alla tíð, hvaða kona þetta var, sem svo mjög líktist mömmu þeirra, en hvarf hennar vestur við Kaplagjótu þótti benda á eitthvað dularfullt. Þótt þeir síðar færu með og sæktu beljurnar, sáu þeir aldrei neitt þessu líkt, en það sagði Pétur, að ekki hefði verið hægt að þekkja þessa dularfullu konu frá mömmu þeirra, og þessvegna hefðu þeir elt hana og kallað á hana án afláts án þess að hún ansaði þeim nokkuð. Þó leit hún við annað slagið, og var hún að sjá alveg eins og mamma þeirra.
Til marks um vinnunýtni hverrar stundar mætti minnast þess, að ef konur fóru niður í Sand, þ.e. niður í þorpið ofan af bæjum, þótti sjálfsagt að nota tímann, sem í gönguferðina fór fram og til baka, með því að vera með bandprjóna sína og prjóna, meðan á göngunni stóð. Til þessa þurfti að sjálfsögðu töluverða leikni í faginu, sem þó allar eldri konur a.m.k. höfðu til að bera. Margir munu minnast Katrínar á Vesturhúsum, er hún gekk niður í Sand. Var hún þá með skrínu sína á bakinu, yfir öxlina og prjónaði af mesta kappi. Var hún þá að sækja sér ýmislegt smálegt til heimilisins, t.d. fisk, hausa, salt eða ýmislegt smálegt í búðina o.fl. Alveg virtist Katrínu vera sama, hvort skrínan var létt eða þung í burði, alltaf prjónaði hún á leiðinni.
Þetta léku margar fleiri konur, bæði þær sem bjuggu uppi á bæjum, uppgirðingunum og þær, sem bjuggu fyrir ofan Hraun, t.d. þær Guðrún og Ingibjörg í Suðurgarði, Katrín í Draumbæ, Árný í Norðurgarði, Rósa í Þorlaugargerði, Sigurbjörg í Brekkuhúsi o.fl. Þá slógu þær ekki slöku við, t.d. þær Guðrún Erlendsdóttir, Vesturhúsum, Kristín á Búastöðum, Guðbjörg Björnsdóttir í Gerði, auk þeirra Katrínar og Valgerðar á Eystri Vesturhúsum.
Þegar réttað var í Almenningsréttinni á Eiðinu, var það alvanalegt að sjá kvenfólkið sitjandi við réttina eða inn í dilk sinnar jarðar og prjóna, meðan það beið eftir að safnið kæmi og kallað yrði „að koma í vænginn“, þ.e. standa fyrir fénu, þegar það kom austan af Eiðinu aftur til innrekstrar í réttina, svo að það slyppi ekki sunnan réttarinnar.
Féð var ávallt geymt innst á Eiðinu við rætur Heimakletts, norðan frá Hettugrjótum suður að Bólverki, þar til allt safnið var komið. Þá var innrekstrinum tvískipt. Konurnar notuðu þessa litlu biðstund, gripu prjónana og prjónuðu af mestu iðju, meðan þær biðu aðgerða fjármanna og ræddu á meðan við vinkonur sínar. Sumar konurnar voru jafnvel svo iðnar, að færu þær í næstu hús, gleymdu þær ekki að taka prjónana sína og bandhnykilinn, svo að þær gætu nýtt tímann vel á meðan þær stoppuðu hjá grannkonunni, ef þær stoppuðu þar og biðu eftir að skerpt væri undir katlinum.
Þannig var hver stund notuð til þess að vinna að heill og velferð heimilisins. En margt er ótalið af störfum kvenfólksins í daglegu lífi, því að vitanlega var ofangreind prjónavinna aukaatriði. Strax eftir fuglaferðir var farið til sölvatekju út um Heimaey, þar eftir týnd fjörugrös, þar eftir farið á þangfjöru. Fjörugrösin voru notuð til manneldis sem og sölin, en þangið ómissandi eldiviður. Eftir þetta komu haustréttirnar, slöktunin og sláturgerðin, störfin við að taka upp úr kálgörðunum, kartöflur og rófur, og ganga frá garðamatnum í útsæðiskassa og matarkartöflubingi. Það var æði búsældarlegt um að litast, þegar búið var að ganga frá öllum garðamatnum í geymslunni hjá öllum fuglaköggunum, sláturtunnunum o.fl. matarkynns.
Þegar vertíðin hófst, gengu stúlkurnar í Sandinn, en svo var það nefnt að vinna við fiskinn niður við krærnar. Þær drógu fiskinn frá lendingarstað skipanna með þar til gerðum dráttarkrókum, upp í fiskikrærnar. Síðan gerðu þær að fiskinum og margt fleira viðkomandi fiskhirðingunni. Eins og það var kallað að ganga í Sandinn, þegar unnið var ofan af bæjum niðri við fiskhirðinguna hjá fiskikrónum, eins var það nefnt að fara niður í Sand, þegar fólkið uppi á bæjunum fór ofan í þorpið eða niður að þessu mikla athafnasvæði þorpsins, þ.e. krónum, hrófunum og læknum. Lækur var það nefnt, svæðið milli Stokkhellu og Nausthamars, og upp af því svæði voru aðal-hrófin.
Heimilisiðnaðarstörf voru mikil á Búastöðum sem öðrum stærri bændabýlum, og margþætt, ekki sízt á kvöldvökunum. Byrjað var að kveikja ljós í byrjun september-mánaðar. Þá var og fyrsta vakan, svonefnd Gæruvaka. Hún fékk nafn sitt af því, að hún varaði til jafnlengdar við það, og það tók að raka eina gæru í rólegheitum. Ljósið var kveikt kl. sjö. Var olíuljós í baðstofunni og bestu stofunni, en lýsislampar í eldhúsinu, meðan notað var hlóðaeldhús, og að sjálfsögðu í fjósinu. Á kvöldvökunum voru allir látnir hafa eitthvað verkefni milli handa, valið eftir hvers getu. Vinnunni var yfirleitt hagað svo, að kvenfólk spann og prjónaði, gerði skó eða bætti, saumaði ýmisskonar fatnað á karlmenn og kvenfólk eða börnin. Oft var einn karlmaður, sem kembdi ullina, en mjög misjafnt þótti að spinna úr kembum þeirra. Var þá óspart gert að gamni sínu, ef ungir og ógiftir áttu í hlut. Var t.d. sagt, að konan hans ætti að líkjast kembunum, að hún ætti að verða stutt og sver eða löng og mjó o.s.frv. Sami háttur var og hafður á við tvinningu bandsins á snælduna. Handbrögð manna voru misjöfn eins og ávallt.
Aðrir karlmenn rökuðu gærur á vökunni, eltu skinn, sniðu eða gerðu skóklæði, þæfðu ýmislegt, telgdu til hagldir, lagfærðu búsáhöld, fléttuðu reiptögl, sauðabönd eða klifbera og hnakkgjarðir úr uppröktum hamp eða hrosshári o.m.fl. Vefstóll var á Búastöðum og mikið ofið. Allur fatnaður á heimilisfólkið var ofinn heima, fatnaður, utast sem innst, og þessutan mjög mikið ofið fyrir aðra í þorpinu. Var það meira gert vegna greiðasemi við fólkið, sem ekki hafði tök á slíkri vinnu á heimili sínu, heldur en sem tekjuöflun fyrir Búastaðaheimilið.
Ávallt voru lesnar sögur eða kveðnar rímur á kvöldvökunni. Á þeim skemmtiatriðum höfðu allir miklar mætur, ekki síst húsbændurnir, sem gerðu sér mikið far um að hafa ávallt sem bezt lestrarefni tiltækt. Auk þessa voru að sjálfsögðu lesnir húslestrar á vökunum, a.m.k. seinnipart þeirra, sem var og alsiða í Eyjum.
Venjulegast var vakað allt til kl. um tólf og kaffi alltaf gefið fólkinu klukkan um ellefu. Mun svo hafa verið gert á allflestum efnabetri heimilum.
Fullorðna fólkið fékk sér hvíldarblund í rökkrinu, nema það fólk, sem hugsaði um fjósið, og stúlkurnar í eldhúsinu. Þau höfðu oftast nóg annað við tímann að gera en sofa, þótt það þarfnaðist oft hvíldar eins og aðrir á heimilinu. En rökkrið var þessu fólki óheppilegur hvíldartími. En fólkinu var bætt þetta vel upp að kvöldinu til eða fljótt eftir kvöldmatinn.
Hvað börnunum viðkemur voru þau ekki látin sitja auðum höndum á vökunum. Þau voru fljótt látin fara að prjóna sér barða (íleppa) í skóna sína o.fl. Stundum voru þau látin tægja ull og hrosshár, halda í hespur o.m.fl. Ekkert vinnuafl var látið ónotað. Allir urðu að starfa og börnin fljót að læra að vinna. Var þeirri gullvægu reglu fylgt dyggilega, sem getur í hinu forna spakmæli: „Kynntu þér allt, hvað kynnt þér getur, með árunum lærist þér allt það betur.“
En þrátt fyrir mikla vinnu barna, fengu þau þó afgangstíma til leikja. Aðal leikvöllur þeirra voru túnin á haustin. Mjög oft voru þau á góðviðriskvöldum hjá Vilpu. Söfnuðust þangað börn af næstu bæjum og jafnvel „neðan úr Sandi“, sbr hér að framan. Umhverfi Vilpu var skemmtilegt og mjög afhaldið leiksvæði. Á vatninu gátu drengirnir siglt bátum sínum í frostleysum, en víðfeðm túnin allt umhverfis gáfu tækifæri til margskonar leikja fyrir stúlkur og drengi. Góða gát urðu börnin að hafa á því, hvenær kveikt var ljós heima hjá þeim. Þá urðu þau að fara strax heim til kvöldvökuvinnunnar. Ekki mátti óhlýðnast.
Á veturna brunuðu þau sér í snjónum og á ísnum á Vilpu. Þau Búastaðabörnin höfðu stundum stóran sleða, sem heimilið átti vegna aðdrátta á vetrum. Gátu þau hæglega verið 3 á sleðanum í einu og rennndu sér ofan Kvíslarhól að vestan, niður hólinn hjá norðurbænum eða þau brunuðu sér af Útburðarhól í Oddsstaðatúni. Oft létu þau sér nægja að bruna sér á fjölum niður hóla og hæðir, urðu jafnvel stundum að gera sér að góðu að hafa ekkert nema rúmfjalirnar sínar. Öðru var þá ef til vill ekki til að dreifa, þareð fremur lítið var um timbur og engir krakkar áttu sinn sérstaka sleða. Það hefði þótt meir en óþarfi að eyða efnivið í hann. Þá hefði börnum þótt gaman að eiga nútíma maga- eða skíðasleða. „Það er ótrúlegur sá reginmunur, sem var á aðbúnaði barna í mínu ungdæmi og nú til dags hjá börnum,“ sagði Fríður Lárusdóttir frá Búastöðum, „ekki einvörðungu í leiktækjum, heldur og einnig í klæðnaði öllum og fæði. Ég held, að ekkert barn gæti sett sig inn í hinar erfiðu uppeldisaðstæður, skort og nægjusemi, sem við Eyjabörnin áttum við að búa á árunum 1880-1900“. Þannig sagðist henni, þeirri fróðu konu.
Hvað mataræði viðkom hjá bændum, mun það hafa verið nokkuð svipað. Mest var etinn fugl og fiskur, nýtt eða saltað. Var mjög mikið til í hverju betra búi af allskonar fuglakjöti, svo sem af lunda, svartfugli, fýl og súlu. Enginn þótti sá búnaður bænda, sem ekki átti það mikið af saltfugli að vel næði saman við nýmetið á vorin.
Matmálstímar voru á annan hátt en nú tíðkast. Morgunkaffið var oftast drukkið klukkan 7 til 8, enda var þá venjulegur fótaferðartími um haust og vetur. Borðað var svo klukkan tíu, oftast fiskur með rófum og kartöflum og til viðbits hafður þorskalýsis- eða fýlafeitisbræðingur. Þessi máltíð var nefnd „frúkostur“, og er orðið komið úr dönsku máli.
Kaffi var drukkið kl. tólf, hádegiskaffið, en miðdegismatur etinn kl. 3. Þá var oft til matar saltaður fugl með garðamat annan daginn, en hinn harðæti með flatkökum úr rúgi og þessutan höfð söl. Kaffi var svo um klukkan fimm, oftast molakaffi, og þá notaður toppasykur eða kandís. Kvöldmatur var kl. 8, og var þá oftast fýlasúpa eða mjólkurgrautur og þá eitthvað meðlæti, máske lítill kjötbiti, smurð flatkaka o.s.frv.
Brauð eða kökur voru sjaldnast með kaffi, nema á hátíðum, tillidögum og við gestakomur. Þó voru einstaka sinnum kökur með kaffinu, ef fólkið var við útivinnu, í görðum eða við heyvinnu og svo, þegar þurrfiskurinn var lagður inn í verzlanirnar. Þá var tekinn einn fiskur, lagður inn, kaffibrauð keypt fyrir andvirði hans og gefið fólkinu. Þótti mikið til þessa munaðar koma.
Sunnudagsmatur var oftast eitthvað frábrugðinn hversdagsmatnum. Var þá t.d. höfð kjötsúpa í miðdegismat eða mjólkurgrautur. Væri knappt með mjólk, var bætt upp með kjötbita út í grautinn. Hverjum manni var skammtaður maturinn í hans skál, sem nefndar voru spilkomur og voru til í þrem stærðum á heimilum. Húsmæður skömmtuðu matinn sjálfar og reyndu að gera hverjum sem best eftir efnum og ástæðum heimilisins. Allir reyndu að hafa hátíðarmatinn eitthvað frábrugðinn því venjulega, eftir því sem efnin leyfðu. Þau voru vitanlega misjöfn hjá bændum. Á Búastöðum, sem var stórt og allvel efnað heimili á síns tíma vísu, var á Þorláksmessu hafður fiskur að morgni. Síðar um daginn voru stundum höfð fisktálkn, sem rifin höfðu verið úr hausum daginn áður og lögð í bleyti. Þau voru gjarna soðin í hangiðkjötssoði og framborin með flatkökum eða brauði. Þetta þótti ágætur matur og sjaldan mun hafa heyrzt, að hann væri ekki samboðinn degi hins heilaga Þorláks. Ekki var þetta fastur siður, en ekki óalgengur meðal bænda. Sést af því, að flest var notað og nýtt til hins bezta.
Um kvöldið var svo saltaður fugl, ásamt garðamat og gjarna flatkaka með.
Á aðfangadag jóla var einnig hafður fiskur um morguninn, nýr ef til var, en annars og oftast saltaður eða siginn. Um hádegið var haft kaffi, smurt brauð og kökur, en í miðdegismat kjötsúpa og síðan kaffi með kökum. Þá var t.d. höfð hin svonefnda Imbukaka með kaffinu, sem síðar hlaut nafnið jólakaka. Hún var hnoðuð, bökuð í potti á hlóðum og íláti hvolft yfir, meðan hún bakaðist. Ekki verður nú vitað, hvaðan þetta Imbunafn á kökuna er komið, en sennilega frá einhverri Ingibjörgu, sem fyrst hefir komið með uppskrift hennar til Eyja. Sennilega nokkuð gömul nafngift.
Á jóladaginn var farið á fætur klukkan sex, gefið kaffi og brauð. Þareftir var jólalesturinn lesinn. Til morgunverðar var oft hafður hrísgrjónagrautur með rúsínum í og sætri mjólk útá, ásamt smurðri flatköku. Klukkan tíu var búið að borða, og fór þá fólk að búast í sparifötin, allir, sem það gátu. Enginn, sem heilsu hafði, mátti sitja heima. Þegar komið var frá kirkjunni, fékk fólkið kaffi með smurðu brauði og kökum. Seinnipart dagsins var haft kjöt til matar, ásamt garðamat. Fékk hver maður t.d. vænan saltkjötsbita, álíka af hangikjöti, 1 til 2 flatkökur, 2 til 3 rúllupylsusneiðar, og þessutan eitt eða tvö hangikjötsrif. Auðvitað fékk hver og einn jólakerti og var það skammtað um leið og maturinn. Að sjálfsögðu var íslenzkt smjör með brauðmatnum, og munu flestir hafa haft a.m.k. einhvern vott af því um jólin. Á Búastöðum var oftast nægilegt af íslenzku smjöri, þótt ekki væri bruðlað með það. Hversdagslega var, að langmestu leyti, notaður bræðingur.
Lárus fékk ávallt nokkuð af smjöri með vermönnum af meginlandinu í skiptum fyrir harða hausa, trosfisk, fugl og fiður. Þannig var einnig um fleiri bændur hér, að þeir höfðu allmikla verzlun við meginlandsmenn í nefndum afurðum, en fengu í staðinn, t.d. smjör, ull, landtorf, sem ekki mátti rista í Eyjum (nema mjög takmarkað), garðamat, skyr o.fl. Margir fengu einnig fé á fæti frá nærsveitunum og greiddu þessar vörur í fugls- eða fiskafurðum. Um peningaverzlun var helzt ekki að ræða, en lífleg vöruskipftaverzlun og milliskriftir.
Trúarlíf Eyjabúa var sízt verra á þessum tímum en nú gerist, ef ekki betra. Allir fóru í kirkju, sem mögulega gátu, t.d. bæði til dagmessu og aftansöngs um hátíðar. Annars fannst mönnum engin hátíð vera. Átti þetta einnig við um aðra helgidaga. Fólkið hlakkaði ávallt til aftansöngsins, t.d. um jólin, heyra fallega sálma hátíðarinnar og góð orð prestsins, sjá allt kirkjufólkið og heilsa þar upp á vini og kunningja. Ekki voru aðrar samkomur mannfleiri í þann tíð. Þó að Eyjan væri ekki stór eða langt milli bæja, var fólk ekki á stöðugu rápi og sást því ekki daglega. Sumt jafvel ekki vikulega.
Auk kirkjuferðanna og þar viðhafðra trúarsiða, voru ávallt lesnir húslestrar á heimilum manna. Voru það góðar hugvekjur, passíusálmarnir, Nýja testamentið o.fl., og var svo gert fram að páskum. Enginn dagur var án lesturs, ekki einu sinni dagar stórhátíðanna. Húslestrar þóttu sjálfsagðir jafnhliða kirkjuferðunum. Þessum sið var haldið til 1921 á Búastöðum, og lengur eða allt fram á síðustu ár á Oddsstöðum hjá Guðjóni Jónssyni bónda þar. Víðar gæti þetta verið gert enn, en ekki mun sá siður almennur lengur. Oft var nokkrum erfiðleikum bundið að komast til kirkju, t.d. aftansöngsins, og vera á ferli utan þorpsins í myrkri. Vegir voru fáir um þorpið sjálft og helzt engir utan þess, nema Kirkjuvegurinn „neðan úr Sandi“ og upp að kirkju, Vilborgarstaðavegur frá verzlunarstaðnum og upp á Vilborgarstaði. Aðalvegur þorpsins var annars Strandvegurinn, sem var frá Austurbúðinni meðfram aðal athafnasvæðinu við Hrófin, fiskikrónum og Læknum, vestur að Júlíushaab, (Tanga).
Enginn voru götuljósin, og allt hulið glórulausu myrkri. Var göngufæri þessvegna stundum slæmt vegna bleytu og moldareðju um troðninga og þröngar slóðir. Umferðina bættu mikið ljósluktir, sem hvert heimili átti og notaði til kirkjuferða og annarrar umferðar, er kvölda tók. Þetta voru litlar handluktir úr þunnum við og léttum. Þær höfðu gler á þrem köntum, en renniloka á einum. Í luktinni brann eitt kertaljós, og var loftræsting undir handfanginu. Hún var borin fyrir gangandi fólkinu og lýsti furðu vel, þareð líka oft voru margir á ferð saman með luktir, t.d. í kirkjuferðum. Ekki þættu þessar luktir merkilegar nú til dags, en þá þóttu þær fínar og ómissandi hverju heimili.
Það var mjög skemmtilegt og hátíðlegt að sjá frá Búastöðum, þegar ljósin komu austan frá Kirkjubæjunum í langri röð eftir götuslóðunum á túnunum á leið til aftansöngsins. Framhjá Búastöðum fór hópurinn klukkan hálfsex og hélt vestur eftir. Þar bættust svo við í röðina fjölskyldur Búastaða, Nýjabæjar og Ólafshússa. Var þetta þá orðinn all fjölmennur hópur, máske 25 til 30 manns, og margar luktir lýstu leiðina.
Í forkirkju Landakirkju höfðu margir þann sið að skipta um skó, áður en þeir gengu í kirkjuna. Var þetta tíðum nauðsynlegt, ef kirkjufólkið hafði lent í slæmri færð og veðri.
Skammt ofan og sunnan við Landakirkju stóð til skamms tíma hlaðin grjótvarða. Hún var að nokkru hol að innan neðst. Þar geymdu Ofanbyggjarar, þ.e. þeir, sem bjuggu fyrir ofan Hraun, stundum líka nefnt „fyrir ofan Leiti“, skó sína, meðan þeir gengu í kirkjuna. Fólk úr uppgirðingunni, þ.e. Vesturhúsum, Ólafshúsum, Nýjabæ, Búastöðum, Oddsstöðum, og Túni geymdi skó sína í forkirkjunni, er þurfa þótti, í svonefndum skópokum. Það voru litlir pokar saumaðir upp úr strigapokum. Varðan fyrir sunnan kirkjuna dróg nafn sitt af skógeymslu Ofanbyggjara og var nefnd Skóvarða.
Kirkjuferðin á stórhátíðum var ekki svo lítill viðburður í lífi almennings. Ljósadýrð kirkjunnar hreif fólkið, því að lítið var um ljós í þann tíma á heimilum manna, nema til allra nauðsynlegustu þarfa. Kirkjan, uppljómuð af kertaljósum, var í augum fólksins ógleymanlegt musteri ljóss og dýrðar. Ljósahjálmarnir þrír, ljósboginn framan kórsins, altarisstjakarnir, berandi stór og mikil ljós, auk minni tvíarma kertastjaka frammi yfir bekkjaröðunum niðri, allt glóði þetta í birtu og undrafegurð, svo að fólk fékk ofbirtu í augun. Og þegar svo presturinn skrýddur fegursta skrúða hóf upp þýða og fagra rödd sína, og söngkórinn svaraði tóni hans með fáguðum margradda karlasöng, leiddum af fögrum tónum kirkjuorgelsins, þá var engu líkara en nýir og dýrðlegir heimar opnuðust ungum og gömlum. Það var dýrðleg stund, ógleymanleg öllum þeim, sem kirkjuna sóttu á þessum hátíðlegu stundum trúarinnar. Á þessum tímum var kirkjan kær samkomustaður allra Eyjabúa, þar sem hver kennimaður öðrum betri túlkaði orð trúarinnar á sinn hugþekka hátt með orðum og hugljúfu tónaregni í söng og hljóðfæraleik.
Hver kirkjuferð var hverjum og einum hugstæður atburður. Vildi fólk gjarna leggja hart að sér í daglegu erfiði til þess að geta orðið þessa aðnjótandi.
Skemmtanalíf Eyjabúa var all fjörugt, þó að það annarsvegar væri fremur fábreytilegt. Skal að endingu nokkuð vikið að því. Oftast tóku flestir á hverju heimili þátt í því á einhvern hátt, t.d. í veizlum þeim, er haldnar voru í sambandi við fugla og fiskiveiðar. Mun ég síðar minnast nánar á þær, brúðkaupsveizlur o.fl.
Grímudansleikir voru haldnir hér sem annarsstaðar og var þátttaka mikil. Varast er þó hægt að tala um dans í sambandi við þær samkomur, a.m.k. ekki fyrst í stað, þareð aðeins fáir kunnu þá fótamennt að dansa.
Blysfarir voru hér fyrst algjörlega óskipulagðar, en haldnar á Þrettándanum. Fólkið gekk á eftir blysberunum, sem voru grímubúnir, víða út um Eyjuna og þorpið, t.d. inn í Botn, Póstflatir og Eiði, upp fyrir Hraun, inn á Brimhóla og víðar.
Eftir að Friðrik Gíslason hafði verið við ljósmyndaranám sitt í Reykjavík og kom aftur heim til Eyja, skipulagði hann blysfarirnar vandlega svo sem hann hafði séð gert í Reykjavík. Þá var t.d. fyrst hafður álfakóngur og drottning. Það var árið 1901. Fyrsti álfakóngur hér var Kristján Ingimundarson í Klöpp, en drottning var Kristján Sæmundsson frá Kirkjubæ. Gísli Lárusson gullsmiður í Stakkagerði smíðaði kórónu handa kónginum, ásamt korða, en drottningin bar íslenskan fatnað og mikið gullskraut frá íslenskum búnaði. Friðrik hafði æft vikivaka-söngva og dans í Kumbalda um haustið og undirbúið þannig eitt mjög veigamikið atriði blysfararinnar, þ.e. söng og dans álfanna. Þátttakendur í blysför þessari urðu nær 80 manns. Friðrik stjórnaði öllu með mestu prýði, og fór allt mjög vel fram. Á grímuballinu var dansað mikið, helzt var þá dansað Hoppsa, Vals, Marsurka, galopade, ofið vaðmál og marserað með söng og margskonar göngu-tilbrigðum.
Í blysförinni sjálfri var gengið inn á Brimhóla, og gengu tveir og tveir saman. Allir báru blys og logaði glatt í þeim. Þegar svo komið var inn á Brimhólaflöt, var þar tendraður bálköstur mikill, og gengu blysberar í hring kringum bálið og sungu við raust álfasöngva og fleira og dönsuðu margskonar vikivakadansa. Var spilað undir á harmoniku til þess að leiða og raddfesta sönginn. Þetta voru fólkinu ógleymanlegar skemmtanir, enda voru þær mjög fjölsóttar af ungum og gömlum.
Meðal annarra, sem léku álfakónga við blysfarir, mætti minnast þeirra Gísla Engilbertssonar, Jóels Eyjólfssonar, Jóhanns Gíslasonar, Hlíðarhúsum, sem var álfakóngur í fjölmörg ár, Guðjóns Guðjónssonar, Sjólyst, o.fl. Meðal álfadrottninga mætti minnast auk Kristjáns Sæmundssonar fyrrnefnds, Guðjóns í Sjólyst, Þórdísar Árnadóttur á Vilborgarstöðum, Arngríms Sveinbjörnssonar á Kirkjubæ, Jóns Waagfjörðs, Garðhúsum, Ingu á Hól og fjölmargra annarra.
Fyrir marseringunni trommaði stundum aðaltrommari þorpsins, Steinmóður Guðmundsson, (d. 4. ág. 1912). Þegar blysför skyldi haldin, gekk Steinmóður um götur þorpsins trommandi á stóru trommuna sína. Vissu þá allir, að nú skyldi hin langþráða blysför haldin um kvöldið. Mættu þá bæði blysberar og áhorfendur við Þinghúsið, héldu svo þaðan marserandi með Steinmóð í broddi fylkingar, og sló hann taktinn fyrir göngunni.
Steinmóður var lengi vel smámæltur og stundum smáskrítinn. Ef hann var spurður að því, hver hann væri, svaraði hann þannig:
Fur e sá? je e sá. þonu gumm og Elína bóri Gendar Jessonar!
Fu e sá? je e sá...
Annars var Steinmóður sonur Elínar, f. 1836, Steinmóðsdóttur, d. 1846, Vigfússonar í Ömpuhjalli og Guðmundar Péturssonar í Smiðjunni. Steinmóður trumbari var fæddur 15. maí 1860. Hann giftist aldrei, átti ekki börn og lézt sem fyrr getur 4. ágúst 1912.
En Steinmóður trommaði oftar en við blysfarir. Þegar uppboð skyldi halda, var hann fenginn til þess að ganga um götur þorpsins, og vissu menn þá hvað tilstóð.
Um þrettándann var afhaldinn siður hér ríkjandi. Það var, að fólk sló sér saman, 5-10 manns, og gekk grímubúið milli húsa. Báðu flokkar þessir leyfis að mega koma inn, og var svo heimilisfólkið látið spreyta sig á að þekkja grímufólkið. Á heimilinum fékk það svo einhverjar góðgerðir, eftir því sem efni búandans stóðu til. Siður þessi hélzt lengi frameftir árum og allt til 1910.
Á seinni árum varð fólk að hafa með einn ógrímuklæddan mann, þegar það fór í umræddar heimsóknir. Var það kallaður túlkur, og hafði hann orð fyrir grímufólkinu. Sá siður var upptekinn eftir það, sem fyrirkom eitt sinn í Svaðkoti. Það var rétt eftir nýár, að upp að Svaðkoti fóru þeir Gísli Engilbertsson verzlunarstjóri og Willy Thomsen verzlunarstjóri í Godthaab. (Gísli var þá verslunarmaður við Júlíushaabsverslun en Willy skömmu orðin verslunarstjóri (1869.) Einhverjir fleiri voru í þessari ferð að Svaðkoti. Þeir gerðu engin boð á undan sér, og varð heimilisfólkið ofsahrætt við þessar verur. Húsfreyja eggjaði mann sinn Bjarna til stórræða gegn þessum draugum, sem læddust þarna inn hljóðlega og hrópaði: „Skjóttu á þetta, Bjarni, skjóttu.“ Hún hafði orðið ofsahrædd eins og fleiri á heimilinu. Bjarni tók þá byssu sína, en frekari aðgerðum varð afstýrt á síðustu stundu. Bjarni sá fljótt hverskyns var, svo slysum varð afstýrt. Eftir þetta var stranglega bannað að ganga í húsin með grímu, öðruvísi en hafa túlk, þ.e. einn ógrímuklæddan með í förinni, sem hafði orð fyrir grímufólkinu, er t.d. leyfis var beðið með að mega koma inn o.s.frv. Þetta mun hafa verið um árið 1872/73. Þessi grímugöngusiður mun trúlega kominn til Eyja með dönsku verzlunarfólki við verslarnirnar hér, og þá trúlega um það leyti, er þessi eftirminnilega ferð var farin upp að Svaðkoti. (Sögn Fríðar Lárusdóttir).
Í Danmörk er umræddur grímugöngusiður mjög forn og mun enn vera viðhaldið, t.d. á ey einni í Stóra-Belti, þ.e. Agersö, sem er vestur af Skelsör. Er sagt að hægt sé að rekja ferli þess siðar allt til 300-400 e.Kr. Þar nefnist siður þessi Helligtrekongers-löb og fór fram í svartasta skammdeginu 5. janúar. Fyrst söng þetta grímugöngufólk gamalt vers á göngu sinni í húsinu. Þar þáði það margháttaðar góðgerðir, eftir að heimilisfólkið hafði spreytt sig á að þekkja grímufólkið, sem reyndi á allan hátt að villa á sér sýn með snarlegum búningum, töktum og málrómi. Kvæðið, sem sungið var á göngunni, var alllangt eða 30 erindi alls, og er þetta upphafið:
- „God Aften, god Aften, baade Mand og Kvinde,
- bonde og alt hans Husgesinde.“
- „Vi önsker eder alle lyksaligt Nytaar,
- for alle Ulykker Gud eder bevaar.“
Hér voru mikið tíðkuð heimboð búenda í milli húsa um jólin og nýárið. Þáðar voru góðar veitingar og ýmislegt sér til gamans gert, t.d. mikið spilað á spil, og voru algengustu spilin púkk og alkort. Til gjaldmiðils í spilum hafði fólk fiskikvarnir eða jafnvel glerbrot, en síðar óbrenndar kaffibaunir. Á meðan húsbændurnir voru í heimboðum til kunningjanna, fékk heimafólkið að skemmta sér. Fékk það þá oftast mat í eina góða máltíð og fleira sér til ánægju.
Þá var ekki lítið um gleðskap og dýrðir, þegar brúðkaupsveizlur voru haldnar, fuglamannaveizlur allskonar, veizlur tilheyrandi fiskveiðunum o.m.fl. Þó báru brúðkaupsveizlurnar af um allan glæsibrag. Þær voru býsna fjölmennar, matur og hverskonar veitingar í ríkum mæli, drukkið allfast, sungið við raust, samanspjallað og dansað af hjartans lyst. Fyrir dansinum var spilað á harmoniku og eða fiðlu. Sumt fólk dansaði Les Lanciers, eftir að Frú Aagaard hafði kennt það. Þá var og sprett úr spori í hörðum polka, marsurka, vals og marserað með margskonar tilbrigðum. Fjöldinn varð þó að láta sér nægja að horfa á dansinn, nema þegar „ofið var vaðmál“ eða aðrir álíka keðju- og söngdansar voru dansaðir. Þá þeyttust allir út á gólfið og dönsuðu þessa gömlu dansa af hjartans lyst og mesta fjöri.
Allir reyndu að vanda til sinnar brúðkaupsveizlu og var hvergi til sparað í mat og drykk. Frammistöðumennirnir höfðu mikið að gera, því að hvergi mátti vanta veitingar. Karlarnir skáluðu léttir og kátir í rommpúnsi og Ratafíu, röbbuðu saman um gagn og nauðsynjar, sögðu sögur af sjó og fjallaferðum o.fl. Veizlur þessar voru mikilsverður þáttur í skemmtanalífi hinna einangruðu Eyjaskeggja. En þær voru dýrar, því að mikils þurfti við, ef vel átti að vera. Hjónaefnin voru líka lengi að undirbúa veizlu sína, en gerðu það því betur. Vöruverð var þá allhátt í verzlununum, en hinsvegar fremur lágt verð á íslenzkum framleiðsluvörum hér.
Til gamans set ég hér sýnishorn um vöruverð árið 1887. Þá er innlegg Lárusar bónda á Búastöðum til Garðsverzlunar:
40 pt. hrálýsi | á kr. 1,50 pr. pott |
16 pd. sundmagi | á 0,60 |
1280 pund saltfiskur | á 36 kr. pr. skpd. |
354 pd. langa | á 34,00 skpd. |
657 pund saltfiskur | á kr. 36,00 pr. skpd. |
36 pund saltfiskur | á kr. 28,00 |
8 pd. saltfiskur | á kr. 34,00 |
27 pd. hvít ull | á 0,60 pr. pd. |
60 pund fiður- (lundafiður) |
á kr. 1,10 pr. pd. |
35 pd. fýlafiður | á 0,60 pr. pd. |
64 pund sama | á kr. 0,34 pr. pd., o.s.frv. |
Alls nemur innlegg þessa bónda í Garðsverzlun yfir árið kr. 1.106,54. Úttektin við sömu verzlun er þá alls kr 1.086,74. Þar sést úttekið m.a:
4 pt. olía | á 0,18 |
eitt lýsipund kol | á kr. 5,00 |
hálftunna rúgur | á kr. 8,00 |
½ sekkur hveiti | á kr. 12,00 |
4 pund kandís | á 0,36 |
2 pd. kaffi | á 0,80 |
stumpasirs fr. | kr. 0,80 |
1 pd. tvíbökur | á 1,00 |
2 pt. olía | á 0,24 |
½ poki grjón | á kr. 7,00 |
½ kaffibrauð | á 0,33 |
2 skeffur salt | á 0,60 |
brennivín | fyrir 0,12 kr. |
Romm | fyrir 0,45 |
Rullutóbak | fyrir kr. 0,12 o.s.frv. |
(Þetta er samkv. verzlunarbók Lárusar á Búastöðum 1887).
Við Godthaabsverzlun eru ársviðskipti Lárusar:
Úttektin sama ár kr. 169,18, en
innleggið 177,28.
Vöruverðið er þá mjög líkt hjá þessum tveim verzlunum. Þó sést, að handfæraöngull kostar hjá Bryde 9 aura, en hjá
Godthaabsverzlun 8 aura. Það geta hafa verið mismunandi tegundir.
Mjög þessu líkt og hér að framan greinir, hefir verið um hagi og háttu, siði og venjur stærri heimila í Eyjum á nefndu tímabili. Þó mun Búastaðaheimilið hafa verið með þeim betur stæðu efnalega og afkoma þess yfirleitt góð frá ári til árs. Þó komu fyrir einstaka ár, sem jafnvel hinum betur stæðu heimilum urðu allþung í skauti, þegar t.d. mikill aflabrestur varð í fiskveiðunum. Geta þá allir gert sér í hugarlund, hve erfitt hefir verið í búi hinna fátæku, t.d. þurrabúðarmanna, sem engar jarðarnytjar höfðu, en aðeins sinn eigin hásetahlut af vertíðarskipi, og mannshlut af lundaveiði, ef þeir voru svo heppnir að komast til fuglaveiða á vegum einhverra þeirra, er slíkum hlunnindum höfðu yfir að ráða.
Ekki var á þessum árum mikilli landvinnu fyrir að fara, en væri hún einhver, annaðhvort manna í milli eða við verzlanirnar, var greiðsla hennar einungis innt af hendi með vöruskiptum eða milliskriftum. Það er varast, að hægt sé að finna t.d., að verzlanirnar láti viðskiptamenn sína nokkurn tíma fá 1 til 2 skildinga eða síðar nokkra aura fyrir vinnu eða út í reikning sinn við verzlunina, enda þótt góð innstæða sé á viðskiptareikningnum. Aðeins hef ég fundið í verzlunarreikningum Lárusar á Búastöðum örsjaldan, að hann hafi fengið nokkra aura út í reikning sinn. Annars fara öll slík viðskipti fram í milliskriftum frá verzluninni.
Það er trúlegt, að lítið hafi verið um peningagreiðslur til þurrabúðarmanna. Þeir hafa varast haft meir en svo til innleggs í reikning sinn, að það hafi gert betur en jafna úttekt þeirra. Ef ekki, urðu þeir að leita á náðir verzlunarstjóranna eða kaupmannanna sjálfra, sem lengstum höfðu á þann hátt líf og heilsu þeirra fátæku í höndum sér og fóru með eftir skapgerð sinni og hentisemi þann og þennan daginn.
En upp úr aldamótunum síðustu, gripu Eyjamenn einokunina föstum tökum og hristu af sér viðjar hennar fyrir fullt og allt. Þá fyrst fór að rofa til fyrir nýjum tímum batnandi lífs, fyrir frumdrögum þess lífs, sem við lifum á sjöunda tug hinnar tuttugusta aldar.
(Við samningu þessarar ritgerðar hefi ég stuðst við frásagnir móðursystur minnar, Fríðar Lárusdóttur frá Búastöðum, og verslunarbækur afa míns, Lárusar Jónssonar á Búastöðum).