Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 2006/Farsæll Eyjaskipstjóri - Einar Runólfsson

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
HELGI BERNÓDUSSON




Farsæll Eyjaskipstjóri:


Einar Runólfsson



Einar af keppni æskumanns
Ísleifi af hrönnum beitir.
Aflasæld og heppni hans
hróður með réttu veitir.

Þannig yrkir Loftur Guðmundsson í Formannavísum frá 1944 um Einar Runólfsson á Velli, þá skipstjóra á Ísleifi. Einar var einn farsælasti og fengsælasti skipstjóri Eyjaflotans á blómatíma útgerðar í Vestmannaeyjum um miðbik síðustu aldar, 1940-1960. Hann er nú hátt á níræðisaldri, en er vel ern, hugurinn skýr, minnið ótrúlega traust og dómgreindin óbiluð. Þótt heilsan sé ekki fullkomin er Einar vel á sig kominn, hugsar um sig sjálfur í íbúð sinni á Digranesvegi 36 í Kópavogi þar sem hann hefur búið síðan hann fluttist frá Eyjum 1964. Einar varð ekkjumaður á síðasta ári þegar Vilborg („Monna“), eiginkona hans, lést eftir 64 ára sambúð.

Stoltur sjómaður með veiði sína. Einar Runólfsson var á lúðulínu við Eyjar nokkur sumur. Myndin var tekin 1952. Einar telur að Guðfinnur Þorgeirsson vélstjóri hafi innbyrt þessa stórlúðu

Einar var vel metinn í sinni stétt í Vestmannaeyjum, öflugur fiskimaður og öruggur og eftirsóttur sjómaður. Skipstjórnarsaga hans var nær áfallalaus, og hann naut virðingar samborgara sinna fyrir prúðmennsku og hógværð. Faðir hans var skipstjóri og synir hans urðu sjómenn. Þrjá ættliði úr fjölskyldunni má finna í Skipstjóra- og stýrimannatali, Runólf, Einar og Atla! Og Hlöðver, yngri sonur Einars, var virkur í félags- og öryggismálum sinnar stéttar, vélstjóranna.

Austfirðingur kemur til Eyja.

Friðrikka Einarsdóttir (1890 - 1979), móðir Einars

Einar er Austfirðingur að ætt, fæddur á Seyðisfirði á jóladag 1918 þegar aðeins nokkrar vikur voru liðnar frá lokum fyrri heimsstyrjaldar. Hann fluttist til Vestmannaeyja með foreldrum sínum 5 ára gamall, síðla árs 1924. Hann segist ekki muna mikið úr æsku sinni á Seyðisfirði, en eiga margar minningar frá Austurlandi síðar, t.d. þegar hann var sendur austur á firði, Vopnafjörð, fyrir fermingu og eins þegar hann var á bátum fyrir austan síðar á ævinni. „Það var uppgangur á Austfjörðum í byrjun aldarinnar, en orðin stöðnun þar þegar hér var komið og meiri möguleikar í Vestmannaeyjum þar sem allt var á fullri ferð á þessum tíma. Faðir minn var kunnugur þar því að hann var á vetrarvertíðum í Eyjum nokkur ár áður en við fluttumst þangað og móðir mín hafði verið búsett þar um tíma. Eins komu Eyjamenn oft austur á sumrin á þessum árum til róðra og kynntust mönnum þar eystra vel.“

Foreldrar Einars voru þau Runólfur Sigfússon og Friðrikka Ingibjörg Einarsdóttir. Þau bjuggu fyrst í Eyjum hjá Jóni Jónssyni í Hlíð og Þórunni Snorradóttur, konu hans, en Runólfur hóf skipstjóraferil sinn í Vestmannaeyjum vertíðina 1925 á Kap sem Jón gerði út. Einar segist muna vel eftir sér í Hlíð.

Runólfur Sigfússon (1893 - 1936), faðir Einars

„Ég man vel eftir því þegar við fluttumst til Eyja haustið 1924. Ég var á 6. ári. Við komum að austan með Esjunni og Jón í Hlíð kom út á Víkina á árabát að sækja okkur. Veðrið var gott þennan dag og ég man eftir Hreggviði, syni Jóns, í árabátnum.“

Upp og niður.
Eftir vetrardvöl í Hlíð bjó fjölskyldan á ýmsum stöðum í Vestmannaeyjum, fyrst í Langahvammi, Kirkjuvegi 41, og var þar meðan Runólfur byggði hús við Kirkjuveg 82 og kallaði „Breiðavík“ eftir fæðingarstað sínum. Hefði þá mátt ætla að brautin væri bein hjá þeim, en svo var sannarlega ekki. Runólfur var útgerðarmaður og hann varð fyrir áföllum, lenti í skuldabasli um 1930 og missti aleiguna. Þau hjón og börn þeirra fóru því enn á flæking. Þau fluttust þá að Sæbóli, við Strandveg 50, kallað „Jacobsenshús“ eftir norskum skipstjóra sem byggði það og bjó þar um tíma. Þetta hús var síðar brotið niður og látið víkja fyrir Strandvegi.
Enn gaf á hjá fjölskyldunni fáum árum seinna því að Runólfur veiktist þá af krabbameini, rúmlega fertugur að aldri, og lést haustið 1936. Friðrikka, kona hans, var orðin ekkja í annað sinn. En nú stóð hún ekki ein, því að börn hennar voru að komast á legg og gátu hjálpað henni við framfærsluna og annað sem fellur til á stóru heimili.
Eftir lát Runólfs fluttist fjölskyldan í leiguhúsnæði á Bergi við Bárustíg, en það hús var síðar flutt þegar Miðstræti var framlengt til vesturs og sett niður við „Reglubraut“. Þau leigðu síðar á Velli, Kirkjuvegi 23, en eigandinn, Elsa Ólafsdóttir, bjó þá tímabundið í Reykjavík hjá Unni, dóttur sinni. Því næst fóru þau að Vegbergi, Skólaveg 32, og loks í Fagurlyst, Urðaveg 16, sem þá var í eigu Jóhanns Þ. Jósefssonar alþingismanns. Svona var ástandið í Eyjum á þessum tíma, mikið húsnæðisleysi og óvissa fyrir það fólk sem ekki átti húseign. Síðar tókst þeim, þegar Einar var orðinn fullgildur sjómaður, að festa kaup á Birtingarholti, við Vestmannabraut 61, eystri enda þess húss. Það var hálf eignin á móti lngvari Þórólfssyni sem bjó með fjölskyldu sinni í vestri endanum. Birtingarholt er horfið núna. Heiðarbrún stóð austan við það en Oddi vestan við.

Friðrikka Einarsdóttir.
Friðrikka Ingibjörg, móðir Einars, var fædd 22. febr. 1890 á Seyðisfirði. Leið hennar lá til Vestmannaeyja eins og margra annarra ungra austfirskra stúlkna.
Hún kom þangað 1908, 18 ára gömul. Hún giftist þar Ágústi Scheving frá Vilborgarstöðum, syni Vigfúsar Schevings og Friðrikku Sighvatsdóttur. Ágúst var fæddur 1888, varð ungur sjómaður, fyrst á áraskipum, en síðar á vélbátum, og formaður á „Haffrú“ sem hann átti með föður sínum og fleirum. Þau Ágúst eignuðust tvo syni, Friðrik Vigfús, f. 1910, og Harald, f. 1912. Ágúst veiktist og lést aðeins 24 ára gamall í lok mars 1913. Þá höfðu þau misst eldri son sinn, tveggja ára gamlan. Þungur var skapadómur Friðrikku, orðin ekkja 23 ára gömul. Hún hélt til æskustöðva sinna á Seyðisfirði á ný, árið 1913, „einstæðingur“ eins og Einar, sonur hennar, orðar það og þar lést Haraldur, yngri sonur hennar, ári síðar, tveggja ára.
„Mynd af Ágústi fylgdi mömmu allatíð, hún hékk í svefnherbergi hennar, svo og mynd af öðrum drengnum“ segir Einar. „Og við höfðum alltaf gott samband við Schevingfólkið í Eyjum, fórum í heimsóknir í Heiðarhvamm til Sigfúsar, bróður Ágústs, og Sesselju, konu hans, og héldum jafnan góðum kunningsskap við það fólk.“
En Friðrikka lét ekki bugast, hún vann fyrir sér næstu árin á Seyðisfirði uns hún giftist á ný síðari manni sínum, Runólfi Sigfússyni. „Vera má að þau hafi fyrst kynnst í Vestmannaeyjum“ segir Einar, „en þá hafa þau kynni eflst þegar þau hittust á ný fyrir austan.“
Þau eignuðust sex börn: Oddný var elst, fædd 1916; hún lést fyrir skömmu. Einar er annar í röðinni, f. 1918, þá Sigfríð, f. 1920, giftist Alfreð Einarssyni sjómanni, síðar yfirverkstjóra í Hraðfrystistöð Vestmannaeyja og síðast verksmiðjustjóra í Lifrarsamlagi Vestmannaeyja. Sigfríð var tvíburi, en systir hennar, sem var skírð Hulda, dó í frumbernsku. Næstur var Gústaf, f. 1922, sjómaður. Hann var giftur Huldu Hallgrímsdóttur sem oftast var kennd við húsið Bjarma. Gústaf fórst í Helgaslysinu ægilega við Faxasker í ársbyrjun 1950, en hann var 2. vélstjóri þar um borð. Fjórar myndarlegar dætur misstu þar föður sinn, innan við þrítugt. Dagmar (Dagga) er fædd 1926. Hún býr í Columbus, Indiana, í Bandaríkjunum þangað sem hún fluttist ung að árum með manni sínum sem var hermaður hér á landi í stríðinu, en síðar vel metinn skólameistari í Columbus. Yngstur barna Friðrikku og Runólfs er Sævaldur, sjómaður frá ungum aldri, var m.a. síðar stýrimaður hjá Einari á Sídon. Hann bjó fyrst í Brautarholti í Vestmannaeyjum en fluttist um 1960 í Kópavog; var lengi á togurum og við ýmis störf í landi. Kona hans er Sigurbirna Hafliðadóttir.
Friðrikka var hæg kona og hlý í viðmóti. Á seinni árum héldu þær mæðgur, hún og Oddný, heimili saman og hjá þeim ólst upp Friðrik Jósepsson, sonur Oddnýjar, fyrst á Fífilgötu 2, síðar í Miðstræti 14 og loks í Blokkinni fram að eldgosinu 1973. Skrifari þessa þáttar er jafnaldri Friðriks og æskufélagi og varð heimagangur hjá Friðrikku um árabil. Hún var umvafin kyrrð og virðuleika þar sem hún sat jafnan í stofu sinni og sinnti hannyrðum, og leit stundum í dönsku blöðin. Hún vék oft góðum orðum, og stundum góðum bitum, að fjölmennri vinasveit Friðriks nafna síns, ungum sveinum sem fóru ekki alltaf hljóðalaust um hús. Friðrikka lést 1979 í Reykjavík, nær níræð að aldri.

Runólfur Sigfússon.
Runólfur Sigfússon var fæddur 16. febr. 1893 í Stóru-Breiðuvík í Helgustaðahreppi í Reyðarfirði; það er norðan megin í firðinum, austan við mynni Eskifjarðar. Hann varð sjómaður ungur að árum, fyrst á árabátum og síðar vélbátum. Hann var með báta fyrir austan og fiskaði ágætlega, en var líka í transporti milli fjarða.
Eins og margir Austfirðingar fór Runólfur til Eyja yfir vetrarvertíðina og réri þar. Hann var m.a. vélstjóri með Sigurði Oddssyni í Skuld. Honum bauðst svo formennska á Kap árið 1925, en góður kunningsskapur var með þeim nágrönnum, Sigurði í Skuld og Jóni í Hlíð sem gerði út Kapina. Runólfur tók sig því upp með eiginkonu og fjögur börn og fluttist til Eyja síðla árs 1924. Eftir formennsku á Kap vertíðina 1925 tók hann við Tjaldi 1926 og 1927, bát sem Ólafur Auðunsson í Þinghól átti, en var á síld fyrir norðan á sumrin, stundum skipstjóri, stundum vélstjóri hjá öðrum. Skipstjóri á Olgu, sem Guðmundur á Háeyri átti, var hann 1928 og tók svo 1929 við Hilmi VE 282. Hann átti hlut í bátnum. Hilmir var með ónýta vél og dró ekki til hafnar þegar var austan hvassviðri, komst kannski upp undir Hamarinn eða Eiðið og varð að halda sig þar þangað til að veðrum slotaði. Það gekk illa um veturinn. Bátnum var lagt við ból sitt á legunni um lokin 11. maí. Runólfur hætti þá útgerð með sameignarmönnum sínum en fékk á sig skuldabagga og missti húseign sína, Kirkjuveg 82.

Vertíðina 1930 var hann formaður með Kára Sölmundarson og 1931 með Magnús VE 210. Þetta voru bátar sem Gunnar Ólafsson á Tanganum átti og gerði út. Þá tekur hann vertíðina 1932 við Snyg VE 247 („Snugg“ eins og Einar ber það fram) sem Tangamenn áttu líka. Það var 27 tonna bátur sem var upphaflega smíðaður í Noregi, og gekk lengi fyrir vestan, á Bíldudal m.a., og síðar fyrir norðan, og var lengdur þar og endurbyggður. „Hann var áður skúta með einu mastri. Þeir Þórður H. Gíslason og Ottóníus Árnason keyptu hann til Eyja 1924, frá Eskifirði“ segir Einar. Runólfur var með Snyg á vetrarvertíðum 1932 og meðan heilsan leyfði, fram til vertíðarloka 1935. Sumarið 1935 leigði Gunnar Guðjónsson á Kirkjubæ Snyg og var á reknetum við Suðurströndina. En svo illa tókst til að báturinn sló úr sér. Þeir voru skammt undan landi, voru að koman vestan að í austan hvassviðri og fóru þess vegna grunnslóð. Gunnari tókst að sigla bátnum upp í fjöru, Ragnheiðarstaðarfjöru í Flóa, og mannbjörg varð. Þeir hirtu úr honum vélina, öfluga vél, og hún var sett í Geir goða. Með þann bát átti Runólfur að vera vertíðina 1936, var búinn að fullráða skipshöfn, þar á meðal Einar, son sinn, en Runólfur komst aldrei á sjó meira. Óskar Gíslason frá Skálholti tók við bátnum. Runólfur var fyrst lagður inn á spítala í Eyjum og síðar í Reykjavík og þar lést hann á Landakoti 25. september 1936.

Snyg VE 247. Runólfur, faðir Einars, var með bátinn 1932-35. Þar hófst sjómennska Einars, á vetrarvertíðinni 1933. Myndin er tekin að lokinni vertíð 1933 þegar skipverjar ætluðu að kústa botn bátsins inni í botni. Siglt var upp í fjöru á flóði (myndin) og botnhreinsun hóst svo þegar fjaraði undan

Ráðið fest.
Einar giftist 3. maí 1941 Vilborgu S. Einarsdóttur. Hún var Austfirðingur eins og Einar, fædd á Þórarinsstaðaeyrum 21. nóv. 1921. Foreldrar hennar voru Einar Guðjónsson og Anna Bekk Guðmundsdóttir. Hún var hins vegar alin upp hjá móðurafa og ömmu, Vilborgu Jónsdóttur og Guðmundi Bekk Einarssyni, sem bjuggu lengst á Gullsteinseyri við sunnanverðan Seyðisfjörð. Guðmundur Bekk var bróðir Friðrikku, móður Einars, svo að þau Einar og Vilborg voru frændsystkin, af öðrum og þriðja.

Vilborg, eða „Monna“ eins og hún var kölluð á æskuheimili sínu og lengi síðan, kom til Eyja 1939 til að vinna, var í vist hjá Hjálmari Jónssyni í Dölum, sem þá bjó á Reynivöllum, Kirkjuvegi 66, og síðar hjá Kristni á Látrum og Önnu frá London, konu hans. Hjá henni lærði hún saumaskap, og einnig hjá Kristínu í Merkisteini sem var meistari í faginu.

Einar Runólfsson skipstjóri og Vilborg Einarsdóttir (Monna), kona Einars. Myndin er tekin 1943

Eins og gefur að skilja kom Monna oft til frænku sinnar, Friðrikku. Þangað átti hún líka annað erindi sem fór í fyrstu dálítið leynt. Sumarið áður, 1938, var Einar mótoristi á Hilmi. Sama sumar var Sigfríð, systir hans, og vinkona hennar úr Eyjum, á Seyðisfirði hjá frændfólki sínu í Sjávarborg. Eitt sinn, þegar Hilmir kom af síldarmiðunum inn á Seyðisfjörð, vildi Sigfríð, sem þekkti bátinn, endilega fara inn eftir að heilsa upp á bróður sinn. Monna slóst í för. „Þetta er maðurinn sem ég ætla að eiga“ sagði Monna við sjálfa sig eftir þennan fyrsta fund þeirra. „Ja, þetta var a.m.k. fyrsta fræið“ segir Einar nú og brosir. Og Monna ákvað að demba sér til Eyja næsta ár. Stuttu síðar voru ráð ráðin. Þau bjuggu fyrst eitt ár í Birtingarholti, voru á efri hæðinni, en Friðrikka bjó niðri. Þau fóru þó úr Birtingarholti eftir erfiða reynslu, en fyrsta barn þeirra fæddist þar andvana. Þau fengu leigða íbúð í Drífanda, við Bárustíg 2. Það hús áttu Tangamenn og Jóhann Þ. Jósefsson alþingismaður og þar voru margir kontórar, m.a. hið þýska konsúlat Jóhanns Þ., en „dömubúð“ niðri.

Einari þótti gott að vera þarna í góðu kompaníi við þá sem höfðu skrifstofur í Drífanda, t.d. Magnús á Vesturhúsum, sem sennilega hefur þá unnið fyrir Bátaábyrgðarfélagið, og einkum þó við Bjarna Jónsson á Svalbarði, starfsmann Lifrarsamlagsins, sem gjarnan færði þeim nýja mjólk fyrir morgunkaffið sem hann fékk hjá Vilborgu.

Birtingarholt, stóð við Vestmannabraut 61. Húsið er nú horfið. Myndin er tekin úr suðri, á baklóðinni
Völlur, Kirkjuvegur 23. Húsið stóð þar sem Útvegsbankinn byggði síðar yfir starfsemi sína, á horni Vestmannabrautar og Kirkjuvegar. Húsið stendur nú við Miðstræti 30, vestan við Sigtún

Tveimur árum síðar keyptu þau Völl, árið 1943, af Elsu Ólafsdóttur sem nú var flutt úr Eyjum. Einar hafði áður búið með móður sinni á Velli og Elsa vildi endilega að þau Einar og Monna fengju húsið. Elsa var áður gift Lárusi Halldórssyni er síðar bjó á Gunnarshólma. Hún var frá Kirkjubæjartorfunni, Ólafsbæ (Mið-Hlaðbæ) segir Guðjón Ármann í Gosbókinni sinni, og vera má að Vallartún þar austur frá hafi verið kennt við Völl.
Á Velli var margt frumstætt, hvorki miðstöð né rennandi vatn, kolaofnar í herbergjum og í eldhúsi mátti fá vatn úr brunni með handdælu. En úr þessu var skjótlega bætt. Þau hjón bjuggu þar til ársins 1952, en þá keypti Útvegsbanki Íslands húsið og lét flytja það í Miðstræti. Á lóðinni skyldi reisa stórbyggingu fyrir bankann, — í hjarta bæjarins. Það var fullbúið 1956 og þangað fluttist bankinn frá Heimagötu 1.
Fyrir milligöngu bankans keyptu Einar og Vilborg Fífilgötu 2 sem bankinn átti og þangað fluttust þau í maímánuði 1952. Fífilgötu 2 byggði Guðmundur Ketilsson vélstjóri úr landi Dalbæjar, á túninu sunnan við það hús. Hann var Stokkseyringur og reri með Haraldi Hannessyni, var giftur Ninnu frá Dalbæ sem var hárgreiðslukona. Í húsinu voru upphaflega þrjár íbúðir. Fram til 1952 bjó þar Gunnar Hlíðar sem hafði verið dýralæknir og heilbrigðisfulltrúi í Eyjum frá 1944. Hann var bróðir sr. Jóhanns Hlíðars, síðar sóknarprests í Eyjum. Gunnar var nú á förum úr bænum og húsið (efri hæðin) stóð tómt.
„Það gekk auðvitað lipurlega að eiga fasteignaviðskipti við bankann! Þó að Bjarni Sighvatsson væri enn bankastjóri var það samt Baldur Ólafsson, sem síðar tók við bankastjórastöðunni, sem sá um öll þessi viðskipti. Mér líkaði alltaf vel við hann.“
Einar og fjölskylda hans bjuggu á Fífilgötunni þangað til þau fluttust burt úr Eyjum vorið 1964. Guðjón Magnússon netagerðarmeistari og Anna Grímsdóttir, kona hans, bjuggu fyrst niðri, og má segja að þau hafi fylgt með í kaupunum! En síðar fluttust þau Oddný, systir Einars, Friðrikka, móðir hans, og Friðrik Jósepsson, sonur Oddnýjar, inn á neðri hæðina og voru þar allnokkur ár, en síðast voru þau eina fjölskyldan í húsinu. Reynir Böðvarsson í Ásum keypti af þeim húsið en Einar og Vilborg keyptu miðhæð í parhúsi á Digranesvegi 36 í Kópavogi. Þar bjuggu þau hjón þangað til Vilborg lést 18. jan. 2005, og þar býr Einar enn. „Hér var allt autt fyrir sunnan Kópavogslækinn, melar og móar, nokkrir jurtagarðar, malarnám og eitt býli, Fífuhvammur! En nú sér héðan yfir tugþúsund manna byggð.“
Börn þeirra Einars og Vilborgar eru fjögur, en fyrsta barn sitt misstu þau í frumbernsku. Elstur er Atli, f. 1943, fyrst bankastarfsmaður, síðar sjómaður og síðast trésmiður; hann er giftur Sigurbjörgu Rut Óskarsdóttur. Önnur í röð er Eygló, f. 1944, starfar á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja, gift Smára Guðsteinssyni. Þriðji var Hlöðver, f. 1945, sjómaður og yfirvélstjóri, hann fórst með Suðurlandinu á jóladag 1986; kona hans var Kristín Káradóttir. Yngst er Friðbjörg, f. 1956, búsett í Svíþjóð og starfar þar hjá verkalýðssambandinu; maður hennar er Magnús Geir Einarsson sem einnig starfar hjá sambandinu.
Monna var dugleg kona og rösk til allra verka. Margir minnast hennar fyrir glaðlegt fas og hjálpsemi. Hún vann mest heima, við heimilisstörf, en ekki síður við saumaskap í stórum stíl og var sérlega hög við þau verk. Frá ungum aldri var Monna illa leikin af astma sem ágerðist eftir því sem á ævina leið. Hún bjó við mikið heilsuleysi síðustu ár sín.

Á sjóinn. — Formaður 21 árs gamall.

Einar Runólfsson hóf sjómennsku 14 ára gamall, eftir fermingu eins og margur annar Eyjamaðurinn. „Ég var fermdur um haustið 1932, ekki orðinn 14 ára, til þess að geta komist á vetrarvertíðina sem hófst í janúar.“ Einar var með föður sínum á Snyg þrjár vertíðir, 1933-1935, en á línuveiðum á trillum fyrir austan á sumrin, á Vopnafirði og Seyðisfirði. Hann var síðan á ýmsum vertíðarbátum, Geir goða, Ófeigi II, Herjólfi og Nirði, og jafnan á síldveiðum fyrir norðan land á sumrin.

Ingólfur VE 216. Einar hóf formennsku sína á bátnum á vetrarvertíðinni 1940

Hann tók mótorvélstjórapróf í Eyjum haustið 1936, skólastjóri var Guðmundur Þorvaldsson, og varð svo vélstjóri, fyrst á Herjólfi, síðar á Nirði og Hilmi. En Einar lét ekki þar við sitja, hann vildi áfram og tók hið minna fiskimannapróf, 60-tonna-prófið, í Eyjum veturinn 1938-1939. Skólastjóri var Friðrik Steinsson, skipstjóri og Eskfirðingur, sem hafði haldið slík námskeið víða um land. Jón Ólafsson, útgerðarmaður á Hólmi, var hollvinur Einars og honum ráðagóður. „Hann vildi alltaf pota mér áfram! Vildi ekki að ég staðnæmdist í vélarrúminu heldur yrði formaður. Ég hygg að það hafi verið hans ráð að Sigurður Gunnarsson á Tanganum bauð mér Ingólf í upphafi vertíðar 1940, og því boði tók ég fegins hugar.“
Og þar með hófst skipstjórnarferill Einars, á vertíðinni 1940, en þá var hann 21 árs gamall. „Við vorum sjö um borð. Ég var ekki yngstur, Siggi í Engey var yngri, og Alli mágur, en ég hef verið í yngri kantinum!“
Þeir voru með 3 trossur, 12 hampnet í hverri. Það gekk vel þennan vetur og Einar var hæstur á minni bátum Tangans. „En það var erfitt að eiga við útgerðina, erfitt að fá net fyrir þau sem töpuðust. En ég gat með brögðum svælt út úr þeim nokkur net og bætt við fjórðu trossunni seinni part vetrar. Já, það voru nokkur net sem „töpuðust“ en voru í raun lögð til hliðar og bætt, og nokkrar baujur sem „töpuðust“ og töpuðust þó ekki!“ segir Einar og hlær við.
Einari var svo boðið að taka við Geir goða, stærra og betra skipi, og var með hann tvær vertíðir, 1941 og 1942. Þessi sumur var hann á síldveiðum sem stýrimaður á Þorgeiri goða. En vorið 1942 vildi Einar ekki halda áfram með Geir goða. „Það var orðið þannig ástand á bátnum að mér fannst ekki vogandi að leggja í nýja vertíð með bátinn eins og hann var orðinn, botninn maðksmoginn og ónýtur. Að mínu mati var hann veikbyggður og þoldi ekki vel vélaraflið. Ég fór fram á að hann yrði tekinn til mikillar skveringar, líkt og Snorri goði sumarið áður, vildi a.m.k. nýjan botn. Báturinn var settur upp í slippinn hjá Gunnari Marel, en þegar ég fór að huga að viðgerðinni kom í ljós að henni var lokið, en ekki eins og ég hafði lagt til að gert yrði. Ég ræddi við meistarann, sem aðeins kímdi og sagði að í þessu máli réðu önnur sjónarmið en bara mín. Og þar með var málið útrætt. Ég hafði engar vöflur, fór heim til Gunnars Ólafssonar í Vík og sagði við hann að ég væri ósáttur við viðgerðina. Og þegar ljóst var að engu yrði um hnikað sagði ég upp. Það var fátt um kveðjur þegar ég gekk út úr því húsi!“
Kristinn Sigurðsson á Skjaldbreið tók við Geir goða, en Einar fór til Ársæls Sveinssonar. Geir goði sökk í þriðja róðri eftir viðgerðina, það var 27. janúar 1943. Báturinn „sprakk“, það rifnaði milli stefnis og byrðings, og þegar sjór var kominn í bátinn stöðvaðist vélin. Kristinn og félagar hans kveiktu bál á stýrishúsinu sem neyðarmerki og á síðustu stundu kom Ólafur Sigurðsson í Skuld á Glað VE að Geir goða og bjargaði mönnunum.
„Það var austan skítur þennan dag, og ég var þarna skammt frá, sá neyðarljósið. Ég ætlaði að hjálpa til við björgunina en var einhvern veginn ekki velkominn, svo að ég fylgdist með úr nokkurri fjarlægð. Þeir á Glað reyndu að draga Geir goða í land og ég fór rólega á eftir þeim en hann seig alltaf meira og meira þar til þeir urðu að skera á dráttartaugina og Geir goði sökk í hafið.“

Með Ísleif og fleiri báta.

Einar tók við Ísleifi árið 1943 og var með hann í sex ár, bæði á vetrarvertíðum og svo á dragnót yfir sumarið. „Ég fékk boð um að koma og tala við Ársæl og hann bauð mér Ísleif. Það var gott að vera hjá Ársæli Sveinssyni. Hann og Laufey kona hans voru mikil indælishjón. Og þetta voru góð sex ár hjá honum, og ég gekk þá stundum undir nafninu „Einar á Ísleifi.“

Geir goði VE 10. Einar var formaður með hann vertíðirnar 1941 og 1942. Báturinn sökk í upphafi vertíðar 1943

Það var geysilega erfitt með alla aðdrætti á stríðstímanum, sérstaklega tóverk. Við vorum stundum með snurvoðartó sem netateina og felldum á þá, en þeir voru harðir, eiginlega eins og vír, og þetta takmarkaði okkur heilmikið“ segir Einar.
Sjómennskan á þessum árum var með býsna hefðbundnu sniði í Vestmannaeyjum. Vertíðin hófst í janúar með línuveiðum. Áhöfnin var oftast níu menn, fjórir í landi og fimm á sjó. Landmenn beittu línuna. Í byrjun mars var skipt yfir á net og verið að fram að lokadegi, 11. maí. Páskahrotan lét sjaldan á sér standa.
Eftir vertíð fóru Eyjabátar annaðhvort á síld fyrir norðan eða voru á veiðum heima, á færum eða snurvoð. Haustin fóru svo oft í að dytta að bátum og veiðarfærum.

„Fyrst, þegar ég byrjaði að róa, var ekið með línustampa á handvögnum úr beituskúrum niður á bryggju og þeir selfluttir á skjögturum út í bátana sem voru á bóli út á höfninni. En síðar var hægt að koma bátunum að bryggju og aka stömpunum á bíl niður eftir. Það var róið snemma nætur með línuna, hún lögð í myrkri og látin liggja þangað til fór að birta; þá var byrjað að draga. „Venjulega drógum við þetta 4-6 bjóð á klukkutíma þannig að þetta tók langan tíma ef menn voru með 30 stampa eins og algengt var.“

Ísleifur VE 63. Einar var með bátinn 1943 - 1949

Á línunni var ekki hægt að fara eftir miðum því að lagt var í myrkri. „Maður komst nú fljótt upp á lagið með þetta, keyrði ákveðinn tíma eftir kompás og þá vissi maður nokkurn veginn hvar maður var. Auðvitað gat maður notað „logg“ (vegmæli) en það gerði maður sjaldan. Þegar kom fram á netavertíð var meira farið eftir miðum, enda farið að birta fyrr. En það átti aðeins við um hefðbundnar veiðislóðir. Ef maður fór lengra, t.d. á Selvogsbanka, eða dýpra, þá varð maður að treysta á kort og kompás, og kannski logg í fyrsta skiptið. Það voru ekki dýptarmælar, radarar, — né heldur gúmbjörgunarbátar, — um borð í þessum bátum sem ég var með fyrir 1950.“
Á þessum árum voru gerðir út um 80-100 bátar frá Eyjum. „Jú, það voru oft mikil þrengsli á miðunum, og fyrir kom að menn lögðu línu eða net yfir hjá öðrum, en það var nú allt stórslysalaust. Og þó menn létu einhver hnjóðsyrði fjúka í hita leiksins í talstöðina þá var það gleymt í næstu andrá.“
Áður en símar urðu algengir í húsum urðu bátaformenn að ganga um bæinn og „ræsa“ áhöfn sína sem gat verið á ýmsum stöðum í bænum. „Mér fannst alltaf gott að vera snemma á ferðinni, róa snemma og eiga daginn fyrir mér. Þetta voru náttúrlega miklar vökur á vertíðinni, sérstaklega á netunum þegar mikið fiskaðist, en oftast gat maður lagt sig eitthvað, fengið sér smákríu eins og kallað var og það nægði!“

Slys og áföll í Eyjum.
„Þessi ár, frá því að ég hóf formennsku og fram undir 1950, var talsverður slysa- og áfallatími í sjósókn við Vestmannaeyjar. Mér eru auðvitað sérstaklega minnisstæð slysin í mars 1942 og febrúar 1944. Varla jafnast nokkuð á við atburðina 1. mars 1942. Ég var á sjó þennan dag, það var austan átt, sterk, og mikill sjór þegar líða fór á daginn. Af óviðráðanlegum ástæðum urðum við á Geir goða með seinni skipunum úr höfn þessa nótt, 1. mars 1942. Þegar við vorum að leysa bátinn frá bryggjunni kom góðkunningi minn, skipstjóri af einum bátnum, til okkar og bað mig að lána sér olíu á brúsa sem hann var með í hendinni. Það var auðsótt mál og sjálfsagður greiði. Því næst var haldið af stað í róðurinn. Þegar komið var í Faxa sást hvar bátaflotinn, sem á undan var, dreifðist á svæðið frá Smáeyjum og inn fyrir Þrídranga, alla leið inn á grunnslóð. Við stefndum innan Þrídranga.
Flestir bátarnir byrjuðu snemma að leggja línuna, fóru stutt að þessu sinni. Kominn var austsuðaustan stinningskaldi og veðurútlit ekki sem best. Strax í birtingu, þegar byrjað var að draga línuna, var orðið allhvasst en úrkomulaust að mestu. Síðan hélt áfram að hvessa og úrkoman jókst svo að úr varð bæði rok og bylur, þannig að lítið sást út frá bátnum. Línudrátturinn gekk fremur hægt, því andófið var mikið og heldur bættist í veðrið frekar en úr því drægi.

Að áliðnum degi komu tveir bátar flatrekandi meðfram okkar bát. Það sem þarna var að gerast, var að Freyja VE 260, skipstjóri Ólafur Sigurðsson frá Skuld, og hans skipshöfn, voru að koma dráttartaug um borð í Ölduna VE 25. Það tókst þeim þarna. Á næstu augnablikum voru þeir horfnir út í sortann og urðum við þeirra ekki varir aftur. Vél Öldunnar hafði stöðvast og báturinn var á reki, ósjálfbjarga, þegar Freyja varð hans vör. Skipstjóri á Öldunni VE 25 var Jónas Bjarnason.

Hilmir VE 282. Einar var formaður með hann 1950 - 1953

Við héldum áfram línudrættinum því að enn voru ódregin nokkur tengsl. Þegar því var lokið gengum við frá öllu ofan dekks og bjuggumst til heimferðar. Veðrið var óbreytt, hvassviðri með úrkomu. Skyggni var mjög lítið og innan stundar var komið myrkur og nóttin framundan. Vélaraflið var ærið í Geir goða, 80-90 ha. Júne Munktel, en því afli varð að beita með varúð undir þeim kringumstæðum sem nú voru fyrir hendi. Ég þekkti bátinn vel og hreyfingar hans.
Haldið var upp í veðrið yfir nóttina og andæft stíft. Undir morgun minnkaði úrkoman og heldur dró úr veðrinu. Þá var Einidrangur í augsýn. Nú var ferð aukin og komið upp undir Eiðið um 5-6 leytið um morguninn 2. mars. Þarna voru bátar fyrir svo að greinilegt var að fleiri en við höfðu orðið seinir fyrir. Stöðvast var við Eiðið um tíma og hresstu menn sig á kaffi. Eitthvað var líka lagað til sem þurfa þótti. Veður var nú að breytast frá því sem áður var. Bátar þeir sem voru við Eiðið þegar við komum þar fóru nú hver á eftir öðrum austur fyrir. Rétt á eftir þeim fórum við austur úr Faxasundi og inn í höfn. Þegar við komum að bryggjunni fengum við fréttirnar um stöðuna eins og hún var þá. Það vantaði fjóra báta af þeim sem réru daginn áður, Þuríði formann, Ófeig gamla, Ölduna og Freyju. Gissur hvíti, sem lá þarna við bryggjuna, kom með áhöfnina af Blikanum. Blikinn sökk daginn áður, 1. mars. Þetta voru ömurlegar fréttir. Skipstjóri á Blikanum VE 143 var Guðjón Þorkelsson, en skipstjóri á Gissuri hvíta VE 5, sem bjargaði áhöfn Blika, var Alexander Gíslason.
Það var svo um eða eftir hádegið að Freyjan kom inn í höfnina, en Aldan var ekki með henni eins og við gátum kannski búist við af því sem á undan var gengið í þessum langa róðri. Frekari fréttir af bátstöpum, sjóslysum og öðrum óhöppum, sem urðu þennan örlagaríka sólarhring 1. mars 1942, voru svo að berast út milli manna eftir því sem heimildir bárust af atburðum. Aldan VE 25 lenti upp á land í Grindavík. Skipshöfnin komst í land með góðu móti. Báturinn náðist út af strandstað nokkru síðar. Þuríður formaður VE 233 fórst með allri áhöfn, skipstjóri var Jón Sigurbjörnsson frá Ekru. Ófeigur VE 217 fórst með allri áhöfn. Skipstjóri var Þórður Þórðarson, Sléttabóli.
Þau eru margvísleg örlög manna. Mér verður stundum hugsað til Geira í Skel, föður Guðfinns Þorgeirssonar, skipstjóra, þess mikla aflamanns og fyrrum vélstjóra hjá mér um mörg ár. Geiri ætlaði að vera á Ófeigi þessa vertíð, 1942, en þegar hann var að telgja mastur á Ófeig missti hann öxina í sig og skaðaði sig eitthvað. Hann lagði í þetta merkingu og sagði strax: „Ég verð ekki með honum Þórði í vetur.“ Hann réð sig á Þuríði formann og fórst sama dag og Þórður.“
Einar rifjar líka upp atburðina 12. febr. 1944 þegar Freyr og Njörður fórust með allri áhöfn, og raunar töpuðust fleiri bátar við suðvesturströndina í því mannskaðaveðri.
„Það var suðvestan veður þennan dag, eitt það versta sem ég man eftir. Eyjólfur Gíslason á Bessastöðum, sem var nú eldri en tvævetur í þessu stússi, sagðist „bara“ aldrei hafa séð svona sjólag við Eyjar fyrr. Hann var skipstjóri á Emmu VE 219 þennan vetur eins og marga fleiri.“ Þetta staðfestir Guðjón Ármann, sonur hans, og segir að faðir sinn hafi sagt sér oft að verra veður hefði hann ekki fengið á sjómannsferli sínum.
„Á leiðinni í róður þessa nótt vorum við nærri samhliða við Þrídranga á norðvestur leið. Þá var veðrið suðaustan en átti eftir að snúast til suðurs og síðan suðvesturs og ausa upp sjó svo að úr varð mannskaðaveður. Emman hafði lokið línulögn þegar við áttum eftir að leggja þriðjung af okkar línu. Á baujuvaktinni sáum við til Emmu og annars báts sem ég vissi ekki hver var. Það var farið að draga línuna strax í birtingu. Þá varð ég var við Emmuna en hinn bátinn sá ég ekki, enda fór nú veðrið hríðversnandi og við bættist snjóhraglandi öðru hvoru. Heimleiðin hjá Emmunni gekk áfallalaust að sögn vinar míns og kunningja, Eyjólfs. Hann var þá kominn á sunnan-suðvestan og sjórinn kom aftan til á bátinn, stjórnborðsmegin. Eyjólfur þurfti að snúa bátnum hvað eftir annað upp í veðrið þegar hann sá til sjóa. Sjólagið var svo óvenjulegt og óreglulegt þennan dag.
Frá okkur á Ísleifi er það að segja að línudrátturinn gekk vel, við höfðum dregið 19 stampa af 28. Báturinn sneri upp í veðrið. Messaseglið var uppi, allt virtist í góðu gengi. En þá kemur einn „molinn“ (hnútur) æðandi. Ég kallaði til strákanna á dekkinu aðvörun um að stöðva spilið og vera viðbúnir. Það leið smástund og sjórinn var kominn, að mér virtist, aftur fyrir bátinn, en þá snýr hann upp á sig og kemur til baka upp í messa og á stýrishúsið, skellir bátnum á hliðina og keyrir afturhlutann á kaf. Ég missti fótanna í stýrishúsinu, steig á þilið bakborðs megin, en rétti mig upp og greip í regúlatorinn (olíugjöfina) og gaf vélinni inn. Báturinn rétti sig strax við. Ég óttaðist að mennirnir á dekkinu hefðu orðið fyrir skakkaföllum en það var nú ekki sem betur fór. En allt lauslegt sem á dekkinu var fór fyrir borð, stíufjalir, línustamparnir með línunni, baujur og bólfæri, fangalínan og sleftóið, ásamt púströri af vélinni og lanternu (hliðarljósi) bakborðs megin. Lestarlúgur hafði ég alltaf skálkaðar á línuvertíð svo að þar var allt í lagi. Í öllum þessum hamagangi fylltist skrúfan af drasli svo að vélin stöðvaðist. Við þessar aðstæður var ekki viðlit að reyna að skera úr skrúfunni. Ég reyndi því að nota kúplinguna til hjálpar. Eftir margar tilraunir tókst loks að fá skrúfuna til að snúast, þótt hægt gengi, og þannig komumst við heim hjálparlaust og á eigin vegum.
Heldur var nú Ísleifur tuskulegur útlits þegar komið var að landi síðdegis þennan eftirminnilega dag. En næstu daga var svo öllu kippt í lag sem aflaga hafði farið hjá okkur. Veður fór batnandi og aftur var byrjað þar sem síðast var frá horfið.
Þessi skvetta á Ísleif 12. febrúar 1944 var sú eina sem ég þurfti að þola á minni formannstíð í Eyjum, varð aldrei fyrir mannskaða eða neinum þeim slæmu óhöppum sem hent geta á löngum sjómannsferli.“

Um Einar orti Óskar Kárason formannavísu 1957:

„Einar Runólfs reiðan sæ
rennir lýð til bjargar.
Happaferðir hefur œ
hann á sjónum margar.“

Í Stýrimannaskólann.
Ég get ekki státað af miklum skólalærdómi. En ég lauk þó fullnaðarprófi frá barnaskóla, tók stýrimannapróf frá sjómannaskóla í Vestmannaeyjum 1939 og síðan „meirapróf“ frá Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1950. Það var talsvert átak fyrir mig, fjölskyldumann með þrjú börn, að rífa mig upp og vera í Reykjavík heilan vetur við nám, kauplaus, en það tókst og allt gekk þetta vel.“
Einar fór í skólann haustið 1949 og bjó þá hjá Oddnýju systur sinni í Hlíðunum, skammt frá skólanum. Hún var þá ein með kornabarn og það þótti hagkvæmt að hann leigði hjá henni og keypti þar kost. Það fór alltaf vel á með þeim. Einar kom heim í jólafrí og fór svo með Helga VE 333 suður eftir áramótin. Helgi fórst á leið aftur til Eyja 7. jan. 1950 og með honum Gústaf, bróðir hans. Það voru hörmuleg tíðindi.
„Mér líkaði vel í skólanum, skólastjórinn, Friðrik Ólafsson, var indælismaður. Mér líkaði sérstaklega vel við einn kennarann, Steina í Valhöll, eða Þorstein Þórðarson eins og hann hét fullu nafni. Hann var giftur Stellu, dóttur Eyvindar Þórarinssonar hafnarvarðar í Eyjum. Hann var svo skemmtilegur og sniðugur kennari og lét mann skilja allt sem hann fór yfir!
Framhaldsnám fyrir okkur systkinin á árunum upp úr 1930 kom eiginlega aldrei til greina. Það var svo mikil fátækt. Og þegar faðir minn veiktist og dó taldi ég það skyldu mína að leggja fram minn skerf til að framfæra móður mína og systkini. Mig langaði í gagnfræðaskólann, t.d., en var dæmdur til vinnu.
Ég sá það, eftir að hafa verið formaður í 10 ár, að 60-tonna- réttindin (sem voru raunar orðin 75-tonna-réttindi þá) mundu ekki duga lengi. Skipin voru að stækka, og mig langaði líka að geta farið í siglingar með stærri skip. Kannski var eitthvað meira að krauma í kollinum á mér, og ég fékk nokkur tilboð um skip í öðrum plássum meðan ég var á Stýrimannaskólanum, en einhvern veginn lá nú leiðin aftur til Eyja, — til að vera áfram formaður á fiskibát. Og ég gat alveg unað vel við það.“
Því undu margir fleiri vegna þess að Einar var eftirsóttur formaður og vel látinn meðal skipverja sinna. Guðfinnur Þorgeirsson skipstjóri var hjá honum vélstjóri sex eða sjö vertíðir, á Ísleifi og Hilmi. „Einar var besti skipstjóri sem ég hef kynnst. Ég fór ungur til hans í skiprúm og lærði mikið af honum. Hann var feiknalega góður stjórnandi, þurfti ekki að segja margt, og aldrei man ég til þess að hann skammaði nokkurn mann. Hann var harður á sínu, hélt sínu striki, en ljúflingur í samstarfi.“

Millispil.
Einar var óráðinn þegar hann kom heim í upphafi vetrarvertíðarinnar 1950, en svo fór að Jónas á Tanganum klófesti hann og Einar varð formaður með Hilmi í lok febrúar og var með hann í fjórar vertíðir. Þeir áttu Hilmi með Tangamönnum Jón á Hólmi og tengdasonur hans, Þorsteinn Sigurðsson frá Melstað, Steini á Blátindi. „Þetta voru ágæt ár, en vorið 1953 lét ég plata mig og í hönd fór dálítið reiðileysi. Ég fór á síld með Björgvini í Úthlíð, á Jóni Stefánssyni, þetta sumar og féllst svo á að vera með bátinn á vetrarvertíð, 1954. Ég hafði hins vegar ekki áttað mig á að útgerðin var í því sem nú heitir „gjörgæsla“ hjá bankanum og allt skorið við nögl, sérstaklega veiðarfæri, þótt öllu fÖgru væri lofað! Enda fór illa. Við vorum með 2-3 trossur, gamla bætninga, hampnet og það fiskaðist lítið. Um páskana virtist hagur strympu ætla að vænkast. Þá fengum við nælonnet til viðbótar, svo að í nokkra daga fékkst sæmilegur afli. En aftur fór á sömu leið og áður, það vantaði net til að bæta í trossurnar fyrir það sem úr sér gekk. Ég var þeirri stund fegnastur þegar lokadagur rann upp og kvaddi þetta glæsilega fley og bágstöddu útgerð. Ég fór á síld um sumarið 1954, á bát úr Hornafirði sem Óskar Valdimarsson var með.“

Einar tók svo við Hugrúnu 1955 sem þeir áttu m.a. Kristján Björnsson á Kirkjulandi, Kristján Georgsson frá Klöpp og fleiri. Þetta byrjaði vel, línuvertíðin var ein sú besta sem ég man, 8-10 tonn í hverjum róðri. Og netavertíðin fór vel af stað. En svo brotnaði vélin og við lentum í löngu stoppi. Varahluti varð að fá frá útlöndum og það tók sinn tíma; áhöfnin tvístraðist og þetta var eiginlega búið. Þetta var líka geysilegt áfall fyrir útgerðina. Ég fékk ekki uppgert. Ég reri því með þeim Kristjánum nokkra túra um vorið á færi, það gekk vel og eitthvað kom inn á bankareikninginn, nóg til þess að gera upp við mig og þá kvaddi ég strax! Ég fór á síld með Einari Guðmundssyni á Björginni; það var heillaspor og átti eftir að breyta ýmsu fyrir mig.“

Sídon VE 155. Einar keypti bátinn 1955 í félagi við Einar Guðmundsson á Björg VE og Björn Guðmundsson á Barnum. Hann var formaður með hann til 1962. Í efra horni myndarinnar hægra megin er ,,karlinn í brúnni

Sídon keyptur. — Formaður og útgerðarmaður.
„Þeir voru í kompaníi saman, Björn Guðmundsson (Bjössi á Barnum) og Einar á Björginni. Björn hafði fylgst með mér og virtist hafa trú á mér. Nema hvað, svo fór að við þrír stofnuðum félag, „Stuðlaberg hf.“, og keyptum bátinn Vörð VE 29 sem Angantýr Elíasson, Axel Halldórsso,Árni Sigurjónsson og fleiri áttu, en báturinn lá þá í reiðileysi við bryggju.
Þessi bátur var smíðaður í Svíþjóð 1944, eikarbátur, 65 tonn, einn þessara svokölluðu „sænsku blöðrubáta“. Þar úti hlaut hann nafn sitt, „Sídon.“ En eftir stríðið, 1946, var báturinn keyptur til Eyja, og þeir Angantýr og félagar áttu hann í tæp 10 ár. Þeir breyttu nafni Sídons VE 29 í árslok 1951 í Vörður VE 29 — ekki veit ég hvers vegna — en við breyttum nafninu í upphaflegt horf aftur þegar við keyptum bátinn og þótti það bara ágætt!“
Nafnið „Sídon“ kemur sjálfsagt úr Biblíunni. Sídon var sonur Kanaans sem var sonarsonur Nóa. Við hann er borgin „Sídon“ (Zidon) kennd en hún stendur við botn Miðjarðarhafsins, rétt suður af Beirút í Líbanon. Þar er enn hafnarborg og heitir nú Saida. En Sídon var ein elsta og frægasta borg Fönikíumanna, var helsta verslunar- og siglingamiðstöð þeirra um aldir. Hún er nokkrum sinnum nefnd í Gamla testamentinu og Jesús kom til héraðanna í grennd við Sídon eins og segir í guðspjöllunum. — Já, bátanöfn í Eyjum, og svo sem annars staðar á landinu líka, eru merkilegt rannsóknarefni!
„Við áttum þriðjungshlut hver, en Einar var auðvitað á kafi í sinni útgerð á Björg VE 5 og Bjössi var á Barnum, þannig að ég varð skipstjóri og sá um verklega þáttinn við útgerðina á Sídon. Björn sá um bókhaldið. Þetta fór vel af stað. Að vísu var gömul vél í bátnum, og hún gafst upp á fyrstu vertíðinni, 1956, en við settum nýja véi i bátinn; fórum í nóvember það ár til Frederikshavn í Danmörku og settum í Sídon Alpha dísilvél og komum heim á jóladag 1956. Eftir það gekk allt vel, afkoman var dágóð. Endurbætur á bátnum voru þó kostnaðarsamar. Árið eftir vélaskiptin settum við nýtt stýrishús á bátinn. Það var gert heima í Eyjum, í slippnum. Eggert heitinn Ólafsson smíðaði það og Magni gerði vélarreisnina.
Ég fór að hafa orð á því við Björn eftir vélaskiptin að við þyrftum nýtt stýrishús á Sídon. Björn tók því þunglega og hélt að það yrði ekki auðsótt í greipar Baldurs bankastjóra, hans góða vinar, að fá lán fyrir því. Svo að ég tók mig sjálfur til og fór til Baldurs, sem ég þekkti vel. Ég sagðist þurfa nýtt stýrishús á bátinn, þetta væri engin vinnuaðstaða sem ég hefði. Það fór eins og Bjössi spáði, Baldur var tregur. Ég gat þá ekki á mér setið að minna Baldur á það að þeir Útvegsbankamenn hefðu nýlega þurft nýtt „stýrishús“ í Vestmannaeyjum, upp á 3 hæðir, því að það var orðin ómöguleg vinnuaðstaða fyrir þá á Heimagötu 1! Baldur tók þessu gríni mínu vel og svo fór að hann greiddi fyrir þessum endurbótum hjá okkur.“
Á baksíðu Morgunblaðsins, 9. apríl 1957, er frétt undir fyrirsögninni: „Aflamet í Vestm.eyjum“. Þar segir að afli hafi glæðst sl. laugardag (6. apríl), en verið mjög misjafn. Síðan segir í fréttinni: Aflahæstur var þennan dag mb. Sídon V-155 með 66 lestir af fiski. Er það algjört met í Vestmannaeyjum. Hefir aldrei komið jafn mikið aflamagn þar upp úr einum báti eftir eina lögn. Sennilega er þetta algjört aflamet hér á landi. Skipstjóri á bátnum er Einar Runólfsson, maður innan við fertugt. Næst mesta afla þennan dag hafði mb. Gullborg 59 lestir.“
„Já, þetta var eftirminnilegur túr“ segir Einar. „Þetta voru yfir 7000 fiskar, svo þetta hefur verið vænn fiskur! Og einnar náttar var hann, við lögðum daginn áður norð-norðvestur af Þrídröngum, „suður af Melnum“ eða „inn í Trintum“ eins og við sjómenn segjum. Við vorum með 5 trossur í sjó, hver með 16 netum. Við drógum aðeins fjórar trossur þennan dag því að við vorum seinir fyrir, komið myrkur, og mér hafði ekki gefist tími til að setja ljós á síðustu baujuna sem var dálítið undan.
Bjössi á Barnum sagði við mig að fyrra met hefði Einar á Björginni átt, „nálægt 65 tonnum.“ Ekki veit ég hvort svona netamet eftir eina nótt hefur verið slegið síðan; það má vel vera.“
Einari er þó ekki síður minnisstæður róður á Ísleifi við lok einnar vertíðarinnar á stríðsárunum. „Við vorum eiginlega að taka upp netin, en ég sagði við strákana að ég vildi prófa að fara vestur á Selvogsbanka og leggja þar, vera yfir því eina nótt, en skyldi lofa þeim að koma snemma að því að 1. maí var fram undan með fríi. Þá vorum við með hampnet, þrjár trossur og 14 net í hverri. Og við settum heldur betur í hann, komum að með 31 tonn af aðgerðum fiski sem fór beint skip til Bretlands. Það var svo bunkað hjá okkur að netin rifnuðu frá teinunum þegar þau komu upp í rúlluna. En veðrið var svo gott að við gátum náð öllu inn. Flotinn tók allur við sér eftir þessar fréttir og vertíðin lengdist um tvær vikur!“

Heilsan bilar.
„Sjöundu vertíð mína með Sídon, árið 1962, var ég orðinn talsvert heilsulaus. Ég hafði nokkru áður verið skorinn upp við ristli. Ég hafði alltaf farið sæmilega vel með mig, en svona eftir á að hyggja er þetta starf, sjómennska og skipstjórn, heilmikil áreynsla og fer ekki vel með menn. En ég hefði þó dugað betur ef heilsuleysi hefði ekki sett mér stólinn fyrir dyrnar. Ég hafði engin sérstök áform um að hætta, síður en svo.
Við tókum netin í land 7. maí 1962. Báturinn var gerður hreinn, bæði innan sem utan og síðan lagt í gott pláss við bryggju. Um miðjan maí var ákveðið að báturinn skyldi standa í dráttarbraut um sumarið og ekki gerður út.
Seint í júní fór ég að vinna á netaverkstæði „Reykdals,“ hjá Arnmundi Þorbjörnssyni, „Adda Tobba“ eins og hann var jafnan kallaður. Ég var þar fram á haust. Ég fékk svo það verkefni að setja vél í Björgu VE 5. Það var sams konar vél og var í Sídon, 240 ha. Alpha dísel. Í ársbyrjun 1963, þegar ég var enn í vélastússinu í Björgu, tognaði ég illa í baki og komst ekki hjálparlaust heim.
Ég lá í heilan mánuð, og hvorki gat né mátti fara í nokkra átakavinnu, bæði vegna baksins og einnig vegna ristilsins sem aldrei hefur látið mig í friði síðan árið 1960. Þarna verða þáttaskil í lífi mínu. Ég var undir læknishendi, heilsan hékk á bláþræði. Að mati læknis var óráðlegt og óæskilegt að fara á sjóinn eins og sakir stóðu. Mér væri nauðsynlegt að breyta um starf, að minnsta kosti um stundarsakir, og sjá hverju fram yndi. Eg tók þegar ákvörðun um að verða ekki skipstjóri á Sídon þessa vertíð sem framundan var og tilkynnti sameignarmönnum mínum það. Fór ég nú að líta í kringum mig eftir léttari vinnu. Það lukkaðist ekki að fá hana, enda ekki um auðugan garð að gresja í þeim efnum í Vestmannaeyjum. Ég byrjaði í febrúar 1963 að vinna hjá netagerð Reykdals Jónssonar. Vann þennan vetur allan eftir því sem kraftar leyfðu. Áfram hélt þessi vinna um vorið og sumarið með þó nokkrum hléum á milli. Öðru hvoru frétti ég um störf sem losnuðu, spurðist fyrir um möguleikana, en svörin voru loðin og neikvæð svo að ekkert gekk í þeim efnum. Um haustið 1963 var ég enn á ný orðinn sjúkur bæði í baki og maga (ristlinum). Ég fór til Reykjavíkur að leita mér aðstoðar sérfræðilækna á Landakotsspítala. Bjarni Jónsson yfirlæknir og Tómas Jónasson tóku á móti mér. Hjá þessum læknum var ég í alls konar rannsóknum og margskonar aðgerðum fram í miðjan desember. Kom þá heim til Eyja aftur með stálbelti um mig miðjan og klyfjaður af lyfjum, óvinnufær til ársloka 1963. Þannig endaði það árið.
Hvergi nothæfur í Eyjum.

Árið 1964 gekk í garð og Einar var heimavið og hugleiddi stöðu sína. Í Vestmannaeyjum eins og öðrum bæjum, þar sem allir þekkja alla, berast fréttir um breytingar á störfum fólks fljótt á milli manna. „Það losnaði starf sem ég taldi að hentaði mér. Ég talaði við ráðningarstjóra fyrirtækisins. Hann tók mér ljúfmannlega og sagði: „Einar minn. Þetta starf passar einmitt fyrir ykkur, þessa karla. Það verður ekki ráðið í þetta starf næstu mánuði, við sjáum til.“ Þarna vaknaði vonarneisti.Ég hélt þá áfram í vinnu hjá Arnmundi, netagerð Reykdals og vann þar næstu mánuði en fór svo og talaði við „ráðningarstjórann.“ Svar hans var: „Það er löngu búið að ákveða um það.“ Þarna fór síðasta hálmstráið sem ég hafði haldið í illu heilli. Já, það var ekki mikið gert með þessa karla þótt þeir væru búnir að stýra skipum í meira en 20 ár, og ég held með sæmilegum árangri.
Ég var búinn að fá mig fullsaddan af þeirri þrautagöngu að leita mér að léttri vinnu, tímabundið eins og læknar mínir nefndu það í upphafi. Fékk ekki þau störf í landi sem laus voru og ég sóttist eftir. Ég fluttist því burtu úr Eyjum í maí 1964, ósáttur við það að fá ekki aðstoð í heimabæ mínum sem ég þurfti svo mjög á að halda tímabundið.
Ég seldi eign mína í Stuðlabergi hf., sem átti Sídon, Birni Guðmundssyni. Ég seldi húseignina Fífilgötu 2 en keypti svo Digranesveg 36 í Kópavogi, miðhæð í parhúsi, af Fríðu lngibjörgu Magnúsdóttur, og þangað fluttum við í þá íbúð 27. júní 1964, og bý þar enn í dag, 42 árum síðar!“

Netagerðarmaður í Kópavogi.

Einar bætir net inni í Friðarhöfn. - Myndin er spegluð og Einar er því ekki örvhentur eins og ætla mætti! Sænskur ferðamaður tók myndina og sendi Einari hana síðar

Einar fékk vinnu á netaverkstæði Reykdals í Reykjavík og var þar í nokkur ár, en fór síðan til Markós sem sá um innflutning efnis í veiðarfæri, troll og net. „Ég var fenginn til þess að vinna þetta efni betur fyrir viðskiptamennina, gera stykki og síðar heil troll, þannig að útgerðirnar þyrftu ekki að taka við hráu efninu og sjá um að gera úr því veiðarfæri.
Ég þóttist kunna vel til verka, en ég var réttindalaus og lenti í smávægilegum andróðri út af því, en Þórður H. Gíslason netagerðameistari, og meðhjálpari, vann hjá mér á þessum tíma. Þegar hann heyrði um þessa „ómynd“ eins og hann kallaði það, sagði hann með sínum sérstöku og blíðu áherslum: „Einar minn, hafðu ekki minnstu áhyggjur af þessu meðan ég er hérna hjá þér.“ Meira þurfti ekki að segja, hann var meistari í faginu! Eftir það gekk allt vel. Það var mikið að gera, skuttogarar að koma til landsins m.a. En svo hallaði undan fæti hjá fyrirtækinu, ekki síst eftir að möskvinn var stækkaður úr 35 mm í 45 mm; en þá sat Þórhallur Þorláksson, eigandi Markós, uppi með mikinn ónýtan lager sem hann hafði lagt fé í. Hampiðjan varð síðan alls ráðandi á markaðnum.“
Einar hætti hjá Markó og varð vaktmaður hjá Landssímanum í Múlastöð, en aðeins í stuttan tíma, hálft annað ár. „Mér líkaði það ekki“ segir Einar. Hann hætti þar en fór að nýju að sýsla við net og troll, fyrst hjá Netagerð Grandaskála um tíma, svo hjá Seifi hf. á Grandagarði í nokkur ár. Hann vann við veiðarfæri Freyju RE 38. Einnig teiknaði hann og setti upp nokkrar dragnætur fyrir menn í Reykjavík, á Ísafirði og í Hafnarfirði. Hann var „í ýmsu snuddi“ eins og hann kallar það, alveg fram undir það síðasta. „Já, ég hef búið til mörg troll um ævina, fiskitroll, humartroll, rækjutroll og dragnætur!“

Ævikvöld, — æskuminning.

Einar Runólfsson. Nýleg mynd. Og Vilborg (Monna). Myndin var tekin nokkrum árum áður en hún lést.

„Það fer ósköp vel um mig hérna, — en það er ekki mikið um að vera! Ég er þakklátur fyrir þá heilsu sem ég hef, bæði til líkama og sálar. En það er mikil breyting þegar samfylgd lýkur eftir 65 ár. Vilborg var þó orðin mjög heilsutæp undir það síðasta. Ég reyni að fylgjast með, les og klóra svona eitthvað á blað öðru hvoru.
Ég tel mig Austfirðing þótt ég sé alinn upp í Vestmannaeyjum og hafi lifað mín mótunarár þar. Ég hef þó búið lengur í Kópavogi en í Eyjum, en ég verð að viðurkenna að það er frá meira að segja úr Eyjum!
Ég get ekki verið annað en sáttur þegar ég lít til baka til áranna í Eyjum. Hugurinn hvarflar þó einatt austur.“
Einar „klóraði“ m.a. þessa æskuminningu á blað fyrir stuttu:
„Mér verður hugsað til baka til áranna kringum 1930, í lok vetrarvertíðar þegar hópar stráka á mínum aldri voru að fara í sveit með frændum sínum, vertíðarmönnum sem komu til Eyja í upphafi vertíðar og fóru heim á vorin. Ég öfundaði strákana af þessum frama að dveljast sumarlangt í sveitinni. Hví ekki ég?
Og það kom að því! Faðir minn hafði útvegað mér sumardvalarstað austur á fjörðum hjá fólki sem hann þekkti, en ég hafði hvorki heyrt talað um né nokkru sinni séð, alveg óskylt okkar fólki. Og ég var sendur austur.
Það var um miðjan maí 1930, suðaustan strekkingur. Esjan var á leið austur um land í hringferð eins og venja var á þessum tíma. Hún lagðist við akkeri undir Eiðinu. Faðir minn fór með mig um borð í skipið sem var troðfullt af fólki á austurleið í atvinnuleit í verstöðvar á Austfjörðum. Um borð í Esju var sonur bóndans sem ég var vistaður hjá. Ég þekkti hann ekki. Gengið var frá farseðli handa mér, en ekkert kojupláss var að fá, það var allt upptekið. Menn urðu að hírast í iðandi kös af sjóveiku fólki í tvo sólarhringa því að skipið kom víða við á smærri stöðum í þessum hringferðum strandferðaskipanna.
Loks vorum við komnir á áfangastað, fallegan fjörð með fámennum kaupstað. Fjölskyldan, sem ég var vistaður hjá, bjó utan við kaupstaðinn. Hún átti trillubát sem var gerður út frá dálítilli vík og fjöru utan og neðan við bæjarhúsin. Þarna voru líka kindur, kýr og hænsni, ásamt hundi.
Trillubáturinn lá við legufæri skammt undan fjörunni. Þegar komið var úr fiskiróðri var aflanum landað beint upp í fjöruna og gert að honum þar. Hann var saltaður í tunnur í byrjun. Síðan var hann borinn á handbörum upp að fiskgeymsluhúsinu (beituskúrnum) sem stóð þarna uppi á bakkanum ofan við fjöruna, umsaltaður og komið í hús.
Útgerðin var stunduð af mikilli elju. Á bátnum voru tveir synir bóndans ásamt tengdasyni. Bóndinn var við störf í landi ásamt dóttur sinni, fullorðinni stúlku, og dóttursyni. Svo skyldi snáðinn úr Vestmannaeyjum vera til aðstoðar og til að læra allt sem svona búskaparháttum tilheyrir. Bóndakonan var heima á bænum og hugsaði um matseld og margt fleira.
Mitt starf þetta sumar, í fyrsta sinn svo óralangt frá heimahögum, var að sitja úti í fjöru flesta dagana og skera úr skel, fyrri hluta dags, síðan stokka upp línu eða beita línu síðdegis. Strax í maí var farið „á beitufjöru.“ Farið var á árabát á ákveðið svæði, eyrar eða grunn, þar sem kræklingur óx í botninum. Kræklingur óx þarna í kerfum. Kerfin voru krökuð í heilu lagi upp úr botninum og upp í bátinn með sérstökum áhöldum. Þessi farmur var síðan fluttur heim að útgerðarstöðinni og lagður aftur í sjó við fjöruborðið til geymslu, enda lifði hann þar áfram. Úr þessum farmi var tekin upp skel til daglegrar notkunar og úr henni skorinn fiskurinn til beitu. Það var mitt starf, meðal annars.
Í júlí og ágúst ár hvert var venjulega farin að veiðast síld í net í firðinum, og var hún þá notuð til beitu ásamt kræklingi, eða eingöngu eftir því hvað vel veiddist af henni. Síldin var geymd í kössum sem voru kældir með snjó sem var safnað yfir veturinn í snjókofa.
Ég fór heim til Eyja í endaðan september með Súðinni og gekk það vel. Fáir farþegar voru með skipinu, ég fékk koju í klefa með öðrum. Allt var nú betra og manneskjulegra en í maí þegar ég fór austur. Barnaskólinn var að byrja næstu daga, og ég settist í hann eins og vera ber á þessu aldursskeiði, tæpra tólf ára gamall.
Árið 2006, í janúarlok, sit ég, 87 ára gamall Kópavogsbúi, heima hjá mér, hef lítið fyrir stafni annað en að sjá um sjálfan mig í þrifum og matseld. Þá reikar hugurinn allt í einu 75 ár aftur í tímann til ársins 1930. Ég gríp blað og ritblý og fer að rissa upp slitróttar hugleiðingar mér til dægrastyttingar. Engin nöfn skulu koma fram, þau verða kyrr í hugskoti mínu. Athafnasvæðið er ekki lengur til, bæjarhúsið horfið, útihús, túnið, lækurinn, útgerðarstöðin í fjörunni, — allt er farið, engin ummerki lengur um það sem þarna var 1930. Hafnargerð í firðinum og stórframkvæmdir við uppbyggingu á staðnum hafa eins og annars staðar á þessu landi verið með ólíkindum. Og allt mannlífið í blóma. Umskiptin í þessu byggðarlagi eru mikil. Þarna var forn verslunarstaður sem þjónaði nálægum sveitum, og þá voru engar bryggjur sem skip gátu lagst upp að. Skipin lágu úti á legunni og voru afgreidd þar. Árið 1930, þegar ég var þarna snáði, voru heldur ekki bryggjur. Kaupfélagið stóð á sjávarkambi við sand- og malarfjöru, sem kallaðist „Búðarmöl.“ Þaðan voru vörur afgreiddar í báta fólksins sem bjó út með firðinum og sótti verslun sína og önnur viðskipti í kaupstaðinn. En flest er horfið núna sem þarna var áður fyrr.“