Saga Vestmannaeyja II./ Innlend verzlun

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Innlend verzlun.


Sama verzlunareinræðið að flestu leyti hélzt hér fram undir aldamótin 1900. J.P.T. Brydes verzlun hafði svo að segja alla verzlunina, innkaup og útflutning á fiski og öðrum útflutningsvörum. Brydesverzlun hafði umráð yfir öllum verzlunarlóðunum hér, yfir bryggjum, þerrireitum, fiskhúsum, uppskipunarbátum og yfirleitt öllum tækjum, sem nauðsynleg voru til verzlunarreksturs, en meðan þessu var svo farið var engin leið að taka upp verzlunarsamkeppni, er að verulegu gagni kæmi. Samt mátti segja, að upprof nokkurt væri í verzlunarmálunum og menn sýndu viðleitni til að brjóta af sér verzlunarhlekkina.

ctr


Gísli Stefánsson kaupmaður og útvegsmaður, (d. 1904), og kona hans Soffía Andersdóttir, (d. 1936), og börn þeirra.


Um 1880 byrjuðu eyjamenn sjálfir að panta vörur erlendis frá og mynduðu með sér félagsskap. Mjög lítið varð samt úr framkvæmdum vegna mótspyrnu kaupmanna. Gísli Stefánsson í Hlíðarhúsi, Ólafssonar stúdents í Selkoti, byrjaði verzlunarútsölu í Hlíðarhúsi, íbúðarhúsi sínu, fyrir Þorlák Ó. Johnson kaupmann í Reykjavík, en frá 1885 rak Gísli verzlun sjálfur. Sigldi hann utan og keypti vörur. Með þessari verzlunarstofnun, er að vísu var smáverzlun, var athyglisvert spor stigið í viðreisnaráttina. Gísli hafði áður veitt kaupfélagsskapnum forstöðu. Eftir dauða Gísla Stefánssonar 1904 lagðist verzlun hans alveg niður, er var svipuð og borgaraverzlanir þær, er um þessar mundir risu upp víðar. Eigi sést að verzlunarleyfisbréf eða borgarabréf hafi verið gefin út.

Ingibjörg Theodórsdóttir, kona Jóns Hinrikssonar kaupfélagsstjóra.
Jón Hinriksson kaupfélagsstjóri (d. 1929).
Sigríður Bjarnasen, kona Antons Bjarnasen kaupmanns.
Anton Bjarnasen kaupmaður (d. 1916).

Pöntunarfélagið tók aftur að færast í aukana um 1890. Sigfús Árnason á Löndum var fyrir því um tíma. Félagið pantaði nauðsynjavörur, og voru þær miklum mun ódýrari hjá því en í verzlununum. Verðmismunur á rúgmjölstunnu 3 kr. Félagið gaf 46 kr. fyrir skpd. af fullverkuðum fiski, en kaupm. 36 kr. Olíutn. var kr. 7,50 ódýrari hjá félaginu, og eftir þessu var annað. Pöntunarfélagið gat ekki þrifizt vegna samkeppni kaupmannanna og lagðist brátt niður.

Sigríður Johnsen, (d.1930), kona Jóhanns J. Johnsen.
Jóhann J. Johnsen útvegsmaður og kaupmaður, (d.1893).

Ýmsir menn, er eigi vildu una verzlunareinokuninni, pöntuðu vörur til eigin þarfa beint frá útlöndum. Jóhann J. Johnsen, er fengið hafði leyfi stjórnarvalda til þess að reka gisti- og veitingahús í eyjunum 1878, pantaði vörur til reksturs síns og heimilisþarfa, og seldi sjálfur fisk utan af útgerð sinni. Jóhann hafði farið ungur utan til verzlunarnáms. Vörur til heimilisþarfa pöntuðu og Þorsteinn Jónsson héraðslæknir og Sigurður hreppstjóri Sigurfinnsson o.fl.
Hjalti Jónsson, síðar skipstjóri og framkvæmdarstjóri í Reykjavík, fékk leyfisbréf til að setja á stofn verzlun í Vestmannaeyjum 1893 og byrjaði lítils háttar, en lagði verzlunina niður að ári liðnu.
Sigríði Johnsen, ekkju Jóhanns J. Johnsens, er eftir lát manns síns 1893 hafði haldið áfram pöntunarstarfsemi hans á vörum til heimilisþarfa, var veitt leyfisbréf til að setja á stofn verzlun 1898. Gísli Johnsen, sonur þeirra hjóna, setti á stofn verzlunina A.S. Johnsen, er rekin var undir nafni Önnu Sigríðar Johnsen. Hafði Sigríður, er var mikilhæf kona, mikinn áhuga fyrir verzluninni og að koma henni á fót. Verzlun þessi, er fyrst var í Frydendal, vakti fljótt mikla athygli hér og í nærsveitunum á landi, því að Gísli varð fljótt kunnur að afburða framtakssemi og stórhug, þótt ungur væri að aldri, en Gísli var þá ekki orðinn lögráða, er verzlunin var stofnuð. Með húseigninni Frydendal fylgdu miklar lóðir og þerrireitir, svo að hún var hentug til atvinnureksturs.
Það þótti í mikið ráðizt, er spor var stigið úr hópi eyjamanna sjálfra að stofna til alhliða verzlunar í eyjunum og taka upp fulla samkeppni við hina einvöldu verzlun á staðnum. Til þess að þetta kæmist í framkvæmd, þurfti að fá leigða verzlunarlóð — Godthaabslóðina — hjá landsstjórninni, koma upp húsum og mannvirkjum, til þess að geta náð aðstöðu til fiskverzlunar og alhliða verzlunar yfirleitt, fiskverkunar og útgerðarreksturs, eins og alltaf hafði tíðkazt hér hjá kaupmönnum, en enginn innanhéraðsmaður hafði hingað til haft umráð yfir svo miklu sem einum fermetra af verzlunarlóð. Var vissulega eigi auðvelt fyrir innlenda menn að fá hinar gömlu verzlunarlóðir leigðar, og þótti það ganga kraftaverki næst, er leyfi stjórnarvaldanna fékkst fyrir leigu Godthaabslóðarinnar, er hingað til hafði verið í höndum erlendra kaupmanna. Með samningi 30. sept. 1901, sbr. bréf amtmanns í Suður- og Vesturamtinu 18. maí 1901 og bréf landshöfðingja 9. sept. s.á., var Sigríði Johnsen kaupkonu, móður Gísla, en Gísli var þá ómyndugur, leigð til verzlunarreksturs mikill hluti Godthaabslóðarinnar, er Bryde kaupmaður hafði. Skilyrði voru þau, að leigutaki keypti mannvirki á lóðinni, ef eigandi krefðist þess, og einnig, að komið væri upp á lóðinni innan tveggja ára hæfilega stórum verzlunar- og vörugeymsluhúsum. Að stærð var lóðin, er leigð var, 985 ferm., og takmarkaðist af svokölluðum Godthaabsstíg og beinni línu frá stíg þessum meðfram Pétursborgargarði að austan í eystri markstein. Verzlunarlóðin var leigð gegn árlegu afgjaldi, 32 álnum, með rétti til að veðsetja hana og selja með verzluninni innan nefndra takmarka. Þetta var í fyrsta sinni, að verzlunarlóð í Vestmannaeyjum var leigð Vestmannaeyingi. Frá þessu ári var fyrst greidd leiga eftir verzlunarlóð hér.¹)
Gísli Johnsen leysti af hendi það mikla verk, er mörgum þó hafði sýnzt ofætlun svo ungum manni félitlum, að koma upp áskildum mannvirkjum á lóðinni, verzlunarhúsum og fisk- og vörugeymsluhúsum, þurrkreitum og öðru, er til þurfti til verzlunarreksturs í stórum stíl og útgerðar. Gísli tók við verzluninni á eigið nafn 1902, hafði þá fengið fullmyndugraleyfi hjá stjórnarvöldum. Hann er fæddur 1881.
Verzlun Gísla Johnsen gerðist brátt stórverzlun og varð ein með stærstu verzlunum hér á landi. Hafði Gísli og á hendi skipaafgreiðslu og póstafgreiðslu m.m. Varð enskur vicekonsúll 1907. Verzlunin rak mikla útgerð, og mun líklega engin verzlun hér á landi þá hafa haft jafnmikinn útgerðarrekstur og verzlun Gísla J. Johnsen. Átti Gísli 10 vélbáta einn og hluti í nokkrum. Var hann einn aðalfrömuður í vélbátaútgerðinni.
Hann átti og í togurum. Gísli J. Johnsen studdi mjög að margs konar framförum í verzlun og útgerð og kom á ýmsum þýðingarmiklum endurbótum og nýjungum í þessum málum, og hefir verið drepið á sumt hér að framan. Er ekki rúm til að ræða þetta nánar hér, þó að ástæða væri til. Gísli var hinn fæddi forustumaður og stóð með afburða dugnaði í broddi fylkingar hins nýja tíma, er olli gagngerum breytingum í verzlun og atvinnuvegum. Auk þess sem Gísli kom sér upp fjölda vélbáta, studdi hann og marga til að eignast báta og ýtti mjög undir útgerðarreksturinn. Kom Gísli á ýmsum umbótum, t.d. sendi hann mann utan til að læra að fara með vélar. — Til starfa við verzlun Gísla völdust ýmsir dugandi menn, er sumir seinna hófu verzlun sjálfir og urðu merkir kaupmenn og athafnamenn og landskunnir.
Gísli seldi verzlun sína 1908 firmanu Copland & Berrie í Reykjavík og gerðist forstjóri. Sjálfur keypti hann aftur verzlunina 1917 og rak hana síðan. Geta má þess, að 1907 fékk hann viðbótarlóð við verzlunarlóðina, sbr. mælingargj. 11. sept. 1907.
Verzlun Gísla J. Johnsen varð eins og ýms stórfyrirtæki hér á landi, er studdust við sjávarútveginn og áttu sitt mest undir honum, mjög hart úti á hinum miklu erfiðleikaárum sjávarútvegsins. Auk sinnar miklu útgerðar í Vestmannaeyjum var Gísli og stór hluthafi í togarafélögum í Rvík, þar sem hann og átti í ýmsum einkafyrirtækjum. Árið 1930, þegar harðast blés á móti fyrir útveginum, var gengið að Gísla um full skil við þann banka, er hann aðallega skipti við. Fór svo, að eignir hans voru seldar nauðungarsölu. Var það álit margra, að eyjarnar hefðu beðið við það mikið tjón, að svo mikilvæg atvinnustofnun lagðist í rústir. Gísli Johnsen hafði flutzt til Reykjavíkur 1920 og búið þar síðan. Þar hefir hann stofnsett umboðs- og heildsölu, og rekur nú einhverja helztu vélaverzlun landsins, einkum með bátavélar.
Hér hafði verið stofnuð fyrsta innlenda verzlunin, er með öflugri samkeppni og stórhuga framtaki tók upp baráttuna við hina rótgrónu selstöðuverzlun og fyrir bættum verzlunarháttum, jafnframt því að styðja mjög að aukningu sjávarútvegsins, er hvorttveggja varð til hinnar mestu hagsældar fyrir eyjarnar og nærsveitirnar á landi.

Ásdís Johnsen, kona Gísla J. Johnsen.
Gísli J. Johnsen stórkaupmaður og konsúll.
Jóhanna Eyþórsdóttir, (d. 1944), kona Gunnars Ólafssonar kaupmanns og konsúls.
Gunnar Ólafsson kaupmaður og konsúll.
Jóhanna Árnadóttir, (d. 1932), kona Gísla Lárussonar í Stakkagerði.
Gísli Lárusson útvegsbóndi og kaupfélagsstjóri, (d. 1937).

Brátt risu hér upp fleiri verzlunarfyrirtæki með svipuðu framtaki og undir forustu framúrskarandi dugnaðarmanna.
Svo var og, að tólf árum seinna var ein gömlu verzlunarlóðanna, er Brydesverzlun hafði umráð yfir, komin á innlendar hendur. Þetta var Tangaverzlunarlóðin, er firmað G. Ólafsson & Co. fékk leigða hjá stjórnarvöldum landsins til verzlunar- og útgerðarreksturs 1910, sem er stofnár þessarar verzlunar.²) Var lóðin af stjórnarráðinu afsöluð Pétri J. Thorsteinsson kaupmanni frá Bíldudal til fullkominnar erfðafestu með samningi 8. marz 1910.³) Firmað skipuðu Pétur Thorsteinsson kaupmaður, Gunnar Ólafsson kaupmaður og alþingismaður og síðar norskur vicekonsúll og Jóhann Þ. Jósefsson, síðar alþingismaður Vestmannaeyja. Félagssamningur 1910. Pétur Thorsteinsson gekk úr firmanu 1915. Þessi verzlun varð og stórverzlun og hafði mikinn útgerðarrekstur og fyrirtækja, er þar að lúta, fjölda vélbáta, er gerðir voru út á vetrarvertíð og á sumrum norðanlands á síldveiðar, — skipaafgreiðslu o.fl. Á seinni tímum var þetta stærsta verzlunin hér. Verður ekki hægt að lýsa þessum víðtæka verzlunar- og atvinnurekstri nánar hér. Mun firmað G. Ólafsson & Co. hafa verið með stærstu og víðtækustu verzlunarfyrirtækjum hér á landi.
Firmað H.P. Duus í Reykjavík varð eigandi að Garðsverzlun 1917, sbr. afsal frá firmanu J.P.T. Bryde í Likvidation, dags. 16. marz 1917. H.P. Duus seldi aftur Garðsverzlun kaupfélaginu Fram í Vestmannaeyjum, sbr. afsal 23. júní 1917. Kaupverð 65,000 kr. Hið selda var: Verzlunarstöðin, vörugeymsluhús öll, íbúðarhús, skúrar o.fl., stakkstæði og lóðarréttindi, er seljandi hafði „átt og notið“ í Vestmannaeyjum, bólverk, fiskverkunarstöð, girðingar o.fl. Kaupfélagsstjóri fyrir K.f. Fram var Jón Hinriksson. Félagið var stofnað 1916, samþykktir dags. 5. des. s.á. Núverandi eigandi að Garðsverzlunareignunum, húsum, lóðum og mannvirkjum, er Einar kaupmaður Sigurðsson.
Nokkrum árum áður hafði verið stofnað kaupfélagið Bjarmi. Stofnendur bændur og útvegsmenn. Kaupfélagsstjóri Gísli Lárusson. Einnig kaupfélögin Herjólfur og Drífandi. Samþykktir Drífanda frá 29. maí 1920. Í firmaskrár Vestmannaeyja vantar á alllöngum tíma. Ýmsir hófu hér verzlun á 1. og 2. tug þessarar aldar: Stefán Gíslason 1904. Fyrstu bókaverzlunina stofnaði hér Jón Sighvatsson 1905; heldur sonur hans, Þorsteinn Johnson, henni áfram. L. Höjdahl verzl.lóðarsamningur 1905 og 1907. Andrew Johnson lóðars. 1907, síðar Valdemar Ottesen s.á. Anton Bjarnason lóðars. 1911. Árni Sigfússon lóðars. 1911. Egill Jacobsen lóðars. 1917, síðar Anna Gunnlaugsson, er rekur stórverzlun, stofns. 1925. Jón Einarsson á Gjábakka lóðars. 1919, verzlun stofns. áður. Guðni Johnsen, og Brynjólfur Sigfússon lóðars. 1919 (hefir rekið verzlun yfir 30 ár). Páll Oddgeirsson lóðars. 1920. Ólafur Auðunsson lóðars. 1920. Jón Jónsson í Hlíð lóðars. 1922, síðar Kaupfélag verkamanna. Verzlunarfélag Vestmannaeyja, Helgi Benediktsson. lóðars. 1925; verzlunar- og útgerðarrekstur Helga Benediktssonar mun vera með stærri einkafyrirtækjum hérlendis- — Verzlunarlóðir, sem goldið er eftir, eru taldar hér 38.
Eftir 1920: Lárus Johnsen, Georg Gíslason, H. Eiríksson & Co., Oddur Þorsteinsson, Einar Lárusson, Jóh. H. Jóhannsson, Þorlákur Sverrisson, Helgi Benediktsson & Hjörleifur Sigurjónsson 1924 (H. Benediktsson rak firmað einn frá 1926), Haraldur Loftsson, Verzlunin Víkingur 1924, Fiskimjölsverksmiðjan Hekla 1924, Ársæll Sveinsson (timburverzlun) 1925, Verzlun Soffíu Þórðardóttur 1927, Carl Gränz & Sigurður Sigurðsson, Nýja búðin 1925, Verzlunin Gjábakki 1928, Kjartan Guðmundsson & Co. 1931, Kaupfélag Eyjabúa 1932, Kaupfélag Verkamanna 1931, útibú 1934, Lifrarsamlag Vestmannaeyja 1932, Ingibjörg Theódórsdóttir 1932, Kaupfélag Alþýðu 1932, Geysir 1932, Verzlunin Dagsbrún 1932, Fiskþurrkhúsið Grettir 1933, Helgi Jónatansson 1933, Ingibjörg Tómasdóttir 1933, S.f. Húseignin Óskasteinn, Magni h.f., Gísli G. Wíum, Einar Sigurðsson, Firmað Vöruhús Vestmannaeyja 1936, Vöruhús Vestmannaeyja h.f. 1928, útibú 1933, G. Ólafsson & Co., útibú 1934, Tómas Guðjónsson 1936, Olíusamlag Vestmannaeyja 1937, Hraðfrystistöð Vestmannaeyja 1938, Refabú Vestmannaeyja 1938, Neytendafélag Vestmannaeyja 1938, útibú 1938.
Heildsöluleyfi hafa 5, útg. 1929, 1940—1942, þessir: Óskar Sigurðsson, Gísli Gíslason, Ingi Kristmanns, Magnús Ó. Ólafsson, Sveinn Guðmundsson. Verzlanir hér eru nú um 40. Ýmsir hafa fengið verzlunarleyfi bæði fyrir 1938, sem hér eru eigi taldir, og allmargir eftir 1938.
Ísfélag Vestmannaeyja 1911, Björgunarfélag Vestmannaeyja 1919, Fiskveiðahlutafélagið Draupnir 1920, hlutafé 330,000 kr., skipt í 66 hluti, S.Í.S., Samlag smáútvegsmanna 1932, Sameignarfélagið Vestri 1941, Skipasmíðastöð Vestmannaeyja 1941, eigandi Ársæll Sveinsson.
Hlutafélög eigi talin áður: Dráttarbraut Vestm.eyja, skrás. 1926, Verzlunarfélag Vestm.eyja s.á., Kaupangur 1927, Vöruhús Vestm.eyja s.á., H.f. Freyr 1929, H.f. Lýsi og Mjöl s.á., Njörður 1930, Þorsteinn Johnson & Co. s.á., Björk 1931, H.f. Þorsteinn Johnson & Co. 1931, Óskar Halldórsson 1932, Eyjaprentsmiðjan s.á., H.f. Úrval 1933, H.f. Magni s.á., Netjagerð Vestmannaeyja 1936, Samkomuhús Vestmannaeyja s.á. — 16 hlutafélög stofnuð hér 1937—1944.

Útflutningur frá Vestmannaeyjum:


1879: Saltfiskur 557.556 pd. og harðfiskur 39.476 pd. Skpd. af saltfiski kr. 41,00 og af harðfiski kr. 60,00.
Hvít ull 52.921 pd., fiður 2.153 pd., tólg 2.591 pd., lýsi 232 tn., hákarlalýsi 90 tn.
1902: Kr. 163.971. — 1911: Kr. 349.865. — 1921: Kr. 4.345.000. 1925: Kr. 5.567.000. — 1940: Kr. 1.766.600.

Fiskafli lagður á land í Vestmannaeyjum 1942: 17.677 smál., miðað við slægðan fisk með haus.
Síldarafli s.á. á 14 eyjabáta: 152.383 síldarmál og 4.873 tn. saltsíldar.

Innflutningur til Vestmannaeyja:


1902: Kr. 159.402. — 1911: Kr. 652.424. — 1921: Kr. 1.348.000. 1925: Kr. 3.069.000. — 1940: Kr. 1.398.100. Bátar og vélar o.fl. um kr. 200.000.

Ísfisksölur togara og línuveiðara 1940 eru taldar sér. Nokkuð af útfluttri vöru frá Vestmannaeyjum, t.d. lýsi, er útflutt um Reykjavík og mun koma á skýrslur þaðan. Samkvæmt gjaldabókum bæjarfógetaembættisins eru útfluttar vörur frá Vestmannaeyjum árið 1940 taldar nema kr. 2.579.416,51 og árið 1939 kr. 2.602.512,00. Þó eru eigi taldar með þær vörur héðan, sem útfluttar voru frá Reykjavík. Árið 1940 nam útflutningsgjald héðan kr. 33.702,00, en árið 1941 kr. 141.708,00. Útflutningur frá Vestmannaeyjum 1942 talinn nema kr. 10.900.000,00 og innflutningur sama ár kr. 3.800.000,00 (sjá verzlunarskýrslur). Að meðtöldum síldarafla eyjabátanna, útfluttum hraðfrystum fiski, nokkru af lýsi, hrognum o.fl., mun láta nærri, að andvirði útflutningsins, er aflazt hafði á eyjabáta 1942, hafi umgetið ár numið um 16 millj. kr. eða um 1/12 af heildarútflutningi frá landinu af fiski og fiskafurðum 1942. Innflutningurinn 1942 hefir og verið miklu meiri en skýrslurnar sýna.

Gíslína Jónsdóttir, kona Árna Filippussonar.
Árni Filippusson sparisjóðsstjóri, (d. 1932).

Útibú frá Íslandsbanka, nú Útvegsbanka Íslands h.f., var stofnað hér í október 1919. Bankastjóri Viggó Björnsson. Hlutverk banka um lánveitingar til bátakaupa, útgerðar og húsabygginga höfðu kaupmennirnir í Vestmannaeyjum, ásamt Sparisjóðnum og Bátaábyrgðarfélaginu, aðallega leyst af hendi áður en bankinn kom til sögunnar. Verzlunarskuldir voru því miklar. Sparisjóði Vestmannaeyja hafði með landshöfðingjabr. 8. sept. 1893 verið veitt hlunnindi sparisjóða, sbr. tilsk. 5. jan. 1874. Sparisjóðurinn var yfirtekinn í bankann. Jafnaðarreikningur Sparisjóðsins nam kr. 280.485,00. Úr Fiskveiðasjóði hafa og verið veitt allmikil lán til báta. Nú eru og veittir úr sjóðnum styrkir til nýbygginga báta. Vátryggingarverð báta hjá Bátaábyrgðarfélagi Vestmannaeyja nam árið 1935 kr. 1.357.427,00.
Sparisjóður Vestmannaeyja var stofnsettur 1943.
Málaflutningsskrifstofu rekur héraðsdómslögmaður Friðþjófur G. Johnsen.
Löggiltur endurskoðandi er Óskar Sigurðsson.
Stærstan útgerðarrekstur höfðu Gísli J. Johnsen og firmað G. Ólafsson & Co., seinna H.f. Tangabátarnir. K.f. Bjarmi. K.f. Fram, Vigfús Jónsson, Friðrik Svipmundsson, Magnús Guðmundsson, Þorsteinn Jónsson, Gísli Lárusson, Gísli Magnússon (nú eigandi ísfiskflutningaskips), allir meðal helztu forgöngumanna sjávarútgerðarinnar hér, Helgi Benediktsson kaupmaður, sem hefir og í förum tvö eigin skip til ísfiskflutninga, Einar Sigurðsson (eigandi Hraðfrystistöðvar Vestmannaeyja), H.f. Fram, Ársæll Sveinsson kaupmaður (eigandi Skipasmíðastöðvar Vestmannaeyja), Ólafur Auðunsson kaupmaður, Tómas Guðjónsson kaupmaður og skipaafgreiðslumaður.

Heimildir og umfjöllun í þessum kafla:
1) Sigríður Johnsen var dóttir hjónanna Árna Þórarinssonar og Steinunnar Oddsdóttur, er búið höfðu alllengi að Hofi í Öræfum og fluttust síðar til Vestmannaeyja og bjuggu þar að Oddsstöðum. Árni var dótturdóttursonur Þorleifs lögsagnara á Hofi Sigurðssonar sýslumanns Stefánssonar, er fyrst varð sýslumaður í Vestmannaeyjum og bjó þar að Oddsstöðum, er lengi var sýslumannssetur eyjanna. Hann varð seinna sýslumaður í Austur-Skaftafellssýslu. Var Sigurður eini sýslumaðurinn, er með Skúla Magnússyni landfógeta gekk í berhögg við Hörmangarakaupmennina eftir að kærur gegn þeim voru sendar stjórninni 1745 (sjá ritg. Björns K. Þórólfssonar í Andvara 1935).
2) Sbr. og seinni lóðarsamninga.
3) Herluf kaupmaður Bryde hafði áður afsalað Pétri Thorsteinsson öllum byggingunum, er voru á Tangalóð, öðru nafni Juliushaab, fyrir 8000 kr. En Pétur Thorsteinsson afsalaði firmanu G. Ólafsson & Co. verzlunarlóðinni Juliushaab með tilheyrandi mannvirkjum, sbr. afsal 16. des. 1910.


Saga Vestmannaeyja efnisyfirlit