Ritverk Árna Árnasonar/Heimaklettur

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Úr fórum Árna Árnasonar


Veiðistaðir í Heimakletti


1. Steinninn norður í Efri-Kleifum. Veiðiátt NV, varast meira en 5 vindstig. Þarna hefir oft veiðst vel af mörgum. Í Gilinu þar rétt hjá veiddu sumir, en erfitt er að vera þar og ekki hættulaust.
2. Steinninn á Efri-Kleifum að austan. Veiðiátt SA, vindstyrkur helst ekki yfir ca. 6 vindstig. Þá fer að verða erfitt að valda háfi þar, ef vindur er meiri. Fyrst var setið austan við steininn. Þar var ekkert sæti, og veiddu menn þar raunverulega liggjandi á hnjánum, a.m.k. öðru hnénu. Öll aðstaða var því slæm til veiða þar, þótt menn gerðu sér það að góðu. Svo var það líklega 1916/17, að Gísli Geirmundsson sat vestan undir steini þessum. Sæti var þar ekkert og aðstaða því slæm. Þarna veiddi hann samt 70-80 fugla og sat nærri flötum beinum. Sat hann þarna beint á móti fuglinum, en það virtist ekkert gera til. Sama sumarið var Kristinn Ástgeirsson þarna einnig til veiða, þ.e. í Heimakletti. Sá hann þá, að mikið flaug af fugli fyrir steininn.
Veiðifélagarnir voru James White Halldórsson í Björgvin, Arngrímur Sveinbjörnsson, Kirkjubæ og Magnús í Hlíðarási. Gísli Geirmundsson var einnig að veiðum í Heimakletti þá, en lá ekki við í kofanum, sem þeir hinir höfðu byggt á Lágu-Kollum, en fór heim að kvöldi með afla sinn. – Þegar nú hinir fóru upp í klett, varð Kristinn eftir og settist við steininn. Lagfærði hann til við hann, bjó sér sæti og spor. Síðan fór hann að veiða þarna, sat beint á móti fuglinum og í skjóli við steininn. Kristinn veiddi ágætlega.
Síðan hefir ávallt verið notuð seta sú, er Kristinn útbjó, og mjög mikið veitt við steininn, enda einn af bestu veiðistöðum Heimakletts, síðan hann fannst og var lagfærður 1916. Steinninn hefði því í raun réttri átt að heita Gíslasteinn.
3. Í miðju Vatnsgili austan til. Setan er í litlu jarðfalli eða rofi. Veiðiátt SV.
4. Nokkuð fyrir austan Vantsgil, austur undir Dönskutó. Setið skammt frá brún í litlu rofi. Veiðiátt SA, en vindstyrkur má ekki vera mikill.
5. NV í Hettu. Farið upp af Efri-Kleifum, rétt upp af Steininum norður á Kleifum, upp dálítið grasgil. Sætið auðfundið, veiðiátt NV, allt að 6. vindstigum
6. Hákollafles. Þar má veiða neðan í flesinu í SV- og austan átt. Þolir ekki mikinn vindstyrkleika. Líka má sitja rétt í miðju flesinu.
7. Steinketillinn. Austan í Heimakletti, og er staðurinn rétt í brúninni nyrst. Veiðiátt SA eða jafnvel logn. Góður og skemmtilegur veiðistaður.
Víðar má veiða í Klettinum, t.d. nokkuð í giljadrögum á Neðri-Kleifum, einkum við vesturbrúnina í NV- og SSA-átt. Þá má og veiða í NV-átt á Efri-Kleifum, í brúninni upp af réttinni eða aðeins austar í SSA-átt. Fyrir austan Dönskutó er nokkur lundabyggð. Þar má oft veiða sæmilega í A- og SV-átt með því að flytja sig dálítið til um byggðina allt niður að brún að austan og sunnan.
8. Þuríðarnef. Þar má einnig veiða í austan átt, annaðhvort við nefið sjálft eða sitja neðantil í lundabyggðinni.

Víðar má koma sér fyrir til veiða í Klettinum, í lundabyggðinni, t.d. ofan við Hettu við NV-brúnina, hjá Einbúa og víðar.
Burður er langur og erfiður úr Heimakletti. Var þess vegna fuglinum oft hent í sjó, t.d. í Steinkatlinum, og var þá bátur hjá og hirti fuglinn og flutti heim. Þá kom og fyrir, að kastað var niður vestan við Þuríðarnef og féll þá fuglinn niður undir Löngu. Var þá aðeins einn hafður í kasti, en annars oftast 5 fuglar bundnir saman, jafnvel 10, ef niðurkastið lenti í sjó.
Meðan enginn viðlegukofi var í Heimakletti fyrir veiðimenn, varð að geyma veiðiháfa sína í og við gömlu réttina á Efri-Kleifum, oftast þar í dálítilli klettaskoru eða gili. Sumir geymdu þá þó í fjárbólinu austast og efst á Neðri-Kleifum. Kofi var líklega byggður fyrst í Heimakletti á Lágu-Kollum mjög nálægt árunum 1912/14 og þá sennilegast af þeim Ársæli Sveinssyni, Magnúsi Guðmundssyni, Arngrími Sveinbjörnssyni á Kirkjubæ og líklega Magnúsi Vigfússyni, (Manga dalla eða lúddpey, eins og hann var stundum nefndur).
Kofinn var lítill, en þó betri en tjald eða fjárból til ílegu. Eftir að kofinn kom, voru háfarnir geymdir uppi á þaki hans, þar sem fé ekki fór í þá, þeim og sjálfu sér til skaða. Síðar var svo hresst upp á kofann nokkuð, en þareð viðhald hans var ekki sem best, hrörnaði hann og féll síðan, svo að nú sjást varla rústir hans.


Banaslys í Heimakletti, Miðkletti og Ystakletti


Heimaklettur með Dufþekju


Þrátt fyrir mörg slys í úteyjum, hafa þó flest slysin orðið á Heimalandinu, svo mörg að talið er, t.d. að úr Dufþekju einni hafi 21-22 menn hrapað. Er og sagt að þær hafi kallast á Jökulsá á Sólheimasandi og Dufþekja. En svo fór Jökulsá fram úr Dufþekju með slys, enda er nú langt síðan maður hefir hrapað úr Dufþekju.
Því miður eru nöfn aðeins fárra manna kunn og verður þeirra getið hér. Þar sem Miðklettur hefir og er talinn til nytja með Heimakletti, er ekki nema eðlilegt, að hann verði talinn með Heimakletti hvað þetta snertir.
1. Jón Árnason bóndi á Vilborgarstöðum, um sjötugt, hrapaði úr Dufþekju 24. ágúst 1823. Nánar ekki getið. Sennilega við fýlatekju.
2. Jón Ólafsson þurrabúðarmaður, Elínarhúsi, hrapaði 20. júlí 1825. Nánar ekki getið. Hann var 28 ára gamall.
3. Ólafur Eyjólfsson vinnumaður á Vilborgarstöðum, hrapaði við lundaveiðar í Heimakletti 9. júní 1833.
4. Sæmundur Hannesson vinnumaður á Vilborgarstöðum, hrapaði 1833. Engar frekari upplýsingar þessu viðkomandi.
5. Hannes Sæmundsson vinnumaður í Nýjabæ, 26 ára, hrapaði í Dufþekju þann 21. júlí 1858. Hann var til hvanna- eða rótartínslu. Lík hans rak að Krossi í Landeyjum.
6. Filippus Snorrason hrapaði úr Kleifum 17. sept. 1852. Hann var með lömb í bandi, datt á bakið og valt fyrir brún niður og beið bana.
7. Bergur Magnússon, Vilborgarstöðum, hrapaði úr Hákollagili 1866. Hann var rösklega þrítugur að aldri og var við fýlatekju, svo að slysið hefir orðið seinnihluta ágústmánaðar. Hann var bróðir Ólafs skálds í Nýborg.
8. Ísleifur Jónsson, um tvítugt. Hann var frá Hlaðbæ. Hrapaði við fýlatekju 26. ágúst 1896. Varð hann fyrir grjóthruni vegna jarðhræringa og lést af sárum 31. ágúst 1896. Hann var bróðir Þorsteins í Laufási Jónssonar.
Þetta mun vera síðasta slysið sem orðið hefir í Dufþekju, en oft hefir legið við slysum þar vegna grjóthruns. Eitt sinn var Magnús Guðmundson á Vesturhúsum niðri þarna. Kom þá mikið grjóthrun. Komst hann undir steinbrík í skjól fyrir grjóthruninu og slapp ómeiddur, þrátt fyrir að grjótinu rigndi allt í kringum hann og jafnvel brotnaði á skýli hans.

Banaslys í Miðkletti


Úr Grasnefinu í Miðkletti hrapaði 24. júlí 1935
Sigurður Helgason frá Götu. Það var á miðvikudegi, að slysið vildi til. Var Sigurður að lundaveiðum á svonefndu Grasnefi í Miðkletti. Hann hrapaði í sjó niður frá þeim stað, er hann var að veiða í, góðan spöl frá brúninni. Þar lá veiðiháfur hans og nokkrir lundar, sem hann hafði veitt. Margar tilgátur hafa til orðið um slys þetta og er ekki gott að segja, hver er réttust.
Ein er sú, að hann hafi ætlað að flýta sér fram að brún og kalla þaðan í pilta, sem voru á bát skammt frá Miðkletti, og biðja þá að taka af sér fuglakippuna í land, sem hann hefir þá samkvæmt venju ætlað að láta velta í sjó niður. Mun honum þá hafa orðið fótaskortur í flýtinum og hann fallið og oltið fram af brúninni. Brekkan er þarna brött og hörð. Húfa Sigurðar fannst í fjárgötu í brekkunni. Þar er ætlað, að hann muni hafa fallið. Kafað var daginn eftir slysið, niðurundan Grasnefinu og fannst líkið strax. Þar er um 3 faðma dýpi.
Sigurður Helgason var þaulvanur og ágætur fjallamaður, gætinn vel og veiðimaður ágætur.
Hann var röskleikamaður að hvaða verki, sem hann gekk, dagfarsprúður og hvers manns hugþekki, sem honum kynntist. Hann var fæddur hér og ól hér allan sinn aldur. Kvæntur var Sigurður og átti 4 börn. Kona hans var Elínborg ÓlafsdóttirGötu.
Eins og víða mun sjást í pistlum þessum um fuglaveiðar í Eyjum, er Sigurðar oft getið og alls staðar sem góðs veiðimanns og félaga. Hann var mest í Elliðaey til lundaveiða, en líklegast hefir hann farið, t.d. í flestar suðureyjarnar, til eggja og fugla og í hvívetna getið sér hinn besta orðstír.

Banaslys í Ystakletti


Úr Ystakletti hafa hrapað nokkrir menn, en ekki er nú kunnugt um nöfn þeirra, eða hvenær slysin hafa orðið. Er t.d. sagt, að margir hafir hrapað úr Heljarstíg, en engra nafna getið. Eftirtalda menn veit ég um:
1. Jón Ísaksson frá Kirkjubæ, maður um þrítugt. Hann hrapaði norðan úr Ystakletti og niður í Selhellisurð.
Slysið skeði 28. ágúst 1890. Hann var ekki á bandi en fór laus. Jón Ísaksson var faðir Maríusar í Framnesi og þeirra systkina, maður 31 árs gamall. Lík hans náðist af sjó. Hafði hann lent á steini og var höfuðkúpa hans brotin.
2. Hjálmar Jónsson vinnumaður frá Hól, hrapaði 14. ágúst 1853. Hann var til fýla og hrapaði til dauðs.
3. Matthías Kristinsson frá Hólmgarði, drengur um fermingu, hrapaði til bana úr svonefndu Hlaupi. Atburður sá gerðist 23. júní 1931.
4. Færeyskur maður hrapaði úr Hlaupinu, en ekki er getið nafns hans eða hvenær slysið varð.
5. Þýskur maður hrapaði úr Hlaupinu, en ekki er nafns hans né, hvenær þetta skeði, getið.


James White notaði uppstillur


James White Halldórsson í Björgvin, Runólfssonar, var mikið við veiðar og þá helst í Heimakletti. Hann var lipur veiðimaður og útsjónarsamur um veiðistaði o.fl. Hann mun þannig hafa orðið fyrstur manna hér til þess að stilla upp hjá sér dauðum fuglum til þess að hæna fyrirfljúgandi fugl að veiðistaðnum. Gerði hann þetta þannig, að hann hafði mjóa tréprjóna, stakk þeim inn um endaþarm hins dauða fugls og frameftir búknum, stakk síðan spýtunni með fuglinum á niður í grasið, og var þá alveg eins og lifandi fugl sæti hjá veiðistaðnum. Þessi veiðibrella gafst svo vel að brátt tóku allir hana upp, og helst hún við enn þann dag í dag.
Ég hafði þá aðferð, að ég beygði vír, smeygði haus dauða fuglsins í lykkju og stakk svo vírnum niður í grasið. Þetta líktist mjög sitjandi fugli og reyndist mér mjög vel. Aðrir höfðu veifur fyrir ofan sig, sem voru í áberandi lit. Voru þær eins og lítil flögg til að sjá, en vöktu mikla athygli fuglsins, sem fyrir veiðistaðinn flaug. Fór hann þá að glápa á veifuna og kom svo nálægt að hann hlaut að lenda í háfnum. Enn aðrir höfðu ýmsar „fígúrur“ úr gúmmíi, festu þær á stöng og höfðu í námunda við veiðistaðinn. Lundinn tók vel eftir þessu og eins og jafnan varð forvitnin honum að aldurtila, – hann lenti í háfnum. Sem áður greinir, þá var venjan sú, ef menn veiddu mikið, t.d. austan í Heimakletti eða Miðkletti, að kasta fuglinum í sjó og biðja, t.d. bát þann, er sótti fugl til þeirra, sem að veiðum voru í Ystakletti, eða aðra báta, að taka hann í land. Þetta heppnaðist oft, en oft urðu menn samt að bera fuglinn frá veiðistað vestur Klett og síðan heim í bæ. Það var langur og erfiður burður og ekki hvað bestur að bera hann heim Botn í lausum sandinum. Var þá oftast gengið alveg við flæðarmálið þareð þar var sandurinn fastastur.
James White var víðar til veiða en í Heimakletti, t.d. í Brandinum, en líklega hefir það þó ekki verið nema tvö/þrjú sumur.
Siguður Sveinsson var líklega 4 sumur í Heimakletti. Hæstu veiði sína veiddi hann vestan við Steininn í Efri-Kleifum. Það voru 500 stykki. Þá var nýbyrjað að sitja vestan við steininn, og telur Sigurður sig hafa gert það fyrstur manna eða með þeim fyrstu. (Sjá umsögn um þetta, Kristinn Ástgeirsson o.fl.)


Kofi á Lágu-Kollum


Þótt menn væru árum saman til veiða og heyskapar í Heimakletti, var þar enginn kofi til þess að gista í eins og í úteyjum. En er árin liðu, sáu lundaveiðimenn, að illmögulegt var að hafa ekki kofa í Heimakletti til viðlegu. Það var erfitt að stunda lundaveiðar í Klettinum og þurfa að fara heim á kvöldin með afla sinn, og fara síðan til veiða heiman úr bæ um kl. 05 og 06 á morgnana. Því var það, að árin 1912/14 tóku þeir sig fram um að byggja kofa í Heimakletti, sem staðsetja skyldi á Lágukollum, þeir Magnús Vigfússon, Litlueyri. Magnús Guðmundsson, Hlíðarási og sennilegast Ársæll Sveinsson, Fögrubrekku. Eitthvað voru þeir og við byggingu þessa Loftur Jónsson, Háagarði og Arngrímur Sveinbjörnsson á Kirkjubæ. Þótt kofinn væri ekki stór, var hann að mörgu leyti góður. Menn gátu þá sofið rólegir uppi, og þurftu ekki að vera á nær stanslausu ferðalagi upp og ofan Heimaklett. Háfa sína geymdu þeir þá á þaki kofans, með tilliti til fjárins, og var hvoru tveggja óhætt fyrir hinu. Áður höfðu menn geymt háfa sína í fjárbólinu efst á Neðri-Kleifum eða við fjárréttina nyrst á Efri-Kleifum.
Eitt árið höfðu þeir Heimaklett til veiða, þeir Sigurður Sveinsson, Sveinsstöðum, Þorgeir Jóelsson, Fögruvöllum og Guðbergur Magnússon, Hlíðarási. Þeir skiptu þá milli sín öllu veiðilandinu þarna, ásamt Miðkletti, sem talið er til Heimakletts. Sigurður Sveinsson hafði Kleifarnar og Hettu, Þorgeir alla aðra staði Heimakletts, en Guðbergur hlaut Miðklett allan.
Það sumar lágu þeir við í kofanum á Lágu-Kollum.
Eitt sinn var það, er þeir fóru út til veiða, að leiðir skildu við kofann. Hélt Guðbergur austur í Miðklett, því að átt var á svonefndu Grasnefi, Sigurður Sveinsson fór niður á Efri-Kleifar, og fylgdist Þorgeir með honum. Hann hélt síðan niður í bæ, einhverra erinda. Síðan fékk hann bát til að fara með sig austur í Klettsvík og lét landsetja sig niður af Grasnefinu. Síðan fór báturinn í land, en Þorgeir hélt upp bergið. Það er slæmur vegur og sjaldan farinn. En ekki létti Þorgeir ferð sinni, fyrr en kom upp fyrir brúnina, alveg við háfspækur Guðbergs, þar sem hann sat að veiða á Grasnefinu. Er sagt, að þá hafi andlit hans allt orðið eitt spurningamerki, svo undrandi varð hann að sjá Þorgeir koma þarna upp. Ekki veit ég, hvort fleiri nútímamenn hafa farið þarna upp, - vondur vegur er það talinn, en Þorgeir mesti fjallaköttur eins og þeir bræður allir.

Menn sem ég minnist að hafi veitt í Heimakletti:

Magnús Vigfússon Litlu-Eyri,
Magnús Guðmundsson Hlíðarási,
Loftur Jónsson Vilborgarstöðum,
Gísli Geirmundsson Eyjarhólum,
Jón Magnússon Kirkjubæ,
Arngrímur Sveinbjörnsson Kirkjubæ,
Kristinn Ástgeirsson Litlabæ,
Valdimar Ástgeirsson Litlabæ,
Sigurður Sveinsson Sveinsstöðum,
Ársæll Sveinsson Fögrubrekku,
Árni Árnason eldri Grund,
Árni Árnason yngri Grund,
Kristján Ingimundarson Klöpp,
James White Halldórsson, Björgvin,
Gísli Fr. Johnsen Breiðabliki,
Kristján Georgsson Klöpp,
Guðbergur Magnússon Hlíðarási,
Kristinn Sigurðsson Löndum,
Sigurður Kristinsson Löndum,
Snorri Þórðarson Steini,
Kristinn Ástgeirsson Litlabæ.
Sigurður Helgason Götu.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit