Heimaklettur

From Heimaslóð
(Redirected from Dufþekja)
Jump to navigation Jump to search
Heimaklettur

Heimaklettur sem er á Heimaey er hæsta fjall Vestmannaeyja. hann er 279 m á hæð yfir sjávarmáli. Kletturinn er móbergsstapi sem varð til við gos undir jökli seint á síðustu ísöld. Hann stendur sæbrattur upp úr sjónum, en efst eru grasi vaxnar brekkur á bólstrabergstoppi þar sem fé er haft á beit.

Fjallgöngur hafa löngum verið stundaðar í Heimakletti. Oft hefur uppgangan verið erfið og hættuleg vegna brattra hlíða og bergs. En bót varð á því í kringum árið 2000. Þá var smíðaður stigi og settur upp þar sem erfiðasti hjallinn er. Ekki er þó þrautalaust að komast á topp Heimakletts og þarf óvant fólk helst að vera í fylgd með einhverjum sem þekkir aðstæður. Gangan upp á klettinn er mikið gaman og reynir vel á. Útsýnið er fagurt og frábært að sjá bæinn og eyjarnar frá þessum sjónarhóli. Á björtum degi sést vel upp á meginlandið, Eyjafjallajökull og Mýrdalsjökull blasa við og langt sést upp á Suðurlandsundirlendið.

Þegar sjávarfjöll leyfa er hægt að fara bæði framan (sunnan við) og bakvið (norðan við) Heimaklett. Aðstæður þurfa að vera góðar til að fara á bakvið Klettinn en þá er upplifunin ennþá meiri. Fegurðin og háir klettarnir heilla hvern þann sem sér.

Systraklettar Heimakletts heita Miðklettur og Ystiklettur. Ekki er fólki ráðlegt að fara úr Heimakletti út í næstu kletta en það er þó hægt fyrir heimavana menn. Miðklettur og Ystiklettur eru heldur minni en Heimaklettur en saman mynda þeir órjúfanlega mynd sem hefur fest sig í hugum margra Eyjamanna og utanaðkomandi fólks. Í Ystakletti er stunduð lundaveiði á sumrin og er veiðikofi á honum. Lundaveiði er einnig stunduð í Heimakletti, sérstaklega á einum stað, við Steininn á Neðri-Kleifum.

Örnefni

Dufþekja norðan í Heimakletti er mikið fýlapláss og þar var áður mikil hvanna- og rótatekja. Hún er ákaflega flá og brött og var mönnum þar hrapgjarnt. Það var trú manna að 20 manns ættu að farast úr henni áður en yfir lyki eða jafnmargir og í Jökulsá á Sólheimasandi en þær áttu að „kallast á“ um manntapa. Fyrsta dauðsfallið í Dufþekju er sagt vera þegar þræll Hjörleifs, að nafni Dufþakur, hrapaði þar niður á flótta undan Ingólfi Arnarsyni. Í Kleifunum í Heimakletti er svokallaður Papakross. Hann er talinn sanna veru Papa í Vestmannaeyjum fyrir landnám.

Heimaklettur

Heimaklettur, hátt þú rís
hrauns með gretta dranga.
Högg þér réttir hrannadís,
hörð og þétt á vanga.
Þú mátt brjóta storma stál
straumum móti gnafinn,
spyrna fótum Atlants-ál,
ölduróti kafinn.
Margra alda rún við rún
ristur gjaldamegin.
Upp í kaldan beitir brún,
bárufaldi þveginn.
Þegar hrína hret á kinn,
hreggið hvín á skalla.
Norðri krýnir konunginn
köldu líni mjalla

[...]

- Sveinbjörn Á. Benónýsson

Hörgaeyri er sandbanki sunnan í Heimakletti sem stendur út frá Stóru-löngu. Þegar Gissur hvíti og Hjalti Skeggjason komu til Íslands frá Noregi árið 1000 að boða kristna trú höfðu þeir með sér efnivið og fyrirmæli frá Ólafi konungi Tryggvasyni um að reisa skyldi kirkju á fyrsta stað sem að þeir „skytu bryggjum á land“, en í Kristnisögu kemur fram að þeir hafi haft viðkomu í Dyrhólaey á leið sinni. Kirkjan var reist á Hörgaeyri, þar sem voru hörgar og blót stunduð áður. Kirkjan var svonefnd Stafkirkjan, og var tileinkuð heilögum Klementi, verndardýrlingi sæfara og sjósóknara.

ok var lutað um hvárum megin vágsins standa skyldi, ok hlauzt fyrir norðan, þar váru áðr blót ok hörgar“.

Hákollar eru hæsti tindur Vestmannaeyja, í 283 metra hæð yfir sjávarmáli. Þeir eru nyrst í Heimakletti, austan Dufþekju. Þar er mikil lundaveiði stunduð. Útsýni af Hákollum er stórkostlegt í góðu skyggni. Eyjafjallajökull, Hekla, Þríhyrningur og hinar blómlegu sveitir Landeyja, Fljótshlíðar og Eyjafjalla blasa við sjónum. Dyrhólaey má sjá í austri og í norðurátt má sjá Langjökul í góðu skyggni. Ingólfsfjall sést vel, og í vestri mótar fyrir Reykjanesfjallgarðinum svo og Eldey við sjóndeildarhring.

Upplýsingin

Árið 2003, í tilefni af 30 ára goslokaafmælinu var byrjað að lýsa upp Heimaklett í skammdeginu með sterkum ljóskösturum. Friðbjörn Valtýsson stóð fyrir þessari uppljómun klettsins, en mörg fyrirtæki og margir einstaklingar komu að verkefninu. Í framhaldi af lýsingunni tók áhugahópur sig saman og fékk meira fjármagn og fleiri ljóskastara, og var þá byrjað að lýsa upp Neðri Kleifar og upp í Hettu.

Úr örnefnaskrá Gísla Lárussonar

III. Heimaklettur. Austast í honum að sunnan, fyrir neðan brún er Þuríðarhellir, þar neðar og vestar Stórató. Þá Vatnsrás við sjó niðri (rennur þar alltaf vatn úr berginu) en upp af Stórutó fyrir ofan brún Víti. Þar sunnar Steinketill – hvammur hömrum luktur. Þá er Rauf, hryggur því nær ofan frá Háukollum (sem er hæsti tindur Heimakletts) og niður á brún.


Í berginu hér niður af er áframhaldandi hryggur í sjó niður, Berggangur. Efst í honum eru grastætlur Neftó, hér vestar ofan við brún er stór kvosmynduð grasbrekka nefnd Slægjur (lítið slægjuland). Niður af henni í berginu er Bræðrabekkur. Í slægjunum er einstakur steinn ekki stór, Einbúi, en upp af honum Mónef en vestar Bólnef. Niður af Háukollum miðja vega að brún er allstór stallur, Lágukollar og er þar slægjuland lítið, en upp af þeim Pálsnef.

Heimaklettur séður frá suð-vestri.

Hér neðan við brún er stór grasbekkur (fýlabyggð góð), Danskató, en austar og neðar í berginu Kórar (fýlapláss lítið). Niður af Dönskutó eru 2 kórar við sjó niðri, Leiðarkórar. Fyrir vestan Dönskutó er Vatnsgil (107); gilmyndun frá brún og rennur þar alltaf dálítið vatn, hér austan við Vatnsgilshellar. Þar vestur af eru 3 smátær er blaðka vex í, Blöðkutær, en ofan við brún Neðra- og Efra-Þuríðarnef. Hér niður af er Langa (Stóra-Langa ), grasbrekka grjótorpin, en sandur við sjó fram. Er í brekku þessari, sem og þeirri brekku er vestan við Heimaklett er, og liggur dálítið austur með honum að norðan, skeljasandur (gamall sjávarbotn?). Mætti af því ráða að brekka hafi verið fram undan svonefndu Kleifnabergi og þannig verið ein samanhangandi brekka. Nafnið dregið þar af „Langa“ eða „Langabrekka“.

Klemenseyri (Hörgeyri ) er utan við Löngu austast; stendur hún aðeins upp úr sjó með hálfflæði, er í henni smátt mógrjót, og fannst áður í henni talsvert af alabasturssteinum. Líklega ævagömul skips-„ballest“. Hér eiga þeir Gissur hvíti og Hjalti Skeggjason að hafa lent með kirkjuvið Ólafs konungs árið 1000.

Heimaklettur séður ofan af Klifinu.

Vestan við Löngu er Kleifnaberg, í því að austan er Skrúðabyrgi. Á þar að hafa verið geymdur kirkjuskrúði. Má vera að brekka hafi náð það hátt upp, að ganga mætti úr henni í byrgið. Vestan undir Kleifnabergi er nefnt Langa (Litla-Langa ). Hér hafa oft uppblásið og nú síðast 1912 er grafið var fyrir sundskýli. Mannabein þessi hafa öll fundist í nokkurri fjarlægð frá berginu og mætti af því ráða að grasivaxin brekka hafi legið fyrir öllu Kleifnabergi í fornöld og legstaðurinn hafi verið á sléttlendinu við brekkuna. Þegar sjór eyddi brekkunni við Kleifnaberg er skiljanlegt að myndast hafi nöfnin Stóra- og Litla-Langa.

Fram af Kleifnabergi austan til er hylur, Álfheiðarpollur. Eru munnmæli um að þar hafi kona drukknað í skrúða sínum á leið til kirkju. Kemur það í bága við að kirkjan hafi staðið vestan við Kleifnaberg, en heim við Skrúðabyrgi og almenna sögusögn. Upp af Kleifnabergi er grasbrekka nefnd Kleifar. Er uppgangan að henni nefnd Neðri-Kleifar og í henni Blótarstígur, en ofan við brekkuna Efri-Kleifar og þar dálítið upp og austur af Snið, þar neðar fýlabekkur, Brynjólfsbekkur. Hér upp af er hamar. Er hann láréttur og grasivaxinn að ofan og lítið slægjuland, nefndur Hetta. Fyrir neðan hana að norðan er Hettugrjót og þar austur af Hettusandur – hvorutveggja við sjó niðri. En norðan við að ofanverðu eru nefnd Vesturhöfuð, þá Dufþekja (Dufþaksskor ) sjá Landnámu.

Í Dufþekju er sagt að nú hafi hrapað til bana 20 menn, sá síðasti varð fyrir steini í landsskjálftanum 1896. Sögn er að Dufþekja og Jökulá á Sólheimasandi hafi átt að teljast á um manndráp. Í Dufþekju eru nefndar Efri- og Neðri-Flatir. En upp af henni að austan eru Austurhöfuð og efst í þeim Eysteinsbás. Austan við Dufþekju er bergflái, en austan við Rauðupallar. Þar ofar eru Háukollahamrar, þrír hamrar efst við Háukolla (140). Þar austar og neðar Háukollagil ; er efst í því Háukollahellir , en neðar Kindabás (Ókindabás álíta sumir eldra nafn). Neðan við Háukollagil er Kelató, en austar Sveinstó (nafnið frá ca 1860. Sveinn Þórðarson beykir fór þar fyrst upp) er hún nú hröpuð af. Hér austar Hvannstóð (stór bekkur. Hvannstæði. Fýlapláss gott ca 40 faðm. neðan við brún). Hér neðan við Halldórssandur liggur við sjó niðri allt frá Kambi að Dufþekju. (Með því að örnefni þetta er ævagamalt mætti eins ætla að það væri dregið af Halldóri, þræl Hjörleifs, sem Halldórsskora á Dalfjalli).

Myndasafn


Heimildir

  • Einar Sigurðsson ritstjóri. Gamalt og Nýtt, I. bindi. Vestmannaeyjum: Prentsmiðjan Eyrún, 1949. ISBN 0-0003-055917
  • Fréttir, 30/04/2004, „Fleiri ljósum beint að Heimakletti í kvöld“. [1]
  • Gísli Lárusson. Örnefni á Vestmannaeyjum. Örnefnastofnun Íslands, 1914
  • Guðlaugur Gíslason. Eyjar gegnum aldirnar. Frásagnir af mannlífi og atburðum í Vestmannaeyjum frá gamalli tíð og nýrri. Reykjavík, 1982.
  • Helgi Bernódusson og Ágúst Karlsson. Landakirkja í Vestmannaeyjum, [2].