Loftur Jónsson (Vilborgarstöðum)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Loftur og Ágústína á Vilborgarstöðum um 1950.

Kristján Loftur Jónsson útvegsbóndi á Vilborgarstöðum (“Gústubæ”), fæddist 13. júlí 1891 á Vilborgarstöðum og lézt í Reykjavík 2. maí 1981.

Ætt og uppruni

Faðir Lofts var Jón Eyjólfsson bóndi að Vestri-Staðarbæ á Kirkjubæ, f. í Eyvindarhólasókn u. Eyjafjöllum 1862, drukknaði af bátnum Sjólyst 20. maí 1901 í álnum suður af Bjarnarey.
Faðir Jóns voru Eyjólfur bóndi í Yztabæli, f. 10. október 1824, d. 4. október 1863, Magnússon frá Knopsborg á Seltjarnarnesi, bóndi í Ystabæli 1835, Jónssonar bónda í Knopsborg Þorsteinssonar og konu hans Rakelar Magnúsdóttur, f. 1751 á Uxahryggjum á Rangárvöllum, d. 25. október 1819.
Móðir Eyjólfs Magnússonar og seinni kona Magnúsar var Margrét húsfreyja í Yztabæli 1835, Eyjólfsdóttir.
Móðir Jóns Eyjólfssonar og kona Eyjólfs var Ingibjörg húsfreyja, f. 22. apríl 1835, d. 7. marz 1915, Jónsdóttir bónda á Rauðafelli, Einarssonar.
Móðir Lofts og kona (8. október 1892) Jóns Eyjólfssonar var Sigríður húsfreyja, f. 1864, d. 12. september 1902, Sighvats bónda á Vilborgarstöðum, f. í Voðmúlastaðasókn 10. júlí 1835, d. 8. júlí 1874, Sigurðssonar bónda í Voðmúlastaðahjáleigu í Landeyjum og Efstakoti u. Eyjafjöllum og konu Sighvats, Bjargar húsfreyju, f. 3. nóvember 1830, d. 4. júní 1915, Árna bónda á Skækli og Rimakoti í Landeyjum, Pálssonar og konu Árna, Ingveldar húsfreyju, f. 1806, d. 1843, Ormsdóttur.

Lífsferill

Vilborgarstaðir og Vilpa. Hús Lofts og Ágústínu er íbúðarhúsið til hægri á myndinni.

Faðir Lofts drukknaði, er hann var 10 ára. Vegna sjúkleika móður hans var heimilið leyst upp. Hún lézt ári síðar. Systkinunum, tveim drengjum og þrem stúlkum, var komið fyrir hjá vandalausum.
Loftur var tekinn í fóstur af hjónunum í Háagarði, Þorsteini Ólafssyni og Ingibjörgu Hjörleifsdóttur, en þau voru foreldrar Helgu Þorsteinsdóttur húsfreyju á Kirkjubæ, konu Þorbjörns Guðjónssonar bónda. Ingibjörg Hjörleifsdóttir var frænka Lofts. Þau Jón Eyjólfsson og hún voru systkinabörn, hann sonur Ingibjargar, hún dóttir Hjörleifs, Jónsbarna, Einarssonar.


ctr
Austari Vilborgarstaðir. Til vinstri má sjá grindverkið, sem notað var til þurrkunar veiðarfæra.


Loftur varð snemma að taka þátt í lífsbaráttunni. Þeir félagar, hann og Finnbogi Finnbogason á Kirkjubæ, síðar skipstjóri í Vallartúni, fóru snemma að skreppa í róður með Ögmundi Jónssyni (Munda pæ), sem þá bjó í lítilli torfbaðstofu á Vilborgarstöðum. Réru þeir á fjórrónu juli með honum.
Með þroska hóf hann sjóróðra með Ísleifi Guðnasyni, sem þá bjó á Kirkjubæ.Var hann þá 15 ára. Þarna voru 6 jafnaldrar á bátnum hjá Ísleifi, en báturinn var eign Guðlaugs Vigfússonar á Vilborgarstöðum. Eftir fyrstu vertíðina tók Gísli Eyjólfsson á Búastöðum við skipinu og fiskaðist vel.
Þegar vélbátaskeiðið hófst varð Loftur beitingarmaður á Haffara, en Þorsteinn fóstri hans átti sjötta hlut í þeim báti. Á vetrarvertíð 1910 réri hann með Gísla á Búastöðum. Bræðrungur Lofts, Jón Magnússon, Eyjólfssonar á Kirkjubæ var þar og skipverji og voru þeir Loftur miklir mátar. Vertíðina 1911 var Jón skipstjóri á Ísak og varð Loftur beitingarmaður hjá honum.
Árið 1913 keyptu þeir frændur, Loftur og Jón, vélbátinn Braga, sem var 8,98 tonn með 12 hestafla Dan-vél, súðbyrðingur, smíðaður í Danmörku. Átti hvor þeirra fjórðungshlut í bátnum á móti Gísla J. Johnsen og Jóni í Brautarholti. Var Loftur þar beitingarmaður, en réri á netum. Loftur var sérlega lipur og handlaginn og þótti góður úrgreiðslumaður.
Árið 1924 seldu þeir félagar Braga og keypti Loftur þá fjórðung í Maí VE 275, 21 tonns bát, og var hann einn stærsti báturinn í flotanum, byggður í Noregi. Báturinn var eign Lofts og frænda hans, Schevingsfeðganna, þeirra Jóhanns á Vilborgarstöðum („Jóa í Línubæ”), Sigfúsar í Heiðarhvammi og Vigfúsar föður þeirra. Var Sigfús formaður.
Samvinna þeirra var einstaklega góð. Unnu þeir meðal annars saman að ræktunarmálum og ræktuðu upp tún, útsetu, fyrir sunnan Helgafell, við Litla-Fell.
Á árinu 1945 var Maí seldur og hætti Loftur þá útgerð. Hann vann við fiskverkun, einkum hjá Fiskiðjunni, og ýmis önnur störf í landi, svo sem smíðar.
Hann hafði dálítinn búskap lengst af, sem hann vann að með konu sinni og dóttur þeirra, Guðrúnu.
Loftur var lipur fjallamaður og stundaði fýlatekju á Dalfjalli og í Stóra-Klifi. Lunda veiddi hann á Heimalandi og í Klettinum.
Jói í „Línubæ“ (Jóhann Scheving) sagði okkur krökkunum, að sem dæmi um fimleika Lofts í æsku, hefði hann iðkað að feta sig eftir vírgirðingum án mikilla erfiðleika.
Loftur var léttur í lund og ræðinn við kynningu, einkar fróður og hafði gaman af að segja frá gömlum kynnum af mönnum og málefnum.

Loftur og þvotturinn á hlaðinu í Hlaðbæ. Sér í hlöðugaflinn í Háagarði. “Já, þarna er hann afi minn blessaður bara næstum lifandi kominn! Líkt honum að vera að hengja út þvott. Ég man einmitt svo vel eftir honum að ganga frá þvotti. Hann rullaði í gamalli þvottarullu sem var á háaloftinu heima, straujaði og braut saman - allt eftir kúnstarinnar reglum. ” (Ágústa Harðardóttir framhaldsskólakennari frá Hlaðbæ).


Fjölskyldan

Loftur kvæntist 17. október 1913 Ágústínu (Gústu) Þórðardóttur frá Rauðafelli u. Eyjafjöllum, f. 4. ágúst 1883, d. 18. júlí 1966, dóttur Þórðar Tómassonar bónda þar og konu hans Guðrúnar Tómasdóttur húsfreyju.
Dóttir þeirra er Guðrún kaupkona, síðar í Reykjavík, f. 18. júní 1920. Var hún gift Herði Sigurgeirssyni ljósmyndara, sem fæddist 6. maí 1914 og lézt 2. júní 1978. Eignuðust þau þrjú börn, Loft, Friðrik og Ágústu.
Fyrstu búskaparárin bjuggu Loftur og Ágústína í Háagarði, en síðar í sambýli við Sesselju og Sigfús í Heiðarhvammi. Árið 1930 keyptu þau austurbæinn á Vilborgarstöðum og fengu byggingu fyrir jörðinni ásamt Sigfúsi í Heiðarhvammi. Þar var þá lélegt timburhús með lágu þaki, byggt um aldamótin og þar hafði búið Guðlaugur Vigfússon og kona hans Þórdís Árnadóttir, Einarssonar. Þau Loftur byggðu nýtt hús, reisulegt með hlöðu við austurendann. Var eftir því tekið, hve umhverfið var snyrtilegt og húsinu vel við haldið.

Á torfunni

Vilpa. Sér í austurhluta Austari Vilborgarstaða (Gústubæ). Til hægri er Brennihóll, (Þerrihóll). Fjær sér á Mylluhól.

Umhverfi hússins var hlaðið fornri sögu. Í landnorðri var Mylluhóll (Vindkvarnarhóll) og austan við það Þerrihóll, öðru nafni Brennihóll. Þeir voru báðir vinsælir til ferða á litlum magasleða og þá var rennt niður í Dreifdalinn milli þeirra. Sunnan við það í nokkurra metra fjarlægð var Vilpa, þar sem var leikvangur barnanna á torfunni, siglt bátum á sumrin, rennt sér um vetur á ís og siglt á jökum í leysingum. Hér var líka aðsetur hins forna þings á Vilborgarstöðum, víst allt fram um miðja sextándu öld, er þingið var flutt að Hvítingum.
Loftur og Ágústína voru einstaklega barngóðar manneskjur og þau voru vel liðin af nágrönnum sínum. Var þolinmæði þeirra við börnin á torfunni ótrúleg. Þeir félagar, eigendur Maí, þurrkuðu t.d. veiðarfæri sín á sterkum grindum á grasflöt vestan húss Lofts og Ágústínu. Þótti þetta kjörið leiksvæði, einkum til feluleikja og var þá riðlast óspart á veiðarfærunum. Ekki man skrifari til þess, að hastað væri á krakkana, þó að ærin tilefni gætu hafa verið til þess. Það var tilhlökkun á torfunni á sumrin, þegar þeir félagar Loftur og Jói fóru til heyskapar suður fyrir Fell, því að þá vissu krakkarnir, að þeir fengju að fara með, þegar hirt yrði og allir fengju að sitja á heyhlaðanum á heimleið.
Það var venja meðal barnanna í hverfinu að kenna hús Lofts við Ágústínu og var það kallað Gústubær og því var Loftur greindur sem „Loftur í Gústubæ” og hefði vart annað skilizt meðal barnanna. Sama var um Jóhann frænda hans Scheving, sem bjó í næsta húsi vestan við hann. Hann var kvæntur Nikólínu (Línu) Halldórsdóttur og var húsið því kallað Línubær og hann „Jói í Línubæ”. Þetta voru dýrlegar stundir.
Skýringar við mynd: Börn að leik við Vilpu. Sér í austurhluta Austari Vilborgarstaða (Gústubæ). Til hægri er Brennihóll, (Þerrihóll). Fjær sér á Mylluhól. Kálgarður þeirra Lofts og Ágústínu var í bilinu á milli íbúðarhússins og Brennihóls.

Önnur umfjöllun á Heimaslóð: Ritverk Árna Árnasonar/Loftur Jónsson


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.