Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1974/ Sjómannadagurinn í Vestmannaeyjum 1972 og '73

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Minningarathöfn við minnisvarðann á lóð Landakirkju á sjómannadaginn 1972.
Sjómannadagurinn í Vestmannaeyjum 1972 og '73


Páll Þorbjörnsson afhendir Sverri Gunnlaugssyni hæsta nemanda við lokapróf frá Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum vorið 1972 Verðandaúrið og skjöld Einars Sigurðssonar.
Vikri og ösku mokað frá minnisvarðanum á lóð Landakirkju, vorið 1973. Ljósm. Guðm. Sigfússon.

Veður var eins og það getur fegurst orðið á vordegi. Fjalla- og jöklasýn til landsins en Eyjarnar skörtuðu grænum túnum og fjallatindum. Það var vika af júní. Daginn setti Guðjón Ármann Eyjólfsson og las m. a. Sjómannaminni eftir Sveinbjörn Á. Benónýsson. Á þessari fallegu morgunstund var mjög fjölmenn skrúðganga frá torginu við Samkomuhúsið og sem leið liggur vestur Vestmannabraut, upp Heiðarveg og til Landakirkju. Þar flutti sr. Þorsteinn Lúther Jónsson ágæta og minnisstæða sjómannaræðu og börn sjómanna voru færð til skírnar. Við minnisvarðann talaði Einar J. Gíslason frá Arnarhóli og mæltist þeim mikla mælskumanni og Vestmannaeyingi vel að vanda. Magnús Jónsson óperusöngvari söng við athöfnina og síðan lagði kona á íslenzkum þjóðbúningi krans að minnisvarða drukknaðra og hrapaðra, og þeirra, sem farist hafa í flugslysum.
Síðdegis var dagskrá á Stakkagerðistúninu; heldur hafði þykknað í lofti, en þó var gott veður. Aðalræðu dagsins flutti þar Hilmar Rósmundsson og mæltist skörulega.
Um kvöldið voru fjölbreytt hátíðahöld í Samkomuhúsi Vestmannaeyja og aflakóngur og fiskikóngur heiðraðir.
Á Stakkagerðistúninu var sigurvegurum í íþróttum laugardagsins, kappróðri og koddaslag afhent verðlaun. Aldraðir sjómenn voru heiðraðir og veitt voru viðurkenningarskjöl fyrir björgun mannslífa.
Heiðraðir fyrir björgun mannslífa voru: Guðmundur Loftsson og Guðmundur Guðfinnsson fyrir björgun Benónýs heitins Friðrikssonar, sem féll í Vestmannaeyja 1. mars 1972. Stefán Runólfsson fyrir björgun barns, er féll í Vestmannaeyjahöfn, og Bergvin Oddsson fyrir björgun Rögnvalds Jóhannssonar, sem féll í Vestmannaeyjahöfn 6. október 1971.
Aldraðir sjómenn, sem voru heiðraðir, voru: Jón Hinriksson Skólavegi 45, Egill Árnason vélstjóri og Björgvin Jónsson skipstjóri frá Úthlíð.
Útiíþróttir höfðu verið eftir hádegi á laugardeginum inni í Friðarhöfn og tókust þær ágætlega. Þar var kappróður, koddaslagur og björgunaræfing. Skotið var línu frá Friðarhafnarbryggju út í Lóðsinn, sem lá úti á Botninum og var maður dreginn frá skipinu og í land. Formaður björgunarsveitar Björgunarfélags Vestmannaeyja, Kristinn Sigurðsson, stjórnaði æfingunni, sem þótti takast vel. Í koddaslag kepptu Tómas Jónsson, Þröstur Hjörleifsson og Ingimundur Bernharðsson.
Mjög góð þátttaka var í kappróðrinum og tóku fjórar skipshafnir þátt í róðrinum, skipshafnir Hrauneyjar, Halkions, Gjafars og Gullbergs. Skipstjórar bátanna stýrðu í kappróðrinum, þeir Guðjón Kristinsson, Stefán Stefánsson, Rafn heitinn Kristjánsson og Guðjón Pálsson. Bestan tíma skipshafna hafði sveit Gullbergs, 1 mín. 43,3 sek.
Frá fiskvinnslustöðvunum kepptu þrjár sveitir: sveit Vinnslustöðvar, Hraðfrystistöðvar og Fiskiðju. Bestan tíma hafði sveit Vinnslustöðvar 1 mín. 35,6 sek., stýrimaður var Jóhannes Sigmarsson. Frá öðrum landfyrirtækjum keppti sveit rafvirkja og náði tímanum 1 mín. 35,4 sek., stýrimaður Kristinn Sigurðsson. Fjórar kvennasveitir kepptu í tveim riðlum, sveit Ísfélags, Fiskiðju og Vinnslustöðvar og Þórsstúlkur. Bestan tíma meðal kvennasveitanna hafði sveit Fiskiðjunnar 1 mín. 53,4 sek., stýrimaður sveitarinnar var Björn Kristjánsson. Tvær unglingasveitir reru, mömmupeyjar og fermingardrengir austurbæjar. Mömmupeyjar unnu í tímanum 1.40,4.

Tvær mjög skemmtilegar áhugamannasveitir ungra sjómanna kepptu, sveit Steinaldarmanna og sveit Sjóengla. Sveitir þessara rösku og líflegu stráka sýndu sérstaklega skemmtilegan róður og reru þær saman í riðli, Steinaldarmenn á Ólafi og Sjóenglar á Hreyfli. Steinaldarmenn sigruðu á tímanum 1.32,6, stýrimaður sveitarinnar var Gústaf Ó. Guðmundsson. Sveit Sjóengla, stýrimaður Sigurjón Sigurðsson, hafði tímann 1.33,9.

Gústaf Ó. Guðmundsson stýrimaður „Steinaldarmanna“.

Róðrartímar þessara tveggja sveita var besti tíminn hjá þeim 16 sveitum, sem tóku þátt í róðrinum.

Steinaldarmenn hafa tekið þátt í róðri á sjómannadeginum í Vestmannaeyjum samfleytt í sex ár og hefur Gústaf Ó. Guðmundsson vélstjóri alltaf verið stýrimaður sveitarinnar og fyrirliði. Vann sveitin sinn fyrsta sigur í riðli unglinga á sjómannadeginum 1968. Er í sjómannadagsblaðinu 1969 mynd af þeim peyjum og er gaman að sjá þá breytingu, sem orðið hefur á körlum, en þeir eru flestir hinir sömu í dag.

Þessir piltar héldu vel uppi merki Eyjanna á sjómannadeginum í Reykjavík í fyrra í Nauthólsvík og höfðu bestan tíma róðrasveita þar, 2 mín. 26,3 sek. Þeir sigruðu í sínum riðli sveit Glímufélagsins Ármanns, sem reri á 2.30,7. Á sjómannadeginum í Reykjavík er róin vegalengd 500 metrar og er spurning hvort ekki ætti að lengja hér brautina, sem hefur verið 300 metrar. Með því fengist samanburður á róðrasveitum annars staðar á landinu og væri skemmtilegt, ef sama vegalengd væri um land allt í kappróðrinum. Í Vestmannaeyjum hefur ekki verið svo góð kappróðrarsveit sem Steinaldarmenn eru, síðan hin ágæta róðrasveit vélstjóra var hér. En sveit vélstjóra tók þátt í landsmóti róðrasveita í Hafnarfirði árið 1955 og varð þar sigursælust. Stýrimaður sveitarinnar var Tryggvi Gunnarsson vélstjóri en ræðarar voru Jón Gunnarsson Horninu, Þorsteinn heitinn Gunnarsson (bræður stýrimannsins), Eggert Ólafsson, Sveinn Valdimarsson, Ármann Böðvarsson og Guðfinnur Þorgeirsson.


Sjórnannadagurinn í Vestntannaeyjum 1973:
Af eðlilegum orsökum voru ekki hátíðahöld í Vestmannaeyjum á sjómannadaginn vorið 1973. Eldgosið var þá enn í gangi, og aska og vikur lá yfir mikinn hluta bæjarins.
Að tilhlutan Sjómannadagsráðs var vikur hreinsaður frá minnisvarða drukknaðra og hrapaðra og var lagður blómsveigur að minnisvarðanum. Einar J. Gíslason flutti ritningar- og minningarorð, síðan söng ung stúlka við undirleik á gítar. Þetta var látlaus en tilkomumikil athöfn í góðu veðri.
Um kvöldið héldu sjómenn frá Vestmannaeyjum ágætan fagnað að Hótel Borg og voru þar aflakóngar heiðraðir og fram fór afhending Verðandaúrsins. Ómar Ragnarsson skemmti og stiginn var dans. Var þetta hinn besti fagnaður.
Sjómannadagsráð Reykjavíkur sýndi sjómönnum frá Eyjum mikla samstöðu og hluttekningu vegna hinna sérstöku aðstæðna, að Eyjaflotinn var dreifður um allar verstöðvar sunnanlands.
Sjómannadagsblaðið var helgað Vestmannaeyjum og eldgosinu þar að miklu leyti og á forsíðu þess var ægifögur litmynd af Landakirkju með eldsúluna í bakgrunni. Ræðumenn dagsins auk sjávarútvegsmálaráðherra, sem ávallt flytur ávarp á sjómannadeginum í Reykjavík, voru báðir frá Eyjum; Guðjón Ármann Eyjólfsson, skólastjóri Stýrimannaskólans í Vestmannaeyjum, sem talaði fyrir hönd sjómanna og Björn Guðmundsson, formaður Útvegsbændafélags Vestmannaeyja, sem talaði fyrir hönd útgerðarmanna.

Tvær sveitir frá Vestmannaeyjum tóku þátt í kappróðrinum, Steinaldarmenn og kvennasveit Ísfélags Vestmannaeyja (við Kirkjusand). Það var fagurt veður í Reykjavík á sjómannadaginn 1973, og fjöldi Vestmannaeyinga var í Nauthólsvík með fjölskyldur sínar þennan dag.

Steinaldarmenn. Hinir knáu ræðarar í sveitinni talið frá vinstri: Stefán Geir Gunnarsson, Georg Þór Kristjánsson, Ólafur Guðjónsson, Grétar Halldórsson, Guðmundur Rafn Gunnarsson, Jón Óli Jóhannesson.
Skrúðganga Sjómannadagsins 1972 heldur vestur Vestmannabraut. Lúðrasveit Vestmannaeyja í broddi fylkingar, stjórnandinn Ellert Karlsson blæs trompet á miðri mynd.
Við minnisvarðann á Sjómannadeginum í Vestmannaeyjum 1973.