Bergvin Oddsson

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Bergvin Oddsson.

Bergvin Oddsson frá Norðfirði, útgerðarmaðuir, skipstjóri fæddist þar 22. apríl 1943 og lést 22. september 2018 á Landspítalanum.
Foreldrar hans voru Oddur Alfreð skólastjóri Gagnfræðaskólans og Iðnskólans í Neskaupstað, síðar Víghólaskóla í Kópavogi, en síðast bókasafnsvörður í Eyjum, f. 23. júlí 1911 á Grund í Svínadal í A-Húnavatnssýslu, d. 26. marz 1983 í Eyjum, Sigurjóns bónda á Rútsstöðum í Svínavatnshreppi þar, f. 7. júní 1891 í Brautarholti í Reykjavík, d. 10. september 1989 á Blönduósi, Oddssonar og barnsmóður Sigurjóns, Ingibjargar verkakonu í Þórðarhúsi í Blönduóshreppi og húsfreyju á Vesturá, f. 31. desember 1882 á Blönduósi, d. 10. október 1955, Jósefs bónda á Hamri í Svínavatnshreppi, Jósefssonar bónda í Hlíð í Norðurárdal, Helgasonar.
Móðir Bergvins og kona (13. ágúst 1938) Odds skólastjóra var Magnea Sigríður húsfreyja, matráðskona við barnaskóla í Kópavogi, síðar við Barnaskóla Vestmannaeyja, f. 26. febrúar 1917, d. 1. okt. 2001, Bergvins kennara og verkamanns á Svalbarðseyri við Eyjafjörð, f. 21. júní 1882, d. 11. janúar 1965, Jóhannssonar og konu Bergvins, Sumarrósar húsfreyju, Magnúsar bónda á Efri-Vindheimum á Þelamörk í Eyjafirði, Oddssonar.

Systkyni Bergvins - í Eyjum:
1. Hrafn Óskar Oddsson útgerðarmaður, sjómaður, f. 2. nóvember 1945.
2. Lea Oddsdóttir ljósmóðir, hjúkrunarstjóri, f. 27. september 1955.

Bergvin var með foreldrum sínum í æsku.
Hann hlaut skipstjórnaréttindi í Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1964.
Bergvin varð ungur sjómaður. Eftir Sjómannaskólann leituðu Bergvin og María til Eyja. Hann stundaði sjómennsku hjá frænda sínum Helga Bergvinssyni og hjá fleiri fyrst eftir komuna til Eyja. Árið 1969 tók hann við skipstjórn á Ver VE. Árið 1974 stofnuðu hjónin, í félagi við Hrafn bróður Bergvins og mág hans, útgerðarfélag, sem gerði út fiskiskipið Glófaxa VE 300. Samanlagt var Bergvin skipstjóri á fiskiskipum í Eyjum í næstum 40 ár. Árið 1986 keyptu hjónin félaga sína út úr útgerðinni og stjórnuði henni til loka árs 2017.
Árið 2005 keypti Bergvin og gerði út litla trillu, Glófaxa II. VE 301.
Við andlát Bergvins var fjölskyldan með í smíðum nýjan 12 tonna plastbát, sem hefur fengið nafnið Glófaxi VE 300.
Bergvin tók þátt í störfum LÍÚ og sat í stjórnum og ráðum hinna ýmsu fyrirtækja og félaga í Eyjum og víðar. Má þar nefna Vinnslustöðina hf., Vörð hf., Skipstjóra- og stýrimannafélagið Verðandi og Útvegsbændafélag Vestmannaeyja.
Bergvin var félagi í Kiwanisklúbbnum Helgafelli í Vestmannaeyjum, auk þess að starfa náið með félagi eldri borgarara í Eyjum.
Þau María tóku saman 1962, eignuðust þrjú börn. Þau bjuggu síðast á Illugagötu 36.
Bergvin lést 2018 og María 2022.

I. Kona Bergvins var María Friðriksdóttir húsfreyja, útgerðarmaður, verkakona, f. 1. mars 1943 á Skálum á Langanesi, d. 18. febrúar 2022 á heimili sínu Illugagötu 36.
Börn þeirra:
1. Lúðvík Bergvinsson skipstjóri, hæstaréttarlögmaður, alþingismaður, yfirlögfræðingur, fulltrúi bæjarfógeta, f. 29. apríl 1964 í Kópavogi. Kona hans Þóra Gunnarsdóttir.
2. Magnea Bergvinsdóttir húsfreyja, bókari, fyrrum útgerðarstjóri, f. 9. maí 1965 í Kópavogi. Hún eignaðist tvö börn með David Lee Davis. Maður Magneu er Þorvarður Ægir Hjálmarsson.
3. Haraldur Bergvinsson skipstjóri, sjávarútvegsfræðingur, trillukarl, f. 21. ágúst 1972. Fyrrum kona hans Hrefna Óskarsdóttir. Fyrrum sambúðarkona Solveig B. Magnúsdóttir. Sambúðarkona Sigurlín Guðjónsdóttir.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.