Einar J. Gíslason

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit
Óskar, Saló, Þyrí, Svava og Einar

Einar Jóhannes Gíslason fæddist í Vestmannaeyjum 31. janúar 1923 og lést 14. maí 1998. Foreldrar Einars voru Gísli Jónsson, útvegsbóndi á Arnarhóli og Guðný Einarsdóttir . Systkini Einars voru Guðný Svava, Salóme, Óskar Magnús, Hafsteinn Eyberg og Kristín Þyrí.

Þann 23. maí árið 1948 kvæntist Einar fyrri konu sinni, Guðnýju Sigurmundsdóttur. Guðný fæddist 1. janúar 1926 og lést 6. október 1963. Börn þeirra urðu þrjú. Elst er Guðrún Margrét, fædd 16. desember 1949. Hún er meðferðarfulltrúi hjá Samhjálp og býr í Reykjavík og á hún tvö börn. Í miðjunni er Guðni, fæddur 23. febrúar 1953. Guðni er blaðamaður á Morgunblaðinu og býr í Breiðholti. Hann er kvæntur Guðfinnu Helgadóttur og eiga þau fjögur börn. Yngstur barna Einars og Guðnýjar er Sigurmundur Gísli, fæddur 26. september 1957. Sigurmundur rekur ferðaþjónustu í Vestmannaeyjum ásamt fjölskyldu. Hann er kvæntur Unni Ólafsdóttur og eiga þau fimm börn.

Einar að skoða björgunarbáta.

Þann 11. apríl 1964 kvæntist Einar eftirlifandi eiginkonu sinni, Sigurlínu Jóhannsdóttur. Hún er fædd 11. júlí 1929. Dóttir þeirra er Guðný, fædd 15. mars 1965, og er húsmóðir í Englandi, gift Robert Pearson.

Einar bjó í Vestmannaeyjum til 1970 og vann þar við vélgæslu, útgerð og sjómennsku með Óskari bróður sínum. Hann var fyrsti skoðunarmaður björgunarbáta í Vestmannaeyjum, vélaeftirlitsmaður og eftirlitsmaður Skipaskoðunar ríkisins. Þá var Einar verkstjóri á grafskipinu Vestmannaey og vann á lóðsbátnum Létti.

Einar gekk í hvítasunnusöfnuðinn sextán ára gamall og starfaði þar af miklum krafti alla tíð. Hann var forstöðumaður Betelsafnaðarins í Vestmannaeyjum frá árinu 1948 til 1970 og forstöðumaður Fíladelfíusafnaðarins í Reykjavík frá 1970 til ársins 1990.

Einar á sjómannadaginn 1976.

Á sjómannadeginum í Vestmannaeyjum veitti Einar öldnum sjómönnum lengi vel viðurkenningu fyrir vel unnin störf. Athöfnin fór fram við minnismerki drukknaðra sjómanna í garði Landakirkju og gat Einar samtvinnað reynslu sína sem sjómanns við athöfnina. Urðu ræður Einars því oft ógleymanlegar þeim sem á hlýddu. Einhverju sinni var Einar að heiðra aldinn sjómann og gat hann þess að margan fiskinn hefði öldungurinn dregið úr sjó á langri lífsleið. Síðan leit Einar til himins og bætti við að allra besta dráttinn hafi þessi ágæti sjómaður fengið þegar hann gekk að eiga eiginkonu sína elskulega á árunum eftir stríð. Í kaffisamsæti eftir athöfnina spurði einhver Einar um meintan orðaleik sem hann svaraði með undrunarsvip.

Einar lést á Droplaugarstöðum í Reykjavík árið 1998, 75 ára gamall.

Myndir