Ritverk Árna Árnasonar/Nokkrar upplýsingar um hjónin í Stakkagerði

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Úr fórum Árna Árnasonar


Nokkrar upplýsingar um hjónin í Stakkagerði
Ásdísi og Árna Diðriksson
(brot úr ættarskrá)Árni Diðriksson var fæddur 1829 og mun hafa komið til Eyja um 1850. Faðir hans var Diðrik bóndi í Hólminum í Landeyjum, f. 1794 á Önundarstöðum, Jónssonar bónda, f. 1764 í Gaularáshjáleigu, Diðrikssonar.
Móðir Árna var Sigríður, f. 1800, Einarsdóttir frá Bryggjum í Landeyjum, Jónssonar í Hólmahjáleigu, og konu hans Guðnýjar Þorsteinsdóttur frá Bryggjum. Sigríður lést hér í Stakkagerði hjá Árna syni sínum 1892, fylgdi hún öldinni, sem kallað var.
Systkini Árna:
1. Þórður Diðriksson, er síðar varð mormónabiskup í Utah og einn af fyrstu Íslendingum til að taka þá trú. Hann var fæddur 26. mars 1828, kom til Eyja 1851, fór héðan 1855 til Ameríku, Utah. Hefir birt ferðasögu sína um vesturförina, sem var all söguleg. Kona hans var Helga frá Klasbarða Jónsdóttir. Fleiri konur mun hann eflaust hafa átt, en Helga var sú fyrsta. Börn áttu þau a.m.k. 6 og voru 4 á lífi 1940 (átti börn með öðrum konum sínum?).
2. Magnús Diðriksson, drukknaði á „Hansínu“ í mars 1863 með Sæmundi Ólafssyni er var bróðir Bjarna í Svaðkoti, föður Guðríðar sál. í Brautarholti hér.
Sonur Magnúsar var Guðmundur er flutti til Utah 1889 og lést þar 1890. Hans kona var Hildur frá Miðgrund, Eyjafjöllum, Eyjólfsdóttir. Var hún ekkja eftir Ólaf Hreinsson frá Batavíu hér. Hafði flust til USA ásamt Sigríði dóttur sinni 1887, til Utah 1889 og til Blaine 1901.
3. Sammæðra hálfbróðir Árna var Guðmundur Einarsson, er giftist Auðbjörgu Bjarnadóttur Bjarnasonar frá Löndum á Hvalsnesi. Guðmundur lést í Spanish Fork 1882 eða sama árið og hann flutti vestur. Ekkja hans varð kona Hjálmars Björnssonar frá Vatnsnesi, hins kunnasta og mætasta manns.
4. Ragnhildur Diðriksdóttir bjó í Hólminum. Um hana er lítið vitað. Tveir synir hennar, Guðlaugur og Magnús, drukknuðu við Sandinn 26. mars 1893, þriðjudag fyrir páska, með Jóni Brandssyni frá Hallgeirsey, er var faðir Ingibjargar í Svaðkoti, (Suðurgarði) og Steinvarar í Nýjabæ etc.
5. Guðmundur Diðriksson var hér í Stakkagerði hjá Árna bróður sínum. Barn hans með Sigríði Árnadóttur frá Rimakoti í Landeyjum Pálssonar, er var systir Árna Árnasonar á Vilborgarstöðum (þess er drukknaði á skipinu Gauk 18. mars 1874) var Guðmundur í Hrísnesi hér, fæddur að Úlfsstöðum 26. ágúst 1867. Kona hans var Guðríður Andrésdóttir, er nú býr í Hrísnesi.
Fleiri voru börn Guðmundar Diðrikssonar, t.d. með Kristínu Jónsdóttur, síðast að Mosfelli hér:
a. Jenný Guðmundsdóttir á Mosfelli, er gift var Jóni Guðmundssyni þar, d. 1927.
b. Kristín, kona Hallbjarnar prentsmiðjustjóra Halldórssonar.
c. Oddný, kona Helga Jónassonar á Reynifelli Árnasonar.
d. Sigríður Guðmundsdóttir, gift Arnfinni Antoníussyni.
e. Oktavía, f. 1905.
Þá var og dóttir Guðmundar Diðrikssonar
f. Þórunn, móðir Hannesar á Hæli hér Hreinssonar. Einnig var dóttir Guðmundar
g. Þorgerður er gift var Jónasi Þorvaldssyni frá Krosshjáleigu. Er þeirra son Guðjón Jónasson trésmiður. Seinni maður Þorgerðar var Ólafur í Akurey Ólafsson, o.s.frv.

Árni Diðriksson var kvæntur Ásdísi, f. að Núpshjáleigu, Berunessókn 1816, Jónsdóttur yngra, bónda í Núpshjáleigu, f. 1789, drukknaði 1865, Jónssonar bónda og hreppstjóra í „Gautavík“, f. 1749, d. 1792, Jónssonar. Móðir Ásdísar og kona Jóns yngra var Þórdís Einarsdóttir frá Teigarhorni, Þorbjarnarsonar, en móðir Þórdísar var Lísibet eldri Bessadóttir lóðs og hreppstjóra. Lísibet var tvígift, fyrst Einari að Teigarhorni, síðar Árna Steingrímssyni frá Hlíð í Lóni. Kona Jóns hreppstjóra í Gautavík og föðuramma Ásdísar í Stakkagerði, var Ásdís Hermannsdóttir.
Systkini Ásdísar í Stakkagerði voru:
1. Þorvarður, kv. Kristbjörgu Sigurðardóttur o.fl. (þríkvæntur).
2. Guðlaug, kona Brynjólfs Jónssonar.
3. Jón, kv. Elísabetu Sigurðardóttur.
4. Jón í Borgargarði, kv. Önnu Jónsdóttur (seinni kona). Frá Jóni er Lúðvík Lúðvíksson skipstjóri kominn (dóttursonur).
5. Lísibet, kona Þórarins Richardssonar Long.
6. Málfríður, kona Bjarna Þórðarsonar.
7. Árni 8., Einar 9., Ólafur 10., Rebekka (dó ung).
Um Jón og Ásdísi í Gautavík er sagt, að þau hjón hafi bæði orðið fyrir skriðuhlaupi að Gautavík og farist 26. júní 1792. Fundust þau rekin af sjó daginn eftir og voru jarðsett 30. sama mán. Þrjú börn áttu þau hjón, öll kornung, þ.e. Jón, f. 1789 (faðir Ásdísar í Stakkagerði), kv. Þórdísi Einarsdóttur, Guðlaug, f. 1790, giftist Jóni Antoníussyni og Guðrún, f. 1792, snemma árs, giftist Antoníusi Antoníussyni, og voru þeir Jón og Antoníus bræður etc.
Ásdís í Stakkagerði var fyrst gift Anders Asmundsen skipstjóra frá Arendahl í Noregi.
Hann fórst með allri áhöfn af dekkbát 1851.
Börn Ásdísar og Anders skipstjóra voru þessi:
I. María, f. 1839, d. 1916, giftist Gísla eldra, f. í Vestmannaeyjum 1837, syni Jóhanns Bjarnasen Bjarnasonar verslunarstjóra frá Vatnsleysu í Skagafirði. Fóru þau hjón til Danmerkur 1883 ásamt sex börnum sínum:
1. Jóhann fór til USA, ílentist þar.
2. María, giftist í Svendborg.
3. Rósa, giftist A.H. Danielsen skrifstofustj. hjá Sameinaða.
4. Níels, varð kaupm. í London.
5. Pétur, verslunarstj. í Köbenhavn.
6. Jóhanna, giftist í Köbenhavn.
Utan hjónabands átti Gísli Bjarnasen son, Gísla Bjarnasen yngri, er lést 1897 og var faðir Jóns GíslasonarÁrmóti hér. Var Gísli yngri lærður trésmiður úr Reykjavík og varð beykir og verslunarmaður í Eyjum.
II. Tumína, f. 1842-43, fór til Danmerkur og giftist þar, átti a.m.k. tvo syni (frekari uppl. ókunnar).
III. Soffía Lísebet, f. 8. október 1847, d. 10. júní 1936 að Hlíðarhúsum, varð kona Gísla Stefánssonar kaupmanns, f. 28. ágúst 1842, d. 25. september 1903, af Selkotsætt, og voru þeirra börn past. emer. Jes A. Gíslason og þau systkini.
Ætt Ásdísar í Stakkagerði er mjög mikil og kunn austanlands og sunnan, hér í Eyjum og utanlands. Tekur hún til margra mannkosta- og göfugmenna, sem kunnir eru um land allt, en yrði allt of langt upp að telja. Einkennandi fyrir ættina er, hve almennt og gegnumgangandi eftirfarandi nöfn finnast í henni, t.d. Ásdís, Lisebet, María, Antonía, Antoníus, Árni og fl. ættlið eftir ættlið og í margar ættgreinar.
Árni Diðriksson var mikilmenni sinnar tíðar, fjölhæfur mjög og hefir komið allmjög við sögu sinna tíma. Fiskimaður þótti hann góður og snjall formaður, en þaulsætinn og kappsfullur að sögn, þekktur, m.a. fyrir langa formannsævi á Gideon VE 14 og farsæla.
Um þaulsætni hans og fiskisæld var þetta kveðið af Árna skáldi Níelssyni:

Happadrjúgur hreppstjórinn
hölda meðal frækinn.
Síðastur og sökk-hlaðinn,
syndir Árni í „Lækinn“.

Ásdís var og mesti kvenskörungur í hvívetna, vel skáldmælt og vel látin. Flest mun þó glatað af kveðskap hennar, en það sem enn þekkist ber ótvírætt með sér góðar gáfur og rímfastan orðaleik. Einkabarn Ásdísar og Árna Diðrikssonar var Jóhanna Sigríður, fædd 11. nóvember 1861, d. 10. júní 1932, kona Gísla í Stakkagerði, f. 6. febrúar 1865, d. 27. september 1935 Lárussonar hreppstjóra á Búastöðum Jónssonar. Var Gísli, sem kunnugt er, hinn mætasti maður í hvívetna og þau hjón meir en héraðskunn fyrir hvers konar myndarskap og mannkosti.
Árni Diðriksson var hinn mesti fuglaveiðimaður á heimalandi og úteyjum, slyngastur holuveiðimaður næst Samúel Bjarnasyni, (Kirkjubæ), er til Ameríku fór héðan úr Eyjum árið 1855.
Þau urðu ævilok Árna Diðrikssonar í Stakkagerði, að hann hrapaði til dauðs úr svonefndri Rauf norðan í Stórhöfða 29. júlí 1903. Náðist líkið og var það svo lítið skaddað að ekki varð með vissu séð, hvort hann hefði látist vegna drukknunar eða innvortis meiðsla. Árni var talinn hér einhver mesta skytta og átti mjög góða byssu, sem hann notaði mikið. Til menningar og framfara í fuglaveiðum lagði Árni þann mikla skerf að fá hingað til Eyja hinn fyrsta lundaveiðiháf, (er varð til þess að útrýma greflaveiðinni illræmdu) árið 1875, og kom hann til notkunar árið eftir.

Ofangreint efni mun Árni Árnason hafa tekið saman fyrir Þorstein Þ. Víglundsson, skólastjóra, en þeir unnu mikið og náið saman um árabil. Eftirfarandi er skrifað undir þessa samantekt:
Þorsteinn
Hér hef ég rissað upp nokkrar upplýsingar um þessar tvær ættir, sem þú hefir minnst á. Hygg ég þetta sé meir en nóg í bili um þetta, þó nánar sé hægt að fara út í ættliðina, ef þú vilt?
Árni Árnason


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit