Árni Níelsson (Löndum)

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Árni Níelsson vinnumaður á Löndum fæddist 18. júní 1842 og lést 11. desember 1864.
Foreldrar hans voru Níels Þórarinsson bóndi í Hólmahjáleigu í A-Landeyjum, síðar vinnumaður í Brekkuhúsi, f. 20. febrúar 1811, d. 25. ágúst 1867 og kona hans Sigríður Guðmundsdóttir húsfreyja, f. 26. desember 1813, drukknaði 29. september 1855.

Systir Árna var Valgerður Níelsdóttir húsfreyja á Kirkjubæ, síðar Vestanhafs, f. 27. maí 1847, d. 6. apríl 1919.
Móðursystkini Árna í Eyjum voru:
1. Árni Guðmundsson bóndi í Brekkuhúsi, f. 18. desember 1817, d. 20. júlí 1889, kvæntur Þóru Stígsdóttur.
2. Þorgerður Guðmundsdóttir vinnukona í Brekkuhúsi, f. 15. febrúar 1824, d. 1. júní 1866, ógift.
3. Guðmundur Guðmundsson gullsmiður, mormónatrúboði og forseti safnaðarins í Eyjum, síðar í Lehi í Utah, f. 10. mars 1825, d. 20. september 1883, kvæntur Maríu Guðmundsson (dönsk kona).
4. Guðrún Guðmundsdóttir húsfreyja í Vanangri, f. 19. september 1828, d. 9. september 1860, gift Magnúsi Eyjólfssyni silfursmið.
5. Benedikt Guðmundsson vinnumaður í Háagarði, f. 19. apríl 1821, drukknaði 26. mars 1842. Hann var faðir Péturs í Þorlaugargerði ættföður eldri Oddsstaðasystkina.

Árni var með fjölskyldu sinni í Hólmahjáleigu í A-Landeyjum 1845. Hann var 5 ára, er foreldrar hans skildu samvistir 1847, niðursetningur á Butru þar var hann 1850 og 1855.
Fimmtán ára (1857) kom hann til Eyja og varð vinnumaður á Ofanleiti, en 1860 var hann vinnumaður á Löndum og þar var hann síðan.
Hann var í Herfylkingunni.
Árni gat sér gott orð með hagmælsku sinni og var gjarnan kallaður Árni skáldi.
Þær vísur og vísubotn, sem kunnust eru birtast bæði í verkum Árna Árnasonar:
Tilvitnun: „Einu sinni kom maður inn í Austurbúð, er margir búðarstöðumenn voru þar fyrir, og sat Pétur faktor fyrir innan borð og tók þátt í glensi manna. Þá sagði sá nýkomni, en sá hét Sigmundur:

„Pétur situr hátt í höllu
í Helvítanna krá ...

Pétur var víst ekki hagmæltur, svo að hann kallar fram í búðina: „Blessaðir piltar, botnið nú fyrir mig.“ Og það stóð ekki á því. Árni skáld Níelsson var þarna staddur og segir:

„En Sigmundur er allt í öllu
andskotanum hjá.“ “

Tilvitnun: „Árni Diðriksson var mikilmenni sinnar tíðar, fjölhæfur mjög og hefir komið allmjög við sögu sinna tíma. Fiskimaður þótti hann góður og snjall formaður, en þaulsætinn og kappsfullur að sögn, þekktur, m.a. fyrir langa formannsævi á Gideon VE-14 og farsæla.
Um þaulsætni hans og fiskisæld var þetta kveðið af Árna skálda Níelssyni:

Happadrjúgur hreppstjórinn
hölda meðal frækinn.
Síðastur og sökk-hlaðinn,
syndir Árni í „Lækinn“.“

Árni Níelsson lést aðeins 22 ára gamall úr „lifrarveiki“.

I. Unnusta Árna var Vigdís Jónsdóttir á Vilborgarstöðum, f. 10. júní 1845, d. í Vesturheimi.
Barn þeirra var
1. Jóhanna Sigríður Árnadóttir, f. 9. júlí 1864, d. 7. febrúar 1938. Hún fór til Utah 1883 frá Fagurlyst. Hún var þrígift og eignaðist fjölda barna.


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.