Högni Sigurðsson (Vatnsdal)

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Sjá aðgreiningarsíðuna fyrir aðra sem hafa borið nafnið „Högni Sigurðsson


Högni og Guðný, ásamt börnum
Vestmannaeyjar
Ein er sú í Atlants-álum
öld af öld í ramma-slag.
Byltir af sér báru-fálum,
bifast ei vð högg né lag.
Rán og Kári úr reiðiskálum
ryðja á hana nótt og dag.
Aðdáendur áttu marga,
undurfagra eyjan mín;
tigin reisn og töfrar bjarga
tignaráhrif eykur þín.
Engin sprengja örg má farga
unaðsþokka, er af þér skín.
Þegar sumarsól í heiði
sindrar gulli' á klæðin þín,
dýrðleg ert sem dögg á meiði,
djúp þín ljúfu brosin fín.
Er þá furða' að að sér seiði
okkur, mætust eyjan mín?
Öll nú eitt í einu skrifi
upp með húrra fyrir þér,
svo undirtaki í Kletti og Klifi
kveðjuhróp frá þér og mér.
Vestmannaeyjar lengi lifi,
lofaðar, sem verðugt er.

Högni Sigurðsson í Vatnsdal fæddist 23. september 1874 að Görðum í Eyjum og lést 14. maí 1961, nær 87 ára að aldri. Móðir hans var Þorgerður Gísladóttir í Skel og faðir hans Sigurður Sigurfinnsson.


Högni var hálfbróðir Einars ríka en þeir áttu sama föður. Hann ólst upp í Boston til 19 ára aldurs. Hann var allæs 8 ára gamall, sem var óvenjulegt þá. Fyrri kona Högna hét Sigríður Brynjólfsdóttir og eignuðust þau 6 börn saman. Þau hétu Sigurður (1897), Ágústa Þorgerður (1900), Hildur Ísfold (1904), Guðmundur (1908), Haukur (1912) og Elín Esther (1917). Sigríður lést árið 1921, eftir 22 ára hjónband, einungis 44 ára. Rúmu ári eftir missinn, kvæntist Högni öðru sinni. Seinni kona Högna hét Guðný Magnúsdóttir. Eignuðust þau eitt barn, Hilmi.

Högni stundaði ýmis störf á unglingsárum þar til hann hóf nám við Flensborgarskólann í Hafnarfirði. Þaðan lauk hann kennaraprófi árið 1895. Hann fluttist á Norðfjörð í framhaldinu og þar var hann með stundakennslu og bauð þeim sem vildu upp á kennslu. Einng reri hann til sjós á sumrin frá Norðfirði. Ýmislegt þurfti hann að gera til þess að framfleyta fjölskyldu sinni og þurfti hann selja úr og harmonikku til þess að redda málunum. Högni var barnakennari í Vestmannaeyjum árin 1904-1908. Barnakennslan var aðeins lítill hluti af því sem að hann tók sér fyrir hendur. Hann var í landbúskapi, útgerð og við íshúsvörslu hjá Ísfélagi Vestmannaeyja. Högni var fyrsti vélstjóri sem keyrir frystivél í Eyjum. Hann fór til Danmerkur í nám, og var það til þess að Vestmannaeyingar gátu fryst vatn og vörur. Þar áður þurfti að treysta á frosið vatn í Vilpu og Herjólfsdalstjörn, börnum til mikillar mæðu. Í íshúsinu var beita kæld og höfð tilbúin til veiða. Högni var hagmæltur og gerði mikið að því að kveða ljóð. Hann samdi um margt og verður eitt kvæði birt hér til hliðar sem hann samdi um eyjuna. Högna var mikið annt um Vestmannaeyjar og tók þátt í ýmis konar menningarstarfi. Hann var kosinn til setu í fyrstu bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar, en hann sat á fjórum af þeim sjö flokkum sem buðu fram til kosninganna.




Úr fórum Árna Árnasonar


Gullskreyttur sem general
Eftir Högna Sigurðsson í Vatnsdal


Stefán Árnason
Gullskreyttur sem general,
góðkunnur frá Mandal.
Er í leynum allsstaðar,
en alltaf laus við skandal.
Þegar bófar brjótast inn,
bæði á nóttu og degi,
yfirþjóninn ávallt finn
uppi á Kirkjuvegi.


Gísli Finnsson
Mikið hefir maður reynt
meðal vor á jörðu,
ekið bíl og blásið horn
og braski lent í hörðu.
Munnhörpur og mandólín
mönnum vildi selja.
Það er ekki heiglum hent
hörmung hans að telja.


Einar Sigurðsson
(Var að byggja neðanjarðaríshúsið).
Maður nokkur byggði bæ
bjargföstum á steini
og að ári aðra hæð
og undirgang í leyni.
Nú á prjónum hefir haft
húsinu að skjóta
upp á háan Heimaklett,
hárunum til bóta.


Baldur Ólafsson
(Var þá með umboð fyrir Egilsöl og Bláa borðann).
Maður nokkur býr á Borg
býsna toginleitur,
því að norskum eplum af
enginn verður feitur.
Líka reyndi Egilsöl,
ekkert bættist hagur.
Blái borðinn bestur er,
en Baldur er jafn magur.


Jóhann Gunnar Ólafsson bæjarstjóri
(þá í deilum við Gróu).
Borgarstjórans ljúfu lund
létt er mjög að særa.
Gróa hefir gert það nóg,
grimm var mjög sú skæra.
Frúin vildi ei fara burt
fyrir Kirkjuvegi.
Veslings Gunnar bað og bauð,
en bænir tjáðu eigi.


Ólafur Kristjánsson
Óli nokkur arkitekt
alveg hætti að smíða.
Það er ekki undarlegt,
þó eitthvað yrði að bíða.
Núna selur náttpotta,
netagarn og tjöru.
Það kvað þykja feikna fínt
að fást við þessa vöru.


Sigurbjörn Kárason
Kárason er kvensamur,
kætir ungar meyjar.
Vinnukonur veiðir hann
víða um þessar eyjar.
Yngismeyjar afgreiðir
með undirkjóla og sokka.
Ræl og tangó virkta vel
vinurinn kann að skokka.


Sigurður Guttormsson
Siggi Gutt er gáfaður
og gefinn fyrir móðinn,
unni funkis, þýskri þjóð,
Þorsteins kunni ljóðin.
En kapítal og krónujakt
kvað hann djúpt í fallinn.
Klárast þetta kom í ljós,
er keypt hann Thomsens hjallinn.


Leifur á Bakka
Leifur málar hænsnahús
höfðingjanna í bænum.
Fimur er í fjallgöngum.
(hér vantar ljóðlínu )
Ekur stiga út um bæ
einhver var að hlæja.
Sá hlær best sem síðast hlær,
en vi estas gæja.


Siggi Jónsson (orðtak: eins og hundarnir á hinum bæjunum).
Góðar vörur fást í Fram,
fangalína og krani.
Siggi Jóns er sagður þar
sífellt vera á spani,
sem hundarnir á hinum bæ
í hverju máli geltir,
og sannfæringin síviljug
síðasta manninn eltir.


Skynji hani hanagal.
hann fer líka að gala
eins vill Siggi í umræðum
í öllum málum tala.
Viðlag:
Það skeður enn, það skrafa menn,
það skeður alla tíma,
það skeður nær það skeður fjær,
það skeður líka í síma.
það skeður æ um sveit og sæ,
það skeður líka á fundum,
það skeður nú og skilur þú,
það skeður öllum stundum.


Jóhannes Long Jóhannesson
Strákur nokkur austan að
öllu góðu kunnur, :
umboðsmaður útsmoginn,
andans mesti brunnur.
Áður seldi Akra smjör,
öl og kaffibæti.
Gefjun hefir græjað hann
gott í kaupmanns sæti.


Kjartan Jónsson, Búastöðum
Sjóveituna situr við
sæll í öðrum heimi.
Óttalegur andafans
oft er þar á sveimi.
Kjartan unir kátur þar
í kuldahríð og gjósti,
því átján pakka af opelskro
andar sendu í pósti.


Guðmundur skósmiður Jónsson
(Var þá nýrekinn úr stjórn Kaupfélags Alþýðu.
Guðmundur er góðmenni,
glaður öllum stundum.
Alltaf sést hans blíða bros,
en best á kratafundum.
Kaupfélagi kratanna
kom hann upp með Jónum.
Núna hefir hugur hans
hallast mest að skónum.


Óskar Bjarnasen
(Vantaði alltaf í nefið)
Alltaf hljóma orðin söm
á okkar skemmtifundum,
þegar blíður Bjarnasen
byrjar ræður stundum.
Lokar augum, hóstar hátt,
hábölvað er kvefið.
Geturðu ekki, greyið mitt,
gefið mér í nefið.


Gísli rafvirki,
(kallaður Pexikon,
fékkst við loftnetauppsetningu).
Uppi á strompum allsstaðar,
einn í ströngu jobbi.
Lýður horfir hugfanginn,
heldur að þar sé Tobbi.
Karlar hafa kvartað mjög,
kjöt úr strompum týnist.
Poka hefir Pexikon
og plokkar þegar sýnist.


Myndir



Heimildir

  • Hilmir Högnason. Munnleg heimild.