Oddgeir Þórðarson Guðmundsen
Oddgeir Þórðarson Guðmundsen var prestur í Vestmannaeyjum frá 1889 til 1924.
Hann var fæddur 11. ágúst 1849 í Árnessýslu. Foreldrar hans voru Þórður sýslumaður og konungkjörinn alþingismaður á Litla-Hrauni á Eyrarbakka, f. 11. apríl 1811, d. 19. ágúst 1892, Guðmundsson verslunarmanns á Ísafirði, f. 1762, d. 12. september 1835, Ketilssonar, og konu Guðmundar Ketilssonar, Sigríðar húsfreyju, f. 1785, d. 20. mars 1866, Helgadóttur prests Einarssonar og konu sr. Helga Guðrúnar Árnadóttur.
Móðir sr. Oddgeirs og kona Þórðar sýslumanns (9. janúar 1841) var Jóhanna Andrea húsfreyja, f. 8. október 1817, d. 17. desember 1883, Lárusdóttir (Lauritzdóttir) kaupmanns í Reykjavík, Knudsen og konu hans, Margrethe Andreu Hölter Knudsen.
Oddgeir lauk stúdentsprófi frá Lærðaskólanum í Reykjavík árið 1870 og lauk embættisprófi í guðfræði frá Prestaskólanum árið 1872. Hann fékk Sólheimaþing 1874, Miklaholt 1882 og Vestmannaeyjaprestakall 1889, sem hann þjónaði til æviloka. Séra Oddgeir tók mikinn þátt í sýslu- og sveitarstjórnarmálum og átti sæti í sýslunefnd um nær þrjátíu ára skeið. Séra Oddgeir Guðmundsen var barnakennari í Vestmannaeyjum árin 1893-1904. Árið 1893 hóf hann að kenna við Barnaskólann og var við skólann í 11 ár. Hann kenndi fyrstu tvö árin en tók síðan alfarið við stjórn skólans. Hann saknaði alltaf kennarahlutverksins eftir að hann hætti og sótti nokkrum árum síðar um stöðu við skólann en var synjað.
Oddgeir leitaði ávallt eftir því að bæta hag sóknarbarna sinna og hjálpaði hann nágrönnum sínum og sóknarbörnum að fá vörur á hagstæðu verði.
Séra Oddgeir var talinn ágætur ræðumaður og hjálpaði fólki í nauðum og sorgum. Hann vann í þágu bindindismála og átti ríkan þátt í velferðarstarfi fyrir æskulýðinn í sveitarfélaginu.
Eiginkona Oddgeirs var Anna Guðmundsdóttir, prests í Arnarbæli, Einarssonar. Áttu þau 15 börn, tíu komust upp og eru nokkrir afkomendur þeirra búsettir í Vestmannaeyjum. Anna lést 2. desember 1919, stuttu eftir samsæti til heiðurs hjónunum í tilefni af löngu og giftulegu starfi í sókninni. Séra Oddgeir lést 5 árum seinna, þann 2. janúar 1924.
Börn Oddgeirs og Önnu voru:
1. Guðmundur Oddgeirsson, f. 28. maí 1876 að Felli í Mýrdal, d. 5. nóvember 1920. Stórkaupmaður í Kaupmannahöfn, kvæntur danskri konu.
2. Jóhanna Andrea Oddgeirsdóttir húsfreyja, f. 26. maí 1877 að Felli í Mýrdal, d. 17. nóvember 1906. Hún var miðkona Magnúsar Jónssonar sýslumanns, síðar bæjarfógeta í Hafnarfirði.
3. Guðrún Sigríður Oddgeirsdóttir húsfreyja, f. 11. júní 1878 að Felli í Mýrdal, d. 3. maí 1968. Hún var þriðja kona Magnúsar Jónssonar sýslumanns, síðar bæjarfógeta í Hafnarfirði.
4. Margrét Andrea Oddgeirsdóttir húsfreyja í Winnipeg, f. 25. september 1879 að Felli í Mýrdal, d. 6. mars 1966 í Californíu. Maður hennar var Skúli Gissurarson Barneson bakarameistari.
5. Þórður Oddgeirsson, f. 19. september 1880 að Felli í Mýrdal, d. 28. september 1880.
6. Þórður Oddgeirsson, f. 11. nóvember 1881 að Felli í Mýrdal, d. 13. júlí 1882.
7. Jóhannes Oddgeirsson, f. 16. júlí 1882 að Miklaholti, d. 16. júlí 1882.
8. Þórður Oddgeirsson yngsti, prestur og prófastur á Sauðanesi í N-Þing., f. 1. september 1883 í Miklaholti, d. 3. ágúst 1966. Hann var fyrr kvæntur Þóru Ragnheiði Þórðardóttur, síðar Ólafíu Sigríði Árnadóttur.
9. Guðlaug Oddgeirsdóttir verkakona, f. 20. janúar 1885 í Miklaholti, d. 21. desember 1966.
10. Björn Oddgeirsson, tvíburi, verkamaður í Winnipeg, f. 18. mars 1886 í Miklaholti, d. 9. janúar 1983, ókvæntur.
11. Haraldur Oddgeirsson, tvíburi, f. 18. mars 1886 í Miklaholti, d. 30. júlí 1886.
12. Páll Oddgeirsson kaupmaður og útgerðarmaður í Vestmannaeyjum, f. 5. júní 1888 í Kálfholti í Holtum, Rang., d. 24. júní 1871. Kona hans var Matthildur Ísleifsdóttir.
13. Ingibjörg Oddgeirsdóttir, f. 17. ágúst 1889 í Kálfholti í Holtum, d. 1. júní 1890.
14. Auróra Ingibjörg Oddgeirsdóttir húsfreyja, f. 25. september 1890 að Ofanleiti, d. 15. febrúar 1945. Maður hennar var Þorvaldur Guðjónsson formaður. Þau skildu.
15. Sigurður Oddgeirsson vélstjóri og verkamaður í Reykjavík, f. 24. apríl 1892 að Ofanleiti, d. 1. júní 1963. Kona hans var Ágústa Þorgerður Högnadóttir
Heimildir
- Þorsteinn Þ. Víglundsson. Kennaratal frá 1885-1904. Blik. 23. árgangur 1962
- Guðlaugur Gíslason: Eyjar gegnum aldirnar. Frásagnir af mannlífi og atburðum í Vestmannaeyjum frá gamalli tíð og nýrri. Reykjavík, 1982.
<meta:creator>Daníel St.</meta:creator>
Heimildir
- Samantekt ættfærslu og barna: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Holtamannabók II – Ásahreppur. Valgeir Sigurðsson og fleiri. Ritstjórn: Ragnar Böðvarsson. Ásahreppur 2007.
- Íslendingabók.is.
- Íslenzkar æviskrár. Páll Eggert Ólason og fleiri. Hið íslenzka bókmenntafélag 1948-1956.
- Manntöl.
- Vestur-Skaftfellingar 1703-1966. Björn Magnússon. Leiftur 1970-1973.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.