Blik 1969/Jarðskjálftarnir í Vestmannaeyjum 1896
Í sambandi við eldsumbrot skammt undan Heimaey og tilkvámu hinnar fimmtándu eyjar - Surtseyjar - hafa ýmsir rifjað upp það, sem hér hefur skeð áður fyrr í jarðmyndunarsögu Eyjanna. En svo firnalöng er sú saga, að um fátt eitt finnast heimildir. Verður í þessum þætti einkum greint frá jarðskjálftunum hér 1896
samkvæmt samtíma heimildum. En áður en sú frásaga hefst, skal vikið örlítið til fyrri tíma.<br
Vestmannaeyjar standa sem kunnugt er á eldfjallasvæði. Sumir höfðu haldið, að sú mikla glóð væri kulnuð að fullu og öllu, en á það höfum við verið minnt svo seint gleymist, að svo er ekki.
Um síðasta gos í Helgafelli eru engar heimildir. Dr. Þorvaldur Thoroddsen telur, að það megi vel hafa skeð snemma á landnámstíð og vitnar í því sambandi í eitt handrit Landnámu, þar sem segir: Herjólfur Bárðarson byggði fyrst Vestmannaeyjar ok bjó í Herjólfsdal fyrir innan Ægisdyr, þar sem nú er hraun brunnið. Síðari tíma jarðfræðingar álíta þó, að Helgafellshraun hafi runnið miklu fyrr, jafnvel fyrir tíu þúsund árum.
Langflest neðansjávargos hafa orðið úti frá Reykjanesi á Eldeyjarsvæðinu. Árið 1211 segir svo í Biskupasögum um fyrsta gos í hafi úti fyrir Íslandsströndum, sem sögur fara af: „Eldur kom upp úr sjó fyrir sunnan Reykjanes. Sörli Kolsson fann Eldeyjar hinar nýju, en hinar horfnar, er alla ævi höfðu staðið. Þá varð
jarðskjálfti mikill hinn næsta dag fyrir Seljumannamessu (7. júlí) og létu margir menn líf sitt (Guðmundarsaga segir, að 18 hafi látizt) og féll ofan alhýsi á fjölda bæjum og gjörðu hina stærstu skaða. Það ár andaðist Páll biskup Jónsson, og er þann veg að orði komizt í sögu hans: „En hér má sjá, hversu margur kvíðbjóður hefur farið fyrir fráfalli þessa hins dýrlega höfðingja Páls biskups: Jörðin skalf og pipraði af ótta, en himinn og skýin grétu, svo að mikill hlutur spilltist jarðar ávaxtarins, en himintunglin sýndu dauðatákn ber á sér, þá er nálega var komið að hinum efstu lífsstundum Páls biskups, en sjórinn brann og fyrir landinu þá. Þar sem hans biskupsdómur stóð yfir, sýndist nálega allar höfuðskepnur nokkurt hryggðarmark á sér sýna frá hans fráfalli.“
Eldey er nyrzt eyjanna úti frá Reykjanesskaga, um 11 km frá landi. Talið er, að Vestmannaeyingar hafi gengið fyrstir manna á land í Eldey. Annálar greina svo frá, að 30. maí 1794 hafi þrír æfðir fuglaveiðimenn frá Vestmannaeyjum klifið upp eyna og rannsakað hana.
Á þessu svæði er mikill neðansjávarfjallgarður, sem hefur myndast við eldsumbrot, sem voru alltíð, einkum á 13. öld. Utan þessa svæðis hafa neðansjávargos helzt orðið úti fyrir norðurströnd landsins í nánd við Mánáreyjar. Árið 1372 er frá því sagt, að eyja hafi komið upp norðaustur af Grímsey, en hún hvarf brátt. Á landakorti frá 1507 er sýnd ný eyja milli Íslands og Grænlands. Fleiri umbrot hafa þar orðið síðan söguritun hófst.
Eftir sjógosið 1963 rifjast það upp, að fólk í Landeyjum og víðar taldi sig hafa séð undarlegan eldsbjarma suður í hafi suðvestur af Vestmannaeyjum eða á svipuðum slóðum og nú gaus eldi og eyju úr hafi. Þetta var jarðskjálftasumarið
1896.
Reykjavíkurblöðin sögðu frá þessu og spurðu, hvort eldur mundi uppi í
Geirfuglaskerjum (svo). Hafði maður frá Hallgeirsey í A.-Landeyjum fullyrt, að þaðan hafi sézt til elds þrjú kvöld í röð, hin síðustu í vikunni sem leið (13.-19. sept.) úti í hafi, sem bar milli Vestmannaeyja og Dranga. „Var það kallað,“ segir Ísafold, „að eldurinn kæmi upp úr sjónum, en hefur auðvitað annaðhvort verið í nýrri ey eða hólma, er upp hefði átt að koma í eldsumbrotunum, eða þá í Geirfuglaskerjum eystri, sem mjög vel getur komið heim eftir stefnunni. Eldurinn eða „loginn“, sem svo er nefndur, er raunar ekki annað en bjarmi, sem leggur upp á loftið af gosinu, - á að hafa verið tvískiptur neðst, eða á tveim stöðum, en lagzt saman, er ofar dró. - Maðurinn segir, að sýn þessa hafi menn horft á af mörgum bæjum í Landeyjum kvöld eftir kvöld, þar á meðal frá prestssetrinu Bergþórshvoli. Sumir ímynduðu sér fyrst, að þar væri skip að brenna, en sáu, að það gat eigi verið, er þetta hélt áfram kvöld eftir kvöld.“
Blaðið bætir því við, að ekki sé getið um neitt gos á þessu svæði í eldgossögu dr. Þorvaldar Thoroddsen, „né öðrum hólmum kringum Vestmannaeyjar.“
Þann 26. sept. segir Ísafold, að eldgosasagan úr Landeyjum muni vera tómir höfuðórar, eins og annað af því tagi, er fólk þykist hafa séð síðan jarðskjálftarnir hófust. Skopast blaðið mjög að þessum sögum. „Eru meiri en lítil brögð að ofsjónum manna ... þegar heilt byggðarlag þykist horfa á kvöld eftir kvöld ekki minni háttar sýn en heilt eldgos, án þess að nokkur fótur sé fyrir. Jafnvel ofan úr Holtum höfðu menn þótzt sjá eld á hafi úti og sýndist
vera milli lands og Eyja, að því er einhver merkasti maður þar skrifar
hingað.“ En blaðið segir það a.m.k. víst, að nærri Eyjum hafi ekkert eldgos verið til 20. sept. Í bréfum þaðan sé ekki minnzt á neitt þessháttar, en einmitt næstu kvöld á undan þóttust Landeyingar hafa séð eldinn í stefnu milli Dranga og Eyja!
Enn skrifar Ísafold um sýnir eða „ofsjónir“ Landeyinga og er þá ekki alveg eins viss í sinni sök, að þetta hafi verið tómur heilaspuni. 3. okt. segir blaðið: „Helzt er að heyra sem Landeyingar séu ekki enn farnir ofan af þeirri trú, að þeir hafi séð eldgos úti í hafi nú fyrir hálfum mánuði. Er skrifað hingað af Eyrarbakka fyrir fám dögum: „Landeyjamenn eru hér hópum saman daglega og ber þeim flestum saman um það, að þeir hafi séð eld suður undan Vestmannaeyjum; hafi bjarmann lagt langt á loft upp og eldstrókur sézt upp yfir allháa ey (Hellisey), sem bar í logann (leturbr. mín). Fæstir segjast hafa séð þetta nema eitt kvöld, sumir tvö, og allir segja þeir, að svo áreiðanlegir menn hafi séð þetta, að óþarfi sé að rengja það. Enginn eldur hefur samt sézt í Vestmannaeyjum, enda kváðu fjöll skyggja á sjóinn í suðurátt þar; aftur á móti sagðist maður úr Hvolhreppi hafa horft á eldinn hálfa klukkustund sama kvöld og Landeyingar hafi séð hann.“
Það skal ekki dómur á það lagður hér, hvað hæft er í þessum frásögnum. Hitt má fullyrða, að þeir mörgu, sem töldu sig hafa séð eldinn eða bjarmann, hafa ekki skrökvað þessu upp. Athyglisvert er, hve mörgum ber saman um að hafa séð eldinn í hafi. Sjálfur þekkti ég vel einn þeirra bænda, er þá bjó í Hallgeirsey. Hann
var grandvar maður, athugull í bezta lagi og laus við hjátrú. Ólíklegt er,
að sá merki klerkur, séra Halldór Þorsteinsson frá Kiðjabergi, er þá bjó að Bergþórshvoli, hafi látið einhverjar furðusagnir ganga út frá heimili sínu. Hitt er svo einkennilegt,að enginn maður í Eyjum, svo vitað sé, hafi séð neitt óvenjulegt á þessum slóðum. Hinsvegar er ekki undarlegt, þótt mörgum þætti saga þessi með ólíkindum, því að ekki höfðu farið sögur af gosi kringum Eyjar
frá Landnámsöld, en nú er sjón sögu ríkari.
Þorvaldur Thoroddsen segir frá þessu hugsanlegu neðansjávargosi í Landsskjálftasögu sinni og hinu mikla eldfjallariti sínu á þýzku. Segir frá þessu á sömu lund og hér hefur verið rakið, en klykkir út á þá leið, að nánari deili viti menn ekki á þessu meinta neðansjávargosi, en þar sem svo mörgum sjónarvottum beri saman sé ekki rétt að álykta, að þessar frásagnir séu með öllu úr lausu lofti gripnar.
Skal nú vikið að því, sem vera átti aðalefni þessarar frásagnar, jarðskjálftunum hér í Eyjum í ágústmánuði 1896. Jarðskjálftar þessir áttu upptök sín í nánd við Heklu og hófust að kvöldi 26. ágúst. Voru þetta hinar ægilegustu náttúruhamfarir. Gjörféllu nær allir bæir í Landssveit og fjöldi bæja á Rángárvöllum og í Holtum. Í Árnessýslu urðu miklir skaðar.
Fólk var víðasthvar að taka á sig náðir að loknu dagsverki, er þessar ógnir dundu yfir laust eftir klukkan 10 að kvöldi. Sumir héldu í fyrstu, að heimsendir væri kominn. Ótti manna á jarðskjálftasvæðinu var talsverður, segir Þ.Th., en þó miklu minni en búast hefði mátt við. Bar jafnvel öllu meira á ótta þeirra, sem fjær voru, en bjuggust við öllu illu á hverri stundu.
Ægimátt jarðskjálftanna má meðal annars marka af því, að þeir skyldu ná allt til Vestmannaeyja. Raunar hrundu ekki hús hér á eyju, en jörðin skalf og ýmsar skemmdir urðu. Þá varð hér eitt af fjórum dauðaslysum í þessum miklu hrinum,
og mildi, að þau urðu ekki fleiri.
Þorvaldur Thoroddsen segir frá því, að menn í þeim héruðum, sem jarðskjálftarnir gengu yfir, hafi séð og fundið ölduhreyfingar miklar á yfirborði jarðar. Þessar bylgjur hreyfast líkt og öldur á vatni, þegar steini er kastað í það. Frá miðdepli hreyfingarinnar ganga öldur í allar áttir, hæstar og krappastar næst miðdeplinum, en verða lægri og breiðari er lengra dregur frá og hverfa svo á endanum. Þar sem föst efni eru mikil í jarðskorpunni, verða átökin mest og ýmiss mannanna verk hrynja til grunna.
Suður í Landeyjum urðu menn greinilega varir þessarar ölduhreyfingar. Að kvöldi 26. ágúst voru þeir bræður Jónas bóndi í Hólmahjáleigu og Sigurður Jónsson, nú í Hraungerði í Vestmannaeyjum, að ljúka við að ná heyi upp í sæti skammt norður af bænum. Var loft þungbúið og kepptust þeir bræður við að koma upp heyinu áður en rigndi. Allt í einu fer jörðin að ganga í bylgjum undir fótum þeirra. Gengu þeir þá til bæjar, en urðu að haldast í hendur til að missa eigi fótanna. Á Kanastöðum sáu menn, er stóðu við slátt, að bylgjur eða gárur nálguðust úr norðvestri. Vörpuðu þeir þá frá sér orfunum, svo að ekki yrði að slysi þá er bylgjan skylli á þeim. Þrátt fyrir þetta urðu ekki teljandi skemmdir á bæjum eða peningshúsum í sveitinni og var ástæðan sú, að mýrlend jarðvegstorfa er ofaná ægisandi. Því var það, að enda þótt bæir hristust harkalega, féll allt í sömu skorður er kyrrðist.
Þorvaldur Thoroddsen safnaði nákvæmum skýrslum um jarðskjálftana úr flestum hreppum Árnes- og Rangárvallasýslu. Tóku prestarnir skýrslur þessar saman. Þorvaldur Thoroddsen segir frá jarðskjálftunum hér í bók sinni Jarðskjálftar á
Íslandi, Kh. 1905. Hann segir þó ekki frá fyrsta jarðskjálftakippnum
26. ágúst, sem var mjög snarpur. Hann muna enn nokkrir gamlir Eyjamenn, sumir vegna þess ótta, sem hann vakti hjá þeim, þá á barnsaldri. Þorsteinn Jónsson læknir segir frá þessum atburði: „Í fyrrakvöld kl. 10 kom hér snarpur jarðskjálftakippur er stóð yfir um hálfa mínútu; litlu síðar annar nokkru minni, og nokkru seinna tveir aðrir vægir kippir. Aftur í gærmorgun (þ.e. 27.8.) klukkan 9 1/2 fannst fyrst vægur kippur, og um tveim mínútum síðar annar mjög harður en stóð mjög skamma stund, og í nótt fundust enn nokkrir hægir kippir. Vegsummerki eftir kippinn í gærmorgun urðu meiri en lítil. Skriður féllu úr fjöllum yfir graslendi, og sumstaðar í sjó niður, annars staðar hrundu stykki úr fjöllum og stærri og minni björg niður í sjó; úr öllum hinum lausari fjöllum kom meira og minna grjóthrap. Svæði af fuglabyggðum eru víða meira eða minna eydd og skemmd.“
Frásögn Þ.Th. er mjög á sömu lund, enda að nokkru byggð á heimild frá lækninum. Hann getur um skýrslu séra Oddgeirs Guðmundsen um jarðskjálftann dags. 27. apríl 1897, sem hann þá eigi birtir í bók sinni um jarðskjálfta á Íslandi, líklega vegna þess, að hér hrundu ekki hús eða mannvirki svo teljandi væri. Séra Oddgeir segir í skýrslu sinni, að jarðskjálftinn hafi verið miklu harðari á suðurkjálka heimalandsins en á norðurjaðri þess. Niðri við kaupstaðinn stóðu einhlaðnir garðar lítt haggaðir og margir voru þeir niður frá, sem vöknuðu ekki við fyrsta kippinn, en þá flúðu allir í Ofanleiti upp úr rúmunum og út á tún. Íbúðarhúsið skekktist og grunnmúr undir því sprakk, fjós og hlaða laskaðist og kálgarður tvíhlaðinn hrundi til grunna. Víst er, að kippurinn hefur samt verið allharður niðri í kaupstaðnum, því að drengur, sem var að ganga milli rúma missti fótanna vegna hreyfingar á gólfinu og í húsum helltist vatn og mjólk úr ílátum. Mönnum fundust kippirnir ganga norðaustri til suðvesturs. Skipstjóri á enskum línuveiðara, sem var að veiðum um tvær vikur sjávar suður af Súlnaskeri morguninn 27. ág., sagði svo frá, að skipið hefði allt nötrað við kippina og áhöld og ílát fallið niður. Dagana 5., 6. og 10. september komu harðir kippir á Suðurlandi, sem víða gerðu skaða. Í Eyjum var kippurinn 5. sept. harður, en þó urðu ekki verulegar skemmdir á húsum. Hinsvegar hrapaði allmikið úr björgum. Úr Klifinu hrapaði mikið, svo að stór grashvammur sunnan í því skemmdist og Hlíðarbrekkur að nokkru. Úr Dalfjalli og Heimakletti norðanverðum hrundi mjög og varð af tjón í fuglabyggðum.
Haldið var, að Landakirkjan hefði orðið fyrir nokkrum skemmdum af völdum jarðskjálftanna. Kjartan Einarsson prófastur í Holti kom til Eyja í vizitasíuferð sumarið 1897. Um skoðun hans á kirkjunni segir m.a.: „Við skoðun prófasts Kjartans Einarssonar 16. júlí 1897 sjást sprungur á báðum hliðarveggjum og vesturstafni, að öllum líkindum af völdum jarðskjálftans s.l. ár.“
Segja má, að Vestmannaeyjar hefðu sloppið vel frá þessum hrunadansi náttúruaflanna, ef ekki hefði annað verra skeð, en hér varð eitt af fjórum dauðaslysum af völdum þessa jarðskjálfta og mildi, að þau urðu ekki mörg. - Um þessar mundir stóðu yfir fýlaferðir Eyjamanna. Fuglaveiðar voru þá ekki sport heldur nauðsyn. Voru menn við þessar veiðar bæði á heimalandinu og í úteyjum. Þorsteinn Jónsson héraðslæknir sagði svo frá, að menn hafi verið á þrem stöðum við fýlungaveiðar, er kippurinn kom að morgni 27. ágúst, og var veiðiferðum um það bil að ljúka. Einn hópurinn var neðst í Dufþekju norðan í Heimakletti, fimm menn uppi og fimm neðan undir á tveim bátum til að taka á móti fuglinum.
Átta jarðir áttu veiðirétt í Heimakletti en auk þess voru tvær bátalegur. Voru tíu menn alls við þennan veiðiskap. Fyrirliði þeirra, er fóru til veiða í Klettinn, var Magnús Vigfússon í Presthúsum (bróðir Sigga Fúsa á Fögruvöllum). Eldsnemma að morgni 27. ágúst kallaði Magnús sína menn í Klettinn. Eftirá þótti sem för þessi hefði verið ráðin af lítilli fyrirhyggju, en menn hafa varla gert ráð fyrir, að kippirnir yrðu fleiri og vissu ekki um þær hamfarir, sem orðið höfðu uppi á fastalandinu. Þá höfðu fýlaveiðarnar gengið illa um sumarið sökum storma og rigninga og hefur mönnum trúlega leikið hugur á að ljúka þeim sem fyrst. Ekki er nú vitað með vissu um þá menn alla, sem fóru í þessa örlagaríku veiðiferð. Þeir, sem nafngreindir eru, voru eftirtaldir menn, auk fyrrnefnds köllunarmanns: Jón Einarsson, Garðsstöðum, Ísleifur Jónsson, Vilborgarstöðum, Vigfús Pálsson Scheving, Vilborgarstöðum, Jón Hreinsson frá Batavíu (fluttist til Ameríku) og Pétur Pétursson í Vanangri (drukknaði 1908). Þá er talið, að Árni Magnússon frá Vilborgarstöðum hafi verið með í þessari fýlaferð.
Nú starfa þeir félagar af kappi að fýlungaveiðinni; sumir uppi í fjallinu, rota fýlinn og kasta honum niður, aðrir í bátunum og innbyrða fuglinn. Allt í einu, um klukkan hálftíu, rennur upp sú ógnþrungna stund, er björgin skjálfa og grjótið hrynur yfir þá ofan úr brúnum. Þá verður einum veiðimannanna að orði: „Nú er ekki annað að gera en fela sig guði.“ Veiðimennirnir geta hlaupið lítið eitt til hliðar og kasta sér þar á grúfu. Grjótið fer í loftköstum allt í kring um þá og yfir þá. Að nokkurri stund liðinni er allt kyrrt. Þeir félagar rísa á fætur hver af öðrum, allir nema einn - Ísleifur á Vilborgarstöðum. Stór steinn lenti á honum og varð af mikill áverki á baki. Var hann nú vafinn í lundasnæri og látinn síga niður í annan bátinn, sem hélt til lands hið skjótasta.
Magnús Guðmundsson, Vesturhúsum (1872-1953), segir frá þessum válega atburði í Ægi 1945, en einn veiðimannanna sagði honum: „Jón heitinn Einarsson frá Garðsstöðum sagði svo frá, svo að ég og margir aðrir heyrðu: - Við vorum komnir niður á Neðsta-Bring og vorum komnir langt ,,að sækja“ (rétt búnir) og þá ætluðum við að halda upp úr tónni og upp á Heimaklett, en þá hristist allt undir fótum okkar, og jafnhliða þeyttist grjótið ofan úr Hákolluhamri, sem er ofan og austanhallt yfir Dufþekju, niður alla tóna og fylgdi því einnig feikn af gras- og moldarmekkjum. Við fleygðum okkur samstundis niður, þar sem við vorum staddir, og samkvæmt því, er við töluðum saman á eftir, bjuggumst við allir við, að okkar síðasta stund væri komin. Næsti maður við mig var Pétur í Vanangri. Fleygðum við okkur niður á sömu grasflúðina, hvor við annars hlið. Hinir félagar okkar voru þarna mjög nálægt okkur. Grjótið, sumt stór björg, hentist þarna niður sem áður segir með braki og miklum gný, og þegar það kom niður á móts við það, er við vorum, hentust klettarnir þannig, að alllangt var á milli þess, er þeir komu niður. Margir steinar komu mjög nálægt okkur, en eitt bjargið kom svo nærri okkur, að það hjó torfuna niður í móbergið, er við lágum á, þétt við höfuð okkar og þeyttist svo yfir okkur. Þegar þessu var af létt, kallar Ísleifur Jónsson, unglingspiltur, til okkar og segir: „Eruð þið lifandi?“ Þá stóðu allir upp og játtu því, en Ísleifur stóð ekki upp, hann var dauðsærður á bakinu og dó af þeim meiðslum á öðrum eða þriðja degi (hann andaðist 31. ágúst- höf.). Ísleifur var hinn mesti efnis- og myndarpiltur. Hann var albróðir Þorsteins í Laufási, sem lengst mun hafa verið formaður á vélbát á Íslandi, hinn mesti sægarpur og aflamaður.
Þorsteinn læknir segir í fréttabréfi um þetta slys, að 10 mínútum áður en grjóthrunið dundi yfir, hafi mennirnir allir verið nokkru austar „og þar varð hrapið svo mikið, að það mundi hafa sópað þeim öllum dauðum niður í sjó, hefðu þeir þá verið þar.“
Í eynni Geldung féll stór steinbogi í þessum jarðskjálftum. Magnús Guðmundsson segir svo frá í sömu grein í Ægi: „Fram að þessu hafði ætíð verið farið upp á norðurhluta fjallsins, og var þar svo gott að fara, að allir gátu þá leið komizt. En þar sem boginn hafði verið, gapti nú við sléttur steinveggur á báðar hliðar um 50 metra að norðan og 60 metra sunnanmegin. Geldungurinn lá undir 8 jarðir, þ.e. Kirkjubæjajarðir, og var það mikið tjón að geta eigi nýtt eyna, því að þar var mikil súla, fýll og svartfugl og nokkuð af lunda. 1897 fóru Kirkjubæjabændur fram á það við landsstjórnina að fá eftirgefið af jarðarleigunni eða að kosta til sem þyrfti til vegar upp á eyna og fá tvo menn, ef hugsazt gæti, að þar yrði komizt upp, og jarðareigendur legðu til skip og menn. Gekk landstjórnin að því síðarnefnda, en að lækka jarðarleiguna mun hún ekki hafa verið viðbúin að svara. - Ekki munu Kirkjubæjabændur hafa treyst sér til að komast upp á eyna, og vissi ég þó, að einn þeirra, Guðjón Eyjólfsson, var góður bjargmaður. Því var það, að við Gísli Lárusson vorum fengnir frá landssjóði til þess að hafa forystu í þessu máli.“
Hér lýkur frásögn Magnúsar um jarðskjálftann, en hefst þáttur af því, er þeir Gísli fóru með átta þaulvana bjarggöngumenn til þess að legga „veg“ upp Geldung í maí 1897. Var þetta hættuför, en tókst giftusamlega. En það er önnur saga og verður ekki rakin hér.
Í Álsey voru menn að fýlaveiðum að morgni þess 27. ágúst. Voru þeir átta saman að sögn. Þrír þeirra eru nafngreindir, þeir bræður Gísli Eyjólfsson, Búastöðum (faðir Eyjólfs skipstjóra þar og þeirra systkina), og Guðjón á Kirkjubæ, ennfremur Einar Jónsson í Norðurgarði. Voru þessir þrír veiðimenn að „aðsækja“ sem kallað var, eins og þeir sem í Heimakletti voru, þ.e. að slá fuglinn með fýlakeppum sínum. Þá munaði minnstu, að eigi yrði válegt slys. Frá þessum atburði segir svo í blaðinu Fylki rúmlega 40 árum síðar: „Þegar þeir nú voru af mesta kappi að drepa fýlinn, hittist svo á, að þeir voru allir (þeir bræður og Einar) samtímis staddir í nokkuð stórri grastó. Kom þá mjög snarpur jarðskjálftakippur og skipti það tæpast sekúndum, að torfan, sem þeir voru í, losnaði frá berginu og fór til ferðar, en niður í sjó var margra tuga metra hátt berg með syllum, nefjum og grastætlum.
Það geta allir ímyndað sér, hve voðaleg aðstaða þeirra var til að bjarga sér frá bráðum dauða, og hve skelfilegt það var, að vera utan í bjargi í þessum mikla jarðskjálfta. Allt sýndist dinglandi laust og lítið. Mold, graskekkir og grjót á fljúgandi ferð allt í kringum þá og loftið titrandi af þrýstingi og hvin niðurhrapandi stórgrýtis. Álsey sýndist þeim öllum ganga í bylgjum, og skalf hún eins og hrísla í vindi, og þeir þrír komnir til ferðar niður með grastorfunni, þar sem bráður dauði virtist óumflýjanlega bíða þeirra allra. En á hættunnar stund hugsar maðurinn örfljótt... Hér var heldur ekki um langan tíma til umhugsunar að ræða og mun það vissulega hafa borgið þeim, að þeir bræðurnir Gísli og Guðjón voru fljótir að hugsa og framkvæma, hin mestu lipurmenni og fullhugar. Þegar þeir fundu, hvað um var að vera og sáu, hvað verða vildi, hlupu þeir eins og kólfi væri skotið sinn til hvorrar hliðar úr grastorfunni og náðu hand- og fótfestu í öðrum grastóm, sem til allrar heppni voru fastar, og var þeim bræðrum þar við báðum borgið.
En af Einari er það að segja, að hann fór áfram niður með torfunni og virtist engu sýnna, en honum væri dauðinn vís. En svo einkennilega vildi til, að nokkru neðar nam torfan staðar við smá-grastætlur eða kekki og varð það honum til lífs.
Það töldu þeir allir áreiðanlegt, að torfan hefði alls ekki numið þarna staðar, ef þeir hefðu allir þrír verið kyrrir á henni, heldur hefði hún haldið óhindrað áfram og splundrazt, en þeir allir farizt.“
Lýkur þá að segja frá jarðskjálftum í Eyjum 1896.
Helztu heimildir: ÞTh: Landskjálftar á Íslandi, Rvík 1905, ÞTh: Die Geschichte Der Isl. Vulkane, Kh. 1925, M. Guðm.: Ægir 1945, Fylkir 1949, Ísafold 1896 og frásagnir nokkurra Eyjamanna.
——————————————————————
Skólinn og rjómabúið við Deildará í Mýrdal.