Maríuerla
Sjófuglar |
---|
Vaðfuglar |
Mávar, kjóar, þernur |
Andfuglar |
Spörfuglar |
Annað |
Útdauðir fuglar |
Maríuerla Motacilla alba
Maríuerlan er af spörfuglaætt og er farfugl. Hún er smávaxin og síkvik. Fuglinn er svartur og grár á baki og hálsi og hvítur eða gulhvítur á bringu. Maríuerlan er um 18 cm á lengd, rúm 20 grömm að þyngd og með 25–30 cm vænghaf. Kjörsvæði maríuerlunnar er í kringum vötn og í og við mannabyggð, en einnig er hana að finna í kjarrlendi og hraunum. Hér í Vestmannaeyjum er hún um allt, einkum í bænum, sérstaklega við höfnina. Hún lifir á skordýrum, sem hún ýmist grípur á lofti eða tínir upp af jörðinni, einnig leggur hún sér til munns landsnigla og vatnabobba.
Utan varptíma er maríuerlan félagslynd, en á varptíma er hún í sérbýli og fljótlega eftir komuna til landsins fer hún að huga að varpsetri sínu og hreiðurgerð. Varptíminn er frá seinni hluta maí og fram í fyrri hluta júní. Maríuerlan verpir aðallega í klettum, urðum hraunum og holtum, og á það til að verpa í húsum og mannvirkjum. Eggin eru yfirleitt 5–6 talsins, en þó hafa fundist hreiður með allt að 8 eggjum. Eggjaskurnið er ljósgrátt eða fölbláleitt, með þéttum dökkgráum eða brúnum blettum. Ungarnir skríða úr eggjunum eftir 12–14 daga og dveljast í hreiðrinu hálfan mánuð til viðbótar. Unginn er síðan háður foreldrunum fyrst um sinn. Íslenski maríuerlustofninn telur um 10.000–50.000 pör.