Snjótittlingur

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Fuglar
Sjófuglar
Vaðfuglar
Mávar, kjóar, þernur
Andfuglar
Spörfuglar
Annað
Útdauðir fuglar

Snjótittlingur/Sólskríkja Plactrophenax nivalis

Snjótittlingurinn er af tittlingaætt. Hann er bæði staðfugl og farfugl. Það er alltaf mikill fjöldi fugla sem hefur vetursetu hér á landi. Fuglinn er 16-17 cm á lengd, tæp 40 grömm að þyngd og með 32-38 cm vænghaf. Í sumarbúningi er karlfuglinn að mestu svartur á baki og með eins litar handflugfjaðrir og miðfjaðrir í stéli, en að öðru leyti snjóhvítur. Kvenfuglinn er aftur á móti grábrúnn, með svörtum flikrum á höfði og baki. Á sumrin er hann jafnan kallaður sólskríkja. Á veturna er hann allt öðruvísi, en þá er karlfuglinn ljósbrúnleitur á höfði og bringu og brúnn á baki, með svörtum dílum. Kvenfuglinn og ungfuglinn eru dökkbrúnni, á flugi eru hvítu vængreitirnir einkennandi. Nefið er þykkt og stutt; á vorin grásvart og dökknar í nær alsvart um sumarið, en á veturna fölgult og rauðgult. Fæturnir eru dökkgráir eða svartir.

Snjótittlingar halda sig aðallega á bersvæði, grýttu landi, urðum, hraunum og klettum. Fæði snjótittlingsins er misjafnt, um varptímann étur hann ýmis smádýr, ásamt fræjum, og berjum á haustin. Yfir veturinn er fæðan þó fábreyttari, aðallega ýmis fræ, þá leitar fuglinn oft til byggða í hópum því þar er oft meira skjól og algengt er að fólk gefi þeim að éta. Tilhugalíf snjótittlingsins virkar glaðlegt vegna hins mikla og hljómþýða söngs, hann syngur mjög mikið, bæði sitjandi og á flugi. Tími tilhugalífs er erilsamur fyrir karlfuglinn því biðilslætin eru mikil og baráttan fyrir varpsetrinu kostar iðulega átök. Hjúskapur snjótittlingsins er mjög flókinn. Algengast er einkvæni, en þó þekkist líka tví- og margkvæni. Varptími snjótittlingsins er frá seinni hluta maí og fram í júlí. Hreiðrið er oft falið undir og milli steina en á nyrstu varpsvæðunum er notast við ýmislegt fleira, eins og mannabústaði, dollur, kassa, þök og jafnvel verpt innan um rekavið. Eggin eru yfirleitt 4-6 en geta þó orðið fleiri. Þau eru gráhvít að lit, alsett rauðbrúnum deplum. Útungunin tekur 12-13 daga og sér kvenfuglinn um útungunina.