Stormsvala
Sjófuglar |
---|
Vaðfuglar |
Mávar, kjóar, þernur |
Andfuglar |
Spörfuglar |
Annað |
Útdauðir fuglar |
Hydrobates pelagicus
Stormsvalan er af pípunefjaætt eða sæsvöluætt, hún er minnsti sjófugl í Evrópu. Stormsvala er brúnsvört, stélið er þverstýft, vængirnir eru dökkir að ofan en ljós rák er á undirvæng, goggur og fætur eru svartir og gumpur er snjóhvítur. Stormsvalan er farfugl, hún er um 14-18 cm að lengd og hefur vænghaf upp á tæpa 40 cm. Fuglinn vegur um 25 g.
Stormsvalan er úthafsfugl, uppistaðan í fæðu hennar er dýrasvif og smáfiskar. Flug stormsvölunnar er sérstakt því hún þykir flögra líkt og fiðrildi, hún verpir oft í stórum byggðum líkt og margir aðrir sjófuglar og sést oftast á ferli að næturlagi og þá oft síðsumars. Stormsvala eyðir ævinni úti á rúmsjó og kemur aðeins að landi til að verpa. Fuglinn verpir í holur og gjótur, einu eggi í lok júní eða byrjun júlí og situr á í sex vikur. Eftir að ungarnir koma í heiminn sjá foreldrarnir fyrir þeim í tvo mánuði eða þar til unginn er fleygur og alveg sjálfbjarga en það er oft ekki fyrr en komið er fram í nóvember. Eggin eru hvít, ekki alls ólík fýlseggjum nema hvað þau eru töluvert minni.
Stormsvölustofninn telur um 100.000 pör og verpir stór hluti í Vestmannaeyjum nánar tiltekið í Elliðaey. Þar er talin stærsta stormsvölubyggð landsins í svokölluðum Skápum. Einnig verpir talsverðut fjöldi í Ystakletti. Nytjar af þessum fugli eru svo til engar, enda eftir litlu að slægjast, hann er fremur holdlítill og erfitt að veiða hann sökum háttarlags og egg hans eru vel falin. Nú er stormsvalan alfriðuð og bannað að taka egg og fugla.