Maríuerla

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Fuglar
Sjófuglar
Vaðfuglar
Mávar, kjóar, þernur
Andfuglar
Spörfuglar
Annað
Útdauðir fuglar

Maríuerla Motacilla alba

Maríuerlan er af spörfuglaætt og er farfugl. Hún er smávaxin og síkvik. Fuglinn er svartur og grár á baki og hálsi og hvítur eða gulhvítur á bringu. Maríuerlan er um 18 cm á lengd, 15- 31 grömm að þyngd og með 25–30 cm vænghaf. Kjörsvæði maríuerlunnar er í kringum vötn og í og við mannabyggð, en einnig er hana að finna í kjarrlendi og hraunum. Hér í Vestmannaeyjum er hún um allt, einkum í bænum og sérstaklega við höfnina. Hún lifir á skordýrum, sem hún ýmist grípur á lofti eða tínir upp af jörðinni, einnig leggur hún sér til munns landsnigla og vatnabobba.

Utan varptíma er maríuerlan félagslynd, en á varptíma er hún í sérbýli og fljótlega eftir komuna til landsins fer hún að huga að varpsetri sínu og hreiðurgerð. Varptíminn er frá seinni hluta maí og fram í fyrri hluta júní. Maríuerlan verpir aðallega í klettum, urðum, hraunum og holtum, og á það til að verpa í húsum og mannvirkjum. Eggin eru yfirleitt 5–6 talsins, en þó hafa fundist hreiður með allt að 8 eggjum. Eggin eru c.a. 2,1 cm á lengd, 1,5 cm á breidd. Eggjaskurnið er ljósgrátt eða fölbláleitt, með þéttum dökkgráum eða brúnum blettum. Ungarnir skríða úr eggjunum eftir 12–14 daga og dveljast í hreiðrinu hálfan mánuð til viðbótar. Unginn er síðan háður foreldrunum fyrst um sinn. Íslenski maríuerlustofninn telur um 100.000 pör.