Blik 1947/Þáttur skáta

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 1. maí 2010 kl. 17:21 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 1. maí 2010 kl. 17:21 eftir Viglundur (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1947


ÞÁTTUR SKÁTA

Úrdráttur úr annál Faxa árið 1946.

Eins og annállinn ber með sér, hefir starfið verið mjög mikið á árinu.
Í félaginu hafa verið haldnir 246 fundir, samtals mættir á þeim 2802 skátar.
Göngur hafa verið 61 með samtals 580 skátum. Samtals hafa mætt á fundum, í göngum, útilegum, sjóferðum, námskeiði og hjólreiðaferðum, stjórnarfundum, foringjaráðsfundum, skrúðgöngum, guðþjónustum, kvöldvökum og foreldramóti og afmæli 5005 skátar.
Próf tekin á árinu alls 160. Þá urðu 21 sjaldsveinar. Útilegur alls 10, kvöldvökur 2, stjórnarfundir 20, vinna 10 klst.
Hér á eftir fer annáll félagsins í stuttu máli:

9. jan. Skátar leggja til skemmtiatriði á Gamalmennaskemmtuninni.
10. jan. 80 skátar byrja námskeið í hjálp í viðlögum.
13. jan. Aðalfundur Faxa.
17. jan. 70 skátar ljúka prófí í hjálp í viðlögum,
4. febr. Foreldramót. Kristjáni Georgssyni veitt gula liljan.
8. febr. Félagsganga.
22. febr. Afmæli félagsins
3. marz. Seld merki B.Í.S.
20. marz. Kveðjusamsæti við Magnús Kristinsson, honum veitt gula liljan.
25. apríl. Skátamessa í Landakirkju.
27. apríl. Útbyrðisskemmtun í Samkomuhúsinu.
10. maí. Sendur fulltrúi á aðalfund B.Í.S.
11. júní. Gönguæfingar byrja (undir skrúðgönguna 17.)
12. júní. Tveir skátar vinna við að koma upp símalínu að Barnaheimilinu.
15. júní. Félagsútilega Faxa.
15. júní. Kvöldstjörnur fara til Reykjavíkur, syngja í útvarpið.
17. júní. Skátar ganga í skrúðgöngu um bæinn.
19. júní. 3 skátar fara á landsmót við Mývatn.
24. júní. Hreinsað til undir Löngu.
30. júní. Hvíldarvarðan hlaðin upp.
27. júlí. Elliðaeyjarútilegan. 8 nýliðar vinna heitið.
2. ágúst. Varðeldurinn á Þjóðhátíðinni.
24. ágúst. Kvöldvaka og útilega í sumarbústaðnum.
7. sept. Kvöldvaka í sumarbústaðnum.
25. sept. Skátar halda uppi reglu við mjólkurbúð H. Benediktssonar.
28. sept. Vetrarstarfsemin hefst með messu í Landakirkju.
17. nóvember. Félaginu skipt í eldri og yngri deild.
20. nóv. Erindreki B.Í.S. kemur hingað.
20. des. Jólafundur Faxa. Útbýtt jólapóstinum.
29. des. Jólaskemmtun. Jóni Ísakssyni veitt gula liljan.

Þetta er nú annáll félagsins í stuttu máli og má nokkuð af honum marka, hve mikið starfið hefir verið.

Ferðalangur.“

Eitt af þeim sérprófum, er skátar taka, er kallað „Ferðalangur“.
Til að geta fengið sérprófsmerki út á þetta próf, verður skátinn að uppfylla viss skilyrði. Eitt af þessum skilyrðum í þessu sérprófí er að hafa gengið meðfram brúnum og á öll fjöll á Heimaey og skrifað dagbók um þetta ferðalag og telja upp minnst 50 örnefni í sambandi við það.
Hér á eftir sýnum við yður, hvernig einn af skátunum skilaði sinni dagbók um þetta ferðalag. Ganga þessi var farin dagana 22.—23. júlí 1944. Fararstjóri var sveitarforingi 1. sveitar, Jón Runólfsson.
Lagt var af stað frá Faxafelli kl. 4.30 síðdegis. Veður var ágætt, sól og blíða. Var farið sem leið liggur inn í „Botn“ og upp Litlulöngu upp að stiganum.
Leiðin var greið upp stigann og vorum við nú á Neðri Kleifum. Brátt komumst við á Efri Kleifar. Jón Ísaksson tók stóran stein og lét hann falla niður undir Stórulöngu. Fýll flaug letilega fyrir Löngunefið og hvarf út í buskann.
Áfram var haldið og við Efra Þuríðarnef fór mæðin að ásækja suma. Skammt þar fyrir neðan er Neðra Þuríðarnef.
Sunnan í Heimakletti, nær honum miðjum, er gil eitt, sem nefnist Vatnsgil og drýpur vatn úr því. Nokkuð þar fyrir austan er stór tó, sem kölluð er Danskató.
Var nú haldið upp brekkuna og út í Miðklett. Þoka var nú skollin á, svo að eigi sást mikið meira en rétt handa skil. En við vissum, að Víkin var fyrir neðan okkur, slétt og kyrr. Faxi, Faxasund og Faxasker, Skellir og Latur voru ekki langt frá. Var nú snúið við og haldið upp á Hákollu, en áður en þangað var komið, minntust menn þess, að fyrir neðan Miðklett er sandur, er nefnist Halldórssandur. Annar sandur er og þar, Hettusandur, og milli þeirra er Dufþekja hin nafnkunna. Er á Hákollu kom, var fólk þreytt og svangt. Fengu menn sér því snæðing. Mikið var rætt um þokuskrambann og héldu sumir, að tröll mundu vera hér að verki og væri ætlunin að hremma allan skátahópinn. Var ekki laust við, að sumir fyndu til einhvers beigs. Við vissum, að Höfnin og Flóinn myndu blasa við okkur, ef þokan væri ekki. Sömuleiðis öll Heimaey.
Eftir nokkra viðdvöl á há-Heimakletti var haldið af stað niður á Hettu og var síðan haldið niður af klettinum og gekk allt vel.
Síðan var gengið yfir Eiðið, var þá þokan mikið farin að grisjast og mátti nú vel sjá nokkuð frá sér. Skammt undan Eiðinu eru þrír litlir drangar, sem kallaðir eru Eiðisdrangar.
Hægt og bítandi var þrammað upp Hlíðarbrekkurnar og upp á Klif. Ekki hvíldum við okkur fyrr en komið var á hæsta hólinn á Klifinu. Þaðan sjást allvel Einidrangur og Þrídrangar.
Var þokunni alveg létt. Ekki dugði að láta fyrirberast þarna uppi. Var því haldið áfram. Var farið niður af Klifinu hjá Litla-Klifi og stanzað í Náttmálaskarði.
Norðan við Klifið er stórgrýtisurð, sem kölluð er Skansar.
Skammt þar undan landi eru tveir drangar. Þeir heita Litli- og Stóri Örn.
Enn var lagt af stað og gengið upp á Bláhá. Nú var Dalhryggurinn næstur. Af honum blasti við okkur Herjólfsdalur með fjöll á báðar hliðar og litlu tjörninni sinni.
Á vinstri hönd mót suðvestri er Moldi og skammt neðan við hann brött fuglabrekka, er heitir Miðdagstó. Nokkru sunnar er Fiskhellanef. Á hægri hönd er Dalfjallið, hátt og tignarlegt. Saltaberg er í miðri brekkunni upp af dalnum.
Var nú ferðinni heitið á Blátind. Er við vorum á leiðinni þangað, varð okkur starsýnt á Upsaberg, Stafnnesið og Víkina við það.
Ferðin á Blátind gekk vel og var farið upp að vörðunni, er einn flokkur úr Skátafél. hafði hlaðið að nýju fyrir tveim árum.
Mót suðri blasa við manni Suðureyjarnar og mót vestri, suðvestur af Stafnnesi liggja Smáeyjarnar: Hani, Hæna, Hrauney og Grasleysa.
Leiðin niður Dalfjallið og niður í Dal var fljótfarin. Á leiðinni horfum við niður í Kaplagjótuna eða Ægisdyr, sem stundum er nefnd svo. Einnig eru Tíkartær þarna og eru þær illúðlegar til uppgöngu. Klukkan var nú farin að ganga átta og var ákveðið að tjalda og dvelja næturlangt í laut einni á Hamrinum.
Í bíti næsta morgun var lagt af stað og haldið suður með Hamri. Teistuhellir var það eina, er vakti forvitni okkar sérstaklega.
Í Klaufina var komið kringum 9-leytið og var höfð nokkur viðdvöl þar. Sumir fóru í þönglabardaga og féll nokkuð manna!
Þorsti gerði nú vart við sig hjá einni stúlkunni og var því leitað að vatni í Erlendarkrónum og drukku menn óspart, jafnt þyrstir sem óþyrstir. Héldum við nú á Stórhöfða og gengum þar um, er við máttum.
Haldið var síðan í Brimurð. Skammt þar fyrir austan er tangi einn, sem nefndur er Ræningjatangi, og er sagt, að Tyrkir hafi lent þar, er þeir gerðu hér strandhögg 1627.
Nokkru fyrir norðan Ræningjatanga eru langir og niðurbrotnir hamrar. Þeir heita Brimurðarloft. Þar eru stórir móbergssteinar fyrir neðan úr dökkgráu mógrjóti.
Litl-höfði er næsti áfangi okkar. Farið er upp sunnanmegin og gengið fram á hann. Fyrir norðan hann er einkennilegur klettur, er nefnist Landstakkur. Spölkorn frá honum er í Litlhöfða stór hellir, er Litlhöfðahellir heitir. Tvö op hefir hann. Annað mót norðri en hitt mót austri. Farið er inn um opið að norðan.
Í Lyngfellisdalnum var dvalið örlitla stund. Að því búnu var haldið til Sæfells og upp að efsta tindi þess.
Hann heitir Hábúr.
Þaðan sést vel yfir Stakkabótina, Litla- og Stóra Stakk þar úti á víkinni. Samþykkt var að sleppa að ganga á Helgafell í þetta skiptið.
Haugarnir tóku nú við og skoðuðum við Haugahelli. Brátt voru Haugarnir á enda og tóku Urðirnar við. Á Skansinn komum við kl. 5 e.h. og þar með var þessari skemmtilegu sólarhringsgöngu lokið. Helginni hefðum við tæpast getað varið á skemmtilegri hátt en þennan.