Erlendarkrær
Erlendarkrær eru fornar fiskikrær nyrst í Stórhöfða, við Víkina. Þar eru minjar eftir fiskikrær eins og nafnið bendir til. Þar voru einnig naust eða hróf fyrir báta Ofanbyggjara og ábúendur á Sigríðarstöðum og í Stórhöfða. Einnig settu Ofanbyggjarar báta sína upp í Klaufinni sem er nær Breiðabakka og má þar enn sjá augabolta sem notaðir voru til að binda bátana. Áttu menn báta í Víkinni allt fram á síðari hluta tuttugustu aldar og notuðu spil til að koma bátum sínum upp á land.
Þar í kring var mikill draugagangur á tímabili sem stafaði af því að þar höfðu enskir fiskimenn verið dysjaðir.
Útlendingadysin við Erlendarkrær
Nokkru fyrir miðja síðustu öld bar það við í Vestmannaeyjum, að enskt eða hollenskt fiskiskip rak á land í Víkinni. Þótti furðu sæta að engin mannaferð sást á skipinu, og brugðu eyjarskeggjar þegar við og fóru um borð í skipið. Varð þar fyrir mönnum hin hryllilegasta sýn. Víðs vegar um skipið lá skipshöfnin dauð, og var sýnilegt að alllangt var um liðið frá því að andlát mannanna hafði borið að höndum. Voru líkin svo mjög rotnuð, að hold var víðast hvar af beinum. Til marks um það var sagt að kögglarnir úr tánum hafi hrunið úr stígvélunum þegar þau vorau dregin af fótum líkanna. Mörgum getum var að því leitt, hverju sætti dauði þessara manna og héldu sumir að pest mundi hafa komið upp í skipinu en aðrir að banvæn eitrun hefði myndast í slagvatni skipsins, og hefðu skipsverjar látist þegar eiturbólurnar sprungu. Sýslumaður setti tvo menn til að standa vörð um skipið og vaka yfir líkunum.
Reimleikar
Þegar hina fyrstu nótt urðu svo mikil brögð að reimleikum að þeir treystu sér ekki til að halda vökunni áfram. Var þá Guðrún Laugudóttir (sjá meira í Reimleikar í Ystakletti), fengin til þess að vaka. Var Guðrún annáluð fyrir kjark sinn og einbeitni og var jafnan fengin þegar aðrir voru horfnir frá. Var hún ekki að stíga í gýpinn framan í drauga og vofur, og lét sig slíkt engu skipta.
Eftir að Guðrún hafði tekið við vökunni yfir skipinu og líkunum, varð einskis reimleika vart um sinn. Ekki þótti fært að lík þessi fengju leg í kirkjugarði. Þóttust menn ekki vita, nema útlendingar þessir hefðu verið heiðnir og jafnvel að þeir hefðu orðið hver öðrum að bana. Varð það að ráði að þeim var búin ein gröf hjá Erlendarkróm og voru öll líkin dysjuð þar. Skipið var rifið og var ásamt fargögnum selt á uppboði. Strax eftir að líkin höfðu verið dysjuð þarna tók að nýju að bera á reimleikum og urðu menn fyrir ýmsum skráveifum af afataurgöngum þessum í nánd við Erlendarkrær. Einhverju sinni hafði Ragnhildur Ingimundardóttir verið á ferð nálægt þeim, og hafði hún orðið fyrir alvarlegri ásókn af afturgöngunum, en nánari atvik munu nú vera fallin í gleymsku.
Líkin grafin upp
Árið eftir kom enskt fiskiskip til Vestmannaeyja. Var skipstjórinn á því bróðir skipstjórans á skipinu sem rekið hafði í Víkinni. Leitaði hann fregna af duggunni, og varð hinn reiðasti er honum var sagt að skipshöfnin hefði öll verið dysjuð úti á víðavangi. Heimtaði hann að líkin værðu grafin upp og veitt kirkjuleg. Tóku menn dauflega undir það, og varð ekki af því þá að líkin væru grafin upp. Það var ekki fyrri en árið 1934, að menn þessir fengu leg í kirkjugarði.
Í annál 19. aldar er sagt frá því að árið 1821 hafi í maímánuði fundist á hvolfi ensk skúta við Vestmannaeyjar. Var gat höggvið á botninn og fundust í henni fimm menn dauðir, og nokkuð af úldnum fiski. Mun þar vera um sama skipið að ræða, þó nokkuð beri á milli.
Tengdar greinar
Heimildir
- Sögur og sagnir úr Vestmannaeyjum