„Blik 1963/Saga séra Brynjólfs Jónssonar, VIII.“: Munur á milli breytinga
(Ný síða: Efnisyfirlit 1963 =Saga séra Brynjólfs Jónssonar= =prests að Ofanleiti= ::(Lok) <br> ==„Dáinn og grafinn“== <big>Séra Brynjólfur Jónsson lézt 19. nóvem...) |
m (Verndaði „Blik 1963/Saga séra Brynjólfs Jónssonar, VIII.“ [edit=sysop:move=sysop]) |
(Enginn munur)
|
Útgáfa síðunnar 4. apríl 2010 kl. 22:17
Saga séra Brynjólfs Jónssonar
prests að Ofanleiti
- (Lok)
„Dáinn og grafinn“
Séra Brynjólfur Jónsson lézt 19. nóvember 1884 eins og áður getur. Banamein hans var innvortismein, sem ein heimild segir, að lengi hafi þjáð hann. Vegna samgönguleysis við Eyjar dróst það lengi, að jarðarförin gæti fram farið. Prestur náðist enginn til Eyja. Líkið stóð uppi í Landakirkju og tíminn leið til jóla. Jólaguðsþjónustur voru framundan. Þá var presti tekin gröf, hún hlaðin innan með grjóti og þak gjört yfir. Síðan var kistan borin til grafar og látin síga í gröfina og lokið lagt yfir. Þetta átti sér stað 22. desember. Hinn 22. apríl árið eftir (1885) kastaði séra Stefán Thordersen rekunum á kistuna og jarðsöng líkið. Var gröfin þá fyllt moldu.
Við jarðarförina 22. des. flutti hinn danski sýslumaður í Eyjum, M.M. Aagaard (1872-1891), húskveðju. Hann hafði starfað með presti í sýslunefnd og að sveitarmálum í 12 ár, eða síðan hann fluttist til Vestmannaeyja og gerðist þar sýslumaður.
Aagaard sýslumaður lærði íslenzku furðu fljótt, og mun séra Brynjólfur hafa átt sinn þátt í því að kenna honum málið. Þegar sýslunefnd hinsvegar þurfti að skrifa yfirvöldum landsins mikilsvarðandi bréf, sem hún óskaði ekki að skrifuð væru á dönsku, fól hún venjulega séra Brynjólfi að skrifa þau fyrir hönd sýslunefndar. Svo innileg og góð var samvinna sýslumanns og prests, að hinn fyrrnefndi leit á það starf prestsins sem velvildarvott og greiðasemi við sig, enda var hinn danski sýslumaður þessi hið mesta ljúfmenni, alþýðlegur og alúðlegur, sem Eyjabúar mátu fyrir mannkosti.
Hér birtist svo húskveðja sýslumannsins:
„Allur þessi manngrúi, sem er kominn hingað í dag og sem nú sést kringum þessa kistu, er saman kominn í þeim tilgangi að heiðra endurminningu hins framliðna sálnahirðis síns með því að fylgja jarðneskum leifum hans til grafar og um leið heyra þau orð, sem verða töluð í hans minning, eins og siður er til við slíkt tækifæri.
Hvað því viðvíkur, hvernig hinn framliðni hefur staðið í stöðu sinni sem prestur, þá ber öllum saman um, að hann var hinn samvizkusamasti, bæði sem boðari guðs orðs og sem kennari hinna ungu. Hann hlýðnaðist að fullu, að svo miklu leyti sem í hans valdi stóð, fyrirskipun postulans til lærisveins síns, að aldrei mætti slá slöku við kenninguna eða verða hlé á henni. Söfnuður hans veit, að hann lét aldrei af að framkvæma þjónustu herra síns, nema þegar líkamlegur veikleiki bægði honum frá því.
Þessi skyldurækni hans var eigi ötulleiki, sem hann hafði aðeins til sýnis til þess að þóknast yfirboðurum sínum hér í heiminum eða í þeim tilgangi að fá hrós hjá mönnum. Söfnuðurinn fann, að það að þjóna kennimannaembætti kirkjunnar í anda og sannleika, var honum rétt eiginlegt áhugamál og það, sem lá honum innst á hjarta.
Það, sem ég hér hefi talað, er eigi dómur, sem ég sjálfur kveð upp yfir hinum framliðna, heldur er það vitnisburður, sem ég oft hefi heyrt sóknarbörn hans gefa honum og sem ég er sannfærður um, að söfnuðurinn í heild sinni er samdóma.
Hvað hið daglega líf hans meðal vor snertir, þá er oss öllum minnisstætt, hvernig hann í allri breytni sinni við náungann var samkvæmur kenningum sínum í guðshúsi. Ég hefi sérstaklega tekið eftir og virt sannleiksást hans og hreinskilni og samkvæmni við sjálfan sig. Ég vil einnig við þetta tækifæri þakka honum fyrir hans dugnað og samvizkusemi í samvinnu okkar í embættisstörfum. Um leið og hann var velviljaður og liðlegur samverkamaður, lét hann ávallt tillit til málsins sitja í fyrirrúmi fyrir tilliti til persónanna.
Þótt sálnahirðir vor sé nú horfinn úr augsýn vorri, svo að vér ekki lengur sjáum hans fögru, karlmannlegu mynd meðal vor, fer fjarri því, að hann ekki hafi látið eftir sig sýnilega votta um umhyggjusemi sína og umönnun fyrir sóknarbörnum sínum bæði í andlegu og veraldlegu tilliti. Ég skal hér aðeins nefna það, að það var hann, þegar hið siðferðilega ástand hér var mjög hryggilegt og dimmt, sem stofnaði bindindisfélag það, er ennþá er til og hefur sýnt sig svo blessunarríkt í verkun sinni til að hefja almenning í þessu plássi upp úr þeirri niðurlægingu, sem hann var sokkinn í. Mun hans endurminning og eftirdæmi lengi lýsa fyrir söfnuðinum til uppbyggingar og eftirbreytni í öllu góðu.
Fyrr en við förum héðan, vildi ég innilega óska, að ég gæti sagt syrgjandi ekkju hans og börnum nokkur orð þeim til huggunar. Kemur mér þá eigi annað betra til hugar, en að biðja þau einnig í því tilliti að láta eftirdæmi hans lýsa fyrir sér og leiðbeina sér. Látum oss þá hugleiða, hvernig hann sjálfur bar sorgina, þegar hann fyrir nokkrum árum missti elskaða dóttur sína, hvernig hann þá bæði í orðum og allri breytni sinni lét það í ljós, að hann einnig hér í sá drottins vilja, og bað eftir sem áður, að hans vilji mætti verða. Skoðið burtför hans á þann hátt, sem þér getið hugsað yður, að hann sjálfur vildi kenna yður að skoða hana. Hann mundi þá biðja yður að þakka guði fyrir, að hann hefði kallað sinn trygga þénara til síns friðar og látið starfstíma hans í þessa heims baráttu nógu langan orðinn.
Drottinn var honum einnig náðugur í því, að láta hann eigi finna til mæðu mjög langvinns veikindaástands með sívaxandi þverrun líkamskraftanna, en á hinn bóginn að gjöra banalegu hans nógu langa til þess, að hann gat haft tíma til að gjöra upp reikning sinn við þennan heim og eins og leggja síðustu hönd á undirbúning sálarinnar undir hið eilífa líf.
Friður sé með honum.“
Þorsteinn héraðslæknir Jónsson flutti ræðu í Landakirkju, er kista séra Brynjólfs var borin þaðan til grafar. Héraðslæknirinn og presturinn höfðu unnið saman að margvíslegum félags- og hagsmunamálum almennings í sveitarfélaginu næstum tvo áratugi.
Kaflar úr ræðu læknisins fara hér á eftir:
„Kæru vinir! Vér erum nú saman safnaðir í guðshúsi til að fylgja einum af samferðamönnum á lífsleiðinni til hins síðasta hvíldarstaðar hans hér í heimi, og er eðlilegt, að vér höfum fjölmennt til þessa samfundar, því að hver er sá, sem hér hvílir nár innan þessara bleiku líkfjala, er vér getum að líta fyrir augum vorum?
Það var ekki einungis hinn uppbyggilegi borgari mannfélagsins, hinn blíði ektamaki, faðir og húsfaðir, heldur er það einnig hinn árvakri, trúi og kostgæfni hirðir þessa safnaðar. Hér hvíla hinar jarðnesku leifar þess manns, sem um meira en 3 tugi ára hefur látið sína huggandi, aðvarandi og áminnandi röddu hljóma í þessum helgidómi. Hér hefur hann um hönd haft hin helgu sakramenti. Hér hefur hann tengt hin helgu böndin milli manns og konu. Hér hefur hann uppfrætt æskulýðinn, hér látið hann endurnýja sitt helga skírnarheit, og í einu orði að segja framkvæmt öll hin háleitu störf, er trúarreglur og helgisiðir kristinna manna útheimta. Hér hefur því eigi einungis að höndum borið heimilissorg heldur og
héraðssorg. Hér syrgja ekki einungis ekkja, börn, fósturbörn, vinir og vandamenn ástríkan maka, föður, fóstra og vin, heldur syrgir hér og allur söfnuðurinn góðan kenniföður, árvakran og skyldurækinn embættismann og hinn samvizkusamasta og vandaðasta mann. Að ytra áliti var hinn framliðni fríður sýnum, í hærra meðallagi á vöxt, vel limaður, léttur á fæti og karlmannlegur á velli, jarpur á hár og skegg, áður en hann tók að hærast, bláeygur, fölleitur í andliti, góðmannlegur en nokkuð alvarlegur á svip og í allri framgöngu stilltur og kurteis.
Hann var að eðlisfari hinn mesti hagleiksmaður og fórst allt vel og lipurlega, er hann lagði hönd á. Hann var hinn mesti starfs- og iðjumaður, ötull og óhlífinn sér til allrar vinnu og vildi ávallt hafa eitthvað þarflegt fyrir stafni. Í allri umgengni, viðkynningu og viðmóti var hann hinn þægilegasti maður, skemmtilegur og ræðinn, einkum í fámenni, en að eðlisfari var hann of mikill alvörumaður til að vera gefinn fyrir gleði og glaum.
Vor framliðni var lipur, hjartnæmur og viðkvæmur kennimaður. Honum var í öllum greinum vel annt um andlegan og líkamlegan hag sóknarbarna sinna. Hann sýndi það auk annars í ýmsum þarflegum framkvæmdum, er að framförum lúta. Árið 1862 stofnaði hann í samfélagi með tveim öðrum heiðursmönnum lestrarfélag hér á eyju til að efla fróðleik og menntun sóknarmanna og var forstöðumaður þess hin 10 síðustu ár ævi sinnar ... En sér í lagi má minnast þess, að hann hið sama ár (hér skeikar tveim árum samanb. kaflan um bindindisfélagið. Þ.Þ.V.) stofnaði bindindisfélag til að eyða ofdrykkju og var forseti þess til æviloka. Félag þetta hefur átt mikinn og góðan þátt í að minnka hér nautn áfengra drykkja og þar með efla siðsemi og góða hegðun, en eyða ósiðsemi og öllum þeim skaðsemdum, sem ofdrykkja hefur í för með sér. Einnig var hann meðstofnandi að skipaábyrgðarfélagi Eyjanna, er stofnað var í þeim tilgangi að tryggja og efla sjávarútveg Eyjabúa. Enn fremur var hann hinn helzti frumkvöðull og hvatamaður til þess að koma hér á stofn barnaskóla...
Áður en hin nýju sveitarstjórnarlög öðluðust gildi, tók hann mikinn og framkvæmdarsaman þátt í fátækrastjórn hreppsins, en síðan tók hann að lögum sæti í sýslunefnd Eyjanna. Hann hefur í þessum störfum sem hvervetna komið fram sem hinn samvizkusami og gætni sómamaður. Af heimilisframkvæmdum hans má geta þess, að hann, svo sem öllum er kunnugt, hefur bætt svo hús og tún prestssetursins, að það mun lengi bera merki atorku hans, smekkvísi og hagsýni.
Auðmaður var hann eigi, en þá er á það er litið, að hann, svo sem áður er sagt, var mikill fjölskyldumaður, og ekkert sparaði, er börnum hans mætti til menningar horfa, að tekjur hans sakir langvinns aflaleysis voru einatt rýrar, að hann var mjög tilhliðrunarsamur í tekjukröfum, eigi sízt við hina fátækari og mun oft hafa gefið þeim eftir gjöld þeirra, með því að hann var hinn hjartabezti maður, að hann var heldur eigi sá maður eða svo skapi farinn, að hann leitaði sér smásmuglegra hagsmuna, hvar sem færi gæfist, að hann varði afar miklu fé til að byggja upp prestssetrið og setja það í hið ágæta stand, sem það nú er í, og loks, að heimili hans hefur verið hið mesta gestrisnisheimili við æðri sem lægri, svo að um það hefur mátt segja, að „hér átti hinn snauði heimvon að brauði“. Þá er á allt þetta er litið, svo sem vert er, má það eigi undarlegt þykja, þótt hann eigi eftirláti sér mikinn jarðneskan auð, enda lætur mönnum misjafnt auðsafnið. Hann mun hafa litið svo á, að betra væri að eftirláta sér gott mannorð og mannvænleg og vel upp alin börn, en mikinn veraldlegan auð, því að „eftir lifir mannorð gott, þótt maðurinn deyi“...
„Ávöxtur andans er kærleikur, gleði, friður, góðlyndi, góðvild, trúmennska, hógværð, bindindi“. Hinn framliðni sýndi, að minni ætlan, í hinni ytri hegðun og breytni sinni og allri háttsemi sinni í lífinu, að hann í miklum mæli hafði orðið hluttakandi í þessum ástgjöfum andans. Kærleika og góðvild sýndi hann ekki aðeins sínum nánustu ástvinum, heldur sýndi hann og mannást sína í því, að taka að sér mörg munaðarlaus börn og veita þeim hið bezta uppeldi ...
Sóknarbörnum sínum og öðrum út í frá auðsýndi hann ávallt hið sama blíða, kærleiksfulla og hógværa viðmót. Friðsemi hans var orðlögð. Hann hafði andstyggð á hvers konar deilum og sundurlyndi. Svo sem hann var seinn til reiði, svo var hann hinn orðvarasti maður og umtalsbezti um aðra menn og vildi jafnvel ekki heyra neinum niðrað, því síður gjöra það sjálfur, og kom einnig fram góðlyndi, góðvild og hógværð hans í þessum mannkostum.
Trúmennskuna sýndi hann fyrst og fremst með óþreytandi skyldurækni, árvekni og kostgæfni í köllun sinni. Í viðskiptum manna á milli munu fáir reynast tryggari, áreiðanlegri og ósérplægnari en hann. Bindindissemi hans þarf ég eigi að lýsa, með því að hún er eigi aðeins héraðskunn heldur og þjóðkunn...“
Að ræðu þessari lokinni var kista séra Brynjólfs Jónssonar borin í kirkjugarðinn, látin síga ofan í gröfina og lok lagt yfir. Þar beið hún síðan prestsins til næstu útmánaða, eins og fyrr greinir.
Eftir dauða séra Brynjólfs dvaldist frú Ragnheiður að Ofanleiti með dætrum sínum í 7 ár eða til ársins 1891. Prestsekkjan hafði til nytja nokkurn hluta prestsetursjarðanna og naut styrks úr prestsekknasjóði.
Árið 1891 voru tvær dætur hennar eftir heima hjá henni, þær Sigríður og Ingibjörg. Þær fluttu burt með móður sinni það ár til Reykjavíkur.
Vorið 1891, fimmtudaginn 16. apríl, efndi frú Ragnheiður prestsekkja að Ofanleiti til uppboðs á ýmsum munum úr búi sínu, áður en til flutnings kom úr Eyjum. Uppboðinu var flýtt, áður en „landmenn“ færu úr verinu eftir vertíðina. Munirnir skyldu greiðast við hamarshögg, en ættu áreiðanlegir kaupendur hlut að máli, var veittur 14 daga greiðslufrestur, þó skyldu „landmenn“ greiða, áður en þeir færu burt úr Eyjum. Það bar hreppstjóranum, Lárusi Jónssyni á Búastöðum að sjá um. Borgun skyldi ýmist greiðast í peningum eða með innskrift við verzlunarstaði í Eyjum. „Minna en 5 aura yfirboði verður ekki gaumur gefinn,“ stendur í uppboðsauglýsingunni.
Fjórum árum síðar giftist Ingibjörg séra Magnúsi Bjarnarsyni, sóknarpresti að Hjaltastað og síðar prófasti að Prestsbakka á Síðu í Vestur-Skaftafellssýslu. Fluttist frú Ragnheiður til hennar og dvaldist hjá henni til dánardægurs. — Frú Ragnheiður Jónsdóttir lézt 11. ágúst 1921, 92 ára að aldri.
Afkomendur séra Brynjólfs Jónssonar og
frú Ragnheiðar Jónsdóttur.
Prestshjónin að Ofanleiti eignuðust 8 börn, eins og áður er vikið að. Hér verður frá þeim greint og mökum þeirra og afkomendum, eftir því sem mér er kunnugt.
Fremri röð frá vinstri: Kristín Brynjólfsdóttir frá Ofanleiti, Ragnheiður Jónsdóttir ekkja séra Brynjólfs Jónssonar (88 ára gömul), Ingibjörg Brynjólfsdóttir prófastsfrú að Prestsbakka og Ragnheiður Ingibjörg Magnúsdóttir.
Aftari röð frá vinstri: Björn Magnússon, guðfræðiprófessor, sonur prófastshjónanna, og Jóhanna systir hans (lézt haustið 1917).
Myndin tekin í ágúst 1917.
I. Rósa Jóhanna Sigríður, f. 2. nóv. 1854. Hún var heitin Einari Árnasyni frá Vilborgarstöðum, er hún lézt 13. jan. 1880. Rósa dó úr sullaveiki í Frydendal hjá frú Sigríði Árnadóttur, sem annaðist hana síðustu vikurnar, sem hún lifði, en í Frydendal voru nokkur sjúkrarúm til nota sjúklingum í Eyjum, þar sem Þorsteinn læknir Jónsson vitjaði þeirra.
II. Jónína Kristín Nikólína, f. 14. ágúst 1856. Hún giftist Sigfúsi Árnasyni hreppstjóra Einarssonar og bjuggu þau á [[Lönd[[um í Eyjum.
Þeirra börn:
1. Ragnheiður, f. 1883, fyrrv. yfirhjúkrunarkona, nú á eftirlaunum, búsett í Wilmington í Bandaríkjunum.
2. Brynjúlfur, kaupmaður, f. 1885, d. 1951. Fyrri kona hans var Guðrún Þorgrímsdóttir. Síðari kona Ingrid Marie f. Einarsson.
Þeirra börn:
a) Aðalsteinn, f. 1936, kvæntur Grétu Stefánsdóttur.
b) Bryndís, f. 1941. Barn: Sigrún Gylfadóttir, f. 1962.
c) Hersteinn, f. 1945.
d) Þorsteinn, f. 1947.
3. Árni, kaupm. og útgerðarmaður, f. 1887, d. 1948. Kona hans var Ólafía Árnadóttir frá Gerðakoti á Miðnesi. D. 1962.
Þeirra börn:
a) Jón Árni, f. 1916, kvæntur fyrra sinni Þyri Björnsdóttur
Guðjónssonar frá Kirkjubæ. Hún lézt af slysförum 1954.
Börn þeirra: Björn, f. 1949 og Sigríður Ragnheiður, f. 1952.
Síðari kona Jóns: Guðbjörg Pálsdóttir. Barn þeirra: Páll, f. 1948.
b) Ragnheiður, f. 1918, gift T. Royish, búsett í Nevada í Bandaríkjunum. Þau eiga 4 börn.
c) Guðni Hjörtur, f. 1920, kvæntur Erlu Ólafsdóttur D. Sigurðssonar frá Strönd í Eyjum. Þeirra börn: Sigurður Elli, f. 1944, Arndís, f. 1948 og Ólafur, f. 1950.
d) Elín, f. 1827, gift Gunnari Stefánssyni útgerðarm. Guðlaugssonar frá
Gerði í Eyjum. Þeirra börn: Leifur, f. 1947, Árni Gunnar, f. 1950, Stefán Geir, f. 1953.
e) Elísabet, f. 1930, gift Jóhanni Möller. Þeirra börn: Árni, f. 1952, og Helga, f. 1957.
Árni Sigfússon eignaðist dóttur fyrir giftingu. Hún er búsett á Hvolsvelli, gift þar.
4. Leifur, tannlæknir, f. 1892, d. 1947. Kvæntur var hann Ingrid, f. Steengaard, sem býr í Eyjum. Þeirra dóttir: Ninna Dorothea, f. 1940. Hennar barn er Liz Sveinbjarnardóttir, f. 1958.
III. Jóhanna Kristjana, f. 23. desember 1858. Hún lézt 13. marz 1860 úr „hósta og kvefsótt“.
IV. Gísli, f. 3. marz 1861. Hann las læknisfræði og átti lengst af heima í Danmörku. Kvæntur var hann Berthu Patrunky, af pólskum ættum í föðurætt. Dóttir þeirra og einkabarn heitir Ragnhild. Hún er gift Arvid Onsager, verkfræðingi (dr. ing.) í Osló og eiga þau tvær dætur uppkomnar. Gísli læknir lézt 18. september 1930. (Sjá annars Læknatal).
V. Jóhanna, f. 1. júlí 1863. Hún lézt uppkomin, ógift.
VI. Kristín, f. 20. apríl 1865. Hún var fyrri kona séra Kjartans Kjartanssonar á Stað í Grunnavík og síðar á Staðastað.
Þau eignuðust 4 börn:
a) Brynjólfur, skipstjóri á Skeljungi, f. 20. des. 1893 og dáinn 20. sept. 1961. Síðustu æviárin var Brynjólfur húsvörður Háskóla Íslands. Fyrri kona hans var Ingveldur Brandsdóttir (1921), og eru synir þeirra Brandur lögfræðingur og Gísli frímerkjasali. Öðru sinni kvæntist Brynjólfur skipstjóri 1944. Síðari kona hans var Elísabet Jónsdóttir. Þau eignuðust tvö börn, stúlku og dreng, sem heita Brynhildur Kristín og Leifur.
b) Ragnhildur, f. 1895. Dó ungbarn.
c) Gísli, f. 21. sept. 1896. Var skrifstofumaður í Reykjavík. Dáinn 17. febr. 1930. Hann kvæntist Ágústu Helgadóttur. Dóttir þeirra var Ragna Brynhildur. Maður hennar var Sigurbjörn Ólafur Nielsen, verzlunarm. í Reykjavík. Hún dó 1951 og hann 1962. Þau eignuðust 3 börn.
d) Magnús, f. 1898. Dó kornungur.
VII. Sigríður, f. 10. sept. 1868. Hún giftist Páli Símonarsyni, og bjuggu þau í Blaine í Washingtonfylki. Þau voru barnlaus. Frú Sigríður lézt 6. nóv. 1932. (Sjá Almanak Ólafs Thorgeirssonar 1928, bls. 79).
VIII. Ingibjörg, f. 26. febr. 1871. Hún giftist séra Magnúsi Bjarnarsyni prófasti á Prestbakka á Síðu. Börn þeirra:
a) Brynjólfur, f. 6. ágúst 1896, d. 20. sept. 1926.
b) Jóhanna, f. 16. ágúst 1900, d. 17. okt. 1917.
c) Björn guðfræðiprófessor, f. 17. maí 1904. Kvæntur er hann Charlottu Kristjönu Jónsdóttur.
d) Ragnheiður, f. 26. júní 1913; Gift Hermanni bifreiðavirkja Hákonarsyni. Dóttir þeirra heitir Ingibjörg.
Frú Ingibjörg Brynjólfsdóttir lézt 12. maí 1920.
Fósturbörn prestshjónanna.
Nokkur börn ólu þau prestshjón upp. Ýmist gerðu þau það að öllu leyti á eigin kostnað eða eilítið meðlag var greitt með sumum börnunum úr fátækra- eða sveitarsjóði.
1. Hans Pétur Vilhjálmur Möller. Þennan munaðarlausa dreng tóku þau í fóstur árið 1863. Hann ólst upp hjá þeim til 21 árs aldurs. Þá drukknaði hann. Fjórum dögum fyrir jól 1877 var Hans Möller að svipast um eftir reka. Fann hann þá stórt tré, sem var að reka að landi í Þórlaugargerðisgrjótum, sem er blágrýtisurð vestan við Klaufarskál. Hann hljóp út á tréð til þess að vera nógu fljótur að helga sér það og bjarglaunin. Um þau var háð mikið kapp eins og getið er um í kaflanum um Þingmennsku séra Brynjólfs. Pilturinn féll út af trénu í brimróti og drukknaði. Lík hans náðist ekki, og rak aldrei upp.
2. Pétur Torfason. Hann var sonur Torfa Magnússonar, síðast bæjarfógetafulltrúa á Ísafirði, og k.h. Jóhönnu Sigríðar Jóhannsdóttur Bjarnasen verzlunarstjóra í Vestmannaeyjum. Kona Jóhanns verzlunarstj. var Sigríður Jónsdóttir verzlunarstj. í Kúvíkum Salómonssonar, eins og fyrr getur. Pétur var því náfrændi frú Ragnheiðar á Ofanleiti. Prestshjónin tóku Pétur Torfason í fóstur ársgamlan. Hjá þeim hjónum var hann til 6 ára aldurs eða þar til séra Brynjólfur lézt. Pétur Torfason mun hafa farið til Ameríku 1887.
3. Guðmundur Erlendsson, sveitarbarn af sárfátækum kominn. Eitthvert meðlag mun hafa verið greitt með honum um tíma.
4. Jón Einarsson, munaðarlaus, sem ólst upp á Ofanleiti frá blautu barnsbeini. Eitthvað mun sveitarsjóður hafa greitt með honum fyrstu árin.
5. Salvör Brynjólfsdóttir. Með þessari stúlku var aldrei greitt. Hjónin litu á hana sem fósturbarn sitt.
6. Steinmóður Guðmundsson. Með honum munu prestshjónin hafa fengið meðlag.
Fleiri munaðarlaus börn dvöldust á heimili prestshjónanna lengri eða skemmri tíma, þó að þau séu ekki nefnd hér.
Öllum börnum, sem dvöldust á hinu merka heimili þeirra séra Brynjólfs og frú Ragnheiðar, komu þau til nokkurs þroska, kenndu þeim lestur, skrift og reikning, kristin fræði og þjóðlegan fróðleik. Af sjálfu heimilislífinu að Ofanleiti munu þau þó hafa öðlazt mestan siðgæðis- og umgengnisþroska.
Heimildir: Bréfabækur Landakirkju, persónuleg bréf séra Brynjólfs, fundagjörðabók Bindindisfélagsins, ýmis önnur skjöl og skilríki og íslenzkar æviskrár.
Heimildir um afkomendur: Björn Magnússon, prófessor (VIII c) og Elín Árnadóttir (II 3. d.). - Þ.Þ.V.
Nokkrar verðlagsskrár Vestmannaeyja.
Til glöggvunar athugulum lesanda og skilningsauka, þegar hann les um tekjur séra Brynjólfs Jónssonar og tíund hér í ritinu, þykir mér rétt að birta hér nokkrar verðlagsskrár, svo að hægt sé að gera nokkurn samanburð á verðlagi þá og nú.
Rkd = ríkisdalur,
skld = skildingar,
Í einum ríkisdal voru 96 skildingar.
Verðmæti | 1859-60 | 1863 | 1878 | 1884-85 | 1962-63 | ||
---|---|---|---|---|---|---|---|
Rkd. | Skld. | Rksd. | Skld. | Kr. | Kr. | Kr. | |
1 kýr 3-8 vetra, snemmbær | 36 | 0 | 30 | 0 | 80,00 | 3.000,00 | |
1 ær 2-6 vetra, loðin og lembd í fard. | 6 | 0 | 5 | 0 | 9,00 | 8,50 | 400,00 |
1 sauður 3—5 vetra á hausti | 6 | 0 | 5 | 0 | 14.00 | ||
1 pund (1/2 kg) af hvítri ull | 0 | 35 | 0 | 44 | 0,75 | 0,50 | 7,00 |
1 pund af mislitri ull | 0 | 26 | 0 | 36 | 0,55 | 0,37 | 5,00 |
1 pund af smjöri, vel verkuðu | 0 | 30 | 0 | 24 | 0,50 | 0,50 | |
1 vætt (80 pund = 40 kg) af saltfiski | 1 | 48 | 6 | 0 | 11,25 | 7,75 | 200,00 |
1 vætt af harðfiski | 5 | 48 | 5 | 48 | 16,25 | 16,00 | |
8 pottar (8 lítrar) af hákarlalýsi | 1 | 48 | 1 | 80 | 3,00 | ||
8 pottar af þorskalýsi | 1 | 32 | 1 | 64 | 2,40 | 1,20 | 24,00 |
10 pund af lunda- eða fýlungafiðri | 2 | 48 | 2 | 48 | |||
1 dagsverk karlmanns um heyannir | 0 | 88 | 2,33 | 2,75 | |||
Lambsfóður | 3,00 | 4,00 | |||||
10 pund af lundafiðri | 7,50 | 5,70 | |||||
10 pund af fýlafiðri | 4,00 | 5,70 | |||||
1 geld ær | 8,50 | 10,50 | 300,00 | ||||
1 mylk ær | 6,00 | 7,00 | |||||
1 áburðarhestur, 5-12 vetra | 60,00 | 40,00 | 2.000,00 | ||||
1 áburðarhryssa | 55,00 | 40,00 | |||||
Þ.Þ.V. |