Blik 1963/Saga séra Brynjólfs Jónssonar, VI.

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1963ÞORSTEINN Þ. VÍGLUNDSSON:


Saga séra Brynjólfs Jónssonar
prests að Ofanleiti
(Sjötti hluti)


Bóndinn og jarðræktarmaðurinn

Þegar prestshjónin fluttu að Ofanleiti, var allt tún prestssetursins eitt kargaþýfi. Þar hafði ekki verið fjarlægð þúfa áratugum saman. Ef til vill aldrei frá landnámstíð.
Þegar á fyrsta ári sínu á Ofanleiti setti prestur sér það mark að slétta allt túnið, stækka það og hlaða um það öflugan varnargarð, ef honum entist aldur, en allt það verk hlaut að taka áratugi. En hann var líka á bezta aldri, aðeins hálf fertugur.
Þetta mikla verk tókst honum með árunum, þó að það kostaði hann sjálfan mikið starf og strit. Haust eftir haust tók hann sjálfur pál og reku í hönd og síðan undirristuspaðann, þegar hann kom til sögunnar, pældi og bylti, skar og risti.
Er prestur féll frá að aldarfjórðungi liðnum, hafði hann sléttað svo að segja allt Ofanleitistúnið. Þá gaf það orðið af sér um 90 hestburði af töðu eða tæplega 3 kýrfóður.
Til þess að taðan entist þrem kúm og nokkrum kindum, sem prestur ól heima vetrarlangt, lét hann jafnan heyja í Bjarnarey hvert sumar í samvinnu við nágrannabændur sína, en hann átti slægjur þar til jafns við þá alla.
Nægilegt vinnufólk höfðu þau prestshjón hvert ár til þess að geta notfært sér allar nytjar prestssetursins eða hlunnindi, svo sem lunda-, svartfugla- og fýlungaveiði í Bjarnarey að helmingi. Einnig eggjatöku og fýlungaveiði í Smáeyjum og Ofanleitishamri til jafns við hverja 4 bændur, sem þar áttu ínytjar. Í sama mæli fékk prestur hluta af eggjatöku og fuglaveiði í Súlnaskeri, Hellisey og Geirfuglaskeri.
Árið 1878 voru öll þessi hlunnindi metin til hreins ágóða á kr. 36,00. Þá hafði séra Brynjólfur „Lensjörðina Kirkjubæ“ undir og leigði hana frá sér. Þetta voru raunar þrjár jarðir, sem kölluðust Garðar, 6,01 hundr. að dýrleika, Syðstibær, 6,23 hundruð, og svokallað „Bænhús“, 6,23 hundruð, samtals 18,47 hundruð. Engin kúgildi fylgdu þessum jörðum. Þessar jarðir leigði prestur frá sér fyrir samtals 204 álnir, þar sem hver alin var reiknuð eftir verði á harðfiski, sem nam á árunum 1872-1877 að meðaltali 76 62/75 eyris hver alin eða alls kr. 156,72. Árið 1880-1881 var leiga eftir hverja þessara jarða metin á 97,13 álnir, en þá féll harðfiskur mjög í verði, svo að afgjald jarðanna allra varð litlu meira en áður í vasa séra Brynjólfs.
Prestur greiddi ekkert leigugjald af Ofanleiti en það var metið á 300 álnir, t.d. við álagning útsvars, sem þó varð ágreiningsefni milli prests og hreppsnefndar, þar sem landshöfðingi segir í bréfi dags. 11. jan. 1879:

„Þar eð presturinn sjálfur býr á Ofanleiti og arðurinn af ábúð þess þannig rennur beinlínis til hans sjálfs, virðist hann ekki eiga að greiða skatt af tekjum þeim eða tekjuauka, sem hann má álítast að hafa við það, að honum eru veitt leigulaus afnot prestssetursins.“
Þessa rökfærslu landshöfðingja gat hreppsnefnd ekki fallizt á og neitaði því að taka útsvarskæru prests til greina vegna útsvarsálagningar á þennan 300 álna tekjuauka prestsins.
Garðrækt mikla hafði prestur einnig á Ofanleiti á þess tíma mælikvarða. Rófur og kartöflur ræktaði hann og gerði tilraunir með að rækta ýmsar aðrar nytjajurtir.
Vissa er fyrir því, að séra Brynjólfur keypti til Eyja fyrsta plóginn, sem þangað fluttist. Líklega hefur prestur fengið plóginn frá Danmörku fyrir atbeina Bryde kaupmanns. Hann hugðist prestur nota til að plægja garða sína fyrst og fremst. Plógurinn kom honum þó að litlum notum, sérstaklega sökum þess, að hann reyndist of þungur í drætti fyrir íslenzka hesta, enda hestar prestsins lítt tamdir til slíks dráttar.
Einnig er fullyrt, að séra Brynjólfur hafi fest kaup á hestvagni eða kerru, er hann hugðist nota til að flytja á heimilisnauðsynjar, búðarvarning og fiskmeti frá verzlununum og höfninni upp að Ofanleiti. En þetta mistókst einnig. Vegurinn upp fyrir Hraun var þá helzt enginn. Meginhluti hans troðningar og skorningar eftir fætur hesta og manna frá lokum Landnámsaldar að byggð festist í Eyjum. Vegleysa þessi olli því, að prestur hafði miklu minni not af hestkerru sinni en skyldi. Mun þó hafa ekið á henni áburði á tún haust og vor.
Á seinustu áratugum 19. aldarinnar úthlutuðu yfirvöldin nokkurri fjárhæð árlega „til eflingar landhúnaði“, eins og það hét í sumum bréfum þeirra. Þessu fé skyldi sérstaklega varið til að verðlauna þá jarðræktarmenn, sem sköruðu fram úr fjöldanum um ræktun túna og garða og annað framtak til fyrirmyndar almenningi. Fjárhæð sú, sem sýslunefnd Vestmannaeyja barst árlega í þessu skyni, nam 30—60 krónum eða þar um bil.
Eftir að séra Brynjólfur var fallinn frá, samþykkti sýslunefndin í Eyjum að veita ekkju hans, frú Ragnheiði, búnaðarstyrkinn árið 1885, sökum þess, eins og þar stendur, ,,að séra Brynjólfur hafi tekið við túni Ofanleitisjarða kargaþýfðu, en verið að ljúka við að slétta öll túnin, þegar hann dó.“ Þar sem hér var um að ræða styrk til ekkjunnar, fannst sýslunefnd sjálfsagt að leita leyfis yfirvaldanna til að greiða henni hann. Því leyfi var synjað svo að Sigurður Sveinsson í Nýborg hlaut styrkinn fyrir dugnað sinn í garðrækt og tilraun til að koma upp æðarvarpi í Klettsvík m.m.
Sem hygginn búmaður fannst presti sá tími, sem svo að segja daglega var notaður á prestsheimilinu til að mala korn í brauð og graut, skila litlum, allt of litlum arði, svo að hann vildi nota eitt af öflum náttúrunnar til þess verks. Þess vegna kom hann sér upp vindmyllu í Ofanleiti og notaði hana í nokkur ár. Ekki skortir vindinn þar flesta tíma ársins og þetta framtak prestsins var ein mesta tækni þess tíma.
Kornmyllan stóð spölkorn austan við prestssetrið.


Heimilið.

Heimili prestshjónanna að Ofanleiti var alltaf mannmargt. Mörg búskaparárin 15—19 manns. Flest árin, sem þau bjuggu þar, var það mannflesta heimilið í Vestmannaeyjum. Börnin voru mörg, og verður komið að þeim síðar, og svo höfðu prestshjónin um margra ára skeið 2—3 vinnumenn og 3—4 vinnukonur. Þess utan höfðu þau í fóstri börn, sem enga eða fáa áttu að, tökubörn svo kölluð. Þau voru að öllu leyti á framfæri prestshjónanna.
Síðan höfðu þau flest búskaparár sín „niðursetninga“, sem eitthvað hefur verið greitt með úr fátækrasjóði, oftast börn eða unglinga, stundum 2—3. Stúlkurnar kallaði prestur „léttakindur“, þegar þær náðu fermingu. Þá lét hann það heita svo, að þær ynnu fyrir sér.
Heimilisbragurinn að Ofanleiti var allur hinn mennilegasti. Prestshjónin góðir húsbændur, sem hjúin mátu og virtu. Börnin vel gerð og vel upp alin. Prestur var jafnan léttur í lund, þó að hann væri alvörumaður, stilltur og lítið skrafgefinn. Margar rökkurstundir sat hann með börnin sín lítil og smá og sagði þeim sögur og ævintýri eða orti vísur til þeirra. Hér er ein, er hann orti, þegar Sigríður dóttir þeirra hjóna var lítil hnáta í kjöltu móður sinnar:

Nú er gleði, nú er gleði Ofanleiti á.
Börnin sitja saman, syngja í rökkri gaman.
Sigga litla, Sigga litla situr mömmu hjá.

Á kvöldum gaf prestur sér tíma til að veita börnunum nokkrar ánægjustundir. Mikið yndi höfðu þau af hljóðfæraslætti hans, sem að mestu leyti var leikur á harmóniku. Einnig mun hann hafa átt munnhörpu eða langspil, nema hvort tveggja sé, og leikið á þau hljóðfæri fyrir börnin.


Lýsing Vestmannaeyjasóknar.

Vorið 1872 sendi deild hins íslenzka bókmenntafélags í Kaupmannahöfn bréf til allra presta og sýslumanna. Efni þess var tilmæli um, að þeir semdu sókna- og sýslulýsingar og sendu þær Deildinni. Danskur félagsmaður Bókmenntafélagsins hafði gefið því 20 rit til þess að verðlauna höfunda beztu sókna- eða sýslulýsinganna.
Boðsbréf þetta varð til þess, að séra Brynjólfur Jónsson samdi lýsingu á prestakalli sínu, sem hann kallaði Lýsing Vestmannaeyjasóknar. Hún var ein sú allra bezta og skilmerkilegasta sóknarlýsing, sem bókmenntadeildinni barst.
Sóknarlýsinguna lét Fræðafélagið prenta árið 1918 og kostaði Gísli Brynjólfsson læknir í Kaupmannahöfn, einkasonur séra Brynjólfs og frú Ragnheiðar, útgáfuna ásamt stuttu æviágripi föður síns. Útgáfa þessi er fágæt orðin, enda var hún aðeins prentuð í 200 eintökum til sölu. Lýsingin ber þess vitni, hversu presti hefur verið sýnt um að setja fram mál sitt skýrt og ljóst og skilmerkilega. Þar er lýst fjöllum öllum í Eyjum og nefndur fjöldi örnefna, sem þar finnast. Einnig eru úteyjar allar nefndar, greinileg lýsing á þeim og drepið á helztu nytjar þeirra, svo og hvaða jarðir eigi ítök í þeim. Þá eru taldar upp allar jarðir á Heimaey og getið dýrleika þeirra hverrar um sig. Öll tómthúsin, er þá voru á Heimaey, 24 að tölu, eru nefnd og eru flest þau húsnöfn kunn í Eyjum enn, þó að þau fyrnist nú óðum og götunafn og tala komi í staðinn.
Í sóknarlýsingu séra Brynjólfs eru skráð 102 fiskimið og sagt til um það, hvernig þau skal miða og finna. Þá er þar og greint frá veðurfari og veðráttu, en prestur mun hafa haldið bækur um veðurfar í Eyjum um langt árabil.
Prestur skrifar um menningu fólksins, kunnáttu þess í lestri og skrift, söng og tónmennt, leikni á hljóðfæri, skemmtanir, trúrækni, altarisgöngur og kirkjusókn, helztu sjúkdómsplágur mannfólksins og sauðfjárins, fornleifar og fræga staði, forngripi og helztu atburði sögunnar, drykkjuskap og duft.
Um áhrif Bindindisfélagsins segir prestur: „Drykkjuskapur hefur til skamms tíma verið hér mjög almennur, en að tiltölu við það, er áður var, eru hér nú mjög fáir drykkjumenn. Er það án efa því að þakka, að árið 1864 var hér á eyju stofnað Bindindisfélag, og lutu aðalreglur þess að því að bindast fyrir alla nautn áfengra drykkja og styðja sem mest að eflingu bindindis hér á eyju. Félag þetta, sem í fyrstunni var fámennt, hefur ár frá ári farið æ fjölgandi undir umsjón sóknarprests svo og formanns.
Frá því félag þetta var stofnað, hafa alls í það gengið hér um bil 100 manns, en nú eru félagar hér á Eyju milli 60 og 70 karlmenn, þar á meðal, auk prests og sýslumanns, flestir hinir helztu bændur og margir yngismenn. Félag þetta hefur að miklu leyti stöðvað drykkjuskap þann, er hér var mjög almennur, og hefur það jafnframt haft bætandi áhrif á marga utanfélagsmenn. Með vaxandi reglusemi hefur og iðjusemi og manndáð aukizt, þó að ekki verði á móti því borið, að sumum verði stöðudrjúgt og þá einnig verkfátt í og nærri kaupmannabúðum, eins og víða hér á landi mun eiga sér stað við verzlunarstaði.“
Það er sérstaklega eftirtektarvert í þessum orðum prestsins, að hann hefur veitt því athygli, hversu Bindindisfélagsskapurinn hefur beint og óbeint eflt manndáð og iðjusemi Eyjabúa. Það var einn ávöxturinn af hinu mikla og óeigingjarna starfi hans fyrir heimilin í Eyjum, fyrir heimilishamingju fólksins, von og velferð.


Fisktíundin og presturinn,
tekjur hans og efnahagur.

Nokkur vafi getur leikið á því, hvenær hin svo kallaða fisktíund í Vestmannaeyjum er leidd í lög. Hinsvegar er það vitað, að dómur fellur í tíundarmáli í Eyjum 7. sept. 1545 og Bessastaðasamþykkt er gjörð 10 árum síðar.
Upphaflega var tíundin þannig hugsuð, að Vestmannaeyjaprestar skyldu fá einn tíunda hlut af öllum sjávarafla, sem á land bærist í Vestmannaeyjum, hvort sem um var að ræða opin skip Eyjamanna eða svo kölluð landmannaskip, þ.e. skip þau, sem bændur af Suðurströndinni gerðu út frá Eyjum á vetrarvertíð. Fisktíundin var aðaltekjustofn prestanna, prestmatan svokallaða, og tók til alls sjávarafla, hvort sem hann veiddist á öngul eða í net.
Þetta þótti útgerðarbændum óhæfilega þungur skattur á atvinnurekstur sinn. Þess vegna kom brátt til deilna um fisktíundina og undandráttar um hana, svo að kærur spruttu af, réttarhöld og dómar.
Prestinum var jafnan mikill ami að því að þurfa að standa í illdeilum við sóknarbörn sín um prestmötu þessa og lét heldur undan síga en að láta kærur dynja á bændur og aðra „fiskifangara“ í prestakallinu.
Álykta má af dómi 3. maí 1816 að þá hafi það verið orðin gömul og gróin lenzka eða siðvenja, að útvegsbændur í Eyjum greiddu fisktíundina með einum hlut af 6-, 8- og 10-æringum sínum til prestanna og „landmenn“ hálfan hlut, en til þess tíma hundruð ár aftur hafði sjór á vetrarvertíðum einungis verið stundaður á þessum stóru, opnu skipum. Og svo að einhverju leyti á vor- og sumarvertíðum.
Á 6— æringum var afla skipt í 16 hluti, 20 hluti af 8— æringum og 24 hluti af 10— æringum. Einn hlutur af þessum skiptum nam því til jafnaðar sem næst tuttugasta hluta af aflanum. Þannig hafði fisktíund prestanna af Eyjaskipum rýrnað um helming eða nær því á undanförnum 2—3 öldum, svo að ekki sé lengra seilzt aftur í tímann, og skroppið saman til l/4 af landmannaskipum. Sjómenn reyndu oft eftir megni að hlunnfara prestana um fisktíund af heilagfiski, keilu, löngu, ýsu og öðru „trosfiski“, svo og lifrarhlut, hrognum, sundmaga og öðru fiskifangi, sem féll í þeirra hlut.
Sérstaklega varð það prestununum erfitt hlutverk að innheimta fisktíundina, þegar lítið aflaðist eða ördeyða til sjávarins steðjaði að fólki, svo að það hafði ekki til hnífs og skeiðar sjálft. Þá bjó prestur oft við skarðan hlut.
Fyrir miðja 19. öldina var það orðin algild regla í Vestmannaeyjum að stunda vor- og sumarróðra á minni fleytum en opnu stórskipunum. Þá voru fjögurra manna för orðin algeng til þeirra nota með 6—8 manna áhöfn. Þá urðu þar allt að 10 hluta skipti, ef tveir „dauðir hlutir“ komu til, sem venja var.
Um og fyrir miðja öldina síðustu voru góð aflaár og fisktíundin því drjúgur skildingur í bú prestsins í Vestmannaeyjum. Á árunum 1852—1854 nam hún t.d. 8.000 (átta þúsund) þorskum til jafnaðar hvert ár. Þá skiptist tíundin til jafns á milli sóknarprestsins séra Jóns Austmanns og aðstoðarprestsins séra Brynjólfs Jónssonar og var þeim báðum mikið búsílag, mikil tekjulind. Þegar svo vel aflaðist, seildust útvegsbændur ekki til að stunda hákarlaveiðar nema þá í mjög litlum mæli. Aðeins eitt og eitt skip fór til þeirra veiða endur og eins. Venjulega var ekkert fengizt um að greiða neina fisktíund af hákarlaveiði, enda þótt það væri skýlaus skylda samkvæmt tíundarlögunum. Þó voru þilskip frá upphafi undanþegin þeim. Af þilskipum þurfti aldrei tíund að greiða, hvorki af þorskveiðum né hákarlaveiðum.
Þegar séra Brynjólfur Jónsson hafði verið aðstoðarprestur í 5 ár í Vestmannaeyjum, fékk hann fyrst að reyna, hversu stopult það var að eiga alla afkomu sína og sinna undir aflabrögðum og skilvísi útgerðarmanna og sjómanna á fisktíundinni. Árið 1857 brást vetrarvertíð gjörsamlega í Vestmannaeyjum. Annað eins aflaleysi og þá mundu ekki elztu menn.
Undanfarin 5 ár hafði fisktíundin þá numið til jafnaðar hvert ár 745 ríkisdölum, sem skiptist jafnt milli prestanna. En árið 1857 varð hún aðeins 194 ríkisdala virði. Kom þá í hlut hvors prests 97 ríkisdalir. Það voru megin tekjur þeirra það ár eða samanlagt 551 ríkisdal minna en árið áður. Séra Brynjólfur tjáði þá biskupi, að hann sæi engin tök á að fleyta sér fram á þeim tekjum, sem hann þá hafði, þrátt fyrir hina mestu sparsemi og hagsýni. „Heimilið getur ekki verið minna en 10 manns,“ sagði prestur. Aukatekjur hans námu þá 60 ríkisdölum og afgjaldið af Kirkjubæ 30 dölum. Meginárstekjur séra Brynjólfs námu því 1857, 187 ríkisdölum fyrir utan ínytjar af Kirkjubæjarjörðunum og mjólkurframleiðslu til heimilisnota.
Til samanburðar þykir mér rétt að birta hér skrá yfir árlegar tekjur séra Jóns Austmanns síðustu árin, sem hann var einn prestur að Ofanleiti.

Tekjur af Ofanleitisjörðum eftir mati 44 rd. og 51 sk.
Leiga af Kirkjubæjarjörðum 30 rd. og 27 sk.
Gjafir til prestsins (offur) 16 rd.
Greiðslur fyrir aukaverk 50 rd. og 66 sk.
Fisktíund (8.000 þorskar af opnum skipum):
4.000 þorskar blautfiskur 266 rd.
4.000 þorskar verkaðir 316 rd
Hrálýsi úr þessum fiskafla 88 rd.
Fisktíund af julum (4 og 2 manna förum) 30 rd.
Tekjur alls 841 rd. og 48 sk.

Þessi tekjuskrá gefur nokkra hugmynd um, hversu fisktíund prestsins nam að jafnaði miklum hluta af árstekjum hans.
Þar sem nú fisktíundin brást séra Brynjólfi að mestu leyti árið 1857, varð hann að fleyta fram heimili sínu með lánum hjá N. N. Bryde selstöðukaupmanni í Danska-Garði. Þar stóð hann í mikilli skuld að árinu liðnu.

Einum áratug síðar eða 1867 urðu árstekjur séra Brynjólfs sem hér segir:

Tekjur af Ofanleitisjörðum eftir mati 96 rd. og 44 sk.
Leiga af Kirkjubæjarjörðum 65 rd. og 56 sk.
Gjafir til prestsins (5 offur) 12 rd.
Greiðslur fyrir aukaverk 61 rd. og 46 sk.
Fisktíund af stórskipum 552 rd.
Fisktíund af julum (4 og 2 manna förum) 30 rd.
Tekjur alls 817 rd. og 50 sk.

Af tekjum þessum varð prestur að greiða skatt í tvo sjóði:

1. Tillag til uppgjafapresta
samkv. konunglegu bréfi
dags. 14. febrúar 1705
2 rd. og 24 sk.
2. Til prestsekkna
skv. konunglegu bréfi
dags. 5. júní 1750
72 sk.
Alls 2 rd. og 96 sk.
eða alls
heilir 3 rd.

Þegar leið fram um 7. tug aldarinnar, fóru aflabrögð í Vestmannaeyjum mjög rýrnandi. Fisktíundin, og þar með tekjur prestsins, minnkaði þannig ár frá ári og heimtist verr eftir því sem aflatregðan fór í vöxt. Þegar leið fram að árunum 1870 nam fisktíundin oft ekki nema 1/4 af því, sem hún hafði numið fyrir 20 árum eða um miðja öldina. Þessi aflatregða herti því mjög að allri afkomu prestsins. Efnahagur hans stóð því þá mjög höllum fæti.
Vetrarvertíðin 1871 varð þó hin allra rýrasta í manna minnum. Þá námu hlutir fiskimanna 40—150 fiskum yfir alla vertíðina. Þá var sultur við næstum hvers manns dyr. Mjög margir gerðu þá sitt ýtrasta til þess að komast hjá að greiða nema sem allra minnsta fisktíund til prestsins, og hann átti mjög í vök að verjast um alla efnalega afkomu.
Þegar fiskafli brást svo gjörsamlega, gripu sjómenn til þess ráðs að stunda hákarlaveiðar á hinum stóru opnu fleytum, svo sem 8- og 10-æringum. Oft veiddist hákarlinn í ríkum mæli, en af þeim veiðum neituðu útvegsbændur og sjómenn að greiða presti nokkra fisktíund, hvorki af hákarlinum sjálfum né lifrinni, þar sem hákarl hafði ekki verið nefndur sérstaklega í upphafi tíundarlaganna, eftir því sem bezt var vitað af elztu heimildum. Ekki hafði heldur verið á hann minnzt í málsskjölum varðandi tíundardeiluna og tíundardóminn 8. maí 1816. Hins vegar vissu útvegsbændur það ekki og enginn, sem þeim var hliðhollur í þessari tíundardeilu við prestinn, séra Brynjólf Jónsson, að 15. október 1820 höfðu yfirvöldin úrskurðað vegna greiðslutregðu útvegsbænda þá á tíund af hákarlaveiðum, að hún skyldi greidd af öllum aflaföngum, hverju nafni sem nefndust, og þá einnig af hákarli og hákarlslifur, nema alls þessa væri aflað á þilskipum.
Eftir miðbik 18. aldar fór það mjög í vöxt í Vestmannaeyjum, að menn tóku að stunda sjó á sumrum á litlum fleytum, tveggja manna og litlum fjögurra manna förum. Þessir bátar voru ýmist kallaðir jul eða smáferjur. Þá þótti of mikið að greiða prestinum einn hlut af þessum smáfleytum og reyndu menn helzt að komast undan allri tíundargreiðslu af þessum vor- og sumarafla sökum þess, hve fleyturnar voru smáar og aflaföng lítilfjörleg móts við venjuleg aflabrögð á hinum stóru, opnu skipum, sem tíundarlögin voru upphaflega miðuð við.
Hins vegar vissu fróðir menn það, að fiskveiðar í Vestmannaeyjum á þessum smáfleytum á vissum tíma árs voru ekki nein nýlunda. Þær veiðar höfðu tíðkazt frá því á 18. öld að minnsta kosti, þó að í minna mæli væri. Þá þegar höfðu sjómenn reynt að koma sér undan tíundargreiðslu af þeim afla, svo að til deilna dró og úrskurðar stjórnarvaldanna. Með reglugjörð 17. júlí 1782 höfðu þau t.d. svo boðið, að fisktíundin skyldi einnig greidd af smáferjum. Þessi reglugjörð hafði gleymzt smám saman og yfir hana fyrnzt.
Séra Jón Austmann varð eitt sinn neyddur til að beiðast úrskurðar stjórnarvaldanna varðandi fisktíund af smáferjunum, julunum, og skírskotaði þá til reglugjörðarinnar dags. 17. júlí 1782. Með bréfi dags. 1. des. 1849 buðu stjórnarvöldin, að fisktíund skyldi einnig greidd af öllum afla, sem bærist á land af svokölluðum julum, „jafnt tveggja-manna-förum sem 10-æringum“ stóð þar.
Þetta þótti alltaf ósanngjarnt, og „julatíundin“ var illa séð með öllum, sem stunduðu sjó á þeim.
Þegar séra Brynjólfur Jónsson gerðist sóknarprestur í Vestmannaeyjum, vildi hann gjarna mæta sjómönnum miðra garða um julatíundina. Prestur kaus heldur að búa við skarðan hlut en standa í illdeilum við sóknarbörn sín um prestmötuna. Prestur afréð því sjálfur, að jula-tíundin skyldi nema aðeins hálfum hlut, þar sem skipt væri í 5—8 staði, en heilum hlut, væri skipi í 10 staði. Þessi ákvæði prests þóttu sanngjörn.
Um 1870 áttu flestir eða nálega allir útgerðarmenn í Vestmannaeyjum veiðarfæri eða „tilfæringar“ til hákarlaveiða sökum þorskaflatregðunnar á undanförnum árum, enda þurfti nú mjög til þeirra að grípa, þar sem ördeyða ríkti um allan þorskafla.
Á vetrarvertíð 1871 stunduðu Eyjamenn hákarlaveiðar á 8 stórskipum. Tvö „landskip“ stunduðu einnig þessar veiðar alla vertíðina. Hákarlsaflinn varð mjög mikill þessa vertíð, svo að hákarlslifrin af öllum skipunum nam 312 tunnum, sem seld var á 13 ríkisdali hver, eða samtals fyrir 4.056 rd. Andvirði allrar hákarlslifrarinnar jafnaðist á við andvirði 202 hundraða af þorski. Fisktíundin eða prestsmatan úr þeim afla hefði orðið um 1.000 þorskar eða 160 ríkisdala virði.
Eyjamenn neituðu gjörsamlega að greiða séra Brynjólfi nokkra tíund af þessum mikla hákarlsafla, og Landmenn fylgdu Eyjasjómönnum þar dyggilega að málum.
Öll þessi greiðslutregða á tíundinni til prestsins kom honum sjálfum undarlega fyrir. Hann skrifar prófasti, séra Ásmundi Jónssyni í Odda, um mál þetta og vandræði sín. Prestur kvaðst ávallt hafa gert ráð fyrir, að hin vaxandi siðsemi fólksins, ef hún væri staðreynd, hefði í för með sér „skýrari þekkingu á skyldum sínum og þar af leiðandi meiri samvizkusemi í því að gjalda það, sem gjalda ber eftir gamalli venju og lögum.“ Prestur bætir því við, að hann viti ekki til, að nokkurs staðar á landinu ríki önnur eins tregða um greiðslu prestsmötunnar sem í hans prestakalli. Loks hefur hann orð á því við prófast, að hann kjósi að hverfa burt úr Eyjum, ef nokkur föng yrðu á að fá eitthvað betra og vissara. Í umræddu bréfi minnir prestur á það, að fyrir tæpum 20 árum hafi meðal fisktíund í Eyjum numið 8.000 þorskum, en árið 1871 nemi hún aðeins 1.770 þorskum og hafi þannig rýrnað um 3/4. Nokkuð hafi þó hækkandi fiskverð bætt upp þessa tíundarrýrnun, segir prestur vorið 1871. Þá var mjög að honum hert um afkomu alla með 19 manns í heimili.
Í neyð sinni og þröng biður prestur prófast að leita álits stiptyfirvaldanna varðandi vandræði þau, er að honum steðjuðu sökum vangreiðslu sóknarbarna hans á prestmötunni.
Haustið 1871 barst presti svar stiptyfarvaldanna. Þau tjá honum þá ályktun sína, að samkvæmt gildandi lögum og reglur gjörðum eigi hann skýlausa kröfu á allri tíund af hákarlaafla eins og öllum öðrum afla úr sjó. Hinir háu herrar, biskupinn og landshöfðinginn, klikktu út með því, að þetta væri annars dómsmál, og bæri presti að leita réttar síns fyrir dómstólunum.
Trauðla óskaði séra Brynjólfur að fara þá leið í þessu máli, standa í málaferlum við sóknarbörn sín út af skyldum þeirra við hann sjálfan. Daglegt brauð sitt vildi hann ógjarnan þurfa að innheimta með málsóknum.
Prestur boðaði nú til almenns fundar með ábúendum jarða í Eyjum, sem jafnframt voru þeir, sem áttu hákarlaskipin og gerðu þau út til þeirra veiða. Á fundi þessum las hann bréf stiptyfirvaldanna og svör þeirra varðandi tíundargreiðslu af hákarlaveiðunum. Fundarmenn neituðu þar gjörsamlega að greiða tíundina, þrátt fyrir orð stiptyfirvaldanna og álit, og sögðu þessa tíund nýtt álag á sig og útgerð sína.
Á ný hugleiddi prestur málin, sem fóru óneitanlega harðnandi. Hann afréð að sækja um gjafsókn í tíundarmálinu, ef til málsóknar kæmi. Ekki létu yfirvöldin á því standa, að heita honum gjafsókn í málinu.
Sumarið 1872 lét prestur síðan til skarar skríða og hóf nú málsókn á hendur hlutaðeigendum, og mættu aðilar 14. júlí fyrir sáttanefnd. Engum sættum varð á komið, og var málinu vísað til „réttarins aðgjörða“.
Elzta og öruggasta réttarskjalið, sem prestur gat lagt fram máli sínu til sigurs, var Gíslamáldagi (kenndur við Gísla biskup Jónsson um 1570). Þar segir svo orðrétt: „Nikulásarkirkja í Vestmannaeyjum á Kirkjubæ á land á Býlastöðum svo og 6 ær. Í kirkjunni er silfurkaleikur og messuklæði. Þar skal vera heimilisprestur. Þangað liggja til prestskaupa fisktíundir hálfar og svo annars veiðiskapur þess, sem þar er tíundað. Þangað liggja til kirkju tíundir allar að helmingi og svo vaxtollur, en helmingur til Péturskirkju þeirrar, sem fyrir ofan leitið er.“
Vilchinsmáldagi er samhljóða Gíslamáldaga. Hér var því ekki um að villast. Samkvæmt máldögunum og gildandi lögum og reglugjörðum frá fornu fari gat séra Brynjólfur látið dæma sér einn tíunda hluta alls afla í Eyjum, hverju nafni, sem nefndist, og þar með taldar allar afurðir úr sjó.
Héraðsdómur í tíundarmálinu var kveðinn upp 14. des. 1872. Hann gekk að öllu leyti presti í vil. Sá dómur var síðan staðfestur í landsyfirrétti 15. des. árið eftir.
Dómararnir tildæmdu sóknarprestinum í Vestmannaeyjum alla tíund (einn tíunda) af öllum afla úr sjó, hverju nafni, sem nefndist, og á hverskyns fleytur, sem hann veiddist að þilskipum undanskildum.
Þá átti prestur eftir að innheimta tíundina samkvæmt dóminum og gat verið tvöfalt harðari í kröfum en hann og allir þeir prestar um langan aldur höfðu verið í reynd. Þetta tók hann nærri sér. Sumir greiddu orðalaust skuld sína, eftir að dómur féll. Aðrir áttu þess engan kost vegna fátæktar og aflaleysis, voru öreigar, einskis megandi. Prestur lét þá í friði fara, bar skaðann sjálfur og skarðan hlut. En réttur hans var ótvíræður héðan af.
Þessi nauð prestsins að verða að sækja rétt sinn með dómum eða þola hungur ella leiddi til þess, að hann af fyllstu alvöru vildi losa sig við prestakallið, sækja í annað brauð. Það gerði hann árið 1875. Fleira kom þar til en innheimta tíundarinnar og baráttan við mormónana.
Eftir hallærisárin 1869-1873 var það orðið þraut presti að fullnægja þörfum þurfalinga úr fátækrasjóði. Hver gat í hann greitt? Allur fjöldi Eyjabúa á nástrái. Styrkur hins opinbera til atvinnubótavinnu fékkst ekki lengur. Sjálfur safnaði hann skuldum við dönsku verzlunina öll þessi ár.
Allt, sem ég hefi hér greint, reyndi mjög á tilfinningalíf prestsins, tíundardeilurnar og baráttan við allsleysi almennings, en fleira kom til, svo sem sjóslysin, t.d. er „Gaukur“ fórst með 7 manna áhöfn svo að segja uppi í landsteinunum. Fjórum dögum fyrir það slys, átti sér stað atburður í Eyjum, sem tók mjög á prestinn. Þann 9. marz 1874 fannst barnslík á afviknum stað á Heimaey. Það vitnaðist aldrei, hverjir foreldrarnir voru. Þetta fannst presti óbærilega svartur blettur á söfnuðinum í heild.
Séra Brynjólfur sótti burt úr prestakallinu vorið eftir (1875). Hann sótti um Stokkseyri og fékk brauðið. En þegar hann fór að athuga alla aðstöðu þar til prestsþjónustu og heimilishalds, féll honum allur ketill í eld. Svo léleg var vistarveran, sem prestshjónunum var ætlað að hýrast í, að prestur gat ekki hugsað til þess að flytja þangað og því síður boðið sinni ástkæru eiginkonu að dveljast þar. Séra Brynjólfur kaus því að vera kyrr í Eyjum, þrátt fyrir allt, sem á bjátaði, og þann vilja prests samþykktu stjórnarvöldin.
Allar þessar deilur um daglegt brauð prestsins í Vestmannaeyjum og ósk hans um að losna frá prestakalli þessu, flýja úr sókninni, svo mjög sem hann bar velferð sóknarbarna sinna fyrir brjósti og vann dyggilega að velferð þeirra, opnaði augu yfirvaldanna fyrir því, hversu mikil nauðsyn væri að breyta „skipulaginu“, afnema fisktíundina og sjá sóknarpresti Vestmannaeyja fyrir nægilegum tekjum á annan hátt. Með lögum 14. des. 1877 var fisktíundargjaldið í Vestmannaeyjum afnumið, og brauðinu ákveðin „uppbót“ úr landssjóði með lögum frá 27. febr. 1880. Landssjóðsframlag þetta til sóknarprestsins í Vestmannaeyjum nam kr. 1.443,19 hvert ár, þau 4 ár, sem séra Brynjólfur átti þá eftir ólifuð.
Þessar urðu tekjur prestsins af fisktíundinni 5 síðustu árin, sem hún var greidd:

1873-1874 kr. 1.898,29
1874-1875 -1.1218,93
1875-1876 -1.582,13
1876-1877 -2.184,16
1877-1878 -2.200,21
Alls kr. 9.083,72
eða til uppjafnaðar
hvert ár
kr. 1.816,74.
Þar af greiddi prestur
í prestsekknasjóð á ári
kr. 12,90.

Það má til sanns vegar færa, sem Þorsteinn læknir drap á í ræðu sinni við kistu séra Brynjólfs Jónssonar, að hann hefði aldrei auðmaður verið. Hvernig hefði það átt að geta orðið í hans stöðu? Fyrst og fremst hafði hann flest árin sín í Eyjum eitt allra stærsta heimilið á framfæri sínu, oftast 15—20 manns, eins og áður getur. Þó að um helmingur þessa fólks ætti að heita vinnufært, þá var hinn helmingurinn börn og gamalmenni, sem litlum arði skiluðu af duddi sínu, þó að verk félli sjaldan úr hendi gamla fólksins. Nokkur hluti æskulýðsins á Ofanleitisheimilinu voru eins og áður getur „niðursetningar“, sem svo voru nefndir, munaðarlaus börn og vegalaus, sem prestshjónin ólu upp af einskærri hjartagæzku og mannúð. Með sumum þeirra gaf sveitar- og fátækrasjóður stundum, þegar hann var einhvers megnugur.
Svo átti þetta mannmarga heimili að eiga mest alla afkomu sína undir fisktíundinni, molunum, sem falla skyldu af borðum útvegsmannanna og sjómannanna, sem mörg árin höfðu knappt og ekki til hnífs og skeiðar sjálfir, þegar aflaleysisárin steðjuðu að og alls staðar ördeyða á fiskimiðunum í kringum Eyjar.
Eftir ördeyðuárin 1869-1872 tók að aflast betur og efnahagur manna í Eyjum að skána. Þá fór efnahagur prestshjónanna á Ofanleiti líka batnandi, enda greiddist fisktíundin afdráttarlaust eða svo til, eftir að prestur vann fisktíundarmálið fyrir dómstólunum.
Við skattaálagningu árið 1881, eða þrem árum áður en prestur lézt, var hann talinn tekjuhæsti maður í Eyjum. Aðeins Garðsverzlun ein var tekjuhærri. Til fróðleiks læt ég hér fljóta með nokkrar tölur um hæstu tekjur í Eyjum það ár.

Nöfn Tekjur af atvinnu:
Séra Brynjólfur Jónsson kr. 2.289,00
Þorsteinn læknir Jónsson kr. 2.140,00
M.M. Aagaard, sýslumaður kr. 2.102,00
Gísli Engilbertsson, verzlunarstjóri kr. 2.000,00
Jes N. Thomsen, verzlunarstjóri kr.1.600,00
Gísli Bjarnasen, verzlunarstjóri kr. 1.514,00
Garðsverzlun (J. P. Bryde) kr. 3.000,00

Þess er rétt að geta, svo að lesendur mínir geti fremur gert sér grein fyrir gildi peninga þá og kaupmætti teknanna, að dagsverk verkamanna var þá greitt með kr. 1,50. Sjá einnig verðlagsskrár hér í ritinu.
Síðustu árin, sem séra Brynjólfur lifði, greiddi hann hæsta útsvar allra einstaklinga í sveitarfélaginu. Þó voru afleit aflaár í Eyjum 1881-1883.
Prestur var sjálfur í skattanefnd frá 1878 til dánardægurs og hlífði hvergi sjálfum sér um greiðslu skatta, enda þurfti fátækrasjóður teknanna með á þeim kreppuárum.
Nokkur dæmi um útsvör í Vestmannaeyjum á sultarárunum 1878-1884 eða 6 síðustu prestsskaparár séra Brynjólfs Jónssonar. Þá voru útsvör lögð á gjaldendur vor og haust.

Nafn Vor Haust
1878 1883 1884 1878 1883 1884
Sr. Brynjólfur Jónsson kr. 59,25 kr. 36,80 kr.37,80 kr. 50,00 kr. 38,00 kr. 33,10
Þorsteinn læknir Jónsson kr. 51,80 kr. 36,50 kr. 34,20 kr. 44,80 kr. 31,50 kr. 32,60
Þorsteinn alþingismaður Jónsson kr. 35,15 kr. 35,00 kr. 35,00 kr. 33,65 kr. 35,00 kr. 35,00
M.M. Aagaard, sýslumaður kr. 22,40 kr. 24,30 kr. 23,00 kr. 23,50

Flestir aðrir útsvarsgreiðendur í Vestmannaeyjum voru á árunum 1883 og 1884 aðeins hálfdrættingar á við prest um greiðslu útsvaranna. Alls voru útsvarsgreiðendur 74 árið 1883. Þar af 13 með 6—10 króna útsvar, og 28 greiddu minna en 6 króna útsvar.
Árið 1884 voru útsvarsgreiðendur í Eyjum alls 76. Þar af greiddi réttur helmingur kr. 1,20 til kr. 10,00 í útsvar.
Vert er að veita því athygli, hversu útsvörin lækka mjög í sveitarfélaginu á árunum 1878—1884. Þessu veldur hið illa árferði á þeim árum, eins og áður er vikið að. Aflaleysi og hafís háðu þá mjög allri afkomu þjóðarinnar.
Þessar miklu sveiflur frá góðæri til hallæris eftir aflaföngum manna bitnaði mjög á allri afkomu prestsheimilisins á Ofanleiti. Í þeim efnum skiptust mjög á skin og skúrir. Grun hefi ég um það eftir viðtal við þá afkomendur prestshjónanna, sem bezt kynntust frú Ragnheiði, eftir að hún fluttist frá Vestmannaeyjum 1891, að aflaleysis- og kreppuárin hafi verið henni minnisstæðust frá Eyjadvöl hennar og skilið eftir sárustu endurminningarnar. Þá æði oft þurftu prestshjónin að lifa á bónbjörgum eins konar, neyddust til að krjúpa danska kaupmanninum og beiðast lánsúttektar í verzlun hans til þess að verjast skorti. Hin mikla skuldasöfnun prestshjónanna þá við verzlunina mun hafa fallið prestsfrúnni þunglega og orðið henni sár, sem góðærin nægðu ekki að græða.

VII. hluti

Til baka