Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1980/Á síld fyrir 40 árum

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit

Á síld fyrir 40 árum

Guðjón Ármann Eyjólfsson

Eftirfarandi grein hefur blaðinu borist frá Guðjóni Ármanni Eyjólfssyni fyrrverandi skólastjóra Stýrimannaskólans. Óþarfi er að kynna höfundinn fyrir lesendum þessa blaðs. Um fjölmörg ár ritstýrði hann Sjómannadagsblaðinu og vann það verk af slíkum myndarskap og dugnaði að óhœtt mun að fullyrða að seint komist nokkur með tœrnar þar sem hann hafði hœlana varðandi útgáfu blaðsins.

Þessi grein Guðjóns Ármanns er gagnmerk heimild um þátt Vestmanneyinga í síldveiðum fyrir Norðurlandi og á hann miklar þakkir skildar fyrir þá vinnu sem hann hefur lagt í samningu hennar. Við teljum okkur heiður að fá að birta þessa grein hér í blaðinu.

Klárir í bátana.

Skipsfélagar á Álsey á síld 1943. Frá vinstri Óskar Gíslason skipstjóri, Einar Steingrímsson og Sigurður Sigurjónsson vélstjóri.

Fremur lítið hefur verið ritað um þátt Vestmannaeyinga í síldveiðum íslendinga og í hugum fólks munu þeir tengdari þeim gula og bolfiskveiðum frá fornu fari. Allt frá árinu 1919, þegar tveir Vestmannaeyjabátar. Goðafoss VE 189 og Óskar VE 185 fóru til reknetaveiða vestur í Ísafjarðardjúp hafa Eyjamenn stundað síldveiðar. Þar var þá slík mokveiði af síld að ekki hafðist undan að salta, en veiðarnar stóðu allt sumarið og fram á haust. Úthald þessara Vestmannaeyjabáta var rakið í skemmtilegri grein eftir föður minn Eyjólf Gíslason hér í Sjómannadagsblaði Vestmannaeyja árið 1964 (Á síldveiðum fyrir 45 árum). Allar götur síðan munu Vestmannaeyingar hafa stundað síldveiðar einhvern hluta ársins, bæði hér heima og við og fyrir norður- og austurlandi, en hér við Vestmannaeyjar eru einar mikilvægustu hrygningarstöðvar sumargotsíldar og löngu áður en síldveiðar hófust er getið hér um svartan sjó af síld. „Oft hefur verið svartur sjór kringum Eyjar af þeim góðfiski er síld nefnist“ skrifar Helgi Jónsson faktor hjá Bryde árið 1883. Hér kringum Eyjarnar er svartur sjór af síld, hvílík gullnáma er þar ekki ónotuð“, skrifar Helgi 24. júní 1883. Um eða eftir 1930 munu Vestmannaeyingar hafa byrjað herpinótaveiðar. Þegar gamlar ljósmyndir frá síldarárunum um og eftir 1940 eru athugaðar sést að veiðibúnaður er ákaflega fátæklegur miðað við það sem nú er og áhætta og erfiðið á litlum skipum hefur verið mikið. Ótrúlega margt hefur breyst, sérstaklega hefur þó aðbúnaður verið lélegur og nálgast vosbúð.

Fyrirsögn greinarinnar, „Klárir í bátana“ var alkunnugt vígorð í þá daga, en er nú að fullu horfið. Síðan hefur kallið styst í „Klárir“, sem allir sjómenn á síld- og nótaveiðibátum vita að þýðir: „Hver maður á sínum stað. Það á að kasta“. En það munu vera fleiri, en ég undirritaður, sem þorðu varla og ekki að sofna alklæddir í fyrsta túrnum á síld.

Elías Sveinsson
Júlíus Ingibergsson
Guðmundur Vigfússon
Guðfinnur Guðmundsson
Sighvatur Bjarnason
Óskar Gíslason

Á snurpunótaveiðunum fylgdu þó alltaf ævintýrin og mikill var munurinn á erfiði og aflamagni frá reknetum.

Sumarið 1953 var ég á síld á Erlingi III með Sighvati Bjarnasyni í Ási, þeim mikla sjómanni og aflamanni. Þetta var fyrsta sumar mitt á síld fyrir norðan og var veitt í hringnót með bát á síðu. Ég hafði áður verið tvö sumur á reknetum með Ólafi heitnum frá Skuld og það var óguðlegt erfiði, ef veiddust 250-300 tunnur í reknet. Það gerðist reyndar sjaldan, það eð ónýt hampnet þoldu ekki svo mikla veiði. í fyrsta túrnum okkar á Erlingi III þetta sumar fengum við ágætis kast á Grímseyjarsundi, um 300 uppsaltaðar tunnur og komum við öllum aflanum í salt. Ég minnist þess, að Sighvatur náði þessari torfu fyrir harðfylgi og ákveðni af norsku snurpuveiðiskipi, eins og skip með tvo nótabáta voru þá gjarnan kölluð til aðgreiningar frá hringnótabátum, sem höfðu einn nótabát á síðunni við köstun. Á hringnótabátum var því hægt að kasta með meiri ferð. þó að nótabátarnir væru þá komnir með vélar.

Þegar við vorum búnir að þurrka upp þetta fallega kast og byrjaðir að háfa feita og stóra norðurlandssíld eins og hún getur fallegust orðið, þá datt upp úr mér: „Nú skil ég hvers vegna menn vilja heldur fara á hringnót en reknet.“ Sennilega hefur fleirum verið þetta í huga, en Sighvatur, sem var alltaf sérlega hress í skapi og skemmtilegur hló mikið að þessu og minntist oft síðar á þessi orð og kastið góða, þó að mörg hafi hann víst séð stærri.

Fiskveiðar og sjósókn er oftast erfið vinna, en getur verið skemmtileg með góðum mannskap. Fyrir 40 árum var þetta þrotlaust erfiði ef fiskaðist og yfirleitt var allt unnið á handafli og útheimti þol og þrek. Ófullkomin og lítil skip, sem sóttu á miðin fyrir vestan, norðan og austan, lögðu grunn að þeim fríða flota, sem í dag, vel út búin tækjum, sækir björgina út við ystu höf. Fullfermi flestra þessara litlu báta er eins og stór stía í stærstu nótaveiðiskipunum 1980.

Örlagaárið 1940.

Árið 1940 er eitt af örlagaárum íslandssögunnar, auk þess sem það markaði djúp spor í sögu Evrópu og reyndar heimsbyggðarinnar.

Þetta var fyrsta ár seinni heimsstyrjaldarinnar, sem hófst á haustdögum árið 1939 og í vertíðarlok vorið 1940, hinn 10. maí var Ísland hernumið af breskum vígdrekum. Vetrarvertíðin hér sunnanlands var léleg, en í Vestmannaeyjum brást hún alveg og er lýst svo í Ægi: „Vetrarvertíðin í Vestmannaeyjum var einhver sú lélegasta, sem komið hefur síðan farið var að stunda veiðar á hinum stóra vélbátaflota. Er talið, að aflinn hafi numið um 40% af meðal vertíðarveiði. Þótt hvergi hafi sennilega brugðist eins gersamlega veiði og í Vestmannaeyjum, var víða rýr afli.“ Til viðbótar þessum lélega afla var svo, að fiskur ,,var hvorki mjög stór né feitur og horaðist er leið á vertíð“. Uppistaða þorsk-aflans var 10 ára gamall fiskur.

Á vetrarvertíðinni í Vestmannaeyjum 1940 réru 77 bátar yfir 12 smálestir og auk þess 5 bátar undir 12 smálestir með samtals 31 skipverja og einn opinn vélbátur. Samtals réru 83 skip frá Eyjum með 680 skipverjum innanborðs. Hásetahlutir voru almennt 500-800 krónur, en nokkrir náðu 1200-1400 kr. Hæsti hlutur á línu- og netabát var á Ísleifi kr. 2100 og var Ármann Friðriksson frá Látrum skipstjóri. Hluthæsti bátur vertíðarinnar var Vonin, sem Guðmundur Vigfússon í Holti stýrði með 3000 krónum í hlut og veiddi hann með botnvörpu. Þetta var fyrsta vertíð Guðmundar á trolli.

En lífsbaráttan var hörð og reyndu menn að bæta sér upp lélega vertíð. Í maí fóru 39 bátar í Vestmannaeyjum á dragnót. Dragnótaveiðar voru stundaðar allt sumarið, og voru flestir 42 bátar í júní. „En þá fóru allmargir bátar til síldveiða“, segir í Ægi.

Og síldin átti eftir að bjarga miklu. Þrátt fyrir minni vertíðar- og þorskafla en oftast áður þá varð árið 1940 er lauk tímamótaár í sögu íslensk sjávarútvegs, sem reis nú loks upp úr 10 ára öldudal kreppuáranna. Vegna heimsstyrjaldarinnar og mikillar ringulreiðar í helstu viðskiptalöndum okkar á sviði saltfiskverslunar, eins og á Spáni (Borgarastyrjöldin) varð að gjörbreyta verkunaraðferðum sjávaraflans. Árið 1940 margfaldaðist útflutningur ísvarins fisks og hraðfrysting og flökun aflans hóf innreið sína fyrir alvöru og af krafti, einnig voru gerðar tilraunir með niðursuðu. Frá árinu 1938 sexfaldaðist útflutningur ísvarins fisks, úr 16 þúsundum smálesta í 92.700 smál. árið 1940. Þó munaði enn meira um verðhækkun af völdum stríðsins, og hækkaði verð á ísvörðum fiski um helming frá árinu 1938.

Síldarsumarið 1940.

Þessu til viðbótar kom síldin og átti eftir að bjarga enn meiru og gefa sjómönnum og útgerð góðan hlut. Árni Friðriksson fiskifræðingur skrifar grein um hinn mikla og góða síldarafla árið 1940 og nefnir greinina ,,síldargengdin mikla“. Hún birtist í Ægi í ágúst 1940, áður en vertíð var lokið.

„Nú er nóg af síldinni“, byrjar Árni, ,,og víst er um það, að nóg hefir síldin verið í sumar og sennilega meiri en nokkurt annað ár, sem rakið verður aftur í tímann“... „Mikill hluti flotans hefir á hverjum tíma jafnaðarlega legið í höfn fullur af síld og hafa því verið miklu færri skip að veiðum en ella.“ Aðalstofn veiðanna var 8,10 og 14 vetra gömul síld, áta var óvanalega mikil og sjávarhiti innan æskilegra marka.

Júlíus Ingibergsson frá Hjálmholti sem er einn heimildarmanna minna að þessu spjalli, var sumarið 1940 stýrimaður á m/b Óðni og lýsir þessu mikla síldarsumri svo, en Júlíus var á síld nær samfellt á hverju sumri frá 1938 til 1965. „Ég man ekki eftir að hafa nokkurn tíma séð aðra eins síld og var í seinni hluta ágústs á Þistilfirðinum, því að þetta var eins og moldarflag“. Heildarafli sumarsins var tæplega 2,5 millj. hektólítrar af síld í bræðslu eða ca. 225 þúsund tonn, en saltað var í 90 þúsund tunnur. Vegna óvissu um saltsíldarmarkaði var saltað mun minna en árið áður hafði verið, t.d. var saltað í nærri 350 þúsund tunnur árið 1938. Verð á síldarmáli (135 kg.) í bræðslu var kr. 12 eða tæpir 9 aurar kílóið, en síldin var þá alltaf mæld sem var sjómönnum mun óhagstæðara. Verð á síldartunnu var kr. 63. Þetta sumar kemur í fyrsta sinn til framkvæmda veiðibann, sem í dag er daglegt brauð sjómanna og útvegsmanna.

„Þann 30. júní skeði það, sem aldrei hefir skeð áður í sögu síldveiðanna á Íslandi, að allsherjarsíldveiðibann var sett á og skyldi engum heimil veiði í 4 sólarhringa eftir löndun, en það þýddi raunverulega allt að 9 daga stöðvun flestra skipanna, vegna þess að þau þurftu að bíða allt að 5 dögum eftir löndun, þegar mest barst að“.

Engan mun þá hafa órað fyrir því sem síðar varð, hrun hins mikla og að því er virtist óþrjótandi síldarstofns. Þátttaka í síldveiðunum 1940 var mjög góð, en sumarið 1939 var ágætt síldarsumar. Samtals stunduðu 217 skip veiðar, þar af voru 8 togarar, 24 línuveiðarar og 185 mótorskip, með samtals 2925 skipverjum.

Tíð var góð allt sumarið og hófst síldveiðin strax með júlímánuði. Fyrstu síldinni var landað af Grímseyjarsundi 1. júlí. Mikil síldveiði var á austursvæðinu í byrjun júlí, allt austur á Vopnafjörð, síðan á Þistilfjörð og þá við Sléttu og Langanes til 20. júlí. Ný síldarverksmiðja með 6200 mála afköst tók þá um sumarið til starfa á Raufarhöfn og bjargaði miklu. Síldin af Grímseyjarsundi og Skjálfanda var sérstaklega stór og mjög feit. Í lok júlí hófst uppgripaafli á vestursvæðinu og hélst sú veiði fram í ágústlok. Vegna stríðsins var þetta fyrsta sumarið, sem Íslendingar sátu svo til einir að síldveiðunum fyrir norðan. Árið 1939 höfðu 176 erlend skip stundað síldveiðar við Ísland, aðallega Norðmenn, Svíar og Finnar. Settu þessir erlendu sjómenn talsverðan svip á lífið á sjó og í landi. Á Siglufirði var m.a. reisulegt norskt sjómannaheimili sem enn stendur við eina aðalgötuna á Siglufirði. Margir töldu, að fjarvera þessara útlendu skipa hefði haft mikið að segja fyrir heildarveiðina. Færeyingar fengu þó að stunda veiðar og var 21 færeyskt skip að síldveiðum. Meirihluti skipshafna var færeyskur, e 1-3 Íslendingar voru um borð, nótabassi og 1-2 menn með honum. Á þessum færeysku skipum voru 407 menn og þar af 39 íslendingar, auk færeysku skipanna voru 7 norsk flóttaskip við veiðarnar og nutu þau sömu rétinda og íslensk veiðiskip. Samtals öfluðu þessi erlendu skip um 265 þús. mál og tn.

Hlutur Vestmannaeyinga.

Hlutur Vestmannaeyinga í síldveiðinni hafði farið vaxandi með hverju ári milli Í 930 og 1940 og tel ég framlag þeirra til síldveiða landsmanna mun drýgri en almennt hefur verið talið. En það var aftur alkunna að Eyjamenn tóku síldveiðunum fremur létt og að aflokinni erfiðri vetrarvertíð litu margir sjómenn á síldveiðarnar sem mikla tilbreytingu og frí þrátt fyrir erfiðar skorpur.

Í skýrslu um síldveiðar Íslendinga má t.d. sjá, að Garðar (síðar Skógafoss) undir stjórn Óskar S. Gíslasonar er fyrstur íslenskra skipa á síldarmiðin árið 1937 og 1938 í fyrstu viku júnímánaðar og eitt sumarið fór Óskar af stað frá Eyjum 28. maí. Garðar undir stjórn óskars er reyndar oftast í röð aflahæstu síldarskipanna á þessum árum, t.d. 3. hæsti árið 1939 og 13. af 98 mótorskipum árið 1940, en í röðum báta, sem voru tveir um nót, tvílembinganna svokölluðu eru Erlingur I og II undir skipstjórn Sighvats Bjarnasonar í Ási oftast aflahæstir.

Miðað við nútímann var meginhluti síldarflotans á þessum árum fleytur, 30-35 tonn brúttó, og voru þeir einir um nót, en bátar sem voru tveir um nót voru um og yfir 20 brúttótonn að stærð. Árið 1937 voru 5 bátar frá Vestmannaeyjum einir um nót, en tveir um nót voru tólf bátar (6 pör). Árið 1938 voru 8 bátar frá Vestmannaeyjum einir um nót og 10 tvílembingar (5 pör), 1939 voru 12 bátar frá Eyjum einir um nót og 3 tveir um nót.

Síldarárið góða, sumarið 1940, sem hér er einkum fjallað um voru 16 Vestmannaeyjabátar einir um nót: Bátarnir eru taldir í röð eftir aflamagni og er Garðar sem oftar hæstur Vestmannaeyjabáta. Framan við nafn bátsins er röð hans eftir afla miðað við allan flota mótorskipa, sem voru ein um nót samtals 98 að tölu, en hæst mótorskipa þetta sumar var Dagný frá Siglufirði með 17.826 mál og tunnur. Togarinn Tryggvi gamli var hæstur yfir flotann, en togararnir voru taldir sér og var hann með 27.442 mál og tn. Samtals voru 68 bátar (34 pör) tveir um nót og voru Erlingarnir langhæstir þeirra, en þeim fylgdi fast á eftir Óðinn og Ófeigur II.

Vestmannaeyjabátar einir um nót sumarið 1940 voru: Nr. 13 Garðar 12.174 mál og tn. Nr. 22 Helgi 10.531 mál og tn. Nr. 34 Heimir 9.049 mál og tn. Nr. 39 Hrafnkell goði 8.851 mál og tn. Nr. 40 Leó 8.710 mál og tn. Nr. 42 Baldur 8.651 mál og tn. Nr. 46 Skaftfellingur 8.173 mál og tn. Nr. 47 Kári 8.003 mál oc tn. Nr. 52 Gullveig 7.484 mál og tn. Nr. 60 Sævar 6.434 mál og tn. Nr. 63 Þorgeir goði 6.257 mál og tn. Nr. 66 Hilmir 6.196 mál og tn. Nr. 68 Meta 6.105 mál og tn. Nr. 76 Ársæll 5.614 mál og tn. Nr. 79 ísleifur 5.441 mál og tn. Nr. 84 Gotta 4.999 mál og tn. Tvílembingar: Nr. 1 Erlingur I & Erlingur II 10.939 m. & t. Nr. 3 Óðinn og Ófeigur II 10.002 m. & t. Nr. 6 Gísli J Johnsen & Veiga 9.206 m.&t. Nr. 7 Frigg & Lagarfoss 8.700 m.&t. Nr. 13 Freyja & Skúli fógeti 7.761 m.&t. Nr. 16 Bliki & Muggur 7.243 m.&t. Nr. 19 Gulltoppur og Hafalda 7.012 m.&t.

Ófeigur II VE 324 meðfullfermi, 320 mál, á Skjálfanda sumarið 1940. Báturinn er búinn eins og þá var nauðsynlegt á síldveiðum. Ofan á stýrishúsi er bassaskýli, þar sem síldarbassinn stóð og rýndi út yfir hafflötinn í leit að vaðandi síld eða múkkageri og lá kallrör eða slanga sem kallað var í til rórmannsins. Aftan við stýrishúsið er eidhús og sést greinilega kabyssurörið, sem kemur upp fyrir gaffalinn á mesanseglinu. Í bómunni hangir síldarháfur, en báturinn er vel búinn seglum með myndarlega umbúna fokku og mesansegl.

Í Vestmannaeyjablaðinu Víði haustið 1940 er m/b Dóra frá Fáskrúðsfirði einnig talin með Vestmannaeyjabátum með 9.211 mál og tn. og Nanna með 8.701 mál og tn. (Það er þó ekki Nanna Ve 300, sem var á dragnót). Samtals er afli Vestmannaeyjabáta 201.474 mál og tunnur. (meðalafli 8.234 mál og tn.) en heildarafli tvílembinga eins og bátar sem voru tveir um eina nót voru kallaðir var 236.875 mál og tn. eða samtals hjá þessum tveimur flokkum skipa 1.043.845 mál og tn. Afli Vestmannaeyjabáta sumarið 1940 er því 19-20% af heildarafla mótorskipa þetta sumar.

Vestmannaeyingar hafa átt meira en lítið afkomu sína undir síldveiðunum fyrir norðan. Á hverjum bát og pari tvílembinga voru 16 menn, svo að mannskapur á þeim bátum, sem hér eru taldir frá árinu 1940 eru rúmlega 400 sjómenn, en auk þess greinir Víðir frá því að nokkrir Eyjabátar hafi stundað reknetaveiðar sumarið 1940.

Líf og aðbúnaður um borð.

Til að fræðast um líf og aðbúnað á síldarbátunum og þá fyrst og fremst á tvílembingunum hefi ég spjallað við þá Elías Sveinsson í Varmadal og Júlíus Ingibergsson frá Hjálmholti, sem voru skipsfélagar á tvílembingunum Óðni og Ófeigi II sumarið 1940. Um köstun, útbúnað nótabátanna, sem fylgdu hverju nótaveiðiskipi, og veiðarnar sjálfar hefi ég einnig eftir Guðmundi Vigfússyni frá Holti, sem fór fyrst á síldveiðar unglingur að aldri árið 1924 og 1925 á bát fyrir norðan, en Guðmundur var þar síðan við reknetaveiðar og skipstjóri á hringnót frá 1944 til 1957.

Óðinn VE 317 „nærri fullfermdur“ surnarið 1940. Það er enn verið að háfa og síldarbassi tvílembinganna, Ófeigs II og Óðins, Guðfinnur Guðmundsson er fyrir framan stýrishúsið og heldur í háfbandið. Takið vel eftir uppstillingum og „merum“ ofan á lunningu. Aftur á hanga plögg af áhöfninni til þerris.

Tvílembingar. Ófeigur II Ve 324 var byggður úr eik í Friðrikssundi í Danmörku árið 1935 og var mældur 21 brúttótonn (l Brt.= 2,83 rúmm.). Ófeigur II var 14.63 metra á lengd, 4,33 m á breidd og með 60 hestafla Hundested vél frá 1935.
Óðinn Ve 317 var byggður úr eik og furu einnig í Friðrikssundi, árið 1931. Báturinn var 22 rúmtonn brúttó. Óðinn var 14,66 m á l engd og 4,30 m á breidd með 60-76 hestafla Tuxhamvél frá 1933. Ófeigur og Óðinn báru hvor um sig rúmlega 40 tonn af síld eða 300 mál eins og þá var mælt, 150 mál í lest og annað eins á dekk. Má nærri geta að oft hefur verið lítið pláss fyrir báru og teflt á tæpasta vað. Samtals var áhöfnin 16 manns.

Tvílembingarnir voru með tvo nótabáta og var nótin 24 faðma djúp, 120 faðma löng og snurpulínan var úr sérstaklega gerðu tói, snúnu hamptói, og var segulnagli úr kopar á miðri línu. Nótabátarnir voru 6-7 metra á lengd (20 til 22 fet) og 2 til 2 1/2 m. á breidd (7-8 fet). Ófeigur II var forystubátur og var skipstjóri og síldarbassi Guðfinnur Guðmundsson frá Kirkjubóli, harðduglegur sjómaður og vaxandi aflamaður, sem dó langt um aldur fram aðeins 33 ára gamall árið 1945. Vélstjóri á Ófeigi II var Jóhann Bjarnason frá Hoffelli, nú hafnarvörður. Stýrimaður og skipstjóri á Óðni var Júlíus Ingibergsson frá Hjálmholti, en vélamaður var Elías Sveinsson frá Varmadal, matsveinn var Baldvin Skæringsson frá Steinholti. Allt þekktir Vestmannaeyingar, sem stunduðu hér sjóinn frá barnsaldri um tugi ára.

Tvílembingarnir Ófeigur II og Óðinn viðbryggju á Siglufirði sumarið 1940

Þegar verið var á veiðum og leitað síldar, dró forystubáturinn nótabátana, en hinn elti og var oft nefndur lausi báturinn. Matsveinninn og allt sem honum tilheyrði var um borð í forystubátnum, sem síldar- og nótabassinn eins og hann var kallaður stjórnaði Þegar verið var að leita að síld elti lausi báturinn og var vélstjórinn á honum þá oftast þar einn um borð. „Það var ekkert sældarlíf', segir Júlíus Ingibergsson. „Vélstjórinn varð að gæta að bæði vél og bát og það var betra en ekki að hafa svo traustan mann sem Ella í Varmadal um borð. Þá var enginn radar eða dýptar-mælir og ekki talstöð fyrstu árin“.

Talstöðin var þó komin í flesta báta um 1940 en vegna stríðsins var notkun þeirra takmörkuð og í sumum tilvikum alveg bönnuð.
Stundum fóru bátarnir á mis í dimmviðri, en allt bjargaðist. Það var stundum vos hjá vélstjóranum, sem stjórnaði og hafði ábyrgð á fylgibátnum, t.d. ef versnaði í sjó og hafði hann þá ekki annað til matar en kaffi og snarl, sem hann hafði með sér. Á langkeyrslum var helmingur af áhöfninni um borð í lausa bátnum og ef gott var í sjóinn var lagt að forystubátnum og menn fóru yfir í hann til að borða.

Kastað á síld.

Það skipti miklu máli að vera fljótur að kasta á meðan síldin óð og varð hver maður að skila sínu verki með hraða og af öryggi, en aðalábyrgðin hvíldi á herðum nótabassans. Þegar komið var á veiðisvæðið voru nótabátarnir dregnir að forystubátnum. Ef nótin var um borð í honum var pokinn í hekkinu, en nótin úr bakborðs- og stjórnborðsnótabátnum í göngunum sitt hvoru megin við stýrishúsið. Nótabátarnir voru teknir á sitt hvora síðu og nótin dregin um borð í þá. Ef góð veiðivon var og líklegt þótti að yrði kastað, voru báðir bátarnir dregnir að stjórnborðsíðu forystubátsins. Bakborðsbátur var nær og var bundinn í skáband, í tói var sleppikrókur. Stjórnborðsnótabátur var bundinn utan á bakborðsbáta með skábandi, sem fest var um spilþóftuna í bakborðsbát og í aftari þóftu stjórnborðsbátsins.

Gamlir skipsfélagar á síld. Talið frá vinstri, standandi Einar Runólfsson, Velli, Ólafur Jónsson í Brautarholti, sitjandi Elías Sveinsson í Varmadal, Halldór Halldórsson Helgafellsbraut 23 og Jóhann Bjarnason Hoffelli.

Sé mjög síldarlegt segir nótabassi hásetunum að gera sig klára, og ef líklegt er að kasta er kallað „Klárir í bátana“.
Fara þá allir í nótabátana, nema vélstjór-inn og kokkur, ef skip var eitt um nót, en á tvílembingunum var oftast þannig skipað í nótabáta að 6 voru í öðrum bátnum, en 7 í hinum, urðu þá vélstjóri og matsveinn eftir í forystubátnum, en vélstjórinn einn eins og oftast nær var á fylgibátnum.

Iðulega þurfti eitthvað að snúast í kringum torfuna með bátana á síðu, en þegar nótabassa fannst hann liggja vel við torfu kallaði hann: „Sleppa“ og sleppikróknum, sem heldur bakborðsbát við skipið er sleppt. Var það verk frammámanns í bakborðsbát. Nótabátarnir eru þá lausir frá stóra skipinu. Ef síldin er vaðandi, rólegheit á miðunum og lítið þvarg af öðrum skipum, þá lagar nótabassi sig vel fyrir torfuna, athugar hvernig síldin veður, tekur mið af straumi og vindi o.s.frv. Stundum óð síldin ákveðna stefnu og varð þá að taka mið af því. Ef síldin hringóð þurfti ekki eins að laga sig fyrir torfuna, nema athuga varð að vera réttur fyrir vindi. Það sem mestu máli skipti var að kasta ekki á eftir síldinni og höfðu menn ýmsar aðferðir. Sumir vildu hafa torfuna fyrir miðri nót, þannig að hún væði inn í nótina, aðrir vildu hafa hana út í vængina. Það fór eftir aðstæðum hvað menn völdu, en alltaf varð að taka tillit til þess, að einhver kaldi var, að bátana ræki ekki ofan í nótina. Ef menn þekktu strauminn, þá var alltaf betra að kasta undan straumi. Þegar síldarbassinn hefur lagt nótabátunum á stefnu til köstunar og bátarnir eru komnir hæfilega nærri torfunni, en stundum var síldin ljónstygg og stakk sér, ef óvænt truflun komst að henni, kallar hann: „Sundur“. Frammámennirnir, sem hafa staðið tilbúnir með árarnar frammá ýta nótabátunum sundur og hefst nú köstunin. Bátunum er róið lífróður í kringum torfuna.

Erlingur I VE 295 með fullfermi á leið til hafnar. Í baksýn sést dæmigerður línuveiðari þessara ára

Nótinni er rúllað út á sitt hvort borð nótabátanna og voru tveir vel sterkir menn við það verk, en á fyrstu árum herpinótaveiðanna og víst fram undir 1930 köstuðu tveir menn út nótinni með höndunum. Nótarúllan var all fyrirferðamikil rúlla með löngum trélistum og sveifum sitt hvoru megin á rúllunni. Rúllurnar voru teknar niður af borðstokknum, þegar nótin var köfuð inn eins og sagt var, þegar nótin var dregin inn í bátana að lokinni snurpingu.

Erlingur II VE 325. Það er verið að fylla og háfurinn er hálffullur. Fyrir aftan stýrishúsið er eldhúsið. Erlingur II var byggður í Vestmannaeyjum árið 1937 og var 25 rúmlestir brúttó.

Fjórir hásetar, tveir á sitt hvort borð, róa hvorum nótabát af öllum kröftum. Nótabassi stendur á palli í skut stjórnborðsbáts og stýrir af stórri ári, en stýrimaður stýrir bakborðsbát.

Þegar frammámenn hafa ýtt í sundur setjast þeir strax undir ári, fremri ári á innra borð. Þegar frammámenn ýta í sundur standa þeir á litlum palli í stafni og voru valdir liprir og snúningafljótir menn til þessara starfa, en sterkari menn hafðir við að rúlla út nótinni.

Oft var mikið kapp á milli bátshafna á náti stýrimanns og báti síldarbassa bæði við kappróður fyrir síldina og við snurpingu. Kom stundum blóðbragð í munninn við hvoru tveggja. Þegar bátarnir komu saman hljóp frammámaður í öðrum bátnum fram í stafn og kastaði stroffu eða eins og oftast var bíldekki, sem hafði verið skorið innan úr, yfir báðar davíðurnar í stafni nótabátanna, en í davíðunum (sumir sögðu dávíðum) héngu blakkirnar, sem snurpulínan lá í. Stroffan hélt bátnum saman meðan snurpað var og nótin var köfuð inn.

Hásetinn við rúlluna að framan tók nú snurpulínuna, sem lá yfir rúlluna og tóku ræðarar við línunni og réttu hana frammámanni, sem setti snurpulínuna með snörum handtökum í opna blökk, sem hékk í davíðunni í stafni.

Hófst nú snurping - lokun nótarinnar - af öllum lífs og sálar kröftum allra bátverja. Lengd snurpulínu var vel fram yfir nótalengdina eða lengd blýteins, en ef nót var kastað á tamp voru línur í göflum, sem voru kallaðir hálsar (120-130 faðmar á lengd). Fjöldi hringja á snurpulínu var mjög breytilegur, frá 16 til 24 að tölu. Þeim var fækkað frá því sem var í fyrstu, þegar hanafætur urðu tvöfaldir. Þegar snurpingu var lokið og hringirnir voru komnir upp og úr sjó eins og allir sjómenn þekkja, sem hafa verið á nótaveiðum, er nótin lokuð.

Allt gert klárt til að kasta. Síldarbassinn lagar bátana til fyrir köstun. Ekki hefur enn verið ýtt sundur. Frammámenn eru tilbúnir með árarnar til að ýta bátunum sundur þegar síldarbassinn kallar: „sundur“. Rúllumenn eru tilbúnir og í stjórnborðsbát stendur bassinn með hönd á stýrisárinni.

Þegar nót var köfuð inn voru hringir færðir á band, sem lá á milli spilþóftu og næstfremstu þóftu, eftir því sem nótin dróst inn í bátana. Hringirnir voru lagðir niður með snurpulínunni, sem var hringuð upp með blýteini aftan við spilþóftu og út í síðu, svo að pláss væri fyrir hásetann, sem rúllaði út nótinni við köstun. Þegar byrjað var að nota snurpulínu úr vír var þessu breytt og voru hringirnir þá settir á staut, sem gekk í gegnum þá eða þeir voru lagðir í sérstaka litla rennu, sem hallaði að lunningu nótabátsins og bundnir tryggilega meðan verið var að leita.

Við síldveiðarnar þurfti, eins og hér hefur verið lýst, mikla snerpu og skjót handtök, og átti það ekki síst við um snurpingu.

Það var mikið kapp í hvorum nótabáti að ná í „gullið“, en svo var segulnaglinn á miðri snurpulínu nefndur. Menn þóttust menn að meiri sem náðu segulnaglanum og var það keppikefli og frami hvorum báti. Fyrstu metrar snurpulínunnar voru snurpaðir á höndum, þar til línan var á staut eða niðurstöðu og þegar fór að þyngjast var haldið við á stoppara á öftustu þóftu. Síðan var snurpulínunni brugðið á koppinn á snurpuspilinu, sem var handsnúið, niðurgírað spil, sem var á öftustu þóftu að framan, spilþóftunni. Á sumum bátum var spilið á næst fremstu þóftu. Tveir menn snéru handspilinu og urðu þetta að vera mjög samtaka menn, þar eð annars var mikil hætta, ef þeir misstu af sveifinni, þegar nótin lá með öllum sínum þunga í hringjunum og snurpulínunni.

KASTAÐ Á SILD. Yfirlitsmynd yfir fyrirkomulag og niðurröðun manna í nótabátunum við köstun:1). Síldarbassi á stjórnborðsbáti og stýrimaður á bakborðsbáti.2). Háseti, sem stóð aftan við þóftuna og rúllaði út nótinni og tók kláran korkateininn við köstun.3). Háseti, sem rúllaði út að framan og stóð fyrir aftan spilþóftu. Hann tók kláran blýatein og snurpilínu. Þegar leið á köstun og pokinn og sverasta garnið var farið út, rúllaði aftari rúllumaður (2) stundum einn út nótinni, en sá fremri (3) hafði allt tilbúið fyrir snurpingu. 5)og6). Ræðarar á innra borð; (6) var einnig frammámaður og sat oftar á þóftu alveg frammi í stafni nótabátanna. Ef róið var langt að torfu réri frammámaður á þrælaborð. Snjöllustu síldarbassarnir reyndu þá alltaf að komast sem næst síldartorfum með nótabátana á síðu, þannig að ýtt var sundur og köstun hófst meðan nótabátarnir höfðu enn skrið af drætti stóra bátsins.4) og 7). Ræðarar á ytra borð eða þrælaborð.

Það var erfitt verk að snúa spilinu, þó að það væri gírað niður með einu eða tveimur tannhjólum og hafði tvo ganghraða, hægan og hraðan.

„Það þótti okkur mikill lúxus, þegar fyrst var farið á hringnót að þurfa hvorki að róa né snurpa, aðeins að draga inn nótina“, segir Júlíus Ingibergsson.

Handknúin spil munu hafa komið í nótabáta milli 1930 og '40, en áður en þau komu var allt snurpað á höndum. Þanig var þá að staðið, að menn röðuðu sér í einni röð frá stafni og aftur í skut nótabátsins, en þar dró stýrimaður eða bassi af slakann og stoppaði af á öftustu þóftu, meðan menn færðu sig til á snurpulínunni til næsta átaks.

Það var alltaf mikill spenningur hvort takast myndi að loka nótinni áður en síldin styngi sér í djúpið. Reynt var að varna því að síldin væði á gatið og út úr nótinni með því að kasta hvítri fisklaga spýtu, sem kölluð var fiskurinn, niður í nótina. Í enda spýtunnar -„sporðinum“- var lína sem lá inn í nótabátinn, en hinn endinn -„fiskhausinn“- var þyngdur niður með blýi svo að „fiskurinn“ skaust hratt niður í nótina. Oftast var fiskurinn í stjórnborðsbáti. Þegar sást sporðakast að lokinni snurpingu eða hreistur við blýtein hrópuðu menn oft upp yfir sig af veiðigleði.
„Hún er inni, hún er inni“ og nótin var köfuð inn af enn meira kappi en áður. Það var ólýsanlegt augnablik og fátt, sem gladdi eins sjómannsaugað og sjá kraumandi síld, sem að lokum lá marflöt og hreyfði sig varla í nótinni, þegar búið var að „þurrka“ vel upp, svo að hægt væri að byrja að háfa úr nótinni. Með dælingu síldar hefur þetta sem fleira horfið. Það var þetta sem gerði síldveiðar og köstun á vaðandi síld seiðmagnaðar og spennandi.

Þegar hafði verið þurrkað næstum alveg upp var veifað í bátinn og á tvílembingum var alltaf háfað fyrst í fylgibátinn. Þannig var lagt að nótinni, að afturendi snurpubáta snéri að skipinu og lagðist það að korkinu, sem er vel yfir sjó á milli nótabátanna. Korkið er síðan hnýtt upp á síðu stóra bátsins, meðfram allri skipssíðunni frá stafni og aftur á hekk, efstórt kast var á nótinni.

Nótabátarnir að ná saman fyrir vaðandi torfu, sem sést yst til vinstri.
Nótabátarnir hafa náð saman og liggja hlið við hlið, en skipverjar standa og snurpa á höndum. Síldin er inni og veður fallega út við korkið lengst frá bátnum

Í land með aflann.

Þegar fylgibáturinn var kominn með fullfermi, sem gat verið úr einu eða fleiri köstum eftir því hvort torfur voru stórar eða peðrur einar hélt hann strax til hafnar og fór venjulega einn maður með vélstjóranum. Þeir tveir byrjuðu síðan strax löndun og oft voru fengnir 2 og 3 karlar úr landi til aðstoðar. Það kom fyrir að þeir voru búnir að landa, þegar aðalbáturinn kom með fullfermi inn og fór þá öll áhöfnin strax aftur út til veiða. Þetta var ekki vinsælt og var síðar breytt þannig, að fylgibáturinn fékk ekki að landa fyrr en forystubáturinn var kominn að landi.

Eins og sjá má af mörgum myndum var oft teflt á tæpasta vað með hleðslu báta á síldveiðum. Þetta var ekki til fyrirmyndar, en aðstaðan var nokkuð önnur þá en nú. Menn urðu að ná í hafsbjörgina, þegar hún gafst og veiðarnar yfirleitt á grunnslóð og í landsýn.

Til dæmis um hleðsluna og hættuna, sem fylgdi veiðum á þessum litlu bátum segir Júlíus: „Þegar búið var að fylla bátinn eins og mögulegt var - þ.e.a.s. þilfarshleðslu með öllum merum og „ágirndarborðum“ uppstilltum ofan á lunningu var nótin sem bundin var upp á stjórnborðssíðu við háfun leyst niður: „Varð þá maður að fara bakborðsmegin til að vega á móti þeim, sem leysti nótina niður stjórnborðsmegin. Þetta segir sína sögu um hættuna“.

Í Sjómannablaði Vestmannaeyja árið 1976 segir Páll Scheving um síldarhleðslu á Sævari VE sumarið 1940: „Hleðslan á þessum árum var ægileg. Þannig máttu ekki allir hásetar fara fram í lúkar í einu og alltaf lágu hnífar til taks til að skera bátana frá, ef hlaupa þyrfti í þá fyrirvaralaust.
Tvílembingarnir Ófeigur II og Óðinn voru góðir undir farmi og höfðu sæmilegan ganghraða.

Háfað í mb. Gulltopp VE 321, sumaríð 1937
Á tvílembingunum Ófeigi II og Óðni. Bátarnir eru komnir með fullfermi og það er verið að hvolfa úr nótinni Korkateinninn milli nótabátanna liggur niðri

Aflanum landað.

Erlingur II VE 325. Á leið til hafnar með fullfermi.
Erlingur II VE 325. Fullfermi. Lokið við að háfa, gengið frá og gert klárt til siglingar.

Þegar komið var í land var reynt að koma sem mestu af aflanum í salt. Öllu var Iandað af handafli í tágakörfum. Körfunum var raðað á „stillansa“ eða löng borð (gönguborðin), sem lágu þvert yfir bátinn og var mokað í þær hverja eftir annarri. Úr körfunum var sturtað í vagna. Þeim var síðan ekið um planið og bryggjuna upp í síldarþró og var síldin mæld á leiðinni. Ef síld fór í salt var ekið að síldarkössunum, þar sem ungar sem aldnar blómarósir Norðurlands og reyndar víðar af landinu stóðu og söltuðu af kappi hvernig sem viðraði.
Í rigningu og slabbi var oft mikið erfiði að keyra vögnunum upp sleipa bryggjuna.

Aðstaðan um borð.

Nærri má geta hvernig aðstaðan var um borð í bátunum við síldarleit í misjöfnu veðri, t.d. ágjöf, regni og dimmviðri. Þá voru sem fyrr segir 15 menn um borð í forystubátnum en vélstjórinn einn í fylgibátnum. Erfitt starf var að vera kokkur í þann tíð. Miklu bjargað auðvitað, að aldrei var farið mjög langt frá landi. Erfitt var að geyma nýmeti og var nýtt kjöt hengt í poka upp í mastur og reynt að geyma það sem lengst þannig. Saltmeti var mikið notað og svo drógu menn oft nýjan fisk í soðið. Það var oft þröng á þingi og loftleysi í lúkarnum, en á stímvöktum kúldruðust menn þar niðri. Á vakt voru þá þrír uppi, skipstjóri og vélstjóri og einn háseti.

Kabyssan var kolakynt og voru kolin geymd undir lúkarsgólfi, einnig var lítill kolakassi aftur á, þar sem eldhúsið var. Olíukyntar eldavélar- olíufýrar -komu ekki í báta fyrr en eftir stríðið, milli 1945 og '50. Það var stundum erfitt og mikil óþrif gátu fylgt því að taka upp kol úr lúkarnum, sem var fullur af mönnum. Þegar matast var borðuðu menn aftur á hekki, ef gott var veður, annars til skiptis í kokkhúsinu aftur á. „Aðbúnaður og aðstaða var slík á þessum bátum, að nútíma fólk trúir því ekki að þetta hafi átt sér stað“, segir Júlíus Ingibergsson, „Við vorum tveir í koju og fórum ekki úr fötunum allt sumarið. Hörmungin var alveg fyrir neðan allar hellur hvað allt hreinlæti snertir. Það varð að spara allt vatn eins og mögulegt var og ekki mátti fara ósparlega með kostinn. Vatnið varð skilyrðislaust að spara og því var ekki að tala um daglegan þvott. Mannskapurinn varð grálúsugur yfir sumartímann. Það að var ekkert klósett og menn urðu að fara út á lunninguna. Þetta var ekkert geðslegt í slæmu veðri og það gat verið slysahætta að þessu. Ég vildi ekki lifa upp aftur síldveiðarnar, sem ég stundaði á þessum árum.“

Það var ekki fyrr en árið 1941 eða þar um bil að hægt var að fara í sturtubað hjá S.R. (Síldarverksmiðju Ríkisins) og sjómannaheimilið á Siglufirði tók til starfa um líkt leyti.

„En við vorum ungir menn, hraustir og vinnuglaðir“, heldur Júlíus áfram, „og það er margs að minnast, bæði þegar komið var í land og okkur langaði að skreppa á ball og eins þegar komið var með síld handa þessum blessuðum dúfum á Siglufirði.

Háfað úr góðu kasti í Erling I VE 295

Horft til baka.

Lífið og húmorinn á Siglufirði og síldarplönunum norðanlands er ólýsanlegur og náði ég undirritaður, þó aðeins í skottið á þeim frægðardögum, „þá heilsað var með svellandi söng á Dalvík og Dagverðareyri“ eins og Ási kvað.

Það brá fyrir fornri frægð í stuttri aflahrotu sumarið 1953 og fögur síðsumar- og ágúst-nótt fyrir Norðurlandi verður sennilega mörgum sjómanni ógleymanleg.

Milli Vestmannaeyja og Norðurlands voru á þessum árum hnýtt sterk bönd og gætir þeirra góðu heilli enn í Vestmannaeyjum. Þaðan fengum við stórmerkilega verkmenningu með mönnum eins og Ingólfi Theódórssyni og fleirum og harðduglegt fólk, sem enn setur svip á Eyjarnar. Við skulum reyna að líta í hugsýn til baka til þessara ára.

Bátarnir voru að fara á síld. Básaskersbryggjan er hálffull af fólki, konur og börn, sjómenn í nýstroknum sjófötum. Margur ungur maðurinn er að fara í sína fyrstu sjóferð með sjópoka og jakkaföt á handleggnum eða yfir öxl á herðatré. Við bryggjuna liggja hvítmálaðir bátar, nýskveraðir með háum skjólborðum og grindum á þilfari og djúpum síldarkössum, svo að strákapollar, sem alltaf eru að sniglast niður í bátum komast varla upp úr þeim.

Á sumum bátanna er nótin í haug fyrir framan stýrishúsið. Íslenski fáninn blaktir við hún í afturmastri. Menn kveðja og það er kallað sleppa! Sumir bátanna blása í flautu. Fólkið á bryggjunni veifar og bátunum er fylgt fyrir Klettinn og Eiðið. Í lofti er eftirvænting. Bátarnir hverfa í kvöldsólina og Ingólfsfjall.

Allt sumarið er fylgst með síldarflotanum. Því fylgir oft spenningur. Þegar líður á sumarið er setið uppi með blað og blýant og skrifaðar niður aflatölur sem eru lesnar í útvarpið að loknum síðari kvöldfréttum. Að haustinu kemur þessi fríði floti aftur heim frá órafjarlægum miðum að því er sumum finnst. Haustlitirnir klæða fjöll og pysjan er fyrir nokkru byrjuð að fljúga í bæinn og lundinn er á förum.

Margir sjómanna eru með væna hýru, aðrir með létta pyngju og lítinn afla. Það var vitlaus nót, lekur bátur. Ungir menn eru reynslunni ríkari.

Langt fram eftir september eru þetta aðaltíðindin í bænum. Sumir ætla aldrei aftur á brellótta síld og eyða sumrinu sem þeir segja í vitleysu. Að vori og lokinni vetrarvertíð hefst ævintýrið að nýju.

Við skulum vona, að í framtíðinni takist okkur Íslendingum með aðgát og fyrirhyggju að byggja aftur upp þann stóra og fallega síldarstofn, sem norðurlandssíldin var og náttúruöflin, hitastig sjávar og straumar, verði okkur hliðholl.

Þennan þátt um síldarsumarið 1940, starfshætti og lífið á síld fyrir 40 árum, vil ég enda með orðum Júlíusar Ingibergssonar frá Hjálmholti:

Þorskveiðibann um páska.

„Eftir að ég var búinn að vera á vetrarvertíð við Vestmannaeyjar, sem ég var nú alltaf, þá hlakkaði ég til að fara á síld. Það gerir kannski að þegar maður býr á eyju, þá langar mann að komast innan um fleira fólk. Nú, maður var ungur þarna og að fara á Siglufjörð gat verið ævintýri, þar var þá margt um manninn og það var spennandi að veiða síld“.

Í apríl 1980
Guðjón Ármann Eyjólfsson.