Sjómannadagsblað Vestmannaeyja 1961/ Útilegan 1944
Ég var beðinn að skrifa eitthvað í sjómannadagsblaðið okkar, og vil ég ekki með öllu skorast undan því, þótt ég búist við, að margt megi að mínum skrifum finna. En því er til að svara, að „því er fífl, að fátt er kennt“, eins og gamli málshátturinn segir. Ég bið því þá, sem betur vita, að taka viljann fyrir verkið og lesa í málið, eins og það var orðað í gömlu sendibréfunum.
Sannarlega ætti það vel við, að blaðið okkar væri alfarið gert út og skrifað af sjómönnum, ungum sem öldnum, og að þurfa sem allra minnst til annarra að sækja í það.
Vissulega mun ekkert starf vera jafn tilbreytingarsamt og sjómannsstarfið. Veldur þar mestu veðurfarið og hafið með öllum sínum breytileika.
Það væri því nóg til að skrifa um. En því miður eru sjómenn allt um of til bakahaldandi á ritvellinum. Þó þeir séu kröftugir og framgjarnir á hafinu og hver vilji þar fram fyrir annan fara.
Ég lít svo á, að kornið fylli mælinn. Þess vegna held ég mínum vana, með því að láta þetta greinarkorn frá mér fara.
Það er staðreynd, að margir atburðir, sem gerast á sjónum, gleymast furðu fljótt, og því erfiðara að fá réttar heimildir eftir því sem lengra frá líður.
Í þessu spjalli mun ég rifja upp útilegur. Því eftir að radartæki eru komin í flesta báta og dýptarmælar í alla, er ekki lengur búizt við, að margir bátar lendi í mjög vondum og erfiðum útilegum. Að skipstjórar þurfi ekki oftar að standa uppi, óhvíldir, heilar langar skammdegisnætur í ofsaveðrum. Ég hefi svo þennan formála ekki lengri.
Aðfaranótt mánudagsins 10. janúar 1944 reru 11 línubátar frá Vestmannaeyjum, og voru það þessir:
Erlingur II VE-325, 33 tonn. Form. Arnoddur Gunnlaugsson, Gjábakka.
Emma VE-219, 16 tonn. Form. Eyjólfur Gíslason frá Búastöðum.
Frigg VE-316, 21 tonn. Form. Oddur Sigurðsson frá Skuld.
Friðrik Jónsson VE-115, 50 tonn. Form. Ármann Friðriksson frá Látrum.
Jökull VE-163, 49 tonn. Form. Steingrímur Björnsson, Kirkjulandi.
Nanna VE-300, 25 tonn. Form. Óskar Ólafsson frá Garðsstöðum.
Skúli fógeti VE-185, 22 tonn. Form. Ólafur Vigfússon, Gíslholti.
Óðinn VE-317, 21 tonn. Form. Guðjón Jónsson, Heiði.
Týr VE-315, 37 tonn. Form. Óskar Þorsteinsson frá Jómsborg.
Veiga VE-291, 24 tonn. Form. Guðni Finnbogason, Norðurgarði.
Ver VE-318, 22 tonn. Form. Jón Guðmundsson frá Goðalandi.
Þrír þessara báta voru í útdrætti, þeir Skúli fógeti, Emma og Veiga.
Farið var af stað í róðurinn kl. 3, „á blússi“.
Allir fóru þessir bátar fyrir Klettinn, og héldu flestir NV-slóðina. Kominn var stinningskaldi á SA og þykkni á austurloftið. En loftvog stóð hátt (70 stig). Þetta var eitt heimsstyrjaldarárið, og því engar veðurspár auglýstar eða sagðar í útvarp.
Ég held að fleiri hafi þá litið til lofts en nú gerist.
Misjafnlega langt fóru bátarnir þennan róður. Til dæmis fór Erlingur II 2 1/2 klukkutíma NV frá Faxa, áður en hann byrjaði að leggja línuna, 24 stampa. Emma og Skúli fógeti fóru 20 mínútur NV frá Þrídröngum, og byrjuðu þar að leggja samsíða.
Enginn þessara báta mun hafa byrjað línudráttinn, fyrr en kl. um hálf níu, er dagsbirtunnar naut. Var þá kominn þunga SA stormur, sem fór ört vaxandi. Munu því flestir hafa haft hraðann á, eftir því sem ástæður leyfðu, með línudráttinn. Á Emmu var lokið við að draga kl. rúmlega 2 e. h. Enda línulengdin ekki nema 18 stampar = 90 strengir. Þá var kominn rokstormur.
Klukkan um hálf fimm komum við uppundir Eiðið, var þá að skella á svartabylur og náttmyrkur, sem átti þó eftir að færast verulega í aukana. Svo að er á kvöldið leið, var komið hið mesta stórviðri, með glórulausri snjókomu.
Er við á Emmu komum uppundir Eiði, hægðum við þar stutta stund. Létum alla línustampana ásamt bólfærum og öðru, er út gæti skolað, niður í lest, og gengið var sem tryggilegast frá öllu. Að því loknu var lagt í hann, austur fyrir, með hæfilegri ferð. Er við komum í Faxasund, var myrkrið orðið það mikið, að ekki sást Latur, en þó óljóst móta fyrir Faxaberginu. Því næst sáum við brimið við Lögmannssæti. Þar frá, var áætluð vegalengd eftir tíma og sjólagi þegar óhætt þótti að snúa undan (lensa). Eftir að lensað hafði verið stutta stund, sáum við samtímis Klettsnefið og rauða hafnargarðsvitann. Ekki var þó eins mikill sjór og við höfðum búizt við, svo allt fór þetta vel. En á síðustu stundu mátti það heita, að við slyppum inn, og Emma reyndist alltaf bezt þegar verst var. Vorum við eini báturinn, sem náðum höfn um kvöldið. Hinir allir lágu úti, þessa löngu og hörðu óveðursnótt, og reyni ég að segja nánar frá því.
Ver mun hafa komið uppundir Eiði tæpum hálftíma seinna en Emma. Þá var veðurofsinn, snjókoman og náttmyrkrið orðið svo mikið, að ekkert viðlit var, að fara lengra.
Allir bátarnir, nema Skúli og Veiga, komu upp undir Eiði um kvöldið. En svo var veðurofsinn og myrkrið mikið, að aðeins 3 bátum tókst að halda sig í landvari alla nóttina: Þeim Erlingi og Ver austur undir Kambi og Tý nokkru vestar. Hina hrakti undan og urðu að andæfa upp í veður og sjó alla nóttina. En þá er erfitt að áætla rétt, ef ekkert er til að átta sig á, svo sem rokhviður, sléttari sjó af landvari o. s. frv. En að mæla dýpi með lóði og línu við svona aðstæður er helzt ógerlegt. Enda víða svo að djúpt hér við Eyjar og líkt dýpi, að vont er að átta sig á því.
Veiga andæfði við ljósbauju vestur af Smáeyjum alla nóttina.
Á Nönnu bar það til tíðinda á heimleiðinni um kvöldið, að allar rúður brotnuðu úr stýrishúsgluggunum. Draglúga var efst á lúkarskappanum. Hún brotnaði af, svo þar varð að negla yfir segldúk. Þá gekk og eldavélin úr skorðum, svo að hún varð ónothæf og því ekki um hita í lúkarnum að tala eftir það. Er þeir komu uppundir Eiði, morguninn eftir, var olían á þrotum. En úr þvi gat þó m/b Frigg bætt svo að dugði þeim vel inn til hafnar. Var olían dregin á milli í 25 lítra brúsa.
Það geta víst flestir gert sér í hugarlund, hvaða þrekraun það er, að standa við stýri heilar skammdegisnætur, við slíkar og þvílíkar aðstæður, og öll skipshöfnin leggur venjulega, undir svona kringumstæðum, sitt ítrasta fram. Mun hér, sem oftar, eiga við gamla máltækið: „Greindur nærri getur, en reyndur veit þó betur“.
Um morguninn, er birta tók af degi, fór heldur að draga úr mesta veðurofsanum og snjókomunni að stytta upp, þó enn væri hreytings bylur. Fóru þá þeir bátar, sem næstir voru, að leita hafnar, þó enn væri drifaveður, og stórsjór. Fengu margir bátarnir stór og mikil álög á Beinakeldu, Víkinni og Leiðinni, sem fjöldi fólks á Skansinum horfði á.
Um miðjan dag voru allir komnir í höfn, nema Skúli fógeti. Af honum hafði ekkert frétzt, því talstöðin var óvirk.
En það er af Skúla að segja, að línudrátturinn gekk illa hjá honum, og hafði slitið 2 er búið var að draga 15 strengi. Tók hann þá fyrir, að fara á milli, það er, fór í SA enda línunnar, að draga hana undan sjó og vindi. En við það varð sú töf, að ekki höfðu þeir lokið við línudráttinn, fyrr en um dimmumót. Var þá kominn rokstormur með sortabyl. Haldið var þá strax af stað heimleiðis.
Er þeir höfðu stímað um það bil í klukkutíma, var komið slíkt afspyrnuveður, með svörtustu snjókomu, að hætt var við að leita lands og látið þar fyrirberast. Bátnum haldið með hæfilegri ferð upp í sjó og veður, svo hann verði sig sem bezt áföllum. Ekki bjuggust þeir við, að slíkur veðurofsi myndi standa lengi, þó önnur yrði raunin á. Þannig andæfðu þeir alla nóttina. En er birta tók af degi, fór að draga úr mesta veðurofsanum. Var þá farið að stíma í áttina og leita lands. Uppúr hádegi sáu þeir fyrst Einidrang. Þó enn væri langt í hann. Fóru þeir sunnan við hann og fram hjá honum seinni part dagsins, því ennþá hélzt hvassviðrið. Ekki komust þeir í landvar af Álsey fyrr en langt var liðið á kvöldið og hugðust halda sig þar, ef ekki lygndi betur, því mjög var dimmt af nóttu og hraglanda bylur, samt sáu þeir Stórhöfðavitann. Nokkru eftir miðnótt, lygndi alveg. Fóru þeir þá strax af stað til hafnar og komu inn í höfn kl. tæpt 4.
Höfðu þeir þá verið úti fulla 2 sólarhringa. Þóttust allir þá úr helju heimta.
Þetta austanveður er með þeim allengstu og hörðustu, er ég man eftir, að undanskildu þegar m/s Helgi fórst.
Ólafur Vigfússon reri hér 46 vetrarvertíðar. Þar af 35 ár formaður. Byrjaði að róa hér 1911 með Bjarna Hávarðssyni af Norðfirði á m/s Stellu NK, sem var 33 tonna kantsettur tvístefnungur. Voru svo stórir bátar þá kallaðir hér „skjautur“.
Ólafur mun hafa fengið hér flestar útilegur, að ég held, alls 6.
Fjórar vertíðar reri hann á m/b France VE-159, sem var 9,8 tonn, með 10 hestafla Dan-vél.
Formaður bátsins var Sigurður Sverrisson, ættaður úr Mýrdal. Tvær fyrri vertíðarnar, 1915 og 16, var hann háseti á bátnum, en seinni 1917 og 18 „motoristi“.
Sunnudaginn 9. apríl 1916, gerði hér SA rok, með mikilli snjókomu, er á kvöldið leið. Voru þá byrjaðir svokallaðir kvöldróðrar. Mun burtfarartíminn þá hafa verið kl. 4 eftir hádegi. Allir þeir bátar, er reru þennan dag, voru búnir að leggja er veðrið skall á. Drógu sumir nokkuð af línunni, en aðrir lítið sem ekkert. Þessa nótt náði France uppundir Eiði og lá þar fram á birtu. En þá slotaði veðrinu og bylnum. Þessa nótt fórst m/b Haffari ásamt 3 mönnum. Sunnudaginn 3. marz 1918 gerði hér SA hvassviðri, með stórsjó og dimmviðri, snjókomu. Lá France þá nótt undir Eiðinu, þar til um morguninn, að veður lægði og þeir komust í höfn. Þessa óveðursnótt fórust 2 bátar, Adólf með 5 mönnum og Frí með 4 mönnum.
1920 byrjaði Ólafur formennsku með m/b Heklu VE-115, sem var 6,47 tonn að stærð með 8 hestafla Dan-vél. Hinn 3. marz gerði SA-rok með snjóbyl er á daginn leið. Hekla var þá á sjó suður af Súlnaskeri. Náði ekki höfn um kvöldið. En andæfði í Vesturflóanum, þar til veðrið hægði, stuttu eftir miðnótt og komust snemma morguns heilir í höfn.
í útilegunni 11. febrúar 1928, er 19 bátar náðu ekki höfn, var Ólafur með m/b Skallagrím VE 231, 14 tonn að stærð. Komst þá seint um kvöldið undir Ofanleitishamar. Hélt sig þar, við vel upplýstan togara, sem lá þar fyrir föstu.
Síðasta útilega hér, vegna ofveðurs, var 14. apríl 1951. Lágu þá úti 20 bátar. Nokkrir þeirra andæfðu við ljósbaujur á rúmsjó. Aðrir náðu uppundir í landvar, Álsey, Eiðið og Hamarinn og héldu sig þar unz rokið lægði og upp létti snjóbylnum, sem varð kl. 4:20 um nóttina. Ólafur var þá með Skúla fógeta. Náði seint um kvöldið undir Hamarinn og andæfði þar við ljósbauju, unz upp stytti. Þá nótt sökk m/b Sigurfari við Eiðið af leka.
Ólafur Vigfússon var afburða þrekmikill sjómaður, sem alla tíð var dáður af sinni skipshöfn fyrir góðlyndi og mikla formannshæfileika.