Ritverk Árna Árnasonar/Veiðiskýrslur úr Álsey 1916-1951

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


Veiðiskýrslur úr Álsey 1916-1951



Tíundir 1916:

Veiðimenn 1916 voru þessir:
Árni Árnason, Grund,
Jón Magnússon, Kirkjubæ,
Loftur Jónsson, Heiðarhvammi,
Ásamt þeim voru stráklingarnir Árni yngri Árnason, Grund og Hjálmar Jónsson, Dölum. Báðir voru þeir stráklingarnir óvanir veiðiskap og voru þessvegna utanfélags. Jón hafði með sér hund, sem kallaður var ,,Kondút“ og Árni hafði hund með sér, er ,,Nice“ nefndist.
Sókningsmenn voru þeir Sigurður Gunnarsson, Hólmi og Ágúst Ingvarsson vélstjóri. Báturinn hét ,,Huginn” Ve 192, síðar eign Jóhanns Björnssonar, síðar Óskars Kárasonar.
Farið var að heiman 4. júlí 1916 og verið í Álsey til 3. ágúst.
Ekki fyrirfinnast nákvæmar tíundarskrár frá þessu sumri, en heildarveiðin var 116 kippur. Þar af veiddu stráklingarnir 22 kippur. Mannspartur varð 1950, en jarðarhlutur 244 stk., sókningsgjald 1600.

Sókn 8 ferðir @ 200 = 1.600
Jarðir 8 @ 244 = 1.952
Strákar 2 2.200 = 2.200
Menn 3 @ 1.950 = 5.850
Kp. 11.602



Viðlega og tíundir í Álsey árið 1918


Veiðimenn:
Árni Árnason eldri á Grund,
Árni Árnason yngir á Grund,
Hjálmar Jónsson í Dölum.
Lagt af stað að heiman kl. um 3 8. júlí á mb ,,Olga“ Ve 139, formaður Guðmundur Jónsson, Háeyri, vélstjóri Þórður Jónsson bróðir hans á Bergi.
Það var austan gola, ca. 5 stig og dálítill sjór. Urðum við greiðfara út að Álsey og lögðum að ,,Þjófanefi“, þareð ófært var við ,,Flárnar“.
Gekk uppgangan vel, en þó var Árni eldri með stórt graftarkýli á úlnlið innanhandar hægri handar og því mjög svo handarvana til vinnu. Allt gekk þó slysalaust hjá okkur, og vorum við komnir með allan flutning ,,til bóls“, þ.e. heim að kofanum kl. 12 á miðnætti. Urðum við að bera það allt, bæði bratta og örðuga leið, eftir að hafa handlangað það upp bergið á Þjófanefi.
Var farið að sofa kl. um 2 um nóttina í kofanum, illa útleiknum og útlítandi, en sú viðgerð varð að bíða, því að þreyttir og syfjaði vorum við orðnir. Um kl. 6 ræsti Árni eldri okkur með kaffi og sagði nú góða átt og nógan fugl við, svo að nú var ekki til setunnar boðið, kaffið drukkið í snatri og morgunbiti étinn, og fórum við Hjálmar út til veiða, hann austur í Landnorðurstað, ég upp á ,,Eyfanef“, en Árni eldri gat ekki veitt sökum handarmeinsins, svo að hann varð eftir til að hreinsa til.
Brekkurnar voru hvítar af fugli og loftið titraði og söng af vænjaþyt lundans, og var sem ský drægi fyrir sól, er fuglsmergðin flaug inn. Það var glæsilegt um að litast og gaf vonir um góðan afla. Ég þaut upp á ,,Eyfanef“ eftir tilvísun föður míns, fann brátt, að hér var eitthvað til að gera með, og hugðist nú duga vel og gera mitt ýtrasta. Háfurinn þaut upp og einn kom í netið og svo hver af öðrum svo ört, að ekki stóð á öðru en höndunum. Oft hélt ég aðeins við högldina og lyfti háfnum örlítið. Það var nóg, svo nærri kom ungi lundinn.
Kl. 1 var farið að dofna svolítið fyrirflugið, fór ég þá að telja og hafði þá veitt 497 stk., svo að 3 vantaði upp á 500 stk. Lagði ég háfinn aftur og veiddi þá, sem á vantaði. Ekkert vissi ég um Hjálmar, en vissi að honum gengi vel. Var ég vel hróðugur yfir veiði minni og fékk hlý orð hjá pabba. Skömmu síðar kom Hjálmar. Hafði honum gengið prýðilega vel eða veitt 460 stk. Var nú borðað, en þareð kofinn var illa af sér genginn, gat Hjálmar ekki farið út aftur, en varð að lagfæra og smíða ýmislegt í viðbót. Ég fékk að fara aftur upp í ,,Eyfanef” og hafði þá til kvöldsins 240 stk. eða alls 740 yfir daginn, sem er mín mesta veiði um ævina. Handarmein pabba gerði út þann 11. júlí og var það gleðidagur, því að nú gátum við allir veitt.
Þá sat hann á kvarteli fyrir utan kofadyrnar með háfinn sinn og sló upp á lunda, sem flaug þar við kofadyrnar. Þannig veiddi hann 10-11 stk., en þá sprakk kýlið á hendinni, þótt hann harkaði af sér og reyndi að gera sitt besta til aðstoðar í hvívetna.
Sumarveiðin gekk yfirleitt ágæta vel þar til síðustu dagana. Þá voru norðan stormar og enginn fugl við. Ungi lundinn sást þá ekki meir. Hann hafði komið mjög snemma það ár. Þann 12. júlí kom Hjálmar Eiríksson út í ey til okkar og var út lundatímann. Þann 14. júlí kom svo Valdimar Ástgeirsson, Litlabæ og var einnig út tímann. Þá var oft skemmtilegt í Álseyjarkofanum, sungið mikið og félagsskapurinn, sem frekast verður á kosið, góður. Kapp var mikið í milli okkar strákanna, enginn vildi verða eftirbátur annars í veiði. Enda var það svo, að við skiptumst á að verða hæstir yfir daginn. Þó réð miklu um afla hvers einstaks okkar, hvar við hlutum veiðistað. Aldrei varð misklíð vegna þess atriðis, enda reyndi faðir minn að gera okkur sem jafnast á því sem öðrum sviðum. Í öllum okkar gleðskap tók hann virkan þátt og vissulega var hann aldrei ánægðari en þegar við vorum sem léttastir og kátastir. Hann söng með okkur og var okkur öllum sem faðir, góður félagi, hjálpfús um allt er að starfi okkar og veiðitækjum laut, smíðaði okkur spækur, lagaði háfana og sagði okkur til um allt það, er okkur mátti verða að liði í efiðleikum okkar.
Hér fer á eftir tíundarskráin frá okkur 1918 í Álsey, gerð eftir uppskrift Hjálmars Jónssonar og undirritaðs 1918:


Tíundarskrá úr Álsey 1918:

Dagsetning Nafn veiði-
manns
Nafn veiði-
manns
Nafn veiði-
manns
Nafn- veiði-
manns
Nafn Veiðimanns Veður Veiði
alls
Árni eldri Árni yngri Hjálmar Hjálmar
Eiríksson
Valdimar
Ástgeirsson
9. júlí veikur 500+240 460 NA
10. — veikur 450 510 NA
11. — 100,
lasinn
300 240 2.800
12. Sókning kom og Hjálmar Eiríksson með
12. — 340 240 240 210 Logn
13. — 260 210 200 210
14. — 390 270 240 330
14. — Sókning. Afmæli Árna eldra. SA rok og bullandi rigning. 3.140
14.— Valdimar Ástgeirsson kom í eyna
15.— Engin veiði
16. — 300 180 170 160 150 Logn
17. — 350 160 210 180 170 Logn 2.030
18. — Norðan stormur. Sókningsbátur kom snemma. Engin veiði.
19. — 440 230 250 230 220 V og NV
20. — 320 210 190 220 220 Logn/V
21. — 210 120 130 180 170 SA
22. — 230 210 150 170 150 Logn
23. — 320 240 250 310 260 NA og logn

Áframhald tíundarskrár þetta sumar er nú glatað.
Síðustu dagana var lítið um lunda enda norðan átt og hvasst stundum. Síðustu ferðina höfðum við aðeins 17 fugla í hlut, auk sókningsgjalds. (Þessi tíundarskrá er að hluta ólík þeirri, sem annarsstaðar er skrifuð í ritum Á.Á. Hún þykir þó ítarlegri. (Heimaslóð)).
Að öðru leyti var þetta ágætt veiðisumar. Þá greidum við 250 lunda í sókningsgjald fyrir hverja ferð nema setningsgjaldið var aðeins 125 fuglar. Jarðir fengu þá einn fjórða hluta veiði, sem tekið hafði verið upp skömmu áður. Fyrir þann tíma var greiddur 1/3 hluti til eyjareigenda af veiðinni.
Sókningsgjald var tekið af óskiptum afla.
Ég man ekki betur en það hafi verið þetta sumar, sem við urðum matarlausir að mestu, kaffi og sykurlausir. Lunda suðum við, en sem sykur notuðum við hunang. Var stundum ekkert með kaffinu, nema hunang, en svo lygndi, og þá fengum við nægan mat. Þá var skrínukostur og við strákarnir matlystugir vel, svo að fljótt gekk á birgðirnar, sem að heiman voru sendar. En lengi hafði ég leiða á hunangi eftir þetta.
Sókningsmenn voru þeir Guðmundur á Háeyri og Þórður bróðir hans á Bergi. Voru þeir á róðarbát, en á Olgu VE (mótorbát), ef eitthvað var að veðri.
Þá kipptu menn sér ekki upp við það að róa út í Álsey eftir fuglinum, þó að það væri um 2ggja stunda róður í góðu. Það mundu ekki fást margir til slíkra hluta núna, þótt þeir fengju 250 lunda fyrir hverja ferð. Þó nokkrum sinnum urðu þeir að koma á mótorbátnum vegna storma, ýmist af austri eða norðri. Einn daginn var svo hvasst að við urðum að bera grjót á þak kofans, svo að við héldum því. Það var meira rokið.
En svo lygndi og við tifuðum keikir um brekkurnar og veiddum af mesta kappi. Var töluverð keppni milli okkar strákanna, sem að líkum lætur.
Þess skal getið, að þetta sumar kom ungi lundinn mjög snemma eða strax í byrjun lundatíma, en er líða tók á, fór hann og kom lítið upp eftir mánaðarmótin.

Viðlega til lundaveiði í Álsey 1938



Veiðimenn voru þessir:
Magnús Guðmundsson frá Vesturhúsum,
Sigurður Jóelsson, Vesturvegi 1,
Hjálmar Jónsson, Vestra-Stakkagerði.
Sókningsmenn voru Ólafur Ólafsson og Filippus Árnason. Sókningsbáturinn mb. Léttir.
Til viðlegu þessarar var farið 6. júlí 1938, að áliðnum degi. Gekk ferðin vestur ágætlega og sömleiðis að koma sér fyrir í kofanum. Ekkert var veitt þann dag.
Þann 7. júlí. Magnús veiddi 150 stk., Sigurður 120 stk., Hjálmar 180.
Veður var: Suðvestan-kaldi seinnipartinn, en logn hafði verið frameftir deginum.
8. júlí. Suðvestan-kaldi. Magnús veiddi 180, Siguður 120, Hjálmar 300.
9. júlí. Logn, – mjög lítill fugl við. Veiði: Magnús ekkert, Sigurður 40 stk. og Hjálmar 80 stk.
Sókningsbáturinn kom, og var aflinn í hlut 224, en veiði alls 1.170 stk.
10. júlí: Suðvestan-kaldi. Veiði: Magnús 200, Sigurður 210, Hjálmar 300 stk.
11. júlí. – Logn allan daginn. Veiði: Magnús 50, Sigurður 60, Hjálmar 210.
12. júlí: Sókningsdagur. Í hlut voru 275, veiði alls 1.320 stk. Logn allan daginn. Magnús veiddi ekkert, Sigurður 50, Hjálmar 240. Aðalveiðin var að venju í Siggaflesi.
13. júlí: Norðaustan-átt. Veiði: Magnús 450 stk., Sigurður 330, Hjálmar 440.
14. júlí. Suðaustan-átt og rigning. Veiði lítil, Magnús 20, Sigurður 80, Hjálmar 40.
15. júlí. Suðvestan-átt. Magnús veiddi 200, Sigurður 200, Hjálmar 300.
16. júlí. Logn. Magnús veiddi 40, Siguður 100, Hjálmar 110. Sókningsdagur: Í hlut voru 525, veiði alls 2.310.
17. júlí. SV- og V-átt. Magnús veiddi 260, Sigurður 200, Hjálmar 480 stk.
18. júlí SV- og S-kaldi, skúrir. Magnús veiddi 100, Sigurður 140, Hjálmar 160 stk.
19. júlí. S-gola. Magnús veiddi 140, Sigurður og Hjálmar veiddu ekkert. Sókningsdagurinn og fór Hjálmar heim. Í hlut voru 320 stk., en veiði alls 1.480 stk.
Hér fyrir neðan er veiðin tíunduð frekar:


Tíundarskrá úr Álsey sumarið 1938:

Veiðimenn:
Magnús Guðmundsson, Vesturhúsum,
Sigurður Jóelsson, Sælundi,
Hjálmar Jónsson frá Dölum.

Dagsetning Veiði-
maður
Veiði-
maður
Veiði-
maður
Veður Veiði alls
Magnús Sigurður Hjálmar
7. júlí 150 120 180 Logn fmd.,SV-kaldi síðd.
8. — 180 120 300 SV-kaldi.
9. — 40 80 Logn. Sést vart lundi. 1.170 þessa ferð.
10. — 200 210 300 SV-kaldi.
11. — 50 60 210 Logn.
12. — 50 50 240 Logn. 1.370 þessa ferð.
13. — 450 330 440 NA-kaldi.
14. — 20 80 40 SA-rigning.
15. — 200 200 300 SV-átt.
16. — 40 100 110 Logn. 2.310 þessa ferð.
17. — 260 200 480 SV- og V-átt.
18. — 100 140 160 SV- og S-kaldi skúrir.
19. — 140 S-gola. Þessa ferð 1.480.
Veiði alls í 13 daga 6.330 stk

Hjálmar fór heim með þessari sókningsferð, en eftir það vantar veiðiskýrslur. Þá tóku við veiði Magnús Guðmundsson, Hjálmar Eiríksson frá Vegamótum og Jóel Eyjólfsson Sælundi.
Þeirra veiði áætlar Hjálmar Jónsson, sem og sendi þessa tíundarskrá, 3.900 og hafa því veiðst í eynni 1938 sem næst 10.710 stk. = rúml. 107 kippur.

Tíundarskrá í Álsey sumarið 1940:
Veiðimenn voru þá:
Árni Árnason frá Grund pt. Ásgarði,
Gunnar Stefánsson, Gerði, Magnús Guðmundsson, Helgafelli, Magnús Magnússon frá Vesturhúsum, Helgafellsbraut, Óskar Kárason frá Presthúsum, Sunnuhól.

Dagsetning Veiði-
maður
Veiði-
maður
Veiði-
maður
Veiði-
maður
Veiði-
maður
Árni Gunnar Magnús G. Magnús M. Óskar Kárason
10. — 200 120 50 50 170
11. — 80 20 40 40 70
12. — 100 80 50 50 180
13. — 150 150 60 60 170
14. — 70 100 20 20 20
15. — 10 10 50 50 0
16. — 30 130 80 80 100
17. — 200 0 0 0 0
18. — 270 40 90 90 90
19. — 150 50 40 40 80
20. — 200 0 100 100 100+330 síðan
21. — 310 0 40 40 170
22. — 100 0 40 40 110
23. — 100 0 5 5 30



Tíundarskrá í Álsey sumarið 1941:
Veiðimenn voru þá:
Árni Árnason frá Grund pt. Ásgarði,
Árni Stefánsson frá Sigríðarstöðum,
Hjálmar Jónsson frá Dölum pt. Bergsstöðum,
Magnús Magnússon frá Vesturhúsum, Helgafellsbraut.

Dagsetning Veiði-
maður
Veiði-
maður
Veiði-
maður
Veiði-
maður
Veður
Árni Á. Árni St. Hjálmar Magnús M.
8. júlí 0 70 30 50 Logn.
9. -- 280 220 250 240 Logn og NA-.
10. -- 250 210 0 250 Logn og NA-.
11. -- 250 110 0 90 Logn.
12. -- 310 300 150 70 NV-kaldi.
13. -- 340 120 250 130 A-.
14. -- 160 100 140 30 SA- og S-.
15. -- 120 40 150 40 Logn.
16. -- 10 50 40 20 NV-.
17. -- 10 ? 10 10 SV-.
18. -- 15 10 ? 10 SV-regn.
19. -- enginn fugl við N-.
20. -- sést fugl 10 varast fugl 10 N-.
21. -- 290 200 240 80 SSV-.
22. -- 45 rok og rigning 0 SSA-.
23. -- 50 rok og rigning 0 heimferð SA-regn.
24. -- 0 heimferð 0 heimferð 0 heimferð
25. -- 100 heimferð 0 0 0

Út í Ey koma Þorsteinn Johnson, Vilhjálmur Jónsson 23. júlí, – ásamt Magnúsi Guðmundssyni, og taka þeir við. Ég fór heim 25. júlí, – ásamt þeim úr Suðurey, Jóhannesi Gíslasyni og Alla rakara.


Tíundardagbók úr Álsey sumarið 1944


Til viðlegu eru þar þá:
Jónas Sigurðsson,
Hjálmar Jónsson,
Hlöðver Johnsen,
Magnús Guðmundsson (utan félags) og
Svavar Þórarinsson.
Þess utan Sigurgeir sonur Jónasar.

6. júlí. Farið í Álsey í SA-kalda og þokusúldi. Léttir fór með mannskapinn og flutninginn. Fórum með viðlegubát. Dálítill glaðningur hjá sumum. Guitarspil og söngur. Seint farið til náða.

7. júlí. SA-kaldi, þokusuddi fyrri partinn, en SA-vindur og óhemju regn seinni partinn. Töluvert við af lunda, en lítil veiði vegna veðurs: Svavar 70, Jónas 30, Hlöðver 30. Borðuð var lundasúpa.

8. júlí. Logn fyrri partinn, en SV-gola seinni partinn. Veiði: Svavar 100 á Útsuðursnefi, Hjálmar 70 á Molda, Jónas 70 í Siggaflesi og 60 í Lækjarbrekkugili, Hlöðver 60 á Skrölti.

9. júlí. Norðvestan-kaldi fyrri partinn, logn seinni partinn. Fjórir strákar komu í heimsókn, þ.á.m. Gulli í Gerði (Guðlaugur Stefánsson). Borðað hangiðkjöt og smjörgrautur. Sendum heim 500 alls eða 100 í part, plús sókningargjald.

10. júlí. SSV-andvari og stundum alveg logn fyrri partinn, en kaldaði seinni partinn á suðvestan. Veiðin varð: Jónas 310 á Útsuðursnefi, Hlöðver 125 á Flánni og Molda, Svavar og Hjálmar fengu 100, – fóru á flot á bátnum. Á borðum var lundasúpa. M/b Leó fékk í pottinn hjá okkur.

11. júlí. Farið upp á Ey um morguninn snemma. SV-gola, en enginn fugl við. Hjálmar, Svavar og Hlöðver fóru heim með sókningsbátnum að sækja útvarpið, mat o.m.fl., fóru heim með 500 fugla. Jónas fór upp á Ey kl. 16 og veiddi 120 fugla. Hinir komu svo út í Ey aftur um kvöldið, og útvarpið komst í gang til mestu ánægju.

12. júlí. Logn – mikið við um daginn af fugli. Hjálmar veiddi 150 í Siggaflesi og 50 í Landnorðursstað, er aðeins andaði við NA-átt. Jónas 130 í Siggaflesi, Hlöðver 40 í Kvalræði. Soðinn fiskur til miðdags, en fiskbúðingur til kvöldverðar.

13. júlí. Austan stinningskaldi – ágætur veiðikaldi, en lítið við af fugli – Veiði: Jónas 30 stk. á Eyfanefi, Hjálmar 120 á Landnorðursstaðnum, Svavar 90 á Lendinni, Hlöðver 20 á Snorrastöðum. Gekk sunnar með vindinn seinni part dagsins. Gerðum sókningsbátnum aðvart með veifu að koma ekki út til okkar í dag. Á borðum var hangið kjöt og kartöflur. Miðnæturmáltíð var: Fiskbúðingur, ávaxtagrautur og rauðvín með mat.

14. júlí. Logn fyrripart en SV-gola seinnipart. Hjálmar, Svavar og Hlöðver fóru heim á litla bátnum og fóru með 750 af lunda. Jónas fór upp á Útsuðursnef kl. 4 ½, veiddi 100. Kl. 23 (um kvöldið) komu strákarnir aftur, og kom kona Hlöðvers (Bía) með þeim til veru í Álsey í nokkra daga. Miðnæturmáltíð soðinn fiskur - ,,Glaðningur“ hjá sumum.

15. júlí. Logn fyrri partinn, SV-gola seinni part. Jónas veiddi 170 í Siggaflesi, Hlöðver 30 á Útsuðursnefi. Hinir lögðu ekki háf sinn – voru þunnir. Hangið kjöt á borðum.

16. júlí. A- og SA-kaldi. Hjálmar veiddi 140 í Landnorðursstað, Svavar 100 á Lendarflá, Jónas 20 á Siggaflesi. Á borðum lundasteik með brúnuðum kartöflum og ávaxtagrautur til kvölds. Frú Bía kokkaði með kurt og pí.

17. júlí. Austan og SA-allhvass, regn öðru hvoru og þoka, fór lygnandi. Engin veiði, sérstaklega einkennilega mikil ónáttúra í fuglinum. Fiskbúðingur á borðum. Jónas og Magnús spila af mesta móð tveggja manna vist.

18. júlí. Logn og þoka. Enginn fugl. Glaða sólskin annað slagið og mikill hiti. Margar myndir teknar, lundasúpa til miðdags. Hjálmar, Hlöðver og Bía fóru heim á litla bátnum, sent var heim 540, afgangur í gjöld. Koma ekki aftur suður í Ey.

19. júlí. Logn fyrri part, en S- og SV-gola seinni part. Veiði: Jónas 150 í Siggaflesi, Svavar 40 í Siggaflesi og 160 á Einarsnefi. Feikna hiti í dag.

20. júlí. Logn og mikill hiti. Jónas veiddi 170 á Siggaflesi og 30 í Lækjarbrekku, Svavar 70 á Lendinni. Svavar eldar og steikir, annars er allur brauðmatur að ganga til þurrðar, en nóg af kaffi og sykri.

21. júlí. Logn og hiti. Jónas veiddi 120 í Siggaflesi, Svavar 80 víðsvegar um eyna, t.d. 30 í Siggaflesi. Hallæris-viðurgerningur. Kaffi með kaffi og kaffi með kakó. Magnús hefir verið að halda í okkur lífinu með smá brauðskammtagjöfum, enda stendur hann á gömlum merg, birgari af mat og búnaðar meiri en við.

22. júlí. Hættum veiði í dag og fórum heim. S- og SA-kaldi. Stórbrim fyrri part, en brimið lægði seinni partinn. Urðum að henda miklu af fugli vegna maðks. Mb. Lundi kom inn á Poll og fékk fugl í soðið. Mb. Nanna kom og sótti okkur, en urðum að skilja dótið eftir vegna brims. Fengum 200 hvor, við Svavar, og mb. Nanna fékk 200 fyrir að sækja okkur - mjög lítill viðurgerningur.
Samkv. samtíma dagbók Jónasar Sigurðssonar.


Dagbók úr Álsey sumarið 1945


Viðlegumenn til lunda voru þá:
Jón Jónsson spítalaráðsmaður frá Brautarholti,
Magnús Guðmundsson frá Vesturhúsum,
Jón F. Stefánsson, Mandal,
Jónas Sigurðsson, Skuld.

Strax skal framtekið, að Jón Jónsson var 66 ára gamall, en Magnús Guðmundsson var 73 ára gamall, og voru þeir báðir utan félags, hvað veiði viðkom, en greiddu gjöld af veiðinni.

10. júlí. Austan gola. Drápum veiðibjöllu og 4 unga. Töluvert við af lunda. Jón F. Stef. veiddi í ,,Kvalræði“, sem nú er farið að kalla ,,örlæti“ 190, Jónas Sig. veiddi 120 stk. í ,,Siggaflesi“, Magnús 60 stk. á skrölti.

11. júlí. Logn til kl. 13, en síðan vestan og suðvestan gola og kaldi. Jón Stef. veiddi 90 stk. í Kvalræði og 250 í Lækjarbrekkugilinu, Jónas veiddi 20 í Siggaflesi og 180 á Útsuðursnefinu, Magnús 80 á Einarsnefi og 100 í Lækjarbrekku, og fór hann upp kl. 9 árdegis.

12. júlí. Logn fyrri partinn, en vestan kaldi síðdegis. Lítil veiði. Jónas fór upp á Ey kl. 16. Jón Stef. veiddi í ,,Kvalræði“ 30 stk. og Jónas 20 í ,,Siggaflesi“, 15 á ,,Jónsnefi“, Magnús 100 stk. á Einarsnefi, og var hvergi átt nema þar.

13. júlí. Vestan allhvasst. Töluvert við af lunda. Fórum upp á Ey kl. 09, en til bóls um hádegi til að kippa og undirbúa komu sókningsbátsins. Jón Stef. veiddi 120 í ,,Gilinu“ og 10 á Jónsnefi, Jónas 90 á Einarsnefi. Í hlut urðu 375 stk., 100 í sókningsgjald, 50 stk. fyrir að setja viðlegumenn í Eyna, 39 fuglar á jörð, 20 fuglar fyrir bílkeyrslu heim á fuglinum. Magnús sendi heim 250 fugla.

14. júlí. Var sunnan og suðaustan gola. Jón Stef. veiddi 60 í Siggaflesi, Jónas 100 í Siggaflesi og 15 útsuðursnefi, Magnús 130 á horninu milli Sveltisins og Landnorðursnefs. Þann stað er nú farið að nefna ,,Hyrnuna“ eða ,,Landnorðurshyrnuna“.

15. júlí. Austan átt fyrst, en síðan suðaustan- og sunnan-gola, en lygndi alveg er á daginn leið. Jón Stef. veiddi 210 í Landnorðursstaðnum og 60 stk. í Siggaflesi, Jónas 100 á Lendarflánni og 50 í Siggaflesi. Magnús veiddi 140 á Eyfanefi. Jón Jónsson var 65 ára í dag.

16. júlí. SA-gola, síðan logn og smáskúrir. Jón Stef. 250 í ,,Kvalræði“, Jónas 130 í ,,Siggaflesi“, Magnús 50 í Bólbrekkunni. Sókningarbáturinn kom og Gísli Fr. Johnsen til þess að filma og taka myndir af fuglalífinu. Fengum í hlut 325 og 30 stk. á jörð, 100 í sókningsgjald og 20 fyrir bílkeyrslunni með fuglinn heim. Jón Jónsson fór nú heim, hafði aðeins verið sér til upplyftingar og skemmtunar.

17. júlí. VNV-átt fyrst, síðan VSV-stinningskaldi. Jónas veiddi 60 í Lækjarbrekkugili, 20 á Molda. Jón Stef. 70 á Einarsnefi og 270 á Útsuðursnefinu. Magnús veiddi 40 á Jónsnefi og 100 á Gíslanefi, þ.e.a.s. fyrir neðan nefið sjálft, sem er betra upp á það til að gera, að betur sést til fuglsins.

18. júlí. Sunnan- og SA-gola, en síðan logn. Þykkt loft, en létti til seinni partinn. Jón Stef. veiddi 40 í Kvalræði, Jónas 40 í Siggaflesi. Fórum upp um eftirmiðdaginn. Mikið við af fugli, en hann flaug sitt á hvort. Gísli Fr. filmaði og tók myndir.

19. júlí. Sunnan gola og bjart veður. Gísli F. filmaði norður ,,á gati“ og víðar. Mikill hiti. Jón Stef. veiddi 150 í Kvalræði. Jónas 70 í Siggaflesi og 30 á Útsuðursnefi. Magnús 100 austan við Vatnsgil í litla flesinu og vitanlega eyðilagði þarvið alla veiði í Siggaflesi.

20. júlí. NV-gola fyrst og léttskýjað, síðan logn og þykknaði upp. Jón Stef. 120 í Kvalræði, Jónas 45 á Jónsnefi, 50 í Siggaflesi. Heimfarardagur, 320 í hlut, 100 í sókningsgjald, 33 á jörð, 20 í bílkeyrslu. Ágætt leiði heim. Hjálmar Jónsson frá Dölum kom með bátnum og hjálpaði við heimflutninginn. Veiðitímanum lokið í Álsey. Enginn maður eftir þetta til veiða þar þetta sumarið, enda þótt mikið sé enn eftir af lundatímanum. (Samkv. dagbók Jónasar Sigurðssonar).


Tíundarskrá í Álsey sumarið 1946
(samkv. tíundarskrá Bjarna Bjarnasonar):

Veiðimenn:
Árni Árnason,
Bjarni Bjarnason,
Magnús Magnússon,
Jónas Sigurðsson.

Dagsetning Veiði-
maður
Veiði-
maður
Veiði-
maður
Veiði-
maður
Árni Á. Bjarni Bj Magnús M. Jónas
8. júlí 65 70 25 100
9. 70 5 17 20
10. 230 70 90 100
11. 70 30 6 20
12. 125 55 25 130
13. fer heim 65 96 120
14. 70 86 150
15. 100 50 80
16. 40 40 40
Alls 560 505 435 760



Ár 1949 voru í Álsey um tíma eftirtaldir menn:


Magnús Magnússon,
Oddur Sigurðsson,
Magnús Oddsson,
Helgi Magnússon,
Einar Bjarnason.
Sumarveiðin gekk yfirleitt ágæta vel, þar til síðustu ferðirnar, en þá voru stormar miklir og norðanáttir og ungi lundinn allur farinn, þareð hann kom svo snemma um sumarið. Hér fer á eftir tíundarskrá yfir tímann:


Tíundarskrá úr Álsey 1949:

Júlí Veiði-
maður
Veiði-
maður
Veiði-
maður
Veiði-
maður
Veiði-
maður
Magnús
Magnússon
Oddur
Sigurðsson
Magnús
Oddsson
Helgi
Magnússon
Einar
Bjarnason
8. — 65 stk. 4 stk. 11 stk. 13 stk. 111 stk.
9. — 190 156 70 30 411
10. — 100 120 44 47 388
11. — 100 11 11 19 70
12. — 96 97 70 31 250
13. — 169 134 57 31 251
14. — 100 96 20 15 146
15. — 20 62 17 11 129

Alls er þetta 3.772 stykki, (samkv. tíundarskrá Magnúsar Guðmundssonar). Það sem einkennir þessa tíund er það, að þarna er tíundað upp á fugl, þ.e. einingu úr tug, en sá var vaninn og er enn viðhafður, a.m.k. í Álsey, að tíunda upp á tug, a.m.k. upp á hálfan tug. Það þótti ávallt gott að hafa nokkra fugla afgangs, þegar skipt var upp á sókningsdegi og þá bætt á hvern og einn að jöfnu við skiptin. Stundum voru og afgangsfuglar af tíund notaðir til þess að greiða með einhverja áfallna kostnaðarliði vegna útilegunnar.
Þeir menn, sem veiddu undir tíu fuglum, tíunduðu þá ekki neina veiði. Þetta sumar var og í Álsey Magnús Guðmundsson, Vesturhúsum, en hann var utan félags og eru þessvegna tíundir hans ekki með á skránni. Þó hefir hann greitt í sókningsgjald og til jarða eins og hinir veiðimennirnir.
Mér er ekki kunnugt um slíkt tíundarfyrirkomulag fyrr í úteyjum. Að vísu var það sumarið 1941, að þá var í Álsey Árni Stefánsson frá Sigríðarstöðum. Hann byrjaði að tíunda upp á fugl, en það var ekki tekið til greina, heldur hver tíund miðuð við heilan tug að fornri venju og samkv. venjulegum sið í Álsey. (sbr. Tíundarskrá úr Álsey 1941).

Heildarveiði í Álsey 1947-1951
(samkv. dagbók Jónasar Sigurðssonar):

Ár Veiði-
daga-
fjöldi
Veiði
alls
1947 10 275
1948 14 4575
1949 16 4385
1950 15 1870
1951 17 4296
Niðurlag


Auðsætt er af framanritaðri tíundarskrá, hve mjög lundaveiðin minnkar frá ári til árs. Hver ástæðan fyrir þessari rýrnum á veiðinni er, verður helst um kennt misjafnlega löngum veiðitíma og ef til vill misjafnlega góðum veiðimannafjölda. Þessutan eru og ávallt áraskipti að aflabrögðum í lundaveiðum, en það er þá tæplega nema eitt ára í senn. Hitt er sennilegast að veiðimennirnir séu misjafnlega góðir og veiðitíminn misjafnlega langur. Ég get ekki fundið sennilegri ástæðu fyrir minnkandi veiði á þessum 37 árum, sem tíundarskrá nær yfir. Ef til vill vill einhver spyrja, hvort fuglinum fari ekki fækkandi og veiðistaðir versnandi. Því er til að svara, að fuglinn er máske ekki eins gífurlega mikill og hann var fyrst, en þó verður veiðimaðurinn ekki var neinnar sérstaklega mikillar fækkunar.
Veiðistaðirnir halda sér nokkurnveginn jafngóðir og þeir voru, er þeir fyrst voru fundnir. Ekki verður annað sagt eða séð yfirleitt. Þó eru einstaka staðir, sem virðast alveg „dauðir“, samanber Eyfanefið í Álsey, sem er „úttaugaður“ veiðistaður nú orðið, hverju sem um er að kenna. En um ofveiði er þar alls ekki að ræða. Ástæðurnar eru einhverjar aðrar ókunnar, t.d. máske byssuskot einhverra veiðiþjófa, sem þar hafa verið að verki heldur harkalega. Það getur gjörsamlega eyðilagt staðina. Því til sönnunar mætti geta hér, að eitt sinn voru menn með haglabyssu í Álsey. Skammt frá kofanum er svonefndur Nóngilshaus. Þar sat ávallt mjög mikið af fugli, svo að segja má, að hann hafi dag hvern verið hvítur af lunda. Eitt sinn skaut maður einn úr haglabyssu á þéttsetinn Nóngilshaus. Drápust fjölmargir lundar, en aðrir særðust. Síðan hefir aldrei sést fugl á Nóngilshaus, fyrr en nú síðustu árin, að einstaka fugl sést tylla sér þar um stund og máske flestir 4 til 6 fuglar. Og þó eru mörg ár síðan þessi skotatburður fór fram. Þetta er ótrúlegt, en er þó staðreynd, sem okkur Álseyjarveiðimönnum er vel kunnug. Þar af dreg ég þá ágiskun, að ef til vill hafi skothríð eyðilagt Eyfanef, sem var einn af bestu veiðistöðum eyjarinnar í hárri austanátt.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit