Ritverk Árna Árnasonar/Einar Bjarnason (skipstjóri)
Einar Bjarnason skipstjóri frá Vík í Mýrdal fæddist 13. desember 1907 og lést 23. apríl 1994.
Faðir hans var Bjarni frá Drangshlíðardal undir Eyjafjöllum, útsölustjóri ÁTVR á Siglufirði, fyrrum skósmiður og kaupfélagsstjóri í Vík í Mýrdal, f. 10. september 1884, d. 14. nóvember 1958, Kjartansson frá Drangshlíð, bónda í Drangshlíðardal, f. 8. júní 1832, d. 10. mars 1894, Guðmundssonar bónda í Drangshlíð, Jónssonar og konu Guðmundar í Drangshlíð, Elínar Kjartansdóttur húsfreyju.
Móðir Bjarna útsölustjóra og kona Kjartans bónda í Drangshlíðardal var Solveig húsfreyja f. 31. október 1850, d. 8. júlí 1940, Finnsdóttir bónda í Gerðum í Garði, f. 8. desember 1818, d. 18. mars 1884, Þorsteinssonar og konu Finns, Sigríðar húsfreyju, f. 18. nóvember 1823, d. 25. desember 1896, Erlendsdóttur.
Móðir Einars skipstjóra ok kona Bjarna var Svanhildur húsfreyja, f. 11. október 1883, d. 13. október 1949, Einars bónda og sjómanns á Stóru-Heiði í Mýrdal 1890, f. 6. nóvember 1852, d. 14. nóvember 1932, Hjaltasonar bónda í Skammadal og á Suðurgötum í Mýrdal, f. 1821 í Keldudal, d. 16. október 1898 í Vík, Einarssonar og konu Hjalta, Tölu húsfreyju, f. 21. janúar 1828, d. 1. júní 1903, Runólfsdóttur bónda á Litlu-Heiði í Mýrdal Sigurðssonar.
Móðir Svanhildar og kona Einars Hjaltasonar var Ingibjörg húsfreyja á Stóru-Heiði, f. 8. janúar 1851, d. 9. febrúar 1932, Sigurðardóttir bónda í Giljum í Mýrdal, f. 12. júní 1806, d. 21. september 1876, Árnasonar bónda í Hvammi í Mýrdal Jónssonar og konu Árna, Bjargar Einarsdóttur húsfreyju.
Móðir Ingibjargar húsfreyju á Stóru-Heiði og kona Sigurðar í Giljum var Anna húsfreyja, f. 1. janúar 1819, d. 27. júlí 1869, Gísladóttir, f. 1793, d. 16. febrúar 1862, Gíslasonar.
Kona Einars var Kristjana Friðjónsdóttir húsfreyja á Vesturhúsum og í Sunnudal, f. 25. júlí 1914, d. 13. október 1995.
Börn Einars og Kristjönu:
1. Hjalti Einarsson verslunarmaður, markvörður íslenska handknattleiksliðsins um skeið, f. 23. júní 1938, d. 12. janúar 2013.
2. Margrét Einarsdóttir húsfreyja, f. 16. september 1942, d. 6. febrúar 2018.
Barn Einars með Guðbjörgu Guðmundsdóttur, f. 6. júní 1906, d. 16. júlí 1936:
3. Svala Guðmunds Einarsdóttir, f. 23. janúar 1932. Móðir hennar lést frá henni ungri og ólst hún upp hjá móðurforeldrum sínum. Hún fluttist til Kanada og á þar fjölskyldu.
Einar ólst upp í Mýrdalnum þar sem faðir hans varð kaupfélagsstjóri. Var hann mikið hjá afa sínum Einari Hjaltasyni og hóf sjómennsku hjá honum, er hann réri með honum frá Vík, þá innan við fermingu. Faðir hans varð útsölustjóri ÁTVR á Siglufirði 1928.
Einar nam við unglingaskóla í Vík, lauk Stýrimannaskólanum 1931.
Hann stundaði sjómennsku, bæði á togurum og bátum.
Bátinn Einar Hjaltason SI 44 eignaðist hann, nýsmíðaðan í Danmörku, með öðrum 1930 og gerði hann út bæði norðan- og sunnanlands.
Þá var hann með Brúna SI 7. Á þann bát sigldi „Drottningin“ , „Dronning Alexandrine“ og sökkti honum. Þar fórust tveir menn.
Þau Kristjana fluttust til Eyja 1942 með soninn Hjalta. Fjölskyldan bjó á Vesturhúsum og i Sunnudal.
Einar sigldi á stríðsárunum, var með mb. Ernu EA 200 í fiskflutningum frá Eyjum til Bretlands, kallaður „Einar á Ernu“.
Hann var um skeið stýrimaður á Helga Helgasyni, gerði síðan út Gottu til síldveiða.
Þau Kristjana fluttust til Hafnarfjarðar 1950. Einar var þar um skeið á togurum frá Hafnarfirði, síðan öryggisvörður hjá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli, en frá 1954 tollvörður á flugvellinum til starfsloka, alls 23 ár.
Einar var heiðraður á sjómannadaginn í Hafnarfirði 1984.
Einars Bjarnasonar er getið í bjargveiðimannatali Árna Árnasonar, en án sérstakrar umsagnar.
Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Brotsjór rís – Lífssigling Einars Bjarnasonar skipstjóra. Sveinn Sæmundsson. Setberg 1991.
- Eyjar og úteyjalíf – Úrval verka Árna Árnasonar símritara frá Grund. Sögufélag Vestmannaeyja í samstarfi við Safnahús Vestmannaeyja 2012.
- Íslendingabók.is.
- Manntöl.
- Vestur-Skaftfellingar 1703-1966. Björn Magnússon. Leiftur 1970-1973.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.