Ritverk Árna Árnasonar/Fyrri tíma veislur og gleðskapur

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Fara í flakk Fara í leit




Úr fórum Árna Árnasonar


Fyrri tíma veislur og gleðskapur
(Brot)


Margir hafa haldið því fram, að hér í Eyjum hafi skemmtanalíf verið fátæklegra en víða annarsstaðar, og hafi þessu valdið einangrun eyjabúa og innilokun og óframfærnisháttur þeirra. En þetta er hinn mesti misskilningur, því að einmitt hér var, þó nokkru fyrir aldamótin, mjög fjörugt og breytilegt skemmtanalíf, enda þótt ekki væri ball eða bíó á hverju kveldi eins og nú til dags.
Um 1860 var t.d. hafin leiklistarstarfsemi hér og þá sýnd ný leikrit eins og Hrólfur, Narfi, Jósafat o.fl. Þá voru hér sumardagsveislur, fýlaveislur (úteyjaveislur), Hrófsveislur, útdráttarveislur, uppsátursveislur, Julveisla, lundaveislur, útlátaveislur, jólaboð, blysfarir, álfadansar, íþróttir og leikir, kappróðrar, skemmtiferðir í úteyjar, útreiðartúrar, töðugjaldaveislur, svo eitthvað sé nú talið, að ógleymdum brúðkaupsveislunum.
Eyjarnar hafa haft sérstöðu um margar þessar veislur sem væru almenningsfagnaðir og skópu hér mjög auðugt skemmtanalíf.
Sumardagsveislurnar voru haldnar fyrir bátshafnirnar á fyrsta sumardag, annaðhvort heima hjá formanni eða í samkomuhúsunum. Voru þar frambornar ágætar veitingar, ýmist í mat, kaffi og víni. Var hressilega til matar tekið og drukkið mikið, enda þótti það sjálfsagt. Sungið var við raust, spilað og teflt manntafl, sögur sagðar o.fl. Lenti stundum í allhörðum deilum um formenn, skip og skipshafnir, og hældi þá hver sínu og áleit best. Veislur þessar kostuðu eigendur skipsins að mestu leyti og veittu vel, svo að hvergi var til sparað. Fyrrum var veittur sírópsgrautur, brauð og vín, en síðan kom svo hangikjötið, saltkjöt og sumir veittu steikt kjöt. Þá var og sjálfsagt að hafa hákarl og brennivín, sem þóttu konunglegar veitingar.
Fýlaveislurnar þóttu veislur með afbrigðum góðar, enda mjög eftirsóttar. Þær voru haldnar eftir fýlaferðir, er voru ein af aðal atvinnu eyjabúa. Þar var veittur reyktur fýll, mjólkurgrautur með rúsínum og sírópi, kjötsúpa eða jafnvel kjötsteik. Var veislan haldin af veiðimönnum þeim, er í leigumálana fóru, og stóð hún vitanlega alla nóttina með glaum og gleði, söng og kátínu, því að mikið var um brennivín og óspart drukkið. Stundum voru tvær til þrjár fýlaveislur samtímis, og voru þá æði margir, sem veislurnar sátu, því að veiðina stunduðu margir við hvern leigumála.
Lundaveislurnar voru líkar fýlaveislunum, matur, kaffi og vín og haldnar af veiðimönnum hverrar eyju. Voru það hinar bestu skemmtistundir, er héldust með gleði og glensi fram á næsta dag. Þarna rifjuðu menn upp skemmtileg atvik frá samverunni við veiðarnar, og bar þá æði margt á góma. Enn þann dag í dag tíðkast úteyjaveislur og hafa t.d. Elliðaeyingar haft þann sið frá fyrri árum til þessa, og skemmt sér prýðilega. Þá má og minnast á allsherjarhófið, sem haldið var síðastliðið haust við mikinn fögnuð og kátínu allra fuglaveiðimanna úteyjanna. Þar voru ræður, söngur, leikþættir og skemmtiþættir, bíó, sungin úteyjaljóð o.m.fl.
Útlátaveislurnar héldu þeir, er í fyrsta sinn fóru í einhverja úteyjuna, t.d. Hellisey, Súlnasker o.fl. Var veislan haldin hinum öllum er í ferðinni voru. Efalaust er siður þessi mjög forn og helst enn, þó að ekki sé hann eins almennur orðinn og áður var. Voru þetta oft góðar veislur og skemmtilegar, enda veittu margir útlátamenn óspart mat og drykk.
Í Suðurey kom einu sinni margt fólk og voru þar á meðal Helga sáluga dóttir Sigurðar Sigurðssonar lyfsala og Nikolína Jónsdóttir, er þá var afgreiðslustúlka í lyfjabúðinni. Fórum við með þær inn í Kirkju, sem er klettaskúti í norðurbrún eyjarinnar við Helluna, og all glæfralegt í að fara, og sögðum þeim svo, að nú ættu þær samkvæmt aldagömlum venjum að láta úti veitingar til okkar veiðimannanna. Og það stóð ekki á því; – með næsta sókningsbát kom 3 flöskur af brennivíni, kökur og góðgæti og nógar sígarettur og vindlar. Ekki er mér kunnugt um önnur útlát kvenna fyrir kirkjuferð í Suðurey.
Uppsáturs- og útdráttarveislur voru haldnar hér árlega, er bátar voru settir upp að vertíð lokinni eða á fyrsta róðrardaginn á vertíðinni. Héldu skipaeigendur þessar veislur og veittu þá óspart kaffi, mat og vín.
Einu sinni bar svo við að Ólafur í London hér var búinn að setja skip sitt í hróf og ætlaði að róa morguninn eftir. Hann fór svo og kallaði skipshöfn sína. En þegar í hrófið kom, fann hann hvergi skip sitt og varð að hætta við róðurinn. Þótti honum þetta allkynlegt og vissi ei, hvað halda skyldi um skipið. Datt honum helst í hug, að einhverjir hefðu róið skipinu í leyfisleysi og þótti súrt í broti að missa útdráttarróðurinn vegna ótuktarskapar. Síðar um daginn frétti Ólafur svo, að búið sé að finna skip hans, og sé það á hvolfi inn á Brimhólum, en þangað voru skip þau flutt, sem ekki skyldu lengur ganga til fiskjar, og var það kallað að „setja á Hólana“. Sagði nú Ólafur, að hér hefði einhverjir ærslabelgir verið að verki og tók þessum grikk með ljúfmennsku og langlundargeði eins og honum var vant, er eitthvað bjátaði á. Um kvöldið fékk hann sér svo mannskap til þess að setja bátinn innan af Brimhólum niður í Hróf og gekk það vel og fljótt.
Eftir setningu kallaði hann svo á mannskapinn, er hjálpaði honum og veitti vel kaffi og brennivín með þessum orðum: „Ég þakka ykkur öllum fyrir góða hjálp, en verst þykir mér, ef ég er nú að veita einhverjum af þeim, sem bátinn setti í nótt á hólana“. Og vitanlega voru þarna margir af ærslaseggjunum, sem flutt höfðu bátinn á Hólana fyrir hann, og var haldið, að þeir hefðu grikkinn framið til þess að fá veitingar hjá Ólafi.
Um þessar veislur má segja, að Eyjarnar hafi haft sérstöðu, t.d. um allar fuglaveiðiveislurnar, sem ekki tíðkuðust í öðrum byggðarlögum, en þær urðu til þess að auka mjög skemmtanalíf Eyjanna. Þó voru allar þessar nefndu veislur smámunir hjá brúðkaupsveislunum, sem voru hér langstærstu, fjölmennustu og skemmtilegustu veislurnar, enda héraðsviðburður.
Allir vildu hafa sína veislu sem besta og eftirminnilegasta, enda var ekkert til sparað, að svo mætti verða. Í stærstu veislurnar má heita, að öllum búandi mönnum væri boðið, a.m.k. öllum bændum og þeirra fólki, kaupmönnum, sýslumanni eða hreppstjórum, prestinum, lækni, einstöku tómthúsmönnum og svo börnum þeirra, er boðnir voru, a.m.k. þeim elstu, svo að æði margt gat verið í veislunni. Alltaf voru hafðar fyrr meir matarveislur, hangikjöt, stórsteik af úteyjarsauðum eða kjötsúpuveislur. Kaffi og súkkulaðiveislur komu ekki til sögunnar, fyrr en eftir aldamótin og þóttu þá fínar veislur, en ekki eins góðar að sama skapi. Menn vildu heldur mat til undirstöðu drykkjarfanganna.
Sá var siður á hafður að lýsa með brúðhjónum frá kirkjustóli og skyldi það gert þrisvar. Strax og lýsingar byrjuðu, fór fólk að hlakka til veislunnar, geta til hverjum mundi boðið, hvers konar veisla mundi verða, hverjir yrðu frammistöðumenn o.s.frv. Staða frammistöðumanna var vandasöm, en þótti virðingarstaða. Þeir voru hafðir tveir og oft fjórir og þá valdir hreppstjórarnir eða helstu bændur. Þeir voru aðal ráðunautar brúðgumans um allt og eitt og réðu m.m. oft að miklu leyti hverjum boðið var. Þeir fengu allt lánað til veislunnar, sem þurfti af leirtaui og hnífapörum, dúka og þessháttar. Vitanlega sáu þeir svo um matarkaupin og vínveitingar, báru inn o.m.fl.
Þá voru líka tvær til fjórar búrkonur, og var þeirra starf að búa til matinn, sjóða kjötið eða steikja kartöflur og rófur, smyrja tvo til þrjá balla af brauði o.m.fl. Venjulega sátu veislurnar um hundrað til hundrað og þrjátíu manns, svo að mikils þurfti með af veisluföngum. Þess utan fengu ávallt áhorfendur að skemmtuninni, en þeir voru oft býsna margir, einhvern glaðning. Góðir frammistöðumenn þóttu Jón Hreinsson í Batavíu, Guðjón Björnsson, Kirkjubóli, Lárus hreppstóri á Búastöðum, Jón í Mandal Ingimundarson, Kristján í Klöpp, Jóhannes á Miðhúsum Hannesson, Árni Ingimundarson o.fl. Búrkonur voru mjög vandvaldar, því að gæði matarins lágu í þeirra höndum. Afbragð annarra þóttu Guðrún¹) kona Ólafs Einarssonar í Litlakoti, móðir Sigga í Vegg. Þótti steik hennar með afbrigðum góð, kjötsúpur og hangikjötið best handterað. Sama má og segja með síðari búrkonur, Kristínu á Búastöðum konu Lárusar hreppstjóra, Ólöfu dóttur hennar á Kirkjubóli, konu Guðjóns Björnssonar, Agötu konu Steins Sigurðssonar kennara, Sigríði Árnadóttir í Frydendal o.m.fl.
Einum eða tveim dögum fyrir veisluna fóru frammistöðumenn að bjóða gestunum, er var gert með mikilli kurteisi og viðhöfn. Fluttu þeir kveðju brúðhjóna með innilegri ósk um, að þau veittu sér þá gleði að koma o.s.frv. Fór annar, ef tveir voru, um uppbæinn, en hinn um Sandinn. Oft urðu þeir naumir með tíma að bjóða, en allir munu hafa vitað um boðið fyrirfram, svo að ekki kom það að sök.
Ekki fór svo mikill tími í að velja brúðargjafir, því að allflestir gáfu peninga. Þótti prýðileg gjöf tvær krónur, stórmannleg fjórar krónur og höfðingleg, hvað hærri var krónutalan. Þegar Sturla sálugi Indriðason og Fríður Lárusdóttir giftu sig 1904, gáfu þau Miðhúsahjónin Hannes lóðs og Margrét Brynjólfsdóttir þeim tíu krónur, og var það einsdæmi í höfðingsskap á þeim tíma. Gísli J. Johnsen gaf þeim draglampa (aladin), er þótti dýrðargjöf mikil og stórhöfðingleg, og var verð hans áætlað um átta til tíu krónur.
Veislan fór fram í Austurbúðar- eða Tangahúsunum og var salurinn prýddur eftir föngum, dúkum og fánum. Langborð voru með veggjunum og háborðið við innendann. Þar sátu brúðhjónin og foreldrar, prestur, læknir og aðrir fyrirmenn, en almenningur út í frá.
Ef veislan var í Austurbúðarhúsunum var veislan í suðurhúsinu (Kumbalda), en dansað í norðurhúsinu (Salthúsinu).
Var oft þröng mikil í sundinu milli Austurbúðarinnar og Kumbalda, því að þangað söfnuðust áhorfendur og var oft svo þröngt að frammistöðumenn komust vart ferða sinna með matinn og aðra aðflutninga. Allir voru hrifnir að sjá dansinn og fólk allt í sínum bestu fötum, og margur fékk góða glaðninga frá gestaborðunum.
Fyrr meir og allt fram til aldamóta voru hinir viðhafnarmiklu siðir viðhafðir, að veislufólkið mætti í veislusalinn og fékk morgunverð kl. 10 – 11, smurt brauð, kaffi og karlmenn a.m.k., hressingu, en að því loknu hófst brúðargangurinn til kirkjunnar og var þá öllu fólki raðað, tveir og tveir saman, en í broddi fylkingar voru brúðhjónin og leiddust, en fyrir þeim gengu brúðarsveinar, tveir 12 – 15 ára drengir. En siður þessi lagðist niður skömmu fyrir aldamót. Síðustu brúðarsveinar eru Gísli Eyjólfsson og Oddur (ólæsilegt eftirnafn) í veislu Guðlaugs í Gerði.
Síðari tíma brúðkaup hófst kl. 2 til 3 um daginn og var þá farið í kirkjuna, en strax eftir vígsluna farið í veisluhúsið, en þar voru þá frammistöðumennirnir mættir og skipuðu í sæti eftir mannvirðingum og frændsemi við brúðhjónin.
Er allir voru komnir í sæti, las frammistöðumaður bæn („Faðir vor“) og kyrjaði svo borðsálminn og tóku nokkrir undir lagið. Þá hófst borðhaldið. Var kjötið borið á stórum fötum inn í stórum stykkjum af frammistöðumönnum, en maður gekk með og skar fyrir. Vín, brennivín og koníak var á borðum, og gerðist því brátt glaumur mikill og gleði, því að karlmenn neyttu sterku drykkjanna óspart með matnum, en kvenfólkið naut rauðvíns, portvíns eða annarra sætra vína. Í eftirmat var svo rúsínugrautur eða kjöt og vínsúpa, en þar eftir lagkaka, afar stór, sem hver mátti neyta af eftir vild og skola niður með vínum. Síðan voru borð upp tekin, nema háborðið, er var látið standa, og þar á borið alla nóttina kaffi, kökur og vín, sem hver neytti eftir vild.
Þá hófust skemmtanirnar. Var spilað á spil, samspjallað og sögur sagðar, en aðrir, sem kunnu þá list að dansa þyrptust í dansinn, og horfði svo fólk hugfangið á dansfólkið. Fyrir dansinum var spilað á harmoniku, einfalda, og þótti það með afbrigðum gott.
Einhver allra flínkasti harmonikuspilarinn var Árni Sigurðsson á Steinsstöðum, hinn mesti fjörkálfur og fagnaðarhrókur. Kona hans var Guðrún Bergsteinsdóttir systir Ingibjargar í Dal og Kristólínu konu Sveins P. Scheving á Hjalla. Dansað var mest polki og vals, mars með allskonar tilbrigðum, en að lokum var svo „ofið vaðmál“ og sungið með. Um tíma var og dansað „Les laucius“ og kenndi það Aagaard sýslumaður og frú. Það var mjög vinsæll dans. Mörgum árum síðar kenndi svo Sigfús Johnsen og Veiga á Strembunni „Laucius“ og var það þá mjög mikið dansað skömmu eftir aldamótin.
Hér kom inn rjúkandi púns úr romm eða koníaki, en kvenfólk fékk rauðvín eða léttvínspúns. Gerðust menn þá háværir, lentu í kappræðum um eitt og annað, en sjaldan lenti þó í áflogum, enda þóttu það hin hörmulegustu veisluspjöll, ef fyrir kom.
Þá færðist nýtt fjör í dansinn; menn þeyttu af sér jakkanum og jafnvel vestinu líka.

„Dansinn tróðu teitir þar,
tóbaksskjóðu bjóðar,
en hnjáskjóls tróður hýreigar,
hlupu á glóðum rjóðar“.

Er líða tók á kvöldið var borið inn smurt brauð og kaffi, sumir fengu líka hákarl og brennivín og þóttu dýrindis trakteringar, því að það stóð vel undir að éta hákarlinn og rann af mörgum við það. Vitanlega var mikið fyllerí í veislunum, því að mikið var drukkið, (Sigfús)² segir þó annað). En þetta þótti ekkert athugavert og sjálfsagt og tilheyrandi veislugleðinni.
Margt kom skemmtilegt fyrir eða broslegt í veislunum, sem lengi var á minnst og tilvitnað, en allt var það þó saklaust.
Þegar Jón Pétursson og Rósa Eyjólfsdóttir giftu sig, var veislan í Tangahúsinu; það var hangikjötsveisla og sætsúpa á eftir. Meðal veislugesta var Guðlaugur Sigurðsson í Brekkuhúsi, kvæntur Margréti systur Ingvars í Hólshúsi, Árnabörn frá Búastöðum. Guðlaugur var afar hrifinn af sætsúpunni, sem hann þekkti ekki og segir við konu sína hrifinn: „Tarna, Manga, er góður grautur, blessuð Manga, við skulum borða meir af þessum graut, súpu.“ Og var það gert rösklega. Vín mikið var veitt og urðu menn vel fullir.
Bjarni Þorsteinsson í Gvendarhúsi var meðal boðsgesta. Varð hann fullur og þurfti út. En þegar hann ætlaði inn aftur, fann hann hvergi dyrnar, sem voru á austurhlið. Settist Bjarni þar við húsgaflinn, barði og hamaðist og talaði við sjálfan sig: „ Mér þykir helvítis ári hart, ef ég fæ ekki að komast inn, ég er þó einn af boðsgestunum.“ Og í veislulokin varð hann ekki heppnari, því að hann lenti þá heim að Ofanleiti í stað Gvendarhúss; ætlaði hann þegar upp í rúmið sitt, en prestsfrúin vildi ógjarna fá hann upp í til sín, svo að hún reyndi að stjaka honum frá rúminu. En Bjarni var nú ekki á því að láta hrekja sig frá rúmi sínu, sem hann hélt vera, og sagði: „Mér þykir helvíti hart, ef ég rata ekki á bælið mitt, – og farðu frá stelpa.“ Þetta var þá Anna Guðmundsdóttir.
¹) Móðir Sigga í Vegg var Guðríður Sigurðardóttir, samkv. manntali 1870, en Guðrún Þórðardóttir var kona Sigurðar í Vegg, samkv. manntali 1890. (Heimaslóð).
²) Sigfús mun vera Sigfús M. Johnsen höfundur Sögu Vestmannaeyja. (Heimaslóð).


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit