Lars Tranberg Jakobsson
Lars Tranberg Jakobsson frá Jakobshúsi, símvirki, stöðvarstjóri fæddist 31. maí 1916 þar og lést 26. desember 2002.
Foreldrar hans voru Jakob Tranberg sjómaður í Jakobshúsi, f. 7. ágúst 1860 í London, d. 21. maí 1945, og kona hans Guðbjörg Guðlaugsdóttir húsfreyja, f. 30. ágúst 1874 á Sperðli í Landeyjum í Rang., d. 17. febrúar 1965.
Börn Jakobs Tranbergs og Valgerðar Sigurðardóttur og hálfsystkini Lars:
1. Sæmundur Tranberg Jakobsson, f. 16. desember 1885, d. 22. mars 1888.
2. Guðrún Tranberg Jakobsdóttir, f. 17. mars 1890, síðast búsett í Reykjavík, d. 6. febrúar 1975.
3. Ágúst Jakobsson Tranberg, f. 16. ágúst 1892, d. 21. október 1981. Hann fór til Vesturheims 1911 frá Lundi.
4. Sigurður Tranberg Jakobsson, f. 20. febrúar 1899, d. 28. febrúar 1899.
5. Valdimar Tranberg Jakobsson sjómaður, f. 25. október 1900, d. 9. apríl 1968.
Börn Jakobs Tranbergs og Guðbjargar Guðlaugsdóttur voru:
1. Magnúsína Tranberg Jakobsdóttir húsfreyja, f. 29. október 1910, síðast á Akranesi, d. 2. júní 1989.
2. Gísli Jakobsson bakarameistari í Reykjavík, f. 22. desember 1913, d. 26. desember 1993.
3. Lars Tranberg Jakobsson, símvirki, stöðvarstjóri í Reykjavík, f. 31. maí 1916, d. 26. desember 2002.
Börn Guðbjargar Guðlaugsdóttur og Sigurðar Sigurðssonar og
hálfsystkini Lars:
4. Guðlaugur Sigurðsson húsasmiður í Reykjavík, f. 28. mars 1901, d. 22. júní 1975.
5. Sæunn Guðbjörg Sigurðardóttir, f. 18. september 1904 í
Laufási, d. 19. desember 1926. Hún var í fóstri hjá Guðríði Bjarnadóttur húsfreyju í Sjólyst 1910 og 1920.
6. Elín Sigurðardóttir vinnukona á Hvoli, f. 27. október 1905 í Túni, d. 5. júní 1923.
7. Sigríður Benónía Sigurðardóttir húsfreyja, f. 16. nóvember 1906, síðast í Reykjavík, d. 13. september 1988.
Lars var með foreldrum sínum í Jakobshúsi meðan hjónaband þeirra varaði, en þau skildu, er hann var þriggja ára.
Hann var með móður sinni í Sjávargötu 1920-1923, með föður sínum í Jakobshúsi 1924. Þá var hann um skeið í fóstri hjá Snjáfríði Hildibrandsdóttur og Birni Guðmundssyni á Eystri-Vesturhúsum, fósturforeldrum Alfreðs Washington Þórðarsonar tónlistarmanns.
Lars var með móður sinni og Einari Einarssyni frá Norðurgarði í Litla-Bergholti 1930 og mun hafa flust með þeim til Reykjavíkur.
Hann tók loftskeytapróf 1934 og símvirkjapróf með radíótækni sem sérgrein hjá Landssímanum 1943.
Lars var loftskeytamaður á varðskipinu Ægi 1934-35, botnvörpungnum Rán 1935, bv. Þorfinni 1936 og á bv. Brimi 1937-38.
Hann vann á radíóverkstæði Landssímans 1938-47, en fyrstu þrjú árin var hann loftskeytamaður og símritari á Seyðisfirði á sumrin. Þá var hann stöðvarstjóri á Sendistöðinni á Rjúpnahæð 1947-85, auk þess sem hann kenndi verklega rafmagnsfræði og mors í fjögur ár við Loftskeytaskólann.
Lars var einn af stofnendum yngri deildar Knattspyrnufélagsins Týs og lék með 2. og 3. flokki félagsins. Þá keppti hann í frjálsum íþróttum fyrir KR og síðan fyrir Hugin á Seyðisfirði í frjálsum íþróttum og knattspyrnu.
I. Kona Lars, (11. nóvember 1939, skildu), var Júlíana Valtýsdóttir húsfreyja, saumakona í Reykjavík og Kópavogi, f. 15. júlí 1916 í Byggðarholti, d. 3. nóvember 2008.
Börn þeirra:
1. Árnína Sigrún Larsdóttir, f. 11. febrúar 1942, d. 26. apríl 1942.
2. Árni Jakob Larsson rithöfundur, f. 30. apríl 1943.
3. Erla Larsdóttir, f. 6. apríl 1947, d. 9. ágúst 1962.
4. Sveinn Björgvin Larsson símsmíðameistari, f. 27. júní 1952.
5. Gunnar Larsson fyrrverandi starfsmaður Pósts og síma á Rjúpnahæð, f. 27.12. 1953.
6) Valdís Sigrún Larsdóttir húsfreyja, dagskrárstjóri, f. 1. ágúst 1958.
II. Sambýliskona Lars Tranbergs um tuttugu ára skeið var Hjördís Guðmundsdóttir. Þau slitu samvistir.
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Manntöl.
- Morgunblaðið 3. janúar 2003. Minning.
- Prestþjónustubækur.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.