Alfreð Washington Þórðarson

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search
Í Köben.
Eins og við munum hann.
Björn Guðmundsson og Snjáfríður Hildibrandsdóttir.

Alfreð Bæring Washington Þórðarson (Vosi) tónlistarmaður, verkamaður á Eystri-Vesturhúsum, fæddist í Reykjavík 21. október 1912 og lézt í Reykjavík 2. janúar 1994.
Foreldrar hans voru Gíslína Pálsdóttir og Þórður Kolbeinsson.
Alfreð var tekinn í fóstur nokkurra vikna gamall af hjónunum Snjáfríði Hildibrandsdóttur húsfreyju, f. 28. janúar 1874, d. 4. desember 1944 og Birni Guðmundssyni, síðar bónda á Eystri-Vesturhúsum, f. 15. janúar 1871, d. 12. janúar 1951.
Þau hjón fluttu til Eyja, þegar Alfreð var 6 ára og bjuggu á Eystri-Vesturhúsum í 17 ár, en síðan á Lögbergi.

Fljótlega bar á miklum tónlistarhæfileikum hjá Alfreð og var honum komið í nám á orgelharmóníum hjá Ragnari Benediktssyni í Eyjum, en síðar hjá Páli Ísólfssyni í Reykjavík. Páll hvatti hann til frekara náms.
Hjónin ákváðu þá að fara með Alfreð til Kaupmannahafnar. Þar hóf hann nám í húsamálun og tónlist.

Við inntökupróf þótti Alfreð svo hæfileikaríkur og leikinn að skólastjórinn ákvað, að hann skyldi nema hjá einkakennara. Fljótlega byrjaði hann að leika á kaffihúsum og klúbbum og varð námi aldrei lokið. Þótti hann vera í flokki beztu píanóleikara á sínu sviði þar um slóðir.
Alfreð hafði bjarta tenórrödd á þessum árum og lærði um skeið söng hjá Önnu Borg.
Eftir heimkomuna lék hann í hljómsveitum og einn fyrir dansi. Þó að píanóið væri aðall hans, var hann eftirsóttur harmóníkuleikari.
Hann samdi nokkur lög, m.a. Heimaslóð og Fjólan.
Alfreð stundaði jafnframt húsamálun og verkamannavinnu; vann hann lengi við Vinnslustöðina.
Fjölskyldan bjó á Eystri-Vesturhúsum.
Jónína lést 1962. Árið 1973 flutti Alfreð til Hafnarfjaðar, þar sem hann bjó um skeið, en síðan á Stokkseyri hjá þeim hjónum Elísabet Hallgrímsdóttur og Sigurði Friðrikssyni. Þar bjó hann til ársins 1988, er hann flutti á Kumbaravog þar og dvaldi í eitt ár. Þá lá leiðin á Elli- og hjúkrunarheimilið Grund í Reykjavík.
Lék hann þar gjarnan fyrir vistmenn við morgunleikfimi og aðrar samkomur.
Árið 1992 fékk hann heilablóðfall og lamaðist öðru megin.
Var leiknum þar með lokið.
Hann lézt 2. janúar 1994 og var jarðsettur í Kotstrandarkirkjugarði í Ölfusi og hvílir þar hjá vinafólki sínu, Elísabet Hallgrímsdóttur og Sigurði Friðrikssyni.

Sambýliskona Alfreðs var Jónína Jóhannsdóttir húsfreyja og verkakona, f. 23. febrúar 1914, d. 20. ágúst 1962.
Börn þeirra:
1. Bjarnfríður Ósk húsfreyja, verzlunarmaður í Hafnarfirði, f. 23. desember 1940.
2. Alfreð Óskar húsasmíðameistari í Eyjum, f. 21. júlí 1942.
3. Árný Freyja húsfreyja í Þorlákshöfn, f. 31. desember 1943, d. 20. janúar 2020.
4. Ármann Þráinn starfsmaður í Straumsvík, f. 31. desember 1943.
5. Jónína Steinunn í Hafnarfirði, ritari, f. 1. apríl 1945.
Önnur börn Alfreðs voru
6. Þorsteinn Þórir Alfreðsson lögreglufulltrúi, f. 30. júlí 1931, d. 11. mars 1998.
7. Sveinbjörn (Alfreðsson) Benediktsson starfsmaður í Álverinu, f. 1. janúar 1933, d. 2. febrúar 1997. Hann varð kjörsonur Benedikts Guðjónssonar.


Myndir


Heimildir


Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.