Blik 1980/Ágrip af sögu landbúnaðar í Vestmannaeyjum, I. hluti
Samkvæmt þeim jarðmælingum, sem herforingjaráðið danska lét gera á Heimaey árið 1907, þá reyndist hún vera 1125 ha. að stærð, láglendi, klettar og fjöll.
Fáir hafa krufið til mergjar sögulegar heimildir frá liðnum öldum um atvinnuhætti í Vestmannaeyjum til lands og sjávar jafn ítarlega og Sigfús M. Johnsen frá Frydendal í Eyjum, fyrrverandi bæjarfógeti þar. Í sögu Vestmannaeyja getur hann þess, að elztu heimildir, sem hann fann um skiptingu jarða á Heimaey, séu fornbréfasöfn frá 16. öld. Nöfnin á Vestmannaeyjajörðunum, sem þar eru nefnd, héldust svo að segja óbreytt fram á þessa öld og þar til þær hurfu undir hraun að töluverðum hluta í eldgosinu á Heimaey árið 1973.
Ég kýs að skrá nöfn allra Eyjajarða hér, sem nefnd eru í fornum heimildum, því að nöfn þeirra hverfa brátt úr minnum manna af gildum ástæðum og heyra þá sögunni til.
- Vilborgarstaðir (Vilborgarstaðatorfan) 8 jarðir
- Kirkjubæir (Kirkjubæjatorfan) 8 jarðir
- Búastaðir (eystri og vestri) 2 jarðir
- Oddstaðir (eystri og vestri) 2 jarðir
- Vesturhús (eystri og vestri) 2 jarðir
- Stakkagerði (eystra og vestra) 2 jarðir
- Gjábakki (eystri og vestri) 2 jarðir
- Gerði (litla og stóra) 2 jarðir
- Dalir 2 jarðir
- Ofanleiti (prestssetrið) 4 jarðir
- Þórlaugargerði (eystra og vestra) 2 jarðir
- Norðurgarður (eystri og vestri) 2 jarðir
- Kornhóll (Miðhús og Höfn) 2 jarðir
- Presthús 1 jörð
- Nýibær 1 jörð
- Gvendarhús 1 jörð
- Brekkhús 1 jörð
- Draumbær 1 jörð
- Ólafshús 1 jörð
- Svaðkot 1 jörð
- Steinsstaðir 1 jörð
- Samtals 48 jarðir
Um sumar jarðirnar var ríkjandi nokkur vafi. T.d. sat oft aðeins einn bóndi á Presthúsum, þó er hún í sumum heimildum talin einn jarðarvöllur, þ.e. tvær jarðir. Vafinn stafar e.t.v. af því, að önnur Presthúsajörðin varð að sækja heyskap sinn að töluverðu leyti í Úteyjar, - bóndinn varð að heyja þar og flytja heim til Heimaeyjar megnið af heyfeng sínum.
Árið 1552 stofnaði danska konungsvaldið til einokunarverzlunar í Vestmannaeyjum. Það var réttri hálfri öld fyrr en danska einokunarverzlunin var leidd í lög eða löggilt á öllu landinu.
Fyrstu fimm árin (1552-1557) tók borgarstjórnin í Kaupmannahöfn einokunarverzlun þessa á leigu. Að þeim árum liðnum rak konungurinn sjálfur verzlunina fyrir eigin reikning. Þá voru alls ráðandi í Eyjum verzlunarstjórar konungsvaldsins í landbúnaði, sjávarútvegi og verzlun. Kirkjustarfsemin laut þar einnig valdboði að miklu leyti, með því að fjárgæzlumaður Landakirkju var hinn danski einvaldur í nafni konungs.
Á síðari hluta 16. aldarinnar hét forstöðumaður konungsverzlunarinnar í Vestmannaeyjum Simon Surbeck. Þessi danski einvaldur lét Eyjabúa vissulega finna fyrir valdi sínu.
Frá fornu fari eða ómunatíð höfðu bændur þeir, sem bjuggu á Kirkjubæjatorfunni, hinum átta jörðum þar, haft í sameiningu afnot af Yztakletti. Þar veiddu þessir bændur mikið af fugli á vissum tíma ársins. Þar var einnig eggjatekja mikil. Svo grösugur var Kletturinn, að talin var þar ársbeit handa 120 fjár. Einnig voru þar notadrjúgar slægjur til heyskapar. Öll þessi hlunnindi notuðu Kirkjubæjabændur sér í ríkum mæli og höfðu gert frá ómunatíð.
Þessi danski valdsherra, sem ég nefndi, svifti bændurna öllum notum af Yztakletti og setti þær reglur gegn lögum og rétti, að Yztiklettur skyldi verða talin 49. jörðin í Eyjum. Og umboðsmenn danska konungsvaldsins skyldu einir hafa afnotarétt Yztakletts í eigin þágu eða þá leigja hann öðrum, ef þeim þóknaðist það heldur. Þessu boði urðu bændur að lúta, þrátt fyrir skýlaus ákvæði í byggingarbréfum þeirra. Svo varð það að vera, sem valdsmaðurinn bauð.
Ég kýs að skjóta því hér inn í mál mitt, að Eyjabændur fengu ekki aftur að njóta þessarar fornu hlunninda af Yztakletti fyrr en árið 1935 eða eftir um það bil hálfa fjórðu öld. Megnið af þeim árafjölda nutu valdsmenn konungsvaldsins þessara miklu hlunninda eða danski einokunarkaupmaðurinn. „Þurrabúðarmenn“ í Eyjum fengu Klettinn til nytja og þá á leigu á síðari hluta 19. aldar og þar til honum var „skilað aftur“ til hinna upphaflegu aðila.
Öll söguleg líkindi eru til þess, að bændafjölskyldurnar í Vestmannaeyjum hafi að öllum jafnaði haft nokkurnveginn næga neyzlumjólk lengstan tíma ársins. Öðru máli gegndi um fjölskyldur tómthúss- eða þurrabúðarmannanna, sem svo voru kallaðir. Það fólk lifði oft við sult og seyru, sérstaklega þegar lítið aflaðist.
Þetta fólk átti þess engan kost að neyta mjólkur, ef það naut ekki vinsemdar eða vorkunnsemi t.d. bændakvenna, sem fundu til með þessu gjörsnauða fólki og sendi því þá mjólkurlögg eða aðra fæðubót endur og eins og stundum hluta úr ári eftir ástæðum. Þetta gerðist oft, t.d. þegar sá á börnum hinna snauðu sökum mjólkurskortsins eða veikindi þjáðu þau. Svo tjáðu mér fyrir tugum ára aldraðir Eyjamenn, sem nutu sjálfir þessarar mannúðar á uppvaxtarárum sínum á fyrri öld. Þeir voru synir þurrabúðarfólks í Vestmannaeyjum.
Séra Gissur Pétursson var sóknarprestur í Vestmannaeyjum á árunum 1689-1713. Þessi prestur skrifaði á prestskaparárum sínum í Eyjum greinarkorn um Vestmannaeyjar, sem er einskonar lýsing á byggðarlaginu, landslagi, náttúrulegum fyrirbrigðum og atvinnuvegum fólksins, sem byggir Eyjarnar. Skrif þessi heita „Lítil tilvísan um Vestmanna-Eyja Háttalag og Bygging.“
Til fróðleiks og nokkurrar ánægju birti ég hér nokkur orð úr skrifum prestsins, þar sem hann ræðir um landbúnað Eyjamanna: „Til mýrlendis eða flóða vottar hér aldeilis ekkert nema lítið á því plássi Torfmýri kallað, fyrir neðan Dalfjall, skammt frá Herjólfsdal, heldur allt harða vall-lendi og lágur grasvöxtur, sérdeilis af því að það verður strax uppbitið af skepnanna margfjölda, þar hér munu finnast undir 80 kýr, 50 hestar auk allt sauðfé, og mikill torfskurður. Þó meina menn hér góðan landskost, þar skepnurnar haldast vel við hold, þó að graslítið sé og mjólkar meðallagi....“
„... Af sjávarafla, fuglaveiði og eggjum lifa innbyggjendurnir, framar en þeim landgæðum, sem Eyjan sjálf með sér færir, með því plássið er lítið, en fólkið margt, og flestir, sem ei hafa meir en tvær kýr, margir eina, en fæstir þrjár, svo allir verða að tilkaupa smjör, vaðmál, skæðaskinn og sýru frá meginlandinu með fleiri nauðsyn, sem þá um varðar. - Eigi er heldur tíðkað af mörgum að stíja fé, því það veitir mjög örðugt, þar það hleypur í fjöll og firnindi, og forsómast þar með annar aðdráttur, ef menn gefa sig þar til, en Eyjan
þrönglend og hálf að vestanverðu ekki nema mjög graslítið mosahraun. Þar fyrir kunna ei jarðirnar, sem svo eru kallaðar, að eiga mikla fjárítölu; ganga svo lömbin undir ánum hjá velflestum sjálfala eins og í úteyjum. Verða því lömbin feit, svo fundizt hefur í einum dilk 10-12 merkur (af mör); einnig sauður í úteyjum með hálfumþriðja fjórðung (35 pd.). Þó fellur ekki svo stórt fé í þessum úteyjum sem á meginlandinu, fyrir þá orsök segja menn, að það vantar vatn.....“
Fyrsta manntal á Íslandi átti sér stað árið 1703. Þá var sem sé séra Gissur Pétursson sóknarprestur á Ofanleiti. Þá virðast eiga heimili í Vestmannaeyjum samtals 307 manns. Þar að auki dvöldust þar á vertíð, þegar manntalið var tekið, 22 aðkomumenn, líklega vertíðarfólk. - Manntalið er dagsett 14. marz 1703. Fólkið verður flokkað þannig:
- Bændur, börn beirra og búalið ..... 199 manns
- Fólk einokunarkaupmannsins á Kornhólsskansi.... 6 manns
- Húsmenn „við tómt hús“, eins og komizt er að orði ..40 manns
- Ómagar Vestmannaeyjasveitar ..... 53 manns
- Ómagar annarra sveita .... 9 manns.
- Vertíðarfólk... 22 manns
- Samtals 329 manns
Séra Gissur sóknarprestur tekur það fram, að í Eyjum „gefist þá 80 kúa nyt“.
Séra Brynjólfur Jónsson sóknarprestur að Ofanleiti á árunum 1860-1884 skrifaði „Lýsing Vestmannaeyjasóknar“ á árunum 1873 og fram um 1880. Þar er margan fróðleik að finna um byggðarlagið. Varðandi landbúnað Eyjamanna vil ég eiga þessa kafla skráða hér:
„... Um allar þær jarðir, sem hér að framan eru nefndar (jarðirnar á Heimaey) er það að segja, að þeim fylgir heyskapur nokkurn veginn eftir jarðarmegni, þannig að hver einbýlisjörð gæti með góðri rækt fóðrað svo sem eina kú með því heyi, sem fæst af túnum, en allmargar þeirra eiga og tiltölu til heyskapar, sumar í Heimakletti og sumar í úteyjum Elliðaey og Bjarnarey. Er þessi úteyjaheyskapur næsta erfiður og kostnaðarsamur. Á Ofanleiti fæst allt að því 4 kýrfóður. Allar eiga þessar jarðir, (að fráteknum Yztakletti) tiltölu til hagbeitar til jafnaðar fyrir einn hest hver um sig og 12 sauði á Heimalandi, sem að því er hagbeit snertir er óskipt land. Ennfremur eiga þær beitarítölu í úteyjum þeim, er undir þær liggja, minnst fyrir 6 en mest fyrir 16 sauði eða fullorðnar kindur. Ei verður sagt, að jarðir hér liggi undir neinum áföllum, enda verður eigi sagt, að þær gangi neitt af sér. Aftur á móti hafa stöku jarðir tekið nokkrum bótum að því er snertir tún þeirra, og á það sér einkum stað um Ofanleiti og Stakkagerði.......
Fjársöfn eru haldin nokkrum sinnum bæði á vori og hausti. Skilaréttir eru haldnar bæði á Heimaeyju og í úteyjum, jafnaðarlega um veturnætur, og skal hver fjáreigandi segja hreppstjórum til, hve margt fé hann hefur í högum sínum á Heimaeyju, því að hafi hann of margt, skal því komið fyrir í högum annarra, er ekki hafa fullt í högum. Sömu reglu er og fylgt að því, er snerta haga í úteyjum, því að eftir beitartölu bænda hér á Eyju er hér ofsett í haga, hvað fé er fleira en svo sem 1400......
Eigi eru hér færikvíar, enda er það eigi tíðkað hér að hafa ær í kvíum, heldur ganga þær með lömbum þar til 17-18 vikur af sumri, að frá þeim er fært og lömbin sett af heimaeyjunni í úteyjar. Kýr eru hafðar inni á sumrum, en eigi eru hestar traðaðir (hafðir í girðingu). Eigi eru höfð beitarhús fyrir fé á vetrum. Borgir eru að vísu byggðar á tveim stöðum fyrir fé á vetrum til skjóls í hretviðrum, en það heldur sig lítt að þeim og leitar heldur skýlis í skútum og fjárbólum, sem hér eru allvíða; að öðru leyti eru ekki hér nein fjárhús, sem teljandi sé. Sauðfénaður gengur hér þannig að nokkru leyti sjálfala sumar og vetur, nema þá er hann er rekinn saman nokkrum sinnum vor og haust. Af því leiðir að fjöldi fjár að tiltölu tapast af slysum, er það hrapar fyrir björg eða flæðir, þar sem það gengur í fjörunni.
Jarðrækt, að því er tún snertir, er miður vel stunduð af almenningi. Þó hafa stöku búendur á síðari árum sýnt töluverða framtakssemi í túngirðingum og túnasléttun. Að öðru leyti eru öll tún hér girt. Það er helzt stendur góðri túnrækt í vegi er áburðarskortur, þó að flest sé til tínt, svo sem aska bæja, fjósaforir og þari, þar sem venjulega ekki er því til fyrirstöðu að flytja hann; svo og fiskslor. En kúamykju neyðast menn sökum eldiviðarskorts að þurrka til eldsneytis.
Kálgarðarækt hefur stórum farið í vöxt á síðari árum, bæði að því er snertir kál, rófur og kartöflur og orðið mörgum búanda að verulegum búdrýgindum. Til eldsneytis hafa menn hér almennt tað undan kúnum, þeir, sem þær hafa, og að öðru leyti kúa- hrossa- og sauðatað, sem tínt er út um hagann........“
Það sem birt er hér af skrifum séra Gissurar Péturssonar og séra Brynjólfs Jónssonar, sóknarpresta í Vestmannaeyjum, er skráð eftir afriti, sem séra Jes A. Gíslason, skrifstofustjóri og síðar barnakennari í Eyjum, gjörði árið 1913 af sóknarlýsingum þessara presta.
Frá upphafi landbúnaðar í Vestmannaeyjum hafa bændur þar nýtt slægjur þær, sem áttu sér stað í Heimakletti, Klifi og úteyjum. Svo mun það hafa verið í stærri eða minni stíl allar aldir fram undir síðustu aldamót.
Árið 1955 birti Blik, Ársrit Vestmannaeyja, grein um heyannir þessar og aðstöðu til heyskapar í Heimakletti. Grein þessa skrifaði Þorsteinn Jónsson, skipstjóri og útgerðarmaður í Laufási við Austurveg, fyrir ritið.
Við skulum íhuga merginn úr grein þessari, sem getur að ýmsu leyti gilt fyrir heyskaparstörf í úteyjum Vestmannaeyja einnig, nema þá helzt Elliðaey, sem var stærst úteyjanna og flatlendust.
Þorsteinn Jónsson var fæddur 1880 og ólst upp í Vestmannaeyjum frá þriggja ára aldri, þar sem foreldrar hans voru bændahjón og þurftu því að sækja heyskap eins og annað bændafólk þar í nálæga kletta og eyjar. Þeir höfðu nytjar af einni Vilborgarstaðajörðinni, en þær voru átta, svo sem kunnugt er.
Þorsteinn Jónsson segir svo frá:
„Fyrir síðustu aldamót mátti oft á sumrum sjá hóp af fólki, körlum, konum og unglingum, við heyskap víða um Heimaklett.
Vilborgarstaðajarðirnar, átta að tölu, áttu þau hlunnindi, sem Heimakletti fylgdu, en þær voru fuglatekja, hagaganga, slægjur, og svo þang - og sölvatekja á innri og ytri eyrinni (Hörgaeyri) og hvannarótartekjur í Dufþekju, sem jafnvel kvenfólk tók þátt í, en þær voru þó að mestu lagðar niður um 1890.
Hver af hinum átta fyrrnefndu jörðum áttu sína sérstöku slægjubletti, sem var Hákolla, Hetta, Þuríðarnef, Lágukollar og Slakkinn, sem er ofan og vestan við Dönskutó. Svo áttu þrjár jarðirnar Slægjurnar svo nefndu, sem er hin stóra brekka ofan frá Grasnefi umhverfis Einbúa og niður á bjargbrún.
Þess skal getið, að fjórir fyrst nefndu staðirnir mega teljast allgóðir og hættulitlir við sjálfan sláttinn og raksturinn. Slægjurnar, en þó sérstaklega Slakkinn, voru stórhættulegir heyöflunarstaðir, þar sem brattinn er mjög mikill, ekkert viðnám meðfram bjargbrúnni, en 120-200 metra hátt standberg í sjó niður, svo að ekki var að efa, hver afdrifin urðu, ef mönnum skrikaði illa fótur við störf sín.
Þó að slátturinn og þurrkun heysins væri háð miklum erfiðleikum og hættum, keyrði þá fyrst um þverbak, þegar koma skyldi heyinu heim.
Faðir minn fékk ábúðarrétt á einni Vilborgarstaðajörðinni um 1890. Þeirri jörð tilheyrði versti slægjubletturinn upp af Dönskutó. Þó að ég væri ekki nema 10 ára, var ég látinn aðstoða við heyskapinn þarna eftir minni litlu getu.
Áður en heyið var bundið, varð að grafa stall í brekkuna, svo að hægt væri áhættu-lítið að binda og axla baggana, annars hefðu þeir oltið ofan-fyrir. Síðan voru þeir bornir á bakinu vestur á Efri-Kleifar. Þaðan gefið niður á Neðri-Kleifar. Þaðan aftur bornir á bakinu á Löngunef. Gefið þaðan niður í bát. Síðan voru baggarnir fluttir yfir Botninn og að lokum reiddir á hrossum heim í hlöður.
Þegar hugleidd er sú óhemjufyrirhöfn, þó að hættunni sé sleppt, sem þessari heyöflun var samfara, má það undravert teljast, að nokkur skyldi leggja þetta á sig. En það var strangur herra, sem á eftir rak, nefnilega neyðin.
Enda þótt þessi heyskapur væri ekki mikill að vöxtum, var þó hægt að halda lífi í nokkrum kindum með heyi þessu, eða gefa í kú, þó að ekki væri nema einn dag í viku hverri, og fá mjólk í staðinn. Það var í daglegu tali kallað að gefa í. Þó munu þau heimili í Eyjum ekki hafa verið fá á þessum árum, sem helzt aldrei sáu mjólk. Svo var það hjá foreldrum mínum fyrstu árin, sem þau bjuggu hér.
Til þess að sleppa við heyburðinn um Heimaklett, var reynt að raka heyinu eða draga það undan brekkunni af þeim slægjublettum, sem þannig lágu við. Mikla varkárni þurfti að hafa við þetta. Mönnum var lengi í minni, að eitt sinn þá verið var að raka lausu heyi ofan af Hettu, hljóp það, þegar komið var niður í sniðið. Tók það þá með sér einn manninn, sem þó stöðvaðist í götunni, sem þarna var alldjúp, rétt við bjargbrúnina, en heyið sópaðist yfir hann og féll niður undir Löngu.
Eitt sumar á þessum árum fengu faðir minn og Guðmundur bóndi Þórarinsson á Vesturhúsum allar slægjurnar í Heimakletti til heyskapar. Þarna var um allmikið heymagn að ræða, eftir því sem þá gjörðist. Heyinu var gefið í skip þarna beint niður, þó að hátt sé. Allmikinn útbúnað og marga menn þurfti við þetta. T.d. voru tveir staurar grafnir niður á endann, annar kippkorn uppi í brekkunni, þar sem grafinn hafði verið stallur, sem heyið var fært á til bindingar.
Neðri staurinn var grafinn niður á bjargbrúninni. Á honum voru baggarnir gefnir niður í bátinn, sem flutti heyið í land. Á milli stauranna var strengdur kaðall þeim til stuðnings og öryggis, sem baggana fluttu frá bindingsstað til þess staðar, þar sem heyið var gefið niður í bátinn. Ekki tapaðist nema einn baggi ofanfyrir í þetta sinn. Það þótti heppni, að hann skyldi ekki lenda á bátnum því að það hefði að líkindum kostað líf bátverja.
Einnig var ég á æskuárum mínum við heyskap í Stóra-Klifi. Þar var gaman að heyja. En erfiður var ofanflutningurinn, því að heyið var borið ofan af Klifinu.
Á þessum árum var heyjað að jafnaði í eftirtöldum fjöllum og eyjum: Heimakletti, Stóra- og Litla-Klifi, Yztakletti, Bjarnarey og Elliðaey....... Í úteyjunum, og til þeirra taldist Yztiklettur, var heymagnið bæði mikið og gott, því að nóg var teðslan. Fuglinn sá um hana. En þar sem sérstök veðurskilyrði urðu að vera fyrir hendi til þess að flytja heyið sjóleiðis heim úr þessum stöðvum, var því hlaðið í klettaskúta, sem nefndir voru ból (heyból, fjárból) og látið brjótast þar. Einnig var það látið í heytóftir, ef engin ból voru nálægt af náttúrunnar hendi, svo sem í Yztakletti. Þó mun fyrir mitt minni hafa verið heyjað víðar, en ég hefi hér nefnt, t.d. í Suðurey og á Grasnefinu í Miðkletti ...“
Þetta var þá hluti af grein þeirri, sem Þorsteinn Jónsson skrifaði um heyskap bændafólks í Eyjum í klettum og úteyjum Vestmannaeyja fyrir og um síðustu aldamót. Hann tjáir okkur einnig, að heyjað hafi verið í Bjarnarey árið 1920. Þá fullyrðir hann, að síðast hafi verið heyjað í Elliðaey 1927 og í Yztakletti sumarið 1940. Á Stóra-Klifi mun síðast hafa verið heyjað sumarið 1942.
Sigfús M. Johnsen segir um úteyjaheyskapinn í Sögu Vestmannaeyja (2. b., bls. 33-34): „Sláttur hófst í úteyjum um 10 vikur af sumri. Slægjulandið var valllendi og hvammar utan við fuglabyggðina. Eigi þótti það skemma hagbeit í úteyjum, þótt slegið væri, fremur bæta, því að gras lagðist í legur og vildi slepja, ef eigi var slegið ... Í úteyjum var hey hirt í heyból (þ.e. hella eða skúta) og látið vera þar unz það var búið að brjóta sig. Bundið var það upp úr heybólunum á haustin og flutt heim. Ef illa viðraði, þótti slæmt „að liggja“ yfir heyi í úteyjum og burður á heyböggum í heyból hið versta verk, því að fara varð um brattar brekkur og einstigi. Hinu sama gegndi, er hey var bundið úr bólum og borið á skip, var þá keppzt mjög við, því að heyflutningum varð að ljúka á sama degi ... Úteyjaheyið er kjarngott mjög og mengt, svo að það var eigi talið gjafarhæft kúm nema með léttara heyi. Menn töldu hálfs mánaðarhrakið úteyjahey eins gott til fóðurgildis eins og grænt hey af mögru túni. - Við flutning á heyi úr úteyjum mátti „gefa því“ ofan fyrir hátt standberg í böndum. Það var kallað „að gefa á heyhæl“. Var þá staurdrumbur rekinn niður á bjargbrúnni og bandið látið leika á honum. Þvert fyrir var þá stundum hafður bjargstokkur. Sumstaðar var 50 faðma (100 m) berg, þar sem heyi var gefið niður, og heyið bundið í snarbrattri brekku frammi á brún.
Úr Suðurey var hey flutt upp í Klauf á bátum og þaðan á hestum heim. Heyið var sótt í úteyjar á stórskipum ...“
Sigfús M. Johnsen fæddist í Vestmannaeyjum árið 1886 og ólst þar upp. Foreldrar hans höfðu ábúð á einni Kirkjubæjajörðinni. Í uppvexti sínum kynntist hann því vel athöfnum Eyjamanna til sjós og lands og þá líka heyskaparháttum þeirra í úteyjum og klettum Eyjanna.
Árið 1963 birti ég í Bliki stutta grein um svokallað Nýjatún í Vestmannaeyjum. Það var ræktað á árunum 1870-1871. Tvennt olli þeim ræktunarframkvæmdum. Á undanförnum árum hafði aflaleysi í Eyjum verið mjög tilfinnanlegt, svo að sultarvofan sat við hvers manns dyr þurrabúðarmanna og fjölskyldna þeirra í kauptúninu. Fátæklingar liðu skort og nauð. Alvarlegasta vandamálið var þó mjólkurskorturinn, sem allur þorri manna í kauptúninu sjálfu leið af, svo að heilsa fólksins var í stórlegri hættu.
Þá var það að ráði milli stiftamtsmannsins annars vegar og sýslumannsins í Eyjum, Bjarna E. Magnússonar, hins vegar að stofna til ræktunarframkvæmda á Heimaey. Tvennt vakti þá fyrir hinum ráðandi mönnum: Ræktunarstörfin skyldu unnin í eins konar atvinnubótavinnu og svo skyldu þau stuðla að aukinni mjólkurframleiðslu í kauptúninu. Tvær flugur skyldu þannig slegnar í einu höggi. Það er háttur búmanna.
Tún skyldi ræktað í námunda við höfnina. Þannig varð það auðveldara að flytja slóg og annan fiskúrgang á túnið, en þá voru handbörur helzta flutningatækið. Þá var þetta túnstæði einnig valið með tilliti til þess, að bændurnir fyndu minna fyrir þeim órétti, sem þeir töldu sig vera beitta með ákvörðun þessari, þar sem þeir höfðu einkarétt á öllu landi Heimaeyjar samkvæmt byggingarbréfum þeirra. Þó spruttu deilur af þessum gjörðum yfirvaldanna. En þær hjöðnuðu brátt, enda var túnstæðið að töluverður leyti innan verzlunarsvæðisins.
Nýjatún var um 6 dagsláttur að stærð eða nálega 2 hektarar. Það lá kippkorn sunnan hafnarinnar eða hafnarvogsins. Bárustígur var á austurmörkum þess. Gatan, sem lá í vestur frá suðurenda hans, (Breiðholtsvegur, síðar Vestmannabraut) var við suðurmörk túnsins. (Sjá Blik, ársrit Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum, 1963, bls. 306-310).
Þá er við hæfi að minnast hér danskra hjóna, sem bjuggu um áratuga skeið í Vestmannaeyjum og kenndu Vestmannaeyingum að rækta kartöflur og neyta þeirra.
Þetta mæta danska fólk hét frú Ane Johanne Ericsen og Carl Wilhelm Roed „Höndlunarþjónn“, áður en þau giftust. (Sjá grein hér í ritinu, bls. 106).
Árið 1880 voru aðeins 45 kýr mjólkandi í Vestmannaeyjum, eða um það bil ein kýr á hverja bóndafjölskyldu og tæplega það. Þá bjuggu í Eyjum 557 manns. Tólf árum síðar eða árið 1892 voru Eyjakýrnar aðeins 35 að tölu. Þá hafði þar um árabil verið ríkjandi tilfinnanlegur mjólkurskortur, og algjör hjá fjölskyldum tómthúsmannanna eða þurrabúðarmannanna.
Þá var Þorsteini Jónssyni héraðslækni í Landlyst í Eyjum orðinn þessi mikli mjólkurskortur í byggðarlaginu verulegt áhyggjuefni, enda skildi enginn þar betur afleiðingar hans. - Honum var það allra manna ljósast, hvert stefndi um heilsufar fólksins, ef landbúnaði Eyjamanna héldi þannig áfram að hraka. Á því sviði sem öllum öðrum urðu þeir að vera sjálfum sér nógir í hinni miklu einangrun.
Þessi ískyggilegi mjólkurskortur í Eyjabyggð leiddi til þess, að framfarasinnaðir atorkumenn í byggðarlaginu tóku að hugleiða búnaðarmál Eyjabænda og Eyjafólks í heild. Þar voru fremstir í flokki Sigurður Sigurfinnsson, bóndi og skipstjóri, sem nytjaði eina Vilborgarstaðajörðina. Honum við hlið í þessu framfaramáli stóðu Gísli kaupmaður Stefánsson í Hlíðarhúsi og bændurnir
Jón Jónsson í Dölum og Guðmundur Þórarinsson á Vesturhúsum. Þessir merku Eyjamenn hlustuðu allir á héraðslækninn, mátu hvatningarorð hans til aukinnar ræktunar og mjólkurframleiðslu í héraðinu, og þeir tóku til hendinni. Samráð þeirra leiddu til þess, að stofnað var búnaðarfélag í Eyjabyggð, Framfarafélag Vestmannaeyja. Það gerðist árið 1893, eins og áður er sagt.
Hinn 28. maí 1893 komu nokkrir Vestmannaeyingar saman á fund í þinghúsi kauptúnsins, gamla þinghúsinu við Heimagötu. Þar skyldi ræða stofnun búnaðarfélags í Eyjum. Hvatningamaður að fundi þessum og stofnun félagsins var Jón Magnússon, þáverandi sýslumaður í Eyjum. Eftir nokkrar umræður komust fundarmenn að þeirri niðurstöðu, að stofnun og starfræksla búnaðarfélags í byggðinni mundi geta „borið sýnilegan ávöxt“ í framfaramálum Eyjafólks, eins og þau höfðu þá gert annars staðar í landinu. - Þá höfðu verið stofnuð milli 70 og 80 búnaðarfélög víðsvegar í byggðum landsins.
Afráðið var á fundi þessum að kjósa þriggja manna nefnd til þess að semja uppkast að lögum fyrir félagið. Í hana völdust þessir menn: Sigurður Sigurfinnsson, bóndi og skipstjóri (síðar hreppstjóri), Jón bóndi og hreppstjóri Jónsson í Dölum, og Gísli Stefánsson kaupmaður í Hlíðarhúsi. Nefnd þessi skyldi leggja fram uppkast að félagslögum á öðrum stofnfundi, sem haldinn skyldi bráðlega eða „við fyrstu hentugleika“.
Hinn 13. ágúst um sumarið var svo annar stofnfundur haldinn í þinghúsinu, og „tekið til umræðu og atkvæðagreiðslu frumvarp til laga fyrir Framfarafélag Vestmannaeyja“, eins og það er orðað í fundarályktun dags. 28. maí þ.á. og fært í fundargjörð. - Í þrem hreppum öðrum á landinu voru búnaðarfélögin nefnd framfarafélög. Það var á Norðurlandi.
Þarna voru lög í 13 greinum einróma samþykkt á þessum fundi og undirrituð af stofnendum. Þar segir svo 1. gr.: „Tilgangur og ætlunarverk félagsins er að styðja að framförum sveitarmanna í sem flestum efnum, einkum í búnaði og öðrum atvinnuvegum ...“ Framfarafélagið var öðrum þræði almennt menningarfélag í Eyjabyggð. Hver félagsmaður: „undirgengst að gera á heimili sínu sem mest hann orkar af því, er til umbóta og framfara horfir, svo sem að bæta eftir föngum ræktun og hirðingu túna og matjurtagarða, meðferð haglendis, kyn og meðferð fénaðarins, lunda og fýlaveiðipláss, húsaskipan og hreinlæti, meðferð fisks og
vöruvöndun ...“ Einnig segir þar í fundargjörð:
„Fyrirlestra og samræður um búnaðarmál og önnur framfaramál skal einnig halda á aðalfundi, eftir því sem föng eru á.“ ... „Á haustfundi skal leggja fram og rannsaka skýrslu um athafnir félagsmanna á umliðnu sumri, útbýta verðlaunum til þeirra, sem til verðlauna hafa unnið á sumrinu, ... og semja áætlun um það, sem félagið vill setja sér fyrir áætlunarverk á komandi hausti og vetri og halda umræður um búnaðarmál og önnur framfaramál, ... svo sem ásetning, fóðrun og hirðing fénaðar, tóvinnu, smíðar, byggingar, búreikninga o.fl.“ Framfarafélagið kaus sér umsjónarmenn til þess að kynna sér framkvæmdir félagsmanna, sérstaklega þau störf þeirra, sem félagið veitti verðlaun fyrir, og gefa stjórn félagsins skýrslu um þau ... „Engin verk má telja félagsverk, sem ekki eru vel af hendi leyst, og eiga umsjónarmennirnir að gefa vottorð um þetta“, segir þar.
Eins og ég tók fram, þá stofnuðu 11 Eyjamenn Framfarafélagið. Þar af voru 7 ábúendur jarða á Heimaey. Næstu 13 árin bættust 25 við félagatöluna. Þar af voru 17 ábúendur jarða.
Hinn 24. sept. 1893 hélt Framfarafélagið 3. fund sinn. Þá var aðalumræðuefni félagsmanna það, hvernig hefta mætti uppblástur landsins vestur á Flötum og í Sandskörðum, svo og annars staðar á Heimaey, þar sem sand- og moldarrof og önnur landspjðll færu vaxandi. Rætt var um að sá melfræi í sandinn, girða rofin af og banna gjörsamlega að rífa rætur eða rofalýjur úr bökkum, því að það yki uppblástur landsins.
Á 4. fundi félagsins 15. okt. sama ár var fundarmönnum, sem voru 7 talsins, kynntar reglur um styrkveitingar úr landssjóði til búnaðarfélaga. Þá var samþykkt að leggja mesta áherzlu á jarðabætur, svo sem túnasléttun, gerð safngryfja og aukna áburðarsöfnun.
Sýslumaðurinn Jón Magnússon hafði gefið Framfarafélaginu peninga, og svo átti það þegar í sjóði meirihlutann af félagsgjöldum félagsmanna. Rætt var um, hvernig þessum fjármunum félagsins skyldi varið. Sumir vildu kaupa handvagn, sem var þá nýtt fyrirbrigði í byggðarlaginu. Slíkt flutningatæki hafði aldrei sézt þar. Aðrir vildu festa kaup á jarðyrkjuverkfærum.
Í desember 1893, á stofnári félagsins, vakti Sigfús Árnason, formaður á Áróru, póstafgreiðslumaður og organisti Landakirkju, máls á því, að félagsmenn stæðu vel saman í jarðyrkjustörfum sínum, hjálpuðu hver öðrum með því að vinna hver hjá öðrum án endurgjalds og ykju þannig afköst sín við jarðyrkjuna og önnur nytjastörf til eflingar landbúnaði Eyjamanna. Þessari tillögu var vel tekið. Og má ætla, að henni hafi verið fram fylgt af kostgæfni, því að afköst félagsmanna við garðyrkjuna og jarðyrkjuna urðu býsna mikil á næstu árum með tilliti til þess, hversu verkfærin voru frumstæð og úrelt við jarðyrkjustörfin.
Á þessum sama fundi vakti formaður Framfarafélgsins, Sigurður Sigurfinnsson, máls á því, að félagið stofnaði „ábyrgðarsjóð nautgripa“. Þessi tillaga hlaut samþykki fundarmanna, og þeir kusu nefnd til þess að semja reglur fyrir ábyrgðarfélagið. Seinna í sama mánuði var boðað til stofnfundar Nautgripa- og ábyrgðarfélags Vestmannaeyja, sem allir félagsmenn Framfarafélagsins stóðu að einhuga.
Skaðabætur fyrir nautgripi skyldu nema allt að 1/3 af virðingarverði, ef lóga þyrfti gripnum vegna veikinda eða annarra óhappa.
Allar kýr félagsmanna skyldu vera tryggðar hjá félaginu frá 1. jan. 1894.
Þetta ábyrgðarfélag nautgripa í Eyjum starfræktu Eyjamenn síðan fram yfir miðja þessa öld. Og þá minnist ég með virðingu og aðdáun Bjarna Jónssonar gjaldkera á Svalbarða, sem vann að heill þessa mikilvæga félagsskapar um árabil af stakri trúmennsku.
Á fundi sínum í maí 1894 ályktuðu félagsmenn Framfarafélagsins að leggja mest kapp á þúfnasléttun það vor og sumar og hleðslu grjótgarða á næsta hausti. Þá skyldi hver og einn auka hjá sér áburðarefnin svo sem frekast væri unnt.
Á 10. fundi Framfarafélagsins, sem haldinn var 7. okt. 1894 var félagsmönnum tilkynnt, að félgið hefði hlotið kr. 67,10 úr landssjóði út á jarðabætur félagsmanna. - Samþykkt var á fundi þessum að verja þessum peningum til að kaupa handvagn til nota félagsmönnum. Það var fyrsti handvagninn, sem til Eyja kom. Hann kostaði þá kr. 40,00. Hvorki hestvagn né handvagn höfðu sézt þar áður. Hestar voru notaðir til burðar. Konur sem karlar báru mikið á bakinu. Þá notaði fólkið svokallaðar burðarskrínur, sem voru með sérstöku lagi eða af sérstakri gerð.
Handvagninn var síðan lánaður félagsmönnum fyrir fjögurra aura gjald á klukkustund. Sú leiga gilti fyrsta árið. Næsta ár var gjald þetta tvöfaldað.
Árið 1895 festi Framfarafélagið kaup á öðrum handvagni.
Stjórn Framfarafélgsins beitti sér fyrir endurbótum á fénaðarhúsum félagsmanna sinna og hvatti þá til að byggja heyhlöður með járnþaki. Út á þær hlöður greiddi félagið félgsmönnum sínum 1/10 af matsverði þeirra í styrk. Sá styrkur náði einnig til fjósa og fjárhúsa með járnþaki. Þannig hurfu torfþökin af þessum húsum smám saman.
Haustið 1898 var formanni Framfarafélagsins falið að festa kaup á 10 járnkvíslum til þess að pæla með jarðveg. Þá hættu Eyjamenn að notast við stungupála eða járnslegnar trérekur til þeirra hluta. Árið eftir keypti síðan félagið 12 tæki handa félagsmönnum sínum til þess að hreinsa með illgresi úr matjurtagörðum.
Á fundi Framfarafélagsins vorið 1911 var samþykkt að festa kaup á skilvindu handa félgsmönnum. Það var fyrsta skilvindan, sem keypt var til Eyja. Hún kostaði kr. 110.62 og þótti dýr. En hin miklu þægindi af henni ollu því, að verðið gleymdist brátt. Félagsmenn fengu að skilja mjólkina í henni endurgjaldslaust. Þeir gengu að henni til nota hjá formanni félagsins heima á Heiði, þar sem hann bjó.
Næstu ár eignuðust félagsmenn sjálfir skilvindu og svo mörg þau jarðyrkjuverkfæri, sem félagið hafði upprunalega keypt og lánað þeim. Þar með var því verkefni félagsins lokið.