Blik 1967/Leiklistarsaga Vestmannaeyja 3. kafli, 1930-1950

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit Blik 1967


ÁRNI ÁRNASON:


ctr
(1. hluti)


Árni Árnason, símritari.

(Á áratugnum 1950-1960 hóf Árni heitinn Árnason símritari að afla efnis í Leiklistarsögu Vestmannaeyja. Fyrsti kafli þeirrar sögu birtist í Bliki 1962, og fjallaði um tímabilið 1852 að leiklistarstarf hefst í Vestmannaeyjum, að talið er, til ársins 1909. Framhald þeirrar frásagnar kom í Bliki 1965 og fjallaði um tímabilið 1910-1929.
Hér birtir Blik svo famhald Leiklistarsögunnar, sem Árni Árnason hafði lokið við að mestu leyti, áður en hann lézt hinn 13. okt. 1962.
Frásögn þessi hefst með árinu 1935, nema hvað höfundur segist óska að skjóta inn í frásögn sína sögu um eilítið fyrirbæri í leiklistarstarfinu í bænum haustið 1932. Annars verður helzt ályktað af frásögn höfundar, að leikstarf hafi að öðru leyti legið niðri í Vestmannaeyjum á árunum 1930-1935).

Þ.Þ.V.


Hér óska ég að skjóta inn í frásögn mína dálitlu fyrirbæri. Sumarið 1932 tók Þorsteinn Þ. Víglundsson, skólastjóri, saman leikþætti úr nokkrum köflum sögunnar Maður og kona eftir Jón Thoroddsen.
Efni leikrits þessa, eftir því sem næst verður komizt, var tekið úr þessum kapítulum sögunnar:
Kvöldvakan í Hlíð (1. kap.).
Hjálmar tuddi kærir meðferðina á skófnapottinum fyrir séra Sigvalda og fleira um þeirra viðskipti (7. kap.).
Messudagur á Stað (12. kap.).
Borðhaldið á Stað (13. kap.).
Ef til vill hefur þarna verið „matreitt“ eitthvað meira af efni sögunnar.
Nokkur hópur Eyjabúa tók sig saman um haustið (1932) og efndi til sýningar á leikritinu. Ég man eftir þessum hlutverkum:

Bræðurnir frá Litlabæ, Kristinn og Valdimar, máluðu leiktjöldin og nutu við það aðstoðar Guðmundar Guðmundssonar málarameistara frá Uppsölum. Til þess var tekið, hve baðstofan í Hlíð var vel gerð.
Leikrit þetta var sýnt a.m.k. þrisvar sinnum í gamla Goodtemplarahúsinu á Mylnuhól fyrir troðfullu húsi í öll skiptin og skemmtu áheyrendur sér konunglega.


Ævintýri á gönguför


Leikárið 1935/36 var enn einu sinni sýnt leikritið „Ævintýri á gönguför“. Það hefir ávallt átt hér miklum vinsældum að fagna meðal leikhúsgesta og þótt margir kunni úr því langa kafla og alla söngva, hefir það engin áhrif um aðsókn. Viðtökurnar eru alltaf eins. Hitt varðar miklu, þegar með hlutverkin fara nýir starfskraftar. Fólk hefir áhuga á að sjá mismun túlkunar á hinum ýmsu persónum leikritsins, heyra söng þeirra, gleði og kæti á sviðinu og rifja upp „hina gömlu góðu daga“ frá frumárum þessa meistaraverks í höndum gömlu snillinganna, er á sviðinu kynntu okkur persónurnar þá á glæsilegan hátt.
Ekki get ég sagt að ég persónulega hafi verið ánægður með afrek allra leikendanna í þetta skipti, en í heild fannst mér sýning þessi takast vel.

Leikendur í ,,Ævintýri á gönguför“.
Frá vinstri: 1. Magnea Sjöberg, 2. Jóhannes Sigfússon, 3. Sigurður Scheving, 4. Friðrik Sigfússon, 5. Ásdís Jesdóttir, 6. Valdimar Ástgeirsson, 7. Árni Gíslason, 8. Jónheiður Scheving, 9. Loftur Guðmundsson, 10. Anna Jesdóttir, 11. Oddgeir Kristjánsson. - Nr. 10 og 11 önnuðust hljómlist.

Persónur og hlutverkaskiptingin var:

Leikið var í Gúttó og mun þetta hafa verið síðasta leikritið, sem þar var sýnt, þareð húsið var rifið skömmu síðar. Er það einkennileg tilviljun, að fyrsta leikrit L.V. þar er einmitt Ævintýrið og einnig það síðasta, sem L.V. leikur þar. Frumsýningin var 26. febr. 1936 og Víðir segir svo:
Valdimar Ástgeirsson leikur Skrifta Hans, sem að flestra dómi er erfiðasta hlutverk leiksins. Sumum hefir hætt við að misskilja þetta hlutverk og gera úr því hálfgerðan bjána, sem vitanlega er mjög fjarri sanni. V.Á. sýnir hér ágæta viðleitni til betri túlkunar hlutverksins og tekst það víða vel, þó að vitanlega megi ýmislegt að finna. Í bóndagervinu er hann fyllilega í essinu sínu og sýnir þar verulega góðan leik. Hann er fæddur leikari og undir handleiðslu góðs leiðbeinanda ætti að mega vænta mikils af honum. Sig. S. Scheving virðist hafa mjög einhliða leikhæfileika, sem eru ótvíræðir það sem þeir ná, en hvorugt hlutverka hans í Ævintýrinu falla innan þeirrar umgjarðar, sem takmarka hæfni hans. Fr. Sigfússon er víða góður, einkum er röddin hljómmikil og sterk. Fjör hans og gáski er víða eðlilegt, virðist sums staðar jafnvel um of. Hreyfingar mættu vera mýkri og liðlegri. En þetta eru gallar, sem trúlega er auðvelt að bæta úr, einkum þar sem Friðrik virðist hafa hæfileika. Jóhannes Sigfússon bróðir hans hefir auðsjáanlega menntaðan dramatiskan sans. Röddin er djúp og mjög aðlaðandi, en fremur lág, er hann talar. Ásdís Jesdóttir leikur sitt hlutverk mjög jafnvel allan leikinn. Fjörið og gáskinn t.d. en höfuðhneigingarnar mættu þó vera aðeins minni. Hún er orðin vel sviðsvön og ber fas hennar og framkoma þess ljósan vott. Jónheiður mætti vera ákveðnari og aðsópsmeiri í hlutverki hinnar slyngu héraðsdómsfrúar, sem á að vera betri - a.m.k. gáfaðri - helmingur bónda síns. Magnea Sjöberg er mjög samvizkusöm í sínu hlutverki og leysir það vel af hendi. Hún er gædd miklum yndisþokka og nær ágætlega að túlka hina draumlyndu Frk. Láru. Loftur Guðmundsson hefir leikið nokkuð áður og lagt stund á framsögn og ber rödd hans og áherzlur þess ljósan vott. Hann sýndi vel tvískinnungshátt flagarans Vermundar. Var leikur hans víða glæsilegur, en annars staðar mátti hann gjarna vera líflegri í fasi og hreyfingum. - Árni Gíslason er gamalkunnur leikhúsgestum hér. Hann er ekki margbrotinn leikari en hann hefir ávallt náð góðum tökum á þeim hlutverkum, þar á meðal Héraðsdómaranum í Ævintýrinu.
Þetta eru aðeins hugdreifar um leikinn en gagnýni lítil.
Undirleik við sýninguna önnuðust þau Anna Jesdóttir og Oddgeir Kristjánsson af mestu prýði. Einnig léku þau milli þátta, sem gerði manni lífið bærilegra á pínubekkjunum í Gúttó.
Leiktjöldin málaði Engilbert Gíslason af sinni alkunnu snilld. Var furða hve vel þau nutu sín í þessu litla húsi. Er synd og skömm að jafn ágætur listamaður sem Engilbert er, skuli ekki eiga vö1 boðlegra umhverfis fyrir list sína en „leikhúsið“ í Gúttó. Hvenær skyldi annars koma almennilegt leikhús í Eyjum, gæsalappalaust leikhús?
Ofanritað er umsögn úr bæjarbl. Víðir 1936, en þó aðeins útdráttur. Greinin er undirrituð Árni Guðmundsson.


„Höll“ í stað „Gúttós


Föstudaginn 9. okt. 1936 héldu sjálfstæðismenn hér allfjölmennan fund í Gúttó. Aðalefni fundarins var að stofna hlutafélag til að koma hér upp samkomuhúsi, sem væri samboðið kröfum tímans að öllum útbúnaði, bæði sem fundahús og til almennra skemmtana. Þörfin fyrir slíkt hús var vitanlega mjög aðkallandi, þar eð ekkert sæmilegt hús var hér til fyrir almenn fundahöld. Undirtektir almennings voru góðar í þessu efni. Félagið var því stofnað og hlaut nafnið Samkomuhús Vestmannaeyja hf. Menn lofuðu á fundinum bæði framlagi í vinnu og peningum við væntanlega byggingu og urðu efndir þessa miklu meiri en nokkur hafði hugboð um. Safnaðist strax mikið fé og var hafizt handa um bygginguna eftir tvo daga eða 12. okt. 1936. Tvö félög í bænum lögðu rausnarlega af mörkum við þetta fyrirtæki, en það voru Kvenfélagið Líkn og Stúkan Bára nr. 2. Líkn lofaði allstórri upphæð, en Bára studdi bygginguna með því að selja hlutafélaginu hús sitt Gúttó og þar með lóðina undir hið nýja hús. Var það hin glæsilegasta byggingarlóð, sem til var í bænum. Vitanlega áttu svo þessi tvö félög að fá forréttindi í hinu nýja húsi.
Þeir sem í L.V. voru á þessum tíma, þóttust sjá þarna hilla undir batnandi tíma fyrir starfsemi þess og voru mjög vonglaðir. Vonir stóðu til, að hið nýstofnaða hlutafélag hefði gott leiksvið í húsinu nýja, sem efldi mjög menningarstarfsemi Leikfélagsins á næstu áratugum. Gúttó hafði alltaf verið lítið og óhentugt fyrir sjónleiki, sem margoft hefir komið fram hér í pistlum þesssum, svo það var engin furða, þótt leikfélagsmenn og -konur litu björtum augum til framtíðarinnar, ekki sízt, er það heyrðist, að stórt og vel gert leiksvið með tilheyrandi ætti að vera í hinu nýja húsi, sem reisa skyldi á Mylnuhólnum gamla.
Þetta voru gleðitíðindi fyrir L.V. og ekkert við því að gera, þótt hætt yrði við alla starfsemi í bili, - starfsemi sem ákveðin hafði verið þá um haustið. Ekkert hús var með leiksviði, svo að ekkert var annað að gera en bíða rólegur eftir hinu nýja húsi. Árið 1936 var Gúttó rifið til grunna. Það var eitt elzta, og um mörg ár aðalleikhús Eyjanna. Saga þess verður ekki sögð hér. Þó er það mikil saga og merkileg, sem ég hef hér að framan lítillega drepið á. Húsið hefir verið um 50 ára gamalt, elzti hluti þess. Það hafði verið félagsheimili góðtemplara frá fyrstu tíð, fundarsalur, skemmtisalur, danshús og síðast en ekki sízt aðal leikhús Eyjanna allt frá því skömmu eftir aldamótin. Þar hefir margur stigið sitt fyrsta dansspor, lifað einstæðar stundir unaðar og skemmtunar. Þar hefir mörg veizlan verið haldin, félagsfundir, héraðsfundir, brúðkaupsveizlur, úteyjahóf, grímudansleikir og íþróttasýningar. Í Gúttó hafa nokkrar manneskjur kvatt þennan heim, því að þar var sjúkrastofa taugaveikissjúklinga um tíma. Þar bjuggu fjölskyldur um tíma. Þar bjó t.d. Gísli Lárusson, meðan hann byggði Stakkagerði. Þá bjó þar og Vigfús Jónsson, Holti, með fjölskyldu sína, er hús hans Holt brann til mikilla skemmda. Þar fæddist þeim hjónum eitt barn. Já, það hefir margt skeð í Gúttó. Þar var fyrsta kvikmyndin sýnd 1911/12 og þar hafa margskonar skólanámskeið verið haldin.
En sem sagt: Nú voru dagar Gúttó taldir. Það hafði orðið að samkomulagi milli templara og Sjálfstæðisflokksins, að Gúttó skyldi rýma fyrir nýju og glæsilegu samkomuhúsi. Þar skyldu templarar fá sinn eigin fundarsal, geymslur fyrir fundaáhöld ásamt fleirum hlunnindum Reglunni til heilla. Húsið reis örfljótt á grunni Gúttós og umhverfi hans, stórt og glæsilegt hús, stærsta samkomuhús utan Reykjavíkur. Aðeins Þjóðleikhúsið var stærra. Í húsi Eyjamanna var stór salur niðri, sem rúmar yfir 300 manns í sæti. Í norðurenda voru stórar svalir með sætum fyrir 250 manns, en í suðurenda salsins var stórt og mikið leiksvið og undir því geymsluherbergi og búningsklefar leikfólks ásamt snyrtiherbergjum. Lýsing hússins var mikil og mjög frábrugðin því, er verið hafði í Gúttó. Í þessu glæsta húsi voru hreinlætisherbergi karla og kvenna, fatageymslur stórar, skrifstofa Sjálfstæðisflokksins og húsvarðar, stórt og mikið eldhús með rafmagnstækjum allskonar, svefnherbergi húsvarðar o.m.fl. Þá var og minni salur uppi á loftinu, sem templurum var einkum ætlaður sem og öðrum félögum til fundahalda og skemmtana. Uppi á ganginum var veitingastúka og gangurinn stór og mikill, ágætt veitingarými. Breytingin var býsna mikil orðin, húsið allt vel gjört, teiknað af Gunnlaugi Halldórssyni, arkitekt, syni Halldórs læknis Gunnlaugssonar. Menn keyptu mikið af hlutabréfum í hinu nýja fyrirtæki, Samkomuhúsi Vestmannaeyja hf., og var nafnverð bréfanna frá 25 til 1000 kr. Margir höfðu lagt til vinnu í byggingu hússins, mörg dagsverk, menn keyptu fleiri en eitt og tvö hlutabréf og allt gekk að óskum. Kvenfélagið Líkn lagði fram 20 þús. kr. og tryggði sér þann veg húsnæði fyrir fundi sína og fleiri þægindi.
Þetta hús var í augum almennings stór og mikil höll, enda í daglegu tali nefnt „Höllin“, og umsjónarmaðurinn jafnvel nefndur „Hallardraugurinn“, þar eð hann þurfti helzt að vera í húsinu allan sólarhringinn. Að sjálfsögðu hafði hann sína skrifstofu þar, því að mikið var að gera.
Síðar voru svo keyptar í húsið nýtízku sýningarvélar og allt gert til þess, að það væri sem bezt.
Samkomuhús þetta var vígt með pomp og pragt þann 22. jan. 1938 með feikimiklu hófi. Það hóf sátu líklega 750-800 manns. Allsstaðar var borðlagt til góðra veitinga: Í stóra salnum, litla salnum, á leiksviðinu og ganginum uppi, og margt af fólki mun hafa verið úti í Akógeshúsi og hlustaði þar á ræðuhöldin gegnum hátalarakerfi Samkomuhússins.
Margar ræður voru fluttar og sungin vígsluljóð eftir Magnús Jónsson, ritstjóra, o. fl. skemmtiatriði.
Vígsluljóðin voru þannig:

Lag: Yndislega Eyjan mín ...
Þessa traustu, háu höll
hefir reist hinn sterki vilji.
Anda og handa átök snjöll
eyða vanda, ryðja völl.
Samtak margra flytur fjöll,
framtak sjálfstætt brúar hylji.
Þessa traustu, háu höll
hefir reist hinn sterki vilji.
Hér er fagurt sjónarsvið,
sólspor hlý til beggja handa.
Hér skal vorhug leggja lið,
lyfta menning, efla frið.
Stöndum örugg hlið við hlið
hiklaust mætum öllum vanda.
Hér er fagurt sjónarsvið
sólspor hlý til beggja handa.
Heilsar framtíð húsið nýtt,
heiðrar samtíð glæstu minni.
Hefir verki áfram ýtt
öflug dáð og snilli prýtt.
Inni bjart og inni hlýtt
öllum fagna salarkynni.
Heilsar framtíð húsið nýtt,
heiðrar samtíð glæstu minni.
Vakið menn og vakið fljóð,
vinnum heil svo meira birti.
Syngjum glaðvær sigurljóð,
sjálfstæð kyndum andans glóð.
Vinnum landi, vinnum þjóð,
verjumst því að aftur syrti.
Vakið menn og vakið fljóð,
vinnum heil svo meira birti.

Það fór von bráðar að bera á ýmsum ókostum við þessa miklu og glæsilegu höll. Templarar gátu lítt unað við þau þrengsli, er þeim voru sköpuð með aðgangi að fundarsal sínum, þar eð samtímis fundum þeirra voru aðrar skemmtanir í húsinu, jafnvel á ganginum fyrir framan dyrnar hjá þeim. Inntaka nýrra félaga í regluna var mjög ábótavant einmitt vegna ónæðis, og fleiri ókostir mættu templurum þar. Í raun og sannleika gátu stúkurnar ekki starfað í húsinu samkvæmt rituali reglunnar. Það dró að því, að allt stúkulíf lognaðist útaf. Var húsnæðið ástæðan til þess? Var hið fyrirheitna friðland templara í húsi þessu banabeð þeirra?
L.V. hafði einnig gert sér glæstar vonir um hús þetta - leiksvið og allan aðbúnað. En húsið reyndist allt of stórt fyrir starf L.V. Aðbúnaður varð og á margan hátt ekki góður og var þó L.V. ýmsu vant í því efni. Leiksviðið var óneitanlega miklu stærra en í Gúttó og hafði margt verið haganlega gert t.d. uppgangurinn á leiksviðið og lýsingarkerfi að ýmsu leyti. En leiksviðið var allt of stórt, þar sem ekkert hátalarakerfi var í sambandi við það. Lýsing leiksviðsins sjálfs var og ekki góð. Fótaljós voru í ljótum og lausum langkassa, mjög óheppilegum, kastljós voru engin inn á sviðið, og loftljós aðeins ein stór ljóskúla.
Himinn var yfir leiksviðsflekum, sem var ákaflega þungur og erfiður og ill nothæfur. Kostur var það, að hægt var að stjórna ljósum hússins til hliðar við leiksviðið. Sviðið sjálft var fyrst ekki gott, en síðar var því breytt þannig, að það var lengt fram yfir hljómsveitargryfjuna, sem var, og gaf sú lenging eða réttara sagt breikkun leiksviðsins leikurum meira rými af sviðinu og fram í salinn undir svölunum. Aftast á svölunum heyrðist mjög illa tal leikenda nema þeir gættu þess að tala mjög hátt. Þetta var mjög slæmt. Búningsherbergin voru lítil, varast stærri hvort þeirra en fyrir 3-4 menn að útbúa sig í til leiks. En svo var syðra herbergið tekið til afnota fyrir húsið, þ.e. geymslu, og er síðan aðeins eitt búningsherbergi, þessi litla kytra. Þá urðu leikendur að láta sér nægja þetta eina herbergi og nota svo ganginn fyrir framan búningsherbergin. Þarna verða allir að kúldrast, hve margir sem leika, innan um uppstaflaða bekki, langborð og búkka, sem tilheyra húsinu. Þarna er þessvegna oft þröng mikil. Fólkið hleypur þarna um hálfklætt og varast það, meðan það er að útbúa sig til sviðsgöngu eða að koma þaðan og klæðast nýju gervi eða snyrta sig til. Ástandið þarna er oft all spaugilegt í þrengslunum og flýtinum, sem er á öllu, þar eð hver er fyrir öðrum.
Þannig er nú þetta enn að mestu óbreytt, nema hvað salernið, að ég hygg, er komið í lag eftir langa og leiðinlega bilun. Allt eru þetta miklir ókostir við svo glæsilega höll, mér liggur við að segja: ósamboðnir ókostur. Og að öllu þessu slepptu, þá fæst húsið þ.e. leiksviðið helzt aldrei til þess að æfa þar leikritin, nema ef til vill einu sinni fyrir allsherjar prófleik. Það er þá helzt á nóttunni, eftir að lokið er kvikmyndasýningum kvöldsins. Stundum kl. 22.30 eða jafnvel eftir kl. 23.00. Það eru hreint ekki góðar aðstæður fyrir leikfélag að búa við þennan aðbúnað. Menn geta ekki með neinni sanngirni krafizt mikils af L.V. Til þess eru allar aðstæður til leiksýninga allt of slæmar. Erfiðleikana um allan húsakost þekkja víst allir og þarf ekki að fjölyrða um það hér. En þess virðingarverðari er öll viðleitni til leiksýninga, sem miðar að hollara og menningarríkara skemmtanalífi í þessum bæ. Það ættu bæjarbúar að hafa hugfast.


Alþýðuhúsið


Úr grein er nefnist Sannleiksvitnið í Alþýðuhúsinu 31. desember 1936.

Um nær 25 ára skeið hefir félag þetta, L.V., starfað hér í bænum Starf þess hefir verið misjafnlega mikið frá ári til árs, eftir því sem atvik stóðu til hverju sinni. Flest leikkvöld á einum vetri munu hafa verið 37. Vegna kostnaðar við leiktjöld, búninga o.fl. hafa þeir, sem leikið hafa, oftast borið lítið úr býtum og stundum ekkert. En áhugi meðlima félagsins hefir haldið því lifandi.
Ávallt hefir verið leikið í Gúttó, og þó að þar væri þröngt, mun á leiksviði þar hafa sézt leiklist eins og bezt þekkist annars staðar hérlendis t.d. meðan þeirra naut við Ólafs Ottesen og Guðjóns Jósefssonar. Á þessu hausti var ákveðið að starfa og undirbúningur hafinn. Þegar Gúttó var rifið en byggt var leiksvið við Alþýðuhúsið, sneri Leikfélagið sér til forráðamanna þess til þess að spyrjast fyrir um húslán til sjónleikja í vetur. Var því vel tekið í fyrstu, sérstaklega af Ísleifi Högnasyni. En er til samninga kom, var hann utanlands. Tilboð húsnefndar hljóðaði upp á tæpan 1/3 hluta eða 30% af brúttótekjum félagsins auk leigu fyrir æfingar svo að þetta hefði orðið meir en 1/3. Tekjur hússins hefðu eftir því verið á leikkvöldi, þegar leikið hefði verið fyrir fullu húsi rúmar kr. 200,00. Þar sem þurft hefði öll leiktjöld ný á leiksviðið, sá L.V. sér ekki fært að ganga að þessum kröfum og samþykkti einróma að leika ekki í húsinu nema að betri kjör næðust. Gerði þá stjórn félagsins gagntilboð, sem var hafnað án frekari tilrauna um samkomulag. Má skilja það á svarinu, að þar hafi mestu um ráðið hin misheppnaða tilraun þeirra að gera Leikfélagið pólitískt. Listavinirnir þar hafa álitið heppilegra að koma upp pólitískum leikflokki. Það á bara eftir að sýna sig, hvort Vestmannaeyingar eru að sama skapi ginkeyptir fyrir því, jafnvel þótt beitt verði öðru til að byrja með.
Ofanritað er úr grein, er Georg Gíslason skrifaði í Víðir 31. des. 1936. En þá var leikfélagið í algjöru hraki með húsnæði, þegar gamla Gúttó var rifið og látið víkja fyrir hinu nýja samkomuhúsi Sjálfstæðisflokksins, sem ákveðið var að byggja á lóðinni. Þessi leigumál við Alþýðuhúsið gengu ekki saman og lýsir greinin, hversvegna það var. Þótt Gúttó hafi alla tíð verið erfitt og þröngt til leiksýninga, þá var þar þó öruggt hæli bæði fyrir leiksýningar og æfingar. En menn búast við og vona, að í hinu stóra og glæsilega nýja húsi verði fullkomið leiksvið, góð aðstaða til æfinga og annar aðbúnaður fyrir leikendur.
Árið 1936 var Georg Gíslason formaður L. V.


„Hnefaleikarinn“


Á 2. páskadag árið 1938 var sýnt í Samkomuhúsi Vestmannaeyja leikritið „Hnefaleikarinn“ eftir Arnold og Bach. Leikhúsgestir voru margir og tóku leiknum vel. Yfirleitt virtust leikendur fara vel með hlutverk sín. Áberandi mest var hlegið að hnefaleikaranum og skapharðri frú, sem átti lítilsigldan bónda að förunaut. Að öðru leyti getur ekki þessa leiks í blaðinu Víði 1938, svo að erfitt verður að grafa það upp, hverjir fóru þar með hlutverk. Leikendur voru annars flestir gamalkunnir frá fyrri árum eins og t.d. Georg Gíslason, sem lék hnefaleikarann, Nikólína Jónsdóttir, sem lék konu hans. Auk þeirra Marinó Jónsson, símritari, Magnea Sjöberg, Hóli, o.fl.
Leik þessum hefur ávallt verið vel tekið, enda er hann bráðsmellinn gamanleikur. Leikhæfni Georgs, Nikólínu og Magneu Sjöberg þarf ekki að lýsa. Þau fóru öll vel með hlutverk sín. - Marinó Jónsson var bráðsnjall leikari, kíminn og léttur. Koma hans inn á sviðið vakti almenna hrifningu.
Að þessari sýningu stóð Kvenfélagið Líkn en ekki Leikfélag Vestmannaeyja.
Leikendur og persónur voru sem hér segir:


Leikstjóri var Þórhallur Gunnlaugsson, símstöðvarstjóri.
Leikurinn fékk yfirleitt góða dóma.


„Frænka Charleys“


Árið 1938, um mánaðamótin apríl og maí, sýndi Félag ungra sjálfstæðismanna leikritið „Frænka Charleys“ eftir Brandon Thomas. Leikið var í Samkomuhúsinu. Aðsókn var ágæt og undirtektir sérlega góðar.
Leikendur voru þessir:


Leikur þessi fékk góða dóma, fólk skemmti sér konunglega og var þá markinu náð.


„Eruð þér frímúrari?“Leikendur í leikritinu „Eruð þér frímúrari?“
Frá vinstri: 1. Finnur Sigmundsson, 2. Rakel Káradóttir, 3. Þorgrímur Einarsson, 4. Helga Rafnsdóttir, 5. Marinó Jónsson, 6. Ágústa Haraldsdóttir, 7. Árni Guðmundsson, 8. Sigríður Árnadóttir. -
Sitjandi frá vinstri: 1. Ástgeir Ólafsson, 2. Ásta Sigurðardóttir.

Árið 1938 var leikið í Alþýðuhúsinu leikrit, sem nefnist „Eruð þér frímúrari?“ Höfundar eru Arnold og Bach. Leikflokkur sá, er sýndi leikritið, bar ekkert sérstakt nafn, að ég hygg. Hann mun sennilega hafa verið eitthvað tengdur Alþýðuhúsinu.
Leikendur voru þeir, sem hér eru á myndinni og svo Valdimar Ástgeirsson frá Litlabæ.
Sýningar á leikritinu voru þrjár og aðsókn góð. Sumir leikendurnir þóttu fara vel með hlutverk sín, enda þótt meiri hluti leikfólksins væri óvaningar á leiksviði.


„Sá hlær bezt, sem síðast hlær“


Þann 1. des. 1938 var skemmtun haldin í Samkomuhúsi Vestmannaeyja á vegum Kvenfélagsins Líknar í tilefni dagsins. Þar voru ræður fluttar og Vestmannakór söng undir stjórn Brynjúlfs Sigfússonar. Vakti söngurinn sérstaka ánægju tilheyrenda. Eftir ræður og söng var fluttur leikþáttur, eða stutt leikrit, sem nefndist ,,Sá hlær bezt, sem síðast hlær“.
Leikendur voru:


Leikurinn þótti takast vel, enda þótt leikendur væru nýliðar að töluverðum hluta.


„Almannarómur“


Árið 1939 var sýnt í Alþýðuhúsinu leikritið “Almannarómur” eftir Stein Sigurðsson, skólastjóra og skáld. Þeir sem 1éku, voru leikflokkur skipaður nokkrum áhugamönnum utan L.V. Leikritið var sýnt 2 sinnum við ágæta aðsókn og þóttu sumir leikenda leysa hlutverk sín ágætlega af hendi, enda sviðsvanir.
Meðal leikenda voru:


„Apakötturinn“


Árið 1939 var 1eikið á vegum Kvenfélagsins Líknar leikritið „Apakötturinn“ eftir Heiberg. Þetta er gamalkunnugt leikrit hér og vinsælt með afbrigðum. Þar eð nú var um nýja leikendur að ræða í hlutverkunum biðu menn í nokkurru ofvæni eftir að sjá þetta góða og þekkta leikrit.
Persónur og leikendur voru:


Leikhúsgestir urðu fyrir engum vonbrigðum hvað leik þessa fólks snerti. Marinó skilaði hlutverki Iversen ágætlega enda sviðsvanur, þekktur fyrir að gera hlutverkum sínum ágæt skil. Hreyfingar hans og látbragð var prýðilegt og kom leikhúsgestum í gott skap. Söngurinn var hans veika hlið, þótt segja mætti, að hann slyppi frá honum þolanlega. Það var gaman að sjá Valdimar túlka hlutverk Óla gamla, túlka persónuna í anda þess, sem Eyjamenn hafa séð Guðjón Jósefsson gera. En Valdimar tókst þetta prýðilega. Þó að söngur hans væri hrjúfari en Guðjóns Jósefssonar og næði ekki að snerta áheyrandann eins með einhverri eldri manna viðkvæmni eða angurblíðu, fannst mörgum Valdimar syngja laglega, og þá sérstaklega gáska- og gleðisöngvana. Þannig segir í vikubl. hér: Hlöðver og Guðrún eru auðsjáanlega góð leikaraefni. Þau syngja bæði mjög vel, hreyfingarnar léttar og fallegar, málrómurinn yfirleitt skýr og framsögn ágæt, sérstaklega sem ungra feiminna elskenda. Það var mjög sannfærandi leikur, svo að manni fannst við dyr veruleikans. Mér þykir ástæða til að óska þessum nýju starfskröftum Apakattarins til hamingju með unninn leiksigur. Þau áttu áhorfendur, sem fögnuðu þeim vel og létu þakkir sínar og aðdáun í ljós með hressilegu lófataki.
Frumsýning 11. marz 1939.
Leikritið sýnt af L.V.


„Karlinn í kassanum“


Árið 1939 var leikið í Samkomuhúsinu leikritið „Karlinn í kassanum“ (Der wahre Jakob) eftir Arnold og Bach. Mun það hafa verið síðasta leikritið, sem Árni Gíslason frá Stakkagerði lék í og fór þarna með aðalhlutverkið. Hann hafði starfað í L.V. frá upphafi eða mjög nálægt 30 árum og leyst af hendi mörg hlutverk á sínum langa starfsferli og sum mjög vandasöm. Skömmu eftir sýningu á þessu leikriti flutti hann búferlum til Reykjavíkur og átti ekki afturkvæmt.
Leikendur voru að þessu sinni:


Aðalþungi leiksins hvílir á þeim Pétri Mörland, sem þarna var raunar ekki í essinu sínu, og svo Dolly og séra Amen. Frú Magnea skilar sínu hlutverki með mestu prýði, yndisþokki og fjör hennar er með ágætum og er leikur hennar langsnjallastur, þeirra er með kvenhlutverkin fara. Er ánægja að horfa á, hvernig hún leikur á fimmtardómarann, Georg, eins og hvert annað hljóðfæri, heldur honum eldheitum án þess að volgna hið minnsta sjálf, leikur sér að eldinum án þess að sviðna. Georg er ætíð gaman að sjá á leiksviði. Hann er mjög sniðugur í hlutverki fimmtardómarans. Hann leikur óneitanlega, en það er meira en hægt er að segja um einstaka leikendur í þetta skiptið. Meðbiðil fimmtardómarans leikur Jón Árnason. Hann er hressilegur, afbrýðisamur vel og vestur-íslenzkan skemmtileg í málfari hans, en greinilegar hefði hann mátt tala. Stefán Árnason er ágætur í séra Amen, verðugur meðleikari Dolly og mestur er leikurinn, er þau eru á sviðinu í einu. Er sem maður sjái hundrað ára gamlar kreddur og hégiljur, margmagnaðan ótta við almenningslíf og álit, sótsvarta íhaldssemi og þráa þvermóðsku sameinast í fasi, fatnaði og rödd þessa gamla og sérvitra guðsorðagutlara. Það er enginn hempuvindur í orðum og ræðum Séra Amen, enginn flysjungsháttur, heldur er hér á sviðinu heilsteyptur kreddufastur siða-umvandari, kúgari og kúskari. Margur kippist við, er Séra Amen hellir sér yfir brúðina, Þórunni, (Rakel Kárad.). Stúlkan sú má ekki vera svona dauf, þótt hún sé í vandræðum. Þá var og allt of mikill utanbókar lærdómsbragur á tali þeirra Þórunnar, Frú Mörland og Solveigar. Um Pétur Mörland verður þetta ekki sagt, hann kunni ekki rullu sína nægilega vel, og talaði ógreinilega.
Friðmundur fer vel með hlutverk sitt. Hér er eins og allir vita leikari á ferðinni. Ræfildómurinn og manntetrið í honum kemur vel fram hjá Valdimar.
Anna stofustúlka kemur manni í bezta skap, hún er svo létt og fjörug, elskuleg og tápmikil, albúin að berjast, meira að segja við sjálfan prestinn. Allt þetta gerir Stella ágætlega. Þar er eflaust gott leikaraefni á ferðinni. Kristín Þórðardóttir naut sín alls ekki í Frú Mörland, hvað svo sem því hefir vaidið. Hún hefir oftast sýnt frábæran leik, en þarna tókst henni miður vel upp. Sama er að segja um Margréti Johnsen. Hún naut sín alls ekki í þessu hlutverki, sem verndarengill og ráðgjafi Dollyar.
Loftur Guðmundsson lék Baldur. Leikur hans var yfirdrifinn um of, langt um of. Annars getur Loftur leikið, en þarna fór listin fyrir ofan garð og neðan hjá honum. Þarna var og sendiboði, en maður veit ekki til hvers hann var þarna. Pikkolóinn hefði átt að geta annazt blómsturflutningana einn, þótt slakur væri.
Leikurinn gekk seint. Mikið bar á því, að leikendur þyldu hlutverk sín eins og hverja aðra utanbókarlexíu. Það fer ávallt illa, ef framsögnin er ekki góð! Það er ekki nóg að kunna rulluna, það verður að tala hana fram með réttum áherzlum og í líkingu við tal manna í milli. Hvíslarinn þarf líka að vera betur heima í leikritinu, láta ekki standa á sér, þegar hann þarf að grípa inn í, ef leikandi missir þráðinn. Það er betra að hvísla orðinu til leikandans, þótt hann kunni vel og stanzi í tali af einhverjum eðlilegum ástæðum, heldur en að þegja alveg. Orð hvíslarans er alltaf hægt að nota og hann á engu að fresta til leiðinlegra þagnaraugnablika. Gefa leikandanum orðið, þótt hann viti það fullvel, sem næst á að segja. Það er mátinn. Hlutverk hvíslarans er mikilvægt og fyrsta skilyrði og krafa, sem til hans er gerð, er að hann fylgist mjög vel með því sem fram fer og hafi næstu setningu ávallt á reiðubúnum vörunum.

Framhald