Blik 1949/Unglingaskóli Vestmannaeyja

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to search

Efnisyfirlit 1949Unglingaskóli Vestmannaeyja1923—1924.
Unglingaskóli Vestmannaeyja var settur fyrsta sinni 2. okt. 1923 af Páli Bjarnasyni skólastjóra barnaskóla kaupstaðarins. Nemendur voru 19 samtals. Þar af voru 5 skólaskyld börn, er þóttu hafa þroska til náms í skólanum.
Kennarar voru ráðnir Steinn Emilsson ritstjóri, Halldór Guðjónsson kennari og frú Dýrfinna Gunnarsdóttir. Páli Bjarnasyni skólastjóra var falin umsjón og dagleg stjórn skólans.
Námsgreinar: Íslenzka, saga, landafræði, náttúrufræði, reikningur, danska, teiknun og söngur. Kennslustundir voru samtals 25 á viku. Skólinn starfaði í barnaskólahúsinu og hófst kennsla daglega kl. 2 og kl. 3 e.h. og endaði alla daga kl. 7.
Nemendur voru allir í einni deild nema í dönsku.
Prófdómarar voru kosnir af bæjarstjórn, þeir Friðrik Þorsteinsson bókhaldari og Karl Einarsson bæjarfógeti.
Í forföllum hins síðarnefnda mætti Árni Gíslason bókhaldari. Alls luku 18 nemendur prófi.
Skólanum var sagt upp 8. jan. 1924.

1924—1925.
Skólinn var settur 1. október. Nemendur voru 30 alls, þar af 4 nem. skólaskyldir.
Skólinn starfaði að nokkru leyti í tveim deildum; 17 nem. í 1. deild og 13 nem. í 2. deild. Kennarar voru Sigurður Einarsson stud. theol, og Hallgrímur Jónasson, Bjarni Bjarnason og Halldór Guðjónsson kennarar barnskóla kaupstaðarins. Námsgreinar voru hinar sömu og f.á, og ensku bætt við í 2. deild. Kennslustundir á viku voru samtals 25 í 1. deild og 27 í 2. deild.
Prófi luku 13 nem. að fullu í 1. d. og 8 nem. í 2. d., en þar að auki þreyttu 5 nem. próf í sumum af námsgreinunum.
Prófdómarar: Ungfrú Anna EiríksdóttirVegamótum í Ve. og Kristinn Ólafsson bæjarstjóri, kosnir af bæjarstjórn.
Skólanum var slitið 10. jan. 1925.

1925—1926.
Skólinn var settur 1. okt. Nemendur urðu samtals 15, er flestir voru. Þrír þeirra hættu námi vegna forfalla, en 12 luku prófi.
Aðalkennari skólans var ráðinn Þorgeir Jónsson cand. theol., er kenndi allar námsgreinar, nema teiknun og handavinnu. Enska var ekki kennd, annars sömu námsgreinar og f.á.
Bjarni Bjarnason kennari kenndi teiknun og Katrín Gunnarsdóttir kennari handavinnu.
Prófdómarar voru kosnir þeir síra Sigurjón Árnason sóknarprestur og Helgi Elíasson kennari.
Uppsögn skóla fór fram 13. jan. 1926.

1926—1927.
Skólinn var settur 1. okt.
Nemendur urðu flestir 19 að tölu, þar af voru 6 skólaskyldir. Skólinn starfaði í einni deild, nema í dönsku og reikningi. Kennslustundir voru samtals 26 á viku.
Aðalkennari skólans var ráðinn Guðni Jónsson, stud. theol. frá Reykjavík. Auk hans kenndu frú Dýrfinna Gunnarsdóttir og kennararnir Katrín Gunnarsdóttir og Halldór Guðjónsson. 12 nem. luku bekkjarprófi að fullu, en 6 aðrir að nokkru leyti.
Prófdómarar voru kosnir síra Sigurjón Árnason og Kristinn Ól­afsson bæjarstjóri. Skólanum var slitið 28. febr. 1927.

1927—1928.
Skólinn tók til starfa 1. okt. og setti hann Þorsteinn Þ. Víglundsson, sem ráðinn hafði verið aðalkennari skólans og tekið að sér forstöðu hans.
Nemendur urðu flestir 22 að tölu.
Skólinn starfaði í einni deild. Námsgreinar: Íslenzka, Íslandssaga, mannkynssaga, landafræði, heilsufræði, reikningur, danska, enska, teiknun, handavinna og leikfimi.
Anna Konráðsdóttir, kennari, kenndi námsmeyjum handavinnu. Friðrik Jesson íþróttakennari kenndi leikfimi. Aðrar námsgreinar kenndi aðalkennarinn. Kennslustundir voru samtals 32 á viku.
16 nem. luku bekkjarprófi að fullu, 3 nem. að nokkru leyti, en 3 nem. hurfu úr skóla fyrir próf.
Prófdómarar voru kosnir af bæjarstjórn, þeir séra Sigurjón Árnason, Ólafur Magnússon stúdent og Katrín Gunnarsdóttir kennari.
Skólaslit fóru fram 28. febr. 1928.

1928—1929.
Skólinn tók til starfa 1. okt. og var settur af Þorsteini Þ. Víglundssyni, settum skólastjóra skólans.
Alls höfðu 31 nem. sótt um skólavist og voru allir mættir við skólasetningu. Skólinn starfaði í tveim deildum, 23 nem. í 1. deild og 8 í 2. deild.
Kennarar voru auk skólastj.: Hallgrímur Jónasson kennari, Andrea Bjarnadóttir, kennslukona og Haraldur Bjarnason stúdent, sem öll voru stundakennarar.
Kennslustundir voru samtals 28 á viku í 1. deild, en 26 á viku í 2. deild.
Prófum í 2. deild lauk 28. febr. og luku 8 nemendur prófum, en 1. deild starfaði til 27. marz. Sextán nemendur luku þó bekkjarprófi. Sjö nemendur hurfu frá námi á skólaárinu án þess að þreyta próf.
Námsgreinar voru hinar sömu og fyrra ár.
Prófdómarar skipaðir af bæjarstjórn: Síra Sigurjón Árnason sóknarprestur og Ólafur Magnússon stúdent og kennslukonurnar Anna Konráðsdóttir og Katrín Gunnarsdóttir, sem dæmdu hannyrðir stúlknanna.
Skólaslit fóru fram 27. marz 1929.

1929—1930.
Skólinn tók til starfa 1. okt. Alls höfðu 43 nemendur sótt um skólavist, þar af 11 í II. deild.
Kennarar auk skólastj.: Hallgrímur Jónasson kennari, Andrea Bjarnadóttir kennslukona, Páll V. G. Kolka læknir, Óskar Sigurðsson verzlunarm., Friðrik Jesson kennari, Jón Gissurarson stúdent og Sigfús Scheving, skipstjóri.
Nemendum var nú kennd undirstaða í bókfærslu og drengjum ýmislegt, sem að sjómennsku lýtur, svo sem að þekkja á áttavitann, hnýta hnúta, stanga kaðla og fl. Annars voru námsgreinar hinar sömu og f.á.
Undir próf 1. deildar gengu 26 nem. og 10 nemendur luku prófi úr 2. bekk.
Prófdómarar: Síra Sigurjón Árnason, síra Jes A. Gíslason kennari og Katrín Gunnarsdóttir og Anna Konráðsdóttir kennslukonur.
30. marz var haldin almenn sýning á hannyrðum námsmeyjanna. Hana sóttu nokkrar konur.

1930—1931.
Ákveðið hafði verið að breyta „unglingaskólanum“ í gagnfræðaskóla samkvæmt lögum nr. 48 frá 1930 um gagnfræðaskóla í kaupstöðum, þó skyldi 2. bekkur unglingaskólans starfræktur sem áður þ.á. Hann tók til starfa 1. okt. og var slitið 28. febr. Alls voru 19 nemendur í bekknum. Þar af gengu 14 undir próf. Námsgreinar hinar sömu og f.á. Kennarar auk skólastjóra: Halldór Guðjónsson kennari, Haraldur Bjarnason stud. jur. Bjarni Guðjónsson tréskeri, Friðrik Jesson kennari, Óskar Sigurðsson verzlunarm. og frú Guðbjörg Kolka.
Prófdómarar voru hinir sömu og f.á.
1. okt. þ.á. var 1. bekkur Gagnfræðaskólans í Vestmannaeyjum settur fyrsta sinni. Í bekknum stunduðu nám 28 nem.
Árið 1943 lét skólanefnd Gagnfræðaskólans prenta skýrslu skólans yfir þau 13 ár, sem hann þá hafði starfað.