Úr fórum Árna Árnasonar. Verk hans og annarra/Brandurinn, - frásagnir og ljóð

From Heimaslóð
Jump to navigation Jump to searchÚr fórum Árna Árnasonar


Brandurinn, frásagnir og ljóðctr


Um Brandinn


Líklega hefir það verið 1898-99, að faðir minn seig Hábrandinn í fyrsta sinn. Í vasabók sína hefir hann innfært um þetta:
„Síg Hábrandinn fyrir Guðjón Björnsson. Mitt hæsta og erfiðasta sig. Líklega 812 súluhreiður, mest allt tekið.“
Ekkert ártal er við þetta í bókinni, en eldri menn hér telja, að þetta sig hafi farið fram 1898-99.
Brandurinn er 90 metrar, sigið ofan af Hábrandi, þar sem hann er hæstur, og eru þar mörg og stór súlubæli. Undirsetumenn voru þeir Guðjón Björnsson og Magnús Guðmundsson, Hlíðarási, en brúnamaður Guðjón Eyjólfsson.
Hliðarrið eru þarna ákaflega mikil og stór og loft mikið. Þegar faðir minn var að krækja sig inn á eitt fallegasta bælið, kallaði Guðjón Eyjólfsson: „Gerðu nú, hvað hægt er frændi, þangað hefir enginn maður komið fyrri.“ Það var og orð að sönnu. En allt fór vel, sigið heppnaðist mjög vel, og hefir þá aflast mikið af súlu í Brandinum, miðað við það, að mest allt var tekið af 812 súluhreiðrum, (sbr. fyrrnefnda vasabók í eigu minni).
Það er sannlega ekki hægt að kalla fjöll og úteyjar Vestmannaeyja lágkúruleg eða sem hrörnuð gamalmenni, þótt fjöllin hér séu ævaforn. Fegurð fjalla Eyjanna er einnig viðbrugðið, hvers á sínu sviði. Þau eru há og tíguleg, stórhrikaleg, og fegurðin skín úr hverri línu þeirra. Þótt maður renni augunum daglega um fjallahringinn, sést ávallt eitthvað nýtt, sem maður hefir ekki tekið eftir fyrri. Hver steinn, þúfa og bjargtó ber sitt sérstaka heiti, enda mun hvergi á Íslandi vera um svo mörg örnefni að ræða á jafnlitlum bletti sem hér. Þannig fór við örnefnasöfnun dr. Þorkels Jóhannessonar. Hann ætlaði að byrja verk sitt á söfnun örnefna á þeim stað, sem honum fannst auðunnast, en lenti þá á þeim stað, sem flest örnefni mun bera á landi hér. Þótt bók hans sé mikið rit og gott, vantar þó því miður fjölda örnefna í hana, sem nauðsynlegt væri að bæta um hið fyrsta, meðan þau nöfn eru ekki gjörfallin í gleymsku.
Brandurinn á sér mörg örnefni, en ekki ætla ég að fara telja þau hér að þessu sinni. Þess í stað vildi ég minnast á veiðistaðina og eyna sjálfa. Hún er sérlega fögur, en hæst mót austri, 90 metrar, þ.e. Hábrandurinn. Að sunnan er eyjan vogskorin og áþekk því, að hamarinn inn að Mávadrang og Girðisdrang sé gígbarmur. Sannar Rauðhamar, að þarna hefir orðið gos allmikið í fyrndinni. Virðist manni helzt, að Hafnardrangurinn, sem er blágrýtisdrangur, sé eins og tappi í gosholunni, gígnum.
Uppganga er hæg í Brandinum og er þá farið annaðhvort inn um vestur eða austursundið inn að steðjanum. Hins vegar getur oft, jafnvel dögum saman, verið ófært inn sundin vegna brims. Vestursundið er hreint, en í austursundinu er flúð, sem varast verður, því að illa vill kastast frá henni. Þá má og fara upp við svonefndan Steinketil, sem er kvos inn í eyna að norðan. Hefir það oft verið gert, er ófært var annars staðar. Í Brandinum verpir mikið af fugli, t.d. súla, lundi, fýll, svartfugl, rita og mávar og eitthvað örlítið af sæsvölu og skrofu.
Bezta veiðiátt í Brandinum eru hægar hafáttir, SV- og SA-áttir. Eru þá allmargir veiðistaðir, en beztur þeirra allra er Rauðhamarinn, neðsti staðurinn, sem er á Rauðhamarsbekknum.
Þá má og veiða uppi á brún Hamarsins, og skammt þar fyrir ofan getur þriðji maðurinn hæglega verið.
Þá má og veiða í vesturbrekkunni neðan veiðimannakofans, t.d. við Steininn og þar víðar um kring.
Svo er bringurinn austan og ofan við kofann í SV átt. Ekki veit ég til, að sá staður heiti nokkuð sérstakt.
Þá er það Landsuðursnefið í S-átt á SA-horni eyjarinnar. Það er allgóður veiðistaður, en örðugur.
Þá má veiða í logni og eða hægri NV-átt við stein í Steinkatlinum. Það er stór blágrýtissteinn og situr maður sunnan við steininn. Það er allgóður veiðistaður, en fáir vita um hann. Á brúninni mót norðri við austurkant bergbrúnarinnar, sem myndar Steinketilinn, er veiðistaður á horninu, þar sem bergbrúnin byrjar mót austri. Þar má veiða í NV-átt. Við sömu brún, en austur við neðstu súlubreiðuna, er einnig veiðistaður í NV-átt, en þar er mjög erfitt að veiða vegna súlunnar, sem flýgur þarna mikið og truflar mikið fyrir flugi lundans.
Vestur á Höfðanum eru veiðistaðir, t.d. í bringjunum efst, vestan við kvosina, sem myndar svonefndan Steinketil. Þar er bezt í NV-átt eða vestan átt. Þá má og veiða nokkuð við suðurbrún höfðans, en engir eru þar sérstakir staðir með nafni, heldur staðir, sem menn hafa búið sér hin síðari árin.
Annars er svo með Brandinn, sem allar aðrar úteyjar. Það má víða veiða og koma sér vel fyrir, en það kostar eftirtekt og glöggt auga veiðimannsins. Sé hann búinn þeim kostum, getur veiðimaðurinn oftast holað sér einhvers staðar niður til veiða, jafnvel fundið beztu staði, til lundaveiða.
Á fyrri árum, meðan menn höfðu skrínukost í úteyjum, kom oft fyrir, að þeir urðu matarlausir að kalla má. Þá var eina lausnin að reyna að elda sér lunda, ef eitthvað var til að brenna, spýtnarusl, ef knappt var um olíu. Var í slíkum tilfellum ekki um auðugan garð að gresja, hvað matvæli snerti í matardöllunum.
Eitt sinn var Arngrímur á Kirkjubæ að telja matarbirgðir sínar í dallinum og sagði þá: „Nú, ég er kaffilaus. Ojæja, brauðlaus, ojæja, sykurlaus og smjörlaus. Ojæja.“ Þá lokaði hann dallinum sínum og ætlaði að fá sér í nefið, en var þá með tóman baukinn. „Og tóbakslaus, ojæja – hvorki í nef eða kjaft – og kvenmannslaus, ojæja. Allt er það eins. Ojammojæja.“
Stundum gátu menn og náð sér í súluunga í breiðunum, sem fyrrum voru nokkrar súlur í. Man ég ekki betur en, þegar ég var þar síðast til lunda, ásamt þeim Jóhannesi Long og Guðmundi Árnasyni, Ásgarði, að þá voru þar um 20 súluhreiður. Hin síðari árin hefir súlunni mjög fækkað uppi á Brandi að norðan, þannig að undanfarin ár hafa verpt þar 3 til 4, en árið 1962 verpir þar engin súla. Það er talið stafa frá því sérstaklega, að fé var þar í allan vetur, allt fram yfir miðjan júní, að það var tekið og flutt í Álsey. Súlan hefir því haft nokkra styggð þarna í breiðunum vegna kindanna og ekki fellt sig við að verpa þar. Lengst, og allt til 1961, verptu 1-2 súlur í efstu breiðunni, sem er alveg uppi undir hrygg. Þarna situr hins vegar alltaf mikið af geldsúlu í breiðunum, og er fyrirflug hennar svo mikið þarna að lundaveiðistaðinn, sem er rétt vestan við neðstu breiðuna, er illmögulegt að nota.
Annars virðist súlunni hafa farið fjölgandi í Brandinum að austan, allt frá norðurbrún alla leið suður eftir eynni. Eru þar auðsjáanlega mörg ný súlubæli. Væri fróðlegt að vita, hve mörg súlubæli eru nú í Brandi, þar eð þau voru, er faðir minn seig Hábrandinn 1898/99, 812, sem hann taldi, og hér að framan greinir.


Húsakostur í Brandinum


Sem fyrr segir var enginn kofi kominn í Brandinn árið 1909, en einhvern tíma eftir það hefir þó verið reistur þar smá kofi, sennilega fyrir lundaveiðimenn, þótt ekki verði nú sagt, hverjir hafi byggt hann. Var sú venja að liggja í tjöldum í þeim eyjum, sem aðeins mátti vera í til lundaveiða stuttan tíma, þ.e. 10 daga í fýlabyggð. Hygg ég það hafi verið frá 20. júní til 1. júlí. Hvar helzt var tjaldað, muna menn nú ekki, en sennilegast nálægt þeim stað, sem núverandi veiðimannakofi stendur eða vestast á Rauðhamrinum, dálítið frá brún hans. Þar var a.m.k. tjaldstæði okkar sumarið 1909.
Þessi fyrsti kofi var með mjög lágum veggjum og lítill, en hefir þó verið betri en tjald, sem ávallt var erfitt að hemja í úteyjum. Hefir því sannast á þessum kofa, að það er lakur skúti, sem ekki er betri en úti.
Það mun svo hafa verið 1922/23, að út í Brand fóru til lundaveiða Gísli Fr. Johnsen, Hjálmar Jónsson, Dölum, Gunnar Guðjónsson, Kirkjubæ, Ólafur Jónsson, Háagarði og Arngrímur Sveinbjörnsson, Kirkjubæ. Þá var kofinn lagfærður nokkuð, sett betra járnþak, veggir lagfærðir, en ekki hækkaðir neitt. Kofinn var þá strigalagður að innan og framhlið úr timbri og járni. Vatn fékkst þá nægilegt af kofanum, enda var þá mjög úrkomusamt, meðan þeir dvöldu þar. Þá gerðu þeir og eina allsherjar strigakoju með einum langbita og striginn svo negldur á langbita þennan og fram, - og innanbita. Þetta var strax betra en að liggja á gólfinu. Verst var, að veggirnir voru ekki hækkaðir, svo að kofinn var varast og ekki manngengur, nema vera hálfboginn. En þar sem þetta var aðeins fyrirhugað sem bráðabirgðaskýli, var ekki ráðist í að hafa veggina hærri, þar eð aldrei voru þeir hækkaðir meðan kofinn var við líði. Þeir urðu líka að hafa hraðann á að koma upp kofaskriflinu, því að æði rigningarlega leit út og stóðst það á endum, að þegar kofinn var kominn upp, tók að rigna og það meir en lítið, eins og segir hér á eftir.


Hjálmar hélt í okkur lífinu


Einn viðlegumaður í úteyjum segir svo: „Veðráttan í eyjum getur fljótt brugðið til beggja vona, en er annars yfirleitt vætu- og stormasöm. Einu sinni fór ég í Brandinn, sem er ein af úteyjum Heimaeyjar, ásamt fimm veiðimönnum.
Er við vorum nýbúnir að ganga þar frá kofaskrifli, sem við hrófluðum upp í skyndi, tók að rigna óspart og hvessa. Rigndi svo látlaust í 12 daga, svo mikið að ekki var hundi út sigandi. Þegar móðir jörð gat ekki tekið á móti meiri bleytu, fór allt á flot í kofanum, svo að hann gerðist ömurleg vistarvera. Grófum við þá skurð kringum hann, svo að vætan gæti runnið burtu.
Fýlabyggðin hálf fylltist af vatni, svo að pollar voru í hverju hreiðri. Þó sat fýllinn á egginu sem fastast í miðjum pollinum. Sýnir það eitt betur en nokkuð annað hina frábærlegu móðurást fuglanna og þrautseigju þeirra fyrir afkvæmum sínum, einkum meðan þau eru ósjálfbjarga. Hreiður þau, sem ungar voru í, urðu þó verst úti, því að nær því hver einasti ungi drukknaði í þessu vatnsflóði yfir eyjuna.
Í þessa 12 daga veiddum við ekkert. Það var alls ekki hægt. Hjálmar Jónsson frá Dölum, einhver duglegasti og harðfengasti fjallagarpur Eyjanna, hélt í okkur líftórunni, svo að við ekki sáluðumst úr leiðindum, með sinni frábæru kímni og glaðlyndi. Hélt hann uppi stanzlausum umræðum um svaðilfarir veiðimanna, drauga-og tröllasögur á kvöldin, svo að mörgum gerðist jafnvel ekki svefnsamt. Það var „oft krítað liðugt“.
Hjálmar hefir, a.m.k. tvisvar, hrapað í björgum í Eyjum og einu sinni úr 40 metra hæð, en lenti í sjó. Það varð honum til lífs. Horfði ég á þennan atburð, en engin mynd mun hafa verið tekin af þeim atburði. Hins vegar slapp Hjálmar ekki við 4 mánaða legu eftir áfallið. En hann virðist ódrepandi, pilturinn sá, og ekki bilar kjarkurinn og dugmennska. Er eins og maðurinn herðist við hverja fjallaferðina, sem hann fer.
Eftir þessa 12 daga var haldið heim úr Brandinum og má segja, að maður hafi ekki fengið í eina súpu, hvað þá heldur eina kippu af fugli. – „Það eru ekki allar ferðir til fjár, þó farnar séu“.“


Vatnsleysi í Brandinum


Það mun hafa verið 1908/09, að við vorum í Brandinum til lundaveiða, Bjarni Björnsson, Túni, Björn Guðjónsson, Kirkjubæ, faðir minn Árni Árnason, Grund, Árni J. Johnsen, Vertshúsinu, Magnús Ástgeirsson, Litlabæ. Þess utan var ég þar, þá smápatti.
Þessu veiðitímabili yfir sumarið vörðu ofantaldir veiðimenn þannig að vera hálfan mánuð í Brandinum og hálfan mánuð í Suðurey. Þá var enginn kofi í Brandinum, svo að við lágum í tjaldi. Oft var þetta slæmt í bleytutíð og stormum.
Hjá okkur, þetta sumar í Brandi, var mikið þurrkasumar, en vindar þungir og oft teppur vegna brima. Er á veiðitíma leið var það, að frátök urðu á því að koma til okkar vatni og vistum. Þannig liðu a.m.k. 3-4 dagar.
Þá vildi Árni Johnsen, sem var sundmaður með ágætum, freista þess að synda með brúsa út í Álsey og sækja okkur vatn. Þetta var vitanlega ekki harla viturleg hugsun, því að ekki hygg ég, að honum hefði tekist að framkvæma sundið vegna þungra strauma, sem þarna eru og sjór vitanlega kaldur. Hann hefði aldrei getað náð okkur í vatn, þótt hann hefði freistað þess. Það er erfitt að synda með vatnsbrúsa þessa leið. Þessu fékk Árni Johnsen ekki ráðið, enda hefði það verið óðs manns æði. Þótt hann væri sundmaður góður, hefði hann ekki megnað að synda á milli eyjanna. Þar er mjög þungur straumur og úthafssjórinn kaldur. Þótt flúð sé milli Brands og Álseyjar í um það bil miðju sundi, sem máske kemur eitthvað örlítið milli sjóa upp yfir sjávarflötinn og lágflæði, hefði hann alls ekki hamið sig á flúðinni til hvíldar undir þáverandi eða neinum kringumstæðum. Hún er öll þangi vaxin, og ég hygg, að enginn maður myndi geta staðið þar af sér straum og sjóþunga.
Vatnsskortur í úteyjum hefir alla tíð verið mikið vandamál, þannig að allt vatn hefir þurft, til skamms tíma, að flytja í úteyjarnar með sókningsbátunum, þar eð í engri útey var talið, að vatn væri sem nokkru næmi, nema í Álsey. Þar er ávallt nægilegt vatn og meir en það, í Vatnsgili og stundum í Nóngili eftir úrkomur.
Í þetta skipti í Brandinum man ég ekki betur en sókningsbáturinn kæmist til okkar með mat og vatn á þriðja degi, sem þá var tekið upp við svonefndan Steinketil norðan í Brandinum. Við reyndum í þessum vatnsskorti að drekka vatn úr vatnspollum, sem safnast höfðu í litlar bergholur á móbergsflánum, en það vatn var mjög slæmt, jafnvel salt eða fúlt. Eitt sinn kom Bjarni í Túni með smávatnslögg, sem hann hafði fundið vestur á Brandi og gaf mér að drekka, en þótt það væri ekki gott, þá drakk ég af því og varð ekkert meint af.
Hvað mat snerti áttum við lítið og ekkert. Man ég, hve hrifinn ég var, er Árni Johnsen gaf mér eitt egg að borða. Það var allur lagsmatur minn þá, fyrr en um kvöldið að tekist hafði að sjóða nokkra lunda við eld, sem kveiktur hafði verið úr fúaspýtum og fleiru drasli. En það hafðist þó að sjóða, þótt engin væri olían. Hún var þrotin, sem annað.
Mörgum árum seinna, líklega 1928, var ég í Brandinum, ásamt þeim Jóhannesi H. Long og Guðmundi Árnasyni, Ásgarði. Að sjálfsögðu þurftum við að fá vatn í hverri ferð og varð að fara mjög sparlega með það.
Smákofakríli var að vísu komið þar þá með járnþaki yfir, og fengum við þar af dálítið vatn, ef rigndi. En það var þó ekki fullnægjandi, ef vel átti að vera. Kofi þessi var svo lítill að ekki var hægt að standa uppréttur inni í honum, heldur varð maður að ganga þar inni meir en hálfboginn, jafnvel að skríða. Þar var ein allsherjar flatsæng, sem þó var þannig gerð, að hún var strigi, strengdur á 2-3 langbita og neglt á hvern bita. Þetta var að vísu betra en liggja í moldargólfinu, en slæm vistarvera var þetta.
Einn dag var ég á gangi í sumarblíðunni og varð reikað neðan við Rauðhamar austur eftir bergfláanum. Þá sá ég upp við rætur Rauðhamars, þar sem hann liggur á bergfláanum, að koppar nokkrir eða hellar voru alveg upp við rætur hamarsins. Sá ég ekki betur en að þar vætlaði eitthvað af vatni undan hamrinum. Ég gekk því upp í þessar hellakompur, sem voru nokkuð mismunandi stórar. Sá ég fljótt, að þarna rann nokkuð af vatni í þéttum dropum. Ég hafði þá gamalt ráð, sem ég hafði lært af viðlegumönnum í Suðurey, að sækja mér seglgarn og nagla upp í kofa, tyllti naglanum í bergið rétt við dropann og leiddi hann svo á seglgarninu þannig, að úr 3-4 dropum myndaðist eitt niðurfall. Þeir féllu svo ört að á mjög skömmum tíma hafði ég fyllt ketilinn af mjög góðu drykkjarvatni.
Rétt síðar fór ég svo enn á stúfana með seglgarn og nagla, leitaði að sem flestum vatnsdropum, sem voru í öðrum skútanum vestanfrá, hafði þar hina sömu aðferð og náði að sameina allt að 10-12 dropa í eitt niðurfall. Setti ég svo kvartel undir. Má segja, að vatnið streymdi stanzlaust í kvartelið, enda fór svo, að morguninn eftir var það orðið fullt af bezta bergvatni. Eftir þetta þurftum við aldrei að fá vatn að heiman. Það var nóg vatn, sem kom undan Rauðhamrinum.
Þá datt mér oft í hug, hefði maður athugað þetta um árið 1909, er við urðum sem verst úti með vatn í Brandinum. En þá datt þetta engum í hug. Þessu líkt leiddum við vatn í Suðurey um alllangan veg og heppnaðist það ágætlega. Sparaði það okkur mikið erfiði að fá að heiman og draga upp á Hellunni 40 pt. anker af vatni. Þar er dráttarhæðin 32 faðmar og uppdráttur mjög erfiður og þá alveg sérstaklega að ná hlutunum inn fyrir brúnina, upp úr hjólinu, sem er í bjargstokknum og síðan lyfta, t.d. ankerinu inn fyrir brúnina. Það var mjög erfitt og alls ekki hættulaust, þótt slys yrðu aldrei af því, svo kunnugt sé.

Bólsöngur Brandsmanna eftir Óskar Kárason


(Ból þýðir enn þann dag í dag: Kofinn.)
Lag: Auf wiedersehn...
Ég elska Brand
það lista land
með fjalladjásnin fríð.
Við fuglaklið
um sæla sumartíð.
Þar unaðssýn mér aldrei dvín
er Eygló skæra skín.
Ég elska Brand, það lista land,
því hann er eyjan mín.


Þá hefir og Ási í Bæ gert kvæði um Brand, sem er þannig og var sungið í lundamannahófi árið 1956:
Suður í Brandi á blíðu dögum
betur hvergi í heiminum ég una má.
Fýllinn er alinn á ljúfum lögum,
lundinn Gísla dolfallinn hlustar á.
Bróðirinn Nonni með breiðar herðar
blundar þarna niðri við Grænafles.
Enn eru súlurnar illa gerðar.
Annar Gíslanna hlustar bara á Gufunes.
(það sumar var á Vestmannaeyja Radio stúlka úr Gufunesi og talaði að sjálfsögðu oft við strákana í úteyjunum í viðskiptum þeirra við Heimaey).


Í Brandinum:
Þekur Brandinn fuglafans,
flóðið unna sefur
tekur húma geislaglans,
geiminn sunna vefur.
Í Brandinn, sem aðrar úteyjar, koma stundum gestir frá Heimaey. Þá er oft glatt á hjalla og margt skemmtilegt ævintýrið varð til, eins og eftirfarandi gamanbragur bendir til:


Ævintýrið í Brandinum
Ljóð eftir Á.Á.
Ég fann Stínu á randi, fyrst út í Brandi
sem fullvaxna mey í ágætu standi.
Ó, hve var gaman, að vera þar saman, Ula la la la ley.
Við fórum þar bæði í felur og næði
og fundum í brekkunni skuggafyllt svæði.
En hugurinn minn dvaldist við hrundina og kvaldist, Ula la la la ley.
Ég breiddi út frakkann og braut saman jakkann
og bjó okkur sæti neðan við slakkann.
Það fór um mig straumur, mér fannst þetta draumur, Ula la la la ley.
Og augu mín glóðu af æsingu og stóðu,
þau störðu á meyna í töfrandi móðu.
Ég blossaði af hita og bullandi svita, Ula la la la ley.
Ei ástarbrögð kann ég, en innvortis brann ég,
þá ilminn af lokkandi vörunum fann ég.
Ég fitlaði um hvarminn og freistandi barminn, Ula la la la ley.
En loks var svo kysst og klappað af lyst
og kvakað í eyra: „mig langar í meira“.
„Ó, elsku Mundi,“ hún æjaði og stundi, Ula la la la ley.
Þá birtist þar Hjalli sá bannsettur tralli,
ég bölvaði í hljóði og allt varð í skralli.
Því daman var flúin og draumurinn búinn, Ula la la la ley.
Þannig endaði það ævintýrið....


Af fýlseggjum og veiðiþjófum


Í Brandinum verpti fyrrum mjög mikið af fýl. Var auðvelt að ná sér þar í egg hans, þar eð mestallur verpti hann uppi á eynni, þar sem auðvelt var að þeim að komast. Til hafa orðið nokkrar vísur um slíkar eggjaferðir fyrr á árum, en nær allar munu þær nú glataðar. Hér læt ég eina fylgja sem sýnishorn. Líklega mun vísan vera eftir Ólaf Magnússon í Nýborg:

Una segir ekki gott
um það niðri í Sandi,
að einhver hafi eggjakopp
aflað sér í Brandi.

Una mun hafa verið Una Guðmundsdóttir, kona Guðmundar Erlendssonar í London, hafnsögumanns og bónda þar.
Margir hafa fengið sér egg í leyfisleysi í Brandi, og til hafa orðið vísur um þau eggrán.
Eftirfarandi mun vera eftir Brynjólf Einarsson bátasmið, - ort á seinni árum. En þetta á alltaf við, þar eð eggjum er enn þann dag í dag rænt í Brandi sem annars staðar, eftir því sem menn geta komið slíkum ferðum við:

Vélskipi fögru var snúið frá sandinum,
snöggt átti að halda til rána í Brandinum.
Réð fyrir liðinu rauðhærður stórbófi,
rænandi, étandi fýlsegg í óhófi.
Áfallalítið með Urðunum flutu þeir,
en örðuga lendingu í Brandinum hlutu þeir.
Furðaði margan að farið ei brutu þeir.
Forsjá og handleiðslu guðanna nutu þeir.
Brattgengir uppeftir bjarginu stigu þeir,
á brúnina niður af ofþreytu hnigu þeir.
Í þjófstolnum tógum í syllurnar sigu þeir,
en skjálfandi af hræðslu í buxurnar migu þeir.
Fýlsunga kveinstafir bárust úr Brandinum,
bágstaddir jarðamenn krupu í sandinum.
Treystu sér ekki að berjast við bófana,
en bannfærðu grátandi fýlseggjaþjófana.Nýi kofinn vel úr garði gerður


Bezti kofinn og sá, sem nú stendur þar og er í árlegri notkun, hann byggðu þeir félagarnir Gísli Eyjólfsson, Bessastöðum, Eggert Gunnarsson, Víðivöllum, Jón Bryngeirsson, Búastöðum eystri, Ármann Eyjólfsson, Bessastöðum, Guðbjartur Herjólfsson, Einlandi og Ingólfur Guðjónsson, Oddsstöðum.
Þessir voru þeir, sem fyrst lögðu hönd á bygginguna í Brandi og störfuðu að henni vel og vandlega. Eru þeir og mjög lagtækir menn og sumir ágætis smiðir, svo þeim veittist auðvelt að koma upp myndarlegu húsi í Brandinum. Er ekki að að efa, að öll smiðstæknileg vinna hvíldi mest á smiðunum, en hinir lögðu fram alla sína krafta og vilja til þess að kofinn yrði sem allra best úr garði gerður. Sýnir meðfylgjandi mynd að svo er, laglegt sumarhús og haganlega innréttað. Vatn hafa þeir hingað til fengið nægilegt af þakinu á kofanum, en þó gildir sú regla auðvitað þar sem í öðrum úteyjum að fara sem bezt með vatnið. Ekki hafa seinni ára viðlegumenn tekið vatn undan Rauðhamri, eins og við gerðum 1928, enda aldrei hingað til sorfið að viðlegumönnum vatnsleysi, svo teljandi sé.
Nú vill máske einhver spyrja, hvers vegna enginn kofi hafi verið í Brandinum sem öðrum úteyjum. Það var vegna þess að lunda mátti aðeins veiða í fýlabyggð, (Brandurinn var fýlabyggð), frá 20. maí til 1. júní eða aðeins tíu daga. Þannig var og með önnur fýlapláss. Þannig var það með okkur sumarið 1909, sem ég minntist á, að við vorum í Brandinum 10-12 daga, en fórum þaðan svo í Suðurey og vorum þar, það sem eftir var lundaveiðitímans.Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit