Ingólfur Guðjónsson (Oddsstöðum)
Sjá aðgreiningarsíðuna fyrir aðra sem hafa borið nafnið „Ingólfur Guðjónsson“
Ingólfur Guðjónsson var fæddur 7. febrúar 1917 og lést 16. nóvember 1998. Foreldrar hans voru Guðjón Jónsson frá Oddsstöðum og Guðrún Grímsdóttir. Ingólfur var elstur fjögurra alsystkina. Frá fyrra hjónabandi föður hans átti hann tólf hálfsystkini. Auk þess átti hann tvö uppeldissystkini, Hjörleif Guðnason og Jónu Pétursdóttur. Ingólfur bjó með móður sinni til æviloka hennar en hún lést árið 1981. Fyrst bjuggu þau á Oddsstöðum en í kringum 1970 byggði Ingólfur nýtt hús í norðanverðu Oddsstaðatúninu. Það hús fór undir hraun. Í miðju gosinu keypti hann þeim húsið að Hásteinsveg 62 og fluttu þau heim strax að lokinni yfirlýsingu um goslok. Auk þess reisti hann bústað, nýja Oddsstaði, í Ofanleitishrauni.
Eftir barnaskólanám lauk Ingólfur námi við Gagnfræðaskólann í Vestmannaeyjum. Að því loknu hóf hann prentnám í Prentsmiðjunni Eyrúnu í Eyjum árið 1935. Hann lærði hjá Þorvaldi Kolbeins og starfaði þar um árabil. Síðan fluttist hann til Reykjavíkur og vann sem setjari við Prentsmiðju Þjóðviljans allt til ársins 1960. Þá fluttist hann aftur til Vestmannaeyja og hóf fljótlega störf í Útvegsbanka Íslands, síðar Íslandsbanka, og vann þar til ársins 1987. Frá árinu 1989 dvaldist hann í Hraunbúðum, dvalarheimili aldraðra.
Ingólfur gerðist félagi í Akóges 1943 og var heiðursfélagi þess frá árinu 1986. Hann sat oft í stjórn félagsins.
Ingólfur hafði mikið gaman af bókum, eins og atvinna hans gefur til kynna. Hann safnaði bókum og átti gott safn bóka. Ekki var það einungis eign bókanna sem hreif hann, heldur einnig lestur þeirra. Hann hafði þó sinn smekk á bókum og flokkaði sumt sem rusl, eftir innihaldi og handbragði.
Heimildir
- Minningargreinar um Ingólf. Morgunblaðið. 22. nóvember 1998.