Ritverk Árna Árnasonar/Brot úr verzlunarsögu, — frásögn Bjarna Jónssonar á Svalbarði

From Heimaslóð
Revision as of 13:38, 27 October 2013 by Viglundur (talk | contribs)
(diff) ← Older revision | Latest revision (diff) | Newer revision → (diff)
Jump to navigation Jump to search
Úr fórum Árna Árnasonar


Brot úr verzlunarsögu


í Eyjum 1910-1920


Frásögn Bjarna Jónssonar á Svalbarði


Bjarni Jónsson að Svalbarði hér starfaði við Edinborgarverzlun á Akranesi í 3 ár eða til ársloka 1909. Um það leyti hætti sú verzlun störfum, ásamt fleiri Edinborgarverzlunum hérlendis. Var Bjarna þá boðið pakkhúsmannsstarf við Edinborgarverzlun í Vestmannaeyjum hjá Gísla Johnsen, hinum brezka ræðismanni þar.
Flutti Bjarni sig þá með konu sína og 1-1/2 árs son þeirra til Eyja í byrjun febrúar 1910. Tók Gísli mjög vel á móti þeim og lét þeim í té íbúð í Godthaab, sem var íbúðarhús hans sjálfs, áður en hann byggði húsið Breiðablik. Íbúðin í Godthaab var hin allra besta. Þar bjó Bjarni í 3 ár og leið ágætlega vel. „Án þess að á það væri minnst fundum við, að Gísli þarfnaðist þessara húsakynna vegna fyrirtækis síns.“ Árið 1912 byggði Bjarni því íbúðarhús sitt, er hann nefndi Svalbarð og flutti fjölskyldan þangað 2. jan 1913. Síðan bjuggu þau þar ávallt og Bjarni enn eftir lát konu sinnar.
Gísli Johnsen reyndist þeim hinn mætasti húsbóndi. Nutu þau hjónin mikillar velvildar hjá honum og konu hans frú Ásdísi. Í orðum og athöfnum urðu þau Anna og Bjarni þess vör, að starf Bjarna var af þeim Gísla vel metið, og margar ánægjustundir áttu þau á heimili Gísla og Ásdísar.
Vegir Bjarna og Gísla skildust, en alltaf fannst Bjarna hann standa í þakklætisskuld við hann og heimili hans. „Ég sendi honum því með þessum línum mínar hugheilustu óskir um farsæl ólifuð æviár,“ segir Bjarni í skrifum sínum.
Ritað 26/3 1958.

„Fyrstu framkvæmdir mínar hjá Gísla,“ segir Bjarni, hafi verið þær að láta smíða „stóla“ undir olíu- og tjörutunnur. Tunnur þessar voru hafðar á kössum fyrr og var erfitt og oft óþrifalegt að láta þær upp á kassana, sem skjögruðu til, ef hart var við þá komið. Svo lét ég reka járnbolta í bitana yfir hverri tunnu og hengdi á hann uppdráttarblökkina. Að láta tunnu á stokkana var eins og það var kallað, kom ekki við mann eftir þetta, segir Bjarni.
Ég skal bæta því við, sagði Bjarni, að aldrei nokkru sinni fann Gísli að nokkrum þeim breytingum, sem ég gerði á ýmsu varðandi starf mitt. Hann sá og skildi, að það miðaði til góðs.
Eitt fyrsta verkið utanhúss, sem Bjarni vann hjá Gísla Johnsen, var að setja uppskipunarbát upp í „ Fúlu“. Þá var enginn verustaður fyrir þessar fleytur, nema annaðhvort á þurru landi eða við bryggjur, en við bryggjurnar höfðu uppskipunarbátarnir engan frið á vertíðum fyrir motorbátunum, sem ruddu þeim frá og festu þá einhvernveginn og einhversstaðar. Þótti gott, meðan þeim var ekki sleppt lausum.
Þegar þessa dags athöfn Bjarna fór fram, að setja bát upp í Fúlu, var komið myrkur og uppgangs-austanveður.
Tveir ungir og mér samhentir menn fylgdu mér frá Akranesi og ætluðu að vinna hjá okkur um veturinn. Öðrum mönnum var mér sagt að smala saman úr beituskúrunum og aðgerðarhúsunum. Og menn þessa fékk ég fleiri en þörf var á.
En vinnubrögð þessara mörgu manna voru þannig, að hver vann á móti öðrum. Allt lenti í óhljóðum og samtakaleysi. Þegar ég sá, hvað verða vildi, bað ég þá að hætta sem fljótast og lét þá vita, að þessum, sem ég ákvað vinnubrögðum, væri ég óvanur. Síðan fékk ég mér aðra menn, miklu færri. Þá brá svo við, að við fórum upp með bátinn eins og fis væri. En þetta var í fyrsta og síðasta sinni, sem ég átti við svona vinnubrögð að búa.
Strax á eftir safnaði ég saman öllum uppgjafa bátakeðjum, sem ég fann með fjörum fram og uppgjafa akkerum og lét útbúa úr dóti þessu legufæri, sem ég lét svo leggja innan við motorbátana á Botninum. Fór þar vel um bátana svo að varla kom fyrir, að bátur slitnaði upp og ræki á land upp, þ.e.upp í Botninn.
Þannig segir Bjarni Jónsson frá.
Það mun hafa verið fyrsta veturinn, sem Bjarni var hjá G.J.J., að Gísli fékk 6-700 tonna saltskip. Það hét „Otto Sinding“.
Það gekk mjög illa að ná upp úr skipinu. Það lá hér líklega 21 dag. Það var oftast austanátt, ekki svæsnari en svo, að það var oftast róið, en ekkert uppskipunarveður margan hvern daginn. Hvert tækifæri var þó notað, þótt mannfæð væri mikil og enginn dráttarbátur.
Svo var það einn logndaginn, sem kom. Það var mikið brim þann dag. Voru allir motorbátar á sjó, en árabátar ekki. Þann dag allan var skipað upp „ á fjórar árar“; um dráttarbát var ekki að ræða, svo að ekki var annað hægt en róa bátunum.
Alltaf varð að lenda við Austurbúðarbryggjuna, sem var austasta bryggjan í Eyjum, því að aldrei komumst við innfyrir „Hnykilinn“, sagði Bjarni. Þeir urðu „að liggja til laga“ út og inn Leiðina.
Þegar svo fyrsti báturinn kom að, fór Bjarni austur á bryggju með það fyrir augum að hjálpa til að ná upp úr honum. Þá var verkstjórum ekki bannað að vinna með fólkinu, ef á lá eins og nú tíðkast.
Ofan við bryggjuna mætti Bjarni einum bátsmanninum, þaulvönum og duglegum bátsmanni. Sagði hann þá strax við Bjarna: „Ég fer ekki út aftur.“ Bjarni horfði á hann og spurði hversvegna. „Það er svo vont að það tekur iðulegast af leið,“ svaraði maðurinn. Bjarni vissi vel, hvernig sjólagið var og lét því mann þennan fara upp í pakkhús og vinna þar, en fékk annan mann, vel duglegan, í bátinn og fara út eftir salti. Og áfram var haldið að vinna, þótt erfitt væri.
Svo fóru motorbátarnir að koma úr róðri. Áttu margir þeirra menn eða mann hjá Bjarna í saltvinnunni. Það voru aðgerðarmenn og beitumenn. Starfsliðinu fækkaði því óðum, og til þess að geta haldið áfram á meðan birtan entist, fór Bjarni út með bátsmönnum síðustu ferðirnar.
Þá urðu þeir enn að liggja til lags til að komast inn Leiðina, þó að hátt væri orðið í sjó. Þá var það, að Ísleifur á Kirkjubæ Guðnason kenndi Bjarna að leggja á Leiðina utan frá.
Enn var þá illfært á opnum, hlöðnum uppskipunarbátum yfir Hnykilinn og var þá enn lent við Austurbúðarbryggjuna, enda var Gíslabryggjan og Bæjarbryggjan alsett mótorbátum, sem voru að afferma afla sinn.
Svo var það, að þegar síðasti báturirm var að renna að bryggjunni, (Bjarni var í honum), að útgerðarmaðurinn kom hlaupandi niður hana, baðandi öllum öngum og hrópandi. „Farið frá, farið frá, hann Hrólfur er að koma.“ Það var báturinn hans og hafði hann bækistöð sína þarna austur frá á Bryðespöllunum og lenti alltaf, þegar mögulegt var við Brydesbryggjuna.
Auðvitað hrökkluðust þeir á saltbátnum frá og innfyrir Hnykilinn norðarlega og upp í Lækinn. Þar var hvert rúm setið upp með báðum bryggjunum.
Yztur báta við Gíslabryggju, á mótum trébryggjunnar og SteinsinsÁsdís, bundin með köðlum og keðjum. Á henni skullu ólögin. Hana bar hátt, þar sem hún lá, og tók svo á, að allt ætlaði upp að ganga og í henni brast og brakaði, er hún skall á bryggjunni. En þetta stóðst Ásdís. Hún átti eftir að fara marga happaferðina, blessaði báturinn.
Mig tók það sárt að sjá þessa meðferð á bátnum og komu í hug orð þau, er Jón gamli í Gvendarhúsi sagði sætkenndur, er hann rak sig á skipið sitt í Hrófunum: „Æ, fyrirgefðu, Gideon minn. Ekki ætlaði ég að meiða þig.“
Já, Ásdís fór eftir þetta marga happaferðina, bæði til fiskjar og flutninga. En þarna virtist ekki nein fyrirgefningarbón vera á ferðinni. Inn í Lækinn komumst við heilu og höldnu, lögðumst innstir allra við Gíslabryggju, losuðum bátinn við farminn og héldum svo heim, þreyttir og slæptir.
Nú gerði sjóðvitlausan útsynning, sem hélzt eitthvað. Sunnudagsmorgun einn kl. 4 vaknaði ég og heyrði ekkert til vinds. Og fór fram úr og leit út. Jú, í heiðríkju sást. Ég klæddi mig og fór ofan, en í dyrunum gaus á móti mér sótsvart útsynningsél. Það birtir upp, hugsaði ég með mér, og hélt út í mökkinn. Skömmu síðar birti upp. Mér varð fyrst fyrir að ná mér í vinnumenn, áður en farið væri AÐ HUGSA til róðra, ef það skyldi verða gert.
Ég fékk brátt nóga menn, og það sem bezt var, fékk ég líka dráttarbát (slefbát). Svo var lagt út, 3 uppskipunarbátar. Meðan þeir voru úti við saltskipið sína fyrstu ferð, ruddum við snjóinn af veginum, bjuggum til sliska úr plönkum inn í pakkhúsið (efra pakkhúsið, austan við búðina), því að þangað var saltinu ekið. Veður var hið bezta, smá éljagangur, en logn að mestu, — og svo dráttarbátur. Það var mikill munur eða að þurfa að róa uppskipunarbátunum í land.
Meðan lágt var í sjó, losuðum við bátana beggja vegna „Steinsins“.
Svo komu nú dagmálin. Þá höfðum við bát að losa, en hinir voru úti við skip. Báturinn lá austanmegin. Í þessum bát voru þeir Ísleifur á Kirkjubæ og Ólafir Jónsson í Garðhúsum. Ísleifur var fyrirmaður á bátnum. Meðan verið var að losa, gerði dimmt él. Svo lauk losuninni, en ekki birti upp. Þá kom þeim saman um að drekka kaffið sitt, meðan élið stæði. Þetta var gert. Saltið var komið sunnan frá talsvert norður eftir gólfinu og austan frá vestur undir stigann, sem lá upp á loftið. Dálítið skot var þá enn undir stiganum. Ofan í saltið bak við stigann fleygðu þeir sér, Ísleifur og Ólafur, og drukku þar kaffið, en ekki birti upp élið. Og var ég, eins og sagt er, með lífið í lúkunum yfir því, að þeir mundu hætta við að fara út aftur. Með sjálfum mér fannst mér ég vera viss um, að upp mundi stytta, en þorði í sannleika sagt ekki að eggja þessa duglegu menn.
Allt í einu sprettur Ísleifur upp og segir: „Við skulum nú fara, einhvern tíma birtir upp.“
Þeir fór svo út, Ólafur og Ísleifur. Það var sem steini væri af mér létt. Ég fylgdist með þeim niður á bryggju. Þeir fóru strax í bátinn, leystu hann og ýttu frá. Og það segi ég satt, að þegar báturinn var vel laus við bryggjuna, kominn útfyrir skerið „Skötu“, þá var hann horfinn í moldviðrið. Svo svart og þykkt var élið. En bráðum birti upp, og uppskipunarveðrið varð hið ákjósanlegasta allan daginn úr þessu. Þetta hreystilega viðbragð þeirra Ísleifs og Ólafs varð þess valdandi, að ekkert hik varð á vinnubrögðum. Var uppskipuninni haldið áfram til kvölds.
Daginn eftir var enn betra veður, en þá var aðstaðan önnur. Þá voru allir mótorbátar á sjó og því engan dráttarbát að fá og vinnufólk fátt. Þegar leið á daginn, bókstaflega „týndist“ fólkið frá okkur og fór að sinna aðgerðarstörfum o.fl.
Eins og fyrr fór ég út sem bátsmaður. En við urðum að hætta uppskipuninni um kvöldið, fyrr en við vildum. Þegar síðasti báturinn fór frá skipinu í land, tilkynnti skipstjórinn mér, að nú færi hann. Hann gæti ekki beðið lengur. Og svo fór skipið með 20 tonn í sér af saltinu.
Fyrir þessi vinnubrögð okkar höfðaði útgerðarfélag skipsins skaðabótamál á G.J.J., og unnu þeir það, að sögn fyrir gefin vottorð tveggja mætra Eyjamanna. Varð Gísli að borga útgerðinni rúmar 3 þúsund krónur í dagpeninga. Það var illa farið og óréttmætt.
Þegar ég kom til G.J.J., hafði hann mikil samskipti við brezka togara, enda var hann ræðismaður Breta hér. Annaðist hann margskonar greiðslu fyrir togarana, t.d. hafnargjöld, sjúkrahúskostnað, kola-, vatns- og vistagjöld o.m.fl. Oft keypti hann af þeim lifur, er þeir höfðu hana á boðstólum.
Þegar togari gerði vart við sig, fóru erindrekar Gísla út í þá. Dvaldist þeim stundum óþarflega lengi um borð og var oft nokkuð áliðið dags, er ég fékk að vita, hvað átti að gera fyrir togarana. Oft var þetta engu síður, þótt þeir leituðu hafnar snemma dags.
Þessi silaháttur erindrekanna gjörði afgreiðsluna mörgum sinnum erfiðari en hún hefði þurft að vera, og auk þess dýrari. Vinnufólk okkar á þeim árum, um vertíð, þegar um skipaafgreiðslur og þess háttar var að ræða, var einkum landfólk útgerðarinnar og árabátasjómenn, þegar ekki var sjóveður fyrir þá. Þegar svo bátarnir komu að, misstum við beitumenn og aðgerðarmenn, en árabátasjómönnunum héldum við oftar út daginn, ef þurfa þótti.
Það kom því oft fyrir, að þessi vinnubrögð okkar við togarana entust fram eftir nóttinni, og vorum við því oft að paufast við þetta í myrkri og misjöfnu veðri. Oftast vorum við róandi milli skips og lands og má mikil mildi kallast, að aldrei skyldu slys af þessu hljótast.
Eitt kvöldið, er við vorum hættir vinnu og vorum að leggja af stað heim, kom skipun um að sækja lifur út í togara. Veður var einmuna gott en dimmt. Eins og alltaf fór ég með þeim út í skipið. Var svo farið að láta í bátinn 35 föt lifrar, og voru tunnur þessar af olíutunnustærð.
Þetta var fullmikil lestun á bátinn. Ég hafði auga með hleðslunni og sá, hvað henni leið.
Þegar eftir voru 5 lifrarföt, var báturinn raunverulega orðinn nægilega hlaðinn. En veðrið var svo kyrrt, sjór rjómasléttur, og myrkrið bagaði okkur ekki. Allt í einu er sagt við mig á íslenzku: „Heldurðu, að þú ættir að láta meira í bátinn, hann er orðinn býsna hlaðinn.“ Hér var þá Íslendingur um borð. Ég lét sem ekkert væri, en sagði, að mig langaði til að láta þær allar í bátinn, svo að við þyrftum ekki að fara aðra ferð.
Og allar létum við tunnurnar í bátinn og lögðum frá. Þá létti togarinn akkerum og rölti í hægðum sínum á eftir okkur inn undir Leiðina og beið svo þar, þar til við vorum lentir.
Það var komið að miðnætti, þegar við vorum búnir að losa bátinn, ganga frá honum, velta tunnunum upp og skorða þær.
Hvort það var fyrir þessa næturferð eða aðra, að G.J.J. gaf mér 5 hálfpunds gullpeninga morguninn eftir, man ég nú ekki, en fyrir einhverja slíka ferð rétti hann mér þetta. Áttum við Anna kona mín þessa peninga lengi til minja um góðvilja Gísla í okkar garð.
Einu sinni sem oftar fórum við út í togara að sækja lifur. Það var þá komið fram undir myrkur. Lifrartunnurnar voru aftast á skipunum, gangurinn þar þröngur og afar vont að koma tunnunum fram eftir, enda voru vinnubrögð togaramanna eins og þeir gætu ekki á tunnunum tekið.
Það sauð í mér illskan, þegar ég sá, hvernig vinnubrögðin gengu. Okkur lá sannarlega á að komast í land, áður en mjög dimmt yrði, þar sem líka veður var ekki sem bezt. Ég fór því aftur á til þeirra og spurði, hvort þeir vildu ekki, að við hjálpuðum þeim. Jú, þeir vildu það og sögðu, að það væri svo illt að eiga við þetta. Ég bað þá piltana að koma og hjálpa til að ná tunnunum fram. Þá gekk þetta vel. Þeir bæði voru ófeimnir og kunnu að taka á tunnunum. Hinir ensku hættu og horfðu bara á okkur vinna. Að stuttri stund liðinni vorum við búnir að fylla bátinn og farnir í land. Þetta hafði gengið vel og öllum vonum framar.
Saltskip fengum við eitt sinn að haustlagi. Það var gufuskip um 600 tonn. Skipið hér „Knud Knudsen“. Það var mikið snoturt skip og skipstjóri þess sérlega viðkunnanlegur maður.
Austan stormur var, þegar skipið kom, svo að það lagðist við Eiðið og lá þar upp undir vikutíma án þess að hægt væri að eiga neitt við það, hvað uppskipun viðkom. Alltaf var ófært á Víkinni.
Á innri höfninni tíðkaðist þá ekki að losa svo stór skip og þunglestuð. Því var og þannig háttað, að sá, sem átti farm skipsins, mátti passa sig á því að byrja ekki affermingu, fyrr en útlit væri fyrir, að afferming gæti gengið nokkurn veginn greiðlega. Affermingartími var reiknaður frá þeirri stundu, sem byrjað var að afferma. Gísli var í þessu tilfelli ekki skyldugur að afferma skipið innan fyrir Eiði, losunarstaður var ytri höfnin, þ.e.Víkin. Þar áttu skipin að affermast, en ekki við Eiðið. Þaðan hefði þurft að fá affermingu með motorbátum, sem hefði vitanlega orðið ákaflega dýr.
Þá var það seinni hluta dags eins, að Gísli kom til mín út í pakkhús og bað mig að hafa gát á því, ef Hannes Jónsson lóðs kæmi með skipið inn þá um kvöldið á flóðinu. Ef úr því yrði, bað hann mig um að senda honum menn til aðstoðar við að leggja skipinu. Þetta hefir líklega verið afgert, þegar skipstjórinn kom í land í dag, hugsaði ég. Hann hafði látið setja sig upp á Eiðið.
Það lá við, að í mig hlypi nokkurskonar glímuskjálfti. Að fá fermt skip nærri því upp að bryggju.
Nú lá á að bregðast ekki að óþörfu. Myrkur var að detta á.
Þá heyrði ég skip blása. Ég þaut eins og elding niður á bryggju og sá, að skipið var að leggja á Leiðina. Innan við hana beið mannaður bátur frá okkur, og renndi hann sér upp að hlið skipsins. Í bítið morguninn eftir byrjuðum við að skipa upp. Var þá komið logn, en brim var mikið, svo mikið að ófært mátti kallast við bryggjuna. Út var auðvitað farið og fór ég með, en kom aftur í land með fyrsta bát.
Úti við skipið var auðvitað eins og á lygnu stöðuvatni. Þegar við renndum að bryggjunni, stóð gamall og reyndur Vestmannaeyja-sjógarpur og hellti yfir mig skömmum fyrir að vera að skipa upp í svona brimi. Sagði hann það réttast að hætta, þar til lægði svolítið.
Meðan þetta dundi á okkur, heppnaðist að festa bátinn við bryggjuna. Við byrjuðum að losa. Við sögðum það ekkert spaug að hætta nú, skipið búið að liggja svona lengi aðgerðarlaust fyrir innan Eiði. Nú væri það komið sama sem upp að bryggju og skipa svo ekki upp úr því í logni og sólskini. Nei, það væri ekki hægt að hegða sér þannig.
En verr tókst til með næsta bát. Áður en hann yrði að fullu festur við bryggjuna, greip ólagið bátinn og henti honum flötum upp í Lækinn. En fyrir dugnað verkamannanna og snör handtök þeirra, náðist báturinn út á næsta útsogi sjávarins. Ekki létu bátsmenn sig muna um að stökkva fyrir borð og taka bátinn út. Nei, aldeilis ekki. — Þannig unnu menn þá.
Svo var haldið áfram frá því snemma morguns, þar til seint um kvöldið, hvern dag, þar til saltið var allt komið í land, lestin hreinsuð og garneruð og talsvert af þurrum saltfiski komið út í það. Þetta var leikur og meira en það.
Það var ánægja að afgreiða skip svona rétt framan við bryggjuna, auk þess sem þessi afgreiðsluháttur fór betur með öll áhöld.
Einn daginn gerði NA-storm, og auðvitað rérum við þá ekki á milli skips og bryggju, heldur strengdum streng-kaðal milli skipsins og bryggjunnar. Svo drógum við okkur áfram eftir strengnum.
En svo kom sunnudagur, síðasti dagur okkar við þetta blessaða skip. Veður var hið bezta innan hafnar, en á ytri höfninni var sjór úfinn, svo að illmögulegt var að afgreiða es. Sterling, sem þá lá þar og beið afgreiðslu. Sterling valt eins og kefli, bátarnir slitnuðu frá, vörur skemmdust, og bátsmenn urðu að verja sig gegn meiðslum.
Afgreiðslan gekk því mjög illa og erfiðlega. En inni á innri höfn hjá okkur, sem afgreiddum saltskipið; það var nú eitthvað annað. Alveg eins og við lægjum á lygnasta stöðuvatni, enda gekk vinnan hjá okkur upp á það bezta. Kl. 11 f.h. var allur fiskurinn kominn um borð og við byrjaðir að skipa út sundmagasekkjum. Síðast áttu að fara út nokkur hundruð tómar steinolíutunnur, sem áttu að láta á dekk, og svo átti skipið að fara til Reykjavíkur.
En þegar hér var komið sögu, kom Hannes lóðs um borð og sagði: „Þið verðið að hœtta. Ég er farinn út með skipið.“ Okkur brá í brún. Við hefðum ekki þurft nema 2-3 klukkutíma til að ljúka við að afgreiða skipið okkar til fulls. En hér dugðu engar fortölur né góðar bænir.
Saknaðaraugum horfðum við á eftir skipinu okkar út Leiðina, sáum það leggjast við akkeri á Víkinni og sáum það veltast þar og bíða eftir mjög stirðri lokaafgreiðslu. Þetta bragð Hannesar, kempunar, var til þess, að við vorum það, sem eftir var dagsins og allt framundir miðnætti að koma því, sem eftir var, út í skipið. Svo vont var við skipið þarna, að undrun sætti, að bátsmenn skyldu ekki kastast út af tunnustaflanum.
Með allri virðingu fyrir kempunni Hannesi mínum lóðs, þá var það ekki honum að þakka, að ekki hlauzt slys af þessari einþykknislegu ráðstöfun hans. Auk þess var þetta óþarfa grikkur, því að á flóðinu um kvöldið var enn bjart veður, svo sem bezt getur verið að nóttu til. Þessvegna var alveg eins hægt að fara út með skipið þá eins og um daginn. En þetta var ekki í fyrsta sinni og ekki heldur í síðasta skiptið, sem við urðum fyrir barði þessa drottnunarvalds. — En út í skipið fór allt, sem í það átti að fara. Ekki varð því hnekkt, þótt erfiðari yrðu aðstæðurnar.
Mig minnir, að það hafi verið skipið Pollux, sem kom hér eitt sinn frá Reykjavík. Átti skipið ekkert annað hér að gera en taka 35 lýsisföt, sem Árni Sigfússon kaupmaður átti. Það var ofurlítill suðaustan kaldi og kylja úti fyrir, en logn og sléttsævi á innri höfninni.
Við notuðum „Koba“ til þessarar farar. Við vissum, að hann mundi fullhlaðinn af þessum 35 lýsisfötum, en álitum, að þetta myndi þó heppnast. „Halkion“ var betri undir farmi. Við hlóðum bátinn austan megin við Bæjarbryggjuna. Dráttarbátur tók okkur utan við bryggjuna. Í honum var Árni Sigfússon, ásamt formanni bátsins.
Þegar út fyrir Leiðina kom, mætti okkur hægur suðaustankaldi og dálítil bára. Þetta hefði ekkert verið eða sakað, hefði verið haldið í báruna, en þess í stað stefndi dráttarbáturinn á Klettshelli. Skipið lá sunnarlega á Víkinni. Var því stefnan beint í báruna hin ákjósanlegasta.
Með þeirri stefnu, sem tekin var, höfðum við báruna á hlið. Það fór því strax að gefa á bátinn, og varð ástandið hið alvarlegasta. Við jusum af kappi, bæði frammí og afturí, en lítið dugði það. Við kölluðum til dráttarbátsins, veifuðum og bentum, en eftir því var ekkert tekið.
Við höfðum 4 árar meðferðis. Sagði ég bátsmönnunum að taka árarnar og leggja fyrir framan hvern þeirra, þvers yfir bátinn, ef illa færi, svo að þeir gætu þá gripið þær. Loksins tók Árni eftir ástandinu hjá okkur í uppskipunarbátnum, hrópaði upp yfir sig og fórnaði höndum til himins. Var þá rétt stefna samstundis tekin.
Við stefnubreytingu bátsins lagaðist allt og úr öllu rættist vel. Skipsmenn höfðu haft auga með því, sem var að gerast. Við vorum varast búnir að ná í fangalínuna, þegar lauskakararnir skullu á tunnunum. Þá voru piltarnir mínir ekki seinir á sér. Þeir slógu á tunnurnar og má segja, að áður en hendi væri veifað voru tunnurnar allar komnar upp á dekk og aðrir lauskakarar komnir niður. Það var ekki lengi verið að afferma bátinn. Þannig endaði þessi ferð vel og giftusamlega, þótt illa horfðist á um tíma.
Þegar um út- eða uppskipun var að ræða utan af Vík á opnum uppskipunarbátum, þurfti að sjálfsögðu allrar varúðar við, því að segja má, að oft hafi verið teflt á tæpasta vaðið, hvað veðri og vindi við kom. Bátum þessum var oft boðið sitt af hverju, en það voru góðir bátar í sjó að leggja. En það var með þá sem aðra báta, að ávallt þurfti allrar aðgæslu við, ef vel átti að fara.
Einn daginn kom enn saltskip. Einhvern veginn var búið að ná því á ytri höfnina, þrátt fyrir stöðuga róðra og mannfæð þar af leiðandi. Nú var laugardagur og byrjað að kalda á austan. Skipið flutti sig þá innfyrir Eiði um kvöldið og lét þess getið, að það færi til Reykjavíkur næsta dag, ef ekki yrði hægt að skipa upp.
Morguninn eftir, á sunnudeginum, var varast nokkurn mann að fá. Menn voru þreyttir eftir róðra og aðgerðarstörf og þurftu hvíld. Við náðum í tvo báta G.J.J., Ásdísi og Lundann. Ekki man ég, hver var formaður með Ásdísi, en með Lundann var Peter Andersen. Hann átti einnig í honum. Ég man nú ekki, hvort við fengum einn bát enn, annan en Ester litlu frá Vatnsdal, lítinn súðbyrðing, mestu gæðafleytu, en með henni fórum við inn fyrir Eiði með áhöld, mál, vigt og skóflur. Mennirnir voru 2 unglingsmenn í lest, Sveinn Scheving hreppstjóri, sem vigtarmaður og ég til að slá út. Í landi stjórnaði Steindór Sæmundsson, ákaflega duglegur maður, en var nú illa mannaður. Þannig útbúnir möluðum við áfram allan daginn. Svo var komið myrkur, er við vorum að enda við að láta í Lundann.
Þá kom Ester út með Gísla Johnsen. Hann ætlaði með skipinu til Reykjavíkur. Hann harðbannaði mér að láta salt í Ester litlu og sagði, að við skyldum fara í land með henni tómri. Það væri ekki það kyrrt fyrir Klettinn. Svo fór Lundinn, og auðvitað fylltum við Ester líka af salti, og dót okkar settum við svo ofan á allt saman. Síðan var haldið í land án þess að kveðja G.J.J., þareð við þorðum ekki að gera það vegna banns hans um að lesta Ester.
Fyrir Klettinn fengum við kolamyrkur og bræluvind og nokkra ágjöf, en allt fór vel. Þessi litli bátur, þótt hlaðinn væri, skilaði okkur heilum í höfn, heim að bryggju.
Við lentum við Gíslabryggju; þar fyrir var Ásdís hálflosuð. Steindór var að missa mennina, og var sjálfur orðinn dauðþreyttur. Hann hafði einnig verkstjórn og vann eins og þeirra tíma var siður. Hafði hann unnið af kappi með mönnum sínum allan daginn. Átti dugnaður Steindórs ekki hvað minnstan þátt í því, að ógleymdum ungu mönnunum tveimur, sem unnu eins og berserkir í lestinni, hve mikið salt náðist þó á land þenna dag.
En nú lá við, að öllu væri að ljúka. Ég bað Steindór að reyna að halda í mennina, meðan ég færi í aðgerðarkrærnar og beituskúrana til að reyna að fá menn í vinnuna. Ég þrammaði upp bryggjuna vestur Strandveginn. Neðan við Edinborg mætti ég Peter Andersen. Hafði hann lagt Lundanum hlöðnum af salti vestan við Bæjarbryggjuna.
„Hvað á nú að gera?“ spurði Pétur, sem var vel kunnugt um erfiðleika okkar. „Á ekki að reyna að losa bátinn?“ spurði ég. „Heldurðu, að þú getir verið búinn að losa Lundann fyrir róðrartíma?“ spurði Pétur. „Það er sjálfsagt að reyna það,“ sagði ég. „En þorir þú að láta bátinn standa við bryggjuna svona hlaðinn, sem hann er?“ spurði ég. „Já, honum er óhætt,“ svaraði Pétur, „hann hallar mátulega að bryggjunni, og hann stendur á sandi. Það er bara að losa alltaf meira úr þeirri hliðinni, sem frá snýr.“ Um þetta var svo ekki meira talað og fórum við hvor sína leið. Að lítilli stundu liðinni færði ég Steindóri nægan mannskap, sem ég hafði klófest í krónum. Allir bátarnir, Ásdís, Ester og Lundinn voru losaðir.
Þegar ég kom niður eftir um morguninn var Lundinn á bak og burt í róður og kom að á venjulegum tíma vel fiskaður. Aldrei mun ég gleyma því trausti, sem Pétur sýndi mér, með því að afhenda mér bátinn eins og á stóð. En þetta var ekki fyrsta skiptið né síðasta, sem Pétur reyndist mér sem maður.
Sunnudagsmorgun einn um sumar kom Vesta frá Reykjavík. Hafði hún olíu til ýmissa hér.Veður var hið besta, blæjalogn og rennisléttur sjór. Við áttum að taka nokkuð mikla olíu í land fyrir G.J.J. og skipuðum upp á tveim bátum, en ekki var langt liðið á morguninn, þegar hvessa tók af austri og það svo hressilega að uppskipunarveðrið fór brátt versnandi.
Stórstraumsfjara var, og um tíma var fyllilega bátsbreidd milli báts og bryggjuendans. Nú lá á að flýta sér, því að út við skipið var alltaf að versna, svo að líklegt væri, að brátt yrði allt ófært. Hér var því ekki nema um tvennt að velja, að bíða til að svo félli að, að báturinn flyti að bryggjunni, en þá gat uppskipunarveðrið verið á enda, eða að velta tunnunum út úr bátnum í sjóinn og slá skrúbbtóginu á þær milli báts og bryggju. En til þess þurftu tveir menn að vaða, því að gjálpið var orðið það mikið við bryggjuna að seinlegt var fyrir einn mann að gera það. „O, ætli að það líði yfir mann, þótt maður blotni í fæturna í sumarblíðunni,“ sagði Guðjón á Sandfelli, stökk ofan af bryggjunni í sjóinn og annar maður strax á eftir. Á þenna hátt losuðum við bátana, meðan þess þurfti, án tafar og náðum allri olíu okkar í land. Einn olíumóttakandinn hafði engan bát í förum. Hann hefir sjálfsagt treyst á, að góða veðrið myndi haldast og ætlað sér að fá bát einhvers, sem myndi búinn.
Hann kom til okkar, þegar hann sá, hvernig veðrið reyndist og bað okkur um að ná í land sinni olíu, þegar okkar væri búin. Þegar við vorum búnir, var eiginlega orðið ófært á Víkinni, en við vildum ekki bregðast manninum. Ákváðum við því að gera tilraun og sendum bátinn út.
Ég fór með honum til að fylgjast með því, sem gerðist. Við komumst út að Vestu og lögðumst við afturlúguna bakborðsmegin. Þar var kyrrara. En, „ekki máttu þarna vera Duus“, — við máttum ekki vera þarna, og vissum við þá fyrir víst, að þarna var ófært að vera. Okkur var þá skipað suður fyrir skipið að forlúgunni stjórnborðsmegin, á versta staðinn við skipið eins og á stóð. Eftir barning náðum við forlúgunni. Þá var þar auðvitað svo vont að við gátum ekki bundið bátinn að framan. Urðum við að bregða bandinu undir fremri bitann, gefa eftir á því í ólögunum og draga okkur áfram á milli þeirra.
Með harmkvælum náðum við hálffermi í bátinn. Vesta gamla var borðlág, enda gekk báturinn jafnhátt lunningunni í ólögunum. Fyrir lipurð skipsmanna og dugnað bátsmanna, sluppum við án hrakfalla úr þessari ferð. Við héldum heim með þetta, sem við náðum og þar með lauk þeirri ferð. Afgreiðslan gat oft verið erfið í þá daga.
Það var vertíð. Eyjarnar voru nær orðnar olíulausar. Mátti heita, að bátarnir væru með síðasta olíudropann í sér. Þá var það einn morgun, að „Íslandið“ kom frá Reykjavík á útleið og hafði olíu meðferðis hingað. Veður var gott, en þungbúið, og var að byrja að hvessa á austan. Áður en uppskipunarbátur komst út að skipinu, var kominn stormur, svo að illdrægt var á árar. Það var okkur áhugamál að ná olíu, sem G.J.J. átti í skipinu, því að olíuleysið var svo mikið að, þótt einn bátur með olíu næðist í land til einhvers eins, þá gat sá ekki lánað hinum.
Nú kom fyrsta tunnan niður, og var hún merkt öðrum. Ég kallaði upp og sagðist vera að sækja olíu fyrir G.J.J. og ekki aðra og tæki ekki olíu nema til hans. Við þetta varð hik á afgreiðslunni. Aftast á efra þilfari við uppgönguna stóðu þeir Aasberg skipstjóri og Philipsen forstjóri D D P A í Köbenhavn. Þegar, er þeir sáu, hvað gera gjörði bentu þeir mér að koma um borð.
Á leiðinni yfir lunninguna varð ég var við, að Aaberg gaf spilmanninum merki. Ég sneri mér við og kallaði til bátsmanna og bað þá um að taka ekki á móti öðrum tunnum en þeim, sem merktar væru G.J.J. Ekki komst ég nema fram að stiganum. Þar hófst stutt, en ekki neitt sérlega vinsamlegt samtal. Þeir spurðu, hversvegna ég tæki ekki olíuna. Ég sagði, að við værum að sækja olíu fyrir G.J.J. Hann væri alveg olíulaus, og allir aðrir væru olíulausir. Gísli fengi því ekkert af því, sem við tækjum í land fyrir aðra. „Já, en við náum ekki í Gíslaolíu,“ sögðu þeir. „Jæja, sagði ég, þá fer ég í land án þess að taka nokkuð í bátinn“, og sneri frá stiganum og aftur eftir.
Þegar ég kom að lunningunni, sá ég, að tunna hékk utan á skipinu merkt öðrum. Ég henti mér yfir lunninguna og ofan í bátinn og bað piltana að leggja frá. Áður en skipsmönnum gæfist færi á að láta tunnuna síga ofan í bátinn, var hann kominn það langt frá, að tunnan hafði farið niður á milli.
Hvað þeir Aasberg og Philippsen myndu hugsa eða segja eða hvorttveggja um mig, var ég ekkert að hugsa um, enda var uppskipunarveðrið algjörlega ófært. „Íslandið“ létti akkerum, en í stað þess að sigla á haf út hélt það inn fyrir Klettinn, vestur með Eiðinu, vestur fyrir Eyjar og lagðist undir Hamarinn. Þar lá það í sjóðvitlausu veðri, austan roki allan þann dag og fram undir kvöld næsta dag. Þá sást það koma austur með Eiðinu. Við gengum austur á Skans til að vita, hvort það sneri inn á Víkina. Nei, það var svo sem ekki við því að búast. Án þess að senda okkur kveðju sína sneri það á haf út og hvarf brátt í sortann.
Meðan „Íslandið“ lá undir Hamrinum, var talað um að ná einhverju af olíunni upp á Eiðið. Ekkert varð þó af því. Fyrst og fremst hefði það orðið óhóflega dýrt, auk þess að vera mjög erfitt.
Að hinu leytinu vissum við, að olíuskipið „Norðurljósið“ lá fullfermt olíu í Reykjavík og ferðbúið að halda hingað strax og veðrið lægði. Það mundi og komast sem sé upp að bryggju. Þetta varð líka. Undir Reykjanesi beið skipið færis að komast fyrir það og austur í Eyjar. Hingað kom það daginn eftir að „Íslandið“ fór. Biðin eftir olíunni olli þessvegna engu tjóni.
Síðari daginn, sem „Íslandið“ lá undir Hamrinum, braust Gísli Magnússon á Hlíðdal sínum og náði sér í 5 tunnur.
Philipsen forstjóri D D P A (Det danske Petroleum Aktieselskab) var a.m.k. einhvern tíma búsettur í Reykjavík. Eftirfarandi saga um manndóm þessa manns var mér sögð: Atvinnulaus ungur maður kom eitt sinn til hans á skrifstofuna og spurðist fyrir um, hvort hann hefði ekkert handa sér að gera? Philippsen hugsaði sig um svolitla stund, stóð upp og gekk svo að stórum bókahillum fyrirtækisins, sem fullar voru af hinum og öðrum bókum. Henti hann öllu úr hillunum fram á gólf í herberginu. Þegar hann hafði þannig tæmt allar hillurnar, sagði hann piltinum að raða þessu upp í hillurnar aftur.
Det danske Petroleum Aktieselskab var skammstafað D D P A og þýddu gárungarnir það þannig: „Danskur dóni pínir alþýðuna“¹).
¹) Suma heyrði ég jafnvel nota enn ljótari orð, sem ég veit að margur minnist, t.d. danskur djöfull pínir alþýðuna, o.m.fl. (A.A.) Það var eitt sumar, að „Norðurljósið“ lá hér og losaði olíu. Hver móttakandi tók sína tunnutölu. Við höfðum einn uppskipunarbát í förum. Voru tveir menn á bátnum. Annar þeirra var Oddur í Fagradal, og var hann fyrirmaður. Þegar hér var komið, áttum við aðeins nokkrar tunnur ósóttar um borð. Fór þá báturinn út til þess að sækja þær, en ég fór upp í pakkhús. Að lítilli stundu liðinni, veit ég ekki fyrr en Oddur kemur móður og másandi upp eftir til mín. Ég spurði hann þegar, hvað væri nú að. „Við vorum reknir frá,“ svaraði Oddur. „Voruð þið búnir að festa ykkur,“ spurði ég. „Við vorum að því,“ svaraði hann. „Og, hver rak ykkur frá?“ Hann sagði mér það. „Við skulum koma,“ sagði ég. Var ekki beðið boðanna, en farið út að skipinu.
Í bátnum var keppur, árahlunnur, sem geymdur var í bátnum og notaður til að herða á stroffum. Þennan hlunn tók ég og hélt á honum. Við lögðum svo að bátnum, sem rekið hafði þá Odd frá áður, og var bátur sá svo að segja fullhlaðinn. Utaná skipinu hékk tunna. Ég hljóp upp í bátinn og spurði, hver hefði leyft að reka okkar bát frá, sem þó hefði verið kominnn á undan þeim út að skipinu. „Lúgumaðurinn leyfði okkur það,“ svöruðu þeir í bátnum. „Hvaða rétt hafðir þú til þess að reka þann bát frá, sem kominn var út að skipinu á undan?“ Manninum varð svarafátt.
Nú ætluðu þeir að taka á móti tunnunni, sem hékk utan á skipinu, en ég reiddi þá upp keppinn og skipaði þeim frá. Ég var reiður, mjög reiður. Mínir menn tóku tunnuna yfir í okkar bát, og jafnframt því að hirða tunnur þær, sem út fyrir borðstokkinn komu, veltum við þeim úr þeirra bát yfir í okkar, þar til við höfðum fengið okkar fullu tunutölu. Þá fórum við yfir í okkar bát, ég með keppinn minn, héldum frá og báðum þá vel að lifa. Síðan héldum við okkar leið í land. Að lokum skal þess getið, að við létum ekki ræna og særa okkur, ef við gátum öðru við komið. En svona gekk þetta stundum. Sumir voru all ágengir, og það þurfti nokkur átök til að verjast ágengni þeirra, þótt ekki kæmi til handalögmáls eða ryskinga.
Það var á stríðsárunm 1914-18. Eitt sinn lá mikið af þurrum saltfiski í húsunum frá fyrra ári. Í febrúar kom skip til að taka fisk og lá það að sjálfsögðu á ytri höfninni. Við byrjuðum útskipun snemma morguns í ljómandi góðu veðri, hægri norðan golu, frostýringi, og björtu tunglsskini. Við höfðum nú dráttarbát, en hvernig á því stóð man ég nú ekki. Þá var enginn bíll, en öllum fiskinum ekið niður bryggjuna í handvögnum. Allan daginn var haldið áfram, alla næstu nótt, allan næsta dag og ekki hætt að kvöldi, látlaust unnið og engin hvíld, nema meðan borðað var og drukkinn kaffisopi. Möglunar- og æðrulaust var áfram haldið, allt fólkið, konur, karlar og unglingar. Allir gerðu sér það vel ljóst, hve mikils virði það var að sleppa ekki svona góðu veðri um hávetur. Það dugði því ekki annað en vinna og vinna vel.
Þessi útskipun kemur mér oft í hug. Þá fyllist hugur minn þakklæti til þessa blessaða fólks, sem svona fast fylgdi mér; fólk, sem neytti allra sinna krafta til þess að vel notaðist dugnaður þeirra og þol við starfið. Ekki drógu stúlkurnar af sér. Þær eru nú orðnar fullorðnar konur, einnig fullorðnu konurnar þá, sem unnu, og unglingarnir. Allt var þetta þreytt fólk, slituppgefið; en við þorðum ekki að hætta. Það fer alltaf svo langur tími í það að hætta og byrja á nýjan leik. Sú tímatöf var okkur öllum gróði, en tapaður tími, ef hætt var. Við vissum ekki, hve lengi þetta góða veður myndi haldast.
Við þekktum það svo vel, að á skammri stund skipast um veður í Eyjum. Sumir kölluðu þessi vinnubrögð okkar kergju, en við létum það ekki á okkur fá, heldur unnum áfram. En undursamlegt var vinnuþolið í öllu fólkinu.
Ég fór aldrei um borð, á meðan á þessari útskipun stóð. Um borð var „ragari“, þ.e. fiskimatsmaður, og var því allt þar varðandi útskipunina í hans ábyrgð. Hann var ákaflega trúverðugur maður. Honum kom það heldur ekki til hugar að yfirgefa sinn stað.
Ég var þessvegna alltaf í landi og „hljóp í skörðin“, hvar sem þess var þörf.
Það varð að samkomulagi milli alls fólksins að hætta ekki, fyrr en allur fiskurinn væri kominn um borð. Rétt fyrir miðnættið seinni nóttina, áttum við eftir sem svaraði 3-4 bátsförmum óútskipað.
Þá allt í einu vissum við ekki fyrr en ragarinn kom í land með allt lestarfólkið og eitthvað af fiski í bátnum. Svo hafði viljað til, að þessi norðan gola hafði fært sig austar á og kom með vindstrokur fyrir Klettinn. Skvettist þá lítilsháttar á bátinn. Þessvegna taldi ragarinn ófært að halda áfram og kom í land með það, sem eftir var í bátnum og allt fólkið. Þótt allir væru vissulega þreyttir, hörmuðu þeir þessi endalok. En á meðan verið var að keyra upp úr bátnum, sem kom í land, ásamt þeim bát, sem við vorum að lesta, sléttlygndi aftur.
Var þá ekki að sökum að spyrja; óðar var byrjað aftur og er skemmst frá því að segja, að kl. 3 um nóttina var hver fiskur kominn um borð. Morguninn eftir var útskipunarveðrið búið að vera, þareð þá var komið þykkt loft og töluverð austanbræla.
Að þessi útskipun á afurðum verzlunar G.J.J. tókst svona vel í þetta skipti, sem svo fjölmörg önnur, var einungis því að þakka, hve fólkið vann vel. Að vísu fékk það gott kaup eftir þeirra tíma mati, en það var vinnugleðin og það að vinna vinnuveitandanum og verkstjórum þeirra sem allra bezt, sem var mest virði. Það var ekki á hverjum tíma verið að spyrja að því, hvenær yrði hætt. Fólkið vann, meðan vinnuafl þess entist, meðan vinnunnar var þörf.
Hér enda þessir pistlar úr sögu verslunar G.J.J., sem Bjarni Jónsson hefir tekið saman viðkomandi starfi sínu, áður en hann varð skrifstofumaður hjá G.J.J., en það var hann um fjölda ára eða til 1930, að G.J.J. hætti öllum verslunarrekstri hér.
Er þetta aðeins lítið sýnishorn af þeim miklu erfiðleikum, sem allri vöru í upp- og útskipun voru samfara fyrr á árum, meðan skipin komust ekki inn að bryggju, heldur urðu að afgreiðast úti á Vík eða innan fyrir Eiði, jafnvel afgreiðast vestan Ofanleitishamars. Það gat stundum verið erfitt og erilsamt eins og fram kemur í sögnum þessum. Þá var undir hælinn lagt, hvort nokkur bátur fengist til dráttar á uppskipunarbátunum og var þá ekki um annað að ræða en róa þeim út og inn Leiðina. Engir bílar voru þá, en allar vörur ýmist bornar eða ekið í tvíhjóla handvögnum.
Það var erfiðara að vinna þá en nú á dögum, — og þó unnu allir með gleði, unnu vel og voru glaðastir, er þeir gátu látið sem mesta og bezta vinnu í té í hvívetna.
Tímarnir breytast, tæknin léttir vinnuna, en mennirnir breytast ef til vill ekki minna á sviði hverskonar vinnu.


Úr fórum Árna Árnasonar, efnisyfirlit