Blik 1963/Saga sparisjóðanna í Vestmannaeyjum 1893-1963, síðari hluti

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 7. apríl 2010 kl. 22:18 eftir Viglundur (spjall | framlög) Útgáfa frá 7. apríl 2010 kl. 22:18 eftir Viglundur (spjall | framlög) (Verndaði „Blik 1963/Saga sparisjóðanna í Vestmannaeyjum 1893-1963, síðari hluti“ [edit=sysop:move=sysop])
Fara í flakk Fara í leit

Efnisyfirlit 1963



SAGA

sparisjóðanna í Vestmannaeyjum

1893-1963

(síðari hluti)



Helztu atriði úr sögu

Sparisjóðs Vestmannaeyja

1943-1963


Á þessu vori hefur Sparisjóður Vestmannaeyja (hinn yngri) starfað í 20 ár. Rétt þykir mér að gefa Eyjabúum eilítið yfirlit yfir starfsemi þessarar stofnunar þessi árin, ekki sízt sökum þess, að fáar almenningsstofnanir í bænum eru svo mjög háðar atvinnulífinu og réttum skilningi almennings á gildi þeirra fyrir mannsæmandi menningarlíf bæjarbúa sem Sparisjóðurinn. Efling hans er efling einstaklingsins í Eyjum til mannsæmandi lífs.
Barátta Sparisjóðsins fyrir bættum kjörum Eyjabúa er um leið eins konar sjálfstæðisbarátta þeirra, losar þá undan fjárhagslegu áhrifavaldi annars staðar frá. Þar er þeirra eigið fé, þeirra eigið all til þeirra hluta, sem gera skal og nauðsyn krefst, að framkvæmdar verði, ef Eyjabúum skal farnast vel.
„Þá kemur mér hann í hug, er ég heyri góðs manns getið,“ sagði forðum hinn merki maður sögunnar. Svo fer mér. Þegar ég vil geta upphafs Sparisjóðs Vestmannaeyja, kemur mér í hug einstaklingur, upphafsmaðurinn. Það var Jóhann Sigfússon, útgerðarmaður við Sólhlíð hér í bæ, fyrrverandi framkvæmdastjóri Vinnslustöðvar Vestmannaeyja.

Það var síðla hausts 1942 að við Jóhann Sigfússon mættumst á förnum vegi, nefnilega á tröppunum við Verzlun Gunnars Ólafssonar og Go. Staðurinn var að ýmsu leyti táknrænn fyrir það, sem á eftir fór, af mínum sjónarhól séð.

„Eitt er nauðsynlegt, Þorsteinn,“ sagði Jóhann léttur í orði eins og jafnan. „Nú, hvað er nú nauðsynlegra en annað?“ spurði ég þurr og þyrrkingslegur í fyllsta samræmi við sjálfan mig. — „Við eigum að stofna sparisjóð hérna í Vestmannaeyjum.“ „Mæltu manna heilastur. Þetta skulum við gera.“ Ég sá þegar í anda öfluga peningastofnun, sem umskapað gæti bæjarfélagið bæði efnahagslega og menningarlega, því að peningar eru afl, dásamlegt afl til nytja og gæða, ef þeim er rétt beitt og ná ekki til að heltaka mannssálina, en að því leyti getur í þeim leynzt eðli Kölska og Bakkusar. Margur verður af aurum api. Þetta var reynsla forfeðra okkar frá myrkustu fyrnsku.
Brátt var svo sparisjóðshugsjónin hugleidd og rædd innan lítils hóps manna.
Ég skrifaði eftir lögum eða samþykktum Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis, því að hann var þá fyrir skömmu stofnaður og formaður hans var Helgi H. Eiríksson, fyrrv. kennari minn í Kennaraskólanum. Ekki lét hann á sér standa með að senda þau.
Allt fór þetta undirbúningsstarf eftir ætlan og áætlan. Eftir fáa daga voru nokkrir menn boðaðir til fundar í öðrum salnum að Hótel Berg við Heimagötu. Þar var formlega afráðið að stofna sparisjóðinn og gert uppkast að samþykktum fyrir hann í fyllsta samræmi við gildandi landslög nr. 69 27. júní 1941 um sparisjóði. Samþykktir eða starfsreglur Sparisjóðs Vestmannaeyja staðfesti síðan stjórnarráð Íslands 3. des. 1942.
Samkvæmt gildandi landslögum eru sparisjóðirnir sjálfseignarstofnanir, að hálfu leyti opinberar og reknar með eftirliti ríkisins, þ.e. aðili í krafti ríkisvaldsins hefur eftirlit með stofnununum, fylgist með rekstri þeirra frá mánuði til mánaðar. Þetta eftirlit veitir almenningi nauðsynlegt öryggi um meðferð fjárins og allan rekstur sparisjóðanna. Ábyrgðarmennirnir, sem svo eru kallaðir, leggja fram fé til stofnunar fyrirtækinu og kjósa þrjá menn í stjórn þess af fimm. Hina tvo kýs bæjarstjórn. Einnig kýs hún báða endurskoðendur reikninganna og varamenn. — Sparisjóðseftirlitið er nú falið Seðlabankanum en var áður í höndum sérstaks trúnaðarmanns, sem alþingi kaus. Ábyrgðarmennirnir hafa í rauninni engra persónulegra hagsmuna að gæta við rekstur sparisjóðanna. Þeir geta aðeins eins og aðrir krafizt vaxta af þeim fáu krónum, sem þeir hafa upphaflega lagt af mörkum stofnuninni til brautargengis, lánað henni raunverulega.
Eðli og tilgang hverrar stofnunar er mjög nauðsynlegt að gera sér grein fyrir, áður en hafizt er handa í starfinu um rekstur hennar.
Þessir voru fyrstu ábyrgðarmenn Sparisjóðs Vestmannaeyja og lögðu honum til kr. 500,00 hver af eigin fé. Það kallast stofnfé:

Jóhann Sigfússon, útgerðarmaður.
Þorsteinn Þ. Víglundsson, skólastjóri.
Sveinn Guðmundsson, forstjóri.
Helgi Benediktsson, útgerðarmaður.
Jón Ólafsson, útgerðarmaður.
Óskar Jónsson, útgerðarmaður.
Gísli Þórðarson, verkamaður.
Þórður Benediktsson, verzlunarmaður.
Stefán Guðlaugsson, skipstjóri.
Gunnar M. Jónsson, skipasmíðameistari.
Þorbjörn Guðjónsson, bóndi.
Kristinn Ólafsson, lögfræðingur.
Ásmundur Guðjónsson, verzlunarmaður.
Einar Guttormsson, læknir.
Guðmundur Böðvarsson, trésmíðameistari.
Einar Guðmundsson, skipstjóri.
Guðni Grímsson, útgerðarmaður.
Sigurjón Sigurbjörnsson, forstjóri.
Hermann Guðjónsson, tollþjónn.
Filippus Árnason, núverandi yfirtollvörður.
Konráð Bjarnason, verzlunarmaður.
Einar Lárusson, málarameistari.
Anders Bergesen, útgerðarmaður.
Kjartan Ólafsson, útgerðarmaður.
Sigurður G. Bjarnason, skipstjóri.
Jón Jónsson, útgerðarmaður, Hlíð.
Bjarni G. Magnússon, Lágafelli.
Guðlaugur Brynjólfsson, útgerðarmaður.
Magnús Guðbjartsson, forstjóri.
Kjartan Guðmundsson, ljósmyndari.

Af þessum stofnendum Sparisjóðs Vestmannaeyja eru 5 látnir og 9 fluttir burt úr bænum. Í stað þeirra hefur stjórn Sparisjóðsins aflað honum 14 annarra ábyrgðarmanna, en 20 ábyrgðarmenn Sparisjóðsins skulu vera búsettir í bænum a.m.k. Það ber stjórninni að sjá um samkvæmt samþykktum hans.

Stofnfundurinn 10. jan. 1943.
Stofnfundur Sparisjóðs Vestmannaeyja var haldinn að Breiðabliki, leiguhúsnæði Gagnfræðaskólans, 10. jan. 1943. Fund þann sátu 24 ábyrgðarmenn af 30. Þorsteinn Þ. Víglundsson setti fundinn og skipaði fundarstjóra Kristin Ólafsson lögfræðing og fulltrúa bæjarfógeta. Þessir ábyrgðarmenn voru kosnir í fyrstu stjórn Sparisjóðsins: Helgi Benediktsson með 16 atkvæðum, Kjartan Ólafsson með 17 atkvæðum og Þorsteinn Þ. Víglundsson með 19 atkvæðum.
Eftir fund þennan var hafizt handa um að láta prenta sparisjóðsbækur, ávísanahefti o.fl. handa hinni nýju stofnun. Allt tók það sinn tíma.
Í aprílmánuði hófust innlög í Sparisjóðinn og dagleg afgreiðsla. Ekki leið þá á löngu, þar til tekið var að leita eftir lánum í stofnunina. Lánveitingar voru smáar í fyrstu og lengi vel alveg í hlutföllum við getu hans og fjárhag, skilning almennings á gildi hans og vilja til að efla hann og styrkja og þá um leið sinn eigin hag og bæjarfélagsins í heild. Eins og fjárhagsskýrslan hér sýnir og sannar, hefur allt þetta farið blessunarlega vaxandi á undanförnum 20 árum í réttum hlutföllum hvað við annað.

Húsnœði Sparisjóðsins o.fl.
Það reyndist strax miklum erfiðleikum bundið að klófesta heppilegt húsnæði handa hinum nýstofnaði sparisjóði, örsnauðri stofnun án alls fjármagns. Stofnunin varð að vera staðsett á sæmilega góðum viðskiptastað í bænum, hvað sem öðru leið. Í útjaðri bæjarins gat hún ekki verið.
Loks fékk Sparisjóðurinn inni hjá einum ábyrgðarmanninum, Kristni Ólafssyni, bæjarfógetafulltrúa, sem átti húsið Reyni við Bárugötu. Þar tók stofnunin á leigu nyrðri stofuna á miðhæð gegn vestri. Í þessari einu stofu var Sparisjóður Vestmannaeyja starfræktur frá því í apríl 1943, að hann tók til starfa, þar til í febrúar 1945.
Haustið 1944 var Sparisjóðnum gefinn kostur á að leigja suðhluta húseignarinnar nr. 4 við Skólaveg (Efnalaugin Straumur). Þetta húsnæði þótti að ýmsu leyti heppilegra en stofan að Reyni, sem er timburhús. Húseignin nr. 4 er byggð úr steinsteypu, og þarna fékk stofnunin leigðar tvær vistarverur, afgreiðslustofu og skrifstofukytru. Í húsnæði þessu starfaði Sparisjóðurinn í 6 ár, eða frá því í febrúar 1945 til marzloka 1951. Þá flutti hann í húseignina Gefjun, nr. 42 við Strandveg.
Veturinn 1952-1953 festi formaður Sparisjóðsins kaup á lóðinni nr. 38 við Vestmannabraut fyrir eigið fé. Hugmynd hans var sú, að þarna gæti risið hús yfir Sparisjóð Vestmannaeyja. Hann vann að því sumarið 1953 að steypa grunn undir þessa væntanlegu byggingu. Sökum þess að forsjármenn Sparisjóðsins óskuðu ekki, að hann eignaðist grunninn, keypti Mjólkursamsalan í Reykjavík hann á kostnaðarverði, kr. 40.592,00, (lóð, vinna og efni).
Mjólkursamsalan fékk grunninn keyptan með þeim skilyrðum, að Sparisjóðurinn fengi inni á neðstu hæð byggingarinnar og leigt þar til 5 ára 33 ferm. húsrými. Við þá samninga stóð Mjólkursamsalan.
Í aprílbyrjun 1956 fluttist síðan Sparisjóðurinn í hið nýja húsnæði að Vestmannabraut 38. Þar starfaði hann til 8. júlí síðastliðins árs, er hann flutti í eigið hús að Bárugötu 15.
Hafizt var handa um byggingarframkvæmdir Sparisjóðsins í desembermánuði 1960.
Þegar nú Sparisjóður Vestmannaeyja er fluttur í eigið húsnæði, sem ber af flestu því, sem fyrirtæki veita sér og bjóða viðskiptavinum sínum hér í bæ, get ég ekki stillt mig um að láta hugann reika til liðinna tíma í starfi hans þessi 20 ár, sem liðin eru frá stofnun hans. Ég minnist þess, hversu hörmulega hefur á stundum farið um þessa stofnun, hún virzt umkomulítil og hornreka í bæjarfélaginu. Þó reyndi hún ávallt af fremsta megni að mæta Eyjabúum miðra garða í framtaksþrá þeirra og peninganauð. En geta stofnunarinnar hefur oft verið allt of lítil sökum þess, hve hún hefur til skamms tíma notið smárra mola af borðum þeirra, sem reynzt hafa aflögufærir um spariskildinga hér á undanförnum árum, eins og efnahagsskýrsla Sparisjóðsins ber hér með sér.
Þegar ég ræði um leiguhúsnæði Sparisjóðsins langar mig að skrá hér nokkur orð um einn afgreiðsludag í starfsemi hans. Sú minning mín er frá þeim árum, er Sparisjóðurinn var til húsa að Skólavegi 4. Hús það er með flötu þaki, eins og Eyjabúar vita. Aðfaranótt þessa dags hafði snjóað mikið, svo að þykkt snjólag lá á hinu flata þaki. Um morguninn gerði hlákublota. Hófst þá mikill leki í salarkynnum Sparisjóðsins, bæði í afgreiðsluherbergi og skrifstofu. Þegar afgreiðslutími hófst, kl. 4, reyndist ekkert rafmagn í húsinu sökum þess, að vatn hafði runnið í rafleiðslurnar. Kyndingartækin voru knúin rafmagni. Þau voru því óvirk, svo að kalt var í húsinu. En verst af öllu var þó það, að skóvarpsvatn lá á gólfinu eftir lekann. Kjartan Ólafsson, kennari, var þá bókari Sparisjóðsins. Hann er maður hvorki vílinn né kvalráður. Við kveiktum kertaljós, klæddumst vetrarúlpum og óðum í vatninu á gólfinu, meðan á afgreiðslu stóð. Þannig héldum við öllum víxlaviðskiptum Sparisjóðsins gangandi þann daginn, svo að hvergi skeikaði og nokkuð tókum við inn af sparifé þann dag, en enginn kostur var gefinn á viðtölum eða lánum.
Mér er þessi dagur sérstaklega minnistæður, því að aldrei hef ég í starfi þessu fundið eins sárt til eins konar umkomuleysis stofnunarinnar sem þá.

Stjórnarmenn Sparisjóðsins.
1. Trúnaðarmenn ábyrgðarmanna:
Þorsteinn Þ. Víglundsson, skólastjóri, 1943-1963.
Kjartan Ólafsson, útgerðarmaður, Hrauni, 1943-1944.
Sigurjón Sigurbjörnsson, forstjóri, 1944-1950.
Sveinn Guðmundsson, forstjóri, 1950-1963.
Helgi Benediktsson, útgerðarmaður, 1943-1958.
Sigurgeir Kristjánsson, lögregluþjónn, 1958-1963

Helgi Benediktsson, stjórnarmaður Sparisjóðsins 1943-1958.

350pz.

Karl Guðjónsson
stjórnarmaður Sparisjóðsins
1943-1949 og 1954-1958.



2. Trúnaðarmenn bæjarfélagsins kosnir af bæjarstjórn:
Guðlaugur Gíslason, bæjarstjóri, 1943-1962.
Karl Guðjónsson, kennari 1943-1949 og 1954-1958.
Friðjón Stefánsson, kaupfélagsstjóri, 1949-1951.
Oddgeir Kristjánsson, hljómsveitarstjóri, 1951—1954.
Magnús Magnússon, símstöðvarstjóri, 1958-1963.
Jóhann Friðfinnsson, kaupmaður, 1962-1963.

Þessir menn hafa verið endurskoðendur Sparisjóðsins þau ár, sem hann hefur starfað, kosnir af bæjarstjórn samkv. lögum:
Óskar Sigurðsson, löggiltur endurskoðandi.
Halldór Guðjónsson, skólastjóri.
Ágúst Bjarnason, kaupmaður.
Páll Þorbjarnarson, kaupmaður.
Theodór Georgsson, lögfræðingur.
Gunnar Sigurmundsson, prentsmiðjustjóri.
Gísli Þ. Sigurðsson, rafvirki.
Jóhann Friðfinnsson, kaupmaður.

Frá upphafi starfsins hefur stjórn Sparisjóðsins haft fastan fundartíma, kl. 6 á mánudögum. Með því að stjórnarmenn hafa alltaf haft ýmsum skyldustörfum að gegna, hefur formaður stjórnarinnar jafnan tilkynnt þeim, ef ekki væri þörf á fundi, ekkert sérstakt lægi fyrir, svo að tími þeirra færi ekki af þeim sökum forgörðum, enda hafa stjórnarmenn unnið öll þau störf launalaust og flestir þeirra af einskærum áhuga á vexti og viðgangi stofnunarinnar. Formaður Sparisjóðsins frá upphafi hefur verið sami maður, Þ.Þ.V., og var hann líka gjaldkeri hennar í 17 ár eða þar til Sigfús J. Johnsen, gagnfræðaskólakennari, tók að sér gjaldkerastarfið 1960.
Samtals hefur stjórnin haldið 591 fund frá stofnun Sparisjóðsins til ársloka 1962. Þeir skiptast á árin sem hér segir:

Ár Fundatal
1943 41
1944 58
1945 50
1946 47
1947 28
1948 38
1949 42
1950 35
1951 29
1952 22
1953 10
1954 16
1955 17
1956 15
1957 14
1958 25
1959 23
1960 26
1961 23
1962 33

Bókarar Sparisjóðsins.
Nokkrum erfiðleikum og vanda hefur það verið bundið að fá bókara í Sparisjóðinn, þar sem starfstíminn hefur til skamms tíma verið aðeins 2—3 tímar á dag. Fyrstu árin voru það helzt kennarar, sem gáfu kost á að starfa í Sparisjóðnum eftir daglega kennslu, þar sem afgreiðslutíminn var frá 4—6 fyrstu árin og nú um árabil frá 4-5.30.
Bókarar:
Magnús Jónsson, kennari, apríl 1943 til 30. júní s.á.
Friðbjörn Benónísson, kennari, frá 30. júní 1943 til 30 sept. s.á.
Árni Guðmundsson, kennari, (frá Háeyri) frá 30. sept. 1943 til 30. sept. 1946.
Kjartan Ólafsson, kennari, frá 30. sept 1946 til 31. maí 1956.
Árný Guðjónsdóttir, gagnfræðaskólanemi, 31. maí 1956 til 30. sept. s.á.
Árni Ólafsson, kennari, frá 30. sept. 1956 til 1. júní 1957.
Ingibjörg Bragadóttir, gagnfræðingur, frá 1. júní 1956 til ágúst 1958.
Sesselja Ingimundardóttir, frá 11. ágúst 1958 til 11. sept. 1961.
Bergþóra Óskarsdóttir, frá 11. sept. 1961 til 12. febrúar 1962.
Sigfríð Kristinsdóttir, gagnfræðingur, frá 12. febrúar 1962.
Nú er bókarastarf Sparisjóðsins orðið fullt starf og því greitt við fullum launum, síðan daglegur afgreiðslutími hans varð kl. 1-2 og 4-5.30, sem bæjarbúum þykir sér hentugur að öllu leyti. Á laugardögum hefur til þessa verið látin nægja ein klukkustund til afgreiðslu, kl. 11—12 fyrir hádegi.

Úr reikningum Sparisjóðsins.
31. des
ár
Eignir Skuldir Fasteigna
lán veitt kr.
Víxla
eign kr.
Aðrar
eignir kr.
Sparifé
og
ávísana
reikn. kr.
Aðrar
skuldir kr.
1943 179.950.00 78.154.64 240.087.31 18.017.33 139.700.00
1944 494.141.18 68.957.38 534.994.67 23.103.84 265.800.00
1945 660.911.92 72.534.97 695.689.62 37.757.27 302.700.00
1946 763.249.00 203.165.74 934.487.54 31.927.20 227.845.00
1947 664.180.00 402.496.18 1.032.560.82 34.115.36 150.500.00
1948 846.800.00 695.312.43 1.483.324.48 58.787.95 151.600.00
1949 921.500.00 298.308.53 1.171.921.24 47.887.29 122.500.00
1950 970.400.00 257.333.71 1.152.311.00 75.422.71 54.500.00
1951 1.002.887.49 307.711.77 1.248.338.03 62.261.33 70.500.00
1952 1.235.587.92 228.542.11 1.285.019.66 179.110.37 338.500.00
1953 1.326.551.56 428.123.26 1.639.617.44 115.057.38 262.000.00
1954 1.813.922.47 728.641.87 2.316.007.30 226.557.04 809.500.00
1955 2.191.650.00 274.135.92 2.589.743.37 182.916.16 914.700.00
1956 2.456.180.10 1.415.190.47 3.610.416.16 260.954.50 546.000.00
1957 2.502.218.06 1.576.600.81 3.796.207.41 282.611.46 550.000.00
1958 4.285.579.80 1.311.832.93 5.171.988.22 425.424.51 1.716.500.00
1959 5.372.014.30 1.911.178.12 6.590.868.75 692.323.67 1.845.000.00
1960 4.993.820.54 2.387.128.49 6.757.122.92 623.826.11 1.276.000.00
1961 5.384.874.76 4.030.947.66 8.702.562.28 713.260.14 1.443.500.00
1962 10.564.368.53 4.951.631.54 14.264.056.56 1.251.943.51 3.825.000.00

Að sjálfsögðu verður afgreiðslutími slíkrar stofnunar háður því sem bezt og hagkvæmast hentar bæjarbúum í daglegri önn þeirra.
Samkvæmt þessari skýrslu hefur Sparisjóðurinn veitt Eyjabúum kr. 15.012.345,00 til íbúðabygginga og íbúðakaupa þessi starfsár sín. Lántakendur eru alls 626. Þegar athuguð er þessi fjárhagsskýrsla Sparisjóðsins, kemur berlega í ljós, að geta Sjóðsins til að lána Eyjabúum til byggingaframkvæmda er í réttum hlutföllum við innlánaupphæðir Eyjabúa í Sparisjóðnum. Sem sé: Því meira fé, sem Eyjabúar trúa honum fyrir, því meiri tök hefur hann á að lána þeim sjálfum til þess að skapa sér góð híbýli, mannsæmandi vistarverur með gögnum og gæðum. Þessi lánastarfsemi er sameiginlegir hagsmunir okkar allra. Ekki nýtur atvinnulífið í bænum þess síður en einstaklingarnir, geti Sparisjóðurinn verið þess megnugur að auka og efla húsbyggingar í bænum. Þær framkvæmdir og þau tök draga að bænum vinnuafl, sem er undirstaða aukinnar útgerðar og blómlegs atvinnulífs. Þannig getum við stutt hverjir aðra svo sem hönd styður fót, eins og komizt er að orði í gömlum, góðum ritum. Þannig er efling Sparisjóðsins persónulegt sjálfstæðismál okkar Eyjabúa, og „Sjálfstæði er betra en kjöt“, minnir mig að standi í frægri skáldsögu íslenzkri frá seinustu áratugum.
Auk þessara föstu húsbyggingalána og lána til kaupa á íbúðum, sem veitt eru til 6 ára þannig, að lántakandinn greiðir aðeins vexti fyrsta árið (síðan greiðist lánið á 5 árum), þá hefur Sparisjóðurinn veitt þessi lán til opinberra framkvæmda í bænum á árunum 1947-1957:

Til gagnfræðaskólabyggingarinnar kr. 995.000,00
Til Rafveitu Vestmannaeyja - 600.000,00
Til Fiskvinnslustöðva - 450.000,00
Til hafnarframkvæmda - 200.000,00
Til annarra framkv. bæjarins um — 500.000,00

Á síðustu árum hefur Sparisjóðurinn orðið þess megnugur, eins og fjárhagsskýrsla hans sýnir, að veita meira fé til framkvæmda, „hlaupa undir bagga“ með bæjarsjóði og öðrum, þegar saman hefur farið geta Sjóðsins og fjárþörf bæjarsjóðs. Þess stuðnings njóta allir bæjarbúar.

Samskipti Sparisjóðsins við Seðlabankann og Útvegsbankann. (Forvitni svalað).
Unnendur Sparisjóðs Vestmannaeyja, sem láta sig starf hans miklu skipta, spyrja stundum af sérstökum ástæðum (sem mér eru ljósar) um samskipti hans við Seðlabankann og hversu mikið fé bankinn frysti, sem við köllum hér, fyrir Sparisjóðnum. Þessu óska ég að svara með nokkrum orðum.
Með lögum nr. 63 árið 1957 fékk Seðlabankinn heimild til að skylda banka og sparisjóði í landinu til þess að eiga fast fé í Seðlabankanum.
Upphæðir þess fjár eru á valdi Seðlabankastjórnarinnar og svo einnig tíminn, sem það skal bundið þar. Með lögum nr. 4 árið 1960 var innlánsdeildum kaupfélaganna bætt í flokk þeirra peningastofnana, er lúta skyldu þessu ,,fjárnámi“ Seðlabankans.
Árið 1960, 21. febrúar, afréð síðan stjórn Seðlabankans að láta þessa heimild sína koma til framkvæmda, beita þessu ægivaldi við nefndar stofnanir. Þann dag tók bankastjórnin þessa ákvörðun m.a.:
„..., að nota ofangreindar lagaheimildir og skylda innlánsstofnanir, banka, sparisjóði og innlánsdeildir kaupfélaga að greiða inn til Seðlabankans á bundinn innstæðureikning 50% innstæðuaukningar á innlánsreikningum, þ.e. spariinnlánum, sparisjóðsávísanareikningum og hvers konar veltiinnlánum talið frá 1. jan. 1960. Samkvæmt þessu er þess óskað, að Seðlabankanum séu sendar mánaðarlegar skýrslur um innstæður í sparisjóði og á hlaupareikningi.“
Síðan boðaði stjórn Seðlabankans alla sparisjóðsstjóra og bankastjóra í landinu á sinn fund í Reykjavík til þess að skýra nauðsyn þessarar ákvörðunar um bindingu sparifjárins frá hinum ýmsu byggðum landsins. Mér er óhætt að fullyrða, að margir tróðu inn á þann fund í þungu skapi og jafnvel með heift í huga, skilningslausir á nauðsyn þessarar löggjafar og lögbeitingar. Enda kom að því, að eldur kviknaði á fundi þessum. Ég óska ekki hér að ræða það mál frekar.
Árið eftir, 19. janúar, kom bréf frá stjórn Seðlabankans til allra banka, sparisjóða og innlánsdeilda kaupfélaganna. Þar var tilkynnt, að stjórn Seðlabankans hefði breytt ákvörðunum sínum varðandi bindingu sparifjárins.
Reglurnar skyldu breytast sem hér segir:
„ a) Í stað 50% bindingar ... komi binding er nemi 30% af samanlagðri aukningu spariinnlána og veltiinnlána í hverri innlánsstofnun á árinu 1960.
...........

c) Innlánsstofnanir með heildarinnstæðu innan við 5 millj. króna hinn 1. jan. 1960 geri skil á bindingarfé, þegar stjórn Seðlabankans ákveður.“
Þetta síðasta ákvæði stefnir að innlánsdeildum flestra kaupfélaganna og hinna mörgu litlu sparisjóða í landinu. Ég geri mér í hugarlund, að með þessari breytingu hafi stjórn Seðlabankans fallið frá að binda fé fyrir hinum dreifðu byggðum í landinu, þar sem fé til allra framkvæmda er af mjög skornum skammti. Sé þessi ályktun mín rétt, má segja stjórn Seðlabankans til hróss, að hún lætur sér segjast, enda þótt mörgum ofbjóði það ægivald, er hún hefur fengið með nefndum lögum.
Rétt er að taka það fram, að samkv. lögum um sparisjóði nr. 69 árið 1941 skal hver sparisjóður „eiga í sjóði innstæðu í banka, sem ríkið ábyrgist, og í tryggum og auðseljanlegum verðbréfum minnst 1/10 af innlánsfénu.“
Með öðrum orðum: Sparisjóður má aldrei lána 1/10 hluta innstæðufjárins. Þessi ákvæði eru vitanlega sett í öryggis- og varúðarskyni og eru í alla staði viturleg. Þegar eftir fundinn góða gaf stjórn Seðlabankans út þá tilkynningu, að þessi 1/10 sparifjárins, sem sparisjóðirnir mættu ekki lána samkv. sparisjóðslögunum, mætti koma upp í fjárbindingskröfur bankans. Mun það hafa létt lund margra, sem bera eiga ábyrgð á stjórn og starfi sparisjóðanna og vilja, að þeir geti sem mest og bezt stutt að heilbrigðu framtaki í landinu, stutt einstaklinga til þjóðnýtilegs framtaks og mannsæmandi afkomu og lífs.
Hvaða áhrif hefur svo þessi breyting á ákvörðun stjórnar Seðlabankans um bindingu sparifjárins haft t.d. á rekstur Sparisjóðs Vestmannaeyja og getu hans til lána og stuðnings Eyjamönnum? Það skulum við gera okkur grein fyrir í fáum dráttum.
Samkvæmt tölum þeim úr reikningum Sparisjóðsins, sem hér eru birtar, námu innstæður sparifjárins kr. 6.590.868,75 hinn 1. janúar 1960.
Við sl. áramót nam hún kr. 14.264.056,56.
Sparisjóður Vestmannaeyja á nú bundið fé í Seðlabankanum kr. 2.266.000,00. Vissulega er þetta mun minna fé en Seðlabankinn ætlaði sér í fyrstu að taka af stofnunum þessum eða „frysta“ fyrir þeim. Binda kallar hann það. Sparisjóði Vestmannaeyja munar það um 2.8 millj., þegar öll kurl eru færð til grafar. Bankastjórnin hefur því óneitanlega látið sér segjast. Verst var, að það skyldi þurfa að kosta átök og illindi. Það ér ávallt neyðarúrræði.

Frá upphafi til ágústloka 1960 var Búnaðarbanki Íslands viðskiptabanki Sparisjóðs Vestmannaeyja. Síðan hefur Seðlabankinn verið það.

Það er sannast sagna, að viðskipti Sparisjóðsins við Seðlabankann hafa til þessa gengið árekstralaust og verið hin öruggustu og ánægjulegustu. Báðar stofnanirnar virðast bera mikið traust hvor til annarrar, og er fátt ánægjulegra í daglegum viðskiptum tveggja eða fleiri aðila. Við metum mikils alla þá reglusemi og allt það öryggi, sem virðist ríkjandi í daglegum rekstri Seðlabankans, og þá tillitssemi, sem við höfum átt að mæta hjá honum.

Þetta vil ég láta duga um þau viðskipti og vera nægilegt svar til að svala forvitni þeirra velunnara Sparisjóðs Vestmannaeyja, sem fylgjast vilja með gengi hans og gæfu.
Viðskipti Sparisjóðs Vestmannaeyja við Seðlabankann, út- og inngreiðslur, á sl. ári námu alls kr. 39.983.809,40. Við Útvegsbankann í Vestmannaeyjum námu þau á sama hátt kr. 42.671.686,20 eða greiðslur samtals um 82,5 milljónir króna.
Engum tölum þurfum við að leyna í rekstri Sparisjóðsins. Hann er fyrst og fremst stofnun Eyjafólks, karla og kvenna, sem það hefur í hendi sér að efla sjálfu sér til hagsbóta og menningarþrifa eða láta visna upp og verða að engu.
Sparisjóðurinn hefur jafnan haft þann hátt á að geyma laust sparifé sitt í Útvegsbankanum hér um lengri eða skemmri tíma, til þess að bankinn gæti notað það í þágu Eyjabúa þann tíma, sem Sparisjóðurinn hefur ekki þurft eða viljað nota það sjálfur. Ég veit ekki annað sannara og réttara, en að Sparisjóðurinn hér og Útvegsbankinn hafi haft hin ánægjulegustu samskipti, sem fyrst og fremst hafa byggzt á gagnkvæmu trausti og sameiginlegu markmiði, sem sé: heill og hagur Eyjabúa og sveitarfélagsins í heild er mark og mið þessara stofnana.
Ég óska að enda þetta greinarkorn mitt með því að greina seinni tímanum frá þeirri staðreynd, að Sparisjóður Vestmannaeyja hefur ekki tapað í útlánum einni einustu krónu þau 20 ár, er hann hefur verið starfræktur. Þetta er mikilvægt atriði og viðskiptamönnum hans til mikils sóma og þá Eyjabúum í heild. Trúað gæti ég því, að seinni tíma kynslóðum þætti það eftirtektarvert atriði, þegar um lánsstofnun er að ræða, og að það þætti bera vott um traust viðskiptalíf í Vestmannaeyjum kringum miðja 20. öldina.

————


ctr

Starfsfólk Sparisjóðsins. Frá vinstri: Sigfríð Kristinsdóttir, bókari, Sigfús J. Johnsen, gjaldkeri, og Þorsteinn Þ. Víglundsson, formaður stjórnarinnar.

ctr

Núverandi stjórn Sparisjóðs Vestmannaeyja. Frá vinstri: Magnús Magnússon, símstöðvarstjóri, Jóhann Friðfinnsson, kaupmaður, Þorsteinn Þ. Víglundsson, Sigurgeir Kristjánsson, lögregluþjónn, og Sveinn Guðmundsson, fulltrúi. –
(Ásmundur Guðjónsson tók báðar myndirnar).

Til baka