Grænahlíð

Úr Heimaslóð, Sögusetri Vestmannaeyja
Útgáfa frá 19. júní 2007 kl. 15:09 eftir Daniel (spjall | framlög) Útgáfa frá 19. júní 2007 kl. 15:09 eftir Daniel (spjall | framlög)
Fara í flakk Fara í leit

Mynd:Grænahlíð teikning.pngGrænahlíð var gata sem stóð á milli Austurvegar og Landagötu og fór undir hraun í gosinu 1973.

Grænahlíðin lá austur úr Heimagötunni milli íbúðarhúsanna Ásgarðs og Miðeyjar. Ásgarður á vinstri hönd og Miðey til hægri. Þetta var ekki sá Ásgarður sem er félagsheimili sjálfstæðisfólks, heldur sá sem fór undir hraun. Hún lá á milli Landagötu, sem var norðan við, og Austurvegar, sem var sunnan við hana. Rúmt var um hana því langt var í Landagötuna og Austurveginn. Þegar gengið var austur Grænuhlíðina á góðviðriskvöldum blasti Dyrhólaeyjarvitinn við með eitt leiftur á 10 sekúndum. Má segja að það hafi verið skemmtilegt einkennismerki hennar. Gatan var lögð yfir falleg, gróin tún, sem nytjuð voru alveg framundir að hún var rudd.

Eflaust muna mörg okkar eftir því að harðbannað var að ganga yfir túnin á vorin og fram yfir slátt. Ef stytta átti sér leið yfir þau á fyrrnefndum tíma var alveg eins víst að kallað var úr einhverju húsanna í nágrenninu og hóað frá. Símon Egilsson í Miðey var á árum áður vel vakandi yfir grassprettunni. Einhverju sinni, þegar hann leit út um austurglugga á húsi sínu, sá hann hóp fólks koma austan að, vestur yfir túnin. Það var að stytta sér leið. Sagt er að þá hafi honum orðið að orði. „Kominn er hann enn Kirkjubæjarskríllinn.” Allir Vestmannaeyingar þekkja síðan þetta orðatiltæki sem enn lifir góðu lífi. Á öðrum timum var mikið leikið sér á túnunum án athugasemda. Eigendur þessara túna voru Nikolína Halldórsdóttir og Jóhann Scheving á Vilborgarstöðum, Guðný Magnúsdóttir og Högni Sigurðsson í Vatnsdal, Elínborg Gísladóttir og Þorsteinn Jónsson í Laufási, Bjarngerður Ólafsdóttir og Guðjón Jónsson á Heiði og Björn Bjarnason og Ingibjörg Ólafsdóttir í Bólstaðarhlíð.

Upphaf að gerð þessarar götu var að Friðrik Ágúst Hjörleifsson í Skálholti langaði að byggja sér og fjölskyldu sinni íbúðarhús í túninu fyrir sunnan æskuheimili hans, Skálholt, sem stóð sunnan við Landagötuna. Um áramótin 1954 og 1955 gekk hann á fund Guðlaugs Gíslasonar bæjarstjóra og óskaði eftir leyfi til þess. Bæjarstjórinn sagði að það skyldi hann fá ef hann útvegaði 2 aðra með sér til að byggja þarna. Friðrik fékk þá Ágúst Ólafsson í Gíslholti og Gísla Grímsson á Haukabergi í lið með sér, og voru þeir tilbúnir í slaginn.

Segja má að fljótt hafi gengið að skipuleggja svæðið og teikna fyrstu húsin. Í apríl 1955 ruddi jarðýta fyrir Grænuhlíðinni í fyrstu austur að Laufástúninu. Jarðvegurinn var mold og ofan á hana var sett rauðamöl. Á vordögum 1955 byrjuðu þau fyrstu að byggja. Í upphafi þurfti að gera lóðarleigusamninga við ríkið. Það var á meðan Eyjarnar voru í eigu þess. En eftir að Vestmannaeyjakaupstaður eignaðist svo til allar eyjarnar með lögum frá Alþingi 1960, voru þeir gerðir við Vestmannaeyjakaupstað. Bærinn keypti þær fyrir eina miljón króna. Fyrsti samningurinn sem var gerður við Vestmannaeyjakaupstað eftir að fyrrnefnd lög höfðu tekið gildi var samningurinn vegna Grænuhlíðar 18. Fjögur hús, nr. 6, 12, 16 og 19, voru seld einu sinni á byggingartíma þeirra. Og eitt, nr. 9, var tvisvar selt eftir að flutt var í það.

Þegar gaus og íbúarnir þurftu að yfirgefa heimili sín voru þeir 107, 19 börn höfðu fæðst meðan foreldrarnir áttu heima í Grænuhlíðinni og tveir íbúar hennar dóu meðan hún var til. Jórunn Sigurðardóttir á nr. 18, 8. júlí 1965, 84 ára, og Sigurgeir Halldór Adólfsson á nr. 25 úr hvítblæði, aðeins tæplega 8 ára, 18. ágúst 1967. Hér verður sagt frá upphafi byggingar og íbúum hvers húss.

Hönnun Grænuhlíðar

Á þeim árum sem Grænahlíðin var byggð, þekktist það varla að verktakar tækju að sér byggingu íbúðarhúsa. Þegar teikningar voru tilbúnar, fengu væntanlegir húseigendur Óskar Kárason, byggingafulltrúa, til þess að mæla staðsetningu húsanna. Í framhaldi af því var grafinn sjötíu centimetra breiður og fimmtíu centimetra djúpur skurður fyrir sökklinum. Þetta gerðu húsbyggjendur sjálfir með vinum og vandamönnum. Til verksins voru notaðar handskóflur og hakar, því sums staðar var nokkur móklöpp. Annars var þetta að mestu mold. Næst á dagskrá var að fá smið til þess að slá upp fyrir sökklinum. Sjálfsagt hafa einhverjir gert það sjálfir. Í framhaldi af því þurfti að sækja möl og sand inn í Botn. Bílar voru pantaðir á Bílastöðinni og aftur leitað til vina og kunningja til þess að moka á þá. Efninu var svo keyrt að viðkomandi byggingu. Einnig þurfti að ná í sement og tómar olíutunnur undir vatn. Bílastöðin sá um að fylla þær. Þá var leigð steypuhrærivél sem gekk fyrir bensínmótor. Enn og aftur var hóað í vina– og vandamannaliðið, nú til að steypa. Steypustyrktarjárni var komið fyrir í sökklinum og líka grjóti sem hafði verið sótt í gömlu grjótgarðana vestur í hrauni. Venjulega var neðsta platan steypt síðar með sama vinnuferli og áður var lýst nema ekkert grjót var sótt í hana. Síðan voru smiðir fengnir til að slá upp fyrir kjallara og eða hæð og aftur hófst sama ferlið þegar kom að steypiríinu. Þetta var miklu meiri vinna en nú þegar hægt er að fá steypuna keypta, lagaða, heim að viðkomandi byggingu. Þegar slá mátti uppslættinum frá uppsteyptum veggjunum, hófst mikil vinna hjá eigendum viðkomandi bygginga. Naglhreinsa og skafa þurfti allt timbrið. Algengt var að hluti þess væri seldur næsta húsbyggjenda með einhverjum afslætti og hinn hluti þess notaður til þess að klæða sperrurnar áður en pappi og þakjárn kom þar yfir.

Misjafnt var hvað fólk gat unnið mikið sjálft við húsin. Þeir laghentu og þeir, sem höfðu yfir bíl að ráða stóðu nokkuð vel að vígi. En þeir sem ekki kunnu að reka nagla voru verr settir. Allir reyndu þó að vinna sem mest sjálfir. Sumir gátu pússað og smíðað að einhverju leyti, aðrir ekki. Þeir færustu pússuðu allt úti og inni og smíðuðu bráðabirgðainnréttingar og jafnvel glugga sjálfir. Töluvert var um vinnuskipti. Klár múrari múraði hjá klárum rafvirkja sem aftur lagði rafmagnið hjá hinum. Þarna var oft um svokallaða gervimenn í báðum tilvikum að ræða. Margs konar önnur vinnuskipti fóru fram. Flestir gátu málað annað en eldhús og böð. Svona gekk það til. Talsvert var um að húsbyggjendur hjálpuðu hverjir öðrum og seint á kvöldin í lok vinnu var oft rætt um gang mála og hvernig best væri að standa að framhaldinu. Gott var þá að leita ráða hjá þeim sem voru búnir að ganga í gegnum byggingarferilinn.

Margir fluttu inn áður en húsin voru fullgerð, í eldhús, tvö svefnherbergi, klósett og bað. Jafnvel vantaði öll efni á steypt gólfin en að sjálfsögðu voru þau máluð. Annað beið betri tíma þegar meira fjármagn hafði safnast til framkvæmdanna. Allt var þetta á misjöfnum stigum, frá því sem sagt hefur verið, að fullbúnum húsum þegar flutt var inn.

Lánamöguleikar voru litlir í samanburði við nútímann. Ekkert lán fékkst í upphafi. Þegar lokið var við að steypa neðstu plötu lánaði Sparisjóður Vestmannaeyja víxillán að upphæð þrjátíu til þrjátíu og fimm þúsund kr. lengst af þeim tíma sem verið var að byggja í Grænuhlíð. Svokölluð plötulán. Þegar húsin voru fokheld fór ríkið að lána og þá að hámarki sjötíu og fimm til hundrað þúsund kr. Þá þurfti að borga Sparisjóðslánið. Útvegsbankinn hérna lánaði ekki til húsbygginga á þessum árum. Úttekt fékkst hjá fyrirtækjum til skamms tíma eins og vertíðarloka. Á árunum sem Grænahlíðin var byggð, kostuðu fullbúin einbýlishús eins og þar voru fjögur hundruð - til sex hundruð þúsund kr. og er þá vinna eigendanna, ættingja og vina ekki talin með. Sumir fóru inn fyrir helming þessarar upphæðar, meðan húsin voru enn í byggingu. Unga fólkið, sem þarna byggði, þurfti að leggja mikið á sig við vinnu við húsin og úti á markaðinum til þess að afla fjár til framkvæmdanna. Góð og gjöful vetrarvertíð hjálpaði mörgum mikið, bæði sjómönnum og þeim sem í landi voru við verkun aflans. Þangað streymdu líka flestir þó þeir væru annars við önnur störf.

Iðnaðarmenn fóru á sjó og margir, t.d. skrifstofumenn, kennarar o.fl. fóru í fiskvinnu eftir að venjubundnum störfum lauk og þá langt fram eftir kvöldi og fram á nótt. Með þessu hafðist þetta. Lánaerfiðleikar fylgdu því ekki í kjölfar bygginganna. Nema þá helst að lán fengust ekki. Engin verðtrygging var til en verðbólga hjálpaði til að gera lánabyrðina enn léttari.

Ábyggilega minnast allir þessa tíma með ánægju. Það kom vel fram þegar íbúarnir hittust á götumóti árið 2002. Bæði tímans þegar verið var að byggja og líka tímans sem við áttum heima á þessum frábæra stað sem gatan okkar var. Þarna var gott að búa.

Hún var aldrei malbikuð og engin gangstétt var við hana meðan hún var til. En það gerði ekkert til, kostir hennar voru svo miklir.

Friðrik Ásmundsson tók þessa greinargerð saman fyrir áðurnefnt götumót sem haldið var í ágúst 2002.

Gatnamót

ATH: Skáletraðar götur fóru undir hraun



Heimildir