Ólafur Sigurðsson (Skuld)
Sjá aðgreiningarsíðuna fyrir aðra sem hafa borið nafnið „Ólafur Sigurðsson“
Ólafur Sigurðsson fæddist 14. október 1915 í Skuld í Vestmannaeyjum og lést 16. mars 1969. Var hann alla ævi kenndur við fæðingarstað sinn, Óli í Skuld. Foreldrar hans voru Sigurður Oddsson og Ingunn Jónasdóttir í Skuld.
Ólafur var kvæntur Ástu Bjartmars og eignuðust þau 3 börn.
Ólafur hóf formennsku þegar hann var 19 ára gamall á Skallagrím. Seinna var hann meðal annars stýrimaður á Helga og formaður með Freyju, og Ófeig II. Skömmu eftir stríðið gerðist hann meðeigandi og skipsstjóri Ófeigs 30 tonna báts. Sú útgerð gekk vel, enda fiskaði Ólafur vel. Árið 1955 keyptu Ófeigsmenn nýjan stálbát frá Hollandi Ófeig III. VE 325, og var hann með fyrstu stálbátum sem komu til landsins. Aflaði Ólafur afburðavel á þennan bát. Árið 1959 keypti Ófeigsútgerðin 100 tonna stálbát frá Austur-Þýskalandi.
Ólafur var aflakóngur Vestmannaeyja árið 1964.
Óskar Kárason samdi formannavísu um Ólaf:
- Aflann greitt í fleyið fær
- frískur Skuldar-Óli.
- Þéttan Ófeig rekkur rær
- rok þótt stífan gjóli.
Óskar samdi seinna aðra vísu um hann:
- Ófeigi ósjó-deigur
- Ólafur Skuldar rólar
- iðinn á sílungs sviðin.
- Sóma með aflann gómar,
- öldur þó græðis gnöldri
- grimmar í hríðar dimmu.
- Fyrst gerði fyrður vista
- fley stáls nýtt hér í Eyjum.
Heimildir
- Óskar Kárason. Formannavísur. Vestmannaeyjum, 1950.
- Óskar Kárason. Formannavísur II. Vestmannaeyjum, 1956.
- Þórarinn Ingi Ólafsson. http://www.eyjar.is/ingiol/
Frekari umfjöllun
Ólafur Sigurðsson frá Skuld við Vestmannabraut 40, skipstjóri, útgerðarmaður fæddist 14. október 1915 og lést 16. mars 1969.
Foreldrar hans voru Sigurður Pétur Oddsson útgerðarmaður í Skuld og k.h. Ingunn Jónasdóttir húsfreyja.
Foreldrar Sigurðar voru Oddur bóndi á Rauðafelli u. Eyjafjöllum, Krossi í Landeyjum og Heiði á Rangárvöllum, f. 7. sept. 1842 á Hrútafelli u. Eyjafjöllum, d. 16. nóv. 1922 á Heiði, Péturs bóndi á Hrútafelli Oddssonar og konu Péturs, Valgerðar húsfreyju, f. 7. jan. 1809, d. 29. apríl 1876, Hróbjarts bónda í Berjanesi u. Eyjafjöllum, f. 1769, d. 27. júní 1824, Björnssonar.
Móðir Sigurðar Péturs og f.k. Odds var Sigríður húsfreyja á Heiði á Rangárvöllum, f. 5. júlí 1840, d. 27. febr. 1885, Árna bónda í Skálakoti, f. 9. ágúst 1798, d. 5. ágúst 1864, Sveinssonar og konu Árna bónda, Guðfinnu húsfreyju, f. 3. okt. 1806, d. 8. maí 1882, Sveins bónda á Ytri-Sólheimum í Mýrdal, f. 1761, d. 17. okt. 1845, Alexanderssonar.
Foreldrar Ingunnar í Skuld voru Jónas bóndi á Helluvaði á Rangárvöllum, f. 20. sept. 1862 í Eystrihól, d. 15. júní 1924, Ingvars bónda á Valstrýtu í Fljótshlíð, Ártúnum og síðar á Eystrihóli í Landeyjum, formanns við Landeyjasand, f. 28. ágúst 1824 á Galtalæk á Landi, d. 12. apríl 1875, drukknaði í lendingu á Skúmsstaðafjöru, Runólfssonar og konu Ingvars, Kristínar húsfreyju, f. 8. júlí 1822, d. 22. des. 1914, Sigurðar bónda í Ártúnum, f. 1791, d. 28. maí 1866 í Ártúnum, Þorsteinssonar.
Móðir Ingunnar og kona (6. jan. 1882) Jónasar var Elín húsfreyja, f. 10. nóvember 1856, d. 12. apríl 1911, Jóns bónda á Oddsstöðum í Eyjum, f. 1808, d. 6. júní 1866, Þorgeirssonar og konu Jóns, Margrétar húsfreyju, f. 16. janúar 1832, d. 15. febrúar 1919, Halldórs bónda í Steinum u. Eyjafjöllum, Eiríkssonar.
Börn Ingunnar og Sigurðar:
1. Jónas Sigurðsson, f. 29. marz 1907, d. 4. janúar 1980, skipstjóri, húsvörður Gagnfræðaskólans, kvæntur Guðrúnu Ingvarsdóttur.
2. Þórunn Lovísa Sigurðardóttir húsfreyja, f. 30. ágúst 1908, d. 18. júlí 1979 gift Guðna Grímssyni, útgerðarmanni og skipatjóra
3. Oddur Sigurðsson, f 25. maí 1911, d. 19. nóvember 1979, skipstjóri, kvæntur Magneu Lovísu Magnúsdóttur.
4. Elínborg Sigurðardóttir húsfreyja, f. 25. ágúst 1913, d. 5. nóvember 1993, gift Guðmundi Geir
Ólafssyni, verzlunarmanni, búsett á Selfossi.
5. Ólafur Sigurðsson, f. 14. okt. 1915, d. 16. mars 1969, skipstjóri, útgerðarmaður, kvæntur Ástu Kristjánsdóttur Bjartmars, búsett í Vestmannaeyjum.
6. Sigurbjörg Sigurðardóttir húsfreyja í Reykjavík, f. 2 febr. 1917, d. 4. apríl 1992. Fyrri maður Skafti Þórarinsson. Seinni maður Guðmundur Gíslason.
7. Jónheiður Árný Sigurðardóttir húsfreyja í Reykjavík, f. 16. jan. 1919, d. 8. nóvember 1986, gift Jóni Sigurðssyni, verzlunarmanni.
8. Stefanía Sigurðardóttir húsfreyja á Akranesi og í Reykjavík, verslunarmaður, aðstoðarmaður tannlæknis, f. 2. júní 1921, d. 18. júlí 2004, gift Guðna Kristjánssyni, bakarameistara.
9. Jóhanna Júlía Sigurðardóttir húsfreyja í Reykjavík, f. 4 marz 1923, gift Guðmundi Jónssyni, bakarameistara.
10. Sigríður Inga Sigurðardóttir húsfreyja, hótelrekandi í Eyjum, f. 14. apríl 1925, gift Ingólfi Theódórssyni netagerðarmeistara og útgerðarmanni í Eyjum.
11. Jónas Ragnar Sigurðsson, prentari, f. 24. febr. 1928, d. 20. nóvember 2002. Fyrrum sambúðarkona hans Audrey Kathleen Magnússon.
Ólafur var með foreldrum sínum í æsku.
Hann lauk hinu meira fiskimannaprófi í Stýrimannaskólanum í Reykjavík 1941.
Ólafur varð sjómaður 15 ára. Hann varð formaður um tvítugt og síðan fiskilóðs á færeyskum skútum. Hann var skipverji á Helga og Sæfellinu á stríðsárunum og sigldi á England með fisk. Eftir stríð varð hann meðeigandi að Ófeigi eldri.
Árið 1955 keypti Ólafur og sameignarmenn hans nýjan stálbát, Ófeig III VE 325 frá Hollandi. Hann var einn fyrsti stálfiskibátur Íslendinga og árið 1959 keypti Ófeigsútgerðin 100 tonna stálbát frá Austur-Þýzkalandi, Ófeig II.
Ólafur var aflakóngur 1964 og eitt sinn landaði hann 94 tonnum af stórþorski úr einum róðri.
Ólafur átti beinan þátt í björgun þriggja skipshafna.
Hann var virkur félagi í skipstjóra- og stýrimannafélaginu Verðandi og sat um skeið í stjórn þess, var prófdómari við Stýrimannaskólann í Eyjum.
Ólafur hætti sjómennsku 1965.
Síðar var Ólafur brautryðjandi í harðfiskverkun og gerði tilraunir með gervibeitu.
Þau Ásta giftu sig 1941, eignuðust þrjú börn. Þau bjuggu á Heimagötu 22 og síðar á Kirkjubæjarbraut 3.
Ólafur lést 1969 og Ásta 2010.
I. Kona Ólafs, (10. maí 1941), var Ásta Bjartmars frá Stykkishólmi, húsfreyja, starfsmaður á matstofu Ísfélags Vestmannaeyja, á Hótel Berg og lengst í Prentsmiðjunni Eyrúnu ehf. á árunum 1970 til 1994.
Börn þeirra:
1. Ingibjörg Ólafsdóttir húsfreyja, verslunarmaður, f. 22. október 1940. Maður hennar Sigurður Þór Ögmundsson.
2. Kristján Gunnar Ólafsson bifvélavirkjameistari, framkvæmdastjóri, löggiltur bílasali, f. 22. ágúst 1945 á Heimagötu 22. Kona hans Magnúsína Ágústsdóttir.
3. Edda Guðríður Ólafsdóttir húsfreyja, skrifstofustjóri, f. 14. mars 1954 að Kirkjubæjarbraut 3. Maður hennar Ágúst V. Einarsson.
Myndir
Heimildir
- Samantekt: Víglundur Þór Þorsteinsson.
- Íslendingabók.
- Manntöl.
- Prestþjónustubækur.
- Sjómannadagsblað Vestmannaeyja.
Þessi grein tilheyrir Æviskrám Eyjafólks eftir Víglund Þór Þorsteinsson.