„Saga Vestmannaeyja I./ IV. Vestmannaeyjaprestar, 2. hluti“: Munur á milli breytinga
(Ný síða: <big><center>'''Prestar til Ofanleitis'''</center> <br> ''Halldór Tómasson'' prestur á Ofanleiti. Um prest þennan er lítt kunnugt, en hann mun hafa verið...) |
m (Verndaði „Saga Vestmannaeyja I./ IV. Vestmannaeyjaprestar, 2. hluti“ [edit=sysop:move=sysop]) |
(Enginn munur)
|
Útgáfa síðunnar 1. ágúst 2011 kl. 19:47
Halldór Tómasson prestur á Ofanleiti. Um prest þennan er lítt kunnugt, en hann mun hafa verið prestur á Ofanleiti um miðja 16. öld. Dóttir hans var Guðrún Halldórsdóttir, er var móðir séra Gísla Þorvarðarsonar á Ofanleiti. Tveir prestar, hvor eftir annan, höfðu verið á Ofanleiti eftir séra Halldór og þangað til séra Ólafur Egilsson kom. Halldórs Tómassonar prests getur 15. sept. 1555, þá selur hann Páli bónda Vigfússyni 30 hndr. í Felli í Hornafirði.
Bergur Einarsson fyrir 1563—1593. Séra Bergur var sonur séra Magnúsar Jónssonar á Öndverðarnesi, er var hálfbróðir Marteins biskups Einarssonar. Séra Bergur var prestur á Ofanleiti, er hin fyrsta Landakirkja var byggð. 1572 ritar hann Símoni Surbech umboðsmanni og sendi eina lest fiskjar, og bað um timbur fyrir andvirðið, 25 rd., til Ofanleitiskirkju. En þetta hefir verið látið ganga sem tillag til hinnar nýju Landakirkju, er byggð var 1573. Séra Bergur er enn prestur á Ofanleiti 1592, en er dáinn í fardögum 1593, og situr ekkja hans á Ofanleiti það ár og til 1594.
Bergur prestur hefir verið mikilhæfur maður og öruggur talsmaður eyjabúa í baráttu þeirra gegn hinni vaxandi verzlunaráþján undir lok 16. aldarinnar. Nafn hans er fyrst undir hinni harðorðu kæru frá 1583 til höfuðsmanns.
15. júlí 1587 vitnar séra Bergur og séra Jón Jónsson í Kirkjubæ ásamt fjórum mönnum öðrum móti Christoffer Jörgensen fógeta. Séra Bergs getur 9. júní 1591 sem dómara af hálfu andlegrar stéttar í hórdómsmáli, er dæmt var af sýslumanni líklega á Vilborgarstaðaþingi 10. júní s.á.
Magnús Svartsson. Hann var aðstoðarprestur séra Bergs Magnússonar 1592.
Ólafur Egilsson. Hann er með vissu kominn að Ofanleiti 1595 eða jafnvel 1594, sbr. umboðsskilagreinar Vestmannaeyja. Áður hefir verið talið, að hann hafi fyrst komið til eyja 1606, sem eigi er rétt. Egill faðir séra Ólafs var bóndi á Snorrastöðum í Laugardal Einarsson prests og prófasts í Görðum á Álftanesi. Séra Ólafur var eins og áður segir föðurbróðir Kláusar Eyjó1fssonar og séra Jóns í Kirkjubæ Jónssonar.
Séra Ólafur og kona hans Ásta Þorsteinsdóttir voru tekin ásamt öðru heimilisfólki þeirra heima á staðnum á Ofanleiti í Tyrkjaráninu 1627 og færð þaðan sem fangar til Dönsku húsa og síðan á skip og flutt til Algiers. Ferðasaga séra Ólafs, er hann samdi um ferð sína frá Vestmannaeyjum til Algiers og þaðan til Kaupmannahafnar og heim til eyja aftur árið 1628, hið fróðlegasta og merkilegasta rit, var prentuð á dönsku í Kaupmannahöfn 1771 og aftur árið 1800. Hún var og prentuð í Reykjavík 1852 og síðar.
Ofanleiti þjónaði séra Gísli Þorvarðarson, tengdasonur séra Ólafs Egilssonar, kvaddur til þess af stjórninni, meðan séra Ólafur var í herleiðingunni, og lengur. Séra Ólafur tók aftur við prestakallinu 1634, er séra Gísla var vikið frá embætti. Þjónaði séra Ólafur síðan Ofanleiti til dauðadags, 1. marz 1639, og var jarðaður í Landakirkjugarði, er þar legsteinn hans með áletrun. Ásta Þorsteinsdóttir, er var seinni kona séra Ólafs, kom eigi heim úr herleiðingunni fyrr en árið 1637 eða tveim árum áður en maður hennar andaðist. Synir þeirra hjóna tveir hafa ílenzt í Algier eða Tunis. Dóttir þeirra prestshjónanna, sem hefir verið farin héðan úr eyjunum, er Tyrkjaránið varð, var Helga, er giftist Finni bónda Guðmundssyni á Snjallsteinshöfða. Meðal dætra þeirra hjóna Finns og Helgu var Ingibjörg, er giftist séra Daða Halldórssyni frá Hruna. Ásta Þorsteinsdóttir lifði mann sinn séra Ólaf í 30 ár og mun hún hafa dáið hjá fólki sínu að Snjallsteinshöfða. Í heimagrafreit þar að Snjallsteinshöfða var legsteinn yfir frú Ástu Þorsteinsdóttur með á höggnu letri. Ásta var systurdóttir séra Jóns Þorsteinssonar píslarvotts.
Sigríði (líklega réttara Þorgerði) konu séra Gísla Þorvarðarsonar (eða Þorgerður hefir verið seinni kona hans) hefir séra Ólafur átt með fyrri konu sinni. Til eru vitnisburðir prestskonunnar á Ofanleiti frá árinu 1661 um afnot Ofanleitis af Bjarnarey, er deilt var um eftir lát séra Gísla.
Gísli Þorvarðarson 1628—1634 og 1639—1660. Séra Gísli mun hafa verið fæddur í Vestmannaeyjum og var móðir hans Guðrún Halldórsdóttir prests á Ofanleiti Tómassonar. Um Þorvarð föður hans er eigi kunnugt. En hann gæti verið sá Þorvarður Sæmundsson í Vestmannaeyjum, sem 23. apríl 1608 er tilnefndur einn af eiðsmönnum Eiríks Jónssonar í máli Orms Ófeigssonar. Séra Gísli hafði verið prestur í Keldnaþingum og síðar í Biskupstungum, unz hann var af biskupi skipaður til að þjóna Ofanleiti eftir Tyrkjaránið.
Þröngt hefir verið í búi hjá þeim prestshjónunum á Ofanleiti, séra Gísla og konu hans, eftir Tyrkjaránið. Útvegur var mjög lítill fyrstu árin og fisktíundir því rýrar og tveir prestar í brauðinu. Í biskupsbréfi frá 1633 er talað um slæma afkomu prestshjónanna á Ofanleiti og að þau eyði fram yfir efni.
Séra Gísla var vikið frá prestsembætti 1636 fyrir að fella niður blessunarorðin við útdeilingu sakramentis í Landakirkju á hvítasunnudag 1634. Höfðu sóknarmenn hans kært hann fyrir þetta. Hann var síðar náðaður af höfuðsmanni Pros-Mundt á Alþingi 1. júlí 1636. Hafði biskup mælt þar með. Sóknarmenn séra Gísla höfðu og gefið honum góðan vitnisburð.
Séra Gísli hefir verið áfram í Vestmannaeyjum eftir að hann missti brauðið, er tengdafaðir hans nú tók við, og fékk séra Gísli að embætta við og við í eyjunum og lögðu prestarnir honum og eitthvað af tíundum. En mjög hefir séra Gísli alltaf verið fátækur. Ritaði biskup 29. maí 1538 nokkrum prestum um að láta eitthvað af hendi rakna til hans, sem væri fátækur og bjargarlaus maður. Séra Gísli tók aftur við Ofanleiti eftir lát séra Ólafs 1639. Hann deyði 1660 og mun þá hafa verið háaldraður. Þorgerður ekkja hans lifði hann. Í deilumálum, er upp komu eins og áður segir um það, hvort Bjarnarey hafi öll tilheyrt Ofanleiti eða Ofanleitistorfunni eða að hálfu leyti, var leitað þingsvitna. Tjáði Þorgerður Ólafsdóttir 1661, þá um sjötugt, að Guðrún Halldórsdóttir tengdamóðir hennar hefði sagt í sinni áheyrn, að öll Bjarnarey hafi tilheyrt Ofanleiti þau 79 ár, er hún vissi til.
Pétur Gissurarson 1658 eða 1660—1689. Séra Gissur var af norðlenzkum ættum og af nafnkunnri prestaætt. Faðir hans var Gissur Gamalíelsson prestur að Staðarbakka í Miðfirði og móðir Guðrún Jónsdóttir Jónssonar Hallvarðssonar á Auðunnarstöðum í Víðidal, systir Arngríms lærða Vídalíns. Sumir telja Emerentíönu Jónsdóttur móður séra Péturs. Þeir séra Pétur og Hallgrímur Pétursson sálmaskáld voru frændur að þriðja og fjórða og í frændsemi við Guðbrand biskup Þorláksson var séra Pétur að öðrum og þriðja. Bræður séra Péturs voru þrír prestar norðanlands, bróðursonur hans var Þorlákur Þorkelsson, er prestur varð í Danmörku og fyrstur Íslendinga fékk þar prestsstöðu eftir siðabótina.
Eftir að séra Pétur hafði lært hér á landi, fór hann utan og var skrifaður í stúdentatölu við háskólann í Kaupmannahöfn 1636. Eftir að hann kom út aftur, var hann í þjónustu Brynjólfs biskups Sveinssonar í Skálholti og getur séra Péturs í vísitasíuferðum með biskupi.¹⁶) Hann varð heyrari í Skálholti 1643. Síðar aðstoðarprestur að Útskálum. Séra Pétur hefir komið til Vestmannaeyja 1652 í erindum biskups í sambandi við skoðun og mat á Kirkjubæjarprestssetri, sem þó eigi fór fram fyrr en árið eftir. Getur verið, að séra Pétur hafi þjónað Kirkjubæ þessi árin. Séra Pétur tók við Ofanleiti eftir séra Gísla og þjónaði brauðinu til 1689, að hann sleppti því í hendur syni sínum, séra Gissuri. Séra Pétur Gissurarson var talinn meðal heldri klerka landsins. Kona séra Péturs var Vilborg Kláusdóttir Eyjólfssonar lögsagnara. Voru synir þeirra séra Arngrímur í Kirkjubæ og séra Gissur á Ofanleiti, og Gísli, er myrtur var 1692. Dæturnar voru Emerentíana kona Ólafs sýslumanns Árnasonar í Vestmannaeyjum og Guðríður kona Magnúsar Ísleifssonar sjálfseignarbónda á Höfðabrekku í Mýrdal, og er talið, að séra Pétur hafi dáið hjá henni á Höfðabrekku í hárri elli. Allmargt niðja séra Péturs Gissurarsonar og konu hans Vilborgar Kláusdóttur er í Vestmannaeyjum.¹⁷)
Gissur Pétursson 1689—1713. Gissur var í Skálholtsskóla 1669—1670. Barst á skipi, er Gissur var fluttur á til lands um haustið, er það var á leið til eyja aftur. Eftir að séra Gissur var kominn úr skóla, eignaðist hann börn með tveim stúlkum, og mun það hafa verið á sama árinu. Sótti hann til konungs um uppreisn 1684, en fimm menn í eyjum gáfu honum góðan vitnisburð um hegðun. 1785 var hann prestvígður sem aðstoðarprestur til föður síns að Ofanleiti. Hefir hann áður en hann tók við Ofanleiti búið á Gjábakka. Hans Christensen umboðsmaður í Vestmannaeyjum kærði séra Gissur fyrir Alþingisprestastefnu 1695 og afsagði að hafa hann fyrir prest og skipaði, að annar prestur yrði settur að Ofanleiti, „friðsamur og skikkanlegur“ m.m. Var kæruefnið mest það, að séra Gissur hefði tekið til aflausnar og sakramentis „ærulausan fant“, Guttorm Halldórsson, er gert hafði eitthvað á hluta umboðsmanns og verið dæmdur fyrir það á héraðsþingi í Vestmannaeyjum. Svo er að sjá sem hinn presturinn í Vestmannaeyjum, séra Oddur Eyjólfsson í Kirkjubæ, hafi lagzt heldur á sveif með umboðsmanni, því að séra Oddur kærði og séra Gissur fyrir leynilega aflausn og sakramenti fyrir þennan sama mann, Guttorm Halldórsson, er séra Oddur kvað hafa verið í ósátt við sig. Kom þetta mál fyrir á prestastefnu á Breiðabólsstað 1. okt. 1694, og gert fremur lítið úr því, sem kærum umboðsmanns síðar, en samt ályktað, að betra hefði verið að séra Gissur hefði beðið með að taka dreng þennan til altaris, þar til séra Oddur var kominn aftur út í eyjar úr landferð. Mun prófasti hafa verið falið að sjá um að góðar sættir tækjust með þeim prestunum, er mun hafa orðið.¹⁸) 1702 stóðu þeir sameiginlega að umkvörtunum til yfirvalda um undandrátt á tíundum af trosfiski og áður, 1689, um ákvörðun um prestalaunin.
Séra Gissur hefir ritað sóknarlýsingu Vestmannaeyja, sem heitir „Ein lítil undervísan um Vestmannaeyja háttalag“, merkileg ritgerð. Séra Gissur var tvígiftur. Sonur hans af seinna hjónabandi var Natanael Gissurarson, er hafði barnakennslu í Vestmannaeyjum á hendi um 1760.¹⁹) Séra Gissur deyði á páskadag 1713, 13. apríl.
Gísli Bjarnason 1713—1734. Hann var fæddur á Grund í Skorradal 19. júní 1686. Útskrifaður úr Skálholtsskóla 1706. Var í þjónustu Jóns biskups Vídalíns; vígðist kirkjuprestur að Skálholti 1710. Fékk veitingu fyrir Ofanleiti 22. júní 1713, og fór til eyja þegar um sumarið, en tók ekki við brauðinu til fulls fyrr en í fardögum 1714, er liðið var náðarár ekkju séra Gissurar. Var séra Oddur í Kirkjubæ við úttekt staðarins, en ekki prófastur. Kærði séra Gísli það til biskups, er afsakaði prófast, því að hann hefði komið í Eyjasand og ætlað út í eyjar, og látið brenna þar vita til að láta sækja sig til að vera við úttektina á Ofanleiti 1714, en eigi verið sóttur. Séra Gísli þjónaði Ofanleitisprestakalli til fardaga 1734, er hann tók við Melum.
Illugi Jónsson 1734—1744. Hann var prestur í Efri-Holtaþingum 1716, 1719 að Mosfelli. Tók við Ofanleiti 1734. Fékk veitingu fyrir Ólafsvöllum 15. júlí 1745 og þjónaði þar fardagaárið 1745—46. Hefir hann farið út í eyjar aftur 1746 til að afhenda staðinn. Séra Illugi varð síðar prestur og prófastur í Hruna, deyði 1753. Eftir að hann var orðinn prestur í Vestmannaeyjum, lenti hann í einhverjum værum við sóknarfólk þar, og einkum við sjómenn af landi, er eigi vildu lesa fyrir honum fræðin. Birtu þeir við kirkjuna skjal nokkurt presti til niðrunar og mótþróa. Kærði séra Illugi yfir þessu til biskups og vildi fá einhverja leiðréttingu á, en biskup kvað þýðingarlaust að leggja þetta fyrir synodus, og hefir þetta svo fallið niður. Séra Illugi hafði krafizt þess, að fá í laun hálfar fiskatíundirnar af eyjunum, en fékk átölur miklar af biskupi fyrir að hafa eigi framfylgt þessu máli sínu við umboðsmann sem hinn rétta aðila. Kemur hér fram hið sama og áður, að biskupar landsins vísuðu frá sér málum um launakjör eyjapresta.
Grímur Bessason 1745—1748. Séra Grímur útskrifaðist úr Skálholtsskóla 1741. Varð fyrst djákni á Skriðuklaustri, vígðist 1745 til Ofanleitis, fékk Ásprestakall í Fellum 1748, síðan Eiða og seinna Hjaltastað í brauðaskiptum, en þjónaði jafnframt Eiðum til 1785. Séra Grímur var sonur Bessa bónda Árnasonar á Hrafnkelsstöðum. Hann hefir verið talinn meðal fremstu alþýðuskálda hér á landi.
Benedikt Jónsson 1748—1781. Hann var sonur séra Jóns Vigfússonar í Sólheimaþingum og af Dalverja- eða Höfðabrekkuætt, frá Eyjólfi lögmanni í Dal. Benedikt kom í Skálholtsskóla 1722 um haustið. Var útskrifaður 1726. Hann þótti óstýrilátur í skóla. Ritaði biskup um það afa hans séra Vigfúsi Ísleifssyni á Felli í Mýrdal, 17. apríl 1725. Vígðist aðstoðarprestur til séra Vigfúsar Ísleifssonar 1727. Fékk veitingu fyrir Sólheimaþingum 1731 og fyrir Ofanleiti 12. okt. 1747, en tók við Ofanleiti 28. júní 1748. Séra Benedikt missti prestskap í Sólheimum fyrir barneign með bústýru sinni. Séra Benedikt stóð að því með séra Guðmundi Högnasyni að stofnaður yrði barnaskóli í Vestmannaeyjum 1757 og gengu um það bréfaskipti milli Finns biskups og amtmanns.²⁰)
Séra Benedikt var tvígiftur og var séra Vigfús Benediktsson í Einholti sonur hans af fyrra hjónabandi, en með seinni konunni átti hann Hólmfríði, er Jón Eyjólfsson átti, móður séra Páls skálda og Theódórus, er sigldi og lærði prentverk. Hann var beykir í Vestmannaeyjum.
Séra Benedikt var lærdómsmaður og skáld gott. Séra Jón Steingrímsson segir í æfisögu sinni,²¹) að hann hafi viljað kenna sér „stjörnulist og landmælingarkonst“, og að hann hafi lært af séra Benedikt persiskan reiknimáta með 9 baunum á 9 strengjum. Gisti séra Jón eftir að hann var orðinn prestur í Mýrdal, er hann kom út í eyjar, á Ofanleiti hjá séra Benedikt og dvaldist þar stundum vikum saman í bezta yfirlæti, er tók fyrir landleiði. Þótti séra Jóni eins og hann kemst að orði „aldrei langar stundir hjá þeim góðu prestshjónum að vera.“ Séra Benedikt er talinn höfundur að lofkvæði til Friðriks konungs V. á minningarhátíðinni 1749, ásamt latneskri þýðingu.²²)
Séra Benedikt hefir verið gleðimaður. Mun oft hafa verið glatt á hjalla á Ofanleiti. Komu þangað allir heldri aðkomumenn og skiparar af kaupskipunum, er svo héldu presti og gestum hans veizlufagnað um borð hjá sér, sbr. æfisögu séra Jóns Steingrímssonar.
Séra Benedikt var, eins og embættisbróðir hans í Kirkjubæ, fátækur maður og átti eigi fyrir skuldum, þegar hann dó, enda voru prestalaunin, fiskatíundirnar, um þessar mundir oft sáralítil. Að stundum hafi þó blásið betur má ráða af bréfi biskups til stiftamtm. 11. nóv. 1791, þar sem segir, að séra Benedikt hafi lagt inn í kaupstað á einu ári fyrir 500 rd.
Séra Benedikt Jónsson andaðist á Ofanleiti 1781 rúmlega áttræður. Ekkja hans Þuríður Magnúsdóttir deyði hjá dótturdótturmanni sínum, Páli Guðmundssyni á Keldum, 1804, 81 árs.
Páll Magnússon 1781—1789. Hann var fæddur í Sigluvík í Útlandeyjum 1743, útskrifaður úr Skálholtsskóla 15. apríl 1767. Fékk veitingu fyrir Dvergasteinsprestakalli 1769, en tók ekki við því. Hann sendi amtmanni veitingarbréfið aftur með bréfi dags. í Kornhóls-Skanzi 7. apríl 1769.²³) Vígðist aðstoðarprestur að Stóradal sama vor, 1769. Var veitt Hvalsnes 1773, tók ekki við því, fékk Stóradal 1774. Var veitt Ofanleitisprestakall 1781 og þjónaði því til þess hann deyði. Hann varð bráðkvaddur, er hann kom frá messu sunnudaginn 24. maí 1789. Hann var talinn vel gáfaður og góður klerkur og hraustmenni mikið. Kona hans var Guðrún Hálfdánardóttir prests Gíslasonar í Eyvindarhólum. Börn þeirra voru: Séra Grímur Pálsson prófastur á Helgafelli,²⁴) Margrét miðkona séra Guðmundar Jónssonar að Staðastað og Ingibjörg, fædd að Ofanleiti 22. febr. 1788, kona séra Jóns Matthiesen síðast prests að Arnarbæli. Meðal niðja þeirra hjóna, séra Páls Magnússonar og konu hans Guðrúnar Hálfdánardóttur, eru: frú Jóhanna Eyþórsdóttir (d. 1944), kona Gunnars Ólafssonar kaupmanns og konsúls, frú Sigríður Eyþórsdóttir, kona Ólafs Arinbjarnarsonar verzlunarstjóra, Ásgeir E. Eyþórsson kaupmaður og frú Ingibjörg Theódórsdóttir Matthiesen, ekkja Jóns Hinrikssonar kaupfélagsstjóra og móðir Hinriks Jónssonar bæjarstjóra. Frú Þorbjörg Jensen, kona Thor Jensens stórkaupmanns í Reykjavík, og frú Steinunn Þórðarson eru og meðal niðja nefndra prestshjóna. Einnig séra Halldór Kolbeins og þau systkini.
Ari Guðlaugsson 1790—1809. Séra Ari var sonur séra Guðlaugs Þorgeirssonar prests að Görðum á Álftanesi. Séra Ari lauk embættisprófi í guðfræði við háskólann í Kaupmannahöfn 27. apríl 1769. Þjónaði hjá föður sínum fyrst sem aðstoðarprestur, fékk Stað í Grindavík 1774 og þjónaði þar, þar til hann fékk Selvogsþing, er hann þjónaði eitt fardagaár, 1789—1790. Hann fékk veitingu fyrir Ofanleiti 19. ágúst 1789 og þjónaði því til 1809. Séra Ari vildi komast frá Vestmannaeyjum, því að þar voru um þessar mundir mjög erfið ár, og séra Ari mjög fátækur maður, svo að hann taldi sig ekki einu sinni hafa haft útvegi til að bregða sér upp á land.²⁵) Sótti hann um Eyvindarhóla 1797, en fékk þá eigi. Taldi stiftprófastur, að séra Ari hafi hvergi betur komizt af en þar, sem hann nú væri. Séra Ari bað stiftamtmann um að sjá um það, að hann fengi framvegis lán hjá kaupmönnum í eyjunum, en stiftamtmaður vildi eigi skipta sér af þeim málum. Séra Ari kvartaði og undan því, að hann gæti nú ekki haldið reiðhest, en það mun hafa verið venja Ofanleitispresta margra að koma ríðandi niður í kaupstaðinn og jafnvel til kirkju.²⁶) Gerði séra Jón Austmann það síðastur klerka. — 6. maí 1807 sagði séra Ari af sér embætti gegn því, að sonur hans Jón Arason fengi Ofanleitisbrauð eftir hann, en þessu var eigi sinnt og hélt hann brauðinu til þess er hann deyði, 17. júlí 1809. Kona séra Ara var Kristín Grímsdóttir lögsagnara á Giljá Grímssonar. Hún deyði á Ofanleiti 19. nóv. 1807. Brúðkaup þeirra séra Ara og Kristínar stóð hjá föður hans í Görðum 30. júní 1774 og var þar veizla mikil. Voru í henni Thodal stiftamtmaður, Ólafur Stephensen amtmaður, Bjarni Pálsson landlæknir, Björn Jónsson lyfsali, sýslumenn úr næstu héruðum og kaupmenn. Börn þeirra voru Jón Arason prestur á Ofanleiti og Halldóra prestskona í Villingaholti.
Jón Arason 1809—1810. Jón Arason var fæddur á Stað í Grindavík um 1777. Hann var fermdur í Vestmannaeyjum 1790. Kom í Hólavallaskóla 1796 og útskrifaðist 31. maí 1801. Hann kvæntist 1802 Þorbjörgu Pétursdóttur frá Gjábakka. Séra Jón vígðist aðstoðarprestur til föður síns að Ofanleiti 2. júní 1805, en fékk veitingu fyrir brauðinu 13. okt. 1809. Í umsókn séra Jóns segir, að hann sé mjög vel liðinn af sóknarfólkinu. Hann andaðist af slagi 10. sept. 1810, hafði prédikað í Landakirkju daginn áður, 12. sunnudag eftir trinitatis. — Þau séra Ari og Þorbjörg kona hans áttu tvö börn, er bæði dóu ung. Þorbjörg varð seinna fyrri kona Benedikts Magnússonar prests að Mosfelli, föður Önnu Benediktsdóttur ljósmóður. Tilkynning um andlát séra Jóns var send til lands með flöskupósti, stokk.
Jón Högnason 1811—1825. Hann var fæddur að Ytri-Skógum undir Eyjafjöllum og var sonur Högna bónda Benediktssonar og konu hans Guðnýjar Jónsdóttur Ísleifssonar frá Selkoti. Stúdent 1786. Skipaður í djáknabrauð Breiðabólstaðar í Fljótshlíð, varð síðan aðstoðarprestur að Eyvindarhólum 1790, veittir Ólafsvellir 1797, fékk veitingu fyrir Útskálum 1810, en fór þangað eigi, og fyrir Ofanleiti 4. jan. 1811. Hann deyði á Ofanleiti 12. okt. 1825, 62 ára að aldri. Séra Jón var búsýslumaður mikill og vel efnaður. Hélt séra Jón fast fram við stjórnina réttindum kirkjunnar í Vestmannaeyjum og eyjapresta. Kona hans var Guðrún Hálfdánardóttir, ekkja séra Páls Magnússonar. Þau eignuðust tvö börn, er dóu ung. Börnum hennar af fyrra hjónabandi kom séra Jón vel til manns. Guðrún Hálfdánardóttir deyði á Ofanleiti tæpu ári á undan manni sínum. Gegndi hún lengi ljósmóðurstörfum. Legsteinn er yfir henni í Landakirkjugarði.
Snæbjörn Björnsson 1825—1827. Hann var sonur séra Björns Benediktssonar í Hítardal og Solveigar Ásgeirsdóttur prófasts Jónssonar á Stað í Steingrímsfirði. Séra Snæbjörn gegndi skrifarastörfum, eftir að hann útskrifaðist úr Bessastaðaskóla, hjá Sigurði Thorgrímssen landfógeta og hjá Ólafi Finsen. Fékk Ofanleiti 30. des. 1825, var þá stúdent, en vígðist 5. febr. 1826. Hann deyði á Ofanleiti 17. jan. 1827 eftir rúma árs prestsþjónustu. Kona hans var Ingibjörg Jakobsdóttir. Börn þeirra voru Jón sýslumaður í Borgarfjarðarsýslu, Snæbjörn kaupmaður í Reykjavík, drukknaði í utanför á kaupskipinu „Sölöven“ við Lónbjarg undir Snæfellsnesi 1857, Snæbjörn var fæddur á Ofanleiti 4. ágúst 1827, og Sigríður kona séra Þorvaldar Böðvarssonar í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Voru þau hjón foreldrar Snæbjarnar kaupmanns Þorvaldssonar í Reykjavík og Böðvars kaupmanns Þorvaldssonar á Akranesi. Ingibjörg Jakobsdóttir ekkja séra Snæbjarnar giftist seinna Jónasi Vestmann bónda og smið í Vesturhúsum í Vestmannaeyjum. Hann var formaður með teinæringinn „Þurfaling“, er fórst 5. marz 1834. Af Jónasi Vestmann hafði farið mikið orð fyrir dugnað og heppni í formennskustarfi og þótti hann hinn mesti myndarmaður.
Séra Snæbjörn hafði haft mikinn huga á að bæta æðarvarp í Vestmannaeyjum og leigði með kaupmanni æðarvarpið í eyjunum til nokkurra ára. Þessar tilraunir misheppnuðust.
Jón Jónsson Austmann 1827—1837. Séra Jón fékk Ofanleiti 1827 og þjónaði til 1837, er honum voru veittar Vestmannaeyjar allar (Vestmannaeyjaprestakall) eftir sameiningu prestakallanna beggja, sbr. reglug. 7. júní 1837.
Tilvísanir og umfjöllun neðanmáls í þessum kafla:
16) Vísitasíubækur Brynjólfs biskups Sveinssonar í Þjóðskj.s.
17) Sjá Sigf. M. Johnsen: Kláus Eyjólfsson, 300 ára minning, Rvík 1927.
18) Bréfabækur biskups.
19) Vísitasía Landakirkju 4. júlí 1761.
20) Sbr. bréf amtmanns til biskups 20. ágúst 1757.
21) Æfisaga, bls. 53-58.
22) Ísl. Bókmenntafél. 389, 4to.
23) Þjóðsjs. A. 66, 7.
24) Séra Grímur var fermdur í Landakirkju 1789, þá 14 ára.
25) Bréf til Geirs biskups Vídalíns 27. júní 1798.
26) Bréfaskr. 1807—1808.